Hæstiréttur íslands
Mál nr. 560/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Meðlag
- Fyrning
|
|
Þriðjudaginn 21. október 2008. |
|
Nr. 560/2008. |
A(Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Innheimtustofnun sveitarfélaga (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Meðlag. Fyrning.
Staðfest var fjárnámsgerð sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá A til tryggingar skuld vegna meðlagsgreiðslna. Var í málinu deilt um hvort tilteknar meðlagsskuldir A fyrndust á fjórum eða tíu árum. Fallist var á með héraðsdómi að með lögum nr. 62/2000, um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, hafi fyrningarfrestur slíkra krafna verið lengdur, úr fjórum árum í tíu, á þeim kröfum sem ófyrndar voru við gildistöku laganna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2008, þar sem staðfest var fjárnámsgerð sýslumannsins í Reykjavík, sem fram fór hjá sóknaraðila 4. febrúar 2008, með þeirri breytingu að hún náði til skuldar að fjárhæð 1.038.692 krónur. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.
Krafa varnaraðila er fyrir tímabilið 31. desember 1985 til 14. nóvember 2007. Ekki er reikningslegur ágreiningur á milli aðila um fjárhæð kröfu. Lög nr. 62/2000 um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, tóku gildi 26. maí 2000. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, Innheimtustofnun sveitarfélaga, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2008.
Mál þetta sem barst dóminum með bréfi dagsettu 14. mars 2008, var þingfest 11. apríl s.á., og tekið til úrskurðar 16. september 2008.
Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að fjárnámsgerð Sýslumannsins í Reykjavík, nr. 011-2008-00552, sem fram fór hjá sóknaraðila hinn 4. febrúar 2008, að kröfu varnaraðila, Innheimtustofnunar sveitarfélaga, verði ógilt/felld úr gildi. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að aðfarargerð Sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2008-00552, sem fram fór hjá sóknaraðila þann 4. febrúar 2008 að kröfu varnaraðila, verði staðfest. Þá er krafist málskostnaðar.
I
Hin umdeilda krafa varnaraðila er vegna vangoldins meðlags sóknaraðila fyrir tímabilið 31.12.1985 til 01.09.1999.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að sóknaraðila hafi með leyfisbréfi bæjarfógetans í Keflavík, Njarðvík og Grindavík til skilnaðar að borði og sæng, dags. 27. nóvember 1984, verið gert að greiða meðlag með börnum sínum, B, fæddri [...] og C, fæddum [...], frá 1. nóvember 1984 til fullnaðs 18. ára aldurs þeirra.
Barnsmóðir sóknaraðila hafi á grundvelli áðurgreinds úrskurðar leitað til Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu meðlagsins, en Tryggingastofnun hafi síðan sent kröfur vegna vangreiddra meðlaga til innheimtu hjá varnaraðila, samkvæmt lögum nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Krafa varnaraðila sé vegna vangoldins meðlags sóknaraðila fyrir tímabilið 31. desember 1985 til 14. nóvember 2007.
Líkt og sjá megi af hreyfingarlista Innheimtustofnunar yfir meðlagskröfur hafi sóknaraðili lítt hirt um að greiða skuldir sínar við stofnunina að frátöldum 7 innborgunum á tímabilinu 13. maí 1986 til 2. mars 1992, alls að fjárhæð kr. 561.715. Nánar tiltekið sé um að ræða meðlagskröfu móttekna í pósti kr. 10.000 dags. 13. maí 1986; meðlagskröfu móttekna í pósti, kr. 20.000, dags. 4. júní 1986; meðlag greitt í banka, kr. 216.000, dags. 10. febrúar 1988; meðlag greitt í banka, kr. 140.000, dags. 21. nóvember 1988; meðlag greitt í banka, kr. 25.000, dags. 30. desember 1988; meðlag greitt í banka, kr. 30.715, dags. 12. maí 1989 og meðlag greitt hjá gjaldkera, kr. 120.000, dags. 2. mars 1992. Frá því tímamarki hafi ekki orðið um frekari greiðslur af hálfu sóknaraðila.
Af útprentun sýslumannsins í Reykjavík yfir mál sóknaraðila megi sjá að frá árinu 1994 hafa verið gerð hjá honum alls 10 árangurslaus fjárnám, þar af 3 þar sem varnaraðili sé gerðarbeiðandi. Hið fyrsta hafi farið fram 3. mars 1994 en aðfararbeiðnin hafi borist sýslumanninum í Reykjavík 11. janúar 1994. Varnaraðili hafi aftur farið fram á fjárnám hjá sóknaraðila með aðfararbeiðni sem hafi borist sýslumanninum í Reykjavík 6. júní 2000 og farið fram 28. maí sama ár. Hið umdeilda fjárnám hafi farið fram hjá sóknaraðila 4. febrúar 2008 en aðfararbeiðni hafi borist sýslumanninum í Reykjavík 11. janúar 2008.
