Hæstiréttur íslands

Mál nr. 382/1998


Lykilorð

  • Vátrygging
  • Matsgerð


Fimmtudaginn 11

Fimmtudaginn 11. mars 1999.

Nr. 382/1998.

Vélin sf.

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Tryggingu hf.

(Valgeir Pálsson hrl.)

Vátrygging. Matsgerð.

Eldur kom upp í húsnæði V og skemmdist m.a. vörulager sem tryggður var hjá T. Vátryggingarverðmæti hans var 6.930.000 kr. Niðurstaða dómkvaddra matsmanna var að verðmæti þess hluta vörulagersins sem skemmdist væri 2.916.727 kr. Vegna tjónsins greiddi T bætur til V, auk málskostnaðar og dráttarvaxta, alls 4.733.713 kr. V krafðst frekari bóta á grundvelli þess að afgangur af vörulager væri í reynd óseljanlegur, þá krafðist V umönnunarkostnaðar vegna vörulagers, auk geymslukostnaðar, mats- og flutningskostnaðar og málskostnaðar. Talið var ósannað að V hafi, miðað við vátryggingaverðmæti hins tryggða, ekki fengið tjón sitt að fullu bætt. Var niðurstaða héraðsdóms um að sýkna bæri T af kröfum V staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. september 1998. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 8.336.289 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. október 1994 til 1. ágúst 1997, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi annarrar lægri fjárhæðar með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Til frádráttar komi samtals 4.733.713 krónur, sem stefndi hafi innt af hendi til áfrýjanda með nánar tilteknum greiðslum 20. og 31. október 1994, 29. júní 1995 og 16. mars 1998. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafa áfrýjanda verði lækkuð og beri aðeins dráttarvexti frá uppsögu dóms, en málskostnaður falli niður. Til þrautavara gerir stefndi sömu kröfur og greinir í varakröfu að öðru leyti en því að dráttarvextir verði aðeins dæmdir frá þingfestingu málsins í héraði, 17. febrúar 1998.

Aðalkrafa áfrýjanda er sundurliðuð í héraðsdómi. Varakrafa áfrýjanda er reist á þeirri málsástæðu, að í matsgerð, sem nánar er greint frá í héraðsdómi, hafi andvirði vörubirgða, sem deilt er um vátryggingarbætur fyrir, ranglega verið miðað við smásöluverð í stað innkaupsverðs. Málsástæða þessi, sem kom fyrst fram við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti, er of seint fram komin og verður ekki á henni byggt. Kemur varakrafa áfrýjanda því ekki frekar til álita.

Fallist verður á það með héraðsdómara, að ákvæði 7. gr. vaxtalaga verði ekki beitt um rétt áfrýjanda til vaxta úr hendi stefnda, enda er krafa áfrýjanda ekki um skaðabætur, heldur er hún reist á vátryggingarsamningi. Með þessari athugasemd verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest með vísan til forsendna hans.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vélin sf., greiði stefnda, Tryggingu hf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 1998.

                Mál þetta, sem dómtekið var 2. júní síðastliðinn, er höfðað með stefnu, þingfestri 17. febrúar 1998.

                Stefnandi er Vélin sf., kt. 570174-1189, Eldshöfða 17, Reykjavík.

                Stefndi er Trygging hf., kt. 660269-3399, Laugavegi 178, Reykjavík.

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar:

                1.             Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 8.336.289 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 9. október 1994 til 1. ágúst 1997, en síðan með hæstu dráttarvöxtum samkvæmt nefndum lögum til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist, að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 9. október 1995.

                2.             Að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu eða að mati rétt­arins.

                3.             Til frádráttar stefnukröfum komi greiðslur stefnda til stefnanda, sem inntar voru af hendi 20. október 1994, 500.000 krónur, 31. október 1994, 500.000 krónur, 29. júní 1995, 571.443 krónur, og 16. mars 1998, 3.162.270 krónur.

                Stefndi gerir svofelldar dómkröfur:

                1.             Aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti.

                2.             Til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og málskostnaður verði látinn niður falla. Ef bætur verða að einhverju leyti dæmdar, er þess krafist, að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá þeim degi, þegar endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp, til greiðsludags.

