Hæstiréttur íslands

Mál nr. 240/2007


Lykilorð

  • Örorkulífeyrir
  • Dráttarvextir
  • Fyrning


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. desember 2007.

Nr. 240/2007.

Stapi lífeyrissjóður

(Árni Pálsson hrl.)

gegn

Brynjari Aðalsteini Sigurðssyni

(Benedikt Ólafsson hrl.)

 

Örorkulífeyrir. Dráttarvextir. Fyrning.

Með héraðsdómi 18. mars 2004 var fallist á kröfu B um að viðurkennt yrði að réttindi hans í lífeyrissjóðnum A væru með tilteknum hætti. Í samræmi við þessa niðurstöðu greiddi sjóðurinn 1. júní 2004 honum vangreiddan örorkulífeyri frá maí 1998 til og með maí 2004 með verðbótum en dró frá fjárhæðinni staðgreiðslu opinberra gjalda. Ágreiningur reis milli aðila hvort B ætti rétt á að fá greidda dráttarvexti af ógreiddum mánaðarlegum lífeyrisgreiðslum frá einstökum gjalddögum hans. Þá deildu aðilar um hvort rétt hefði verið að draga staðgreiðslu opinberra gjalda frá greiðslunni. Í dómi Hæstaréttar var talið að lífeyrissjóðurinn hafi staðið rétt að frádrætti staðgreiðslunnar. Þá þóttu atvik vera með þeim hætti að sjóðurinn hefði sjálfur borið ábyrgð á að full greiðsla hafði ekki verið innt af hendi til B. Hefði honum því borið skylda til að greiða dráttarvexti af því sem ógreitt hafði verið við hvern gjalddaga. Lífeyrissjóðurinn bar einnig fyrir sig að dráttarvextirnir væru fyrndir að minnsta kosti að hluta. Talið var að lögsókn B í desember 2001 og júní 2003 á hendur sjóðnum, þar sem í báðum tilvikum var krafist viðurkenningar á tilteknum réttindum í sjóðnum, hefði ekki nægt til að rjúfa fyrningu vaxtakröfu B. Var því einungis fallist á kröfu B um greiðslu dráttarvaxta sem höfðu fallið til á fjórum árum næst á undan stefnubirtingardegi 11. nóvember 2005. Aðilar voru sammála um að ekki bæri að greiða hvort tveggja verðbætur og dráttarvexti á sömu lífeyrisgreiðslur. Verðbætur sem voru greiddar vegna tímabilsins frá 11. nóvember 2001 til 1. júní 2004 komu því til frádráttar kröfu B.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. maí 2007. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Upplýst var við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti að Lífeyrissjóður Norðurlands og Lífeyrissjóður Austurlands hafi sameinast undir nafninu Stapi lífeyrissjóður sem tekur við aðild málsins sóknarmegin.

I

Málavextir eru raktir í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram hafði stefndi þegið örorkulífeyri frá áfrýjanda frá því í maí 1998. Til deilna kom milli málsaðila um fjárhæð lífeyris sem stefnda bæri samkvæmt samþykktum áfrýjanda. Stefndi höfðaði viðurkenningarmál á hendur áfrýjanda 20. desember 2001 sem vísað var frá dómi 23. maí 2003. Hann höfðaði mál á ný 12. júní 2003 og gekk dómur 18. mars 2004 þar sem viðurkennt var „að við framreikning á réttindum“ stefnda hjá áfrýjanda skyldi „fara eftir grein 19.3 í samþykktum sjóðsins.“ Með bréfi 29. maí 2004 tilkynnti áfrýjandi að hann myndi ekki áfrýja dóminum. Hinn 1. júní 2004 greiddi hann stefnda 2.172.027 krónur samkvæmt yfirliti sem hann hafði gert um breyttan útreikning lífeyris fyrir tímabilið maí 1998 til og með maí 2004. Greiðslan sundurliðaðist þannig að 3.041.566 krónur voru vangreiddar örorkubætur frá maí 1998 til og með maí 2004, verðbætur vegna mánaðarlegra greiðslna sama tímabil voru 494.785 krónur og frá var dregin staðgreiðsla opinberra gjalda 1.364.324 krónur. Telur áfrýjandi að með greiðslunni hafi hann að fullu staðið í skilum við stefnda í samræmi við nefndan dóm.

