Hæstiréttur íslands

Mál nr. 443/2010


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Laun
  • Uppsögn
  • Riftun


Fimmtudaginn 9. júní 2011.

Nr. 443/2010.

Olíudreifing ehf.

(Jón Halldór Magnússon hrl.)              

gegn

Gunnari Einarssyni

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Laun. Uppsögn. Riftun.

Aðilar deildu um rétt G til bóta samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 sökum loka starfs hans sem vélstjóra á olíuflutningaskipi, sem O seldi úr landi 20. maí 2008 en G hafði áður verið sagt upp starfinu 14. sama mánaðar. Í samræmi við starfssamning hafði G fengið greidd laun í uppsagnarfresti í fimm mánuði. G taldi að laun í uppsagnarfresti væru ekki að fullu uppgerð, þar sem O hefði deilt 360 dögum í laun, sem hann hafði fengið á árinu, í stað þess að deila með starfsdögum og launadögum hans, sem hefðu verið 180 dagar. Í héraðsdómi var vísað til þess að með dómum Hæstaréttar hefði verið mörkuð sú stefna við skýringu á 25. gr. sjómannalaga að bætur skyldu miðast við kaup viðkomandi sjómanns fyrir fulla vinnu á öllum uppsagnarfrestinum. Var talið að ekki væri unnt að beita annarri skýringu á þessu ákvæði gagnvart G en gert hefði verið. Var krafa G því tekin til greina. Fyrir Hæstarétti eins og héraðsdómi studdi O varakröfu sína meðal annars við þá málsástæðu að G yrði að sæta lækkun á kröfu sinni vegna launa, sem hann hefði aflað með störfum á skipi í eigu annarrar útgerðar í framhaldi af lokum starfs hans hjá O. Hæstiréttur féllst ekki á þá kröfu og staðfesti héraðsdóm að öðru leyti með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. júlí 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi er í málinu deilt um rétt stefnda til bóta samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 sökum loka starfs hans sem vélstjóra á olíuflutningaskipinu Keili, sem áfrýjandi mun hafa selt úr landi 20. maí 2008, en stefnda hafði áður verið sagt upp starfinu 14. sama mánaðar. Samkvæmt gögnum málsins var skipið gert út frá árinu 2004 og fram til þess tíma af Sp/f Berg Shipping Ltd. í Færeyjum, sem hafði gert svokallaðan starfssamning við stefnda 19. janúar 2004, en félag þetta mun vera í eigu áfrýjanda, sem hefur ekki borið því við að málinu sé ranglega beint að sér. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi meðal annars byggt á því til stuðnings aðalkröfu sinni að stefndi hafi ekki verið ráðinn til starfa á tilteknu skipi og geti hann af þeirri ástæðu ekki hafa öðlast rétt til bóta samkvæmt 25. gr. sjómannalaga sökum þess að áfrýjandi hafi selt áðurnefnt skip. Þessari málsástæðu var ekki haldið fram í héraði og fær hún ekki komist að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum. Fyrir Hæstarétti eins og héraðsdómi hefur áfrýjandi meðal annars stutt varakröfu sína við þá málsástæðu að stefndi verði að sæta lækkun á kröfu sinni vegna launa, sem hann hafi aflað með störfum á skipi í eigu annarrar útgerðar í framhaldi af lokum starfs hans hjá áfrýjanda. Á þá kröfu verður ekki fallist, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í máli nr. 340/2000, sem birtur er í dómasafni 2001 á bls. 293. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Olíudreifing ehf., greiði stefnda, Gunnari Einarssyni, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2010.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 23. apríl sl., er höfðað með stefnu birtri 23. september 2009.

Stefnandi er Gunnar Einarsson, Ásbúð 75, Garðabæ.

Stefndi er Olíudreifing ehf. vegna Berg Shipping Þórshöfn, Færeyjum.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.124.877 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2008 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, til vara lækkunar á stefnukröfum. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Málsatvik

Stefnandi starfaði um árabil á olíuskipum stefnda, Olíudreifingar ehf. og tók laun samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands.

