Hæstiréttur íslands

Mál nr. 689/2009


Lykilorð

  • Meiðyrði
  • Res Judicata
  • Skriflegur málflutningur


                                                        

Miðvikudaginn 21. apríl 2010.

Nr. 689/2009.

Ívar Pétur Guðnason

(sjálfur)

gegn

Hinriki Líndal Skarphéðinssyni og

Sunnleygu Belindu Leivsdóttur Lindal

(enginn)

Meiðyrði. Res judicata. Skriflegur málflutningur.

Í krafðist þess meðal annars að nánar tilgreind ummæli H og S, sem tilgreind voru í 21 stafalið í kröfugerð hans, yrðu dæmd dauð og ómerk og að þau greiddu sér bætur vegna þeirra. Með dómi héraðsdóms voru H og S sýknuð af kröfum Í. Taldi héraðsdómur að þegar ummælin væru metin í því samhengi sem þau stæðu í yrði ekki talið að í neinu þeirra fælist refsiverð móðgun eða aðdróttun í garð Í, sbr. 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Þá var ekki talið að ummælin væru óviðurkvæmileg. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms að öðru leyti en því að vísað var frá héraðsdómi ummælum sem Í hafði áður krafist ómerkingar á, í fyrra dómsmáli aðila, en þar voru  H og S sýknuð af þeim kröfuliðum, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 2. október 2009. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 2. desember 2009 og var ný áfrýjunarstefna gefin út 4. desember það ár. Hann krefst þess aðallega að „ummæli tilgreind innan gæsalappa í eftirtöldum stafliðum A til U verði dæmd dauð og ómerk“. Krafa um ómerkingu beinist gegn báðum stefndu vegna ummæla í stafliðum A til S en gegn stefndu Sunnleygu einni vegna ummæla í liðum T og U. Ekki er krafist ómerkingar ummæla innan hornklofa.

A.     „kom Pétur [áfrýjandi] með öskrum og látum og kallaði hana öllum illum nöfnum. Hvort það [sic] væri geðsjúk og annað í þeim dúr ...“

B.     „Pétur kom öskrandi með skömmum og látum og mjög móðgandi orðalag [sic].“

C.     „Öskraði hann svo hátt að það glumdi inni í íbúðinni hjá okkur ...“

D.     „tekur eftir því að Pétur er á hækjum [sic] fyrir utan eldhúsgluggann og snýr andlitinu að glugganum og sér þannig inn úr eldhúsinu og inn í stofu þar sem við lágum. Verður hún var [sic] við að hann er í þeirri stellingu, þrisvar sinnum þennan morgun ...“

E.      „Þau höfðu tæmt útiöskubakkann okkar í þessa fernu ...“

F.      „Þau kalla okkur lygara ...“

G.     „Þetta lofaði hann [áfrýjandi] að laga hið fyrsta ... Einnig þetta ætlaði hann að láta laga hið fyrsta. Ekkert af þessu var lagað meðan við bjuggum þarna.“

H.     „að hafa enga stjórn á skapi sínu eins og hann hefur ráðist á gesti okkar með svívirðingum.“

I.        „Sakaði hann einnig um að hafa kíkt inn um gluggann hjá okkur nokkrum dögum áður.“

J.       „... sagði hún mér að stubbarnir [sic] sem kærasta mín fann í innkeyrslunni, hefðu þau [þ.e. áfrýjandi og kona hans] lagt þar.“

K.    „þegar blóðsykurinn lækkar hjá honum, ræður hann ekki við skapið.“

L.      „Þá sé ég hvar Pétur stendur í enda innkeyrslunnar, alveg við götuna og hlær að mér.“

M.   „kemur hann [áfrýjandi] hlaupandi út út húsinu og labbar á eftir henni. Hún stoppar við bílinn og þá stendur hann aftur við enda innkeyrslunnar og hlær hátt HA HA HA HA og hristir hausinn.“

N.    „... þar sem þau sögðu að Pétur væri ekki alveg eins og fólk er flest.“

O.    „Við fengum t.d. að vita að Pétur er mjög forvitinn maður og fylgist mjög vel með nágrönnum sínum. T.d. hefur Pétur vitað á undan öðrum ef einhver er að fá byggingarleyfi fyrir breytingum og svoleiðis.“

P.      „Og að það sé ekki af [sic] ástæðulausu að mjög fáir nágrannar tali við hann.“

Q.    „Það hefur iðulega endað með því að Pétur fer í mál við vinnuveitendur sína.“

R.     „að hún þyrði ekki að henda Pétri út þrátt fyrir að hún eigi húsið. Sögðu að Pétur hefði hótað henni að fara í mál við hana um húsið.“

