Hæstiréttur íslands

Mál nr. 67/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


Föstudaginn 23. janúar 2015

Nr. 67/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Nálgunarbann.

Felld var úr gildi ákvörðun L um að X skyldi sæta nálgunarbanni í sex mánuði þar sem ekki var talið að fullnægt væri skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. janúar 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að staðfest yrði ákvörðun hans 18. sama mánaðar um að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði gagnvart A. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði framangreind ákvörðun um að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt að lagt verði bann við því að varnaraðili veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð

Felld er úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 18. janúar 2015, um að varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni í sex mánuði samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. janúar 2015.

Með kröfu dagsettri 20 janúar sl. sem barst dóminum sama dag, hefur lögreglustjórinn á Höfuðborgarsvæðinu krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness staðfesti ákvörðun lögreglustjórans frá 18. janúar 2015, um að X, kt. [...], [...] í [...], verði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], [...], [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.

Varnaraðili mótmælti kröfunni við fyrirtöku málsins þann 21. janúar sl. og krafðist þess að henni yrði hafnað. Snorri Sturluson hdl. var skipaður verjandi varnaraðila og Lilja Margrét Olsen hdl. réttargæslumaður brotaþola. Kröfðust þau þóknunar úr ríkissjóði sér til handa.

Málsatvik og málsástæður sóknaraðila: Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að lögregla hafi verið kölluð að [...] í [...] um hádegi þann 17. janúar sl., eftir að nágranni brotaþola hafi hringt og upplýst um að brotaþoli hafi flúið til hennar þá nótt undan kærða vegna ógnandi hegðunar/heimilisofbeldis. Við skýrslutöku af brotaþola hafi virst sem hún hafi nýlega grátið verið í nokkru uppnámi og skolfið þegar við rætt var við hana. Kvaðst brotaþoli búa í íbúð sinni ásamt tveimur sonum sínum en þeir hefðu ekki verið heima. Hún og kærði hafi verið í sambandi af og til frá febrúar 2014, en ekki búið saman að staðaldri en kærði dveldi mikið hjá henni og ætti hjá henni föt og muni. Hafi kærði misst stjórn á sér og kastað til hlutum og skemmt innanstokksmuni í íbúð hennar, m.a. kastað munum fram af svölum. Hafi kærði reynt að henda í hana bjórdós og skál úr málmi, en hún hafi ekki slasast en orðið mjög hrædd og kærði verið ógnandi. Hafi hún farið út og fengið að gista hjá fyrrverandi tengdamóður sinni en síðan farið í vinnu um morguninn. Um hádegi hafi hún farið heim til sín og þá séð muni úr íbúð hennar liggjandi utan við húsið. Brotaþoli sagðist hafa leitað til nágranna síns og í kjölfarið hefði verið haft samband við lögreglu. Brotaþoli bað um að lögregla færi í íbúð hennar til að athuga með ástand og fjarlægja kærða úr íbúðinni ef hann væri þar enn. Samkvæmt frásögn brotaþola hafi kærði áður misst stjórn á skapi sínu með svipuðum hætti og einu sinni og beitt hana líkamlegu ofbeldi.

Lögregla fór íbúð brotaþola og handtók kærða. Kvaðst kærði hafa brjálast þegar brotaþoli hafi farið drukkin á bifreið sinni um nóttina. Viðurkenndi kærði að hafa hent munum fram af svölum og skemmt. Sjáanlega var búið að henda til hlutum í íbúðinni, búið að beygla háf í eldhúsi, skemma fartölvu, brjóta styttur, henda fram af svölum gasgrilli og gaskút, skógrind úr málmi, lampa, tré hillu og gler stofuborði. Voru allir þessir munir skemmdir eða ónýtir. Brotaþoli kvað að þau bæði hafa drukkið áfengi um nóttina og að þau hefðu notað amfetamín. Sjá hafi mátt tómar áfengisumbúðir í íbúðinni en engin sjáanleg merki um fíkniefnaneyslu. Kærði neitaði að hafa kastað bjórdós og skál að brotaþola en kvaðst hafa verið reiður og orðljótur. Hafa þau rifist vegna gruns um að brotaþoli héldi framhjá honum, hann reiðst og brotaþoli þá yfirgefið íbúðina. Kærði neitaði líkamlegu ofbeldi en kvað að svipuð uppákoma hefði átt sér stað á heimili hans einu sinni áður. Kærða var gert grein fyrir því að það hafi komið skýrt fram hjá brotaþola í samtali hennar við lögreglu að kærði væri hér eftir óvelkomin á heimili hennar og að brotaþoli óskaði ekki eftir frekari samskiptum við kærða. Kvaðst kærði ætla að virða þessa beiðni brotaþola og ekki setja sig í samband við hana né koma á heimili hennar.