Samkvæmt aðfararbeiðninni sem barst sýslumanninum 11. janúar 2008 krafðist varnaraðili þess að fjárnám yrði gert hjá sóknaraðila fyrir skuld að fjárhæð samtals kr. 3.535.055 auk áfallandi dráttarvaxta, samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987, alls kostnaðar af framkvæmd gerðarinnar og eftirfarandi fullnustugerðum ef til þeirra kemur.
Sóknaraðili var sjálfur mættur við aðfarargerðina 4. febrúar 2008 og mótmælti kröfunni á þeim grunni að hluti hennar væri fyrndur. Fulltrúi sýslumanns hafnaði mótmælum hans en sóknaraðili kvaðst fara með málið fyrir héraðsdóm. Sóknaraðili varð ekki við áskorun um að greiða kröfuna. Hann kvaðst engar eignir eiga. Var fjárnáminu lokið án árangurs að kröfu varnaraðila með vísan til 8. kafla laga nr. 90/1989.
II
Sóknaraðili byggir á að meðlagsskyldu hans hafi lokið og fyrningartími byrjað að líða hinn 21.09.1997.
Af framlögðum gögnum verði ekki ráðið með óyggjandi hætti hvort eða hvenær fyrningartími hafi verið rofinn.
Að hin umkrafða skuld Innheimtustofnunar sé fallin niður fyrir fyrningu m.a. með vísan til laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905.
Að lög nr. 62/2000 um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga nr. 54/1971, með síðari breytingum (ný málsgrein við 5. gr. laganna), hafi ekki þýðingu við úrlausn þessa máls.
Greind viðbótarmálsgrein hljóði svo:
Kröfur til endurgreiðslu barnsmeðlaga og sérstakra framlaga skv. 15. gr. barnalaga, nr. 20/1992, sem greidd eru fyrir milligöngu opinberra aðila og endurgreiða ber að lögum fyrnast á tíu árum.
Í athugasemdum er fylgdi frumvarpi að lögum nr. 62/2000, segi m.a. kröfur til endurgreiðslu barnsmeðlaga og sérstakra framlaga skv. 15. gr. barnalaga, nr. 20/1992, sem greidd eru fyrir milligöngu opinberra aðila fyrnist framvegis á 10 árum.
Viðbótarákvæðið hafi tekið gildi 26. maí 2000 þ.e. vegna krafna sem stofnað var til eftir þann tíma. Ákvæðið gildi ekki afturvirkt.
III
Varnaraðili byggir á að ekki standi efni til þess að taka til greina mótmæli sóknaraðila við aðfarargerðina.
Krafan sem um sé deilt njóti lögtaksréttar í eignum föður samkvæmt 2. tl. 7. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga.
Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905, sem hafi verið gildandi lög um sakarefnið á þeim tíma sem um sé deilt, fyrnist kröfur er lögtaksrétt hafi á 4 árum. Þær kröfur sem séu andlag hinnar umdeildu aðfarargerðar í málinu hafi því fjögurra ára fyrningarfrest. Þessi regla sé staðfest í dómi Hæstaréttar nr. 254/1999.
Með lögum nr. 62/2000 um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga nr. 54/1971, með síðari breytingum, hafi nýrri málsgrein, 10. mgr., verið bætt við 5. gr. laganna. Samkvæmt 10. mgr. 5. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga fyrnist kröfur til endurgreiðslu barnsmeðlaga og sérstakra framlaga samkvæmt barnalögum, sem greidd eru fyrir milligöngu opinberra aðila og endurgreiða ber að lögum, nú á 10 árum. Breytingarlög þessi hafi tekið gildi 26. maí 2000. Sóknaraðili haldi því fram að þau hafi ekki þýðingu við úrlausn þessa máls enda verði lögum ekki beitt afturvirkt. Af hálfu varnaraðila sé þessari staðhæfingu mótmælt og byggt á því að eftir gildistöku laganna hafi allar kröfur stefnda vegna barnameðlags sem féllu til eftir 26. maí 1990 fengið 10 ára fyrningarfrest.
Samkvæmt fræðikenningum sé það viðurkennt að ef fyrningarfrestur sé lengdur með nýjum lögum þá nái hinn nýi fyrningarfrestur einnig til krafna sem stofnuðust fyrir gildistöku hinna nýju laga.
Samhliða framangreindu sé á því byggt að sóknaraðili hafi slitið fyrningarfresti þeirra krafna sem séu andlag hinnar umdeildu aðfarargerðar með tvennum hætti. Í fyrsta lagi beri að líta á greiðslur sóknaraðila til varnaraðila á tímabilinu 13. maí 1986 til 2. mars 1992 sem viðurkenningu sóknaraðila á skuld sinni, samkvæmt 6. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Í annan stað hafi varnaraðili í samræmi við 52. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, slitið fyrningarfrest krafnanna með afhendingu aðfararbeiðna til héraðsdóms.