Stefnandi og stefndi gerðu með sér samning um starf stefnanda sem 1. vélstjóri á m.t. Kyndli, 20. júlí 2001. Í þessum samningi var m.a. tekið fram að skráningardagar stefnanda skyldu vera 219 dagar af 360 dögum ársins. Þá segir þar, og í síðari samningum milli aðila, að í samskiptum aðila skuli fara eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands um kaup og kjör á kaupskipum. Gerður var nýr starfssamningur milli stefnanda og stefnda 4. júlí 2002 og skyldu skráningardagar samkvæmt þeim samningi vera 180. Aftur var gerður starfssamningur milli stefnanda og Berg Shipping ltd. 19. janúar 2004, en það fyrirtæki er í eigu stefnda, Olíudreifingar ehf. Umsamdir skráningardagar voru eftir sem áður 180 dagar vegna ársins 2004. Ekki var gerður nýr samningur milli aðila eftir þetta, en starfað áfram eftir þessum samningi. Með bréfi frá 14. maí 2008 tilkynnti stefndi stefnanda að m.t. Keilir hefði verið seldur úr landi og ráðningu stefnanda væri þar með lokið. Í kjölfarið greiddi stefndi stefnanda, sem rétt átti á 5 mánaða uppsagnarfresti, alls. 2.124.877 krónur í laun í uppsagnarfresti. Ágreiningur aðila stendur um það hvort sú aðferð stefnda að deila 360 dögum í þau laun stefnanda sem hann hafði fengið greitt á árinu, í stað þess að deila með starfsdögum og launadögum stefnanda, sem verið hafi 180 dagar, hafi verið rétt, við uppgjör aðila vegna launa í uppsagnarfresti.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveður að með gerð kjarasamnings frá 1. nóvember 2000, hafi komist á umfangsmiklar breytingar á launakerfi vélstjóra sem og annarra skipverja á þessum skipum. Efnislega hafi breytingin m.a. falist í því að í stað þeirra fjölmörgu launaþátta, sem áður hafi myndað laun vélstjóra, kæmu heildarlaun, með því að þessum launapóstum væri steypt saman eftir ákveðnum útreikningsreglum.

Þá hafi verið miðað við það, að í upphafi árs væri gert samkomulag milli útgerðar og vélstjóra um þann fjölda vinnudaga, sem áætlað væri að viðkomandi vélstjóri myndi vinna á komandi ári, en aðra daga væri hann í launalausu fríi. Árslaun hvers vélstjóra hafi síðan verið reiknuð sem margfeldi heildarlauna á dag og umsaminna fjölda sjódaga viðkomandi vélstjóra. Þannig reiknuðum árslaunum skyldi jafnframt dreift á alla mánuði ársins, án tillits til þess hversu marga daga vélstjóri ynni í hverjum mánuði. Samkvæmt nýja og núgildandi kjarasamningi væri vinnulaunum fyrir hálft árið dreift á allt árið og yrðu því launin pr. almanaksdag eðli máls samkvæmt helmingi lægri heldur en hafi verið þegar eingöngu hafi verið greitt fyrir unna daga og ekkert fyrir hina. Ástæða þessarar greiðslumiðlunar vinnulauna hafi verið sú að menn hafi viljað fá hálf laun alla daga, fremur en að fá engar launagreiðslur helming ársins, þegar þeir væru í launalausu fríi. Með slíkri greiðsludreifingu væri verið að dreifa hálfsárslaunum á allt árið. Um þessa greiðslumiðlun hafi ríkt almenn ánægja.

                Stefnandi kveður að með sölu skipsins Kyndils og afhendingu þess til nýrra eigenda hafi ráðningu stefnanda verið rift og eigi hann þess vegna rétt á bótum samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Bætur samkvæmt þeirri grein feli í sér greiðslu á fullu kaupi allan uppsagnarfrestinn, sem sé þrír mánuðir samkvæmt 9. gr. laganna, en vegna starfsaldurs stefnanda fimm mánuðir samkvæmt kjarasamningi aðila. Skuli þær bætur í uppagnarfresti miðaðar við að stefnandi hafi unnið allan uppsagnarfrestinn. Slíkt sé dómvenja og vísar stefnandi til H. 1990/1246 og H 2004/4529 í því sambandi. Laun vélstjóra séu miðuð við vinnudaga eða lögskráningardaga þannig að þeir fái einungis greidd laun fyrir hvern unninn dag. Hafi hinir nýju kjarasamningar engu breytt þar um, enda felist í svonefndu fastlaunakerfi þeirra samninga, einungis jöfn dreifing á greiðslum á mánuði miðað við almanaksárið, sbr. starfssamning viðkomandi skipverja. Geri stefnandi kröfu um að stefndi greiði sér full laun fyrir alla 150 daga uppsagnarfrestsins miðað við deilitöluna 180 vinnudaga, en ekki 360 almanaksdaga eins og stefndi hafi ranglega gert. Með þessari reikningsaðferð hafi uppsagnarlaun stefnanda orðið helmingi lægri en rétt hefði verið. Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 202/2004, en þar segi m.a: ,,Verður því ekki fallist á það með stefnda að með kjarasamningum hafi verið komið á kerfi fastra mánaðarlauna hjá vélstjórum á kaupskipum. Með dómi Hæstaréttar í dómasafni 1990 á bls. 1246 var mörkuð sú stefna við skýringu á 25. gr. sjómannalaga að bætur skuli miðast við kaup viðkomandi sjómanns fyrir fulla vinnu á öllum uppsagnarfrestinum, óháð því hvort vinnufyrirkomulag um borð hafi verið með öðrum hætti. Hefur rétturinn fylgt því í síðari dómum, sbr. nú síðast dóm 28. október 2004 í máli nr. 210/2004. Verður ekki talið að unnt sé að beita annarri skýringu á þessu ákvæði gagnvart farmönnum en gert hefur verið þegar fiskimenn eiga í hlut.“