                3.             Til þrautavara eru gerðar sömu kröfur og greinir í varakröfu, að öðru leyti en því, að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þingfestingardegi, 17. febrúar 1998, til greiðsludags.

I.

Málavextir.

                Þann 9. október 1994 kom upp eldur í húsnæði stefnanda að Súðarvogi 18 hér í borg. Samkvæmt lögregluskýrslu, sem fyrir liggur í málinu, gekk greiðlega að slökkva eldinn, sem logaði í stæðu af vélavarahlutum. Meðal þess, er varð fyrir skemmdum af völdum eldsins, var vörulager stefnanda, sem að meginhluta var vélavarahlutir í bifhjól, vélsleða, fjórhjól, sæþotur, utanborðsmótora o. fl.

                Stefnandi hafði tryggt vörulagerinn hjá stefnda, og var vátryggingaverðmæti hans 6.930.000 krónur. Samkvæmt mati stefnda var tjón stefnanda talið nema 2.000.000 króna. Taldi stefnandi það mat fjarri lagi, og með beiðni 2. desember 1994 beiddist hann dómkvaðningar matsmanna. Til verksins voru dómkvaddir 19. sama mánaðar Harald T. Hermanns tæknifræðingur og Jan Jansen bifvélavirkjameistari.

                Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna er dagsett 10. desember 1995, en barst stefnanda ekki fyrr en með bréfi, dagsettu 12. júní 1996. Niðurstaða matsins er sem hér segir:

                „Umræddum vörulager hafði verið komið fyrir til geymslu í Rafha húsinu, Lækjargötu 30, Hafnarfirði, pökkuðum í allmarga pappakassa á nokkrum vörubrettum. Ekki var pakkað eftir vöruflokkum heldur var ólíkum hlutum blandað saman í kassanna (sic) sem gerði matsmönnum erfiðara fyrir við matið. Tekið var upp úr öllum kössunum og allir hlutur (sic) skoðaðir og allt sett í sömu kassanna (sic) aftur. Varahlutirnir voru í misgóðu ástandi á nokkrum sá ekki neitt en aðrir voru sótugir eða ónýtir. Mikið var af ómerktum varahlutum sem erfitt getur verið að finna út í hvaða tæki þeir passa. Þá varahluti sem við gátum ekki fundið númer á mátum við ekki til verðs.

                Verðmæti vörulager (sic) teljum við vera kr. 2,916,727,00 án vask. (sic).

                Matsmenn álíta að mikil vinna sé að raða vörulagernum upp eftir vöruflokkum og setja hann í hillur og er sú vinna ekki innifalin í þessu mati.

                Matskoðun fór fram í Rafha húsinu Lækjargötu 30 Hafnarfirði. Málsaðiljar voru boðaðir en mættu ekki nema fulltrúi Tryggingar h.f. mætti fyrsta daginn.”

                Stefnandi óskaði eftir nánari útlistun matsmanna á matsgerðinni, m.a. með bréfi, dagsettu 8. janúar 1997. Kemur fram í svari þeirra frá 14. sama mánaðar, að inni í matsfjárhæðinni sé m.a. verðrýrnun. Þá segir þar, að sá hluti vörulagersins, sem metinn hafi verið til verðs, sé í ágætu lagi, pakkaður í upprunalegar umbúðir, með upprunalegum merkingum og ekki sótugur. Það sem ekki hafi verið metið til verðs, hafi verið hlutir, sem ekki hafi verið hægt að finna vörunúmer á, en hafi í mörgum tilvikum verið í lagi, og hlutir, sem greinilega voru ónýtir. Telji matsmenn þessa hluti ónýta.