Stefndi telur hins vegar að ekki hafi verið um fullnægjandi greiðslu að ræða þar sem honum hafi borið dráttarvextir af ógreiddum mánaðarlegum lífeyri frá einstökum gjalddögum hans auk þess sem hann mótmælir frádrætti vegna staðgreiðslu opinberra gjalda. Byggir hann kröfu sína á nefndu yfirliti frá áfrýjanda og hagar kröfunni þannig að hann reiknar dráttarvexti af mismun þess sem greitt var á hverjum gjalddaga og þess sem greiða hefði átt samkvæmt yfirlitinu, þó þannig að hann reiknar dráttarvexti á lífeyrisfjárhæðir án verðbóta. Þannig reiknar hann dráttarvexti frá maí 1998 til 1. júní 2004 samtals 2.353.683 krónur sem auk vangreidds örorkulífeyris 3.041.566 krónur nema 5.395.249 krónum. Frá þessari fjárhæð dregur stefndi svo 2.172.027 krónur sem er greiðsla áfrýjanda 1. júní 2004 og fær þannig höfuðstól dómkröfu sinnar 3.223.222 krónur. Sú fjárhæð var tekin til greina í hinum áfrýjaða dómi og dæmd með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2004 til greiðsludags.

II

Í máli þessu er í fyrsta lagi deilt um hvort áfrýjanda hafi við greiðsluna 1. júní 2004 verið rétt að draga frá 1.364.324 krónur vegna staðgreiðslu opinberra gjalda líkt og hann gerði. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 5. gr., 15. gr. og 20. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda stóð áfrýjandi rétt að málum hvað þetta varðar. Verður því ekki fallist á með stefnda að hann eigi rétt á að fá þessa fjárhæð í hendur.

III

Í öðru lagi er deilt um hvort áfrýjandi skuli greiða dráttarvexti allt frá maí 1998 af þeim örorkulífeyri sem hann greiddi stefnda 1. júní 2004, en í hinum áfrýjaða dómi var fallist á þá kröfu stefnda með þeim rökum að með birtingu stefnu 20. desember 2001 í hinu fyrra vefengingarmáli hafi hann rofið fyrningu dráttarvaxtakröfu.

Gjalddagar örorkulífeyris eru ákveðnir mánaðarlega eftirá. Sé gjalddagi fyrir fram ákveðinn er mælt svo fyrir í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 að kröfuhafa sé heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Niðurstaða áðurnefnds héraðsdóms 18. mars 2004 var byggð á því að sjúkdómurinn sem lá til grundvallar lífeyriskröfu stefnda væri ekki sá sami og hann hefði haft áður en hann tók að greiða iðgjöld til áfrýjanda. Nægilega væri sannað að örorka stefnda yrði rakinn til veikinda hans eftir að hann gerðist sjóðsfélagi hjá áfrýjanda. Stefndi hafði frá upphafi byggt kröfu sína um lífeyri á því að hann ætti rétt til óskerts lífeyris. Við þessar aðstæður verður að telja að hvílt hafi á áfrýjanda skylda til að sanna að stefndi ætti ekki rétt á fullum örorkulífeyri frá honum á þeim grunni að um sama sjúkdóm væri að ræða. Getur hann því ekki reist synjun á að greiða dráttarvexti á því að skort hafi upplýsingar frá stefnda. Ber áfrýjandi sjálfur ábyrgð á því að full greiðsla fór ekki fram. Verður af þeim sökum fallist á með stefnda að áfrýjanda hafi borið skylda til að greiða dráttarvexti af því sem ógreitt var við hvern gjalddaga.

Áfrýjandi hefur teflt fram þeirri málsástæðu að hvað sem öðru líði séu dráttarvextir sem kunni að hafa fallið á kröfu stefnda fyrndir að minnsta kosti að hluta. Auk þess telur hann að líta beri til þess að hann hafi 1. júní 2004 greitt stefnda umfram skyldu. Telur hann, hvað sem öðru líður, að ekki geti falist í slíkri greiðslu viðurkenning til skyldu á greiðslu dráttarvaxta af þeim lífeyri sem hann hafi þannig greitt umfram skyldu. Stefndi hefur hins vegar haldið því fram að fyrning dráttarvaxtakröfu hans hafi verið rofin með birtingu stefnu í hinu fyrsta máli milli aðila. Auk þess hafi áfrýjandi viðurkennt greiðsluskyldu sína á dráttarvöxtum með framangreindri greiðslu 1. júní 2004.

