Hæstiréttur íslands

Mál nr. 551/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


                                              

Mánudaginn 27.  ágúst 2012.

Nr. 551/2012.

Þrotabú Baugs Group hf. 

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

Skarphéðni Berg Steinarssyni

(Þórður Bogason hrl.)

Kærumál. Vitni

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu þb. B hf. um að teknar yrðu vitnaskýrslur í héraði af tveimur nafngreindum vitnum í tengslum við rekstur máls þrotabúsins gegn S fyrir Hæstarétti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að vitnin sem þrotabúið vildi dómkveðja gætu ekki borið um málsatvik sem þau hefðu upplifað af eigin raun, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991. Þá gæti ákvæði 65. gr. sömu laga ekki átt við í málinu þar sem matsgerðarinnar, sem umrædd vitni áttu að staðfesta fyrir dómi, var ekki aflað í tengslum við rekstur málsins. Var kröfu þrotabúsins því hafnað. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Greta Baldursdóttir hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 14. ágúst 2012 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. ágúst 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að teknar yrðu vitnaskýrslur í héraði af tveimur nafngreindum vitnum í tengslum við rekstur máls sóknaraðila gegn varnaraðila fyrir Hæstarétti. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að honum verði heimilað að leiða umrædd vitni fyrir dóm til skýrslugjafar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í máli þessu leitar sóknaraðili eftir því að leiða fyrir dóm sem vitni dómkvadda menn, sem skiluðu matsgerð í málum, sem varnaraðili var ekki aðili að, í því skyni að þeir staðfesti matsgerðina og svari eftir atvikum spurningum um efni hennar. Vitnin eiga enga aðkomu að máli þessu og geta því ekki borið um málsatvik sem þau hafa upplifað af eigin raun, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991. Þá eiga ákvæði 65. gr. sömu laga um skýrslugjöf matsmanns til skýringar og staðfestingar á matsgerð og um atriði sem tengjast henni ekki við í málinu, þar sem matsgerðar þeirrar, sem er tilefni hins umdeilda vitnisburðar, var ekki aflað í tengslum við rekstur þess. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú Baugs Group hf., greiði varnaraðila, Skarphéðni Berg Steinarssyni, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. ágúst 2012.

Með beiðni móttekinni 29. júní 2012 var þess farið á leit fyrir hönd sóknaraðila, þrotabús Baugs Group hf., með vísan til 76. gr. sbr. 75. gr. laga nr. 91/1991 að teknar verði vitnaskýrslur af Þresti Sigurðssyni viðskiptafræðingi hjá Capasent og Kjartani Arnfinnssyni viðskiptafræðingi og löggiltum endurskoðanda hjá Virtus  í tengslum við rekstur málsins nr. E-6465/2010: Þrotabú Baugs Group hf. gegn Skarphéðni Berg Steinarssyni fyrir Hæstarétti. Þá er krafist málskostnaðar.

Af hálfu varnaraðila, Skarphéðins Berg Steinarssonar, er þess krafist að beiðni sóknaraðila verði vísað frá dómi en til vara að henni verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.

Málið var tekið til úrskurðar 12. júlí 2012.

I

Í málinu nr. E-6465/2010 er krafist riftunar á greiðslum Baugs Group hf. til Skarphéðins Bergs Steinarssonar vegna viðskipta með hlutabréf hans í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. (BGE). Er m.a. byggt á því í málinu að um örlætisgerning hafi verið að ræða þar sem hlutabréfin hafi verið verðlaus. Í málinu var m.a. aflað matsgerðar dómkvadds matsmanns, Kristjáns Markúsar Bragasonar hjá PWC, um verðmæti hlutafjárins og var niðurstaða hans sú að hlutabréfin hafi verið einskis virði þann 1. september 2008.

Dómur í málinu var kveðinn upp þann 17. apríl sl. og var varnaraðili sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila. Málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar og er mál aðila fyrir Hæstarétti nr. 457/2012.

