Hæstiréttur íslands
Mál nr. 634/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. september 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 5. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. september 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að nauðungarsala á bifreið hans með skráningarnúmerið UT 250, sem fram fór 25. mars 2017, verði felld úr gildi. Kæruheimild er 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að fyrrgreind nauðungarsala verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Lýsing hf. kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 2. október 2017. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, úrskurðarorð héraðsdóms um málskostnað verði staðfest og kærumálskostnaðar. Til vara krefst varnaraðili staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Björgvin Björgvinsson hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Ómerkingarkrafa sóknaraðila er reist á því að í hinum kærða úrskurði hafi ekki verið leyst úr málsástæðum sóknaraðila er lúta að bráðabirgðaákvæði XV. í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, brotum gegn lögmætisreglu og eignarskerðingu vegna ófullnægjandi leiðréttingar á gengistryggðri kröfu. Fari þessi málsmeðferð í bága við f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði varnaraðilinn Lýsing hf. mál á hendur sóknaraðila til heimtu eftirstöðva skuldar sóknaraðila við varnaraðila samkvæmt kaupleigusamningi 31. mars 2008 um bifreið, þar sem varnaraðili var leigusali og sóknaraðili leigutaki. Við þingfestingu málsins 8. desember 2015 var ekki mætt af hálfu sóknaraðila og stefna árituð sama dag um aðfararhæfi krafna varnaraðilans samkvæmt 1. mgr. 113. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem sóknaraðili byggir ómerkingarkröfu sína á málsástæðum, sem hann hefði getað haft uppi við meðferð fyrrgreinds máls, verður henni hafnað.
Fallist er á með héraðsdómi að sóknaraðila sé heimilt samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 að leita úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu þeirrar, er hér um ræðir. Þá leiða þær málsástæður, sem varnaraðilinn Lýsing hf. teflir fram til stuðnings frávísun málsins, verði á þær fallist, ekki til frávísunar þess, heldur að kröfu sóknaraðila verður hafnað.
II
Eftir 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 er heimilt að bera undir héraðsdóm öll atriði um gildi nauðungarsölu varðandi heimild eða kröfu gerðarbeiðanda, undirbúning nauðungarsölu eða sjálfa framkvæmd hennar.
Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra, sem koma að lögum í þeirra stað, um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til og hefur áritun dómara á stefnu sama gildi og dómur, sbr. 2. mgr. 113. gr. sömu laga. Með framangreindri áritun á stefnu var kveðinn upp bindandi dómur um aðfararhæfi krafna þeirra er lágu til grundvallar eftirfarandi fjárnámi og síðan nauðungarsölu. Þegar af þeirri ástæðu og með því að hvorki undirbúningi nauðungarsölunnar né framkvæmd hennar var áfátt verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Eftir úrslitum málsins verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ásgrímur Pálsson, greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. september 2017
Með beiðni sóknaraðila, Ásgríms Pálssonar, Skagabraut 22, Garði, dags. 13. apríl 2017, sem móttekin var 21. apríl s.á., var leitað úrlausnar dómsins á gildi nauðungarsölu sem fór fram hjá sýslumanninum á Suðurnesjum 25. mars 2017 á Peugeot Partner bifreið með skráningarnúmerið UT-250, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Varnaraðilar eru Lýsing hf., Ármúla 1, Reykjavík, og Björgvin Björgvinsson, Garðsstöðum 51, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að ógilt verði nauðungarsala sem fram fór 25. mars 2017 hjá embætti sýslumannsins á Suðurnesjum, á bifreið með skráningarnúmerinu UT-250. Þá gerir sóknaraðili kröfu um málskostnað.
Varnaraðili Lýsing hf. krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila og að honum verði gert að greiða sérstakt álag á málskostnað. Þá er þess jafnframt krafist að Snorri Snorrason hdl. verði sameiginlega dæmdur með sóknaraðila til að greiða varnaraðila málskostnað, þ.m.t. álag.
Varnaraðili Björgvin Björgvinsson hefur ekki uppi kröfur í málinu og hefur ekki látið málið til sín taka.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 4. september 2017 að loknum munnlegum málflutningi.
I.
