Hæstiréttur íslands
Mál nr. 294/1999
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
|
|
Fimmtudaginn 18. nóvember 1999. |
|
Nr. 294/1999. |
Ákæruvaldið (Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Daníel Magnússyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni.
D var ákærður fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa tvívegis haft fíkniefni í vörslum sínum og til dreifingar. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsiákvörðun var staðfest og D dæmdur til fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. júlí 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu af 2. lið ákæru ásamt þeim hluta sakargifta samkvæmt 1. lið hennar, sem lýtur að því að hann hafi haft í vörslum sínum fíkniefni í dreifingarskyni. Þá krefst hann þess að refsing verði milduð frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt báðum liðum ákæru.
Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði er sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa haft í vörslum sínum og til dreifingar samtals 27,74 g af amfetamíni, sem samkvæmt vottorði rannsóknastofu í lyfjafræði 10. september 1998 hafði að geyma 4,6% amfetamínbasa, 4,54 g af kannabis og 73 töflur af fíkniefninu MDMA ásamt 13,97 g af töflumulningi úr sama efni, eða sem svarar alls rúmlega 117 töflum af því. Brot ákærða voru drýgð í tvennu lagi og verður því að gæta ákvæða 5. töluliðar 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðandi refsingu hans. Hann hefur eitt sinn áður sætt refsingu fyrir fíkniefnabrot. Að öllu þessu athuguðu eru ekki efni til að hreyfa við þeirri refsingu, sem ákærða var gerð með héraðsdómi, sbr. 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, svo sem þeim var breytt með 19. gr. laga nr. 37/1994.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest, þar á meðal um upptöku fíkniefna og sakarkostnað. Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Daníel Magnússon, greiði allan áfrýjunarkostnað af málinu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. júní 1999.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Hafnarfirði 24. mars 1999 gegn Daníel Magnússyni, kt. 120376-3309, Lækjarbergi 34, Hafnarfirði,
,,fyrir brot gegn lögum um ávana og fíkniefni, með því að hafa í tvö skipti á árinu 1998 haft í vörslum sínum, í dreifingarskyni, í bifreiðinni MA-715, ávana og fíkniefni sem hér greinir:
Föstudagskvöldið 21. ágúst, við bensínstöð Esso að Lækjargötu í Hafnarfirði, 27,74 gr. af amfetamíni og 4,54 gr. af hassi.
Miðvikudagskvöldið 4. nóvember, á Kaldárselsvegi í Hafnarfirði, 73 töflur af MDMA (3,4-metýlendíoxímetýlamfetamíni) og 13,97 gr. af töflumulningi úr sama efni. ”
Í ákæru er framangreind háttsemi ákærða talin varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997, sbr. 166. gr. laga nr. 82/1998, og 2., sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986, sbr. fylgiskjal I með þeirri reglugerð, sbr. 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 177/1986.
Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á 27,74 gr. af amfetamíni, 4,54 gr. af hassi og 73 töflum af MDMA, auk 13,97 gr. af töflumulningi úr sama efni, samkvæmt 6. mgr. 5 gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986, en ofangreind efni voru haldlögð af lögreglu við rannsókn málsins.
Ákærði kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Jafnframt komu fyrir dóminn eftirtalin vitni: Reynir Bergmann Reynisson, Margeir Sveinsson, Halldór Guðni Harðarson, Hálfdán Þórðarson, Bjarni J. Bogason, Gissur Guðmundsson og Kristján Ólafur Guðnason.
Ákæruliður 1
Varðandi fyrri lið ákæru eru málsatvik þau, að föstudagskvöldið 21. ágúst 1998 urðu rannsóknarlögreglumenn á ómerktri lögreglubifreið, Gissur Guðmundsson og Kristján Ólafur Guðnason, varir ferða bifreiðarinnar MA-715, sem er í eigu ákærða. Komu lögreglumennirnir báðir fyrir dóminn sem vitni og báru að umrætt kvöld hafi þeir veitt bifreiðinni eftirför vegna gruns um að ökumaður bifreiðarinnar hefði fíkniefni í sinni vörslu. Hafi þeir síðan fylgst með því úr fjarlægð er bifreiðinni var lagt á plani við bensínstöð Esso við Lækjargötu í Hafnarfirði. Hafi henni verið lagt við steinvegg vestan megin bensínstöðvarinnar og var farþegahurð hennar að framan opin upp á gátt. Þegar þeir hafi komið að bifreiðinni örskömmu síðar hafi ákærði setið í ökumannssæti hennar en vitnið Reynir Bergmann Reynisson í framsæti farþegamegin. Hafi ákærði haldið á hassmola og amfetamín í plastumbúðum verið á milli fóta hans, en einnig hafi nokkurt magn amfetamíns verið í plasti á milli farþega- og ökumannssætis, ófalið með öllu. Samtals hafi reynst vera um að ræða 27,74 gr. amfetamíns og 4,54 gr. af hassi. Við líkamsleit á ákærða hafi fundist samtals 144 þúsund krónur. Milli framsæta bifreiðarinnar hafi einnig fundist allstór dúkahnífur, fiðrildahnífur („butterfly”), talstöðvascanner, GSM sími og stafræn smávog. Í aftursæti hafi fundist hafnaboltakylfa. Hafi bæði ákærði og vitnið Reynir verið handteknir á vettvangi, en að auki hafi einnig Ingi Rafn Gylfason, Ívar Sturla Sævarsson og Þorgrímur Andri Einarsson verið handteknir, en þeir hafi beðið skammt frá í bifreiðinni G-25921, sem Reynir ók.
