Hæstiréttur íslands
Mál nr. 473/2007
Lykilorð
- Fasteignakaup
- Fyrning
- Dagsektir
- Málskostnaður
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 17. apríl 2008. |
|
Nr. 473/2007. |
Byggingafélagið Sólhof ehf. (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Sigurlaugu R. Sævarsdóttur (Kjartan Reynir Ólafsson hrl.) |
Fasteignakaup. Fyrning. Dagsektir. Málskostnaður. Gjafsókn.
S krafðist þess að BS ehf. yrði gert að gefa út afsal til hennar á íbúð að viðlögðum dagsektum en hún hafði fest kaup á íbúðinni í desember 1994. BS ehf. mótmælti kröfunni aðallega þar sem kaupunum hefði verið rift af hálfu félagsins árið 1998. Þá taldi félagið að S hefði ekki greitt kaupverð íbúðarinnar að fullu. Í héraðsdómi var talið að BS ehf. hefði í verki fallið frá riftunarkröfu sinni og var sýknukrafa á þeim grundvelli hafnað. Þá þótti S hafa sýnt fram á að hún hefði að fullu efnt kaupsamninginn með nánar tilteknum hætti að frátalinni greiðslu á hluta útborgunar ásamt greiðslu sem samkvæmt kaupsamningi átti að greiða með skuldabréfi að fjárhæð 115.000 krónur. Ekki var talið að sýnt hefði verið fram á að S ætti rétt til bóta eða afsláttar. Hins vegar var fallist á að krafa BS ehf. um greiðslu eftirstöðva kaupverðsins væri fyrnd og félagið dæmt til að gefa út afsal á íbúðinni til S að viðlögðum dagsektum. Fyrir Hæstarétti krafðist BS ehf. að málinu yrði vísað frá héraðsdómi þar sem fyrrum eiginmaður S hefði þurft að eiga aðild að málinu samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991. Ekki þótti efni til frávísunar á þessum grundvelli og var héraðsdómurinn staðfestur með vísan til forsendna. Við ákvörðun málskostnaðar var tekið tillit til þess að áfrýjun málsins var talin tilefnislaus.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 18. júlí 2007. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 29. ágúst sama ár og var héraðsdómi áfrýjað öðru sinni 14. september 2007. Áfrýjandi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefndu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt fyrir réttinum.
Stefna til héraðsdóms var birt áfrýjanda 1. mars 2006.
Krafa áfrýjanda um frávísun málsins frá héraðsdómi er byggð á því að fyrrverandi eiginmaður stefndu, Einar Bragi Ísleifsson, eigi samaðild með henni að dómkröfum hennar og því beri samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að vísa kröfunum hennar frá héraðsdómi. Þetta er atriði sem dómurinn hugar að án kröfu. Engin efni eru til frávísunar málsins á þessum grundvelli.
Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur, þó þannig að upphafsdagur dagsekta ákveðst 15 dögum frá dómi Hæstaréttar.
Áfrýjun héraðsdóms er tilefnislaus. Verður með vísan til c. liðar 1. mgr. 131. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 tekið tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar. Málskostnaður og gjafsóknarkostnaður ákveðst eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður að öðru leyti en því að upphafsdagur dagsekta er 15 dögum frá uppsögu dóms þessa.
Áfrýjandi, Byggingafélagið Sólhof ehf., greiði 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefndu, Sigurlaugar R. Sævarsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 700.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. maí 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. apríl sl., var höfðað 1. mars 2006.
Stefnandi er Sigurlaug R. Sævarsdóttir, Lækjarsmára 13, Kópavogi.
Stefndi er Sólhof ehf., Hlégerði 7, Kópavogi.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til útgáfu afsal til stefnanda, og afhenda honum, fyrir eignarhluta 0206 (áður 0203) í fasteigninni nr. 13 við Lækjarsmára í Kópavogi, ásamt öllu því sem eignarhlutanum fylgir og fylgja ber, að engu undanskildu, að viðlögðum dagsektum, 10.000 krónum á dag, að 15 dögum liðnum frá uppkvaðningu dóms, aðallega án frekari greiðslna til stefnda, en til vara gegn greiðslu á 654.602 krónum, án vaxta, eða lægri fjárhæðar að mati réttarins. Stefnandi krefst málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.
I.
