Hæstiréttur íslands

Mál nr. 304/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit
  • Óvígð sambúð
  • Fasteign
  • Eignarréttur
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


                                     

Miðvikudaginn 14. maí 2014.

Nr. 304/2014.

M

(Katrín Theodórsdóttir hdl.)

gegn

K

(Gísli Guðni Hall hrl.)

Kærumál. Fjárslit. Óvígð sambúð. Fasteign. Eignarréttur. Kröfugerð. Frávísun að hluta frá héraðsdómi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi M og K í tengslum við opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar þeirra. Fyrir Hæstarétti krafðist M þess aðallega að við fjárslitin yrði viðurkenndur réttur hans til 59% eignarhlutdeildar í tilgreindri fasteign. Hæstiréttur hafnaði þeirri kröfu með skírskotun til þess að M og K hefðu eignast fasteignina að helmingi hvort um sig og þótt annað þeirra kynni að hafa borið kostnað af  endurbótum fasteignarinnar í ríkara mæli en hitt stæðu lög ekki til þess að eignarhlutföll þeirra innbyrðis tækju breytingum því til samræmis á þeim grunni einum. Til vara krafðist M þess að K yrði gert að endurgreiða hluta kostnaðar við endurbætur á sömu fasteign. Hæstiréttur vísaði þeirri kröfu frá héraðsdómi sökum þess að málið væri rekið eftir XIV. kafla laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og endurgreiðslukröfu í slíkum máli væri einungis unnt að hafa uppi ef unnt væri að fá henni fullnægt eftir fyrirmælum 3. málsliðar 4. mgr. 109. gr. sömu laga eða samkomulag væri með aðilunum um annað, svo og ef aðstæður væru slíkar sem greindi í 2. mgr. 124. gr. laganna.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. apríl 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2014, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna í tengslum við opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar þeirra. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkenndur verði við fjárslitin réttur hans „til 59% eignahlutdeildar úr hreinni eign einbýlishússins nr. [...] við A í [...]“, en verði ekki fallist á „aukna eignarhlutdeild“ hans, sem nemi 59% „eða lægri hlutdeild“, krefst hann þess til vara að „varnaraðila verði gert að endurgreiða sóknaraðila kostnað við endurbætur á eigninni sem nemur helmingi virðisaukans“ eða 2.750.000 krónum. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurða og kærumálskostnaðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði komu þar til úrlausnar kröfur, sem sóknaraðili gerði í héraði og sneru að öðrum eignum aðilanna en fasteigninni að A [...], en þeim kröfum var hafnað. Svo sem ráðið verður af áðursögðu varða dómkröfur hans fyrir Hæstarétti eingöngu þá fasteign og er úrskurður héraðsdóms því ekki til endurskoðunar að öðru leyti.

Samkvæmt gögnum málsins eignuðust aðilarnir fasteignina að A [...] með kaupsamningi 30. nóvember 2007, sem var þinglýst 4. desember sama ár. Í samningnum var skýrlega tekið fram að eignarhluti hvors þeirra í henni væri helmingur. Í þinglýsingarvottorði um eignina kemur og fram að aðilarnir hafi fengið afsal fyrir henni 6. október 2008, sem þinglýst var degi síðar, og eigi þau hana að helmingi hvort. Þótt annað málsaðila kynni sannanlega að hafa borið kostnað af endurbótum á fasteigninni í ríkari mæli en hitt standa lög ekki til þess að eignarhlutföll þeirra innbyrðis tækju breytingum því til samræmis á þeim grunni einum. Þegar af þeirri ástæðu verður að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að hafna kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á eignarrétti hans að hærra hlutfalli en helmingshlut í fasteigninni.

Varakrafa sóknaraðila er reist á því að hann eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila vegna ójafnra framlaga þeirra til endurbóta á fasteigninni. Við opinber skipti, sem fara eftir ákvæðum XIV. kafla laga nr. 20/1991, verður krafa á slíkum grunni eingöngu höfð uppi sem endurgjaldskrafa, enda sé unnt að fá henni fullnægt eftir fyrirmælum 3. málsliðar 4. mgr. 109. gr. sömu laga eða samkomulag er með aðilunum um annað. Sóknaraðili hefur ekki borið upp varakröfu sína í slíku horfi, heldur krefst hann þess að varnaraðili verði skylduð með dómi til að greiða sér tiltekna fjárhæð. Í máli, sem rekið er fyrir dómi eftir 5. þætti laga nr. 20/1991, verður slík krafa ekki gerð nema þannig standi á, sem um ræðir í 2. mgr. 124. gr. sömu laga. Svo er ekki hér og verður því að vísa frá héraðsdómi þeirri varakröfu, sem sóknaraðili hefur gert fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi varakröfu sóknaraðila, M, um að varnaraðila, K, verði gert að greiða sér 2.750.000 krónur.

