Hæstiréttur íslands
Mál nr. 133/2003
Lykilorð
- Víxill
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 18. september 2003. |
|
|
Nr. 133/2003. |
Ísberg ehf. (Kristinn Bjarnason hrl.) gegn Pétri Má Sigurðssyni(Helgi Jóhannesson hrl.) |
|
Víxill. Skaðabætur.
P seldi Í allan rekstur P ehf. Kaupverðið var allt greitt við undirritun kaupsamings að undanskildum 1.000.000 krónum, sem greiðast áttu nokkru síðar. Gaf Í út víxil til tryggingar greiðslu eftirstöðvanna. Ágreiningur reis með aðilum um atriði er tengdust kaupunum og greiddi Í ekki eftirstöðvar kaupverðsins á umsömdum gjalddaga. Höfðaði P í framhaldi af þessu mál til innheimtu víxilsins. Var málið rekið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 og komust varnir Í, er lutu að lögskiptum aðila, því ekki að í málinu. Voru kröfur P teknar til greina, að teknu tilliti til þess að Í hafði undir rekstri málsins lækkað kröfur sínar um 500.000 krónur, sbr. dómasafn Hæstaréttar 2000, bls. 324. Í því máli var lækkunin ekki útskýrð af hálfu Í. Var það fyrst í því máli sem reifun þessi lýtur að, sem fram kom afstaða Í til þess hvaða afsláttur hefði verið veittur af kaupverði rekstrarins. Kom þá ítrekað fram af hálfu Í, að veittur hefði verið 500.000 króna afsláttur af kaupverðinu. Samkvæmt því var miðað við að Í hefði einungis skuldað P 500.000 krónur á gjalddaga víxilsins. Þá skuld hafði Í greitt upp þegar víxilmálið var tekið til dóms. Var P samkvæmt þessu gert að greiða Í þá fjárhæð sem P hafði krafist greiðslu á í víxilmálinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. apríl 2003. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.110.782 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. maí 2002 til greiðsludags. Þess er jafnframt krafist að staðfest verði með dómi kyrrsetning sýslumannsins í Kópavogi 30. maí 2002 á 1.110.800 krónum í reiðufé, sem áfrýjandi greiddi stefnda við fyrirtöku aðfarargerðar hjá sýslumanni þann dag. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Með kaupsamningi 11. febrúar 1998 seldi Pétur Sigurðsson ehf. áfrýjanda allan rekstur heildverslunar félagsins. Kaupverðið var 11.855.542 krónur og var það allt greitt við undirritun kaupsamnings að undanskildum 1.000.000 krónum, sem samkvæmt 2. tl. 2. gr. samningsins skyldi greiða 9. maí 1998. Í samningnum var tekið fram að afhending hins selda hafi átt sér stað 9. febrúar 1998. Til tryggingar greiðslu framangreindra eftirstöðva kaupverðs gaf stefndi út víxil 11. febrúar 1998 að fjárhæð 1.000.000 krónur með gjalddaga 9. maí sama árs. Var víxillinn samþykktur af áfrýjanda og framseldur af stefnda. Á framhlið víxilsins var ritað orðið „tryggingarvíxill“ og á bakhlið hans var svofelld áletrun: „Tryggingarvíxill: Víxill þessi er til tryggingar greiðslu samkv. 2. tl. 2. gr. kaupsamnings dags. 11/2 1998 vegna kaupa Ísbergs ehf. á rekstri heildversl. af Pétri Sigurðssyni ehf. ...“
Ágreiningur reis með aðilum um atriði er tengdust kaupunum og greiddi áfrýjandi ekki eftirstöðvar kaupverðsins á umsömdum gjalddaga en hins vegar 300.000 krónur 26. maí 1998. Er í greiðslukvittun tekið fram að um sé að ræða innágreiðslu samkvæmt kaupsamningi. Stefndi krafði áfrýjanda um greiðslu skuldar að fjárhæð 500.000 krónur „skv. samkomulagi við Pétur Sigurðsson“ með bréfi 19. júní 1998. Var tekið fram að yrði skuldin ekki greidd innan 10 daga yrði framangreindur víxill innheimtur ásamt dráttarvöxtum og kostnaði.
