Hæstiréttur íslands

Mál nr. 119/2009


Lykilorð

  • Varnarþing
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. desember 2009.

Nr. 119/2009.

Gunnar Þórarinsson

(Jónas A. Aðalsteinsson hrl.)

gegn

NBI hf.

(Indriði Þorkelsson hrl.)

 

Varnarþing. Frávísun máls frá héraðsdómi.

G gekkst í sjálfskuldarábyrgð á greiðslu láns sem N hf. hafði veitt E ehf. að jafnvirði fjárhæð 80.000.000 krónur í sterlingspundum. Var G ábyrgðarmaður pro rata ásamt fleirum og miðaðist ábyrgð G við 56.147 sterlingspund. Lánið fór í vanskil og stefndi N hf. G fyrir Héraðsdómi Reykjaness til greiðslu þeirrar fjárhæðar er ábyrgð hans hljóðaði upp á. Í lánssamningnum var ákvæði þess efnis að ef ágreiningur risi um réttindi og skyldur aðila samkvæmt samningnum skyldi mál vegna hans rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Talið var að orðalag samningsins væri skýrt um að samið hefði verið um varnarþing í málinu, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. mars 2009. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara sýknu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Að því frágengnu krefst hann þess að honum verði einungis gert að greiða stefnda 1.631.954 krónur og að málskostnaður verði látinn niður falla. 

Stefndi krefst nú staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til 2. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fór sérstaklega fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu áfrýjanda.

Hinn áfrýjaði dómur Héraðsdóms Reykjaness var kveðinn upp 3. mars 2009, en með úrskurði dómsins 25. nóvember 2008 var hafnað kröfu áfrýjanda um að vísa málinu frá héraðsdómi. Er óskað endurskoðunar á þeim úrskurði með áfrýjun málsins með vísan til 1. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991. Byggir áfrýjandi aðalkröfu sína fyrir Hæstarétti á sömu málsástæðum og í héraði, annars vegar að málið hafi verið höfðað á röngu varnarþingi, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, og hins vegar á því að málið sé vanreifað, sbr. 80. gr. sömu laga.

Áfrýjandi vísar til þess að í lánssamningi þeim, sem stefndi byggir á, hafi verið samið um varnarþing í samræmi við 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 á þann veg að ágreiningsmál vegna hans skyldi reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Stefndi mótmælir frávísun með þeim rökum að aðeins sé um heimildarákvæði að ræða sem fyrirbyggi ekki að mál verði höfðað á heimilisvarnarþingi áfrýjanda. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti taldi stefndi ennfremur að slíkt samningsákvæði um varnarþing yrði að vera mjög skýrt orðað ætti það að binda aðila. Áfrýjandi væri einn margra sjálfskuldarábyrgðarmanna, sem ekki hefðu haft neitt um skilmála lánasamningsins að segja, væri því alltaf heimilt að höfða mál gegn þeim á heimilisvarnarþingi.

Skjal það sem krafa stefnda er byggð á er lánssamningur upphaflega gerður 27. júlí 2005 samkvæmt heiti sínu á „milli Landsbanka Íslands hf. sem banka og Hydra efh. sem lántaka og tiltekinna einstaklinga sem sjálfskuldarábyrgðaraðila.“ Í grein 10.1. eru nafngreindir 24 einstaklingar og eitt félag sem tókust á hendur pro rata sjálfskuldarábyrgð á fullum efndum allra skuldbindinga samkvæmt samningnum þar til skuldin yrði að fullu greidd, hver að nánar tilgreindri fjárhæð. Samþykktu allir sjálfskuldarábyrgðarmenn samninginn með undirskrift sinni. Viðaukar voru gerðir við lánssamninginn 1. nóvember 2006 og 22. nóvember 2007 og samþykktu allir ábyrgðarmenn þá viðauka einnig.