Hinn kærði úrskurður er að öðru leyti staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2014.

                Mál þetta, sem barst dóminum með bréfi mótteknu 30. ágúst 2013, var tekið til úrskurðar 11. mars sl.

                Sóknaraðili er M, A í [...].

                Varnaraðili er K, A í [...].

                Dómkröfur sóknaraðilar eru þær að viðurkenndur verði réttur hans til 59% eignahlutdeildar úr hreinni eign einbýlishússins að A, [...], fasteignanúmer [...], við opinber skipti til fjárslita vegna slita á óvígðri sambúð aðila. Fallist dómurinn ekki á aukna eignahlutdeild sóknaraðila í fasteigninni, sem nemur 59% eða lægri hlutdeild, er þess krafist að varnaraðila verði gert að endurgreiða sóknaraðila kostnað við endurbætur á eigninni sem nemur helmingi virðisaukans samkvæmt mati Kjöreignar eða 2.750.000 krónum. Sóknaraðili fellst á að bifreiðin [...] sé í eigu aðila að jöfnu. Þess er krafist að varnaraðila verði gert að endurgreiða sóknaraðila 149.731 krónu, sem er helmingur viðgerðar- og viðhaldskostnaðar fyrir árin 2012 og 2013. Sóknaraðili krefst þess einnig að hafnað verði kröfu varnaraðila um afhendingu þvottavélar, uppþvottavélar, ísskáps, Tempur rúmdýnu og gaseldavélar úr ryðfríu stáli. Þá er fallist á að aðilar beri sameiginlega og óskipta ábyrgð á greiðslu skuldar við Íbúðalánasjóð sem tryggð er með 1. til 6. veðrétti í fasteigninni að A, [...]. Að lokum krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

                Varnaraðili krefst þess að dómkröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða henni málskostnað.

I

                Málsaðilar kynntust á árinu 2005 og hófu samband í lok þess árs. Á tímabilinu 2005 til 2011 bjó sóknaraðili með hléum á heimili varnaraðila að [...],[...], þar sem hún bjó ásamt dóttur sinni, C. Þann 28. júní 2011 eignuðust aðilar stúlkuna D.

                Með kaupsamningi 30. nóvember 2007 keyptu aðilar einbýlishús að A í [...]. Kaupverð eignarinnar var 29.800.000 krónur sem aðilar greiddu að jöfnu. Var útborgun 3.966.570 krónur, 11.917.789 krónur voru greiddar með yfirtöku áhvílandi veðskulda, 6.075.641 króna með láni frá Íbúðalánasjóði, 5.840.000 krónur með láni frá SPRON og 2.000.000 króna með skuldabréfi. Aðilar fluttu ekki strax inn í húsið, en leigðu það út og skiptu með sér leigutekjum. Leigutekjurnar voru lagðar inn á sérstakan reikning sem stofnaður var í þeim tilgangi og voru afborganir og annar rekstrarkostnaður greiddur af þeim reikningi.

                Varnaraðili flutti inn í hluta fasteignarinnar að A í janúar 2009. Hluti hússins var áfram í útleigu. Varnaraðili kveðst á þeim tíma hafa ráðist í verulegar endurbætur á fasteigninni, t.d. hafi hún látið flota gólf í kjallara, mála og setja upp hurðir. Sóknaraðili flutti inn í fasteignina í maí 2011, en dóttir aðila fæddist skömmu síðar. Sambúðinni lauk 26. október 2012 er varnaraðili flutti út. Sóknaraðili varð eftir á heimilinu ásamt báðum telpunum. Þann 20. apríl 2013 flutti C til móður sinnar, en D hélt áfram að dvelja hjá foreldrum sínum til skiptis. Þann 11. október 2013 gerðu aðilar með sér samkomulag um forsjá og umgengni og fara þau samkvæmt þeim samningi með sameiginlega forsjá dóttur sinnar.