Þann 31. ágúst 1998 höfðaði stefndi mál og krafðist þess að áfrýjandi yrði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 1.000.000 krónur samkvæmt framangreindum víxli ásamt bankakostnaði, dráttarvöxtum og málskostnaði. Málið var af hálfu stefnda rekið sem víxilmál samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjandi tók til varna og krafðist í greinargerð sinni til héraðsdóms 19. október 1998 aðallega frávísunar málsins en til vara að honum yrði aðeins gert að greiða stefnda 260.156 krónur. Reisti hann varakröfu sína á þeim málsástæðum að þar sem reksturinn hafi ekki reynst eins blómlegur og stefndi hefði upplýst hafi stefndi gefið eftir 200.000 krónur af framangreindri lokagreiðslu kaupsamningsins. Samtímis eða 26. maí 1998 hafi honum verið greiddar 300.000 krónur og hafi þá staðið eftir 500.000 krónur af lokagreiðslunni. Hafi áfrýjandi undir höndum gögn er sýni að stefndi skuldi honum fé vegna nánar tiltekinn atriða er tengdust kaupunum samtals að fjárhæð 239.844 krónur. Þannig fengist fjárhæð varakröfunnar 260.156 krónur, sem áfrýjandi væri reiðubúinn að greiða. Þann 10. febrúar 1999 greiddi áfrýjandi 300.000 krónur inn á geymslureikning í Landsbanka Íslands og skyldi greiðslan afhent stefnda gengi dómur í framangreindu máli honum í hag. Fyrir liggur að tveimur dögum síðar voru stefnda greiddar 260.000 krónur af geymslureikningnum. Stefndi lækkaði dómkröfur sínar í víxilmálinu um 500.000 krónur. Mun hann hafa gert það við aðalmeðferð málsins 15. júní 1999. Ekki verður séð að komið hafi fram af hans hálfu skýringar á hverju þessi lækkun byggðist. Málið var tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð og var dómur í því upp kveðinn 30. júní 1999. Voru kröfur stefnda teknar til greina enda komust varnir er lutu að lögskiptum aðila ekki að í málinu. Þá var áfrýjandi dæmdur til greiðslu 200.000 króna í málskostnað. Dómi þessum var áfrýjað til Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu hans 3. febrúar 2000 og dæmdi áfrýjanda til greiðslu 150.000 króna málskostnaðar fyrir Hæstarétti, sbr. dómasafn réttarins 2000, bls. 324.
Þann 18. febrúar 2000 voru stefnda greiddar 40.000 krónur af fyrrnefndum geymslureikningi og loks 2.155 krónur 17. mars sama árs, sem munu hafa verið vextir af innistæðunni. Síðargreindan dag beiddist stefndi aðfarar og krafðist þess að fjárnám yrði gert til tryggingar skuld samkvæmt dóminum að viðbættum vöxtum og kostnaði en að frádreginni 300.000 króna innborgun eða samtals 703.066 krónur. Með beiðni 12. maí 2000 krafðist áfrýjandi kyrrsetningar eigna stefnda til tryggingar skaðabótakröfu að fjárhæð 703.066 krónur, auk dráttarvaxta og kostnaðar af kyrrsetningargerð og eftirfarandi staðfestingarmáli, þar sem stefndi hafi bakað sér tjón með því að innheimta fyrrnefndan víxil. Þann 8. maí 2002 krafðist áfrýjandi á ný kyrrsetningar eigna gerðarbeiðanda á sömu forsendum og fyrr, en nú til tryggingar kröfu að fjárhæð 1.110.782 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar af kyrrsetningu og eftirfarandi staðfestingarmáli. Samkvæmt yfirliti, er stafar frá stefnda og miðað er við 29. maí 2002, var krafa stefnda þá samkvæmt dóminum 1.110.782 krónur að meðtöldum vöxtum og kostnaði, en að frádreginni 302.155 króna innborgun. Sýslumaðurinn í Kópavogi tók aðfararbeiðni stefnda fyrir 30 maí 2002. Er bókað í gerðarbók að áfrýjandi hafi lagt fram 1.110.800 krónur til greiðslu á kröfunni. Jafnframt er bókað að lagt hafi verið fram „nýtt afrit af kyrrsetningarbeiðni“ ásamt 150.000 króna bankaábyrgð. Krafist hafi verið kyrrsetningar á þeirri fjárhæð, sem lögð hafi verið fram til greiðslu kröfunnar. Ákvað sýslumaður að umbeðin kyrrsetning næði fram að ganga og lagði fyrrnefnda greiðslu inn á bankabók í vörslum embættisins.