Í grein 16.1. er samið um varnarþing en þar segir: „Ef ágreiningur rís um réttindi og skyldur aðila samkvæmt samningi þessum skal mál vegna hans rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.“ Orðalag þetta er skýrt. Samkvæmt því er um gagnkvæmt og bindandi ákvæði að ræða. Sjálfskuldarábyrgðarmenn eru aðilar að samningnum og bundnir af ákvæðum hans og geta jafnframt eftir atvikum reist rétt á þeim. Áfrýjandi krafðist frávísunar vegna varnarþingsákvæðisins þegar í greinargerð sinni til héraðsdóms. Verður að fallast á með áfrýjanda að stefndi sé bundinn gagnvart honum samkvæmt þessu ákvæði samningsins og verður málinu þegar af þessari ástæðu vísað frá héraðsdómi. 

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, NBI hf., greiði áfrýjanda, Gunnari Þórarinssyni, samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. mars 2009.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 10. febrúar sl., var upphaflega höfðað af Landsbanka Íslands hf., nú NBI hf., Austurstræti 11, Reykjavík, á hendur Gunnari Þórarinssyni, Tunguvegi 5, Reykjanesbæ, með stefnu birtri 15. ágúst 2008. Málið var þingfest 24. september 2008.

Við fyrirtöku málsins 29. október sl. tók NBI hf. við aðildinni sóknarmegin með vísan til framlagðrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 9. október sl. þar sem mælt er fyrir um að Nýi Landsbanki Íslands hf. taki við öllum tryggingaréttindum Landsbanka Íslands hf., þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum bankans. Nafni Nýja Landsbanka Íslands hf. hafði verið breytt í NBI hf. þann 23. október sl. Sú ráðstöfun að breyta aðild málsins sóknarmegin sætti ekki andmælum af hálfu stefnda.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð GBP 56.147 ásamt samningsvöxtum samkvæmt vaxtaákvæðum lánssamnings, sem eru breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,25% vaxtaálags, af GBP 56.147 frá 10. febrúar 2009 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Loks krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins ef krafa stefnda um sýknu er tekin til greina en annars krefst stefndi þess að málskostnaður verði felldur niður.

Málið var þingfest 24. september 2008 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 18. nóvember sama ár. Krafðist stefnandi þess að frávísunarkröfunni yrði hafnað. Með úrskurði uppkveðnum 25. sama mánaðar var frávísunarkröfunni hafnað. Í dómi þessum eru því eingöngu til úrlausnar endanlegar dómkröfur stefnanda samkvæmt ofanrituðu og varakrafa og þrautavarakrafa stefnda sem og málskostnaðarkrafa hans. 

II.

Þann 27. júlí 2007 var undirritaður lánssamningur milli Landsbanka Íslands hf. og Eignarhaldfélagsins City Star Airlines ehf., ECSA ehf., sem þá hét Hydra ehf. en verður hér eftir nefnt ECSA ehf. Með lánssamningnum veitti Landsbanki Íslands hf. ECSA ehf. lán að jafnvirði 80.000.000 krónum í sterlingspundum. Lánið var til 5 ára og skyldi greiðast með 20 jöfnum afborgunum á 3 mánaða fresti, í fyrsta sinn 10. september 2005. Lánið bar breytilega vexti jafnháa LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni auk 2,25% vaxtaálags.

Gerðir voru tveir viðaukar við lánssamninginn, þann fyrri 1. nóvember 2006 og þann síðari 27. nóvember 2007. Tilgangur með viðaukunum báðum var að bæta gjaldföllnum afborgunum við höfuðstól lánsins. Lánið var allt gjaldfellt 8. maí 2008 og þann 28. maí var bú ECSA ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með dómsúrskurði.

Lánið var tryggt með sjálfsskuldarábyrgðum nokkurra aðila pro rata og þar á meðal stefnda. Miðaðist ábyrgð stefnda við GBP 56.147.

III.