                Um sumarið 2012 hóf sóknaraðili endurbætur á fasteign aðila að A. Tilgangur endurbótanna var sá, í upphafi, að innrétta starfsaðstöðu fyrir sóknaraðila á jarðhæðinni. Sóknaraðili kveður eitt hafa tekið við af öðru eftir að hann hafi komið upp eins konar stúdíói á jarðhæðinni og tengt vinnuaðstöðuna við hæðirnar fyrir ofan með vönduðum nýjum stiga. Rafmagn í húsinu var endurnýjað, þakinu var lyft, endurnýjað bárujárn á þaki, sperrur og klæðing. Kvistir voru settir upp og nýir gluggar á þakhæðina og hitakerfi endurnýjað með nýjum ofnum. Rafmagn var endurnýjað og nýjum veggjum komið fyrir. Hluti gólfa var flotaður og settur gólfhiti á jarðhæð hússins. Eldhúsinnrétting var endurnýjuð og sett nýtt viðargólf í eldhúsið. Sóknaraðili kveður að kostnaður við endurbæturnar hafi numið u.þ.b. 15.000.000 króna. Þær hafi verið fjármagnaðar af honum og fyrirtæki hans. Varnaraðili hafi ekkert fjármagn lagt til endurbótanna, sem að stórum hluta hafi farið fram eftir að hún hafi flutt út af heimilinu.

                Sóknaraðili kveður aðila báða hafa greitt af áhvílandi veðskuldum og öðrum rekstrarkostnaði fram til mars 2013, en þó í ólíkum hlutföllum. Hann hafi greitt um 70% rekstrarkostnaðar, en varnaraðili um 30%. Varnaraðili fellst á að hún hafi greitt aðeins minna eftir að sóknaraðili hafi flutt inn, en það hafi verið vegna þess að hún hafi þurft að minnka við sig vinnu vegna meðgöngunnar og á meðan hún hafi verið í fæðingarorlofi. Þau hafi haft fjárhagslega samstöðu á þessu tímabili, greitt sameiginlega af reikningum, óskað samsköttunar hjá ríkisskattstjóra o.fl.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2013 var fallist á kröfu varnaraðila um opinber skipti til fjárslita vegna slita á óvígðri sambúð aðila og var Sigurður Snædal Júlíusson hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri. Með erindi sem móttekið var 30. ágúst 2013 vísaði skiptastjórinn ágreiningi málsaðila, um eignarhlutföll í fasteigninni A, eignarhlutföll í bifreiðinni [...], skipti á innbúi aðila og áhvílandi skuldbindingar, til héraðsdóms þar sem ekki hafði náðst samkomulag milli aðila á skiptafundi, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

                Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dóminum, auk vitnanna Jens Jóhannessonar, og Dans Wiium.

II

                Sóknaraðili kveður kröfu sína lúta að því að fá viðurkennda sem sína eign þann virðisauka sem orðið hafi á fasteigninni að A, [...], samkvæmt mati fasteignasalans Dans Wiium. Af verðmatinu megi ráða að hækkun á markaðsverði eignarinnar sem rekja megi beint til endurbótanna nemi um 5.500.000 krónum. Ef virðisaukinn sé lagður við verðmæti helmings söluverðmætis eignarinnar miðað við áætlað markaðsverð hússins, eins og það hafi verið fyrir endurbætur og breytingar, reiknist hlutur sóknaraðila 20.500.000 krónur en hlutur varnaraðila 14.500.000 krónur.

                Krafa sóknaraðila sé reist á meginreglum samninga- og kröfuréttar, svo og á óskráðum meginreglum um fjárskipti við slit óvígðrar sambúðar. Við slit sambúðar beri að líta á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og gildi sú meginregla að hvort þeirra taki þær eignir sem það hafi átt við upphaf sambúðar eða meðan á sambúðinni hafi staðið. Ítrekað hafi verið staðfest með dómum Hæstaréttar að þinglýsing eignaréttinda veiti ekki sönnun fyrir því að sameign hafi stofnast með aðilum í sambúð.