Hinn 27. desember 1994 var gerður kaupsamningur á milli stefnda sem seljanda og stefnanda sem kaupanda um eignarhluta seljanda í fasteigninni nr. 13 við Lækjarsmára í Kópavogi, sem þá var í smíðum. Um var að ræða fjögurra herbergja íbúð, ásamt bílageymslu, svo og tilheyrandi sameign og lóðarréttindum, sem eru sameiginleg með húsunum nr. 1-31 við Lækjarsmára í Kópavogi. Eignarhlutinn var enn á byggingarstigi og var hann seldur í ástandi sem lýst er í kaupsamningi og reifað í stefnu. Er óþarfi að tíunda þá skilalýsingu sem ekki sætir ágreiningi í máli þessu.
Í kaupsamningi var kveðið á um að íbúðin yrði tilbúin til afhendingar 5. febrúar 1995, lóð yrði grófjöfnuð og frágengin eigi síðar en maí- júní 1995. Þá yrðu bílastæði malbikuð í sept-okt 1995.
Í kaupsamningi voru ákvæði um ábyrgð seljanda og vanefndir kaupanda. Með yfirlýsingu sem aðilar undirrituðu 20. apríl 1995 var kaflinn í kaupsamningi sem fjallaði um vanefndir kaupanda, kafli V, felldur niður, og tekið fram að um vanefndir af hálfu kaupanda og seljanda gildi almennar reglur.
Umsamið kaupverð var 8.700.000 krónur og skyldi það greiðast svo:
|
Útborgun við samning |
kr. 1.450.000 |
|
Greitt með hluta í íbúð |
kr. 2.935.000 |
|
Greitt með húsbréfum |
kr. 4.200.000 |
|
Með skuldabréfi til tveggja ára Með húsbréfavöxtum |
kr. 115.000 |
|
Samtals |
kr. 8.700.000 |
Afsal skyldi gefa út þegar kaupandi hefði innt af hendi allar framangreindar greiðslur.
Stefnandi kveður allar framkvæmdir stefnda, hvort heldur sem voru byggingaframkvæmdir, frágangur lóðar eða eða malbikun bílastæða, hafa dregist úr hófi.
Stefnandi kveðst hafa greitt inná kaupsamninginn við stefnda með hluta í íbúð sinni að Efstahjalla 11 í Kópavogi, hinn 27. desember 1994, kr. 2.935.000 krónur og hinn 7. mars 1995, 800.000 krónur.
Í framangreindri yfirlýsingu aðila frá 20. apríl 1995, sem varðar íbúðina að Lækjarsmára 13, samdist aðilum svo um, að afsal vegna Efstahjalla 11 í Kópavogi, skyldi ekki gefið út fyrr en seljandi hefði að fullu staðið við allar skuldbindingar sínar og skilað íbúðinni og sameigninni í umsömdu ástandi. Var jafnframt samið um að seljandi eignarinnar skyldi sjá um að aflétta öllum veðum sem á henni hvíldu enda væru þau kaupanda með öllu óviðkomandi. Samkvæmt veðbókarvottorði dagsettu 24. apríl 1995 hvíldu meðal annars á íbúð stefnanda að Lækjasmára 13 veð að nafnverði 16.000.000 krónur þar sem veðhafi var Steypustöðin hf. Þau veð hvíldu jafnframt á fleiri í búðum.
Heilbrigðiseftirlit Kópavogs skoðaði eignarhluta stefnanda í Lækjarsmára 13 þann 21. desember 1995. Var þar greint frá ýmsu sem væri ábótavant við eignina.
Þann 8. janúar 1996 gaf Lífeyrissjóður rafiðnaðarmanna út þá yfirlýsingu að sjóðurinn ábyrgðist að aflétta öllum áhvílandi veðum á eignarhluta íbúðar stefnanda að Lækjarsmára 13, sem námu upphaflega 17.142.461 krónum og voru á 1.-4. veðrétti, með eftirtöldum skilyrðum:
„Ábyrgð þessi verður því aðeins virk að lífeyrissjóði rafiðnaðarmanna verði framseld fasteignaveðbréf, samtals að fjárhæð kr. 4.200.000 [ ..] sem hvíla skulu á 1. og 2. veðrétti ofangreindrar eignar.