Málsatvik eru þau að hinn 31. mars 2008 gerði sóknaraðili kaupleigusamning við varnaraðila um bifreið. Í samningnum kemur fram að hið leigða hafi verið bifreið af tegundinni Toyota Avensis, með skráningarnúmerið VD-802. Óumdeilt er að samningurinn var gengistryggður og var hann endurútreiknaður 29. október 2010. Samkvæmt endurútreikningnum námu eftirstöðvar og skuld á veltureikningi samtals 1.693.596 krónum. Sóknaraðili stóð ekki í skilum með greiðslur og var samningnum rift. Hinn 15. janúar 2014 afhenti sóknaraðili varnaraðila bifreiðina VD 802. Varnaraðili lét verðmeta bifreiðina og var matsverð hennar 350.000 krónur og kom það til frádráttar kröfu varnaraðila um ógreiddar greiðslur af kaupleigusamningnum. Með stefnu þingfestri 8. desember 2015 krafðist varnaraðili þess að sóknaraðili greiddi sér skuld að fjárhæð 703.980 krónur. Sóknaraðili sótti ekki þing við þingfestingu málsins og var stefnan árituð sama dag um að dómkröfur væru aðfararhæfar auk málskostnaðar að fjárhæð 144.350 krónur. Fjárnám var gert hjá sóknaraðila og með beiðni, dags. 27. september 2016, móttekinni hjá sýslumanni 30. s.m., krafðist varnaraðili nauðungarsölu á bifreiðinni Peugoeot Partner með skráningarnúmerið UT 250. Nauðungarsala fór fram 25. mars 2017. Bifreiðin var seld Björgvini Björgvinssyni fyrir 100.000 krónur gegn staðgreiðslu.
II.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um ógildingu nauðungarsölunnar, sbr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, og samhliða ógildingu undirliggjandi uppboðsheimildar, sbr. 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, í fyrsta lagi á því að innheimta varnaraðila sé ólögmæt. Sóknaraðili telur varnaraðila ekki geta farið fram hjá sérstökum uppgjörsreglum laga nr. 151/2010 með því að gera, án uppgjörsleiðréttinga, aðför að eignum sóknaraðila. Sóknaraðili vísar máli sínu til stuðnings til bráðabirgðaákvæðis XV. kafla í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. gr. laga nr. 151/2010. Samkvæmt téðu ákvæði skuli kröfuhafi, sem leyst hefur til sín eign samkvæmt gengistryggðum kaupleigusamningi og eftirstöðvar reynast hærri en innlausnarverðið, gefa skuldara færi á að greiða eftirstöðvar í samræmi við eftirfarandi reglur í stafliðum a og b. Varnaraðili hafi ekki gefið sóknaraðila færi á að greiða helming skuldar samkvæmt b-lið ákvæðisins, né hafi stefnufjárhæð hans, sem árituð var fyrir aðfararhæfi, tekið mið af framangreindum rétti sóknaraðila. Fjárnámsbeiðni og eftirfarandi nauðungarsölubeiðni varnaraðila hafi því verið í andstöðu við ákvæði laga nr. 38/2001, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 151/2010.
Sóknaraðili segir að lög nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, séu sérlög sem kveði á um hvernig skuli fara með uppgjör gengistryggðra skuldbindinga en lög nr. 90/1991 um nauðungarsölu séu almenn lög á sviði fullnusturéttar. Samkvæmt forgangsreglunni um „lex specialis“ gangi sérlög framar almennum lögum. Enn fremur því sem yngri lög nr. 151/2010 gangi framar eldri lögum nr. 90/1991 samkvæmt forgangsreglunni um „lex posterior“. Með vísan til framangreinds telur sóknaraðili fjárnámsgerð og eftirfarandi nauðungarsölu vera í ósamræmi við framangreind sérlög og þannig ólögmæta.
Sóknaraðili telur engu breyta um lögmæti nauðungarsölunnar þótt aflað hafi verið aðfararveðs með fjárnámi, þar sem fyrir aðför hafi átt að haga uppgjöri í samræmi við bráðabirgðaákvæði XV. kafla í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. gr. laga nr. 151/2010.
Þá hafi dómara borið í máli nr. E-4097/2015, áður en stefna var árituð, að kanna hvort krafa varnaraðila væri í samræmi við lög nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Rök megi færa fyrir því að við þessar aðstæður hafi dómara borið að vísa kröfu varnaraðila ex officio frá dómi.
Með vísan til framangreinds telur sóknaraðili að aðför varnaraðila hafi verið ólögmæt og að sýslumanni hafi borið á grundvelli 17. og 27. gr. laga nr. 90/1989 að vísa fjárnámsbeiðni varnaraðila frá, en að því ógerðu, nauðungarsölubeiðni hans, á grundvelli 13. og 22. gr. laga nr. 90/1991. Sóknaraðili telur að framangreindar lagagreinar, og jafnframt almenn lögmætisregla stjórnsýsluréttar, leiði til þess að aðförina hafi ekki mátt framkvæma. Sé það óháð því hvort skuld sóknaraðila við varnaraðila hafi verið til staðar eða ekki, enda megi ákvarðanir stjórnvalda ekki vera í andstöðu við lög.