Sóknaraðili byggi á að meðlagsskyldu hans hafi lokið 21.09.1997 og fyrningartími byrjað að líða á því tímamarki. Líkt og áður sé greint hafi sóknaraðila verið gert að greiða meðlag með börnum sínum frá 1. nóvember 1984 til fullnaðs 18 ára aldurs þeirra. Varnaraðili mótmæli áðurgreindri staðhæfingu sóknaraðila enda hafi 18 ára afmælisdag C borið upp þann 21.09.1999 og því ljóst að meðlagsskyldu sóknaraðila gat ekki lokið fyrr en 1. september 1999.
Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga sé barnsföður skylt að endurgreiða stofnuninni meðlag með barni sínu þegar hún krefst þess. Í 1. mgr. 5. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905 komi fram að fyrningarfrestur teljist frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Því beri að telja upphaf fyrningarfrests þeirra krafna sem um sé deilt vera á því tímamarki er Innheimtustofnun sannanlega krafði sóknaraðila um greiðslu.
Verði ekki fallist á að allar kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila séu ófyrndar sé gerð krafa um að fjárnámið verði staðfest um þann hluta krafna varnaraðila sem teljast ófyrndar að mati dómsins.
IV
Í máli þessu er um það deilt hvort krafa varnaraðila, sem hið umdeilda fjárnám var gert vegna hjá sóknaraðila hinn 4. febrúar 2008, hafi þá verið fyrnd að öllu leyti eða hluta.
Með lögum nr. 62/2000 um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga nr. 54/1971, með síðari breytingum var nýrri málsgrein, 10. mgr. bætt við 5. gr. laganna. Tilvitnuð 10. málsgrein kveður á um að kröfur til endurgreiðslu barnsmeðlaga og sérstakra framlaga samkvæmt 15. gr. barnalaga, nr. 20/1992, sem greidd eru fyrir milligöngu opinberra aðila og endurgreiða ber að lögum, fyrnast á 10 árum.
Fram að gildistöku umrædds ákvæðis gilti ákvæði 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905 um fyrningu barnsmeðlaga, en samkvæmt ákvæðinu fyrnast kröfur sem lögtaksrétt hafa á 4 árum.
Lög nr. 62/2000 tóku gildi 19. maí 2000. Var fyrningarfrestur barnsmeðlaga með þeim eins og áður greinir lengdur úr 4 árum í 10. Greinir aðila á um hvort lögin gildi um barnsmeðlög þau sem sóknaraðili er krafinn um. Heldur sóknaraðili því fram að lögin gildi ekki um kröfur sem stofnast hafi fyrir gildistöku laganna og vísar því til stuðnings m.a. til ummæla í greinargerð með lögunum.
Í málflutningi lögmanns varnaraðila kom fram að varnaraðili byggi á að 10 ára fyrningarfresturinn gildi um þær kröfur á hendur sóknaraðila vegna barnsmeðlaga sem ófyrndar voru við gildistöku laga 62/2000. Þær kröfur sem stofnast hafa eftir 19. maí 1996 lúti því 10 ára fyrningarreglu þeirra.
Það er álit dómsins að ef fyrningarfrestur er lengdur með lögum, verði þeim lögum beitt um fyrningu, sem hafin er, en ekki er lokið við gildistöku nýrra laga. Þannig gildi hinn nýi fyrningarfrestur um kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila sem ófyrndar voru við gildistöku laganna 19. maí 2000,
þ.e. kröfur sem féllu í gjalddaga eftir 19. maí 1996.
Fyrningu krafna varnaraðila var slitið með aðfararbeiðni sem varnaraðili beindi til sýslumanns 6. júní 2000, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Samkvæmt framanröktu er það niðurstaða dómsins barnsmeðlög sem fallin voru í gjalddaga 19. maí 1996 séu fyrnd.
Verður því fjárnámsgerð Sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2008-00552, sem fram fór hjá sóknaraðila hinn 4. febrúar 2008, að kröfu varnaraðila staðfest með þeirri breytingu að fjárnámið nái til kröfu að fjárhæð kr. 1.038.692 sem sundurliðast þannig: höfuðstóll kr. 474.205, dráttarvextir kr. 549.937, birtingarkostnaður 1.850 og aðfarargjald í ríkissjóð kr. 12.700.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Fjárnámsgerð Sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2008-00552, sem fram fór hjá sóknaraðila hinn 4. febrúar 2008, er staðfest með þeirri breytingu að hún nái til skuldar að fjárhæð 1.038.692 krónur.
Málskostnaður fellur niður.