                Það sé ágreiningslaust að sóknaraðili hafi einn staðið fyrir endurbótum á fasteigninni og greitt allan kostnað við endurbæturnar. Eins og gögn málsins sýni hafi sóknaraðili greitt 3.437.144 krónur í vinnulaun vegna endurbótanna. Þá hafi félag í hans eigu fjármagnað efniskaup vegna byggingaframkvæmdanna að verðmæti 2.080.563 krónur og greitt vinnulaun að fjárhæð 3.520.889 krónur. Staðfest sé að fasteignin hafi hækkað umfram almenna hækkun sambærilegra fasteigna á fasteignamarkaði og að þá hækkun megi rekja til endurbótanna sem sóknaraðili hafi staðið fyrir. Sóknaraðili haldi því fram að opinber skráning eignarinnar, um jafna eignahlutdeild aðila, gefi ekki rétta mynd af raunverulegum eignaráðum aðila, enda hafi varnaraðili ekki sýnt að hún hafi lagt eitthvað til eignaaukningarinnar sem réttlætt geti tilkall hennar til hlutdeildar í virðisaukanum og þar með helmings eignarinnar.

                Krafan sé byggð á því að ekki séu í gildi neinar þær reglur í íslenskum rétti sem tryggi kröfu varnaraðila til hlutdeildar í verðmætaaukningu fasteignarinnar. Sambúð aðila hafi verið stutt og aldrei hafi myndast með þeim sameiginlegt fjárfélag, að öðru leyti en því að þau hafi fjárfest saman í fasteign, í góðærinu fyrir hrun, sem þau hafi leigt út og skipt með sér tekjunum af, að frádregnum kostnaði við rekstur hennar. Í því sambandi beri að geta þess að sóknaraðili hafi jafnan greitt um 70% rekstrarkostnaðar, en varnaraðili um 30%.

                Formleg sambúð aðila hafi ekki hafist fyrr en í maí 2011 í fasteigninni að A. Þá hafi varnaraðili verið orðin þunguð. Ári síðar hafi forsendur sambúðarinnar verið brostnar. Varnaraðili hafi flutt út um haustið 2012. Sóknaraðili, sem hafi oftar verið aflögufær en varnaraðili, hafi oft hlaupið undir bagga með varnaraðila og greitt ýmis útgjöld, s.s. vegna dóttur hennar. Fjárhagur þeirra hafi samt sem áður verið aðskilinn. Þau hafi hvort í sínu lagi rekið eigið fyrirtæki, sem þau hafi haft tekjur af. Varnaraðili hafi undanfarin ár rekið hönnunarfyrirtækið E slf. og verslun í [...].

                Verði ekki fallist á kröfu sóknaraðila um aukna eignahlutdeild úr skírri eign fasteignarinnar sé þess krafist til vara að varnaraðila verði gert að endurgreiða sóknaraðila 2.750.000 krónur, sem sé helmingur virðisaukans sem orðið hafi á eigninni vegna endurbóta sóknaraðila. Með því móti gefist varnaraðila kostur á að leggja sitt af mörkum við verðauka fasteignarinnar, enda þótt sóknaraðili hafi lagt mun meira til endurbóta á eigninni eins og gögn málsins beri með sér.

                Ekki sé ágreiningur um eignarhald bifreiðarinnar [...]. Sóknaraðili krefjist hins vegar endurgreiðslu á helmingi kostnaðar vegna viðgerðar og viðhalds bifreiðarinnar fyrir árin 2012 og 2013, sem sé 149.731 króna.

                Sóknaraðili telji að skiptum á innbúi aðila sé lokið. Þeim hafi lokið er varnaraðili hafi, í mars 2013, tæplega sex mánuðum eftir að hún hafi flutt út, farið inn á heimili sóknaraðila er hann hafi verið fjarverandi og tekið þá innbúsmuni sem hún hafi viljað, án samráðs við hann. Ágreiningslaust sé að varnaraðili hafi farið inn á heimilið og tekið þaðan búsmuni, en ágreiningur standi um hvort sá hluti nemi helmingi innbús aðila. Þá mótmæli sóknaraðili verðmati varnaraðila á téðum búsmunum.

                Sóknaraðili andmæli ekki sameiginlegri og óskiptri ábyrgð aðila á skuldum við Íbúðalánasjóð sem tryggðar séu með 1. til 6. veðrétti í fasteigninni að A.