Á sama tíma og mál nr. E-6465/2010 var til meðferðar voru viðskiptafræðingarnir Þröstur Sigurðsson og Kjartan Arnfinnsson dómkvaddir að beiðni sóknaraðila sem matsmenn í málunum nr. E-627/2011 og E-2356/2010 sem sóknaraðili hafði höfðað til að meta verðlagningu hluta í Baugi Group hf., sem félagið keypti 30. júní 2008, auk mats á eigna- og skuldatöðu Baugs Group hf. 30. júní 2008. Varnaraðili er ekki aðili að þeim málum.

Sóknaraðili kveðst hafa fengið matsgerð matsmannanna afhenta í febrúar 2012 eftir að gagnaöflun hafði verið lýst lokið í málinu nr. E-6465/2010.

II

Sóknaraðili byggir á að mat á virði hlutafjár BGE, hvers megin eign hafi verið hlutabréf í Baugi, tengist óhjákvæmilega mati á virði hlutabréfa Baugs. Þar sem þetta sönnunargagn geti skipt máli um niðurstöðuna í málinu á hendur Skarphéðni Berg sé talið nauðsynlegt að leggja skjalið fram sem sönnunargagn í Hæstarétti. Því sé brýnt að matsmennirnir komi fyrir dóm og staðfesti þar matgerðina og svari eftir atvikum spurningum um efni hennar.

III

Varnaraðili byggir á að beiðni sóknaraðila sé lítið sem ekkert rökstudd og óljóst með öllu á hvaða lagagrundvelli hún byggist í reynd. Engin gögn hafi fylgt beiðninni frá því dómsmáli sem rekið sé á milli aðila, umfram áfrýjunarstefnu og matsgerð dómkvaddra matsmanna í óskyldum málum, sem sóknaraðili hyggist leggja fram sem nýtt gagn í Hæstarétti.

Í beiðni til héraðsdóms sé ekki greint á hvaða grundvelli hinir dómkvöddu matsmenn eigi að koma fyrir dóm og gefa skýrslu en réttarstaðan sé ólík eftir því hvort um sé að ræða matsmenn skv. IX. kafla eða XII kafla eml. eða vitni skv. VIII. kafla. Fyrir liggi í málinu af framlagðri matsgerð að varnaraðli sé ekki aðili að matsmálunum eða dómsmálum þeim sem matsgerðin sé unnin fyrir. Umræddir menn séu þannig ekki matsmenn í máli þar sem varnaraðili eigi aðild. Í beiðninni komi heldur ekki fram hvernig umræddir dómkvaddir matsmenn geti verið vitni í því máli sem sóknaraðili hafi áfrýjað til Hæstaréttar. Telja verði að sóknaraðila hafi borið að gera ítarlega grein fyrir á hvaða lagalega og efnislega grundvelli beiði hans byggist auk þess að leggja fram gögn því til stuðnings.

Þá byggir varnaraðli á að samkvæmt 65. gr. eml. beri matsmanni að kröfu aðila máls að koma fyrir dóm til að efa skýrslu til skýringar og staðfestingar á matsgerð og um atriði sem tengjast henni. Í beiðni sóknaraðila komi ekki fram hvort skýrslugjöf hinna dómkvöddu matsmanna eigi að byggjast á þessu ákvæði, þótt það megi ráða af orðalagi bréfsins þar sem farið sé fram á að matsmennirnir „komi fyrir dóm og staðfesti þar matsgerðin (sic) og svari eftir atvikum spurningum um efni hennar.“

                Fyrir því sé engin stoð í lögum um meðferð einkamála að aðili dómsmáls, sóknaraðili í þessu tilfelli, geti leitt dómkvadda matsmenn úr öðrum dómsmálum sem hann rekur gegn óskyldum aðilum, til skýrslugjafar og staðfestingar á matsgerð þar sem varnaraðili er ekki aðili máls. Ef skýrslugjöfin eigi að fara eftir reglum IX. kafla eml. sé ljóst að skilyrði laganna séu ekki uppfyllt, varnaraðili hafi þar enga aðkomu, hafi ekki verið boðaður á dómþing, sbr. 61. gr. fær engin gögn eða tækifæri til að tjá sig um framgang matsins, hvað þá að geta tjáð sig um eða haft áhrif á hæfi matsmanna, sbr. 66. gr. Þá geti varnaraðili ekki krafist yfirmats á matsgerðina, sbr. 64. gr. Varnaraðili njóti því ekki þeirrar stöðu og réttinda sem IX. kafli eml. veiti honum. Lagaskilyrði séu ekki til þess að leiða dómkvadda matsmenn fyrir réttinn til staðfestingar og skýrslugjafar þegar svo hátti til sem í þessu máli.

