Hæstiréttur íslands
Mál nr. 643/2010
Lykilorð
- Líkamsárás
- Einkaréttarkrafa
|
|
Fimmtudaginn 14. apríl 2011. |
|
Nr. 643/2010. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn X (Steingrímur Þormóðsson hrl.) |
Líkamsárás. Einkaréttarkrafa.
X var sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa ráðist á A og skellt höfði hans í gegnum glerrúðu með þeim afleiðingum að hann hlaut skurði á höfði og líkama. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna, var refsing ákærða ákveðin fangelsi í átta mánuði, en fullnustu sex mánaða af refsingunni var frestað. Ekki þótti fært að skilorðsbinda refsinguna að öllu leyti þar sem ákærði hafði áður gerst sekur um ofbeldisbrot. Þá var ákærði dæmdur til að greiða A nánar tilgreindar skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. nóvember 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins, en til vara mildunar á refsingu. Þá krefst hann aðallega frávísunar á einkaréttarlegri kröfu A, en til vara að hann verði sýknaður af henni.
Fyrir héraðsdómi gerði A einkaréttarkröfu, sem fallist var á með þeim hætti, sem fram kemur í dómsorði hins áfrýjaða dóms. Af hans hálfu hefur ekki verið óskað endurskoðunar á þeirri niðurstöðu fyrir Hæstarétti og verður hún því staðfest, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna, verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 331.821 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. september 2010.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 1. september sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 12. apríl 2010, á hendur X, kt. [...], [...], [...] „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 7. desember 2008 í Veltusundi í Reykjavík, ráðist á A og skellt höfði hans í gegnum glerrúðu [...], með þeim afleiðingum að hann hlaut 4 skurði á höfði og líkama sem sauma þurfti saman með samtals 15 sporum, þar af einn langan skurð á höfði framanverðu sem í var lítil slagæð sem blæddi verulega úr og loka þurfti með saumum.
Telst brot þetta varða við 2. mgr. 218. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A, kennitala [...], er krafist miskabóta, samtals að fjárhæð kr. 600.000, auk dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá því mánuður er liðinn frá því krafan er kynnt ákærða til greiðsludags.“
Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi. Loks er krafist hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
II.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 7. desember 2008, barst lögreglumönnum á lögreglubifreiðinni 07-140 tilkynning um hugsanleg átök við Ingólfstorg. Hafi tilkynningin komið frá lögreglumönnum sem sinntu eftirliti með löggæslumyndavélum í miðbæ Reykjavíkur kl. 03.23 aðfaranótt 7. desember 2008. Skömmu síðar hafi komið tilkynning um að þetta væri allt yfirstaðið og í framhaldi af því hafi komið beiðni frá Fjarskiptamiðstöð lögreglu um að fara á Ingólfstorg við Ground Zero vegna líkamsárásar.
Í skýrslunni segir að lögreglumenn hafi farið rakleiðis á staðinn og hitt þá A og B á vettvangi. A hafi verið með áberandi áverka á höfði sem mikið hafi blætt úr og hafi honum verið veitt aðhlynning.
A hafi borið um það að hafa verið staddur í sundinu, sem liggur á milli Austurvallar og Ingólfstorgs og framan við [...], og verið að hugga C, vinkonu sínam, sem hafi verið að gráta undan kærasta sínum, X. Á meðan hann hafi verið að ræða við hana hafi hún sagt snögglega „ekki“ og í sömu andrá hafi X komið og skellt höfði hans, þ.e. A, á rúðu með þeim afleiðingum að hann skall í gegnum rúðuna og skarst víðs vegar á líkamanum. Í kjölfarið hafi C og X farið af staðnum með leigubifreið með skráningarnúmerinu [...].
Eftir B er haft í frumskýrslu að hann hafi séð mann ráðast að tilefnislausu á A og skella honum á rúðu með fyrrgreindum afleiðingum. Hann hafi síðan farið af vettvangi með leigubifreið með skráningarnúmerinu [...].
Í skýrslunni segir að A hafi verið ekið beina leið á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi og við frumskoðun hafi komið í ljós að hann var með slæman skurð fyrir ofan hægri augabrún, á hnakka og báðum höndum.
Aðspurður um frekari deili á árásarmanninum hafi A tjáð lögreglu að mögulega heiti hann X og vinni sem verktaki á gröfu. Þá hafi X sagt hann vera þrekvaxinn og um 185-190 cm á hæð. Hafi hann sagst ætla að afla betri upplýsinga um árásarmanninn.