S.      „barið í borðið og fengið að lokum víxilinn frá þeim.“

T.      „... líka kallar hann [áfrýjandi] mig bæði eitt og annað. Við erum búin að fá SMS um að ég sé prositut [sic] ...“

U.     „Svo ég segi bara þessi orð frá þér [áfrýjanda] í tölvunni heima frá [sic] ykkur.“

Þá krefst áfrýjandi þess að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða sér 1.900.000 krónur í miskabætur vegna ummæla í lið A til S. Hann krefst þess einnig að stefnda Sunnleyg verði ein dæmd til að greiða sér 350.000 krónur í miskabætur vegna ummæla í liðum T og U. Þá krefst hann þess að miskabætur „er stefndu verða dæmd til að greiða beri dráttarvexti skv. ákvörðun Seðlabanka Íslands frá þingfestingu í héraði 3. febrúar 2009 til greiðsludags, sbr. 8. og 9. gr. IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.“ Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Til vara krefst áfrýjandi ómerkingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en að því slepptu að málskostnaður í héraði verði aðallega felldur niður en til vara lækkaður.

Stefndu hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að líta svo á að þau krefjist staðfestingar héraðsdóms. Áfrýjanda var með bréfi Hæstaréttar 4. mars 2010 veittur frestur til að ljúka gagnaöflun í málinu. Með vísan til nefnds lagaákvæðis er kveðinn upp dómur í málinu án munnlegs flutnings.

Varakrafa áfrýjanda kemur fyrst til afgreiðslu. Ekki eru efni til að taka hana til greina og er henni hafnað.

Ummælin í D og I liðum kröfugerðar áfrýjanda eru að efni til þau sömu og hann krafðist að ómerkt yrðu í fyrra dómsmáli aðila sem getið er um í hinum áfrýjaða dómi. Með héraðsdómi 24. júní 2008 voru stefndu sýknuð af kröfuliðum þessum. Með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 verður kröfum hans, sem lúta að þessum ummælum nú, því vísað frá héraðsdómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann að öðru leyti staðfestur.

Málskostnaður dæmist ekki fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Liðum D og I í kröfum áfrýjanda, Ívars Péturs Guðnasonar, er vísað frá héraðsdómi.

Hinn áfrýjaði dómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2009.

Mál þetta sem tekið var til dóms 3. september sl. var höfðað með stefnu birtri 19. desember 2008.

Stefnandi er Ívar Pétur Guðnason, Karfavogi 54, Reykjavík. Stefndu eru Hinrik Líndal Skarphéðinsson, Kongepennen 2, Fraugde, Odense, Danmörku og Sunnleyg Belinda Leivsdóttir Lindal (áður Krabenhöjft), Bispehaven 20, Langeskov, Danmörku.

Dómkröfur stefnanda eru:

1. Að ummæli tilgreind innan gæsalappa í eftirtöldum stafliðum A til U verði dæmd dauð og ómerk skv. 241 grein laga nr. 19/1940 og vísan til 234., 235. og 236. gr. sömu laga. Ummæli innan hornklofa eru sett af stefnanda til glöggvunar og ekki er krafist ómerkingar þeirra.:

A. „kom Pétur með öskrum og látum og kallaði hana öllum illum nöfnum. Hvort það [sic] væri geðsjúk og annað í þeim dúr ...“

B. „Pétur kom öskrandi með skömmum og látum og mjög móðgandi orðalag [sic].“

C. „Öskraði hann svo hátt að það glumdi inni í íbúðinni hjá okkur ...“

D. „tekur eftir því að Pétur er á hækjum [sic] fyrir utan eldhúsgluggann og snýr andlitinu að glugganum og sér þannig inn úr eldhúsinu og inn í stofu þar sem við lágum. Verður hún var [sic] við að hann er í þeirri stellingu, þrisvar sinnum þennan morgun ...“

E. „Þau höfðu tæmt útiöskubakkann okkar í þessa fernu ...“

F. „Þau kalla okkur lygara ...“

G. „Þetta lofaði hann [stefnandi] að laga hið fyrsta .... Einnig þetta ætlaði hann að láta laga hið fyrsta. Ekkert af þessu var lagað meðan við bjuggum þarna.“

H. „að hafa enga stjórn á skapi sínu eins og hann hefur ráðist á gesti okkar með svívirðingum.“

I. „Sakaði hann einnig um að hafa kíkt inn um gluggann hjá okkur nokkrum dögum áður.“

J. „... sagði hún mér að stubbarnir [sic] sem kærasta mín fann í innkeyrslunni, hefðu þau [þ.e. stefnandi og Ragnheiður] lagt þar.“