II.
Áfrýjandi höfðað mál þetta með stefnu 6. júní 2002. Krefst hann greiðslu bóta jafnhárra þeirri greiðslu, sem stefndi krafðist aðfarar fyrir 30. maí 2002 og jafnframt staðfestingar á fyrrnefndri kyrrsetningargerð. Til stuðnings endurkröfunni vísar hann til almennu skaðabótareglunnar og 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991. Í héraðsdómsstefnu lýsti áfrýjandi málavöxtum svo að áður en til lokagreiðslu hafi komið samkvæmt kaupsamningnum hafi forsendur brostið að nokkru fyrir kaupunum, enda hafi rekstur heildverslunarinnar ekki verið eins blómlegur og stefndi hafi upplýst. Hafi þetta leitt til þess að stefndi hafi gefið eftir 200.000 krónur af lokagreiðslunni og auk þess fallist á að frá henni skyldu dragast fjárhæðir sem áfrýjandi „legði út“ vegna kostnaðar, sem til varð áður en hann tók við rekstrinum. Áfrýjandi hafi síðan greitt 300.000 krónur. Frá þeim 500.000 krónum, sem þá stóðu eftir af lokagreiðslunni, skyldi draga skuldir heildverslunarinnar við áfrýjanda, sem nánar eru raktar í fimm liðum í hinum áfrýjaða dómi, en þær næmu samtals 239.844 krónum. Hafi skuld áfrýjanda við stefnda er fyrrgreint víxilmál var höfðað því numið 260.156 krónum. Áfrýjandi hafi síðan greitt 300.000 krónur inn á geymslureikning, eins og að framan er rakið. Stefndi hafi því ekki átt kröfu á hendur sér þegar hann knúði fram greiðslu í fyrrgreindu víxilmáli.
Í málsatvikalýsingu í greinargerð stefnda fyrir héraðsdómi segir meðal annars að þar sem áfrýjandi hafi ekki greitt lokagreiðslu samkvæmt margnefndum kaupsamningi þrátt fyrir innheimtutilraunir hafi stefndi séð sig tilneyddan að höfða mál til innheimtu kröfunnar. Síðan segir: „Þar sem stefnandi var ekki sáttur við ýmislegt sem, að hans sögn, gekk ekki vel í rekstrinum fór hann að kenna stefnda um allt sem miður fór. Stefndi ákvað að koma til móts við stefnanda og gaf honum afslátt að fjárhæð kr. 500.000,00 á verði félagsins...“ Í þeim kafla greinargerðarinnar, sem fjallar um málsástæður og lagarök, segir um þetta atriði að hvað varði „þau lögskipti sem mál þetta er sprottið út af þá bendir stefndi á að hann hafi þegar gefið stefnanda kr. 500.000,00 afslátt af verði fyrirtækisins...“ Enn segir í sama kafla greinargerðarinnar: „Stefndi bendir á að í samkomulagi aðila, sem talað er um í stefnu, hafi falist heildarafsláttur af verði fyrirtækisins, þ.e.a.s. að stefnandi hafi ekki þurft að greiða kr. 1.000.000,00, heldur kr. 500.000,00 í lokagreiðslu, sbr. 3. tl. 2. gr. kaupsamningsins... Telur stefndi að með því að veita stefnanda 500.000 kr. afslátt af kaupsamningsgreiðslu hafi stefndi gengið lengra en honum bar, en afslátturinn var gefinn í þeirri trú að eftirstöðvar kaupsamningsgreiðslu yrðu greiddar. Í áðurnefndum afslætti fólust öll þau hugsanlegu útgjöld sem stefnandi kynni að þurfa að leggja út fyrir vegna skuldbindinga sem fyrirtækið var í við söluna...“ Er síðar í greinargerðinni fullyrt þrívegis til viðbótar að stefndi hafi gefið áfrýjanda 500.000 króna afslátt af kaupverðinu. Fyrir héraðsdómi gaf stefndi aðilaskýrslu. Var hann spurður um margnefndan afslátt af lögmönnum beggja aðila, en ekki kemur fram í svörum hans hversu hár afslátturinn hafi verið. Í hinum áfrýjaða dómi er við það miðað að stefndi hafi veitt 500.000 króna afslátt af kaupverðinu.