Vegna ofangreinds er kærði grunaður um líkamsárás sbr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og eignaspjöll, sbr. 257. gr. og eftir atvikum hótanir sbr. 233. gr. sömu laga. Þá hafi brotaþoli aftur haft samband við lögreglu um kvöldið þann 17. janúar sl. og borið að kærði væri kominn aftur að húsinu að [...] í [...] og hafi hún fengið nokkur símtöl þar sem kærði hafi hringt í hana úr leyninúmerum. Einnig hafi kærði hringt í hana fyrr um kvöldið, kl. 19.20 og krafist þess að hún afhenti honum kassa sem væri íbúð hennar, en hún sagt að hann ætti enga muni þar. Kvaðst brotaþoli vera hrædd og að sér stafaði ógn af kærða. Að beiðni brotaþola var óskað eftir nálgunarbanni og féllst lögreglustjóri á beiðnina og var ákvörðun lögreglustjóra birt kærða þann 18. janúar sl. Af öllu framangreindu telur lögregla ljóst að brotaþola stafi ógn af kærða og ljóst sé að hún hafi orðið að þola ofbeldi af hans hálfu, ógnandi hegðan, áreiti og hann hafi brotið gegn velferð hennar. Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt, enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að kærði hafi brotið gegn brotaþola og velferð hennar og að hætta sé á því að hann haldi áfram með ógnandi hegðan, ofbeldi og áreiti að raska friði hennar í skilningi 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

Málsatvik og málsástæður varnaraðila: Fram kom í máli varnaraðila fyrir dómi að lýsingar brotaþola á málsatvikum gæfu ekki rétta mynd af öllum málavöxtum. Hann hafi sjálfur átt einhverja þá muni sem hann hafi skemmt. Hann hafi búið hjá brotaþola og hafi átt þar ýmsa muni sem hann hafi nú fengið afhenta. Hann kvaðst ætla að virða beiðni brotaþola og ekki setja sig í samband við hana né koma á heimili hennar.

Niðurstaða: Í 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili eru sett þau skilyrði að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða að hætta sé á varnaraðili brjóti gegn brotaþola. Ætluð brot varnaraðila eru talin varði við 217. gr., 233. gr. og 257. gr. almennra hegningaralaga nr. 19/1940. Varnaraðili hefur játað fyrir lögreglu að hafa skemmt muni í eigu brotaþola og hans sjálfs og liggur því fyrir rökstuddur grunur um að hann hafi framið refsivert brot gegn ákvæðum 257. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar liggja ekki fyrir í gögnum málsins nánari upplýsingar um meinta líkamsárás eða hótanir.

Í kröfu sóknaraðila kemur fram að hætta sé á því að varnaraðili muni brjóta gegn brotaþola ef nálgunarbanni verði ekki beitt. Í greinargerð með 4. gr. laga nr. 85/2011 segir: „Við mat á því hvort hætta verði talin á því að maður muni fremja refsivert brot eða á annan hátt raska friði brotaþola verður líkt og áður að líta til fyrri háttsemi þess manns sem krafan beinist gegn og samskipta hans við þann sem vernda á með banninu. Hér koma þannig áfram til álita fyrri afbrot, hótanir, ögranir og önnur samskipti sem veitt geta rökstudda vísbendingu um það sem kann að vera í vændum“. Í málinu eru engin gögn svo sem lögregluskýrslur um fyrri afbrot, hótanir eða ögranir að hálfu varnaraðila gegn brotaþola.

Í 6. gr. laga nr. 85/2011 kemur fram að nálgunarbanni verði aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Fram kom að brotaþoli hafi hringt í lögreglu og sagt að kærði hafi hringt í sig þann 17. janúar sl. og einnig að kærði væri í bifreið fyrir utan heimili hennar. Engin gögn liggja fyrir um meintar hringingar eða að varnaraðili hafi mætt aftur við heimili brotaþola. Í dagbók lögreglu er skráð 17. janúar sl., kl. 23:53; „Ekkert sem bendir til þess að aðilinn hafi verið á vettvangi“. Varnaraðili hefur lýst því yfir fyrir dómi að hann ætli að virða beiðni brotaþola og ekki setja sig í samband við hana né koma á heimili hennar.

Ákvæði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er heimildarákvæði þannig að ekki er skylt að verða við beiðni um nálgunarbann þó skilyrði laganna séu uppfyllt að einhverju leyti. Gögn málsins sýna fram á eitt tilvik þar sem rökstuddur grunur er á refsiverðri háttsemi varnaraðila um eignaspjöll á eigum brotaþola. Að mati dómsins hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 sé uppfyllt á þann hátt að hætta sé á því að varnaraðili brjóti gegn brotaþola aftur eða raski friði hans með öðrum hætti og því verður samkvæmt nefndri 6. gr. laga nr. 85/2011 ekki farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Með hliðsjón af öllu framangreindu, er kröfu sóknaraðila um staðfestingu nálgunarbanns gegn varnaraðila hafnað.

Allur sakakostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjenda og réttargæslumanns brotaþola sem ákveðinn er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í úrskurðarorði greinir.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila um staðfestingu ákvörðunar lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu frá 18. janúar 2015, um að X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart A, kt. [...] í sex mánuði, er hafnað.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Snorra Sturlusonar héraðsdómslögmanns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Lilju Margrétar Olsen héraðsdómslögmanns 128.960 krónur til hvors um sig greiðist úr ríkissjóði.