                Vegna tjónsins greiddi stefndi 500.000 krónur upp í bætur til stefnanda þann 20. október 1994. Þann 31. október sama ár greiddi stefndi 500.000 krónur inn á tjónið. Aftur voru greiddar 571.443 krónur inn á tjónið 29. júní 1995, og þann 16. mars 1998 greiddi stefndi eftirstöðvar tjónsins að sínu mati, að teknu tilliti til verðmætis þess hluta lagersins, sem ekki skemmdist í brunanum samkvæmt mati hinna dómkvöddu matsmanna, eða 2.441.830, auk dráttarvaxta frá 15. júlí 1997, til greiðsludags, 270.000 krónur, og málskostnaðar, 450.000 krónur, þar með talinn útlagðan kostnað vegna matsgerðar, 81.000 krónur, eða alls 3.162.270 krónur.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnandi sundurliðar kröfu sína svo:

1. Vátryggingaverðmæti vörubirgða

kr. 6.930.000

2. Verðbætur (vísitala vöru og þjónustu)

kr. 620.767

3. Umönnunarkostnaður 10% af kr. 2.916.727

kr. 291.672

4. Geymslukostnaður kr. 10.000 pr. mánuð frá desember 1994 til apríl 1998 (40 mánuðir)

kr. 400.000

5. Matskostnaður

kr. 81.000

6. Flutningskostnaður

kr. 12.750

Samtals

kr. 8.336.189

                Stefnandi reisir kröfur sínar á því, að sá vörulager, sem eftir sé og tekinn hafi verið til mats, sé í reynd óseljanlegur. Ljóst sé, að stefnandi geti ekki selt lagerinn, nema með því að skýra væntanlegum kaupendum frá því, að lagerinn hafi verið í húsnæði, sem eldsvoði átti sér stað í. Telji stefnandi, að þá sé borin von, að sá lager, sem eftir sé, seljist, nema þá fyrir brot af raunverulegu verðmæti hans. Af þeim sökum krefjist stefnandi þess, að stefndi greiði honum að fullu vátryggingaverðmæti lagersins, að viðbættum verðbótum samkvæmt vísitölu vöru og þjónustu frá nóvember 1994 til júní 1997 (1745 stig og 1839 stig), en samkvæmt vátryggingaskilmálum skuli vátryggingafjárhæðirnar breytast í samræmi við vísitölu vöru og þjónustu.

                Þá sé krafist 10% umönnunarkostnaðar vegna þess vörulagers, sem tekinn var til mats. Sé hér um að ræða venjubundinn kostnað, enda hafi stefnandi þurft að flokka og raða vörulagernum að nýju, eftir flutninginn í geymsluhúsnæðið, svo að hann yrði aðgengilegt fyrir matsmenn og aðra. Einnig sé gerð krafa um greiðslu á geymslukostnaði í 40 mánuði, 10.000 krónur á mánuði. Loks sé gerð krafa um greiðslu mats- og flutningskostnaðar samkvæmt reikningum.

                Um lagarök vísi stefnandi til laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, en um vexti til vaxtalaga nr. 25/1987. Um málskostnað vísi stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda.

                Stefndi byggir á því, að af bréfi matsmanna frá 14. janúar 1997, þar sem þeir hafi gert nánari grein fyrir, hvað hafi falist í þeirri fjárhæð, er þeir mátu verðmæti vörulagers stefnanda á, sé ljóst, að verðmæti þess, sem ekki fór forgörðum í brunanum, sé 2.916.727 krónur. Hafi þannig einungis verið metnir til verðs þeir munir, sem hafi verið í góðu lagi og í heilum umbúðum, með upprunalegum merkingum. Annað hafi ekki verið talið til verðmætis, þ. á m. hlutir, sem voru í lagi, en ekki hafi verið unnt að tilgreina vörunúmer á. Sé þannig augljóst, að tjón á vörulagernum sé á engan hátt vanmetið með 4.013.273 krónum, þ.e. vátryggingaverðmæti vörulagers, 6.930.000 krónum, að frádregnu verðmæti hans eftir brunann samkvæmt mati hinna dómkvöddu matsmanna. Með þeim greiðslum, sem stefndi hafi innt af hendi, hafi stefnandi fengið tjón sitt að fullu bætt, eins og hann eigi tilkall til að lögum.

