Hæstiréttur íslands
Mál nr. 486/1999
Lykilorð
- Stöðuveiting
- Aðild
- Hæfi
- Sératkvæði
|
|
Miðvikudaginn 31. maí. 2000. |
|
Nr. 486/1999. |
Loftur Reimar Gissurarson (Þorsteinn Einarsson hrl. Einar Gautur Steingrímsson hdl.) gegn Jóni Torfa Jónassyni Magnúsi S. Magnússyni Maríu K. Jónsdóttur Háskóla Íslands og (Gestur Jónsson hrl.) íslenska ríkinu (Jón G. Tómasson hrl.) |
Stöðuveiting. Aðild. Hæfi. Sératkvæði.
L sótti um lektorsstarf í sálfræði við félagsvísindadeild HÍ í maí 1995. Í auglýsingu um starfið kom fram að um væri að ræða sérstaka tímabundna lektorsstöðu á sviði tilraunasálfræði með megináherslu á skynjun og hugfræði. Dómnefnd, sem skipuð var til að meta hæfni umsækjenda, komst að þeirri niðurstöðu um hæfni L til að gegna stöðunni að hann uppfyllti vel almennar kröfur sem gerðar væru til lektora, en hefði ekki sýnt fram á hæfni sína á þeim sviðum sem tiltekin voru sérstaklega í auglýsingunni. L höfðaði mál gegn dómnefndinni, HÍ og íslenska ríkinu til ógildingar á umræddum niðurstöðum nefndarinnar auk þess sem hann krafðist miskabóta og þess að viðurkennt yrði með dómi að hann hefði verið hæfur til að gegna stöðunni. Talið var að dómnefndin væri ekki bær samkvæmt lögum til að eiga réttindi og bera skyldur og gæti því ekki notið hæfis til að eiga aðild í einkamáli. Komu því þeir menn, sem sátu í nefndinni, í hennar stað sem aðilar dómsmálsins. Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms að L hefði lögvarða hagsmuni af því að fá dóm fyrir kröfum sínum varðandi ummæli nefndar í lögboðinni umsögn. Talið var að dómnefndinni hefði borið að fara eftir auglýsingunni um starfið og var ekki talið að nefndin hefði farið út fyrir hana. Var ekki talið á færi dómstóla að endurskoða sérfræðilegt mat nefndarinnar. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að vísa frá dómi kröfu L um, að viðurkennt yrði með dómi að hann hefði verið hæfur til að gegna umræddri lektorsstöðu og um sýknu stefndu af kröfum L í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. desember 1999. Hann gerir þær dómkröfur, að álit dómnefndar um sérstaka tímabundna lektorsstöðu í sálfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands 25. nóvember 1995 um hæfni áfrýjanda til að gegna stöðunni verði fellt úr gildi að því er varðar eftirfarandi niðurstöðu dómnefndarinnar: „Dómnefnd telur þó að hann hafi ekki sannað hæfni sína á þeim sviðum sem tiltekin eru sérstaklega í auglýsingu. Hann telst því ekki hafa staðfest hæfni sína til þess að gegna umræddri stöðu á „sviði tilraunasálfræði með megináherslu á skynjun og hugfræði“.“ Þá krefst áfrýjandi þess, að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða sér miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 3. desember 1998 til greiðsludags. Loks krefst hann þess, að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Dómnefnd um sérstaka tímabundna lektorsstöðu í sálfræði lauk þeim störfum, sem henni voru falin, á nokkrum vikum, svo sem rakið er í héraðsdómi. Eftir það var hlutverki hennar lokið og hún ekki lengur til. Verður nefndin ekki talin bær samkvæmt lögum til að eiga réttindi og bera skyldur í samskiptum við aðra og getur því ekki notið hæfis til að eiga aðild að einkamáli. Koma því þeir menn, sem sátu í nefndinni, í hennar stað sem aðilar dómsmáls þessa.
Í máli þessu er deilt um það, hvort dómnefnd um sérstaka tímabundna lektorsstöðu í sálfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands samkvæmt 11. gr. þágildandi laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands hafi farið að lögum og gætt lögmætra sjónarmiða í áliti sínu um hæfni áfrýjanda til að gegna stöðunni. Kröfur áfrýjanda varða ummæli nefndar í lögboðinni umsögn, og verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að áfrýjandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm fyrir kröfum sínum og að þeim sé réttilega beint gegn dómnefndarmönnum. Áfrýjandi gerir einnig kröfu um miskabætur, og er málsókn réttilega beint gegn stefndu Háskóla Íslands og íslenska ríkinu.
Eins og fram kemur í héraðsdómi var samkvæmt ákvörðun félagsvísindadeildar tekið fram í auglýsingu um framangreint starf, að það væri á sviði tilraunasálfræði með megináherslu á skynjun og hugfræði. Það var deildarinnar að ákveða hvað kenna skyldi, og er ekki annað fram komið en að ákvörðun hennar hafi verið lögmæt. Dómnefndinni bar að fara eftir auglýsingunni, og verður ekki séð, að hún hafi farið út fyrir hana. Hún taldi áfrýjanda uppfylla vel almennar kröfur um prófgráður, vísindalega þjálfun og sjálfstæðar rannsóknir, sem gerðar séu til lektora, en taldi hann ekki hafa sannað hæfni sína á þeim sviðum, sem sérstaklega voru tiltekin í auglýsingunni. Það er ekki á færi dómstóla að endurskoða sérfræðilegt mat nefndarinnar. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Eftir öllum atvikum þykir rétt að fella niður málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Hjartar Torfasonar
Dómnefnd um sérstaka tímabundna lektorsstöðu í sálfræði var skipuð samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands til að sinna því sérstaka og tímabundna verkefni að dæma um hæfni tiltekinna umsækjenda til að gegna þessari stöðu. Þótt hlutverk nefndarinnar væri þannig lögbundið og henni ætlað að hafa bæði formann úr sínum hópi og ritara sér til aðstoðar öðlaðist hún ekki svo sjálfstæða tilveru, að viðunandi mætti telja að stefna henni fyrir dómstóla til að svara til sakar um gildi starfa hennar eða ábyrgð á þeim án þess að beina stefnunni að nefndarmönnum öllum, enda var það ekki gert í máli þessu. Er og eðlilegra, þegar alls er gætt, að líta á nefndarmenn sem aðila að málinu fremur en hana sjálfa, þótt hagsmunir þeirra hvers og eins kunni að vera sameiginlegir að mestu leyti. Kröfur áfrýjanda um ógildingu á verki nefndarinnar og viðurkenningu á hæfni sinni varða bæði Háskóla Íslands og íslenska ríkið, sem vera áttu bundin af niðurstöðum nefndarinnar, auk þess sem krafa hans um miskabætur er meðal annars gerð vegna þess, að þau tóku mark á þeim. Er málsókninni þannig réttilega beint gegn þessum aðilum ásamt nefndarmönnum.
