Hæstiréttur íslands

Mál nr. 755/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 22

 

Þriðjudaginn 22. desember 2009.

Nr. 755/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Gísli M. Auðbergsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.      

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.    

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 16. janúar 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. 

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2009.  

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 16. janúar 2010 kl. 16.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að í gærkveldi kl. 21:48 hafi öryggisvörður á Landspítalanum í Fossvogi óskað eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar. Á þeirri stundu hafi verið leitað tveggja aðila sem stolið hafi kassa með skiptimynt af spítalanum. Vitni að verknaðinum hafi sagt menn þessa hafa hent kassanum út um glugga á 2. hæð og í kjölfarið hlaupið með hann á brott.

Lögreglu hafi borið að garði skömmu síðar og hitt fyrir A, öryggisvörð á Landspítalanum. Kvaðst A hafa fyrst verið á spítalanum og  heyrt tilkynningu í gegnum talstöðina að verið væri að stela kassa með skiptimynt af spítalanum. A kvaðst hafa kannað vegginn þar sem kassinn hafi verið staðsettur og hafa séð að hann hafi verið horfinn. A kvaðst hafa farið út og hitt  mann sem hafi sagst hafa séð tvo aðila henda kassa með skiptimynt út um gluggann á 2. hæð. Hafi hann síðan bent í þá átt sem mennirnir hafi farið með kassann. Kvaðst A hafa hlaupið í vesturátt að Sléttuvegi. Á milli Háaleitisbrautar og Álands sé lítið skóglendi, en þaðan kvaðst A hafa heyrt högg. Er hann hafi nálgaðist staðinn kvaðst A hafa séð tvo menn reyna að brjóta upp stálkassa utan um skiptimynt með hleðslusteinum. Kvaðst A hafa kallað til þeirra en þeir þá tekið á rás og hlupu í átt að Ríkisútvarpinu, Efstaleiti. A kvaðst hafa veitt þeim eftirför en hafa misst af þeim eftir skamma stund. hafi hann þó getað gefið lögreglu staðsetningu þar sem hann hafi síðast séð til mannanna. Í atganginum hafi þeir þó skilið kassann með skiptimyntinni eftir án þess að hafa tekist að opna hann.

Eftir stutta leit lögreglu í hverfinu hafi einn aðili fundist, grunaður um verknaðinn, á gatnamótum Bústaðavegar og Kringlumýrarbrautar. Hann hafi verið handtekinn. Skömmu síðar hafi borist tilkynning til lögreglu frá Ríkisútvarpinu um grunsamlegan mann í anddyrinu. Sá maður hafi verið handtekinn eftir stutta eftirför á hlaupum. Það muni vera kærði, X.

Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi  kærði játað að hafa stolið kassanum með skiptimyntinni.

Auk þessa máls sé kærði sterklega grunaður um eftirfarandi 14 auðgunarbrot framin á árinu 2009:

Mál 007-2009-77579

Fyrir nytjastuld, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 10. desember heimildarlaust tekið bifreiðina [...] þar sem hún stóð fyrir utan [...] í Kópavogi og ekið henni um götur borgarinnar. Við yfirheyrslu hefur kærði játað verknaðinn.

Mál 007-2009-74950

Fyrir rán, með því að hafa laugardaginn 28. nóvember, í verslun 10/11 í Engihjalla 8 í Kópavogi, ógnað starfsmanni verslunarinnar með hníf og krafist þess að fá afhenda fjármuni úr sjóðsvél verslunarinnar auk inneignarkorta fyrir farsíma. Við yfirheyrslu hefur kærði játað verknaðinn.

Mál 007-2009-70874

Fyrir nytjastuld, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 12. nóvember heimildarlaust tekið bifreiðina [...] þar sem hún stóð fyrir utan [...] í Hafnarfirði og ekið henni um götur borgarinnar. Við yfirheyrslu hefur kærði játað verknaðinn.

Mál 007-2009-70765

Fyrir nytjastuld, með því að hafa miðvikudaginn 11. nóvember heimildarlaust tekið bifreiðina [...] þar sem hún stóð fyrir utan [...] í Reykjavík og ekið henni um götur borgarinnar. Ekki hefur verið tekin skýrsla af kærða vegna málsins.

Mál 007-2009-70616

Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 11. nóvember brotist inn í íbúð að [...], með því að bifa laust stormjárn á glugga í vinnuherbergi, og stolið þaðan fartölvu af gerðinni Toshiba, borðtölvu af gerðinni Macintosh, tveimur ljósmyndalinsum og ljósmyndavél af gerðinni Canon. Við yfirheyrslu hefur kærði játað verknaðinn.