Í áfrýjunarstefnu og greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar er byggt á því að stefndi hafi veitt 500.000 króna afslátt af kaupverðinu og er það meginatriði í röksemdafærslu áfrýjanda. Gerir stefndi ekki athugasemd við það í greinargerð sinni til Hæstaréttar og verður ekki ráðið af henni að hann reisi kröfu sína á því að annar og lægri afsláttur hafi verið veittur. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti hélt lögmaður stefnda því hins vegar fram að einungis hafi verið veittur 200.000 króna afsláttur af kaupverðinu og við það verði að miða við úrlausn málsins. Framangreind ummæli um afslátt í greinargerð stefnda til héraðsdóms hafi að vísu verið ónákvæm, en í þeim hafi ekki falist annað og meira en vísan til þess að með eftirgjöf stefnda á 200.000 krónum og greiðslu áfrýjanda á 300.000 krónum 26. maí 1998 hafi ógreiddar eftirstöðvar lokagreiðslu kaupsamningsins samtals lækkað um 500.000 krónur.
III.
Ágreiningur aðila snýst um eftirstöðvar kaupverðs rekstrar heildverslunarinnar Péturs Sigurðssonar ehf. samkvæmt kaupsamningi 11. febrúar 1998, en þær voru 1000.000 krónur og skyldu samkvæmt samningnum greiðast 9. maí 1998. Eins og að framan er rakið hélt áfrýjandi því fram við rekstur fyrrgreinds víxilmáls og í stefnu í því máli, sem hér er til úrlausnar, að umsaminn afsláttur hafi verið 200.000 krónur. Að auki hélt hann því fram í stefnunni að umsamið hafi verið að frá lokagreiðslunni skyldu dragast fjárhæðir, sem áfrýjandi hafi lagt út vegna kostnaðar, sem varð til áður en hann tók við rekstrinum. Ekki verður séð að fram hafi komið með skýrum hætti af hálfu stefnda við rekstur fyrrgreinds víxilmáls hvort aðilar hafi samið um afslátt af kaupverði fyrirtækisins og þá alls ekki hver sá afsláttur væri. Er lækkun kröfu hans í því máli um 500.000 krónur að engu skýrð með þeirri skriflegu yfirlýsingu, sem lögð mun hafa verið fram við aðalmeðferð þess máls í héraði. Það var fyrst með greinargerð stefnda til héraðsdóms í þessu máli að fram kom afstaða hans til þess hvaða afsláttur hafi verið veittur af kaupverði rekstrarins. Kom þar fram ítrekað með afdráttarlausum hætti að hann hafi veitt 500.000 krónu afslátt og er þar eins og að framan er rakið skýrt hvað falist hafi í þessum afslætti. Er héraðsdómur reistur á að afslátturinn hafi verið 500.000 krónur, sem og málatilbúnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti. Þrátt fyrir það andmælti stefndi þessu ekki í greinargerð til Hæstaréttar og reisti málatilbúnað sinn í greinargerðinni ekki á að annar og lægri