Af hálfu áfrýjanda er því haldið fram, að almennu og sérstöku hæfi nefndarmanna til að taka sæti í nefndinni hafi verið svo ábótavant, að fella beri álit hennar úr gildi þegar af þeim sökum. Á þetta eru ekki efni til að fallast, og má um það vísa til forsendna hins áfrýjaða dóms.
Dómnefndinni var ætlað að fjalla um sérstaka tímabundna lektorsstöðu í sálfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, sem auglýst var laus til umsóknar í apríl 1995 með þeirri skýringu, að hún væri á sviði tilraunasálfræði með megináherslu á skynjun og hugfræði. Ráðið skyldi í stöðuna til þriggja ára, og átti menntamálaráðherra að veita hana. Umsækjendur urðu þrír að áfrýjanda meðtöldum. Verkefni nefndarinnar var að láta uppi um það rökstutt álit, hvort ráða mætti af vísindagildi rita og rannsókna umsækjendanna, svo og námsferli þeirra og störfum, að þeir væru hæfir til að gegna starfinu, sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990. Átti álitið að vera bindandi fyrir þá, er síðan skyldu taka ákvörðun um veitingu stöðunnar, en umrædd lagagrein kvað svo á, að engum mætti veita prófessorsembætti, dósentsstarf eða lektorsstarf, nema meiri hluti dómnefndar teldi hann hæfan og meiri hluti viðstaddra á fundi hlutaðeigandi háskóladeildar greiddi honum atkvæði. Féllist menntamálaráðherra ekki á þá tillögu um veitingu stöðunnar, er endanlega kæmi frá deildarfundi, gæti hann ekki veitt hana öðrum, heldur yrði að auglýsa starfið að nýju.
Um var að ræða skipun kennara, sem tilheyrði hinu reglulega kennaraliði háskólans, þ.e. prófessorum, dósentum og lektorum, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 131/1990, og hefði nefndin annars ekki verið kölluð til. Skipunin átti að vera tímabundin í samræmi við heimildarákvæði 4. mgr. 10. gr., en að öðru leyti var við það miðað, að stöðunni myndu fylgja sömu réttindi og sömu skyldur og stöðum fastráðinna kennara. Gat hún meðal annars veitt rétt til framgangs í dósentsstöðu samkvæmt 6. mgr. 11. gr. Þessi tilheyrsla starfsins var grundvallaratriði, sem dómnefndinni bar að líta til við verk sitt. Það gerði hún ekki réttilega, heldur hagaði hún verkinu öllu fremur eins og verið væri að ráða stundakennara í afmarkað verkefni, sbr. 6. mgr. 10. gr. laganna. Því til afbötunar stoðar ekki að vitna til þess, hvernig auglýsing háskólans um stöðuna var orðuð, en hún var að sjálfsögðu háð lögunum að öllu leyti, og bar nefndinni og öðrum að skoða hana í ljósi þeirra.
Á það má fallast með stefnda, að dómnefndin hafi unnið verk sitt af kostgæfni og rökfærsla hennar verið fullnægjandi eftir efni sínu, svo langt sem hún náði. Sömuleiðis má líta svo á, að henni hefði eftir atvikum verið heimilt að raða umsækjendum eftir hæfni þeirra, ef hún taldi hana mismunandi. Það leiðir hins vegar af eðli málsins og því, sem áður segir, að nefndinni var alls óheimilt að greina á milli almennrar og sérstakrar hæfni til stöðunnar með þeim hætti, sem hún virðist hafa gert. Má einnig orða það svo, að hún hafi misskilið inntak og samhengi lýsingarorðsins hæfur, sem við er haft í 4. mgr. 11. gr. laganna, og þannig komist að þeirri niðurstöðu, að áfrýjandi hefði ekki sannað hæfni sína til að gegna hinni umdeildu stöðu, en sú niðurstaða er bersýnilega röng. Þarf ekki sérfræðing af neinu tagi til að draga þá ályktun af gögnum málsins, að áfrýjandi hafi verið vel hæfur til stöðunnar eftir þeim mælikvarða, sem leggja bar til grundvallar samkvæmt lögunum, enda segir nefndin það að heita má í hverju orði, sem um hann er ritað í áliti hennar. Eigi að síður varð raunin sú, að áfrýjandi stóð uppi með einkunnina óhæfur og kom ekki til frekari álita við skipan í starfið.
Í samræmi við formkröfur laganna varð framhald málsins á þá leið, að ráðherra veitti stöðuna hinum eina umsækjanda, er nefndin mat hæfan, að undangenginni atkvæðagreiðslu á fundi félagsvísindadeildar, er einvörðungu snerist um þann umsækjanda í samræmi við nefndarálitið. Bæði deildinni og ráðherra mátti þó vera ljóst, að álitið væri reist á ólögmætum sjónarmiðum.
Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, eiga úrslit málsins í stuttu máli að vera á þá leið, að allar kröfur áfrýjanda verði teknar til greina. Er þá með talin krafa hans um miskabætur úr hendi stefndu óskipt, 500.000 krónur. Að auki greiði þeir honum hæfilegan málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 26. ágúst sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 20. og 24. nóvember 1998 af Lofti Reimari Gissurarsyni, kt. 110761-5979, Krókabyggð 1a, Mosfellsbæ, á hendur eftirtöldum aðilum:
Dómnefnd um sérstaka tímabundna lektorsstöðu í sálfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands samkvæmt 11. gr. laga nr. 131/1990, skipuð Magnúsi S. Magnússyni, kt. 250249-3659, Tjarnargötu 40, Maríu K. Jónsdóttur, kt. 091257-6029, Skeiðarvogi 15, og Jóni Torfa Jónassyni, kt. 090647-7419, Grímshaga 4,
Háskóla Íslands, kt. 600169-2039, Suðurgötu, og
íslenska ríkinu, kt. 540269-6459, Sölvhólsgötu 7, vegna menntamálaráðuneytisins, kt. 460269-2969, Sölvhólsgötu 4, öll í Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þessar:
Að álit dómnefndar um sérstaka tímabundna lektorsstöðu í sálfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, dagsett 25. nóvember 1995, um hæfni stefnanda til að gegna sérstakri tímabundinni lektorsstöðu í sálfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands verði fellt úr gildi að því er varðar eftirfarandi niðurstöðu dómnefndar: “Dómnefnd telur þó að hann hafi ekki sannað hæfni sína á þeim sviðum sem tiltekin eru sérstaklega í auglýsingu. Hann telst því ekki hafa staðfest hæfni sína til þess að gegna umræddri stöðu á “sviði tilraunasálfræði með megináherslu á skynjun og hugfræði.”