Mál 007-2009-70308

Fyrir þjófnað, með því að hafa á tímabilinu 9.-11. nóvember brotist inn í forvarnar- og fræðslusetur Hafnarfjarðarbæjar, Gamla Bókasafnið, Mjósundi 10 í Hafnarfirði, með því að brjóta rúðu og stormjárn á opnanlegu fagi á vesturhlið hússins, og stolið þaðan 42 tommu flatskjá af gerðinni Toshiba. Við yfirheyrslu hefur kærði játað verknaðinn.

Mál 007-2009-69853

Fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 7. nóvember brotist inn í bílskúr sem stendur við einbýlishús að [...] í Reykjavík, með því að brjóta upp læsingu, og stolið þaðan gítarmagnara. Við yfirheyrslu hefur kærði játað verknaðinn.

Mál 007-2009-66560

Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 25. október brotist inn í forvarnar- og fræðslusetur Hafnarfjarðarbæjar, Gamla Bókasafnið, Mjósundi 10 í Hafnarfirði, með því að brjóta stormjárn á tveimur gluggum, og stolið þaðan tveimur 20 tommu tölvuskjám af gerðinni Samsung og borðtölvu af gerðinni IBM. Við yfirheyrslu hefur kærði játað verknaðinn.

Mál 007-2009-66030

Fyrir nytjastuld og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, með því að hafa fimmtudaginn 22. október heimildarlaust tekið bifreiðina [...] þar sem hún stóð fyrir utan meðferðarheimilið Vog í Reykjavík og ekið henni um götur borgarinnar uns kærði var stöðvaður í akstri þann 24. október, ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Við yfirheyrslu hefur kærði játað verknaðinn.

Mál 007-2009-60060

Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 30. september, í félagi við stúlku, á Hótel Hafnarfirði að Reykjavíkurvegi 72 í Hafnarfirði, stolið fartölvu af gerðinni Acer, farsíma af gerðinni Nokia, þremur áfengisflöskum og um 10.000 krónum í reiðufé. Við yfirheyrslu hefur kærði játað verknaðinn.

Mál 007-2009-55828

Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 11. september, í bílageymslu við [...] í Reykjavík, farið inn í bifreiðina [...] og stolið þaðan fjarstýringu að bílageymslunni. Við yfirheyrslu hefur kærði borið við minnisleysi. Vitni eru að þjófnaðinum.

Mál 007-2009-55823

Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 11. september brotist inn í afgreiðslu bensínstöðvar N1 við Skógarsel 10 í Reykjavík, með því að kasta hellu í rúðu, og stolið þaðan 80 sígarettupökkum, samtals að verðmæti 67.200 krónur. Við yfirheyrslu hefur kærði játað verknaðinn.

Mál 007-2009-55247

Fyrir rán, með því að hafa þriðjudaginn 8. september, í verslun 11/11 við Laugaveg 116 í Reykjavík, ógnað starfsmanni verslunarinnar með munnlegum hótunum og krafist þess að fá afhenda fjármuni úr sjóðsvél verslunarinnar og haft á brott með sér um 95.000 krónur. Við yfirheyrslu hefur kærði játað verknaðinn.

Mál 007-2009-17159

Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 22. mars, í forvarnar- og fræðslusetri Hafnarfjarðarbæjar, Gamla Bókasafninu, Mjósundi 10 í Hafnarfirði, stolið þaðan leikjatölvu af gerðinni XBOX 360 að verðmæti um 60.000 krónur. Við yfirheyrslu hefur kærði játað verknaðinn.

Brotaferill kærða hafi verið samfelldur frá byrjun september og fram til dagsins í gær, er kærði hafi verið handtekinn.  Við rannsókn mála kærða hafi komið í ljós að hann sé í mikilli neyslu vímuefna.  Við yfirheyrslu yfir kærða hafi hann skýrt frá því að hann hafi ekki fasta búsetu, væri atvinnulaus en fengi fjárhagsaðstoð frá félagsmálayfirvöldum.  Það virðist því vera að ákærði framfleyti sér með afbrotum. Hann hafi játað svo til öll brot sín.

Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.

Hér að framan hefur verið rakin greinargerð lögreglustjóra og eins og þar kemur fram hefur kærði brotið af sér margoft frá því í byrjun september sl. Hann er m.a. grunaður um 2 rán. Miðað við framangreindan feril er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði c. liðar 95. gr. laga nr. 88/2008 og verður því orðið við kröfunni eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 16. janúar 2010 kl. 16.