Samkvæmt 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda fyrnast gjaldkræfir vextir á fjórum árum frá gjalddaga óháð stofnkröfu. Í hvorugu fyrri mála, sem að framan eru nefnd, gerði stefndi fjárkröfur á hendur áfrýjanda. Í fyrsta málinu þótti málatilbúnaður og dómkrafa stefnda svo óljós að kröfu hans var vísað frá dómi, en í öðru málinu var krafa stefnda tekin til greina á þann veg „að við framreikning á réttindum“ stefnda í áfrýjanda skyldi „fara eftir grein 19.3 í samþykktum sjóðsins.“ Lögsókn af þessu tagi nægir ekki til að rjúfa fyrningu vaxtakröfu stefnda. Samkvæmt þessu verður áfrýjandi einungis dæmdur til greiðslu dráttarvaxta fjögur ár aftur í tímann frá því að mál þetta var höfðað í héraði, eða þeirra dráttarvaxta sem féllu til eftir 11. nóvember 2001 en stefna í málinu var birt 11. nóvember 2005. Þá verður ekki fallist á með stefnda að tilgreind greiðsla áfrýjanda 1. júní 2004 á höfuðstól örorkulífeyris ásamt vísitölu hafi falið í sér viðurkenningu áfrýjanda á greiðsluskyldu dráttarvaxta sem rofið hafi fyrningu þeirra samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905.

Þegar afstaða er tekin til kröfu stefnda um dráttarvexti eftir 1. júní 2004 verður að líta svo á að greiðsla áfrýjanda þann dag hafi gengið fyrst inn á áfallna ófyrnda dráttarvexti og verður við úrlausn málsins að leggja til grundvallar að eftir hafi þá staðið hluti stofnkröfunnar sem beri dráttarvexti frá þessum tíma. Samkvæmt yfirlitinu sem fyrr getur námu verðbætur á þær lífeyrisgreiðslur sem gjaldféllu eftir 11. nóvember 2001 samtals 65.455 krónum. Þessar verðbætur voru innifaldar í greiðslunni 1. júní 2004. Eins og aðilar hafa hagað málflutningi sínum eru þeir sammála um að ekki beri að greiða hvort tveggja verðbætur og dráttarvexti á sömu lífeyrisgreiðslur. Kemur þessi verðbótagreiðsla til frádráttar kröfu stefnda miðað við greiðsludaginn 1. júní 2004. Samkvæmt þessu verður krafa stefnda tekin til greina með þeim hætti að áfrýjandi verður dæmdur til að greiða honum dráttarvexti af samanlagðri fjárhæð lífeyris sem gjaldfallinn var en ógreiddur 11. nóvember 2001 og síðan bætast við höfuðstólinn, sem dráttarvextir reiknast af, mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur til 1. júní 2004. Framangreind verðbótagreiðsla dregst frá miðað við þann dag en sú skuld sem þá stendur eftir verður látin bera dráttarvexti frá þessum degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda í málskostnað fyrir Hæstarétti þá fjárhæð sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Stapi lífeyrissjóður, greiði stefnda, Brynjari Aðalsteini Sigurðssyni, dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.654.114 krónum frá 11. nóvember 2001 til 1. desember 2001, af 1.697.431 krónu frá þeim degi til 1. janúar 2002, af 1.740.907 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2002, af 1.784.581 krónu frá þeim degi til 1. mars 2002, af 1.828.653 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2002, af 1.872.606 krónum frá þeim degi til 1. maí 2002, af 1.916.738 krónum frá þeim degi til 1. júní 2002, af 1.960.890 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2002, af 2.005.022 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2002, af 2.049.353 krónum frá þeim degi til 1. september 2002, af 2.093.724 krónum frá þeim degi til 1. október 2002, af 2.137.856 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2002, af 2.182.207 krónum frá þeim degi til 1. desember 2002, af 2.226.797 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2003, af 2.271.307 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2003, af 2.315.857 krónum frá þeim degi til 1. mars 2003, af 2.360.566 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2003, af 2.405.196 krónum frá þeim degi til 1. maí 2003, af 2.450.302 krónum frá þeim degi til 1. júní 2003, af 2.495.469 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2003, af 2.540.556 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2003, af 2.585.682 krónum frá þeim degi til 1. september 2003, af 2.630.750 krónum frá þeim degi til 1. október 2003, af 2.675.778 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2003, af 2.721.123 krónum frá þeim degi til 1. desember 2003, af 2.766.687 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2004, af 2.812.311 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2004, af 2.858.074 krónum frá þeim degi til 1. mars 2004, af 2.903.857 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2004, af 2.949.501 krónu frá þeim degi til 1. maí 2004, af 2.995.404 krónum frá þeim degi til 1. júní 2004, en af 3.041.566 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 65.455 krónum sem greiddar voru 1. júní 2004.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. mars 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 23. þ.m. hefur Brynjar Aðalsteinn Sigurðsson, kt. 021269-5499, Múlasíðu 3B, Akureyri, höfðað með stefnu birtri 11. nóvember 2005, á hendur Lífeyrissjóði Norðurlands, kt. 601092-2559, Strandgötu 3, Akureyri. 