Að viðurkennt verði með dómi að stefnandi hafi verið hæfur til að gegna tímabundinni stöðu lektors í sálfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands sem auglýst var laus til umsóknar í apríl 1995.
Að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 25/1987 frá því mál þetta var höfðað til greiðsludags.
Að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti.
Af hálfu stefndu, dómnefndar samkvæmt 11. gr. laga nr. 131/1990 og Háskóla Íslands, er þess aðallega krafist að stefndu verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Til vara er þess krafist að stefndu verði sýknuð af kröfuliðum 2 og 3 í stefnu og að málskostnaður verði í því tilviki felldur niður. Til þrautavara er þess krafist að stefndu verði sýknuð af kröfu um greiðslu miskabóta og dráttarvaxta og að málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.
Af hálfu stefnda íslenska ríkisins er krafist sýknu og greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati réttarins.
Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni
Málsatvik eru þau að stefnandi sótti um lektorsstarf í sálfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands þann 11. maí 1995 en starfið var auglýst laust til umsóknar þann 19. apríl 1995 í Lögbirtingablaðinu og þann 24. sama mánaðar í Morgunblaðinu. Í auglýsingunni kom fram að um væri að ræða sérstaka tímabundna lektorsstöðu í sálfræði. Staðan væri á sviði tilraunasálfræði með megináherslu á skynjun og hugfræði. Lektornum væri m.a. ætlað að standa fyrir verklegri kennslu á þessum sviðum. Aðrir umsækjendur voru Guðmundur Bjarni Arnkelsson, Halldór K. Júlíusson og Jörgen Pind en Guðmundur dró umsókn sína síðar til baka.
Dómnefnd til að meta hæfni umsækjenda til að gegna starfinu var skipuð þann 27. júlí 1925 samkvæmt 3. mgr. 11. gr. þágildandi laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands. Í nefndina voru skipuð Magnús S. Magnússon fræðimaður, sem skipaður var af háskólaráði, María K. Jónsdóttir taugasálfræðingur, skipuð af menntamálaráðherra, og Jón Torfi Jónasson prófessor, sem var skipaður af félagsvísindadeild Háskólans og var hann formaður nefndarinnar.
Álit dómnefndarinnar er dagsett 25. nóvember 1995. Niðurstaða nefndarinnar um hæfni stefnanda til að gegna stöðunni var sú að hann uppfyllti vel almennar kröfur um prófgráður, vísindalega þjálfun og sjálfstæðar rannsóknir sem gerðar væru til lektora. Í álitinu segir enn fremur að hann hafi próf á sviði tilraunasálfræði og að hann hafi notað aðferðir hennar í rannsóknum sínum í dulsálfræði. Dómnefndin telur þó að hann hafi ekki sannað hæfni sína á þeim sviðum sem tiltekin voru sérstaklega í auglýsingunni. Hann teldist því ekki hafa staðfest hæfni sína til þess að gegna umræddri stöðu á "sviði tilraunasálfræði með megináherslu á skynjun og hugfræði". Í lokaniðurstöðum dómnefndarinnar kemur fram að allir umsækjendur uppfylltu þær lágmarkskröfur sem gerðar væru til lektora. Þeir hafi m.a. allir lokið doktorsprófi. Að mati nefndarinnar hefði þó aðeins einn umsækjenda, Jörgen Pind, ótvírætt staðfest hæfni sína á þeim sviðum sem lektorinn skyldi leggja megináherslu á samkvæmt auglýsingunni, þ.e. skynjun og hugfræði. Hann teldist því einn umsækjenda hafa staðfest hæfni sína til þess að gegna umræddri stöðu "á sviði tilraunasálfræði með megináherslu á skynjun og hugfræði".
Stefnandi telur niðurstöður dómnefndarinnar um hæfni hans til að gegna lektorsstarfinu bersýnilega rangar og að nefndin hafi ekki gætt málefnalegra og lögmætra sjónarmiða við mat á hæfni hans. Hann hefur höfðað málið til ógildingar á þessari niðurstöðu nefndarinnar. Einnig krefst hann miskabóta og að viðurkennt verði með dómi að hann hafi verið hæfur til að gegna stöðunni.
Stefndu telja að málssókninni sé beint að röngum aðilum. Einnig er um það deilt hvort hinir stefndu dómnefndarmenn hafi verið hæfir til setu í nefndinni, hvort brotnar hafi verið málsmeðferðarreglur af hálfu nefndarinnar, hvort málefnalegra sjónarmiða hafi verið gætt við matið og hvort skilyrði væru til að bera sakarefnið undir dómstóla. Stefndu hafa þó ekki gert kröfu um frávísun málsins en þeir telja að því eigi að vísa frá dómi án kröfu þar sem ekki væru fyrir hendi réttarfarsskilyrði til að það verði borið undir dómstóla. Miskabótakröfu stefnanda er einnig mótmælt af hálfu stefndu.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hann hafi lokið BA prófi í sálfræði við Háskóla Íslands árið 1984. Hann hafi hlotið í aðaleinkunn 8,87 sem hafi verið hæsta einkunn er hafði þá verið gefin í sálfræði við skólann. Hann hafi lokið námi til kennsluréttinda árið 1986 og doktorsnámi í tilraunasálfræði við Edinborgarháskóla árið 1989. Hann hafi kennt í almennri sálfræði við skólann haustið 1987 og kennsluárið 1990-1991 hafi hann gegnt stöðu "Research fellow". Á árunum 1985-1995 hafi hann kennt á ýmsum námskeiðum við Háskóla Íslands, einkum félagsvísindadeild. Hann hafi starfað sem sálfræðingur á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra frá árinu 1991 og hafi hann gegnt þar stöðu yfirsálfræðings og gæðastjóra er hann sótti um lektorsstarfið. Hann hafi löggildingu til að starfa sem sálfræðingur á Íslandi og í Bretlandi.