Stefnandi telur að stefnda sé ekki tækt að neita að virða niðurstöður dómafordæma Hæstaréttar Íslands í þessum efnum. Krafa stefnanda á hendur stefnda sé því um 2.124.877 krónur, eða þann helming launa í uppsagnarfresti sem á vanti til að stefndi hafi greitt full laun í uppsagnarfresti samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi greitt stefnanda að fullu þau laun sem hann hafi átt rétt á samkvæmt ráðningarsamningi sínum og kjarasamningi vélstjóra á kaupskipum.

Stefndi kveður stefnanda byggja málatilbúnað sinn á alhæfingu út frá dómum varðandi sjómenn á fiskiskipum, sem vinni á allt öðrum kjörum. Launakjör vélstjóra á fiskiskipum séu byggð á hlutaskiptum, en ekki fastlaunakerfi eins og á kaupskipum. Meginmunur á hlutaskiptasamningum og fastlaunasamningum sé sá að samkvæmt kjarasamningi vélstjóra á fiskiskipum fái vélstjóri á fiskiskipi greitt ákveðið hlutfall af söluandvirði aflans í þeirri veiðiferð sem hann hafi verið um borð, en í fastlaunasamningum vélstjóra á kaupskipum sé greitt ákveðið kaup án tengingar við afköst. Mótmælt sé, sem röngu og ósönnuðu, að stefnandi eigi rétt til meiri launa en hann hafi fengið úr hendi stefnanda á  árinu 2008 og fullyrðingum og útreikningum í stefnu á því, hvað teljist vera laun fyrir fullt starf. Mætti skilja það svo að enginn starfsmaður væri í fullu starfi nema hann ynni 365 daga á ári.

Á vinnustað eins og kaupskipi, sem sé í rekstri alla daga ársins, þurfi því fleiri en einn mann til að gegna hverri stöðu um borð í skipinu yfir árið. Vegna fullyrðinga í stefnu um að launagreiðslur hafi ekkert með vinnuframlag að gera heldur fái vélstjórar á kaupskipum greidd sömu mánaðarlaun hvort sem þeir vinni eða ekki, sé ástæða til að skoða uppbyggingu launakerfis vélstjóra á kaupskipum.

Launakerfi vélstjóra á kaupskipum líkist launakerfum starfsmanna í landi, en sé gerólíkt launakerfi fiskimanna. Laun séu ákvörðuð á grundvelli vinnustunda en ekki hlutaskipta, eins og byggt sé á í launakerfi fiskimanna.

Samkvæmt gr. 1.1.-1.3. í kjarasamningi, séu umsamin mánaðarlaun vélstjóra á kaupskipum byggð á skilum á 40 vinnustundum á viku eða 8 stunda vinnu á dag eins og tíðkist almennt varðandi starfsmenn í landi. Þar sem vélstjórar fái ekki frí um hverja helgi, eins og starfsmenn í landi, séu ákvæði í 8. kafla kjarasamningsins um uppbætur fyrir vinnu um helgar og á almennum frídögum. Samkvæmt grein 8.1.1. vinni vélstjórar sér inn frídag fyrir hvern laugardag, sunnudag og helgi- og eða tyllidag úti á sjó eða unninn í heimahöfn. Samkvæmt greinum 8.2. og 8.3. fái vélstjórar launuð frí í heimahöfn í jafnmarga virka daga og nemi unnum frídögum samkvæmt gr. 8.1.1. Þá eigi þeir jafnframt rétt á launuðu orlofi samkvæmt 12. kafla, sem sé mismunandi eftir starfsaldri.