Haft var samband við bílstjóra leigubifreiðarinnar [...], D að nafni, og segir í skýrslunni að hann hafi kannast við að hafa tekið par upp í bifreið sína við Ingólfstorg og ekið því í [...]. Einnig hafi hann sagt að parið hefði eitthvað verið að rífast.
Hinn 8. desember 2008 lagði brotaþoli, A, fram kæru á hendur ákærða í máli þessu vegna áðurgreindrar líkamsárásar.
Meðal gagna málsins er vottorð Jóns Örvars Kristinssonar, læknis á slysa- og bráðadeild Landspítalans í Fossvogi, dags. 2. janúar 2009. Þar kemur fram að brotaþoli, A, hafi leitað á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi hinn 7. desember 2008, kl. 03.45, eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás um hálftíma áður í miðbæ Reykjavíkur. Brotaþoli hafi sagst hafa verið staddur í porti á milli Thorvaldsenbar og Nasa og lent þar í útistöðum við einhvern mann, sem hann þekkti ekki, og hafi hann hent honum í gegnum rúðu. Við það hafi hann fengið nokkra skurði, m.a. stóran skurð á höfðu sem blætt hafi mikið úr. Í vottorði segir að brotaþoli hafi komið að á slysadeildina í fylgd lögreglu.
Um skoðun á brotaþola segir m.a. eftirfarandi í vottorðinu: „Á höfði framanverðu var um það bil 5 cm langur skurður í honum miðjum lítil slagæð sem blæddi verulega úr þegar þrýstingsumbúðir voru teknar af. Þar ofan við var nokkru minni skurður um það bil 2 cm. Mikið blóð var í hársverði og alveg aftan á hnakka. Á vinstri upphandlegg innanverðum var lítill 7 mm skurður. Á hægri framhandlegg aftanverðum var um 10 mm skurður. Ekki var grunur um skaða á sinum, vöðvum né taugum.“
Um meðhöndlun brotaþola segir eftirfarandi í vottorðinu: „Slagæðin sem blæddi verulega úr var undirbundinn (sic) með 2 saumum og stærsti skurðurinn á höfðinu síðan saumaður með 7 sporum. Skurðurinn þar ofan við með 3 sporum. Skurður á vinstri upphandlegg með 1 spori og á hægri handlegg með 3 sporum, samtals því 15 spor. Eftir að hann kom hér fékk hann svima sem trúlega skýrist af örvun á ósjálfráða taugakerfinu fremur en blóðtapi. Blóðgildi mældist eðlilegt.“
Í kaflanum, Samantekt og álit, segir eftirfarandi: „Tuttugu og þriggja ára gamall karlmaður sem kemur á slysa- og bráðadeild eftir að hafa að eigin söng verið hent í gegnum rúðu. Var með 4 skurði þar af einn langan skurð á höfði framanverðu og í honum miðjum litla slagæð sem blæddi verulega úr og þurfti að loka með saumum. Þessi blæðing hefði ekki stöðvast af sjálfu sér.“
Að beiðni ríkissaksóknara var sett upp myndsakbending fyrir brotaþola A og vitnið B til að kanna hvort þeir bæru kennsl á ákærða í máli þessu sem geranda í málinu.
Í skýrslu tæknideildar lögreglu, sem er á meðal gagna málsins, segir að ekki hafi verið til mynd af ákærða í myndasafni lögreglunnar. Ákærði hafi verið boðaður til myndatöku á lögreglustöðinni en hann hafi ekki mætt á boðuðum tíma hinn 9. desember 2009. Hinn 16. mars 2010 hafi ákærði loks mætt til myndatöku hjá tæknideildinni og hafi sú mynd verið notuð við myndsakbendinguna.
Í skýrslunni segir að sett hafi verið upp tvö myndaspjöld með myndum merktum nr. 1-9 af níu karlmönnum á hvorri síðu með myndi af ákærða og mönnum, sem svipuðu til hans í útliti. Sömu myndir hafi verið á báðum spjöldum, en röð þeirra hafi verið breytt. Á spjaldi nr. 1 hafi mynd af ákærða verið nr. 3 og á spjaldi nr. 2 hafi mynd af ákærða verið nr. 8.