Það er einnig skilyrði fyrir ábyrgð lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna að hann fái framseldan til sín allan rétt Sólhofs hf. í kaupsamningi þess um Efstahjalla 11, Kópavogi, 2. hæð fyrir miðju við Sigurlaugu Sævarsdóttur [ .], þó með fyrirvara um að Sólhof hf. hafi efnt skyldur sínar vegna sölu á Lækjarsmára 13, Kópavogi eignarhluta 0203, þ. e. með fyrirvara um rétt Sigurlaugar vegna kaupa á ofangreindum eignarhluta í Lækjarsmára.“
Stefndi áritaði yfirlýsinguna sem samþykkur framsali Sólhofs ehf. á réttindum samkvæmt kaupsamningi um Efstahjalla 11 Kópavogi, eign á 2. hæð fyrir miðju.
Með símskeyti dagsettu 10. apríl 1996 ítrekaði þáverandi lögmaður stefnanda áskorun til stefndu um að efna kaupsamning aðila og bæta úr göllum á íbúðinni og aflétta áhvílandi lánum.
Þann 20. febrúar 1997 tilkynnti stefnandi Lífeyrissjóði rafiðnaðarmanna, að henni hafi borist til eyrna upplýsingar um að tryggingarbréf, sem hvíldu á eign hennar, hafi borist til aflýsingar og því væri ekkert því í veginum af hennar hálfu að ljúka málinu með afhendingu húsbréfs, eins og um hafi verið samið. Sama dag kveður stefnandi Ólafi Garðari Þórðarsyni, sem umboðsmanni stefnda, hafa verið sent skeyti sama efnis.
II.
Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hún kvað aðila hafa hist 27. desember 1994 og undirritað kaupsamning um íbúðina að Lækjarsmára 13. Hún hefði verið í mikilli pressu og verið að fara til útlanda daginn eftir. Á þessum tímapunkti hefði 16 milljón króna veð hvílt á íbúðinni og hefði því verið ákveðið að útborgunargreiðsla að fjárhæð 1.450.000 krónur yrði ekki greidd fyrr en veðinu hefði verið aflétt, en það hefði átt að gera daginn eftir. Hún hefði látið eiginmann sinn Einar Ísleifsson fá ávísun að fjárhæð 1.450.000 krónur til að greiða útborgunargreiðsluna, en er hún kom aftur til landsins mánuði síðar hafi ekki verið búið að aflétta veðinu.
Stefnandi lýsti fyrir dóminum því sem síðar gerðist og var sú lýsing mjög í samræmi við málavaxtalýsingu í stefnu
Stefnandi kvað ekkert hafa gerst og hefði afhending íbúðarinnar dregist. Allt hefði verið ófrágengið og hefði tekið mörg ár að afhenda fasteignina í umsömdu ástandi. Bílageymsluna sem fylgdi íbúðinni hefði hún fyrst fengið afhenta í umsömdu ástandi 6 árum eftir kaupin. Hún kvað stefnda hafa fengið hennar hlut úr fasteigninni að Efstahjalla í Kópavogi, 2.935.000 krónur í janúar 1996. Stefndi hefði framselt Lífeyrissjóði Samiðnar rétti til þeirrar greiðslu.
Stefnandi kvaðst hafa flutt í íbúðina að Lækjarsmára 13 í mars 1995 og hefði þá allt verið hrátt og óklárað og hún þurft að flytja aftur út. Hún hefði svo flust aftur inn með börn sín 15. apríl 1995.
Fyrrverandi eiginmaður stefnanda, Einar Bragi Ísleifsson, bar vitni fyrir dóminum. Hann kvaðst hafa aðstoðað stefnanda við kaupin á Lækjarsmára 13 á sínum tíma. Þau hefðu verið að skilja og lokið málum þannig að stefnandi keypti umrædda íbúð af stefnda og hafi eignarhluti stefnanda í íbúðinni að Efstahjalla átt að ganga upp í kaupin. Hann hefði síðan átt að eiga þá íbúð þar til stefndi keypti hana.