Stefnandi byggir kröfu sína um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnukröfuna á því að fyrir liggi lánssamningur eins og lýst er hér að framan þar sem stefndi hafi verið sjálfskuldarábyrgðarmaður ásamt nokkrum öðrum aðilum. Ábyrgð stefnda hafi verið pro rata og miðast við dómkröfufjárhæðina GBP 56.147. Stefndi sé því krafinn um greiðslu á sínum hlut ábyrgðarinnar enda hafi hvorki lánið fengist greitt að fullu, né hafi stefndi greitt samkvæmt ábyrgð sinni.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfu- og samningaréttarins um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt við lög nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.

IV.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því í fyrsta lagi að skuld samkvæmt framangreindum lánssamningni sé ekki skuld samkvæmt viðskiptabréfi þannig að sérreglur laga þar um eigi ekki við í málinu varðandi málsvörn stefnda. Þá bendir stefndi á að sönnunarbyrði varðandi ábyrgð stefnda hvíli alfarið á stefnanda enda hafi hann samið lánsskjalið og beri hallann af ónákvæmni við túlkun þess.

Í þriðja lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að það hafi verið grundvallarforsenda samþykkis hans, þegar hann áritaði lánssamninginn, að athugun sérfræðinga stefnanda hefði leitt í ljós að áhætta af þargreindri ábyrgðartöku væri óveruleg og þá ekki síður hinu, að samkvæmt ákvæðum samningsins hefðu sérfræðingar stefnanda virkt eftirlit með rekstri og afkomu félagsins á hverjum tíma, sbr. t.d. 9. gr. samningsins. Þá hafi það einnig verið forsenda stefnda, að báðir samningsaðilar virtu og færu í öllu eftir ákvæðum 9. gr. samningsins, ekki síst g-, h- og i- liðum, en þau ákvæði feli í sér aðgerðir samningsaðila í því skyni að minnka og draga úr áhættu ábyrgðaraðila.

Trygging ábyrgðaraðila hafi verið veitt á þeim tíma og við þær aðstæður félagsins þegar það hefði ekki haft í önnur hús að venda til öflunar tryggingar fjárskuldbindinga sinna þótt stefnandi hafi skýrt stefnda frá því að félagið væri vel gjaldfært á þeim tíma. Stefndi hafi gengið út frá því að við nýjar lántökur félagsins myndi hann að minnsta kosti njóta sömu tryggingaverndar og aðrir samkvæmt ákvæðum 9. gr. samningsins.

Við samþykki stefnda á viðaukunum tveimur, hafi hann ekki verið upplýstur um neitt annað en það, sem í þeim stóð, og einungis gerð grein fyrir því að öll málefni félagsins væru í góðu og vaxandi gengi. Það hafi ekki verið fyrr en á fyrri hluta ársins 2008 sem hann hafi komist að því að stefnandi og ECSA ehf. hafi þverbrotið framangreind ákvæði samningsins strax í janúar 2006 þegar stefnandi veitti ECSA ehf. tvö lán samtals að fjárhæð USD 7,8, tryggðum í flugvélum félagsins með 1. veðrétti, án þess að hlutast til um samsvarandi tryggingu lánsins samkvæmt þeim lánssamningi, sem liggur til grundvallar kröfu stefnanda í málinu, þótt í samningnum sé skýrt kveðið á um að það skuli gert við nýjar lántökur. Þá hafi stefnandi veitt félaginu ýmsa aðra fyrirgreiðslu, sem nú muni að fullu gerð upp við stefnanda án þess að hann hafi séð til þess að lán samkvæmt lánsskjalinu í þessu máli fengi notið hliðstæðra kjara eða uppgreiðslna.

Þegar stefnda hafi orðið kunnugt um, að allar þessar grundvallarforsendur hans fyrir veitingu ábyrgðar hans samkvæmt lánssamningnum voru löngu brostnar, hafi hann talið ljóst að ábyrgð hans samkvæmt samningnum væri niður fallin vegna brostinna forsendna og vanefnda stefnanda og félagsins á samningnum. Þá hafi einnig legið fyrir að báðir samningsaðilar hefðu í viðskiptum sínum í eiginhagsmunaskyni algjörlega litið framhjá hagsmunum og áhættu stefnda og annarra ábyrgðaraðila.