Hinn 25. mars 2010, kl. 10.00, hafi brotaþoli gengist undir myndsakbendingu og skýrslutöku vegna málsins. Viðstaddur hana hafi verið Bjarni Hauksson hrl. fyrir hönd ákærða. Brotaþoli hafi verið látinn skoða myndaspjald nr. 1. Hafi hann benti á mann á mynd nr. 3 (ákærða í máli þessu) sem þann, sem ráðist hefði á sig. Hafi hann sagst vera nokkuð viss um að þetta væri ákærði, en hann hefði ekki verið með skegg á þeim tíma eins og á myndinni.
Í skýrslu tæknideildar segir að sama dag, kl. 10.13, hafi vitnið B gengist undir myndsakbendingu og skýrslutöku vegna málsins. Bjarni Hauksson hrl. hafi verið viðstaddur myndsakbendinguna fyrir hönd ákærða. B hafi verið sýnt myndaspjald nr. 2 og hafi hann þekkt mann á mynd nr. 8 (ákærða í máli þessu) sem manninn, sem hent hefði brotaþola í gegnum rúðuna. Þá hafi hann sagst þekkja eða vita hverjir menn á myndum 2, 5 og 6 væru.
Loks er á meðal gagna málsins útprentun úr dagbók lögreglu frá 7. desember 2008. Þar kemur fram að kl. 04.21 hafi lögregla verið kölluð að [...], [...], í [...], heimili ákærða, vegna ágreinings og ósættis á milli ákærða og C. Jafnframt að C hafi verið ekið heim til foreldra sinna að [...] í [...].
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum og hjá lögreglu eftir því sem þurfa þykir:
Ákærði neitaði sök. Hann kannaðist ekki við að hafa verið að skemmta sér niðri í bæ umrædda nótt. Sagðist hann ekki muna hvar hann var þessa nótt en sagðist halda að hann hefði verið með unnustu sinni, C. Ákærða var bent á dagbókarfærslu lögreglunnar á dskj. nr. 6 og sagðist hann kannast við að ósætti hefði komið upp á milli hans og C á heimili þeirra í [...] þessa nótt og að lögreglan hefði ekið C heim til foreldra sinna.
Aðspurður kvaðst ákærði kannast við kæranda. Hann sagðist ekki hafa skýringu á því af hverju kærandi bæri þær sakir á hann, sem greinir í ákæru máls þessa. Sagði hann að þeir kærandi hefðu ekki átt í neinum illdeilum. Ákærði sagðist ekki geta skýrt það hvers vegna vitni hefði bent á mynd af ákærða við myndsakbendingu hjá lögreglu. Hann kannaðist ekki við að hafa tekið leigubifreið umrædda nótt.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 20. febrúar 2009, sem er í samræmi við framburð hans hér fyrir dómi.
Kærandi, A, sagðist hafa komið út af skemmtistaðnum Nasa umrædda nótt ásamt vini sínum og þeir gengið inn í portið á milli Nasa og Thorvaldsen. Þar hefði hann mætt ákærða og stuttu síðar séð C halda utan um andlitið á sér og vera grátandi, en ákærði hefði verið að koma frá henni. Sagðist hann hafa gengið til C og spurt hana hvort ekki væri allt í lagi með hana. Það næsta sem hann vissi hefði verið að hún hefði kallað upp: „Nei, X !“ Ákærði hefði þá komið hlaupandi aftan að honum, tekið um höfuðið á honum, snúið honum hálfhring og inn í gegnum rúðuna. Þegar hann hefði bakkað út úr glugganum og snúið sér við hefði hann séð ákærða hlaupa af vettvangi í átt að Veltusundi og inn á Ingólfstorg. Sagðist hann hafa farið á eftir ákærða og séð fyrir hornið að ákærði steig upp í leigubifreið ásamt C. Sagðist kærandi hafa séð andlit ákærða greinilega á þessum tímapunkti og að hann lyfti upp hnefa. Sagðist kærandi þá hafa snúið frá og í sama mund hitt E, sem hefði þá þegar verið búinn að hringja í neyðarlínuna. Einnig sagði kærandi að vinur sinn hefði farið á eftir ákærða og séð hann stíga upp í leigubifreið og fara í burtu. Kærandi sagðist hafa skorist á báðum höndum og á höfði við þetta, m.a. hefði farið í sundur slagæð á höfðinu og hann misst mikið blóð. Hann sagði að B vinur sinn hefði staðið við hliðina á sér þegar árásin varð.