Hann kvað stefnanda ekki hafa getað greitt útborgunargreiðslu þar sem á íbúð hvíldi 17 milljón króna veð. Stefndi hafi lofað að aflétta veðinu en ekkert hefði gerst. Afhenda hefði átt íbúðina 5. febrúar 1995 en það hefði ekki staðist. Stefndi hefði sífellt verið að knýja á um greiðslu útborgunarinnar en ekki hefði verið hægt að greiða vegna veðanna. Í mars 1995 hefðu þeu greitt 800.000 krónur af útborgnunargreiðslunni. Eftir afhendingu íbúðar hefði strax komið fram vankantar. Stigagangur hefði verið ókláraðaur, handrið vantað á svalir ofl. Þá hafi bílageymsla ekki verið afhent fyrri en árið 2001.
Hann kvað samkomulag hafa verið gert við Lífeyrissjóð rafiðnaðarmanna um að sjóðurinn aflétti veðum á Lækjarsmára gegn því að fá framseld húsbréf vegna Lækjasmárans og hlut stefnanda, 2.900.000 krónur í Efstahjallaíbúðinni. Þessum réttindum hafi stefndi afsalað til sjóðsins. Samkvæmt þessu hafi stefnandi verið búinn að greiða stefnda að þessu leyti. Vitnið kvaðst síðan hafa keypt íbúðina aftur af lífeyrissjóðum og kvað hann það stefnda með öllu óviðkomandi á hvaða verði hann keypti eignarhlutann. Hann kvaðst hafa fengið pappíra senda frá lögmanni stefnda til undirritunar í framhaldi af viðræðum stefnanda við lögmann stefnda um lokauppgjör. Samkvæmt þessum pappírum hafi hann átt að gera nýjan kaupsamning og undirrita um íbúðina að Efstahjalla þar sem hann afsalaði þeirri eign til stefnda með ákveðinni útborgun. Með því að samþykkja þetta hefði hann verið að selja sömu eign tvisvar og lífeyrissjóðurinn eignast endurkröfu á hann. Hann kvaðst hafa keypt eignina af lífeyrissjóðnum haustið 1998. Hann hefði orðið hræddur er hann fékk umrædda pappíra frá lögmanni stefnda. Hann hefði ekki treyst stefnda og hætt að skipta sér af þessu máli.
Hann kvaðst hafa verið einn þinglýstur eigandi íbúðarinnar að Efstahjalla, en stefnandi hafi þó átt eign að hálfu samkvæmt hjúskaparlögum. Samkvæmt kaupsamningi um Lækjarsmára hafi hlutur stefnanda í Efstahjallaíbúðinni, sem var meiri en 50%, átt að ganga til stefnda. Hlutur stefnanda hafi verið 2.935.000 krónur. Í samningunum hafi íbúðin að Efstahjalla verið metin á 6.400.000 krónur þann 27. desember 1994. Þá hafi 1.600.000 krónur hvílt á íbúðinni. Stefndi hafi því átt að borga honum 1.850.000 krónur fyrir hans hluta en hlutur stefnanda, 2.935.000 krónur að ganga til stefnda upp í kaup hennar á Lækjarsmáranum. Aldrei hefði verið rætt um að hann greiddi leigu fyrir íbúðina að Efstahjalla. Þá hefði aldrei verið rætt um eða gengið út frá því að stefnandi yrði þinglýstur eigandi íbúðar á móti honum. Hann kvaðst hafa keypt eignarhluta stefnanda af lífeyrissjóðnum enn neitaði að upplýsa kaupverðið.
Magnús Erlingsson lögmaður gaf skýrslu vitnis fyrir dómi.
Lögmaður stefnanda skoraði á fyrirsvarsmann stefnda að gefa skýrslu fyrir dómi. Við því varð hann ekki.
III.
Stefnandi byggir á því að óumdeilt sé að umsamið kaupverð milli aðila á framangreindum eignarhluta í fasteigninni nr. 13 við Lækjarsmára í Kópavogi, samkvæmt kaupsamningi aðila hafi verið 8.700.000 krónur.
Stefnandi hafi greitt til stefnda 2.935.000 krónur með eignarhluta sínum í fasteigninni nr. 11 við Efstahjalla í Kópavogi samkvæmt kaupsamningi dagsettum 27. desember 1994.
Stefnandi hafi greitt stefnda 800.000 krónur þann 7. mars 1995.
Stefnandi hafi greitt með framsali fasteignaveðbréfa til Lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna, vegna stefnda, samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu dagsettri 8. janúar 1996, 3.041.767 krónur og vegna ráðstöfunar Lífeyrissjóðsins Lífiðnar til stefnda, af andvirði húsbréfa frá 25. mars 1997, 1.268.631 krónur.