Verði ekki fallist á að ábyrgð stefnda hafi verið niður fallin á grundvelli framangreinds forsendubrests og vanefnda, byggi stefndi á því að það beri að víkja ákvæði lánssamningsins um ábyrgð hans á efndum til hliðar sem ósanngjörnum á grundvelli ákvæða 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Vísar stefndi um þetta til meginreglna samninga- og kröfuréttarins um rangar og brostnar forsendur auk ákvæða áðurnefndrar 36. gr. samningalaga, sbr. lög nr. 11/1986 um það efni. Þessi málsástæða leiði til þess að víkja beri ákvæðum samningsins til hliðar varðandi ábyrgð stefnda og leiði ein og sér til sýknu.

  Verði ekki á framangreint fallist, byggi stefndi á því, að þar sem kröfu stefnanda í þrotabú ECSA ehf. hafi verið hafnað og þar sem hún sé þannig úr garði gerð að óvíst sé hvort úr verði bætt undir meðferð þrotabúsins, kunni það að valda því að stefndi verði fyrir fjárhagslegu tjóni. Við þær aðstæður verði að telja að ábyrgð stefnda hafi fallið niður vegna þeirra mistaka stefnanda, ef til kæmi, hvort sem eitthvað kynni að hafa komið upp í kröfu stefnanda eða ekki, ef rétt hefði verið að kröfulýsingu staðið, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

Loks er á því byggt af hálfu stefnda, að stefnandi hafi valdið stefnda fjárhagslegu tjóni með saknæmum hætti. Tjónið nemi nákvæmlega þeirri fjárhæð sem hann kynni að verða dæmdur til að greiða stefnanda ef fallist yrði á ábyrgðarkröfu stefnanda í máli þessu, höfuðstóll, vextir og kostnaður. Saknæm háttsemi stefnanda felist í því að framkvæma ekki samningsbundnar ráðstafanir gagnvart skuld samkvæmt lánssamningnum og að gæta ekki umsaminnar tryggingaverndar skuldarinnar svo sem samið sé um í 9. gr. samningsins. Hefði stefnandi virt og framkvæmt í samræmi við ákvæðið, væri dómskuld þessa máls löngu greidd upp á sama hátt og aðrar skuldir félagsins við stefnanda, síðar til komnar, og allar sérstaklega tryggðar með öðrum hætti en þessi skuld. Stefnanda hafi mátt vera ljós sú aukna áhætta sem varpað var á herðar ábyrgðaraðila samningsins með því að sjá ekki til þess að þeir nytu a.m.k. sömu tryggingaverndar og stefnandi sjálfur við hinar auknu lántökur félagsins eftir útgáfu lánssamningsins. Sú aukna áhætta hafi nú orðið virk og fallið á ábyrgðaraðilana við gjaldþrot félagsins. Því til viðbótar sé kröfulýsing stefnanda í þrotabú félagsins með þeim hætti að henni hafi verið hafnað af skiptastjóra og óljóst sé hvort fjárhagslegt tjón fyrir stefnda kunni að verða af þeim orsökum eða öðrum ágöllum á kröfulýsingunni. Krafa þessi sé byggð á 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þrautavarakröfu sína um lækkun á kröfu stefnanda, byggi stefndi á því að stefnandi hafi lækkað kröfu sína gagnvart aðalskuldara og breytt henni í íslenskar krónur í kröfulýsingu í þrotabú ECSA ehf. Það sé grunnregla í ábyrgðarrétti að ábyrgðarmaður njóti lækkana og breytinga á kröfu á hendur aðalskuldara. Þessi breyting á aðalkröfu, bæði fjárhæð og gengi, komi skýrt fram á kröfulýsingu án nokkurs fyrirvara. Ábyrgðaryfirlýsing stefnda sé pro rata en hundraðshluti ábyrgðar hans nemi 7,6561%. Eftirstöðvar kröfu samkvæmt kröfulýsingu í þrotabú ECSA ehf. nemi 21.315.734 krónum og 7,6561% af þeirri fjárhæð nemi 1.631.954 krónum. Sú fjárhæð ætti því að vera hámark ábyrgðar stefnda á kröfu stefnanda og ætti því að lækka kröfu stefnanda með þeim hætti. 