 

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda kr. 3.223.222,- ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2004 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningi, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. 

 

Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningi eða mati dómsins.  Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. 

Málið var upphaflega flutt 25. október sl., en dómuppsögu var ekki á komið innan lögmæts frests vegna veikindafjarveru dómara.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að stefnandi, sem er öryrki, hefur þegið örorkulífeyri frá stefnda frá því í maí 1998.  Við ákvörðun um fjárhæð lífeyris stefnanda taldi stefndi að við ætti ákvæði í samþykktum stefnda sem leiddi til skerðingar á þeirri fjárhæð.  Því vildi stefnandi ekki una og höfðaði hann mál á hendur stefnda, með stefnu birtri 20. desember 2001, þar sem stefnandi krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að stefnda væri skylt að framreikna stefnanda að fullu frá 1. maí 1998 örorkulífeyri samkvæmt áunnum réttindum hans og óheimilt væri að beita skerðingarákvæðum skv. gr. 19.4.5. í samþykktum sjóðsins.  Var máli þessu vísað frá dómi með úrskurði uppkveðnum 23. maí 2003.  Stefnandi höfðaði að nýju mál á hendur stefnda með stefnu birtri 12. júní 2003.  Krafðist hann þess að stefndi yrði dæmdur til að greiða honum að fullu útreiknaðan, samkvæmt grein 19.3. í samþykktum stefnda, örorkulífeyri frá 1. maí 1998 að telja og eftirleiðis meðan réttur til slíks héldist.  Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, upp kveðnum 18. mars 2004, var viðurkennt að við framreikning á réttindum stefnanda á hendur stefnda skyldi farið eftir grein 19.3 í samþykktum sjóðsins.  Með bréfi dags. 29. maí 2004 tilkynnti stjórn stefnda að hún hygðist ekki áfrýja dóminum og fylgdi með bréfinu yfirlit stefnda um breyttan framreikning á greiðslum til stefnanda fyrir tímabilið maí 1998 til og með maí 2004 í samræmi við niðurstöðu dómsins.  Var tilkynnt að 1. júní 2004 yrðu stefnanda greiddar kr. 2.172.027,- og fjárhæðin sundurliðuð þannig:

   Ógreiddar örorkubætur frá maí 1998 til maí 2004                                        kr.            3.041.566,-      

   Verðbætur á mánaðarlegar greiðslur til 1. júní 2004                                   kr.               494.785,-

   Afdregin staðgreiðsla                                                                                    kr.         (1.364.324,-)                                       kr.                                                                                                                2.172.027,-

Lagði stefndi ofangreinda fjárhæð inn á reikning stefnanda þann 1. júní 2004.  Í máli þessu deila aðiljar um réttmæti þess uppgjörs sem fram fór í kjölfar áðurgreinds dóms Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 18. mars 2004. 

Málsástæður og lagarök stefnanda. 