Eftirstandandi samkvæmt umsömdu kaupsamningsverði aðila, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 27. desember 1994, muni því hafa verið 654.602 krónur, sem stefnandi hafi haldið að sér höndum með að greiða vegna þeirra verulegu vanefnda, sem urðu á byggingarframkvæmdum stefnda við íbúð þá, ásamt öllu tilheyrandi, sem stefnandi hafði keypt af stefnda í fjöleignarhúsinu nr. 13 við Lækjarsmára í Kópavogi. Stefnandi hafi litið svo á að þá fjárhæð beri að skoða sem skaðabætur til hans vegna vanefnda stefnda, afhendingardráttar þess og mikilla óþæginda fyrir stefnanda, eða afslátt af kaupverði. Ef ekki, þá sé eftirstandandi krafa á hendur stefnanda fyrnd.
Hinn 7. október 1997 hafi lögmaður stefnda krafið stefnanda um greiðslu á 5.931.841 krónum, sem ekki hafði við nein rök að styðjast. Hinn 3. desember 2002 hafi Jón Egilsson hdl. sent stefnanda kröfubréf fyrir hönd stefnda, sem ekki hafi verið á rökum reist og hafi lögmaður stefnanda svarað því bréfi í desember 2002. Lögmaður stefnda hafi aftur sent stefnanda kröfubréf fyrir hönd stfnda þann 6. júní 2003. Því bréfi hafi lögmaður stefnanda svarað með bréfi dagsettu 24. júní 2003 með áskorun um útgáfu afsals, sem ekki hafi gengið eftir. Loks hafi lögmaður stefnanda sent stefnda ábyrgðarbréf hinn 27. maí 2005 með kröfu um útgáfu afsals fyrir eignarhluta stefnanda í Lækjarsmára 13. Því hafi í engu verið sinnt frekar en áður og hefði málssókn því verið nauðsynleg.
Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi vanefnt allar kaupsamningsgreiðslur. Af kaupsamningsgreiðslu að fjárhæð 1.450.000 krónur hafi stefnandi einungis greitt 800.000 krónur og það fyrst 7. mars 1995. Stefnandi hafi átt að greiða 2.935.000 krónur með andvirði eignarhluta stefnanda í íbúð að Efstahjalla 11 í Kópavogi, en þá eign hafi stefnandi átt með fyrrum maka sínum, Einari B. Ísleifssyni. Stefnandi hafi aldrei afhent þessa greiðslu, þ.e. eignarhlutann eða verðmæti hans. Stefnandi hafi aldrei gefið út afsal til stefnda, þrátt fyrir aðkomu að kaupsamningnum, en þeim kaupsamningi hafi aldrei verið þinglýst og hafi hann verið með öllu vanefndur af stefnanda. Þá hafi stefnandi ekki verið þinglýstur eigandi að Efstahjalla 11. Stefnandi hafi átt að gefa út veðskuldabréf að fjárhæð 115.000 krónur. Það bréf hafi aldrei verið gefið út eða andvirði þess greitt.
Samkvæmt kaupsamningi hafi stefnandi skuldbundið sig til þess að greiða hluta kaupverðs með húsbréfum að upphæð 4.200.000 krónur. Stefndi hafi veitt stefnanda allar veðheimildir. Stefnandi hafi gefið út skuldabréf til Íbúðalánasjóðs að fjárhæð 3.072.492 krónur þann 1. september 1996 og hafi andvirði þess, 3.041.767 krónur, gengið til stefnda. Stefnandi hafi ekki afhent kaupsamninginn til þinglýsingar fyrr en eftir mikla eftirgangsmuni þann 30. júní 1995. Stefnandi hafi gefið út skuldabréf 10. mars 1997 og fengið sjálf andvirði þess. Við sölu húsbréfa hjá Lífiðn hafi stefnandi haldið eftir 1.288.052 krónum en greitt Lífeyrissjóði rafiðnaðarmanna inn á meinta skuld stefnda 1.050.664 krónur, en ekki 1.268.631 krónur eins og tilgreint sé í stefnu.