afsláttur hafi verið veittur. Er stefndi bundinn af þessum yfirlýsingum og verður við úrlausn málsins að miða við að hann hafi veitt 500.000 króna afslátt af eftirstöðvum kaupverðsins og áfrýjandi því einungis skuldað 500.000 krónur á gjalddaga 9. maí 1998. Eins og að framan er rakið greiddi áfrýjandi 300.000 krónur 26. maí 1998. Höfuðstóll skuldar hans við áfrýjanda var því 200.000 krónur þegar fyrrgreint víxilmál var höfðað 31. ágúst þess árs. Óumdeilt er að 12. febrúar 1999 voru stefnda greiddar 260.000 krónur af geymslureikningi, sem áfrýjandi hafði stofnað tveimur dögum áður vegna málaferla aðila. Þar með hafði áfrýjandi greitt allan höfuðstól eftirstöðva kaupverðsins og 60.000 krónur að auki, sem er töluvert umfram þá dráttarvexti, sem á höfðu fallið frá gjalddaga lokagreiðslunnar til þess tíma. Áfrýjandi var samkvæmt þessu skuldlaus við stefnda þegar framangreint víxilmál var tekið til dóms.
Ekki verður fallist á með stefnda að áfrýjandi hafi sýnt tómlæti þannig að áhrif geti haft á niðurstöðu málsins.
Krafa áfrýjanda hefur ekki sætt tölulegum andmælum. Samkvæmt því verður stefnda gert að greiða áfrýjanda 1.110.782 krónur, en það er sú fjárhæð sem stefndi krafðist greiðslu á til fullnustu dóms í framangreindu víxilmáli en áfrýjandi reiddi fram ríflega þá fjárhæð við fyrirtöku fjárnámsbeiðni stefnda 30. maí 2002. Þá verður stefnda gert að greiða dráttarvexti eins og í dómsorði greinir.
Staðfest er kyrrsetningargerð sýslumannsins í Kópavogi, sem fram fór 30. maí 2002 í reiðufé að fjárhæð 1.110.800 krónur.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Pétur Sigurðsson, greiði áfrýjanda, Ísbergi ehf., 1.110.782 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. maí 2002 til greiðsludags.
Staðfest er kyrrsetning, sem fram fór 30 maí 2002, í reiðufé að fjárhæð 1.110.800 krónur, sem áfrýjandi greiddi stefnda þann dag.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2003.
Mál þetta var þingfest 19. júní 2002 og tekið til dóms 28. febrúar síðastliðinn. Stefnandi er Ísberg ehf., kt. 490298-2079, Sundaborg 1, Reykjavík en stefndi er Pétur Sigurðsson, kt. 040555-2779, Bandaríkjunum.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.110.782 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. maí 2002 til greiðsludags. Þá er þessi krafist að staðfest verði með dómi kyrrsetning sýslumannsins í Kópavogi, dagsett 30. maí 2002, í reiðufé, alls að fjarhæð 1.110.800 krónur sem stefnandi greiddi stefnda í fyrirtöku hjá sýslumanni. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.
I.