Varnaraðili byggir einnig á að samkvæmt 77. og 78. gr. eml. sé unnt að fara fram á dómkvaðningu matsmanns án málshöfðunar í þeim tilfellum sem aðili eigi lögvarinna hagsmuna að gæta. Dómari meti hvort fallast skuli á beiðnina skv. skilyrðum, sbr. 3. mgr. 78. gr. Aðili skuli kvaddur á dómþing þar sem sönnunarfærsla fer fram og hann á tækifæri til þess að fara fram á frekari gagnaöflun, gera athugasemdir við hæfi matsmanna o.s. frv. Af dómi Hæstaréttar í máli nr. 111/2011, Kaupþing banki gegn Baugi Group hf. verði ekki annað ráðið en ef aðili vilji leita mats á sönnun um tiltekin málsatvik og réttmæti kröfu verði hann að fara annað hvort að ákvæðum IX. kafla eða XII. kafla laga um meðferð einkamála. Ef beiðnin byggist á XII. kafla laganna verði skv. forsendum dómsins að fara að ákvæðum 2. mgr. 78. gr. laganna svo þeir sem málið varðar geti látið matsmálið til sín taka og eftir atvikum andmælt því að skilyrðum sé fullnægt til að dómkvaðning fari fram. Beiðni sóknaraðila uppfylli ekki þessi ófrávíkjanlegu skilyrði laganna um öflun matsgerða.

                Þá byggir sóknaraðili á að ef krafa sóknaraðila um skýrslutöku byggist ekki á ákvæðum IX. kafla eða XII. kafla eml. sé tæpast um annað að ræða en að sóknaraðili vilji leiða hina dómkvöddu matsmenn fyrir réttinn sem vitni. Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. eml. sé hlutverk vitna að bera vitni um málsatvik, atvik sem þau hafa upplifað af eigin raun. Samkvæmt beiðni sóknaraðila liggi fyrir að umræddir dómkvaddir matsmenn í málum nr. E-627/2011 og E-2356/2010 geti ekki borið vitni um málsatvik í máli E-6465/2010 sem áfrýjað hafi verið til Hæstaréttar. Ef svo hátti til verði ekki önnur ályktun dregin en að sóknaraðili ætli sér að leiða hina dómkvöddu matsmenn fyrir dóm til að gefa skýrslu sem „sérfræðivitni“. Slík skýrslugjöf sé óheimil skv. lögum meðferð einkamála og þarflaus sönnunarfærsla skv. 3. mgr. 46. gr. eml.

Loks byggir varnaraðili að ef umrædd skýrslutaka yrði heimiluð væri brotið gegn meginreglu einkamálaréttarfars um jafnræði aðila. Sóknaraðili freisti þess að leggja fram skýrslu dómkvaddra matsmanna í dóms- og matsmálum sem hann reki nú gegn öðrum óskyldum aðilum. Í jafnræðisreglu einkamálaréttarfars felist að aðilarnir njóti sömu aðstöðu við rekstur máls án nokkurrar mismununar og eigi jafnan kost á að hafa uppi kröfur, röksemdir, afla sönnunargagna, kynna sér sönnunargögn og tjá sig um kröfur og röksemdir gagnaðilans. Varnaraðila hafi ekki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna í matsmálum þeim sem sóknaraðili vill koma inn í þetta mál, hvorki með boðun á dómþing, skýrslugjöf, gagnaframlagningu eða öðrum réttarfarsúrræðum sem honum eiga að vera tryggð, s.s. að krefjast yfirmats. Sóknaraðili vilji nú leggja fyrir héraðsdóm til staðfestingar matsgerð dómkvaddra matmanna þar sem hann sitji einn að öllum gögnum matmálanna, haf einn tekið þátt í matsfundum og afmörkun matandlagsins. Sé þetta andstætt jafnræðisreglu einkamálaréttarfars. Sú staðreynd ein nægi til þess að hinum virðulega rétti beri að synja um beiðni sóknaraðila. Með vísan til alls framangreinds, sbr. og 3. mgr. 46. gr. eml. beri að synja um framangreinda vitnaleiðslu.