                Sóknaraðili vísi til meginreglna samninga- og kröfuréttar, óskráðra meginreglna við slit á óvígðri sambúð og laga nr. 21/1993 um skipti á dánarbúum o.fl. Krafa um málflutningsþóknun byggist á ákvæðum í XXI. kafla laga nr. 91/1991.

III

                Varnaraðili kveður ágreining málsaðila einkum snúa að því hvort sóknaraðili eigi kröfu á hendur henni vegna endurbóta á fasteign þeirra að A, sem eigi að hafa átt sér stað „að stórum hluta“ eftir að sambúð aðila hafi lokið í október 2012. Sóknaraðili haldi því fram að hann hafi fjármagnað endurbætur á eigninni fyrir 15.000.000 króna og að það hafi leitt til hækkunar á markaðsvirði eignarinnar sem nemi 5.500.000 krónum, samkvæmt óstaðfestu verðmati, byggðu á forsendum sóknaraðila, sem hann hafi aflað einhliða. Sóknaraðili staðhæfi að varnaraðili hafi ekki lagt fram neitt fjármagn vegna þessara framkvæmda, sem þó séu ekki tilgreindar með nákvæmum hætti í greinargerð hans, t.d. hvað hafi verið gert, hvenær það hafi verið gert eða sundurliðun kostnaðar.

                Í fyrsta lagi sé því mótmælt að umræddar endurbætur hafi verið gerðar á fasteign málsaðila „að stórum hluta“ eftir að sambúð aðila hafi lokið í október 2012. Umræddar endurbætur hafi átt sér stað áður og verið lokið á meðan málsaðilar hafi enn verið í sambúð.

                Í öðru lagi sé því mótmælt að meintar endurbætur hafi leitt til hækkunar á markaðsvirði fasteignarinnar. Verðmati, sem sóknaraðili hafi aflað einhliða, um markaðsverð eignarinnar og meintan virðisauka, sé mótmælt sérstaklega, en telja verði matið þýðingarlaust.

                Í þriðja lagi sé því mótmælt að sóknaraðili hafi fjármagnað þessar endurbætur á fasteign málsaðila umfram varnaraðila. Flestir reikninganna sem sóknaraðili leggi fram séu stílaðir á einkahlutafélagið F. Reikningar sem stílaðir séu á sóknaraðila séu útgefnir eftir að sambúð málsaðila hafi lokið í október 2012, og séu því framkvæmdunum og varnaraðila óviðkomandi.

                Í fjórða lagi sé því mótmælt að varnaraðili hafi ekki lagt fram fjármagn vegna framkvæmda við fasteign málsaðila. Varnaraðili hafi séð um rekstur eignarinnar frá því að hún hafi verið keypt, á árinu 2007, þar til hún hafi flutt þaðan út í október 2012. Verulegar endurbætur hafi átt sér stað á þessum tíma og veruleg vinna hafi farið í að breyta eigninni. Varnaraðili hafi jafnframt séð um sameiginlegt heimilishald málsaðila frá því að samband þeirra hófst og þar til því hafi lokið, auk þess sem varnaraðili hafi átt frumkvæði að því að sækja um niðurfellingu áhvílandi lána hjá Arion banka hf., sem hafi leitt til þess að lán á 6. veðrétti frá Spron hafi verið fellt niður.

                Sóknaraðili leggi fram fjöldann allan af reikningum sem stílaðir séu á F ehf., sem sóknaraðili kveði vera í sinni eigu. Ósannað sé að umrætt einkahlutafélag sé í eigu sóknaraðila. Þá sé ósannað að allir þeir reikningar sem stílaðir séu á fyrirtækið séu vegna framkvæmda að A, enda sé ekki gerð grein fyrir því í greinargerð sóknaraðila. F ehf. reki [...] að [...]. Ekki sé hægt að útiloka að umræddir reikningar séu vegna framkvæmda við hljóðstúdíóið, sérstaklega í ljósi þess að í fyrningarskýrslu F ehf., dags. 31. desember 2012, séu eignarfærðar innréttingar að fjárhæð 4.155.906 krónur.