Stefnandi og heildverslun Péturs Sigurðssonar ehf. gerðu með sér samning 11. febrúar 1998 um kaup stefnanda á rekstri heildverslunarinnar. Fyrrverandi eigandi og fyrirsvarsmaður seljanda, Pétur Sigurðsson, er stefndi í máli þessu. Samkvæmt 1. gr. samningsins var hinu selda lýst svo: „Nánar tiltekið er um að ræða allan rekstur, viðskiptavild, firma að nafni Ísberg, áhöld og tæki, húsbúnað og allar lausar innréttingar, sem eru í eigu seljanda, ásamt öllu sem fylgir og fylgja ber rekstrinum. Þá fylgir með í kaupunum öll innlend og erlend viðskiptasambönd...og allar vörubirgðir.“ Hinn seldi rekstur skyldi vera kvaða- og veðbandslaus og afhending skyldi fara fram 9. febrúar 1998. Frá og með þeim degi skyldi kaupandi hirða arð af hinu selda og greiða skatta og skyldur en seljandi til þess tíma. Samkvæmt 2. tl. 2. gr. samningsins skyldi stefnandi greiða lokagreiðslu kaupverðs að fjárhæð 1.000.000 krónur þann 9. maí 1998 og samþykkti stefnandi tryggingarvíxil til tryggingar á þeirri greiðslu. Víxillinn var gefinn út 11. febrúar 1998 af stefnda persónulega og framseldur eyðuframsali af honum.
Stefnandi telur að forsendur hafi brostið fyrir kaupunum að nokkru leyti vegna þess að í ljós hafi komið að rekstur heildverslunarinnar hafi ekki verið jafn blómlegur og stefndi hafi upplýst um. Hafi stefnandi þurft að leysa til sín gallaða vöru og jafnframt að greiða ýmsa reikninga heildvöruverslunarinnar.
Hinn 19. júní 1998 sendi stefndi stefnanda innheimtubréf og krafði hann um greiðslu á víxlinum. Þann 23. júní 1998 svaraði stefnandi innheimtubréfi stefnda. Þar segir meðal annars að ekki hafi reynst hald í öllum viðskiptasamböndum sem keypt hafi verið. Þá hafi einnig komið fram gallar á vörum sem hafi valdið stefnanda kostnaði og tekjumissi.
Stefnandi greiddi ekki skuldina samkvæmt víxlinum og höfðaði stefndi því mál á hendur honum til heimtu kröfunnar. Stefnan var lögð fram í héraðsdómi 8. september 1998. Undir rekstri málsins ákvað stefndi að koma til móts við stefnanda og gaf honum afslátt að fjárhæð 500.000 krónur. Niðurstaða héraðsdóms varð því sú að stefnandi skyldi greiða stefnda 507.500 krónur ásamt dráttarvöxtum og málskostnað að fjárhæð 200.000 krónur. Hæstiréttur staðfesti síðan dóm héraðsdóms með dómi 3. febrúar 2000. Stefndi sendi aðfararbeiðni til sýslumannsins í Reykjavík 17. mars 2000. Beiðnin var framsend sýslumanninum í Kópavogi og var hún tekin fyrir 19. maí 2000. Stefnandi lagði þá fram kyrrsetningarbeiðni og var gerðinni þá frestað. Ekkert var aðhafst frekar í málinu fyrr en aðfararbeiðni var tekin fyrir aftur 30. maí 2002 hjá sýslumanni. Stefnandi greiddi þá kröfuna að fjárhæð 1.110.800 krónur en krafðist jafnframt kyrrsetningar á greiðslunni. Var kyrrsetningin samþykkt og í kjölfarið höfðaði stefnandi mál þetta á hendur stefnda.
II.
Stefnandi telur stefnda vera í skuld við sig að fjárhæð 239.844 krónur sem sundurliðast þannig:
1. Vegna símreikninga sem stefnandi hafi greitt fyrir stefnda að fjárhæð 63.643 krónur.
2. Vegna kaffikönnu sem stefnandi hafi tekið út úr rekstrinum andstætt samkomulagi aðila að fjárhæð 35.283 krónur.
3. Vegna vörusölu að fjárhæð 10.171 króna. Kaupendur hafi greitt vörur í fyrirtækinu með visakorti skömmu eftir yfirtöku stefnanda. Andvirðið hafi runnið inn á reikning stefnda en ekki til stefnanda.
4. Vegna ábyrgðarviðgerða að fjárhæð 113.164 krónur. Áður en stefnandi hafi tekið við rekstrinum hafi verið seldar gallaðar vörur og hafi stefnandi þurft að leggja til varahluti og mann til að gera við mótor í pizzaofni.