V.

Óumdeilt er að stefndi undirritaði lánssamning þann, sem liggur frammi í málinu og málsókn þessi byggir á, sem sjálfskuldarábyrgðarmaður. Þá er ágreiningslaust að lán samkvæmt samningnum var veitt lántaka og hefur verið sýnt fram á það með gögnum að lánið er í vanskilum. Jafnframt er óumdeilt að með undirritun sinni á lánssamninginn tókst stefndi á hendur sjálfsskuldarábyrgð pro rata að fjárhæð GBP 56.147 á fullum efndum allra skuldbindinga samkvæmt samningnum. Þá liggur fyrir að stefndi undirritaði sem sjálfskuldarábyrgðarmaður báðar skilmálabreytingarnar, sem gerðar voru á samningnum, þ.e. 1. nóvember 2006 og 27. nóvember 2007.

Samkvæmt greinargerð stefnda byggir hann sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að sérreglur laga um viðskiptabréf eigi ekki við varðandi málsvörn stefnda þar sem framlagður lánssamningur sé ekki skuldabréf. Í stefnu kemur fram að stefnandi byggi mál þetta á meginreglu kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Er þar ekki vísað til ákvæða XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem mælt er fyrir um takmarkanir á því hvaða varnir stefndi í máli um víxla, tékka og skuldabréf getur haft uppi. Er málatilbúnaður stefnanda því ekki til þess fallinn að hafa áhrif á málsvörn stefnda að þessu leyti.

Stefndi byggir einnig á því að það hafi verið grundvallarforsenda þess að hann samþykkti að verða sjálfskuldarábyrgðarmaður á lánssamningnum að athugun sérfræðinga stefnanda hefði leitt í ljós að áhætta af ábyrgðinni væri óveruleg og að sérfræðingar stefnanda hefðu virkt eftirlit með rekstri og afkomu lántaka á hverjum tíma eins og mælt sé fyrir um í samningnum, t.d. 9. gr. Þá hefði það einnig verið forsenda ábyrgðar stefnda að bæði stefnandi og lántaki virtu og færu eftir öllum ákvæðum samningsins, ekki síst g-, h- og i-liðum 9. gr. hans. Af hálfu stefnanda er þessum fullyrðingum stefnda mótmælt sem röngum enda hafi stefndi engan fyrirvara sett fyrir ábyrgð sinni.

Ákvæði 9. gr. lánssamningsins í heild lúta að sérstökum skyldum lántakanda gagnvart lánveitanda. Þar kemur fram að lántaki skuldbindi sig til þess að hlíta nánar tilgreindum skilmálum uns skuld samkvæmt samningnum er að fullu greidd. Ákvæðin fjalla um skyldur lántaka gagnvart lánveitanda en ekki verður litið svo á að þau feli í sér sérstaka skyldu lánveitanda til að gæta hagsmuna sjálfskuldarábyrgðaraðila að þessu leyti. Þá hafa engin gögn verið lögð fram um að stefndi hafi sett fyrirvara fyrir sjálfskuldarábyrgð sinni, hvorki við undirritun hans í upphafi né við undirritanir hans í tvígang undir viðauka við samninginn. Er heldur ekkert komið fram um það að stefndi hafi óskað sérstaklega eftir upplýsingum um stöðu lánsins eða önnur atriði varðandi efndir hans. Gegn mótmælum stefnanda verður því að telja ósannað að það hafi verið grundvallarforsenda stefnda fyrir sjálfskuldarábyrgð sinni að sérfræðingar hefðu talið áhættu af ábyrgðinni óverulega, að sérfræðingar stefnanda hefðu virkt eftirlit með rekstri og afkomu lántakanda og að lánveitandi og lántaki færu í öllu eftir ákvæðum 9. gr. samningsins. Þá er það mat dómsins með sömu rökum, að stefnanda hafi verið heimilt að veita lántaka samkvæmt lánssamningnum frekari lánafyrirgreiðslu gegn veði í flugvélum félagsins eftir gerð umrædds lánasamnings, enda þótt ekki hafi verið hlutast til um samsvarandi tryggingu vegna hans. Í ljósi framanritaðs eru ekki efni til að fallast á með stefnda að stefnandi hafi vanefnt ákvæði lánssamningsins gagnvart stefnda.