Fyrir dómi kvaðst ákærði viðurkenna að hafa haft fíkniefni þau sem áður greinir undir höndum, en hann hafi ekki átt þau sjálfur, heldur hafa verið milliliður eða „burðardýr” fyrir eiganda efnisins. Hann kvaðst hafa verið að koma frá Reykjavík og farið beint að bensínstöðinni til að koma amfetamíninu fyrir í holum við ljósastaura í hrauninu, þar sem smásalar efnisins hafi síðan getað nálgast það. Þetta hafi hann gert einu sinni áður. Ákærði kvaðst ekki geta upplýst hver eigandi efnisins væri og bar við ótta um fjölskyldu sína. Hann kvað þessi störf sín ekki gerð í hagnaðarskyni, heldur væri oft um að ræða greiða gegn greiða og hagnaður hans af þessu því óbeinn. Ákærði kvaðst oft aðeins selja fíkniefni þannig að hann hefði upp í kostnað af sölunni, svo sem bensín, ofl. Ákærði kvað ekki hafa komið til tals í umrætt skipti að hann seldi Reyni hass, en það hefði þó getað komið til greina. Hann kvaðst áður hafa útvegað Reyni og öðrum kunningjum sínum hass, en hann hafi ekki alltaf fengið greitt fyrir það í peningum. Ákærði kvaðst oft ganga með svo mikla fjármuni á sér svo sem í umrætt sinn, en þetta hafi verið aleiga hans.
Vitnið Reynir Bergmann Reynisson kom fyrir dóminn og skýrði þá þannig frá að hann hafi hringt í ákærða skömmu áður og mælt sér mót við hann við bensínstöðina til að eiga við hann orð. Vitnið kvaðst ekki hafa ætlað að kaupa efni af ákærða þessu sinni, en hann hafi séð efnið í bílnum. Félagar þess í bifreiðinni G-25921 hafi ekki vitað um tilefni veru þeirra á bensínstöðinni. Vitnið kvaðst þó áður hafa keypt hass af ákærða og stundum fengið slíkt gefins hjá honum. Fyrir lögreglu hafði vitnið skýrt svo frá að hann hafi mælt sér mót við ákærða í þeim tilgangi að kaupa af honum fíkniefni fyrir sig og félaga sína í bílnum, aðra en Ívar. Vitnið hvarf frá þessum skýringum sínum fyrir dómi og kvaðst hafa skýrt rangt frá fyrir lögreglu í því skyni að sleppa fyrr úr yfirheyrslum.
Ákærðuliður 2
Varðandi málsatvik í ákærulið 2 hafa lögreglumennirnir Margeir Sveinsson og Halldór Guðni Harðarson borið fyrir dómi, að miðvikudagskvöldið 4. nóvember 1998 hafi þeir beðið í kyrrstæðri lögreglubifreið á afleggjara að Hvaleyrarvatni, skammt austan við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Þá hafi þeir veitt athygli bifreiðinni MA-715, sem sé í eigu ákærða, þar sem henni var ekið framhjá þeim í austurátt frá Hafnarfirði. Hafi þeir þegar veitt bifreiðinni eftirför og hafi haft há ökuljós lögreglubifreiðarinnar tendruð. Er þeir hafi nálgast bifreið ákærða hafi þeir kveikt blá viðvörunarljós lögreglubifreiðarinnar til merkis um að ákærði skyldi stöðva för sína. Vitnin kveða þetta hafa verið í vinstri beygju á mótum Kaldárselsvegar og vegar að Kjóadal og aðeins hafi þá verið 1½ til 2 bíllengdir milli bifreiðanna. Vitnið Margeir, sem var ökumaður lögreglubifreiðarinnar, kvaðst telja ökuhraða hafa verið á bilinu 50-70 km./klst. Hafi þeir þá báðir greinilega séð ákærða, sem hafi verið einn í bifreiðinni, kasta u.þ.b. hnefastórum pakka út um hliðarrúðu hennar og hafi hann síðan stöðvað hana u.þ.b. 50-80 metra frá þeim stað er pakkanum hafi verið hent út á. Hafi þeir síðan handtekið ákærða og fundið pakka þann, sem þeir sáu hent út úr bifreiðinni, í vegarkantinum. Pakki þessi hafi verið umvafinn glærri plastfilmu og í honum hafi reynst vera nokkurt magn fíkniefna. Við líkamsleit á ákærða hafi í úlpuvasa fundist pappahólkur með plastfilmu og peningar, samtals 19.500 krónur. Við leit í bifreið ákærða hafi hvorki fundist fíkniefni né áhöld tengd þeim.