5. Vegna gallaðrar brauðristar sem hafi verið seld áður en stefnandi tók við rekstri fyrirtækisins að fjárhæð 17.583 krónur. Stefnandi hafi þurft að innleysa þessa brauðrist.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefndi hafi knúið fram greiðslu á 1.110.782 krónum þrátt fyrir að engin lögmæt krafa hafi staðið að baki. Stefnandi hafi neyðst til að greiða kröfuna vegna formreglna 17. kafla laga nr. 91/1991. Hann hafi hins vegar ekki skuldað stefnda neitt. Umrædd fjárhæð sé jöfn fjártjóni stefnanda vegna ólögmætrar meðferðar stefnda á víxlinum.
Stefnandi hafi greitt 300.000 krónur með deponeringu og hafi raunveruleg skuld stefnanda við stefnda einungis verið að fjárhæð 260.156 krónur. Stefnandi hafi síðan þurft að greiða 239.844 krónur vegna úttekta stefnda, kostnaðar og ábyrgðarviðgerða. Vísar stefnandi til reglna um skuldajöfnuð, reglna um afslátt vegna galla hins selda og meginreglna samninga og kröfuréttar um að gerða samninga beri að halda.
Stefnandi telur að hinar ólögmætu innheimtuaðgerðir hafi kostað sig 1.110.782 krónur. Í þessu sambandi vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar og til 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á þeirri málsástæðu að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi lögvarða kröfu á hendur stefnda. Telur stefndi raunar að kröfur stefnanda á hendur stefnda séu með öllu ósannaðar og eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum.
Þá bendir stefndi á að hann hafi þegar veitt stefnanda 500.000 krónur í afslátt af verði fyrirtækisins. Stefndi bendir einnig á að dómkrafa stefnanda sé illskiljanleg og að mestu leyti órökstudd. Stefndi mótmælir því sérstaklega sem röngu og ósönnuðu að rekstur heildverslunarinnar hafi ekki verið jafn blómlegur og stefndi hafi upplýst um. Þvert á móti hafi verið um gott fyrirtæki að ræða með mikla framtíðarmöguleika. Stefndi hafi því uppfyllt upplýsingaskyldu sína gagnvart stefnanda. Stefndi telur að með því að veita stefnanda 500.000 krónur í afslátt hafi stefndi gengið lengra en honum hafi borið. Afslátturinn hafi verið gefinn í þeirri trú að eftirstöðvar kaupsamnings yrðu greiddar. Í þessum afslætti hafi falist öll þau hugsanleg útgjöld sem stefnandi kynni að verða fyrir vegna skuldbindinga sem fyrirtækið hafi verið í. Varðandi einstaka kröfuliði tekur stefndi eftirfarandi fram:
1. Símreikningar. Stefndi heldur því fram að hann hafi greitt alla reikninga til þess dags er stefnandi hafi yfirtekið reksturinn, þar á meðal símreikninga. Í því sambandi bendir stefndi á yfirlýsingu Önnu Guðmundsdóttur, fyrrverandi starfsmanns heildverslunarinnar, þar sem hún staðfesti að hafa séð um greiðslur á öllum reikningum sem henni hafi verið falið að greiða.
2. Kaffikanna. Þessum kröfulið hafnar stefndi alfarið og segist ekkert kannast við að hafa tekið kaffikönnu út úr rekstri fyrirtækisins.
3. Vörusala. Stefndi heldur því fram að þessi krafa hafi verið greidd af Önnu Guðmundsdóttur eins og allir aðrir reikningar stefnda.
4. Ábyrgðarviðgerðir. Þessum kröfulið hafnar stefndi sem röngum og ósönnuðum. Ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi þurft að leggja út fyrir ofangreindum kostnaði. Í því sambandi bendir stefndi á að umræddur pizzaofn hafi verið í ábyrgð hjá framleiðanda. Þá bendir stefndi einnig á yfirlýsingu Sigþórs Hákonarsonar, rafverktaka, sem fram hafi verið lögð fram í málinu. Þar komi fram að stefndi hafi greitt Sigþóri alla vinnu hans við ábyrgðarviðgerðir.