Í 10. gr. samningsins, sem ber yfirskriftina tryggingar, segir að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta samningsins, takist tilgreindir aðilar á hendur sjálfskuldarábyrgð pro rata fyrir nánar tilgreindri upphæð á fullum efndum samkvæmt samningnum. Eru ábyrgðaraðilarnir síðan taldir upp og við nöfn þeirra tilgreindar ákveðnar fjárhæðir í breskum pundum. Þá segir að sjálfskuldarábyrgðin taki til greiðslu höfuðstóls allra lánshluta auk vaxta, dráttarvaxta og vaxtavaxta, svo og alls kostnaðar sem af vanskilum kunni að leiða. Loks segir í lok 10. gr. að ábyrgðin gildi jafnt þótt greiðslufrestur verði veittur á skuldbindingum samkvæmt samningnum einu sinni eða oftar uns skuldin sé að fullu greidd. Við nafn stefnda er ritað GBP 56.147 en stefnandi hefur í máli þessu krafið stefnda um greiðslu þeirrar fjárhæðar ásamt vöxtum, vaxtavöxtum og kostnaði. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að víkja beri þessum ákvæðum lánssamningsins um ábyrgð hans á efndum samningsins til hliðar sem ósanngjörnum með vísan til ákvæða 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Því til stuðnings hefur stefndi í greinargerð látið nægja að vísa til málsatvika og ákvæða lánssamningsins án þess að benda á ákveðin atriði til stuðnings því að ógilda beri ábyrgðarákvæði samningsins gagnvart honum.

Ekki verður talið að það eitt, að um er að ræða banka annars vegar og einstakling hins vegar, leiði undantekningarlaust til þess að litið verði svo á að ójafnræði hafi verið með aðilum, þ.e. að bankinn hafi með einhverjum hætti neytt yfirburðastöðu gagnvart viðsemjanda sínum. Þegar litið er til framangreinds um efni ábyrgðarákvæðis 10. gr. lánssamningsins verður ekki fallist á það með stefnda að efni þess sé svo ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að víkja beri því til hliðar í heild eða að hluta með hliðsjón af 36. gr. samningalaganna. Er ekki unnt að fallast á sýknukröfu stefnda af þessum sökum.

Stefndi byggir jafnframt á þeirri málsástæðu, að ábyrgð hans teljist fallin niður þar sem hann kunni að verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þess að kröfu stefnanda í þrotabú ECSA ehf. hafi verið hafnað auk þess sem hún sé þannig úr garði gerð að óvíst sé hvort úr verði bætt undir meðferð þrotabúsins. Ef ekki verði úr henni bætt séu það mistök sem leiði til þess að ábyrgð stefnda falli niður, hvort sem eitthvað kynni að hafa komið upp í kröfu stefnanda eða ekki.

Samkvæmt framlagðri kröfuskrá í þrotabúi ECSA ehf. var kröfu stefnanda í búið hafnað að svo stöddu þar sem endanleg kröfufjárhæð lá ekki fyrir enda hefði kröfuhafi gert fyrirvara um það. Stefndi hefur hvorki skýrt ætluð mistök stefnanda við kröfulýsingu né hvert ætlað tjón stefnda er, ef til tiltekinnar afgreiðslu á kröfu stefnanda í þrotabú ECSA ehf. kemur. Er það mat dómsins að ekki verði á þessari málsástæðu byggt.