Stefnandi byggir kröfu sína á því að í stað þess að reikna verðbætur á vangoldnar greiðslur hefði átt að reikna dráttarvexti.  Hann hafi þegar sett þá kröfu fram við stefnda en verið synjað.  Kveður stefnandi kröfu sína grundvallaða á sundurliðuðum útreikningi stefnda sjálfs á þeim mánaðarlegu greiðslum sem stefndi hafi vanefnt að greiða stefnanda fyrir tímabilið frá maí 1998 til maí 2004, samtals kr. 3.041.566,-.  Reiknaðir séu dráttarvextir á vangoldnar greiðslur frá gjalddaga hverrar vangoldinnar greiðslu til 1. júní 2004.  Þann dag hafi áfallnir dráttarvextir numið kr. 2.353.683,- og stefnda hafi því  borið að greiða stefnanda kr. 5.395.249,- þann dag.  Hann hafi hins vegar aðeins greitt kr. 2.172.027,- og ógreiddar eftirstöðvar þann 1. júní 2004 hafi því numið kr. 3.223.222,- sem sé stefnufjárhæðin í máli þessu. 

Stefnandi byggir á því að hann hafi þegar í upphafi mótmælt þeirri skerðingu sem hann var látinn sæta á lífeyrisgreiðslum sínum samkvæmt ákvörðun stefnda.  Hann hafi sótt rétt sinn fyrir dómi og fengið þar viðurkenningu á kröfum sínum. 

Kveðst stefnandi byggja á því að stefndi hafi viðurkennt greiðsluskyldu sína, stefndi hafi sjálfur reiknað vangoldnar greiðslur til stefnanda og viðurkennt að greiða bæri verðbætur á hinar vangoldnu greiðslur. 

Stefnandi byggir á því að ógreiddar lífeyrisgreiðslur til hans hafi gjaldfallið á þeim dögum sem tilgreindir séu í yfirliti stefnda frá 29. maí 2004 og samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur beri að greiða dráttarvexti af ógreiddri peningakröfu frá gjalddaga hennar til greiðsludags.  Hliðstætt ákvæði hafi verið í 1. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 sem gilt hafi til 1. júlí 2001. 

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til almennra reglna íslensks kröfuréttar og til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Krafa um málskostnað byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991. 

Málsástæður og lagarök stefnda. 

Stefndi kveðst byggja á því að kröfugerð stefnanda standist ekki og tilgreinir hann nokkur atriði sem hann telur valda því.  Stefndi byggir á að taka hefði átt tillit til staðgreiðslu af örorkulífeyri, kr. 1.364.324,- miðað við stefnufjárhæð.  Örorkulífeyrir sé skattskyldur og óumdeilanlega hluti af þeirri fjárhæð sem stefnanda var greidd á grundvelli dómsins.  Sé tekið til innborgunar að fullu ætti stefnufjárhæðin að vera kr. 1.858.898,-. 

Í stefnu komi einnig fram að greiddar hafi verið verðbætur á greiðslur til stefnanda.  Miðað við kröfugerð hans verði að ganga út frá því að hann krefjist dráttarvaxta auk verðtryggingar, en það fái vart staðist.  Í 16. gr. laga nr. 25/1987 hafi verið ákvæði um að verðbætur falli niður ef greiða beri dráttarvexti af kröfu.  Í lögum nr. 38/2001 sé ekki samhljóða ákvæði en ekki verði séð af III. og IV. kafla þeirra laga að ætlunin hafi verið að breyta þessu.  Stefndi telur því kröfugerð stefnanda að þessu leyti ekki samræmast framangreindum lögum um vexti. 

Stefndi vísar til þess að í stefnu sé engar skýringar að finna við útreikning stefnanda á dráttarvöxtum fram til 1. júní 2004.  Þó virðist skýrt að dráttarvextir séu reiknaðir ofan á verðtryggingu.  Stefnufjárhæðin sé aðeins byggð á dráttarvöxtum og svo sé gerð krafa um að fá dæmda dráttarvexti á stefnufjárhæðina frá 1. júní 2004.  Krafan sé því ekki í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.  Hafa verði í huga að krafa um dráttarvexti hafi ekki verið fram komin af hálfu stefnda þegar greitt var 1. júní 2004. 