Sóknaraðili byggir í öðru lagi á því að hann hafi ekki verið í skuld við varnaraðila þegar stefna í máli nr. E-4097/2015 var árituð. Varnaraðili hafi byggt dómkröfu sína í málinu á því að bifreiðina ætti að lækka um 770.682 krónur, án þess að leggja fram gögn um útlagðan kostnað vegna viðgerða og/eða varahluta. Sóknaraðili hafi aðeins áætlað fjárhæðir á viðgerðarkostnaði. Engin gögn hafi verið lögð fram við þingfestingu málsins eða síðar sem sýni að varnaraðili hafi lagt út í þennan kostnað. Þá hafi engin gögn legið fyrir um endursöluverð bifreiðar. Nú liggi bæði fyrir uppfletting löggilts bifreiðasala og mat bifreiðasala á markaðsvirði bifreiðarinnar á þessum tíma, miðað við aldur og keyrslu hennar. Markaðsvirði bifreiðarinnar á þessum tíma hafi ekki verið lægra en 1.014.000 krónur og raunar bendi mat löggilts bifreiðasala Toyota-umboðsins til nokkuð hærra markaðsvirðis. Ef stefnukrafa varnaraðila og þannig fjárnámskrafa yrði endurskoðuð með tilliti til hins nýja endurútreiknings og gagna um markaðsvirði þá myndi hún breytast og leiða til sýknu og gefa ástæðu til gagnsakar. Nýr endurútreikningur leiði til eftirstöðva þann 29. október 2010, 1.370.159 króna, í stað 1.693.596 króna. Leiði það til eftirstöðva skuldar, 468.180 króna, þegar sóknaraðili hafi afhent bifreiðina. Á þeim tíma telja sérfróðir aðilar að markaðsvirði bifreiðarinnar hafi verið a.m.k. 1.014.000 krónur. Ef tryggingar, 251.000 krónur, sem sóknaraðili hafi skuldað, væru dregnar frá, ásamt endurreiknuðum eftirstöðvum skuldar á grundvelli fullnaðarkvittana, þá leiði það til eftirfarandi útreiknings: 1.014.000 – 468.180 – 251.000 = 294.820 krónur. Yrðu framangreindar fjárhæðir, sem séu í samræmi við gögn máls og lagafyrirmæli, lagðar til grundvallar niðurstöðu í enduruppteknu máli, myndu þær leiða til sýknu og gefa ástæðu til gagnsakar. Sóknaraðili hafi fyrir sýslumanni lagt til grundvallar lægsta mögulega markaðsvirði bifreiðarinnar. Það hafi leitt til þess að varnaraðili hafi staðið í skuld við sóknaraðila upp á 12.820 krónur, þegar bifreiðin hafi verið afhent 15. janúar 2014.
Sóknaraðili kveðst hafa áður en til uppboðsins kom gert varnaraðila grein fyrir því að hann teldi sig ekki í skuld við hann. Sóknaraðili hafi lagt fram gögn og útreikninga því til staðfestingar. Þar sem sóknaraðili hafi ekki verið í skuld við varnaraðila við áritun stefnu eða síðar eigi að ógilda nauðungarsölu á bifreiðinni.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um að nauðungarsalan verði ógilt enn fremur á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, að því marki sem skuld sé ennþá til staðar. Kaupleigusamningurinn sé lánssamningur sem lög nr. 121/1994 um neytendalán hafi gilt um, án þess að varnaraðili hafi uppfyllt upplýsingaskyldu sína samkvæmt lögunum. Þá hafi samningurinn verið andstæður lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og þannig ólögmætur. Einnig hafi samningurinn verið ósanngjarn og andstæður góðri viðskiptavenju þar sem sóknaraðili hafi þegar greitt upphaflega lánsfjárhæð, en sé nú krafinn um frekari greiðslur. Sóknaraðili kveðst vera neytandi sem ekki sé sérfróður á sviði lánssamninga á meðan varnaraðili sé sérfróður aðili, sem beri skyldur á grundvelli reglna um sérfræðiábyrgð og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. m.a. 19. gr. laganna.