Ákærði hefur alfarið neitað því að hafa haft efni þetta undir höndum, eða hafa hent umræddum pakka út úr bifreiðinni, bæði í skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi. Hefur hann haldið fram sakleysi sínu og að kveðst aðeins hafa verið í bíltúr á þessum slóðum í umrætt sinn til að losna við þunglyndi. Ákærði kveðst hafa stöðvað bifreið sína um leið og hann sá stöðvunarmerki lögreglu. Hann hafi síðan verið handtekinn. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki muna hvort hann hafi verið með hólk með plastfilmu á sér í umrætt sinn, þar sem langt væri um liðið.
Fyrir dóminn kom vitnið Bjarni J. Bogason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, sem sá um rannsókn á umræddum pakka og afskornum plastfilmuhólk þeim sem tekinn var af ákærða. Vitnið kvað pakkann hafa innihaldið 73 töflur af efninu MDMA (ecstasy), auk 13,97 gr. af töflumulningi sama efnis, samtals 117,5 töflur af nefndu efni. Kvað vitnið ótvíræða niðurstöðu rannsóknar sinnar að plast það sem var utan um fíkniefnin hafi komið af sama hólki og fannst á ákærða á vettvangi. Vitnið kvað engin fingraför hafa fundist á pakkanum. Sýndi vitnið í dóminum plastfilmuhólk þann sem til rannsóknar var og vitnið hefur staðfest að teknar hafi verið af smásjármyndir þær sem liggja fyrir dóminum sem skjal nr. 10 bls. 3 í skjalaskrá rannsóknara vegna máls nr. 36-1998-4770 og varða þennan ákærulið.
Niðurstaða
Með játningu ákærða varðandi fyrri ákæruliðinn, sem fær stoð í gögnum málsins, telst sannað að hann hafi föstudagskvöldið 21. ágúst 1998 haft í fórum sínum, 1998, 27,74 gr. af amfetamíni og 4,54 gr. af hassi. Ákærði hefur hins vegar neitað því að hafa haft efnin undir höndum í dreifingarskyni, heldur hafi hann aðeins verið milliliður fyrir eiganda efnisins og gert það í greiðaskyni. Með framburði ákærða sjálfs og vitna fyrir dóminum hefur komið fram að ákærði hafi á stundum útvegað eða selt fíkniefni. Hafi hann þá ýmist útvegað efnið gegn greiða eða gegn greiðslu, sem oft hafi aðeins nægt til að hafa upp í kostnað. Þykir framburður vitnisins Reynis fyrir dóminum, þar sem hann hélt því fram að hann hafi ekki hitt ákærða við bensínstöðina í þeim tilgangi að kaupa af honum fíkniefni, ótrúverðugur.
Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að kunningsskapur vitnisins Reynis við ákærða hafi náð að tengjast öðru en útvegun fíkniefna með einum eða öðrum hætti. Einnig liggur fyrir í málinu að ákærði var að falbjóða vitninu fíkniefni er lögreglumenn stóðu þá að verki, auk þess sem til staðar var í bifreið ákærða stafræn smávog sem hentar vel til notkunar í slíkum viðskiptum. Telur dómari sannað að tilgangur móts þeirra við bensínstöðina hafi verið að versla með fíkniefni. Fyrir dómi hefur ákærði viðurkennt að hafa haft hag af því að dreifa fíkniefnum til þeirra sem hann kallar smásala. Telja verður því að hann hafi með broti sínu aflað sér ávinnings á einn eða annan hátt eða það hafi vakað fyrir honum. Þegar litið er til alls þessa, og þess að hann var með á sér 144.000 krónur í reiðufé sem hann hefur ekki getað gefið neinar trúlegar skýringar á, verður talið sannað að hann hafi ástundað dreifingu umræddra efna. Ber því að sakfella ákærða fyrir brot það sem honum er gefið að sök í fyrri ákærulið.