Þá kveðst stefndi jafnframt byggja á því að nokkur hluta vaxtanna sé fyrndur.  Stefna málsins hafi verið birt 11. nóvember 2005 svo að vextir, eldri en frá 11. nóvember 2001, séu fyrndir, sbr. 2. töl. 3. gr. laga nr. 14/1905.  Það hafi veruleg áhrif á útreikning stefnufjárhæðar og því útilokað, miðað við framsetningu kröfunnar, að átta sig á réttmæti hennar.  Þá gerir stefndi einnig athugasemdir við upphafsdag dráttarvaxta. 

Í ljósi framangreinds verði að telja málatilbúnað stefnanda þannig að ekki sé unnt að leggja dóm á málið eins og það liggi fyrir. 

Stefndi kveður stefnanda ekki geta átt rétt til dráttarvaxta vegna ranglega reiknaðs örorkulífeyris fyrr en eftir að dómur var upp kveðinn í málinu E-393/2003.  Aðilar hafi deilt um það hvernig framreikna bæri réttindi stefnanda hjá stefnda og úr þeim ágreiningi hafi verið skorið með fyrrnefndum dómi.  Til grundvallar þeim útreikningi sem stefndi hafi byggt framreikninginn á hafi verið læknisvottorð framlögð af stefnanda, álit trúnaðarlæknis stefnda og tryggingafræðings.  Á þeim grunni hafi verið talið rétt að framreikna samkvæmt grein 19.4.5. í samþykktum stefnda.  Stefndi hafi verið bundinn af samþykktum sínum og því óheimilt að fenginni faglegri umsögn að haga útreikningi lífeyris með öðrum hætti en gert var. 

Stefnandi hafi fyrst höfðað mál vegna ágreinings aðila þann 20. desember 2001.  Hann hafi byggt þá málssókn á því að grein 19.4.5. væri andstæð lögum nr. 129/1997 og útreikningurinn andstæður stjórnarskrá.  Undir rekstri þess máls hafi verið aflað matsgerðar þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið um að ræða sama sjúkdóm fyrir og eftir að stefnandi hóf töku örorkulífeyri hjá stefnda.  Málinu hafi verið vísað frá dómi en í nýju máli hafi eingöngu verið byggt á matsgerðinni og grundvöllur þess því allt annar en í hinu fyrsta máli.  Bæði málin hafi verið viðurkenningarmál þar sem stefnandi hafi ekki gert fjárkröfur á hendur stefnda.

Samkvæmt framansögðu telji stefndi að hann hafi ekki verið í vanskilum með greiðslu örorkulífeyris á þeim tíma sem krafa stefnanda tekur til og því beri honum ekki að greiða dráttarvexti.  Eins og áður greini sé stefndi bundinn af samþykktum sínum og beri að fara í einu og öllu eftir þeim, sbr. 27. gr. laga nr. 129/1997.  Sú framkvæmd sem stefndi hafi fylgt hafi verið í samræmi við áralanga túlkun á samþykktum lífeyrissjóða í landinu.  Dráttarvextir séu lögbundnar skaðabætur ef vanskil verði á greiðslu kröfu um peninga, því telji stefndi að um vanskil þurfi að vera að ræða svo unnt sé að krefjast dráttarvaxta.  Þetta komi m.a. fram í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, þar sem fram komi að hafi gjalddagi verið ákveðinn fyrirfram geti kröfuhafi krafist dráttarvaxta ef ekki sé greitt á gjalddaga.  Í stefnu sé á því byggt að ógreiddur lífeyrir hafi gjaldfallið á fyrirfram ákveðnum gjalddögum og því beri að greiða dráttarvexti samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2001.  Stefndi telji þetta sjónarmið ekki eiga við því stefnanda hafi verið greitt í samræmi við viðurkennda túlkun á samþykktum stefnda og því ekki um vanskil að ræða. 

Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi farið í viðurkenningarmál en ekki sett fram kröfu um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar.  Dómurinn hafi því ekki falið í sér greiðsluskyldu fyrir stefnda.  Eftir að stefndi hafi tekið ákvörðun um að una dóminum hafi verið greitt eins fljótt og kostur var.  Í ljósi þess geti stefnandi ekki byggt á því að um vanskil hafi verið að ræða af hálfu stefnda.  Stefndi hafi greitt umfram skyldu samkvæmt dóminum því greiddar hafi verið verðbætur á örorkulífeyrinn auk þess sem stefndi hafi ekki borið fyrir sig fyrningu.