K. „þegar blóðsykurinn lækkar hjá honum, ræður hann ekki við skapið.“

L. „Þá sé ég hvar Pétur stendur í enda innkeyrslunnar, alveg við götuna og hlær að mér.“

M. „kemur hann [stefnandi] hlaupandi út úr húsinu og labbar á eftir henni. Hún stoppar við bílinn og þá stendur hann aftur við enda innkeyrslunnar og hlær hátt HA HA HA HA og hristir hausinn.“

N. „... þar sem þau sögðu að Pétur væri ekki alveg eins og fólk er flest.“

O. „Við fengum t.d. að vita að Pétur er mjög forvitinn maður og fylgist mjög vel með nágrönnum sínum. T.d. hefur Pétur vitað á undan öðrum ef einhver er að fá byggingarleyfi fyrir breytingum og svoleiðis.“

P. „Og að það sé ekki af [sic] ástæðulausu að mjög fáir nágrannar tali við hann.“

Q. „Það hefur iðulega endað með því að Pétur fer í mál við vinnuveitendur sína.“

R. „að hún þyrði ekki að henda Pétri út þrátt fyrir að hún eigi húsið. Sögðu að Pétur hefði hótað henni að fara í mál við hana um húsið.“

S. „barið í borðið og fengið að lokum víxilinn frá þeim.“

T. „... líka kallar hann [stefnandi] mig bæði eitt og annað. Við erum búin að fá SMS um að ég sé prositut [sic] ….“

U. „Svo ég segi bara þessi orð frá þér [stefnanda] í tölvunni heima frá [sic] ykkur.“

2. Að stefndu Hinrik og Sunnleyg verði óskipt dæmd til að greiða stefnanda krónur 1.900.000 í miskabætur vegna ummæla A. til S. í dómkröfu 1, samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Jafnframt er þess krafist að stefnda Sunnleyg verði ein dæmd til að greiða stefnanda kr. 350.000 í miskabætur skv. 26. gr. l. nr. 50/1993 vegna ummæla tilgreindra í T. og U. í dómkröfu 1. Miskabætur er stefndu verða dæmd til að greiða beri dráttarvexti skv. ákvörðun Seðlabanka Íslands frá þingfestingu 3. febrúar 2009 til greiðsludags, sbr. 8. og 9. gr. IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.

3. Að stefndu greiði stefnanda málskostnað eftir mati dómsins, sbr. 129 gr. og 130 gr. laga nr. 91/1991.

Dómkröfu stefndu um frávísun málsins var hafnað með úrskurði dómsins uppkveðnum 2. júlí 2009.

Dómkröfur stefndu eru að þau verði sýknuð af stefnukröfunum. Til þrautavara krefjast stefndu þess að stefnukröfur verði lækkaðar verulega.

Í öllum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda sér að skaðlausu.

Útivist varð af hálfu stefndu 2. júlí 2009. Með úrskurði dómsins, uppkveðnum 10. júlí sama mánaðar, var endurupptökukröfu stefndu hafnað. Málið var dómtekið 3. september sl. eftir að stefnandi hafði lagt fram sókn. Verður málið dæmt samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 eftir framkomnum kröfum og gögnum stefnanda með tilliti til þess, sem fram hafði komið af hálfu stefndu.

Málsatvik:

Stefndu leigðu íbúð af tengdamóður stefnanda í húsi þar sem stefnandi og sambýliskona hans búa einnig, um það bil um 5 mánaða skeið á fyrri hluta ársins 2007. Af gögnum málsins er ljóst að nokkrar deilur voru á milli aðila máls þessa á þessu tímabili sem tengdust meðal annars reykingum, bílastæðum og umgengni á lóð. Stefnandi hefur í tvígang áður höfðað mál vegna meiðyrða sem tengjast ofangreindum deilum aðila. Í fyrra málinu var stefnda Hinriki einum stefnt en í því síðara var stefndu Sunnleygu jafnframt stefnt. Ummæli þau sem nú er krafist ómerkingar á í liðum A til S koma fram í atvikalýsingu stefndu sem lögð var fram í fyrra málinu, þ.e. máli nr. E-5085/2007, og ummæli í liðum T og U í vitnisburði stefndu, Sunnleygar, í málinu.