Stefnandi heldur því fram að dómnefndarmenn hafi skort almennt hæfi til að fjalla um umsókn hans um lektorsstarfið og því beri að dæma álit nefndarinnar ógilt. Nefndarmenn væru ekki sérfræðingar á því sviði sem um væri að ræða. Einnig heldur stefnandi því fram að nefndarmenn hafi verið vanhæfir vegna tengsla við einn umsækjanda en Jörgen Pind og nefndarmenn hafi samtímis og á þeim tíma sem nefndin fjallaði um málið verið kennarar í sálfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands.
Þá byggir stefnandi á því að ólögmætt hafi verið af hálfu nefndarinnar að setja það skilyrði fyrir því að stefnandi teldist hæfur til að gegna stöðunni að hann hefði sérhæft sig í skynjun og hugfræði innan tilraunasálfræðinnar. Vísar stefnandi í því sambandi til þess að í reglum háskólaráðs sé ekki sett það skilyrði að umsækjandi hafi sérhæft sig sérstaklega í undirsviðum þeim sem megináhersla skuli lögð á í kennslu.
Af hálfu stefnanda er því enn fremur haldið fram að dómnefndin hafi við skilgreiningu sína lagt of þröngan skilning í hugtökin skynjun og hugfræði í tilraunasálfræði.
Stefnandi telur að ólögmætt hafi verið af hálfu dómnefndarinnar að byggja á reglum háskólaráðs frá 4. mars 1993 en reglurnar hefðu ekki verið staðfestar af menntamálaráðherra í samræmi við 11. gr. laga nr. 131/1990.
Nefndin hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar sem lögfest sé í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en dómnefndinni hafi borið skylda til að rannsaka hvort stefnandi hafi verið hæfur til að gegna stöðunni. Nefndin hafi einnig brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar sem lögfest sé í 11. gr. stjórnsýslulaga. Stefnandi vísar í því sambandi til þess að dómnefndin hafi fyrir fram og á ólögmætan hátt útilokað stefnanda frá stöðunni með því að setja ólögmæt og ómálefnanleg skilyrði fyrir því að hann teldist hæfur til að gegna stöðunni. Nefndin hafi jafnframt brotið gegn meðalhófsreglunni sem lögfest sé í 12. gr. laganna þar sem hún hafi ekki gætt hófs í áliti sínu. Dómnefndin hafi tekið þá íþyngjandi og afgerandi ákvörðun að meta stefnanda óhæfan til að gegna stöðunni þrátt fyrir mikla menntun stefnanda á því sviði. Þessi íþyngjandi ákvörðun hafi verið tekin eftir ólögmætan undirbúning nefndarinnar.
Þá er því haldið fram af hálfu stefnanda að niðurstaða dómnefndar um hæfni hans til að gegna stöðunni hafi bersýnilega verið röng. Hann vísar í því sambandi til þess að menntun hans og fræðistörf staðfesti að hann hafi uppfyllt skilyrði til að gegna stöðunni.
Loks heldur stefnandi því fram að dómnefndin hafi með áliti sínu brotið gegn 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ógilda álitið, sbr. 241. gr. sömu laga. Með því áliti nefndarinnar að stefnandi hafi verið óhæfur til að gegna stöðunni hafi hún vegið gróflega að menntun og vísindastörfum hans og þannig hafi nefndin meitt æru stefnanda verulega. Í álitinu felist aðdróttun um vanhæfni stefnanda og sé sú aðdróttun móðgandi fyrir hann og virðingu hans til hnekkis.
Kröfu stefnanda um miskabætur úr hendi stefndu styður hann við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í áliti nefndarinnar sé freklega vegið að menntun stefnanda og gert lítið úr þeim rannsóknum sem hann hafi stundað og öðrum fræðistörfum. Í þessu felist áfellisdómur um menntun stefnanda og fræðistörf, sem án vafa hafi mikil áhrif á álit manna á stefnanda, störfum hans og möguleikum til vinnu í framtíðinni.
Um aðild dómnefndarinnar vísar stefnandi til Hæstaréttardóms 1981 bls. 266. Stefndu Háskóla Íslands og íslenska ríkinu hafi verið stefnt þar sem dómnefndin hafi verið stjórnsýslunefnd á þeirra vegum og hafi dómnefndarmenn verið starfsmenn þeirra. Jafnframt vísar stefnandi til þess að háskólaráð og félagsvísindadeild hafi skipað tvo menn í dómnefnd og menntamálaráðherra hafi skipað einn þeirra. Háskólinn hafi greitt nefndarmönnum þóknun fyrir störf þeirra í nefndinni. Menntamálaráðherra hafi veitt stöðu lektors á grundvelli ógilts álits dómnefndar. Stefnandi vísar til reglna stjórnsýsluréttar og ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 9. gr. - 13. gr. og 20. gr. - 22. gr. laganna. Stefnandi vísar einnig til laga um Háskóla Íslands nr. 131/1990 og ákvæða 234. gr. - 235. gr. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kröfuna um miskabætur styður stefnandi við almennu skaðabótaregluna, reglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Um málskostnað er af hálfu stefnanda vísað til 21. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 130. gr. laganna og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök hinnar stefndu dómnefndar og Háskóla Íslands
Málsatvikum lýsa þessir stefndu þannig að samþykkt hafi verið að gera töluverðar breytingar á skipan náms í sálfræði í kjölfar greinargerðar sem kennarar í sálfræði höfðu sent til háskólarektors og félagsvísindadeildar á árinu 1994. Námsnefnd hafi lagt til að í auglýsingu um starf sálfræðings við deildina með sérmenntun í skynjun og hugfræði yrði tiltekið að staðan væri á sviði tilraunasálfræði með áherslu á skynjun og hugfræði. Með því hafi áherslan verið á að nálgun viðfangsefnisins markaðist af tilraunum, sem sé meginaðferð sálfræðilegra rannsókna, þannig að ljóst væri að ekki hafi verið óskað eftir sérfræðingum sem fjalli um skynjun og hugsun frá sjónarhóli heimspeki eða tölvunarfræði. Með því að leggja áherslu á skynjun og hugfræði hafi verið ljóst að óskað væri eftir kennara með sérmenntun á þeim sviðum en ekki öðrum sviðum tilraunasálfræðinnar.