                Sumir framlagðra reikninga hafi engin tengsl við byggingaframkvæmdir, sbr. t.d. reikning frá Byko hf., dags. 8. júlí 2012, þar sem vöruheiti sé tilgreint „sandkassi m/sæti 1500x1500“. Sandkassinn hafi verið afmælisgjöf til dóttur málsaðila og hafi engin tengsl við meintar framkvæmdir.

                Ekki verði ráðið af greinargerð sóknaraðila eða öðrum gögnum málsins hvernig sóknaraðili geti eignast kröfu á hendur varnaraðila vegna útlagðs kostnaðar F ehf. Varnaraðili árétti að óheimilt sé að greiða fjármuni út úr einkahlutafélagi nema ströng skilyrði séu uppfyllt, t.d. um útgreiðslu arðs. Þá sé óheimilt að lána fé til eigenda slíkra félaga, sbr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Því sé vandséð, nánast útilokað, að skilja hvernig sóknaraðili geti öðlast einhver réttindi vegna kostnaðar F ehf.

                Reikningar sem gefnir séu út á hendur sóknaraðila beri með sér að meirihluti þeirra hafi verið gefinn út eftir að sambúð málsaðila hafi lokið í október 2012. Umræddar framkvæmdir séu löngu yfirstaðnar. Óskiljanlegt sé því hvaða tengsl þessir reikningar hafi við fasteign málsaðila eða umræddar framkvæmdir.

                Varnaraðili hafni kröfu sóknaraðila um aukna eignarhlutdeild þar sem markaðsverðmæti A annars vegar og verðmætisaukning eignarinnar hins vegar, vegna umræddra framkvæmda, liggi ekki fyrir. Þá sé ósannað að sóknaraðili hafi greitt einhvern kostnað vegna þessara framkvæmda umfram varnaraðila.

                Sýknukrafa varnaraðila byggist í öðru lagi á því að engin lagaheimild sé fyrir því að fallast á fjárkröfu sóknaraðila eða kröfu um aukna eignarhlutdeild þegar litið sé til sambúðartíma málsaðila, fjárframlaga málsaðila við að afla eignarinnar, umsýslu varnaraðila í tengslum við eignina, s.s. við útleigu, framkvæmdir, hönnun, niðurfellingu lána o.fl., vinnu varnaraðila á heimilinu sem hafi gert varnaraðila kleift að sinna atvinnu sinni og þess að að varnaraðili hafi verið í fæðingarorlofi þegar ráðist hafi verið í framkvæmdir við að hækka þak hússins.

                Varnaraðili byggi jafnframt á því að hún hafi aldrei samþykkt þær framkvæmdir sem séu grundvöllur krafna sóknaraðila í málinu. Sóknaraðili hafi ekki haft fyrir því að kynna framkvæmdirnar fyrir varnaraðila, fyrir utan almenna lýsingu í greinargerð sem vísað sé til hér að framan. Sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að varnaraðili hafi veitt samþykki fyrir framkvæmdunum. Hann hafi engin gögn lagt fram til sönnunar staðhæfingum sínum, þrátt fyrir að honum hafi verið í lófa lagið að tryggja sér slíka sönnun.

                Samkvæmt almennum reglum eignarréttar og samningaréttar verði greiðsluskylda ekki lögð á varnaraðila vegna endurbóta og lagfæringa á fasteign hennar sem framkvæmdar hafi verið án nokkurs samráðs við hana, sbr. til hliðsjónar 39. og 40. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Áréttað sé að hér sé um að ræða framkvæmdir sem sóknaraðili haldi fram að hafi kostað um 15.000.000 króna, sem hafi leitt til verðmætisaukningar upp á 5.500.000 krónur. Fráleitt sé að aðili, sem eigi eign í óskiptri sameign, geti skuldbundið sameiganda sinn til greiðslu svo hárrar fjárhæðar sem í stefnu greini, með einhliða aðgerðum, án nokkurs samráðs við sameigandann. Af sömu ástæðu sé fráleitt að slíkar framkvæmdir geti leitt til aukinnar eignarhlutdeildar sóknaraðila.

                Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að varnaraðili beri greiðsluábyrgð vegna framkvæmdanna krefjist varnaraðili sýknu á þeim grundvelli að ósannað sé að sóknaraðili hafi greitt kostnað vegna þeirra. Af hálfu sóknaraðila hafi einungis verið lögð fram yfirlit og reikningar. Stórum hluta reikninganna sé ekki beint til sóknaraðila. Ósannað sé að fjármunir hafi runnið frá sóknaraðila til greiðslu kostnaðar vegna framkvæmdanna. Sýni sóknaraðili fram á að hann hafi innt af hendi greiðslur vegna framkvæmdanna krefjist varnaraðili sýknu á grundvelli þess að ósannað sé að framkvæmdirnar hafi haft í för með sér verðmætisauka.

                Varnaraðili byggir sýknukröfu sína vegna kröfu varnaraðila um viðgerðarkostnað, vegna bifreiðarinnar [...], í fyrsta lagi á því að engin lagaheimild sé fyrir því að fallast á kröfu sóknaraðila um greiðslu viðgerðarkostnaðar úr hendi varnaraðila þegar litið sé til fjárframlaga málsaðila við að afla bifreiðarinnar og viðhalda henni. Í þessu sambandi sé lögð áhersla á að framlagðir reikningar sóknaraðila beri það með sér að varnaraðili hafi greitt 749.058 krónur í viðgerðarkostnað bifreiðarinnar. Því sé fráleitt, eða a.m.k. vanreifað, hvers vegna sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, að varnaraðili beri greiðsluábyrgð vegna viðgerðarkostnaðarins krefjist hún sýknu á þeim grundvelli að ósannað sé að varnaraðili hafi greitt kostnað vegna þeirra. Tekið sé fram að þessi krafa sóknaraðila hafi aldrei verið rædd á skiptafundum málsaðila.

                Varnaraðili hafi aldrei gert kröfu um að fá afhenta þvottavél, ísskáp, Tempur rúmdýnu og gaseldavél úr ryðfríu stáli, eins og haldið sé fram í greinargerð sóknaraðila. Varnaraðili hafi gert kröfu um að umræddar eignir komi til skipta á milli málsaðila enda sé óumdeilt að þeirra hafi verið aflað á sambúðartíma málsaðila. Gegn neitun varnaraðila sé ósannað að skiptum á innbúi málsaðila sé lokið.

                Um málskostnaðarkröfu sína vísi varnaraðili til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Málsaðila greinir einkum á um eignarhlutdeild í fasteign þeirra að A, [...]. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði aukin eignarhlutdeild hans, 59% eða lægri. Til vara er þess krafist að varnaraðila verði gert að endurgreiða sóknaraðila kostnað við endurbætur á eigninni að fjárhæð 2.750.000 krónur.

                Við fjárslit við lok óvígðrar sambúðar ber að líta svo á að hvorum aðila tilheyri sínar eignir og þær komi ekki til skipta. Gildir þá sú meginregla að hvor aðila taki þær eignir, sem tilheyrðu honum við upphaf sambúðar eða hann eignaðist meðan á sambúðinni stóð. Eftir almennum reglum fjármunaréttar gildir sú meginregla við fjárslit að þinglýst eignarheimild yfir fasteign og skráning eignarréttar að bifreið í ökutækjaskrá veita líkindi fyrir eignarrétti. Leiðir af þeirri reglu að sá sem heldur því fram að í slíkri skráningu felist ekki réttar upplýsingar um eignarrétt ber sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu.

                Óumdeilt er að aðilar keyptu fasteignina að A að jöfnu 30. nóvember 2007 og er það í samræmi við þinglýsingarvottorð vegna eignarinnar. Ber sóknaraðili því sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni um aukna eignarhlutdeild. Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að virðisauki hafi orðið á fasteigninni samkvæmt mati fasteignasalans og héraðsdómslögmannsins Dans Wiium hjá fasteignasölunni Kjöreign. Varnaraðili hefur andmælt framangreindu mati.