Aðspurður sagðist kærandi hafa kynnst C í gegnum sameiginlegan vinahóp. Hann sagðist ekki þekkja ákærða, en hafa vitað á þessum tíma hver hann var og hvernig hann leit út. Hann sagði að ekkert hefði farið á milli hans og ákærða áður en ákærði réðst á hann. Hann hefði ekki náð að verjast árásinni þar sem hann hefði snúið baki í ákærða þegar ákærði réðst á hann. Kærandi sagðist ekki hafa neinar skýringar á því hvers vegna ákærði réðst á hann í greint sinn. Aðspurður kvaðst kærandi hafa verið nýkominn niður í bæ þegar þetta gerðist og alls ekki hafa verið í annarlegu ástandi.
Kærandi sagði að árásin hefði átt sér stað í portinu á milli Nasa og Thorvaldsen, en nær Nasa. Aðspurður kvaðst kærandi ekki hafa flett ákærða upp á netinu áður en hann fór í myndsakbendingu hjá lögreglunni.
Kærandi kveðst ekki hafa neina tilfinningunni á enninu við örið, sem komið hefði eftir skurðinn. Þá sagðist hann hugsa um þetta atvik í hvert skipti, sem hann færi niður í bæ að skemmta sér og velta fyrir sér hvort hann gæti aftur orðið fyrir slíkri árás. Sagðist hann hugsa nær daglega um þetta og að þetta atvik væri búið að plaga hann mikið. Kærandi staðfesti að hafa merkt við mynd nr. 3 í myndsakbendingu hjá lögreglunni.
Kærandi gaf skýrslu hjá lögreglu hinn 8. desember 2008, sem er í megindráttum í samræmi við framangreint. Þar greindi kærandi þó frá því að þegar hann hefði náð að losa sig úr rúðunni hefði hann verið mjög vankaður og allur útataður í blóði. Hann myndi aðeins eftir því að hafa reynt að hlaupa eftir aðstoð og að hafa hlaupið í átt að Nasa þar sem hann hefði hitt vin sinn, E og beðið hann um að hringja á neyðarlínuna. Í skýrslu sinni hjá lögreglu greindi ákærði hins vegar ekki frá því að hann hefði farið á eftir ákærða og séð hann stíga upp í leigubifreið ásamt unnustu sinni.
B sagði að hann og kærandi hefðu verið að koma út af Nasa í greint sinn og hitt þar kunningja þeirra. Kærandi hefði síðan gengið að stelpu, sem þarna hefði verið. Allt í einu hefði hann orðið var við hreyfingu út undan sér og í sama mund séð mann koma askvaðandi, rífa aftan í kæranda og keyra hann í gegnum rúðuna. Sagðist hann hafa farið til A til að athuga með hann. Árásarmaðurinn hefði síðan gengið í burtu með stelpunni, sem kærandi hafði verið að tala við. Sagðist hann hafa horft á eftir manninum ganga út portið og beygja fyrir hornið. Sagðist hann þá hafa farið á eftir manninum og einnig farið fyrir hornið. Þar hefði ákærði, stelpan og einhver ókunnugur þriðji maður staðið. Þegar ókunnugi maðurinn hefði séð hann koma hefði hann stöðvað hann og sagt: „Slepptu þessu, það þýðir ekkert að tala við hann“ eða eitthvað í þeim dúr. Hefði maðurinn virst vera að róa ákærða niður. Vitnið hefði þá spurt: „Hver fjandinn er í gangi ?“ Hann hefði lítil svör fengið. Kærandi hefði þá komið innan úr portinu og hefði mikið blætt úr höfðinu hans. Sagðist hann hafa spurt kæranda hvað hann vildi gera og kærandi sagt honum að búið væri að hringja á lögreglu og að hann ætlaði að kæra þetta. Sagðist vitnið síðan hafa horft á ákærða stíga upp í leigubifreið ásamt áðurgreindri stelpu. Sagðist hann hafa tekið niður númerið á leigubifreiðinni. Hann sagðist ekki hafa séð ákærða áður en þetta atvik átti sér stað og sagðist ekki hafa flett honum upp á netinu eða aflað upplýsinga um hann áður en hann fór í myndsakbendingu hjá lögreglunni.
Hann sagði að árásin hefði átt sér stað í portinu á milli skemmtistaðanna Nasa og Thorvaldsen, skammt innan við hornið. Sagðist hann hafa staðið u.þ.b. fimm til tíu metra frá árásarstaðnum, við hornið nær Austurvelli. Hann sagðist hafa horft aftan á ákærða þegar árásin átti sér stað, en þó séð á vangann á honum.