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir á því að við rekstur máls nr. E-5085/2007 við Héraðsdóm Reykjavíkur hafi stefndi Hinrik ásamt stefndu Sunnleygu sem þar var vitni, lagt fram s.k. atvikalýsingu sem þau höfðu undirritað og staðfest rétta fyrir dómi. Einnig vísar stefnandi til vitnisburðar stefndu Sunnleygar fyrir dómi 15. apríl 2008, við aðalmeðferð í málinu. Mörg ummæli í atvikalýsingunni, sem eru merkt A til og með S í dómkröfu 1, og a.m.k. tvenn í vitnisburðinum, merkt T og U í dómkröfu 1, séu ósönn með öllu. Ummælin fari langt út fyrir þann ramma sem atvikalýsing eða vitnisburður í málinu E-5085/2007 hafi krafist. Þau fáu ummæli sem skipt hafi máli við mat á málinu hafi gengið allt of langt og verið óþarflega meiðandi í garð stefnanda. Staða þeirra Hinriks og Sunnleygar sem stefnda og vitnis í því máli, hafi ekki gefið þeim leyfi til þess að segja átölulaust hvað sem þeim þóknast og virða meiðyrða­löggjöfina að vettugi. Ummælum A - U virðist, ýmist stökum, fleiri saman, sem og öllum sem heild, ætlað að varpa rýrð á stefnanda sem manneskju, særa æru hans og tilfinningar, valda honum álitshnekki, gera lítið úr honum og háttsemi hans og rýra orðspor hans og heiður. Háttsemi sem stefnandi sé sakaður um í ummælum beggja stefndu sé ýmist talin varða við lög, vera siðferðilega ámælisverð að almannamati, virðingu stefnanda til hnekkis, eða allt framangreint. Stefnandi telur ummælin vera lið í einelti er stefndu hafa lagt hann í. Mannorð stefnanda hafi beðið hnekki frammi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og hverjum þeim öðrum er stefndu viðhöfðu ummælin við. Líta ber til þess að gögn máls hafi verið og séu aðgengileg áhugasömum í ýmsum birtinga­rmyndum, enda aðalmeðferð 15. apríl 2008 háð í heyranda hljóði að áheyrendum viðstöddum. Flest ummælin, eða ígildi þeirra, hafi stefndu jafnframt viðhaft utan dómsalar. Stefndu riti bæði undir atvikalýsinguna og beri því óskipta ábyrgð á því er þar stendur. Sunnleyg beri sjálf fulla ábyrgð á vitnisburði sínum fyrir dómi.

Sérlega alvarleg séu brot stefndu vegna ummæla P, Q og R. Hinn 10. október 2007 hafi þau ummæli verið dregin til baka og beðist afsökunar á þeim með bréfi frá lögmanni þeirra. Þrátt fyrir það hafi þau bæði staðfest atvikalýsingu sína óbreytta fyrir dómi 15. apríl 2008.

Lagagreinar sem vísað sé til varðandi 1. lið dómkröfu séu allar úr almennum hegningar­lögum nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, nema annað sé sérstaklega tekið fram: Tilvitnuð ummæli í staflið A séu brot beggja stefndu á 235. gr. Tilvitnuð ummæli í staflið B séu brot beggja stefndu á 234. gr. og 236. gr. Tilvitnuð ummæli í staflið C séu brot beggja stefndu á 234. gr. og 236. gr. en til vara gegn 235. gr. Tilvitnuð ummæli í staflið D séu brot beggja stefndu á 234. gr. og 236. gr. en til vara á 235. gr. Tilvitnuð ummæli í staflið E séu af hálfu beggja stefndu brot á 235. gr og 236. gr. Tilvitnuð ummæli í staflið F séu af hálfu beggja stefndu brot á 234. gr. og 236. gr. en til vara 235. gr. Tilvitnuð ummæli í staflið G séu af hálfu beggja stefndu brot á 235. gr. og 236. gr. Tilvitnuð ummæli í stafliðum H, I og J séu af hálfu beggja stefndu brot á 234. gr. og 236. gr. en til vara 235. gr. Tilvitnuð ummæli í staflið K séu af hálfu beggja stefndu brot á 234. gr. og 236. gr. en til vara 235. gr. og 237. gr. Tilvitnuð ummæli í staflið L séu af hálfu beggja stefndu brot á 236. gr. og að auki af hálfu stefnda Sunnleygar brot á 234. gr. en til vara 235. gr. en af hálfu stefnda Hinriks brot á 235. gr. en til vara á 234. gr. Tilvitnuð ummæli í stafliðum M, N, O og P séu brot beggja stefndu á 235. gr. og 236. gr. en til vara á 234. gr. Tilvitnuð ummæli í stafliðum Q og R séu brot beggja stefndu á 235. gr. en til vara 234. gr. Tilvitnuð ummæli í staflið S séu brot beggja stefndu á 235. gr. og 236. gr. en til vara 234. gr. Tilvitnuð ummæli í stafliðum T og U séu af hálfu stefndu Sunnleygar brot á 236. gr. en til vara 235 gr.

Krafa um miskabætur byggir á b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og grunnrökum að baki 234., 235. og 236. gr. alm. hegningarlaga nr. 19/1940.