                Fyrir liggur að aðilar keyptu fasteignina þann 30. nóvember 2007 á 29.800.000 krónur. Í málinu liggja fyrir fjögur verðmöt á eigninni frá þeim tíma. Í verðmati fasteignasölunnar 101 Reykjavík frá 21. nóvember 2011, sem framkvæmt var fyrir Íbúðalánasjóð, var matsverð 26.900.000 krónur. Samkvæmt verðmati Dans Wiium, héraðsdómslögmanns og löggilts fasteignasala hjá Kjöreign frá 15. maí 2013, sem unnið var að beiðni sóknaraðila, er matsverðið 34.000.000 króna. Þá liggur fyrir verðmat fasteignasölunnar Mikluborgar frá 13. ágúst 2013 sem skiptastjóri aflaði. Niðurstaða þess mats er sú að áætlað markaðsverðmæti eignarinnar sé 33.000.000 króna. Þá liggur að síðustu fyrir nýtt mat Dans Wiium á fasteigninni frá 11. desember 2013, sem aflað var af hálfu sóknaraðila. Það er niðurstaða þess mats að matsverð fasteignarinnar sé 35.000.000 króna. Þá kemur fram í matinu að matsmaður telji að söluverðmæti eignarinnar, miðað við ástand hússins eins og það hafi verið fyrir endurbætur og breytingar, væri í dag 29.500.000 krónur. Krafa sóknaraðila byggir á síðastgreinda verðmatinu.

                Eins og fram hefur komið aflaði sóknaraðili framangreindra verðmata Dans Wiium fasteignasala einhliða. Varnaraðili hefur andmælt niðurstöðu hans og vísað til annars verðmats sem liggur fyrir í málinu, þar sem niðurstaðan er önnur. Dan Wiium kom fyrir dóminn og staðfesti mat sitt og gerði grein fyrir niðurstöðu sinni. Fram kom hjá honum að hann hefði selt eignina á sínum tíma og hann hefði því þekkt ástand hennar fyrir endurbæturnar. Varnaraðili átti þess ekki kost að koma að upplýsingum við gerð verðmats framangreinds fasteignasala, enda var þess aflað einhliða af sóknaraðila. Í greinargerð varnaraðila kemur meðal annars fram að hún hafi framkvæmt ýmsar endurbætur á fasteigninni og hefur því ekki verið andmælt af hálfu sóknaraðila. Ekki hefur verið tekið tillit til þess þáttar við gerð verðmatsins. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður því hafnað að sóknaraðili hafi fært fullnægjandi sönnur fyrir því að sá virðisauki hafi orðið á fasteign hans sem hann heldur fram. Krafa sóknaraðila um aukna eignarhlutdeild í fasteigninni byggir alfarið á niðurstöðu framangreinds verðmats og varakrafa hans um endurgreiðslu kostnaðar sömuleiðis. Með vísan til framangreinds verður þessum kröfum sóknaraðila því hafnað.

                Skiptastjóri vísaði einnig til dómsins ágreiningi aðila um eignarhlutföll í bifreiðinni [...]. Kom fram í erindi hans að varnaraðili teldi bifreiðina vera í eigu aðila að jöfnu, en sóknaraðili teldi eignarhlut sinn vera meiri, án þess að fram hefði komið hver hann væri. Í greinargerð sinni fyrir dóminum hefur sóknaraðili hins vegar fallist á að eignarhlutdeild aðila sé jöfn, en gerir kröfu um endurgreiðslu viðgerðarkostnaðar vegna bifreiðarinnar vegna áranna 2012 og 2013. Til stuðnings kröfu sinni hefur sóknaraðili lagt fram nokkra reikninga. Reikningar þessir eru allir skráðir á nafn varnaraðila, nema einn sem skráður er á fyrirtækið F. Sóknaraðili hefur ekki vísað til neinna gagna um það hver hefur greitt þessa reikninga. Þegar af þeirri ástæður þykir sóknaraðili ekki geta krafið varnaraðila um greiðslu vegna þeirra.

                Sóknaraðili krefst þess einnig í greinargerð sinni að hafnað verði kröfu varnaraðila um afhendingu þvottavélar, uppþvottavélar, ísskáps, Tempur rúmdýnu og gaseldavélar úr ryðfríu stáli. Varnaraðili hefur hins vegar enga slíka kröfu gert í málinu, heldur krefst hún þess einungis að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Af þeim sökum verður ekki tekin nein afstaða til ágreinings um innbú málsaðila.

                Samkvæmt greinargerðum aðila er ekki lengur ágreiningur á milli þeirra um ábyrgð á greiðslu skuldar við Íbúðalánasjóð.

                Með vísan til alls framangreinds verður kröfum sóknaraðila í máli þessu hafnað.

                Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Kröfum sóknaraðila, M, á hendur varnaraðila, K, í máli þessu er hafnað.

                Málskostnaður fellur niður.