Með sömu rökum er það niðurstaða dómsins að ekki verði byggt á þeirri málsástæðu stefnda fyrir sýknukröfu sinni, að stefnandi hafi með þeirri saknæmu háttsemi að framkvæma ekki samningsbundnar ráðstafanir gagnvart skuld samkvæmt lánssamningnum við síðari lánveitingar stefnanda til ECSA ehf. og gæta þannig ekki umsaminnar tryggingaverndar þessarar skuldar svo sem samið sé um í 9. gr. samningsins. Skiptir hér einnig máli það sem áður er komið fram um að efni 9. gr. lánssamningsins lýtur að skyldum lántaka við lánveitanda og verður ekki litið svo á að þau ákvæði feli í sér sérstaka skyldu lánveitanda til að gæta hagsmuna sjálfskuldarábyrgðaraðila að þessu leyti. Verður sýkna því ekki byggð á þessari málsástæðu

Kröfu sína um lækkun á kröfu stefnanda byggir stefndi á því að stefnandi hafi lækkað kröfu sína gagnvart aðalskuldara og breytt henni í íslenskar krónur í kröfulýsingu sinni í þrotabú ECSA ehf. og eigi ábyrgðarmaður að njóta þess. Hér verður að líta til þess, að þegar um er að ræða ábyrgð skuldara að hluta (pro rata), ábyrgist hver ábyrgðarmaður tiltekinn hluta af heildarskuldinni þannig að samtala verðmætis hlutanna er jöfn heildarskuldinni. Þegar svo háttar til verður hver skuldari aðeins krafinn um hans hluta af skuldinni. Það hefur því ekki áhrif á efndaskyldur hvers einstaks skuldara hvort kröfuhafa lánast að fá efndir hjá hinum skuldaranum eða skuldurunum. Það er meginregla að ábyrgðarmaður er skuldbundinn samkvæmt loforði sínu samkvæmt þeim skilmálum sem hann hefur gengist undir. Í greinargerð sinni hefur stefndi ekki byggt á því að lán samkvæmt samningnum sé uppgreitt en gögn málsins bera með sér að greitt hefur verið inn á heildarskuldina en eftirstöðvar hennar nema hærri fjárhæð en sem nemur ábyrgð stefnda. Þá byggir stefndi heldur ekki á því að hann hafi sjálfur greitt ábyrgð sína. Að öllu þessu virtu verður því að hafna kröfu stefnda um lækkun á dómkröfu stefnanda. Að öllu framanrituðu virtu er krafa stefnanda um að stefndi greiði honum GBP 56.147 tekin til greina.

Í framlögðum lánssamningi eru ákvæði í 7. gr. um vanskilavexti. Þar segir að standi lántaki ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar á gjalddaga, beri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags og fari um dráttarvexti samkvæmt ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001. Síðan segir að bankinn hafi um það val hvort krafist sé dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynd eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur. Samkvæmt endanlegri kröfugerð stefnanda krefst hann þess hins vegar að með dómi verði stefnda gert að greiða stefnufjárhæðina með „samningsvöxtum skv. vaxtaákvæðum lánssamnings, sem eru breytilegir vexti jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,25% vaxtaálags“ frá 10. febrúar 2009. Eru ekki færð frekari rök fyrir kröfu þessari í stefnu og hefur málatilbúnaður aðila að engu leyti snúist um hana. Að því virtu er málið svo vanreifað að þessu leyti af hendi stefnanda að vísa verður vaxtakröfu hans sjálfkrafa frá dómi.

Í samræmi við meginreglu 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 334.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Vaxtakröfu stefnanda er vísað frá dómi.

Stefndi, Gunnar Þórarinsson, greiði stefnanda, NBI hf., GBP 56.147.

Stefndi greiði stefnanda 334.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.