Í áliti dómnefndarinnar sé tekið fram að nefndin hafi litið til orðalags auglýsingarinnar og gert þær kröfur til umsækjenda að þeir hefðu sannað hæfni sína á þeim sviðum sem hin auglýsta staða hafi tekið til. Dómnefndin hafi kannað sérstaklega hvort verk umsækjenda féllu innan hinna tilteknu sviða og hafi hún stuðst við fjölda kennslubóka um skynjun og hugfræði auk eigin þekkingar. Niðurstaða dómnefndarinnar hafi verið sú að Jörgen Pind hefði einn umsækjenda staðfest hæfni sína til þess að gegna umræddri stöðu á sviði tilraunasálfræði með megináherslu á skynjun og hugfræði.
Stefndu telja að vísa beri málinu í heild sinni sjálfkrafa frá dómi. Stefnandi geti ekki haft af því lögvarða hagsmuni að fá dóm fyrir kröfum sínum þar sem dómnefndarálitið hafi eingöngu þýðingu við val á milli umsækjenda um þetta tiltekna starf. Stefnandi hafi ekki gert kröfu um ógildingu ákvörðunar menntamálaráðherra um veitingu stöðunnar.
Af hálfu stefnda Háskóla Íslands er því haldið fram að engin réttarfarsnauðsyn sé á að beina kröfunni um ógildingu álits dómnefndarinnar gegn skólanum. Dómnefndin teljist til sjálfstæðra stjórnsýslunefnda. Ákvörðun hennar verði ekki skotið til æðra stjórnvalds og henni verði engin bindandi fyrirmæli gefin um úrlausn mála enda skorti til þess lagaheimild. Verði kröfunni um ógildingu álitsins ekki vísað sjálfkrafa frá dómi er krafist sýknu af henni vegna aðildarskorts.
Þá er því haldið fram að efnislegu mati sérfræðinganefndar verði ekki hnekkt af dómstólum. Það geti heldur ekki verið á verksviði dómstóla að meta hæfi umsækjenda, einkum í ljósi þess að dómnefndum hafi verið fengið það hlutverk með skýrum lagaákvæðum. Krafa stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að stefnandi hafi verið hæfur til að gegna stöðunni verði því ekki borin undir dómstóla og vísar stefndi í því sambandi til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu hinna stefndu dómnefndarmanna er því haldið fram að málsókn stefnanda sé ranglega beint að þeim. Stefnandi krefjist þess að tilteknir þættir dómnefndarálitsins verði felldir úr gildi og að viðurkennt verði að stefnandi hafi verið hæfur til að gegna tímabundinni stöðu lektors í félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Stefndu hafi enga hagsmuni af því að stefnandi fái kröfum sínum um breytingar á dómnefndarálitinu ekki framgengt. Menntamálaráðherra hafi borið að gæta þess að engir verulegir annmarkar væru á dómnefndarálitinu áður en hann tók ákvörðun um að veita þeim umsækjanda stöðuna sem metinn var hæfur af dómnefndinni. Menntamálaráðherra hafi því byggt stjórnvaldsákvörðun á dómnefndaráliti sem að mati stefnanda hafi verið haldið verulegum göllum. Hann kunni að hafa hagsmuni af niðurstöðu þessa máls en ekki nefndarmenn. Þeir telja að vísa beri kröfuliðum 1 og 2 sjálfkrafa frá dómi að því er þau varðar eða sýkna þau á grundvelli aðildarskorts. Þar sem kröfuliður 3 sé afleiddur af kröfuliðum 1 og 2 gildi það sama um þann kröfulið.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að dómnefndarmennirnir hafi í einu og öllu uppfyllt þau almennu hæfisskilyrði sem sett hafi verið í 3. ml. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands. Dómnefndarmenn hafi allir lokið háskólaprófi í sálfræði og hafi þeir þar með uppfyllt skilyrðin sem fram komu í lagaákvæðinu. Vísa stefndu enn fremur til þess sem fram hefur komið í málinu um menntun og störf nefndarmanna.
Þá er því mótmælt af hálfu stefndu að það eitt að nefndarmenn og einn umsækjenda hafi starfað saman valdi vanhæfi nefndarmanna. Dómnefndarmenn hafi ekki verið í neinum slíkum tengslum við umsækjandann Jörgen Pind að valdi vanhæfi þeirra.
Því er enn fremur mótmælt að dómnefndinni hafi verið skylt að fara eftir reglum háskólaráðs sem stefnandi vísar til. Þær reglur hafi aldrei verið staðfestar af menntamálaráðherra og hafi því ekki öðlast formlegt gildi. Nefndin hafi því getað mótað sínar eigin málefnalegu reglur við mat á umsækjendum eða stuðst við reglur háskólaráðs, svo framarlega sem þau viðmið væru innan þess ramma sem 4. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990 hafi sett og fyllsta jafnræðis væri gætt. Við matið hafi dómnefndinni verið skylt að líta til þeirrar afmörkunar á starfssviðinu sem falist hafi í orðalagi auglýsingarinnar. Dómnefndinni hafi ekki verið heimilt að meta alla umsækjendur hæfa sem lokið höfðu háskólaprófi í sálfræði eða í tilraunasálfræði. Það hafi verið fagleg niðurstaða dómnefndarinnar að þekking og verk stefnanda lægju ekki innan þeirra sviða sem auglýsingin hafi tiltekið sérstaklega. Af þeim sökum hafi stefnandi ekki verið hæfur til að gegna hinni auglýstu stöðu þótt hann uppfyllti vel almennar hæfniskröfur sem gerðar væru til lektora við Háskóla Íslands.
Af hálfu stefndu er því enn fremur mótmælt að faglegu mati dómnefndarmanna á hugtökunum hugfræði og skynjun verði hnekkt af dómstólum. Jafnframt er því mótmælt að nefndinni hafi ekki verið heimilt að hafa reglur háskólaráðs um nýráðningar háskólakennara til hliðsjónar við matið, svo framarlega sem þær brytu ekki í bága við ákvæði háskólalaga, reglugerða, þær væru málefnalegar og fyllsta jafnræðis væri gætt gagnvart umsækjendum. Umsækjendum hafi á engan hátt verið mismunað. Því er einnig mótmælt að nokkur þau sjónarmið sem nefndin lagði til grundvallar mati á umsækjendum geti talist íþyngjandi fyrir þá. Dómnefndin hafi fylgt orðalagi auglýsingarinnar og hafi hún gert þær kröfur til umsækjenda að þeir sýndu fram á hæfni til að gegna þeim störfum sem auglýsingin hafi tekið til. Ekki verði heldur séð á hvern hátt nefndin hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Loks er því mótmælt að yfirlýsingar þriggja kennara í sálfræði og heimspeki við Háskóla Íslands hafi þýðingu í málinu. Þessar yfirlýsingar staðfesti eingöngu að stefnandi hafi verið hæfur til að gegna lektorsstöðu í tilraunasálfræði. Hæfi stefnanda hafi að þessu leyti ekki verið dregið í efa. Yfirlýsingarnar fjalli hins vegar ekkert um þekkingu og hæfni stefnanda í hugfræði og skynjun.