Vitnið staðfesti að hafa merkt við mynd nr. 8 í myndsakbendingu hjá lögreglu.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 17. febrúar og 4. desember 2009, sem er í megindráttum í samræmi við framangreint.
C, unnusta ákærða, kannaðist ekki við að hafa verið tala við kæranda umrædda nótt skömmu áður en ráðist var á hann. Hún sagðist ekki muna hvar hún var þessa nótt eða með hverjum hún var. Hún sagðist vita hver brotaþoli væri, en ekki þekkja hann. Þá sagðist hún muna eftir því að lögregla hefði ekið henni heim til foreldra sinn í [...] eftir að ósætti kom upp á milli hennar og ákærða aðfaranótt 7. desember 2008. Hún sagðist hins vegar ekki muna eftir því hvað þau voru að gera umrædda nótt.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 24. febrúar 2009, sem er í samræmi við framangreint.
Haukur Sigmarsson lögreglumaður sagði að lögreglumenn hefðu fengið útkall vegna líkamsárásar í Veltusundi, sem liggi frá Austurvelli og inn á Ingólfstorg. Á vettvangi hefði verið maður með mikinn áverka á höfði, sem blætt hefði úr, en einnig hefði blætt úr höndum. Þá hefði rúða í verslun verið brotin. Samkvæmt frásögnum vitna á vettvangi hafði manninum verið hent í gegnum rúðuna. Eitt vitnanna hefði vitað í hvaða leigubifreið árásarmaðurinn hefði farið af vettvangi. Hann sagði að lögregla hefði haft samband við viðkomandi leigubílstjóra en það samtal hefði ekki leitt til neins, þar sem bílstjórinn hefði ekki viljað koma niður á lögreglustöð til að gefa skýrslu. Þá hefði bílstjórinn slitið samtalinu og ekki svarað símanum aftur. Lögreglumönnum hefði verið tjáð á vettvangi að árásarmaðurinn væri gröfuverktaki.
D leigubílstjóri sagðist hafa ekið ungu pari frá Ingólfstorgi og að [...] í [...] aðfaranótt 7. desember 2008. Hann sagði að unga parið hefði lítið talað saman á leiðinni, en einhver ágreiningur hefði þó verið gangi vegna einhvers kvenmanns. Eftir að hafa skilað fólkinu af sér hefði lögreglumaður hringt í hann vegna þessa máls og verið ókurteis og með hótanir í hans garð. Sagðist hann því hafa ákveðið að hætta að keyra þessa nótt kl. 4.30. Það gæti því stemmt að hann hefði ekið parinu frá Ingólfstorgi og í [...] á milli kl. 3.00 og 4.00 þessa nótt. Sagðist hann halda að hann hefði verið að aka Prius rafmagnsbíl í umrætt skipti.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 21. ágúst 2009, sem er í samræmi við framangreint. Þar er haft eftir vitninu að hann hafi tekið parið upp í bílinn á Ingólfstorgi og ekið því í [...] í [...] á milli kl. 3.00 og 4.00 umrædda nótt.
III.
Ákærði og unnusta hans, C, sem kaus að gefa skýrslu fyrir dóminum, hafa bæði borið um það að þau muni hvorki hvar þau voru aðfaranótt 7. desember 2008 né með hverjum þau voru. Ákærði sagðist þó halda að hann hefði verið með unnustu sinni. Ákærði kannaðist ekki við að hafa verið niðri í bæ að skemmta sér þessa nótt og vitnið C kannaðist ekki við að hafa verið að tala við kæranda skömmu áður en ráðist var á hann. Þegar dagbókarfærsla lögreglunnar frá 7. desember 2008 á dskj. nr. 6 var borin undir ákærða og vitnið könnuðust þau þó bæði við að ósætti hefði komið upp á milli þeirra þessa sömu nótt á heimili þeirra að [...] og að lögregla hefði ekið C heim til foreldra sinna í [...]. Þrátt fyrir að það gat hvorugt þeirra rifjað upp hvar þau voru eða hvað þau höfðu fyrir stafni þessa sömu nótt fram að því að ósætti kom upp á milli þeirra. Þykir framburður ákærða og unnustu hans um að þau muni ekki atburði næturinnar að öðru leyti en að ofan greinir ótrúverðugur.