Stefnandi byggi á því að honum beri dráttarvextir vegna þess að hann hafi mótmælt því hvernig staðið var að framreikningi en stefndi geti ekki fallist á að mótmæli stefnanda við útreikningnum valdi því að stefnda beri að greiða dráttarvexti. 

Þá byggi stefnandi á því að stefndi hafi viðurkennt greiðsluskyldu sína en langsótt sé að halda því fram að slík viðurkenning felist í því að una dómi. 

Varðandi varakröfu stefnda bendir stefndi á að verulegur hluti af kröfum stefnanda sé fyrndur, sbr. 2. töl. 3. gr. laga nr. 14/1905.  Krafa stefnanda fyrnist á fjórum árum og ekki verði séð að fyrning hafi verið rofin fyrr en með birtingu stefnu í máli þessu.  Stefndi telji að ekki geti komið til álita að reikna dráttarvexti á þann hluta kröfu stefnanda sem var fyrndur þegar greitt var 1. júní 2004.  Það eitt að stefndi hafi kosið að greiða fyrndan hluta kröfunnar feli ekki í sér viðurkenningu á lögmæti hennar.  Þá verði að hafa í huga að krafan sé í raun um dráttarvexti frá 1. maí 1998, sem hafi verið reiknaðir út og myndi þannig höfuðstól.  Við blasi að sá hluti höfuðstóls kröfunnar sem sé eldri en frá 11. nóvember 2001 sé fyrndur. 

Stefndi vísar til umfjöllunar sinnar um kröfugerð stefnanda þar sem bent var á að staðgreiðsla skatta sem haldið var eftir af greiðslunni til stefnanda sé ekki dregin frá stefnufjárhæðinni.  Byggir stefndi á að lækka beri stefnukröfur sem því nemi. 

Þá ítrekar stefndi þær athugasemdir sem áður greinir varðandi útreikning á kröfunni.  Reiknaðir séu dráttarvextir á verðtryggðar greiðslur en það eigi ekki stoð í lögum. 

Þá mótmælir stefndi upphafstíma dráttarvaxta og vísar aftur til þess að stefnufjárhæðin sé eingöngu byggð á dráttarvöxtum frá 1. maí 1998 til 1. júní 2004.  Dráttarvextir séu reiknaðir af fyrndum hluta kröfunnar og það hljóti að leiða til lækkunar hennar. 

Stefndi vísar einnig til þess að í fyrsta máli stefnanda á hendur stefnda hafi ekki verið byggt á þeirra málsástæðu sem dómur í máli nr. E-393/2003 var byggður á.  Málsástæðan hafi verið að um hefði verið að ræða tvo aðskilda sjúkdóma sem urðu þess valdandi að stefnandi var metinn öryrki.  Þessar upplýsingar hafi fyrst komið fram í matsgerð, dagsettri 3. apríl 2002, og upphafstími dráttarvaxta hljóti því í fyrsta lagi að geta verið mánuði að matsgerðin kom fram. 

Varðandi varakröfu stefnda ítrekar hann loks fyrirvara sína við útreikning kröfu stefnanda. 

Niðurstaða. 