Þá telja stefndu fráleitt að ætla að dómnefndin hafi með áliti sínu brotið gegn ákvæðum 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Ummælin sem krafist sé að felld verði úr gildi séu grundvölluð á faglegu og rökstuddu mati nefndarinnar á því hvort verk stefnanda væru innan þeirra sviða sem auglýsingin um stöðuna hafi tekið til. Með sömu rökum er miskabótakröfu stefnanda mótmælt. Ekki verði séð að nefndarmenn hafi gerst sekir um ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda. Einnig er því mótmælt að stefndi Háskóli Íslands geti borið ábyrgð á gerðum dómnefndarmanna sem varðað geta við ákvæði hegningarlaga eða 26. gr. skaðabótalaga. Dómnefndarmenn hafi ekki verið í vinnuréttarsambandi við Háskólann í dómnefndarstörfum sínum.
Málskostnaðarkrafan er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um kostnað vegna virðisaukaskatts er reist á lögum nr. 50/1988, en nauðsynlegt sé að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar þar sem stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Málsástæður og lagarök stefnda íslenska ríkisins
Af hálfu stefnda íslenska ríkisins er því haldið fram að menntamálaráðherra hafi engin afskipti haft af störfum dómnefnda á vegum Háskóla Íslands, en hann hafi skipað einn dómnefndarmanna samkvæmt 11. gr. laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands. Mál stefnanda hafi komið til kasta menntamálaráðherra eftir að dómnefnd hafði lokið störfum, þegar stefnandi hafi kært niðurstöðu nefndarinnar. Ráðuneytið hafi vísað kærunni frá þar sem ekki hafi verið skilyrði til að fara með erindi stefnanda sem stjórnsýslukæru á grundvelli VIII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Veitingarvald menntamálaráðherra samkvæmt 11. gr. laga nr. 131/1990 hafi verið mjög takmarkað og hafi það verið í anda meginstefnu laganna um sjálfstæði Háskóla Íslands. Ráðherra sé bundinn af tillögu deildarfundar þannig að hann geti einungis hafnað tillögu, fallist hann ekki á hana. Mótmælt er þeirri fullyrðingu í stefnu að umboðsmaður Alþingis hafi talið menntamálaráðuneytið hafa brotið lög gagnvart stefnanda. Í því sambandi er bent á að í kærubréfi stefnanda til menntamálaráðherra frá 16. desember 1995 lúti kæruefnið fyrst og fremst að sérfræðilegri hæfni dómnefndarmanna og sérfræðilegu mati nefndarinnar. Í áliti umboðsmanns Alþingis sé tekið fram að deilur um sérfræðilegt mat dómnefnda kalli almennt ekki á sérstök viðbrögð veitingavaldshafa. Stefndi bendir jafnframt á að stefnanda hafi gefist kostur á að gera athugasemdir við dómnefndarálitið áður en dómnefnd lauk störfum og viðkomandi háskóladeild gerði tillögu um veitingu stöðunnar.
Stefnandi krefjist þess í fyrsta lagi að niðurstaða í áliti dómnefndarinnar, þess efnis að stefnandi hafi ekki sannað hæfni sína á tilteknu sviði sálfræðinnar, verði felld úr gildi. Ekki verði séð að réttarfarsnauðsyn beri til að gefa íslenska ríkinu kost á að láta þessa kröfugerð til sín taka. Krafan sé eingöngu höfðuð til ógildingar á dómnefndaráliti, sem yfirvöld menntamála hafi engin efnisleg áhrif haft á og hafi á engan hátt komið að, þótt ráðuneytið hafi skipað einn dómnefndarmann samkvæmt ákvæði laga. Í stefnu sé heldur ekki skýrð ástæða þess að málinu sé að þessu leyti beint að menntamálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins. Til greina komi að þessum kröfulið á hendur íslenska ríkinu beri að vísa sjálfkrafa frá héraðsdómi. Verði það ekki gert er krafist sýknu af kröfuliðnum, sbr. 2. tl. 16. gr. laga 91/1991. Í þessu sambandi er vísað til dóma Hæstaréttar frá 23. október 1997, bls. 2856 og bls. 2918.
Í öðru lagi krefjist stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að hann hafi verið hæfur til að gegna stöðunni sem álit dómnefndarinnar fjallaði um. Ekki verði séð og ekki sé skýrð réttarfarsleg nauðsyn á aðild íslenska ríkisins að þessari dómkröfu. Að auki verði að draga í efa að krafa þessa efnis falli undir lögsögu dómsins og er í því sambandi vísað til 25. gr. laga nr. 91/1991 og dóms Hæstaréttar 1981 bls. 266. Beri því annað tveggja að vísa þessum kröfulið frá dómi, a.m.k. að því er varðar aðild íslenska ríkisins að málinu, eða sýkna á grundvelli 16. gr. laga 91/1991. Í þessu sambandi er bent á að samkvæmt ákvæði 11. gr. laga um Háskóla Íslands sé það á verksviði dómnefndar að meta hæfi umsækjenda til að gegna prófessorsembætti, dósentsstarfi eða lektorsstarfi við Háskóla Íslands. Þótt dómstóll kunni eftir atvikum að geta staðfest gildi eða ógilt dómnefndarálit á grundvelli formreglna sé það ekki á verksviði dómstóls að gefa álit um hæfi einstakra aðila.