Stefnandi hafi ekki sinnt ítrekuðum kröfum stefnda um að fullgera kaupin og efna samningsskyldur sínar. Það hafi leitt til þess að stefndi rifti kaupi 23. júlí 1998. Stefndi hafi þegar verið búinn að efna allar samningsskyldur sínar árið 1996. Í lok október 1997 hafi skuld stefnanda vegna kaupanna numið um 5.000.000 króna auk vaxta og kostnaðar.
Á grundvelli yfirlýsingar um riftun kaupsamnings hafi stefndi boðið stefnanda að afhenda eignina og samþykkt að yfirtaka í uppgjöri áhvílandi veðskuldir, þ.e. lán við Íbúðalánasjóð, sem stefnandi hafði stofnað til. Þá hafi stefndi boðið stefnanda að ganga til uppgjörs og með þeim hætti að endurvekja kaupin en án þess að því boði væri svarað.
Stefnandi sé stefnda með öllu óvandabundinn og hafi stefnandi engar forsendur að ætlast til eða vænta þess að stefndi gefi henni eða afhendi veruleg verðmæti án þess að endurgjald komi í staðinn.
Stefndi mótmælir einhliða uppgjöri stefnda á yfirliti þar sem stefnandi telji sig skulda 654.602 krónur sem og því að stefnandi eigi rétt til afsláttar og/eða skaðabóta eða að kröfur stefnda hafi fyrnst aða fallið niður með einhverjum hætti.
Stefnandi mótmælir öllum kröfum stefnanda um afsal og/eða dagsektir, með vísan til þess að kaupsamningi var rift, en til vara, að samkvæmt ákvæðum kaupsamnings skuli afsal fara fram þegar kaupandi hafi að fullu greitt kaupverð samkvæmt samningi. Samningur aðila geymi ekki ákvæði um févíti eða dagsektir.
Stefndi kveður tómlæti stefnanda á að halda ætluðum rétti til laga, undirstrikar að stefnanda hafi verið kunnugt um að stefndi hafði rift kaupsamningi og að hún ætti ekki lögvarin réttindi til eignarinnar.
Niðurstaða.
Í munnlegum málflutningi var þess aðallega krafist af hálfu stefnda að málinu yrði vísað frá dómi. Þeirri kröfu var mótmælt af hálfu stefnanda. Af hálfu stefnda var ekki gerð krafa um frávísun málsins í greinargerð. Krafa stefnda um frávísun var því of seint fram komin og þá hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu stefnda að eitthvað sérstakt hafi komið fram við aðalmeðferð málsins sem réttlætti frávísunarkröfu á því stigi málsins. Samkvæmt þessu ber að hafna frávísunarköfu stefnda.
Af hálfu stefnda er sýknukrafa aðallega byggð því að stefndi hafi rift kaupin við stefnanda um íbúðina að Lækjarsmára 13 í Kópavogi. Vísar stefndi í því sambandi til bréfs fyrirsvarsmanns stefnda, Ólafs G. Þórðarsonar, til stefnanda, dagsetts 23. júní 1998, þar sem segir: „Hér með tilkynni ég riftun kaupsamnings, dags. 27. desember 1994 um íbúðina 0203 að Lækjasmára 13 í Kópavogi. Seljandi: Sólhof h.f. Ástæður riftunar eru verulegar vanefndir á kaupsamningi.“ Fyrir liggur í málinu að riftun stefnda var mótmælt af hálfu stefnanda með símskeyti 30. júní 1998. Stefndi fylgdi riftuninni ekki eftir en ítrekaði kröfur um efndir kaupsamnings eins og hann hafði gert með bréfi lögmanns síns dagsettu 7. október 1997, en með bréfi Jóns Egilssonar hdl. fyrir hönd stefnda, dagsettu 3. desember 2002 var stefnandi krafin um efndir kaupsamningsins. Því bréfi var mótmælt með bréfi lögmanns stefnanda. Með bréfi lögmanns stefnda dagsettu 6. júní 2003 er stefnandi enn á ný krafin um efndir kaupsamningsins. Þeirri kröfu var mótmælt af hálfu stefnanda.
Að ofangreindu virtu má ljóst vera að stefndi hefur í verki fallið frá riftunarkröfu sinni, bæði með því að fela lögmönnum sínum eftir riftunaryfirlýsinguna að krefjast efnda á kaupsamningi aðila svo og með því að fylgja riftunarkröfunni ekki eftir. Verður sýknukrafa stefnda á þeim grundvelli að kaupum hefði verið rift ekki tekin til greina.