Stefnt er fyrir héraðsdóm Reykjavíkur með vísan til 1. töluliðs 4. gr. alm. hegning-arlaga nr. 19/1940 þar sem segi að refsað skuli eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot, framin innan íslenska ríkisins. Það eigi við um brot beggja stefndu á ákvæðum XXV. kafla alm. hegningarlaga, sem stefnt sé vegna. Einnig sé vísað til 41. gr., sbr. 42. gr. og 43. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 vegna varnarþings stefndu.

Málsástæður og lagarök stefndu:

Sýknukröfu sína byggja stefndu á því að ummælin séu ekki óviðurkvæmileg, ekki brot gegn 26. gr. skaðabótalaga og ekki brot gegn ærumeiðingalöggjöf. Öll hin umstefndu ummæli komu fram í skýrslugjöf stefndu í áðurnefndu ærumeiðingamáli sem stefnandi höfðaði á hendur stefnda Hinriki. Flest öll ummælin komu fram í skriflegri atvikalýsingu stefndu en þar sem stefnandi skilaði skriflegri afvikalýsingu þótti eðlilegt að stefndi gerði slíkt hið sama. Við aðalmeðferð málsins staðfestu stefndu aðeins að þarna kæmi fram rétt lýsing á því sem gerðist en ekki var fjallað um atvikalýsinguna að öðru leyti.

Tjáningarfrelsi er verndað með ákvæði 73. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands en eðli máls samkvæmt, og skv. dómvenju, er tjáningarfrelsi enn rýmra í flutningi dómsmála. Framlagning greinargerðar eða skýrslugjöf fyrir dómi er almennt refsi- og bótalaus (að refsiverðum röngum framburði frátöldum) þar sem aðilum er veitt rýmra tjáningarfrelsi við flutning dómsmála enda myndi önnur niðurstaða torvelda til muna rekstur dómsmála, sbr. t.d. Hrd. 1979, 647 og Hrd. 1968, 281 um muninn á því þegar ummæli birtast undir rekstri dómsmáls og þegar sömu ummæli eru birt í fjölmiðlum.

Stefndu ættu að vera sýkn af kröfum stefnanda þá þegar af þeirri ástæðu að ummælin komu fram undir rekstri dómsmáls og því fer fjarri, líkt og stefnandi heldur fram, að ummælin hafi einungis verið sett fram í því skyni að varpa rýrð á persónu hans heldur voru stefndu aðeins að reyna að verja sig fyrir kröfum stefnanda. Stefnandi skilaði sjálfur inn langri málsatvikalýsingu og stefndu höfðu rétt til að lýsa atvikum eins og þau upplifðu þau en lýsingin var tilraun þeirra til að sýna hvernig sambúð með stefnanda var háttað, rétt eins og stefnandi lýsti sinni upplifun af sambýli við stefndu. Ekki er krafist refsingar vegna ummælanna en þrátt fyrir það má líta til 239. gr. hgl. varðandi orðhefndarsjónarmið en ljóst er að stefndu eru aðeins að launa stefnanda líku líkt.

Þrátt fyrir þetta skal litið á einstök ummæli eftir þeim stafliðum sem þau birtast í stefnu. Þess ber þó að geta að líkt og sjá má í stefnu og skriflegri atvikalýsingu stefnanda í fyrra máli aðila kemur stefnandi sjálfur með ýmsar ófagrar lýsingar á stefndu og líferni þeirra, án þess þó að stefndu taki sig til og höfði ærumeiðingamál á hendur honum enda gera stefndu sér grein fyrir að ekki er hægt að krefjast sönnunar á öllu því sem fram kemur undir rekstri dómsmáls.

A.                     Ummælin eru höfð eftir vinkonu stefndu, Mörtu. Þetta var hennar upplifun á atvikum. Stefndu eru aðeins að lýsa atvikum eins og þau komu þeim fyrir sjónir eða líkt og vinkona þeirra sagði þeim frá atvikum. Stefndu hafa enga ástæðu til að draga orð vinkonu sinnar í efa. Í stefnu skýrir stefnandi hvernig hann upplifði atvikið, þ.e.a.s. að hann hafi rólega útskýrt muninn á einkabílastæði og almennu bílastæði, útskýrt af hverju siðað fólk skilji gamla bíldruslu ekki eftir í gangi beint fyrir opnum gluggum annarra og þetta hafi hann gert rólega og æsingslaust.

Seint verður séð hvernig umrædd lýsing stefndu á upplifun vinkonu þeirra á atvikum geti talist ærumeiðandi í garð stefnanda. Þá eru ummælin langt frá því að geta talist refsiverð aðdróttun í skilningi 235. gr. hgl. Sú sem sagði stefndu frá atvikinu stendur fast við sína frásögn, og er reiðubúin til að staðfesta hana fyrir dómi, en ekki verður lagt á stefndu að sanna frásögn hennar, líkt og stefnandi vill meina, enda ógerlegt þar sem um orð gegn orði er að ræða.