Þá krefjist stefnandi þess í þriðja lagi að stefndu verði allir in solidum dæmdir til að greiða honum miskabætur. Þessi krafa sé afleidd af fyrstu kröfunni um að álit dómnefndarinnar að því er varðar sönnur á hæfi stefnanda verði ógilt með dómi. Eigi þá sömu rök við um frávísun eða sýknu á þessum kröfulið og fjallað er um undir 1. kröfulið að því er varðar aðild stefnda íslenska ríkisins að málinu. Því er einnig mótmælt að íslenska ríkið hafi, beint eða óbeint, valdið stefnanda ólögmætri meingerð gegn æru hans eða persónu, en í stefnu séu engin viðhlítandi rök færð fyrir því að þessi stefndi hafi valdið stefnanda miska. Því er sérstaklega mótmælt að dómnefndarmaður skipaður af menntamálaráðherra hafi við nefndarstörf sín verið starfsmaður í þeim skilningi að menntamálaráðherra beri húsbóndaábyrgð á störfum hans í dómnefndinni.
Að öðru leyti er vísað til röksemda og málsástæðna meðstefndu um sýknu af öllum kröfuliðum stefnanda.
Niðurstaða
Stefndu telja að vísa beri málinu í heild frá dómi án kröfu þar sem stefnandi geti ekki haft af því lögvarða hagsmuni að fá dóm fyrir kröfum sínum. Dómurinn telur að það hafi þýðingu fyrir stefnanda að fá úrlausn dómsins á gildi álitsins, sem hér um ræðir, en í því felst að taka þarf afstöðu til þess hvort nefndin hafi farið að lögum og hvort lögmætra sjónarmiða hafi verið gætt við matið. Þykja því ekki fram komnar haldbærar ástæður fyrir því að málinu verði í heild vísað frá dómi án kröfu.
Í málinu krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að hann hafi verið hæfur til að gegna tímabundinni stöðu lektors í sálfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands sem auglýst var laus til umsóknar í apríl 1995. Hann heldur fram í þessu sambandi að hann hafi uppfyllt lögmæt skilyrði fyrir því að gegna umræddri stöðu lektors. Það varði hann miklu að fá viðurkenningu dómsins að þessu leyti og beri því að verða við kröfu hans um að viðurkennt verði að hann hafi verið hæfur til að gegna stöðunni. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands, sem þá voru í gildi, skyldi skipa þriggja manna nefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna lektorsstarfi og öðrum tilgreindum störfum við skólann. Dómstólar eiga ekki úrlausnarvald um sakarefni, sem heyrir samkvæmt lögum eða venju undir stjórnvöld að leysa úr, eins og fram kemur í 1. mgr. 24. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en samkvæmt lagaákvæðinu verður máli vísað frá dómi eigi sakarefnið ekki undir dómstóla. Þrátt fyrir það hefur stefnandi engin viðeigandi rök fært fyrir því að krafan skuli sæta úrlausn dómsins. Af þeim sökum og með vísan til framangreindra lagaákvæða ber að vísa þessari kröfu stefnanda frá dómi.
Af hálfu hinna stefndu dómnefndarmanna er því haldið fram að málssókninni sé ranglega beint að þeim. Dómnefndin var skipuð samkvæmt þágildandi lögum um Háskóla Íslands nr. 131/1990 og hafði það lögboðna hlutverk að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna tilteknum störfum við skólann eins og áður er komið fram. Kröfum stefnanda, sem varða ummæli í áliti nefndarinnar um hæfi hans, er því réttilega beint að nefndinni eins og hún var skipuð þegar álitið var veitt.
Álit dómnefndarinnar, sem stefnandi krefst að fellt verði úr gildi, er dagsett 25. nóvember 1995 en þá voru í gildi lög nr. 131/1990 um Háskóla Íslands. Nefndin var skipuð samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laganna en þar sagði að þá eina mætti skipa í nefndina, er lokið hefðu háskólaprófi á hlutaðeigandi fræðasviði, eða væru að öðru leyti viðurkenndir sérfræðingar á því sviði.
Eins og hér að framan er rakið áttu sæti í dómnefndinni þau Magnús S. Magnússon, María K. Jónsdóttir og Jón Torfi Jónasson. Ótvírætt er að formaður nefndarinnar, Jón Torfi, er sérmenntaður í tilraunasálfræði og hugfræði og skynjun, og hefur ritað doktorsritgerð um það efni. María hefur doktorspróf í taugasálfræði með áherslu á hugfræðilegar nálganir og Magnús hefur jafngildi doktorsprófs með sérhæfingu í atferlisgreiningu þar sem hugfræði og skynjun eru veigamiklir og óaðskiljanlegir þættir viðfangsefna hans. Allir nefndarmenn hafa jafnframt meiri eða minni þjálfun í tilraunasálfræði, eins og raunar felst í námi þeirra, og er þá átt við tilraunasálfræði í skilningnum almenn vísindaleg nálgun að viðfangsefninu.
Þegar litið er til þessa verður að telja að hinir stefndu nefndarmenn hafi allir fullnægt þeim skilyrðum sem fram komu í 3. mgr. 11. gr. þágildandi laga um Háskóla Íslands til að teljast réttilega skipaðir í nefndina sem um ræðir og skipuð var samkvæmt þessu lagaákvæði. Verður umsögn nefndarinnar því ekki felld úr gildi vegna meintra annmarka á skipan hennar að þessu leyti eins og stefnandi hefur krafist.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hinir stefndu dómnefndarmenn hafi verið vanhæfir til að fjalla um umsóknir hans og annarra umsækjenda um lektorsstöðuna vegna tengsla við einn umsækjandann. Stefnandi bendir í því sambandi á að nefndarmenn og þessi umsækjandi hafi samtímis starfað sem kennarar í sálfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Dómurinn telur að þessi ástæða nægi ekki til að talið verði að óhlutdrægni hinna stefndu nefndarmanna verði dregin með réttu í efa. Verður álit nefndarinnar því ekki fellt úr gildi af þeirri ástæðu.
Samkvæmt 4. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990 var hlutverk dómnefndarinnar að láta uppi rökstutt álit um það hvort af vísindagildi rita umsækjenda og rannsókna svo og námsferli þeirra og störfum mætti ráða að þeir væru hæfir til að gegna embættinu eða starfinu.