Sóknaraðili byggir með vísan til framangreinds einnig á því að brostnar séu forsendur fyrir samningnum, að því marki sem varnaraðili innheimti hærri fjárhæð í íslenskum krónum en krafist hafi verið við gerð hans, hvort sem horft sé til atvika við gerð hans, þ.e. ólögmætis, eða atvika sem síðar komu til, réttarframkvæmdar og lagasetningar. Sóknaraðili njóti verndar 72. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944 fyrir ólögmætri og afturvirkri eignaskerðingu.
III.
Varnaraðili byggir aðalkröfu sína um frávísun á því að heimild 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu varði eingöngu ágreining um framkvæmdaatriði sjálfrar nauðungarsölunnar, en ekki grundvöll lögskipta sem leyst hafi verið úr fyrir héraðsdómi. Varnaraðili vísar til 2. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1991 þar sem segi að kröfur verði ekki hafðar uppi í máli samkvæmt ákvæðum kaflans um annað en gildi
nauðungarsölunnar. Tilvísun sóknaraðila til 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför hafi enga þýðingu um framkvæmd nauðungarsölu og sé vísan til ákvæðisins algerlega óskiljanleg, enda engin krafa gerð um að aðfarargerð verði felld niður.
Varnaraðili telur að þær málsástæður sem sóknaraðili teflir fram varði hvorki framkvæmd nauðungarsölu né framkvæmd aðfarargerðar. Röksemdir varnaraðila lúti eingöngu að sjónarmiðum um uppgjör á samningi með ólögmæta gengistryggingu, sem þegar hafi verið dæmt um, og varnaraðili hafi haft alla möguleika á að koma á framfæri þegar málið hafi verið tekið til meðferðar fyrir héraðsdómi. Hann hafi hins vegar kosið að gera það ekki. Með umræddri nauðungarsölubeiðni hafi verið lögð fram árituð stefna og aðfararbeiðni. Samkvæmt 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til. Í 2. mgr. 116. gr. segi að krafa sem hafi verið dæmd að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól og skuli nýju máli um slíka kröfu vísað frá dómi. Samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 91/1991 hafi áritun dómara á stefnu um aðfararhæfi krafna í henni sömu áhrif og dómur í einkamáli og eigi því það sama við um hana.
Þá byggir varnaraðili á því að sú regla gildi um fullnustugerðir að þar verði gerðir dómstóls ekki endurskoðaðar. Þessi meginregla komi fram í 2. mgr. 83. gr. og 2. mgr. 88. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, þar sem segi að kröfur verði ekki hafðar uppi í dómsmáli um aðfarargerð um atriði sem dómstóll hafi áður tekið afstöðu til. Þessi regla gildi fullum fetum þegar um sé að ræða dómsúrlausnir. Sambærilegar reglur sé að finna í lögum nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 2. mgr. 83. gr.
Varnaraðili telur að rétt hefði verið strax í upphafi að vísa málinu frá með vísan til 82. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu þar sem málatilbúnaður sóknaraðila uppfylli augljóslega ekki þær kröfur sem gerðar séu til að reka mál á grundvelli XIV. kafla nr. 90/1991.
Varakrafa varnaraðila um að kröfum sóknaraðila verði hafnað er byggð á því að málatilbúnaður sóknaraðila sé algerlega haldlaus og virða beri hann að vettugi. Lög nr. 151/2010, sem mótmæli sóknaraðila byggist á, gerir ráð fyrir ákveðinni uppgjörsaðferð sem feli í sér að ekki beri að taka tillit til fullnaðarkvittana. Með niðurstöðu Hæstaréttar í svokölluðum fullnaðarkvittanamálum hafi verið sérstaklega tekið fram að lögin gætu ekki tekið til samninga sem hafi verið gerðir fyrir gildistöku laganna. Með því hafi uppgjörsaðferð laganna verið vikið til hliðar og engar forsendur til að taka tillit til þeirra bráðabirgðaákvæða sem vísað hafi verið til. Krafa sé jafnframt eign sem njóti sérstakrar verndar stjórnarskrár og verði ekki skert með almennum lögum.
Varnaraðili mótmælir sjónarmiðum sóknaraðila um að hann hafi ekki verið í skuld við varnaraðila. Uppgjör við sölu bifreiðarinnar hafi fylgt þeirri uppgjörsaðferð sem upphaflega hafi verið samið um í kaupleigusamningi aðila. Uppgjörið hafi auk þess verið sérstaklega borið undir sóknaraðila sem hafi engum mótmælum hreyft.