IV

Fyrir liggur að Þröstur Sigurðsson viðskiptafræðingur og Kjartan Arnfinnsson viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi, sem sóknaraðili krefst að teknar verði vitnaskýrslur af í máli þessu, voru dómkvaddir sem matsmenn í málum nr. E-2356/2010 og nr. E-627/2011 og er matsgerð þeirra dagsett í febrúar 2012.          

Sóknaraðili krefst þess nú með vísan til 76. gr., sbr. 75. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að teknar verði vitnaskýrslur af matsmönnunum í tengslum við rekstur málsins nr. E-6465/2010: Þrotabú Baugs Group hf. gegn Skarphéðni Berg Steinarssyni fyrir Hæstarétti.

             Samkvæmt 76. gr. laga nr. 91/1991 er málsaðilum heimilt að afla frekari gagna í tengslum við rekstur máls fyrir æðra dómi. Samkvæmt ákvæðinu skal eftir því sem við getur átt beita ákvæðum 75. gr. laganna við gagnaöflunina. Í 1. mgr. 75. gr. er kveðið á um að þegar gagnaöflun fer fram fyrir dómi hér á landi eftir fyrirmælum kaflans skuli farið eftir ákvæðum II. og VII.-X. kafla eftir því sem við getur átt.

Í máli þessu lýtur ágreiningur aðila að því hvort heimilt sé að leiða umrædda matsmenn fyrir dóminn sem vitni í því skyni sem krafist er, þ.e. til að staðfesta matsgerðina og svara spurningum um efni hennar.

Í 1. mgr. 51. gr. eml. er afmarkað hvaða menn verða taldir vitni í skilningi laganna. Er þar kveðið á um að hverjum manni sem orðinn er 15 ára, lúti íslenskri lögsögu og sé ekki aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila sé skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem beint er til hans um málsatvik. Mælir ákvæðið þannig fyrir um hverjum er skylt að koma fyrir dóm og bera vitni til að svara spurningum um málsatvik.

Í máli þessu er því ekki haldið fram að leiða eigi umrædda matsmenn sem vitni til að svara spurningum um málsatvik, þ.e. atburði eða staðreyndir sem tengjast sakarefninu og þeir hafa kynnst af eigin raun. Heldur kemur fram að tilgangurinn sé, eins og áður greinir, að þeir staðfesti matgerðina og svari eftir atvikum spurningum um efni hennar.

Eins og áður greinir verða vitni einungis spurð um málsatvik fyrir dómi. Verður því ekki talið að heimild standi til þess að matsmennirnir verði leiddir fyrir dóminn sem vitni í málinu í því skyni sem krafist er, þ.e. til að segja álit sitt á matskenndum atriðum, sem málið kunna að varða.

Um skýrslugjöf matsmanna fyrir dómi er hins vegar sérstakt ákvæði í 65. gr. eml. En samkvæmt ákvæðinu getur aðili krafist þess að sá, sem dómkvaddur hefur verið matsmaður, komi fyrir dóm til að gefa munnlega skýrslu í því máli. Er tilgangur slíkrar skýrslugjafar að matsmaður gefi skýringar á matsgerð sinni, staðfesti hana og svari spurningum um atriði, er tengjast henni. Um vitnaskýrslu í skilningi 51. gr. eml. er þó ekki að ræða þó að samkvæmt ákvæðinu eigi að beita reglum VIII. kafla laganna um vitni um skýrslugjöfina eftir því sem þær geta átt við.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu sóknaraðila í máli þessu hafnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíði efnisdóms.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, þrotabús Baugs Group hf., um að teknar verði vitnaskýrslur af Þresti Sigurðssyni viðskiptafræðingi og Kjartani Arnfinnssyni viðskiptafræðingi og löggiltum endurskoðanda í tengslum við rekstur málsins nr. E-6465/2010: Þrotabú Baugs Group hf. gegn Skarphéðni Berg Steinarssyni fyrir Hæstarétti.

Málskostnaðarákvörðun bíður efnisdóms.