Kærandi hefur borið um það að ákærði hafi verið í fylgd unnustu sinnar, C, í miðbænum umrædda nótt. Kvaðst kærandi kannast við þau bæði og á sama veg hafa ákærði og vitnið C borið, þ.e. að þau hafi kannast við kæranda. Kærandi og vitnið B hafa borið um það, bæði hjá lögreglu og hér fyrir dómi, að ákærði hafi skyndilega rifið aftan í kæranda þar sem hann stóð og ræddi við C, og keyrt hann í gegnum glerrúðu með þeim afleiðingum sem greinir í ákæru. Þá hafa þeir báðir borið um það að eftir árásina hafi þeir séð á eftir ákærða ganga eða hlaupa af vettvangi út Veltusundið og inn á Ingólfstorg þar sem hann og unnusta hans hafi stigið upp í leigubifreið. Fram hefur komið að vitnið B fór á eftir ákærða og átti nokkur orðaskipti við ókunnan vin ákærða, sem hjá honum stóð á torginu og virtist vera að róa ákærða niður. Hefur vitnið B því getað greint útlit ákærða við þetta tækifæri. Þá hefur komið fram að B tók niður númer leigubifreiðarinnar, sem ákærði og unnusta hans stigu upp í á Ingólfstorgi. Leiddi það til þess að haft var samband við bílstjóra þeirrar bifreiðar, vitnið D. Framburður kæranda og vitnisins B hefur verið stöðugur og er bæði skýr og greinargóður. Þykir framburður þeirra trúverðugur.
Vitnið D leigubílstjóri hefur borið um það að hafa tekið upp ungt par á Ingólfstorgi umrædda nótt og ekið því í [...] í [...]. Eftir að hann hafði skilað fólkinu af sér hefði lögreglumaður hringt í hann vegna þessa máls og verið ókurteis. Af þeim sökum hefði hann ákveðið að hætta leigubílaakstri þessa nótt en þá hefði klukkan verið um 4.30. Hefði hann því að öllum líkindum ekið parinu frá Ingólfstorgi og út í [...] á milli klukkan þrjú og fjögur um nóttina. Samkvæmt áðurgreindri dagbókarfærslu lögreglunnar var lögregla kvödd á heimili ákærða og C klukkan 4.21 þessa sömu nótt. Þá hefur komið fram að lögreglu barst tilkynning um átökin í Veltusundi klukkan 3.23. Framburður vitnisins D, framangreindar tímasetningar og myndsakbending, sem fram fór hjá lögreglu, þykja því skjóta mjög styrkum stoðum undir annars trúverðugan framburð vitnanna A og B.
Með hliðsjón af öllu framangreindu, sérstaklega trúverðugum framburði áðurgreindra vitna, þykir sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru. Háttsemi ákærða er réttilega heimfærð undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í ákæru.
Ákærði er fæddur 1983. Á árinu 2001 gekkst ákærði undir greiðslu sektar hjá lögreglustjóra vegna umferðarlagabrots og hinn 3. febrúar 2006 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði stóðst skilorð þess dóms.
Við ákvörðun refsingar er litið til 1., 2. og 3 tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Til refsiþyngingar horfir ennfremur að ekkert er fram komið í málinu sem réttlætir hina fyrirvaralausu og harkalegu líkamsárás ákærða. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Þar sem ákærði hefur áður gerst sekur um ofbeldisbrot þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu ákærða að öllu leyti. Þykir rétt að fullnusta sex mánaða af refsingunni falli niður að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Í málinu krefst brotaþoli, A miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 600.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá því mánuður er liðinn frá því krafan er kynnt ákærða til greiðsludags.
Brotaþoli hlaut talsverða áverka við árás ákærða og þurfti m.a. að stöðva blæðingu, sem ekki hefði stöðvast af sjálfu sér. Voru skurðir þeir sem brotaþola hlaut saumaðir með alls 15 sporum. Þá hefur brotaþoli lýst því að atlaga ákærða hafi valdið honum andlegri vanlíðan. Með vísan til framangreinds og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er fallist á bótakröfu brotaþola að fullu.
Loks er ákærða gert að greiða 282.750 krónur í sakarkostnað, þar af málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin að fjárhæð 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í átta mánuði, en fullnustu sex mánaða af refsingunni er frestað og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði brotaþola, A, 600.000 krónur í miskabætur.
Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 282.750 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þormóðs Skorra Steingrímsson hdl., 251.000 krónur.