B.                      Eins og ummæli undir staflið A eru umrædd ummæli lýsing á atburði sem átti sér stað fyrir framan heimili aðila. Sama á við hér um að frásögnin geti ekki talist ærumeiðandi en þrír aðilar voru vitni að atburðinum og eru tilbúnir til að staðfesta það fyrir dómi. Þá heyrði stefnda Sunnleyg öskur stefnanda inn til sín, líkt og kemur fram í staflið C.

C.                      Stefnda Sunnleyg heyrði öskur stefnanda og þau þrjú vitni sem voru í bifreiðinni geta staðfest öskur hans. Það er stefndu algerlega að meinlausu að lýsa upplifun sinni að atvikum, sem hún þó getur staðfest með framburði vitna.  Stefnandi sjálfur lýsir atvikum þannig að hann hafi sagt konunum að færa bifreiðina strax en þær ekki gengt því, hann hafi þá fært sig nær og útskýrt muninn á einkastæði og almennu stæði. Konurnar hafi hvorki heyrt né skilið nokkurn skapaðan hlut en stefnandi hafi þó haldið ró sinni allan tímann en hann reyndi að leiða fólkinu fyrir sjónir hvers vegna siðað fólk leggi ekki í stæðum annarra, það séu mannasiðir sem vel upp alið og siðað fólk eigi að kunna.

Þannig er staðfest að umræddir atburðir sem stafliðir A-C stafa af áttu sér stað. Upplifun stefnanda og annarra aðila sem komu að umræddum atvikum er þó ólík en þar við situr. Stefnandi getur ekki stefnt aðilum fyrir vitnisburð um þeirra upplifun af atvikum, jafnvel þótt hann hafi upplifað atvikið með öðrum hætti. Þá verður ekki séð hvernig ummælin geti talist ærumeiðing í garð stefnanda.

D.                      Mál E-5085/2007 snerist um þetta atvik og því ekki nema eðlilegt að það komi fram við meðferð málsins! Þannig hefur þegar verið tekið á þessu í dómsmáli og stefndi sýknaður með þeim orðum að dómur gæti engan veginn fallist á kröfur stefnanda.

E.                       Enn á ný er um lýsingu stefndu að ræða. Ekki er unnt að sjá neitt ærumeiðandi við umrædd ummæli sem lýstu samskiptum aðila undir lok leigutímans og stefndu bæði refsi- og bótalaust að lýsa fyrir dómi.

F.                       Í bréfi frá sambýliskonu stefnanda til stefndu kallar hún þau lygara þar sem þau hefðu ekki tilkynnt í tölvupósti að þau reyktu.  Ummælin eru með engu móti ærumeiðandi og eðlilegt að komi upp í dómsmáli sem snýr að samskiptum aðila.

G.                      Ekki er unnt að sjá hvernig umrædd ummæli eigi að teljast ærumeiðandi! Stefndu voru að lýsa hvernig samskipti voru á leigutímanum og eiga rétt til að lýsa því refsi- og bótalaust. Stefnandi ákvað sjálfur að stefna stefnda Hinriki fyrir ærumeiðingar og verður að þola það bótalaust að hann skýri sína hlið á málinu.

H.                      Ummæli snerta það rifrildi aðila sem varð tilefni dómsmáls E-5085-2007 þar sem stefndi Hinrik var sýknaður af kröfum stefnanda enda ekki annað ráðið en að aðilar hafi rifist umrætt sinn og stefnandi hafi átt upptökin að orðaskaki þeirra og því engan veginn hægt að fallast á kröfur hans. Einnig er unnt að vísa í stafliði A og B varðandi umrædd ummæli.

I. Þegar hefur verið tekið efnislega á þessum ummælum með dómi í máli E-5085/2007 þar sem stefndi var sýknaður af kröfum stefnanda.

J.                        Ummælin eru lýsing stefndu á málsatvikum og geta ekki með nokkru móti talist ótilhlýðileg eða ærumeiðandi.

K.                      Ummælin hefur stefnda eftir sambýliskonu stefnanda og eru þau hennar lýsing á málsatvikum í máli E-5085/2007. Ekki er með nokkru móti hægt að fallast á að ummælin séu ærumeiðandi.

L.                       Enn á ný er um lýsingu stefndu á samskiptum aðila á leigutímanum að ræða. Ummælin geta ekki talist ærumeiðandi heldur upplifun og lýsing stefndu, sem hafa fullan rétt á að verja sig í máli sem höfðað hefur verið gegn þeim.

