Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-105

Síminn hf. (Andri Árnason lögmaður)
gegn
Fjarskiptastofu (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður), Ljósleiðaranum ehf. (Hlynur Halldórsson lögmaður), Mílu ehf. (Stefán A. Svensson lögmaður) og Sýn hf. (Reimar Pétursson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fjarskipti
  • Fjölmiðill
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Stjórnvaldssekt
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 19. júlí 2022 leitar Síminn hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. júní sama ár í máli nr. 438/2020: Sýn hf. gegn Símanum hf., Fjarskiptastofu, Ljósleiðaranum ehf. og Mílu ehf. og Síminn hf. gegn Fjarskiptastofu, Sýn hf., Ljósleiðaranum ehf. og Mílu ehf. og Fjarskiptastofa gegn Símanum hf., Sýn hf., Ljósleiðaranum ehf. og Mílu ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilinn Fjarskiptastofa leggst gegn beiðninni. Gagnaðilinn Ljósleiðarinn ehf. leggur í mat Hæstaréttar hvort orðið skuli við beiðninni. Gagnaðilinn Míla ehf. leggst ekki gegn beiðninni. Gagnaðilinn Sýn hf. tekur ekki afdráttarlausa afstöðu til beiðninnar en gerir tilgreindar athugasemdir við efni hennar með hliðsjón af skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991.

3. Með ákvörðun 3. júlí 2018 komst Póst- og fjarskiptastofnun, forveri gagnaðila Fjarskiptastofu, að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi hefði brotið gegn 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla og gerði fyrirtækinu að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 9.000.000 króna. Leyfisbeiðandi höfðaði í kjölfarið mál þetta á hendur gagnaðilum með kröfu um að fyrrgreind ákvörðun yrði felld úr gildi, til vara að 6. töluliður hennar um álagningu stjórnvaldssektar yrði felldur úr gildi en að því frágengnu að sektarfjárhæð yrði lækkuð verulega.

4. Í héraðsdómi var fallist á síðastgreinda kröfu leyfisbeiðanda um lækkun stjórnvaldssektarinnar og hún ákveðin 7.000.000 króna. Leyfisbeiðandi auk gagnaðilanna Fjarskiptastofu og Sýnar hf. skutu málinu til Landsréttar sem með dómi 24. júní 2022 sýknaði framangreinda gagnaðila af öllum kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi hefði fullframið brot gegn 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 með því að hafa sem fjölmiðlaveita í skilningi 14. töluliðar 2. gr. laganna beint viðskiptum þeirra sem vildu kaupa af honum aðgang að efnisveitunni ,,Sjónvarp Símans Premium“ til tengds fjarskiptafyrirtækis, gagnaðilans Mílu ehf., enda hefði ekki verið unnt að kaupa efni úr efnisveitunni nema í gegnum fjarskiptanet leyfisbeiðanda. Brot leyfisbeiðanda hefði verið ótvírætt og enn staðið yfir þegar ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar var tekin þar sem leyfisbeiðandi hafði þá ekki samið um sanngjarnan og eðlilegan aðgang að fjarskiptaneti Gagnaveitu Reykjavíkur ehf., nú gagnaðila Ljósleiðarans ehf., svo að fyrirtækið gæti miðlað efni úr efnisveitu leyfisbeiðanda með sambærilegum hætti og á sambærilegum kjörum og gagnaðilinn Míla ehf. Féllst Landsréttur því á niðurstöðu fyrrgreindrar ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar og taldi engin efni til að hrófla við mati á fjárhæð stjórnvaldssektar sem lögð var á leyfisbeiðanda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um meðal annars túlkun á 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 en hún hafi grundvallarþýðingu á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði. Jafnframt hafi málið grundvallarþýðingu varðandi heildsölumarkað fjarskipta auk þess að varða miklu fyrir neytendur á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að með dómi Hæstaréttar 18. október 2018 í máli nr. 329/2017 hafi verið talið að ákvæði 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 væri takmarkað við línulega miðlun sjónvarpsefnis, en að dómur Landsréttar í þessu máli virðist ganga í aðra átt. Leyfisbeiðandi reisir beiðnina jafnframt á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína, meðal annars til framtíðar litið varðandi samspil og samþættingu fjölmiðla- og fjarskiptastarfsemi og samkeppnisstöðu sína gagnvart innlendum sem erlendum efnisveitum. Loks telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, meðal annars með vísan til framangreindra röksemda.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi á þessu réttarsviði, þar með talið um skýringu á 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011. Beiðnin er því tekin til greina.