Ákærði hefur staðfastlega neitað öllum sakargiftum varðandi brot það, sem honum er gefið að sök í seinni lið ákæruskjals. Vitnin Margeir Sveinsson og Halldór Guðni Harðarson hafa bæði borið, að enginn vafi leiki á því í þeirra huga að þeir hafi greinilega séð ákærða henda umræddri pakkningu út úr bifreiðinni, er þeir hugðust stöðva för hans. Við vettvangsgöngu bar báðum vitnunum saman um þann stað, er þau fundu pakkann. Þrátt fyrir að myrkvað hafi verið orðið og götulýsing sé engin á þessum slóðum, þykir framburður þeirra trúverðugur að þessu leyti, enda hafa þeir borið að há ökuljós lögreglubifreiðarinnar hafi verið tendruð allan tímann og stutt millibil hafi verið á milli bifreiðanna. Hefur ákærði ekki mótmælt þessu sérstaklega. Í heild þykir framburður lögreglumannanna skýr og trúverðugur um alla málavexti, en framburður ákærða þvert á móti einkar ósennilegur. Rannsókn á plastfilmu þeirri sem fíkniefnaböggullinn var vafinn í og afskornum pappahólki með plastfilmu, sem fannst í úlpuvasa ákærða, leiddi að áliti vitnisins Bjarna J. Bogasonar, sem rannsóknina annaðist ótvírætt í ljós að plastið utan um fíkniefnin hafi komið af þeim sama hólki. Voru gögn þau sem rannsökuð voru og mynduð með smásjá sýnd í dóminum og kom ekki í ljós neitt það sem gefur tilefni til þess að vefengja niðurstöðu rannsóknarinnar. Með hliðsjón af þessu þykir sannað að ákærði hafi haft undir höndum efni það sem pakki þessi innihélt og samsvaraði að magni til 117,5 e-taflna. Ákærði hefur borið fyrir dómi að hann neyti ekki sjálfur efnis af þeirri gerð, er honum er gefið að sök að hafa haft í fórum sínum, hann reyki einungis hass endrum og sinnum. Um mikið magn fíkniefna var að ræða. Með hliðsjón af framansögðu telst sannað að ákærði hafi ætlað efni þetta til dreifingar.
Þegar allt framangreint er virt þykir ákærði sannur að sök um þá háttsemi sem hann er sakaður um í báðum liðum ákæru, hvar hún réttilega er heimfærð til refsiákvæða. Ber því að sakfella hann fyrir brot gegn tilvitnuðum ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni.
Í júlí 1996 gekkst ákærði undir sátt um greiðslu 24.000 króna sektar hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík, vegna brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og reglugerð nr. 16/1986, sem ekki hefur í för með sér ítrekunaráhrif í þessu máli eins og mælt er fyrir um í 8. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 vegna þess að þá var hvorki um að tefla innflutning eða dreifingu efnanna eins og raunin er í því máli sem nú er dæmt.
Við ákvörðun refsingar ákærða þykir verða að líta til þess að auk amfetamíns og hass er um mikið magn af afar hættulegu efni að ræða þar sem metýlendíoxímetýlamfetamín (MDMA) er og til þess fallið að valda umtalsverðu og varanlegu tjóni á líkama og heilsu ótiltekins fjölda manna komist það í umferð. Að áliti dómsins er því um sérstaklega saknæma og hættulega háttsemi að ræða. Líta ber einnig til þess að ákærði hefur neitað sakargiftum að stærstu leyti. Þykir refsing ákærða, Daníels Magnússonar, því hæfilega ákveðin 16 mánaða fangelsi.
Af hálfu ákæruvaldsins hefur verið krafist upptöku á fíkniefnum þeim er málið varðar, samtals 27,74 gr. af amfetamíni, 4,54 gr. af hassi og 73 töflum af MDMA, auk 13,97 gr. af töflumulningi úr sama efni, sem voru haldlögð af lögreglu við rannsókn málsins. Með hliðsjón af 6. mgr. 5 gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986, skulu efni þessi gerð upptæk.
Með vísan til 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður ákærða gert að greiða allan kostnað af rekstri málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Jónssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 150.000 krónur.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði Daníel Magnússon, sæti fangelsi í 16 mánuði.
Dæmd eru upptæk 27,74 gr. af amfetamíni, 4,54 gr. af hassi og 73 töflur af MDMA, auk 13,97 gr. af töflumulningi úr sama efni.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.