Í máli þessu liggur fyrir að stefnandi hóf töku örorkulífeyris frá stefnda í maí 1998.  Greindi aðilja á um eftir hvaða reglum bæri að reikna lífeyrinn og höfðaði stefnandi mál vegna þess ágreinings með stefnu birtri 20. desember 2001.  Því máli var vísað frá dómi með úrskurði upp kveðnum 23. maí 2003 og höfðaði stefnandi mál að nýju með stefnu birtri 12. júní 2003.  Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, uppkveðnum 18. mars 2004, var viðurkennt að við framreikning á réttindum stefnanda í stefnda skyldi farið eftir tilteknum reglum í samþykktum stefnda.  Í kjölfarið var af hálfu stefnda reiknaður út mismunur þess sem stefnandi hafði fengið greitt og því sem hann hefði átt að fá greitt samkvæmt þeirri reglu sem dómurinn mælti um að leggja bæri til grundvallar.  Var mismunurinn kr. 3.041.566,-.  Við þá upphæð lagði stefndi verðbætur að fjárhæð kr. 494.785,- en dró frá staðgreiðslu kr. 1.364.324,-.  Samkvæmt því voru stefnanda greiddar kr. 2.172.027,- þann 1. júní 2004.  Í máli þessu byggir stefnandi hins vegar á því að í stað verðbóta hafi stefnda borið að greiða dráttarvexti af vangoldnum greiðslum.  Liggur fyrir útreikningur stefnanda á dráttarvöxtum á vangoldna greiðslu hvers mánaðar frá maí 1998 til maí 2004 en samkvæmt þeim útreikningum hefði stefnda borið að greiða stefnanda kr. 5.395.249,- þann 1. júní 2004.  Hins vegar hafi hann aðeins greitt kr. 2.172.027.- og séu ógreiddar kr. 3.223.222,- sem sé stefnufjárhæðin.  Útreikningur stefnanda á dráttarvöxtum byggir á útreikningum stefnda sjálfs á mismun þess lífeyris sem stefnandi hafði fengið greiddan og þess sem honum bar í hverjum mánuði samkvæmt niðurstöðu áðurgreinds dóms.  Ekki er gerð krafa um dráttarvexti til viðbótar við verðbætur eins og haldið er fram af hálfu stefnda. 

Samkvæmt áðurgreindum dómi frá 18. mars 2004 bar að reikna lífeyri stefnanda eftir tilteknum reglum.  Hafði stefndi reiknað stefnanda lægri lífeyri en hann átti rétt á allt frá 1. maí 1998 til 1. júní 2004 og vanefndi þannig hluta greiðsluskyldu sinnar um hver mánaðarmót.  Verður ekki fallist á að máli skipti að stefndi hafi byggt ákvörðun sína um fjárhæð lífeyrisins á samþykktum stefnda, í samræmi við áralanga túlkun, eða það að mótmæli stefnanda við fjárhæðinni hafi í upphafi byggst á öðrum grunni en síðar varð.  Með vísan til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 er því fallist á með stefnanda að hann eigi rétt til greiðslu dráttarvaxta vegna vanefnda stefnda. 

Varðandi þá málsástæðu stefnda að ekki sé í kröfugerð stefnanda tekið tillit til staðgreiðslu opinberra gjalda þá er það svo að stefnandi á rétt til tiltekins lífeyris óháð því hvort honum ber að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum af lífeyrinum til hins opinbera.  Hefur sú skylda því ekki áhrif á þann stofn sem lagður verður til grundvallar við útreikning dráttarvaxta. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið um málsatvik verður að telja, að frá því að með birtingu stefnu þann 20. desember 2001, hafi stefnandi rofið fyrningu þó svo að málið hafi í upphafi verið höfðað sem viðurkenningarmál.  Hefur hann frá því að það mál var höfðað staðið í málaferlum á hendur stefnda í því skyni að ná fram rétti sínum til greiðslu örorkulífeyris úr hendi stefnda á tímabili sem hófst þann 1. maí 1998.  Þó svo að í upphafi hafi ekki verið sett fram afmörkuð fjárkrafa auk kröfu um dráttarvaxta gerði stefnandi kröfu um að stefndi greiddi þann lífeyri sem vangreiddur var og verður talið að greiðsla dráttarvaxta sé liður í réttum efndum þeirrar kröfu.  Er því ekki fallist á að krafa stefnanda sé fyrnd.

Samkvæmt framangreindu er krafa stefnanda tekin til greina að fullu. 

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður lögmanns stefnanda, Benedikts Ólafssonar hrl. skv. málskostnaðarreikningi alls kr. 1.350.107,- sem sundurliðast þannig: tímagjald kr. 1.055.920,- útlagður kostnaður kr. 28.503,- virðisaukaskattur kr. 265.684,- greiðist úr ríkissjóði.

Dóminn kveður upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson héraðsdómari. 

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Lífeyrissjóður Norðurlands, greiði stefnanda, Brynjari Aðalsteini Sigurðssyni, kr. 3.223.222,- ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. júní 2004 til greiðsludags. 

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda alls kr. 1.350.107,- greiðist úr ríkissjóði.