Framangreint leiði til þess að vélstjórar á kaupskipum vinni að meðaltali 5 daga vinnuviku eins og starfsmenn í landi. Þeir fái ekki frí um hverja helgi eins og tíðkist í landi, heldur sé um sveigjanlegan vinnutíma að ræða. Á millilandaskipum hafi verið töluverðar sveiflur í tekjum á milli tímabila áður en fastlaunakerfi hafi verið tekið upp, þar sem yfirvinna og ýmsar aðrar aukagreiðslur fyrir vinnuframlag um borð greiðist ekki í fríum. Í fríum í landi á milli ferða hafi verið greidd laun fyrir þá frídaga fyrir helgar og samningsbundna frídaga sem falli á tímabilið sem vélstjóri hafi verið um borð, en ekki yfirvinna eða aðrar álagsgreiðslur sem tengist vinnu um borð í skipinu. Hafi því getað verið töluverður munur á greiðslu launa á mánuði eftir því hvort vélstjóri hafi verið í fríi í landi þann mánuð eða við vinnu um borð.

Í kjarasamningi vélstjóra sem gerður hafi verið í nóvember 2000 hafi að ósk vélstjóra verið samið um fastlaunakerfi sem hafi verið aukið og endurbætt í kjarasamningum 2004 og 2008. Með því hafi verið komið til móts við óskir starfandi vélstjóra um jöfnun launagreiðslna yfir árið og sveigjanlegri reglur varðandi skil vinnuárs. Eldri menn hafi haft hug á þeim möguleika að draga úr veru til sjós og sigla minna en sem svaraði vinnuárinu, en margir yngri menn hefðu haft hug á því að sigla meira en sem svaraði vinnuárinu. Með gr. 1.7 og bókunum um fastlaunakerfi hafi verið lagður grunnur að því að vélstjóri gæti samið við útgerð um árslaun í samræmi við samkomulag aðila um fjölda vinnudaga á ári. Umsömdum árslaunum væri svo dreift jafnt á alla mánuði ársins. Breyttust forsendur eitthvað á árinu, þannig að vinnudögum fjölgaði eða fækkaði yrðu gerðar leiðréttingar í lok ársins. Við upptöku fastlaunakerfis árið 2000 hafi verið byggt á samantekt upplýsinga á þann hátt sem gert hafi verið í launakönnun farmanna. Þar hafi verið safnað saman tölulegum upplýsingum um alla þá launaþætti sem greiddir væru í hverri stöðu yfir árið og drög að launasamningi séu grundvölluð á sömu upplýsingum varðandi viðkomandi starfsmann.

Stefndi telji sig hafa greitt stefnanda að fullu laun sem hann hafi átt rétt á samkvæmt ráðningarsamningi sínum og kjarasamningi vélstjóra á kaupskipum og reyndar ríflega það. Á árunum 2007-2008 hafi stefnandi borið meira úr býtum fjárhagslega en hann hefði gert ef veikindalaun hans hefðu verið reiknuð og greidd samkvæmt kjarasamningi.

Í varakröfu krefst stefndi þess, verði ekki fallist á sýknu, að ,,umfjöllun einskorðist ekki við hluta af greiðslu launa í uppsagnarfresti eins og gert sé í stefnu. Lagt verði mat á hvort heildarlaunagreiðslur stefnda til stefnanda á árunum 2007 og 2008 séu lægri en hann hafi átt rétt á samkvæmt kjarasamningi og dómum Hæstaréttar í málum skipverja á kaupskipum. Verði komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi kynni að eiga rétt til viðbótargreiðslna verði einungis bætt það sem samanlagðar greiðslur sem hann væri talinn eiga rétt á fyrir árin 2007-2008, að frádregnum tekjum hans við önnur störf á uppsagnartímanum“.

Þá er gerð sú krafa að vextir reiknist ekki fyrr en frá þingfestingardegi.

Niðurstaða

Eins og fram hefur komið í málinu starfaði stefnandi frá árinu 2001 til ársbyrjunar 2004 á olíuskipinu Kyndli og mt. Keili, en frá ársbyrjun 2004 hjá færeysku útgerðinni Sp/f Berg Shipping á mt. Keili til vors 2008, þegar skipið var selt til danskra kaupenda og ráðningu hans slitið. Stefndi greiddi honum laun í uppsagnarfresti, samtals 2.124.877 krónur.

Kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands um kaup og kjör vélstjóra á kaupskipum frá 1. nóvember 2000 gilti um kjör stefnanda. Í grein 1.7 í kjarasamningnum er fjallað um svonefnt fastlaunakerfi. Þar er kveðið á um að í stað þeirra fjölmörgu launaþátta sem áður mynduðu laun vélstjóra, kæmu heildarlaun. Í upphafi árs skyldi gera samkomulag milli útgerðar og vélstjóra um þann fjölda sjódaga sem áætlað væri að viðkomandi vélstjóri ynni á komandi ári. Árslaun hvers vélstjóra voru síðan reiknuð sem margfeldi heildarlauna á dag og áætlaðs fjölda sjódaga. Þannig reiknuðum árslaunum skyldi síðan dreift á alla mánuði ársins án tillits til þess hversu marga daga vélstjóri vann í hverjum mánuði. Meðal gagna málsins er starfssamningur milli stefnanda og stefnda frá 19. janúar 2004. Þar kemur fram undir liðnum laun og kjör að föst laun stefnanda séu á mánuði 293.405 krónur og daglaun reiknist 19.107 krónur. Fasta mánaðarlega greiðslan sé miðuð við 180 skráningardaga á ársgrundvelli. Í samræmi við framangreindan starfssamning greiddi stefndi stefnanda laun í uppsagnarfresti í 5 mánuði, samtals 2.124.877 krónur. Með greiðslu sinni á framangreindri fjárhæð til stefnanda verður að telja fram komið að stefndi hafi talið að við sölu skipsins úr landi, sem stefnandi starfaði á, hafi ráðningu stefnanda verið lokið og að stefnandi hafi af þeim sökum átt rétt á bótum samkvæmt 25. gr. sjómannalaga.

Af launaseðlum sem lagðir hafa verið fram í málinu sem og framangreindu uppgjöri launa í uppsagnarfresti, er ljóst að föstu launin hafa hækkað frá því að framangreindur starfssamningur var gerður og daglaunin hafa einnig hækkað samkvæmt skjölum sem stefndu lögðu fram við endurupptöku málsins, í 27.427 krónur á dag.

                Stefnandi heldur því fram að laun í uppsagnarfresti séu ekki að fullu uppgerð. Til stuðnings því hefur stefnandi vísað til fordæma Hæstaréttar, einkum dóms í máli Guðna Þórs Gunnarssonar gegn Burðarási hf., nr. 202/2004, en í þeim dómi er vísað til dóms Hæstaréttar í dómasafni 1990 á bls. 1246. Með síðargreindum dómi Hæstaréttar frá árinu 1990 var mörkuð sú stefna við skýringu á 25. gr. sjómannalaga, að bætur skyldu miðast við kaup viðkomandi sjómanns fyrir fulla vinnu á öllum uppsagnarfrestinum, og hefur Hæstiréttur fylgt því fordæmi í síðari dómum. Verður með hliðsjón af framangreindu ekki talið unnt að beita annarri skýringu á þessu ákvæði gagnvart stefnanda, en gert hefur verið með framangreindum dómum. Verður því krafa stefnanda, sem miðuð er við þær forsendur sem dómur Hæstaréttar í máli nr. 202/2004 er byggður á, tekin til greina, eins og nánar greinir í dómsorði.

Varakrafa stefnda ,,um að lagt verði mat á hvort heildarlaunagreiðslur stefnda til stefnanda á árunum 2007 og 2008 séu lægri en hann hafi átt rétt á samkvæmt kjarasamningi og dómum Hæstaréttar í málum skipverja á kaupskipum“ felur ekki í sér eiginlega ákveðna kröfugerð og er dóminum því ekki unnt að taka til afstöðu til hennar. Hið sama á við um þá kröfu stefnda að ,,ef stefnandi kynni að eiga rétt til viðbótargreiðslna verði einungis bætt það sem samanlagðar greiðslur sem hann væri talinn eiga rétt á fyrir árin 2007-2008, að frádregnum tekjum hans við önnur störf á uppsagnartímanum“. Ekki er um að ræða ákveðna kröfugerð sem dómurinn getur tekið afstöðu til, en auk þess þarf stefnandi, sem gegndi stöðu vélstjóra, ekki að sæta frádrætti á kröfu vegna launa í uppsagnarfresti, vegna tekna annars staðar frá á uppsagnarfresti.

Þegar allt framangreint er virt verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda stefnufjárhæð, 2.124.877 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2008 til greiðsludags.

Þá verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 450.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Olíudreifing ehf., greiði stefnanda Gunnari Einarssyni, 2.124.877 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2008 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.