M.                    Sama og varðandi staflið L.

N.                      Ummælin eru höfð eftir einstaklingum sem voru kunnug stefnanda. Stefndu eru að lýsa því hvernig samskipti aðila voru á leigutímanum og hvernig sýn þeirra á stefnanda fljótlega breyttist. Það er þeim refsi-og bótalaust enda ekki hægt að segja að slík skýrslugjöf fyrir dómi sé ærumeiðandi.

O.                      Sama og varðandi staflið N. Þá virðist stefnandi viðurkenna að hluta að hafa farið í gönguferðir um hverfið til að fylgjast með hvort einhver væri að breyta risi. Þá verður ekki séð að ummælin geti talist ærumeiðandi.

P.                       Sama og varðandi stafliði N og O. Að auki tekur stefnandi fram á bls. 9 í skriflegri aðilaskýrslu sinni að umræddir aðilar hafi gengist við því að hafa viðhaft ummæli P, Q og R en hann hafi að vísu ekki spurt þau um ummæli N og O. Þannig liggur fyrir að stefndu eru að segja satt með þessari lýsingu sinni, þ.e. hafa rétt eftir umræddu fólki, og viðurkennir stefnandi það.  Þegar af þeirri ástæðu ætti að sýkna þau af kröfum stefnanda.

Q.                      Sama og varðandi stafliði N - P.

R.                      Sama og varðandi stafliði N - Q.

Rétt er sem fram kemur í stefnu að lögmaður stefndu dró, að beiðni stefnanda, ummæli í stafliðum P, Q og R til baka f.h. stefndu og baðst afsökunar á þeim. Var það gert til að reyna að koma í veg fyrir frekari málsóknir af hálfu stefnanda, sem stefndu upplifa sem ofsóknir í sinn garð.

Ummælin voru dregin til baka með því bréfi og þar við situr. Stefnandi hefði getað lagt það skjal fram við aðalmeðferð fyrra málsins en gagnaöflun var lokið þegar bréfið var ritað. Þegar aðilaskýrsla var staðfest fyrir dómi var ekki spurt um umrædd ummæli sérstaklega og þau ekki sérstaklega dregin til baka fyrir dóminum. Stefnandi minntist þó ekki á það eða spurði sérstaklega um það, svo sem honum hefði verið í lófa lagt, heldur höfðaði mál til ómerkingar ummælanna.

Ummælin komu aðeins fram í skriflegri atvikalýsingu stefndu í fyrra ærumeiðingamáli aðila, ummælin komu aðeins fyrir sjónir dómara málsins og voru ekki tekin upp í dóminn sérstaklega. Ummælin eru höfð eftir nafngreindum aðilum og eru lýsing stefndu á málsatvikum. Megi stefndu ekki lýsa málsatvikum í máli sem höfðað er gegn þeim án þess að eiga yfir höfði sér refsi- og bótamál getur réttarkerfið ekki starfað með eðlilegum hætti.

S.                       Enn á ný er um lýsingar stefndu á málsatvikum að ræða og ekki hægt að sjá að ummælin geti talist ærumeiðandi.

T.                      Stefnda Sunnleyg lýsti því fyrir dómi hvernig stefnandi hefði kallað hana prostitut. Ummælin eru ekki ærumeiðandi í garð stefnanda, þau eru lýsing stefndu á málsatvikum! Þá kallar stefnandi stefndu Sunleygu ávalt fylgikonu í stefnu sinni í máli E-5085/2007 svo ljóst er að ummælin eru að einhverju leyti sönnuð en Sunnleyg segir í skýrslugjöf sinni að hún muni ekki hvert íslenska orðið sé en það sé eitthvað kona. Lögmaður spurði hvort hún meinti fylgikona (ranglega ritað sem vandræðakona í endurriti) og hún játti því.

U.                      Lögmaður stefndu fær ekki skilið hvað ærumeiðandi eigi að teljast í umræddum ummælum!

Með vísan til framangreinds krefjast stefndu sýknu af kröfu um ómerkingu ummælanna. Ummælin eru ekki óviðurkvæmileg og stefndu telja ekki hægt að ómerkja það sem fram kemur í málsatvikalýsingu aðila undir rekstri dómsmáls.

Stefndi krefst sýknu af miskabótakröfu stefnanda enda skilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, um að stefndi beri ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn æru stefnanda, ekki fullnægt.

Til vara er krafist lækkunar miskabótakröfu stefnanda en hann hefur ekki fært neitt fram til sönnunar á miska sínum. Stefnandi getur ekki byggt miskabótakröfu sína á útbreiðslu ummælana enda hefur hann í fyrsta lagi ekki stefnt þeim fyrir útbreiðslu þeirra. Í öðru lagi komu þessi ummæli fram í skriflegri lýsingu stefndu á atvikum fyrra dómsmálsins og komu hvergi fram nema á því skjali, þau voru hvorki höfð uppi í heyranda hljóði né tekin upp í dóminn. Hefði stefnandi ekki höfðað það mál sem er efni þessarar greinargerðar hefði engum verið kunnugt um þessi ummæli nema starfsmönnum dómstólsins sem komu að fyrra málinu.