                Mótmælt sé sem röngu og ósönnuðu því áliti stefnanda, að vörulagerinn sé óseljanlegur. Sé það í engu samræmi við niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna, sem ekki hafi verið hnekkt. Þótt sá hluti lagersins, sem teljist vera heill, hafi verið í húsnæði því, sem bruninn varð í, felist á engan hátt í því, að hann sé verðlaus. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á, að verðmæti hans sé minna en hinir dómkvöddu matsmenn telji. Telji stefnandi vörulagerinn verðlausan, sé það af ástæðum, sem ekki verði raktar til brunans í október 1994.

                Samkvæmt grein 8.2 í skilmálum þeim, sem um vátrygginguna gilda, skuli vátrygg­ingafjárhæðin, eins og hún er tilgreind í vátryggingaskírteini, breytast í hlutfalli við breytingar á neysluvísitölu. Einnig sé kveðið á um verðtryggingu vátryggingafjárhæðar í vátryggingaskírteininu. Hins vegar séu engin ákvæði í vátryggingasamningnum, hvorki í skírteini né skilmálum, um verðtryggingu vátryggingabóta. Geti stefnandi því ekki gert kröfu um verðtryggingu bótafjárhæðarinnar. Hafi vátryggingafjárhæð vegna vörulagers numið á tjónsdegi 6.930.000 krónum, og hafi sú fjárhæð verið lögð til grundvallar ákvörðun þeirra bóta, sem stefnandi hafi átt tilkall til og hann hafi þegar fengið greiddar.

                Samkvæmt 1. gr. vátryggingaskilmálanna taki vátryggingin til tjóns á hinu vátryggða lausafé með þeim undantekningum, sem tilgreindar séu í skilmálunum. Samkvæmt 6. mgr. 2. gr. taki vátryggingin ekki til rekstrartaps eða annars óbeins taps. Með þeim bótum, sem stefndi hafi innt af hendi, hafi tjón á hinu vátryggða lausafé verið að fullu bætt. Óbeint tap, eins og umönnunarkostnaður, geymslukostnaður og flutningskostnaður, fáist hins vegar ekki bætt úr vátryggingunni, þar sem tjón af því tagi sé beinlínis undanskilið. Skuli á það bent, að stefnda beri ekki að bæta tjón stefnanda eftir reglum skaðabótaréttar. Þótt bótauppgjör kunni að hafa dregist á langinn að einhverju leyti, þá hafi ekki ekki stofnast skaðabótaábyrgð stefnda gagnvart stefnanda.

                Vextir samkvæmt 7. gr. vaxtalaga gildi einungis um bótakröfur eftir reglum skaðabóta­réttarins. Verði þeim því ekki beitt um bótakröfur, sem reistar eru á grundvelli vátryggingasamnings. Fari um vexti af vátryggingabótum eftir ákvæðum 24. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, sbr. 7. gr. laga nr. 33/1987 um breytingu á þeim lögum. Stefnanda hafi með bréfi, dagsettu 22. október 1994, verið boðnar bætur, að fjárhæð 2.000.000 krónur. Hafi stefnandi ekki leitað eftir því að fá þessa fjárhæð greidda, umfram það, sem greitt hafi verið í október 1994 og síðan í júní 1995, alls 1.571.443 krónur. Með bréfi lögmanns stefnanda 1. júlí 1997 hafi stefndi fyrst fengið í hendur matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna. Með vísan til 1. og 3. mgr. 24. gr. laga nr. 20/1954 og III. kafla vaxtalaga, hafi stefndi fallist á greiðslu dráttarvaxta af eftirstöðvum bótanna frá 15. júlí 1997 til greiðsludags, 16. mars 1998, og séu eigi lagaskilyrði til að krefja stefnda um frekari vexti. Þá hafi stefnda verið greiddur fullur málskostnaður með greiðslu, að fjárhæð 450.000, vegna innheimtu kröfunnar.

                Um varakröfu sé vísað til sömu sjónarmiða og röksemda og reifaðst séu í tengslum við aðalkröfu. Varðandi upphafstíma dráttarvaxta vísi stefndi til síðari málsliðar 15. gr. vaxtalaga. Þá sé þrautavarakrafa byggð á sömu sjónarmiðum með vísan til 14. gr. vaxtalaga.                               