Af hálfu stefnanda hefur verið sýnt fram á að stefnandi hefur að fullu efnt kaupsamninginn að því er varðar greiðslu hennar með hluta úr íbúð að Efstahjalla 11 í Kópavogi, 2.935.000 krónur og með greiðslu húsbréfa 4.200.000 krónur. Fyrir liggur í málinu að stefndi framseldi Lífeyrissjóði rafiðnaðarmanna þessar greiðslu í tengslum við afléttingu veða af íbúðinni að Lækjarsmára 13. Þykir stefnandi hafa fullnægt greiðsluskyldum sínum hvað þessa liði varðar.
Af útborgunargreiðslu 1.450.000 krónum greiddi stefnandi 800.000 krónur 7. mars 1995.
Stefnandi byggir á því að honum hafi verið heimilt að halda eftirstöðvunum eftir og taka þær upp í bætur vegna afhendingardráttar íbúðar og annarra óþæginda eða að líta beri á fjárhæðina sem afslátt af kaupverði.
Eins og málið hefur verið lagt fyrir dóminn þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að hann eigi rétt til bóta eða rétt til afsláttar að þessu leyti. Er þessari málsástæðu stefnanda því hafnað.
Þá byggir stefnandi á því að eftirstöðvar kaupverðs séu fyrndar og beri því að dæma stefnda til að gefa út afsal án nokkurrar greiðslu en til vara verði ekki á það fallist að kröfur sú fyrndar að stefndi verði dæmdur til útgáfu afsals gegn greiðslu á 654.602 krónum án vaxta.
Kröfur samkvæmt kaupsamningi fyrnast á 10 árum samkvæmt 2. tl. 4. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Samkvæmt ákvæðum kaupsamnings var gjalddagi útborgunargreiðslu við undirritun kaupsamnings 27. desember 1994. Þann dag byrjaði fyrningarfrestur kröfunnar að líða. Stefnandi greiddi 800.000 krónur inn á kröfuna 7. mars 1995 og hófst þá nýr fyrningarfrestur. Eftir þann dag hefur fyrningarfrestur ekki verið rofinn og samkvæmt því teljast eftirstöðvar kaupverðs fyrndar. Á hið sama við um greiðslu samkvæmt skuldabréfi að fjárhæð 115.000 krónur. Ekki er fallist á þau sjónarmið stefnda, sem fram komu í munnlegum málflutningi, að verði eftirstöðvar kaupverðs taldar fyrndar þá sé krafa stefnanda um afsal einnig fyrnd.
Samkvæmt framangreindu þykir stefnandi hafa efnt kaupsamning aðila fyrir sitt leyti og á stefnandi því rétt á afsali og er stefndi því dæmdur til gefa út afsal til stefnanda og afhenda henni, fyrir eignarhluta 0206 (áður 0203) í fasteigninni nr. 13 við Lækjarsmára í Kópavogi, ásamt öllu því sem eignarhlutanum fylgir og fylgja ber, að engu undanskildu, að viðlögðum dagsektum, sem þykja hæfilega ákveðnar 5.000 krónur á dag, að 15 dögum liðnum frá uppsögu dómsins..
Með hliðsjón af atvikum og þrátt fyrir niðurstöðu málsins þykir rétt að ákveða að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Stefnanda hefur verið veitt gjafsókn í máli þessu og greiðist allur gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 400.000 krónur, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Kjartans Reynis Ólafssonar hrl., 391.700 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti greiðist úr ríkissjóði.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóm þennan upp.
Dómsorð:
Stefnda, Byggingafélaginu Sólhofi hf., ber að gefa út afsal til stefnanda, Sigurlaugar R. Sævarsdóttur, og afhenda henni, fyrir eignarhluta 0206 (áður 0203) í fasteigninni nr. 13 við Lækjarsmára í Kópavogi, ásamt öllu því sem eignarhlutanum fylgir og fylgja ber, að engu undanskildu, að viðlögðum dagsektum, 5.000 krónum á dag, að 15 dögum liðnum frá uppsögu dómsins.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 400.000 krónur, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Kjartans Reynis Ólafssonar hrl., 391.700 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.