Stefndu hafna því að stefnandi hafi ítrekað haft samband við stefndu og lögmann þeirra til að leita sátta. Stefnandi kom að vísu með sáttatillögu sem var þess efnis að stefndu gátu ekki með nokkru móti fellt sig við hana en í henni fólst m.a. skrifleg afsökunarbeiðni sem stefnandi hugðist dreifa eftir því sem honum þóknaðist. Raunhæfar sáttatillögur voru engar en stefndu óskuðu þess að aðilar myndu geyma það sem gerðist í fortíðinni og halda áfram með sitt líf, án frekari samskipta.

Varðandi fjárhæð miskabóta er annars vísað til dómafordæma en ljóst er að miskabótakrafa stefnanda er langtum hærri en það sem gengur og gerist í ærumeiðingarmálum sem þessum þar sem útbreiðsla er engin, fullt tilefni til ummælanna og ummælin sett fram undir rekstri dómsmáls.

Stefnandi hefur ekkert lagt fram til sönnunar þess að ummælin hafi valdið honum andlegri vanlíðan, hann hafi verið þunglyndari en ella og hafi misst svefn vegna ummælanna. Þá er því vísað til föðurhúsanna að stefndu leggi stefnanda í gróft einelti eða ofsæki hann! Stefndu vilja ekkert með stefnanda gera og vilja bara fá að halda lífi sínu áfram, án afskipta hans.

Umfjöllun um fyrra dómsmál aðila í fjölmiðlum hefur ekkert með stefndu að gera og getur stefnandi einn kennt sér þar um.

Málskostnaðarkrafa byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndu eru ekki virðisaukaskattskyld. Þá krefjast stefndu þess á grundvelli d- liðar 129. gr. eml. stefnandi verði dæmdur til greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðar þeirra frá Danmörku til Íslands og hótelgistingar enda er um óhjákvæmilegan ferðakostnað aðila að ræða.

Niðurstaða:

Fyrir liggur að málsaðilar voru nágrannar fyrri hluta ársins 2007 og áttu í erjum. Hinn 9. ágúst 2007 höfðaði stefnandi ærumeiðingarmál á hendur stefnda, Hinriki, mál nr. E-5085/2007, og krafðist þess m.a. að ummæli stefnda um að stefnandi hefði þrisvar sinnum gægst á glugga hjá stefnda og sambýliskonu hans, Sunnleygu, yrðu dæmd dauð og ómerk. Með dómi uppkveðnum 24. júní 2008, var stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Ummæli þau sem krafist er ómerkingar á í liðum A til S í máli þessu koma fram í atvikalýsingu stefndu, Hinriks og Sunnleygar, sem lögð var fram í málinu, þ.e. máli nr. E-5085/2007, og ummæli í liðum T og U í vitnisburði stefndu, Sunnleygar, í málinu.

Ummælin í D og I lið lúta að sama atviki og ummæli þau sem stefnandi krafðist að yrðu dæmd dauð og ómerk í máli nr. E-5085/2007.

Fyrir liggur að ummælin sem fram koma í liðum P, Q og R, og höfð eru eftir öðrum, voru með bréfi lögmanns stefndu, dags. 10. október 2007, dregin til baka og velvirðingar beðist á þeim.

Í umræddri atvikalýsingu lýsa stefndu samskiptum sínum við stefnanda eins og þau horfa við þeim og ummælum annarra um hann. Er atvikalýsingin hluti af vörn stefnda, Hinriks, í ærumeiðingarmáli því sem stefnandi höfðaði áður á hendur honum.

Þegar hin umstefndu ummæli eru metin í því samhengi sem þau standa í, en ekki þykir ástæða til að fjalla sérstaklega um einstök orðasambönd, verður ekki talið að í neinum þeirra felist refsiverð móðgun eða aðdróttun í garð stefnanda, sbr. 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður ekki talið að ummælin séu óviðurkvæmileg. Er því samkvæmt framangreindu ekki fallist á að stefndu hafi brotið gegn lagaákvæðum um æruvernd né að þau hafi haft í frammi ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda. Verða stefndu því sýknuð af öllum kröfum stefnanda.

Eftir niðurstöðu málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu hvoru fyrir sig 150.000 krónur í málskostnað.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndu, Hinrik Líndal Skarphéðinsson og Sunnleyg Belinda Leivsdóttir Lindal, skulu sýkn af kröfum stefnanda, Ívars Péturssonar.

Stefnandi greiði stefndu hvoru fyrir sig 150.000 krónur í málskostnað.