Þá mótmælir varnaraðili sérstaklega mati bifreiðasala á markaðsvirði bifreiðarinnar, sem sóknaraðili hefur lagt fram í málinu. Matið hafi ekki verið byggt á skoðun á bifreiðinni sjálfri og hafi því enga þýðingu. Ásigkomulag bifreiða sem krafist sé afhendingar á sé yfirleitt mjög slæmt, enda oft ekki aðstæður eða áhugi á að kosta nauðsynlegt viðhald bifreiðanna eða þrif á þeim. Afleiðingarnar séu þær að bifreiðarnar seljist langt undir markaðsvirði, eins og raunin hafi verið í þessu tilviki.
Loks mótmælir varnaraðili sjónarmiðum sóknaraðila um að ógilda eigi kaupleigusamninginn á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Um sé að ræða samning um hefðbundna fjármögnun til bifreiðakaupa sem á engan hátt geti talist ósanngjarn í garð sóknaraðila.
Krafa varnaraðila um málskostnað er byggð á því að málatilbúnaður sóknaraðila sé fráleitur og hafðar séu uppi kröfur og mótbárur sem sóknaraðili viti að geti ekki náð fram að ganga. Varnaraðili vísar til 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um álag á málskostnað og sameiginlega ábyrgð umboðsmanns á greiðslu kostnaðar þegar um bersýnilega þarflausa málssókn sé að ræða. Varnaraðili telur að lögmaður sóknaraðila eigi sem lögmaður meginþátt í því að byggja upp málatilbúnað sóknaraðila og verði að bera ábyrgð á honum.
IV.
Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu getur hver sá sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu, innan tiltekinna tímamarka. Skilyrðum laga nr. 90/1991 til að leita úrlausnar dómsins er fullnægt og verður máli þessu ekki vísað frá dómi eins og varnaraðili gerir aðallega kröfu um.
Sóknaraðili heldur því fram að umrædd nauðungarsala sem fram fór 25. mars 2017 sé ógild þar sem innheimta varnaraðila hafi verið ólögmæt og sóknaraðili hafi ekki verið í skuld við varnaraðila. Kaupleigusamningur milli aðila frá 31. mars 2008 var gengistryggður með ólögmætum hætti og var hann endurútreiknaður 29. október 2010 í samræmi við dóma Hæstaréttar í málum nr. 153/2010 og 471/2010. Sóknaraðili lenti í vanskilum eftir það og var samningnum rift. Sóknaraðili skilaði varnaraðila bifreiðinni Toyota Avensis, með skráningarnúmerið VD 802, hinn 15. janúar 2014. Varnaraðili lét verðmeta bifreiðina og var matsverð hennar 350.000 krónur. Sóknaraðili mótmælti ekki matinu eða uppgjörinu eins og honum bar að gera samkvæmt 23. gr. kaupleigusamningsins um uppgjör. Sóknaraðili telst því bundinn við matið. Ekki verður byggt á mati bílasala sem sóknaraðili hefur lagt fram í málinu, dags. 14. september 2016, að fjárhæð 1.014.000 krónur, og mati frá Toyota á Íslandi, dags. 14. mars 2017, að fjárhæð 1.200.000 krónur, enda eru þau háð þeim annmarka að þau taka ekki mið af því hvert var raunverulegt ástand bifreiðarinnar sem sóknaraðili afhenti varnaraðila. Hvort sem miðað er við endurútreikning sem fram fór 29. október 2010, eða endurútreikning 27. september 2016 á grundvelli fullnaðarkvittana, sem fyrir liggur í málinu, var sóknaraðili í skuld við varnaraðila. Með vísan til alls framangreinds er hafnað þeim málsástæðum sóknaraðila að innheimta hafi verið ólögmæt og að sóknaraðili hafi ekki verið í skuld við varnaraðila. Þá hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að nauðungarsöluna beri að ógilda á grundvelli 36. gr. laga nr. 36/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eða að forsendur séu brostnar fyrir samningnum.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, ber sóknaraðila að greiða varnaraðila málskostnað. Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað með álagi samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr., 131. gr. laga nr. 91/1991. Að mati dómsins eru sakir ekki slíkar að þessari heimild verði beitt. Er málskostnaður hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu sóknaraðila, Ásgríms Pálssonar, um að ógilt verði nauðungarsala sem fram fór 25. mars 2017 hjá embætti sýslumannsins á Suðurnesjum, á bifreið með skráningarnúmerinu UT-250, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 300.000 kr. í málskostnað.