                Fyrir dóminn komu við aðalmeðferð málsins fyrirsvarsmaður stefnanda, Stefán Steingríms­son, auk dómkvaddra matsmanna, sem staðfestu matsgerð sína og skýringar á henni.

IV.

Niðurstaða.

                Mati hinna dómkvöddu matsmanna á verðmæti þeirra muna, sem þeir mátu til verðs, hefur ekki verið hnekkt. Verður það því lagt til grundvallar við úrlausn máls þessa. Með vísan til þess verður að telja ósannað af hálfu stefnanda, að hann hafi, miðað við vátryggingaverðmæti hins tryggða á tjónsdegi, 6.930.000 krónur, ekki fengið tjón sitt á því lausafé, sem skemmdist í umræddum bruna, að fullu bætt með þeim greiðslum, sem stefndi hefur innt af hendi til hans.

                Óumdeilt er, hver hafi verið umsamin vátryggingarfjárhæð vegna vörulagers stefnda á tjónsdegi. Engum ákvæðum er til að dreifa í vátryggingaskilmálum þeim, sem giltu á milli aðila um vátryggingu þá, er hér um ræðir, um verðtryggingu vátryggingabóta. Eru því eigi fyrir hendi skilyrði til að dæma stefnanda verðbætur á bótafjárhæðina, svo sem hann gerir kröfu um.

                Samkvæmt 6. mgr. 2. gr. vátryggingaskilmálanna tekur vátryggingin ekki til rekstrartaps eða annars óbeins taps. Er slíkt tjón því beinlínis undanskilið í nefndum vátryggingasamningi. Af því leiðir, að eigi er unnt að fallast á kröfu stefnanda um greiðslu umönnunarkostnaðar eða geymslukostnaðar. Þá verður ekki talið, að dráttur á bótauppgjöri verði rakinn til ástæðna, sem stefndi beri ábyrgð á.

                Um greiðsluskyldu stefnda á kröfu þeirri, er mál þetta tekur til, fer eftir ákvæðum 24. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga. Samkvæmt 1. mgr. þeirrar greinar má krefja um greiðslu bóta 14 dögum eftir að vátryggingafélagið átti þess kost að afla þeirra upplýsinga, er þörf var á, til þess að meta vátryggingaratburðinn og ákveða upphæð bótanna. Í 3. mgr. sömu greinar, sbr. 7. gr. laga nr. 33/1987, segir, að vátryggngafélagið skuli greiða vexti af fjárhæðinni frá gjalddaga í samræmi við ákvæði laga um vexti. Þar sem í máli þessu er deilt um bætur innan samninga, eiga ákvæði 7. gr. vaxta­laga nr. 25/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 67/1989, um skaðabætur hér ekki við. Stefndi bauð fram bætur, að fjárhæð 2.000.000 króna, með bréfi 22. október 1994 og greiddi stefnanda alls 1.571.443 krónur með greiðslum í október 1994 og júní 1995. Af gögnum málsins verður ekki séð, að stefnandi hafi leitað eftir greiðslu á eftirstöðvum þeirrar fjárhæðar, sem fram var boðin af hálfu stefnda samkvæmt framansögðu. Stefnda var ekki kunnugt um matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, fyrr en með bréfi stefnanda til hans, dagsettu 1. júlí 1997. Greiddi stefndi dráttarvexti af eftirstöðvum bótanna frá 15. júlí 1997 til greiðsludags. Samkvæmt því, sem rakið hefur verið, eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að dæma stefnanda frekari vexti en hann hefur þegar fengið greidda af hálfu stefnda.

                Að lokum verður að telja, að stefnandi hafi fengið málskostnað, þar með talinn matskostnað, vegna innheimtu kröfu þeirrar, er mál þetta snýst um, að fullu greiddan af hálfu stefnda með greiðslu, að fjárhæð 450.000 krónur.

                Með vísan til ofanritaðs ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt, að málskostnaður milli þeirra falli niður.

                Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

                Stefndi, Trygging hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Vélarinnar sf., í máli þessu.

                Málskostnaður fellur niður.