5. Brauðrist. Stefndi mótmælir þessum kröfulið og telur kröfu samkvæmt honum ósannaða.
Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að stefnandi hafi ekki sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni. Stefnandi hafi keypt öflugt fyrirtæki af stefnda á góðu verði og fengið síðan afslátt af umsömdu kaupverði. Stefnandi beri því fulla ábyrgð á því tjóni sem hann hafi orðið fyrir vegna innheimtuaðgerða stefnda.
Í þriðja lagi byggir stefndi á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skulbindingargildi samninga. Stefnandi og stefndi hafi gert með sér samning sem stefnanda beri að efna.
Varakröfu sína um lækkun á stefnufjárhæð byggir stefndi á því að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að staðhæfingar hans séu réttar. Lækkunarkrafan er einnig byggð á þeirri málsástæðu að lækka beri dómkröfu vegna tómlætis stefnanda við að sækja rétt sinn.
IV.
Stefnandi keypti heildverslun Péturs Sigurðssonar ehf. af stefnda. Lokagreiðslu kaupverðs að fjárhæð 1.000.000 króna skyldi greiða 9. maí 1998 og samþykkti stefnandi tryggingarvíxil til tryggingar þeirri greiðslu. Stefnandi greiddi ekki lokagreiðslu og fór svo að stefndi setti víxilinn í innheimtu. Stefnandi tók til varna og taldi hið selda gallað og að hann hefði orðið fyrir fjárútlátum vegna reikninga stefnda og annars er stefndi ætti með réttu að greiða. Af þessu tilefni veitti stefndi stefnanda afslátt að fjárhæð 500.000 krónur. Stefnandi taldi þennan afslátt ekki nægilegan en stefndi féllst ekki á frekari afslátt. Varnir komust ekki að í víxilmálinu og var stefnandi dæmdur til þess að greiða eftirstöðvar víxilsins að fjárhæð 507.500 krónur ásamt vöxtum og kostnaði. Stefnandi greiddi kröfuna við fjárnám hjá sýslumanni 30. maí 2002 með 1.110.800 krónum en kyrrsetti hana um leið.
Þetta mál höfðaði stefnandi sem skaðabótamál skv. 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991 og er skaðabótakrafan sama fjárhæð og stefnandi var dæmdur til að greiða í fyrra máli, 1.110.800 krónur.
Eins og framan er rakið veitti stefndi stefnanda 500.000 króna afslátt af kaupverði heildverslunarinnar. Sá afsláttur var ekki sérstaklega skilgreindur en fram kom þó hjá stefnda fyrir dómi að litið hafi verið til gallaðrar vöru og fleiri umkvörtunarefna stefnanda. Stefnandi telur sig hins vegar eiga rétt á frekari afslætti. Sú krafa er að fjárhæð 239.844 krónu og er sundurliðuð hér að framan. Stefndi hefur mómælt þessari kröfu. Gegn mótmælum stefnda verður talið að krafa vegna kaffikönnu, vörusölu, ábyrgðarviðgerðar og brauðristar sé órökstudd og ósönnuð. Krafa vegna rafmagnsreiknings virðist réttmæt, a.m.k. að hluta, en í heild verður ekki annað séð en að öll þessi krafa að fjárhæð 239.844 krónur rúmist innan þess afsláttar er stefndi veitti stefnanda í fyrra dómsmáli aðila er hann gaf stefnanda eftir 500.000 krónur af kaupverði heildsölunnar. Stefnandi þykir því ekki hafa sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir frekara tjóni. Er því ekki unnt að fallast á skaðabótakröfu hans. Niðurstaða málsins verður því sú að stefndi verður sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Eftir þeirri niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 250.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Pétur Sigurðsson, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Ísbergs ehf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.