Stefnandi telur að óheimilt hafi verið að gera það að skilyrði fyrir því að hann teldist hæfur til að gegna starfinu að hann hefði sérhæft sig í skynjun og hugfræði og að nefndin hafi lagt rangan skilning í þau hugtök. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu var það ákvörðun félagsvísindadeildar að í kennslu í tilraunasálfræði væri lögð megináhersla á hugfræði og skynjun. Tilraunasálfræði í sinni almennu merkingu stendur fyrir ákveðna aðferðafræði og þekkingu og hæfni á hinni vísindalegu tilraunaaðferð, aðferðafræði tölfræði og þeim aðferðum öðrum sem undir þetta falla. Um er að ræða tvö skilyrði sem fram koma í auglýsingunni um lektorsstöðuna, annars vegar krafa um þekkingu á tilraunasálfræði og hins vegar krafa um þekkingu í hugfræði og skynjun. Dómurinn telur að nefndin hafi metið réttilega að um væri að ræða starf þar sem viðkomandi þyrfti að sýna fram á hæfni sína á báðum sviðum. Niðurstaða dómnefndarinnar var að stefnandi uppfyllti fyrra skilyrðið en ekki það síðara. Í þessu sambandi skiptir máli að hugfræði er ekki undirgrein tilraunasálfræðinnar heldur sjálfstæð fræðigrein. Dómnefndin lagði enn fremur til grundvallar í mati sínu almennan skilning á því hvað fælist í fræðigreinunum hugfræði og skynjun. Með vísan til þess verður ekki fallist á að dómnefndin hafi lagt rangan skilning í hugtökin. Reglur háskólaráðs, sem stefnandi vísar til um lágmarksskilyrði, fjalla um almenn, formleg lágmarksskilyrði en ekki faglegt innihald. Þær verða því ekki notaðar til viðmiðunar að þessu leyti. Í framangreindu lagaákvæði er ekki fjallað um lágmarksskilyrði fyrir því að umsækjandi teljist hæfur til að gegna viðkomandi starfi heldur sagði þar að látið skyldi uppi rökstutt álit á því hvort ráða mætti af því sem þar er talið hvort umsækjendur væru hæfir til að gegna starfinu. Dómnefndin lagði faglegt mat á það hvort umsækjendur væru hæfir til að gegna starfinu sem auglýst var í umræddu tilfelli. Þykja yfirlýsingar þeirra Erlendar Haraldssonar, Arnórs Hannibalssonar og Eiríks Arnar Arnarsonar ekki hafa sönnunargildi um það atriði. Í áliti nefndarinnar koma fram þau rök sem niðurstaða nefndarinnar er byggð á. Dómurinn telur með vísan til þessa að hvorki hafi verið sett ólögmæt skilyrði fyrir því að stefnandi væri hæfur til að gegna starfinu sem um ræðir né að jafnræðisregla hafi verið brotin af hálfu nefndarinnar í því sambandi.
Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990 skyldu umsækjendur um prófessorsembætti, dósentstörf og lektorsstörf láta fylgja umsókn sinni rækilega skýrslu um vísindastörf er þeir hafi unnið, ritsmíðar og rannsóknir, svo og námsferil sinn og störf. Dómurinn telur að nefndin hafi haft ítarleg gögn frá stefnanda um það sem tiltekið var í lagaákvæðinu en niðurstöður nefndarinnar voru byggðar á þessum gögnum. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að frekari gögn hefðu breytt mati nefndarinnar. Nefndin hafði einnig upplýsingar um þær kröfur sem gerðar voru af hálfu félagsvísindadeildar til hæfni umsækjenda til að gegna stöðunni eins og fram kom í aðilaskýrslum nefndarmanna fyrir dóminum. Dómurinn getur því ekki fallist á að álit nefndarinnar beri að fella úr gildi vegna þess að hún hafi ekki gætt þess að málið væri nægjanlega rannsakað samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eins og krafist er af hálfu stefnanda.
Dómurinn telur að fyrir liggi að hæfni stefnanda hafi verið metin eftir þeim gögnum sem nefndin hafði um hann. Þá kemur enn fremur fram í áliti nefndarinnar að hún mat rit stefnanda og rannsóknir svo og námsferil hans og störf í þeim tilgangi að taka afstöðu til þess hvort hann teldist hæfur til að gegna umræddu lektorsstarfi. Eins og fram hefur komið var það mat nefndarinnar að stefnandi uppfyllti ekki öll skilyrðin, sem nefndin áleit að þyrftu að vera fyrir hendi, til að stefnandi teldist hæfur til að gegna starfinu og koma rökin fyrir því fram í áliti nefndarinnar. Þegar virt er það sem fram hefur komið í málinu og hér hefur verið rakið verður ekki fallist á að niðurstaða nefndarinnar um hæfni stefnanda til að gegna stöðunni hafi bersýnilega verið röng, matið hafi verið ómálefnanlegt eða að brotnar hafi verið lagareglur eða aðrar reglur við mat nefndarinnar á hæfni hans. Verður álitið því ekki talið ólögmætt af þeim ástæðum sem vísað er til af hálfu stefnanda í því sambandi. Ber þar með að sýkna stefndu af þeirri kröfu sem stefnandi gerir um að álit nefndarinnar verði fellt úr gildi.
Með vísan til þess að ekki hefur verið fallist á að niðurstaða nefndarinnar hafi verið ólögmæt eru ekki skilyrði til að dæma stefnanda miskabætur úr hendi stefndu samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ber því að sýkna stefndu af þeirri kröfu stefnanda.
Þar sem kröfum stefnanda á hendur stefndu hefur samkvæmt framansögðu verið hafnað er ekki ástæða til að taka afstöðu til þess hvort stefnanda hafi verið rétt að beina málssókninni að Háskóla Íslands og íslenska ríkinu, sbr. Hæstaréttardóm 1981 bls. 266.
Rétt þykir með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að dæma stefnanda til að greiða málskostnað, stefndu dómnefnd samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990, skipuð Magnúsi S. Magnússyni, Maríu K. Jónsdóttur og Jóni Torfa Jónassyni, og Háskóla Íslands samtals 450.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og stefnda íslenska ríkinu 100.000 krónur.
Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Guðfinnu Eydal og Júlíusi K. Björnssyni sálfræðingum.
Dómsorð:
Kröfu stefnanda, Lofts Reimars Gissurarsonar, um að viðurkennt verði með dómi að hann hafi verið hæfur til að gegna tímabundinni stöðu lektors í sálfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, sem auglýst var laus til umsóknar í apríl 1995, er vísað frá dómi.
Stefndu, dómnefnd, skipuð samkvæmt 11. gr. laga nr. 131/1990 þeim Magnúsi S. Magnússyni, Maríu K. Jónsdóttur og Jóni Torfa Jónssyni, Háskóli Íslands og íslenska ríkið skulu sýkn vera af öðrum kröfum stefnanda í málinu.
Stefnandi greiði stefndu dómnefnd samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990 og Háskóla Íslands samtals 450.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur, og stefnda íslenska ríkinu 100.000 krónur.