Hæstiréttur íslands
Mál nr. 318/2004
Lykilorð
- Líkamsárás
- Réttarfarssekt
|
|
Fimmtudaginn 17. febrúar 2005. |
|
Nr. 318/2004. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn X(Jón Egilsson hdl.) |
Líkamsárás. Réttarfarssekt.
X var sýknaður af ákæru um að hafa á skemmtistað slegið Y hnefahögg á ennið og ýtt við honum svo hann féll á gólfið, með þeim afleiðingum að hann hlaut 6 cm langan skurð á enni, sem sauma þurfti saman, og rifbeinsbrotnaði. Voru X og Y á dansgólfi skemmtistaðarins umrætt sinn. Ekki var talið hafa tekist að varpa skýru ljósi á hverjir hafi komið við sögu á dansgólfinu, en fullt samræmi var ekki í framburði vitna auk þess sem framburður sumra var ekki afdráttarlaus. Verjanda X var gerð réttarfarssekt fyrir háttsemi hans við aðalmeðferð málsins. Talið var að hann hafi komið ósæmilega fram í dómsal og sýnt réttinum fádæma óvirðingu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. júlí 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd, hann dæmdur til greiðslu 350.000 króna miskabóta til Y og staðfest verði ákvæði héraðsdóms um réttarfarssekt á hendur skipuðum verjanda ákærða, Jóni Egilssyni héraðsdómslögmanni. Þá verði ákærða og skipuðum verjanda hans gert að greiða kostnað af áfrýjun málsins.
Ákærði krefst aðallega sýknu og að miskabótakröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og sýknaður af miskabótakröfu eða krafan verði lækkuð.
Skipaður verjandi ákærða krefst sýknu af framangreindri réttarfarssekt.
I.
Aðfaranótt 1. desember 2002 varð Y fyrir líkamsárás á veitingastaðnum Vídalín í miðborg Reykjavíkur. Er óumdeilt að hann hlaut þá 6 cm langan skurð á enni, sem mikið blæddi úr, en að auki var grunur um að hann hefði rifbeinsbrotnað. Frumskýrsla lögreglu sama dag hefur að geyma stutta frásögn Y, A og ákærða af málavöxtum og segir þar að framburður þeirra allra hafi verið skýr. Sá fyrstnefndi hafi talið að hann hafi verið sleginn í ennið með flösku eða glasi þar sem hann fékk glerbrot yfir andlitið. A hafi séð ákærða lemja Y í andlitið, en ákærði neiti því að hafa slegið hann og alls ekki með flösku eða glasi. Við skýrslutöku hjá lögreglu tveimur dögum síðar lýsti Y aðdraganda árásarinnar þannig að hann hafi ásamt fleira fólki verið að dansa úti á gólfi skemmtistaðarins, en meðal þeirra hafi verið vinur hans, áðurnefndur A. Nokkur sláttur hafi verið á A við þessa dansiðkun, sem varð til þess að hann rakst nokkrum sinnum utan í Y, en hann hafi þá rekist utan í ákærða. Skyndilega hafi verið hrint harkalega í bak Y, sem sneri sér við en fékk þá þungt högg framan á ennið. Hann viti ekki hvort hann var sleginn með flösku eða bjórkönnu. Hafi hann reynt að ræða eitthvað við ákærða eftir atlöguna, en þá hafi drifið að hóp af vinum ákærða. Hafi hann rutt sér leið gegnum þvöguna og ráðist að sér að nýju. Við það hafi Y fallið aftur fyrir sig og ákærði ofan á hann. Hafi ákærði síðan barið hann bæði í höfuð og líkama uns dyraverðir skildu þá að. Lögregla mun skömmu síðar hafa komið á vettvang og fjarlægt ákærða.
Skýrsla var tekin af ákærða að morgni 1. desember 2002 eftir dvöl hans í fangageymslu um nóttina. Lýsti hann atvikum á veitingastaðnum þannig að hann hafi verið að dansa með félögum sínum á dansgólfinu og þá rekist utan í mann. Sá hafi reiðst og ýtt við honum. Félagi ákærða, C, hafi þá ætlað að rjúka í manninn en ákærði hindrað það. Maðurinn hafi síðan farið að ýta við C og verið mjög æstur. Hafi ákærði ýtt manninum frá og hann fallið í gólfið og ákærði ofan á hann. Kvaðst ákærði hafa ætlað að slá manninn, en verið stöðvaður af dyravörðum. Þá hafi hann séð að maðurinn var blóðugur á höfði og hafi ákærði sennilega fengið blóð á hendurnar af honum. Hann kvaðst hvorki hafa verið með glas né bjórflösku úti á dansgólfinu og neitaði því að hafa slegið manninn. Kvaðst hann ekki vita hvort C hafi haldið á glasi eða bjórflösku þegar hann hugðist ráðast að manninum. Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu rúmlega ári síðar eða 16. janúar 2004. Var borin undir hann áðurnefnd skýrsla Y frá 3. desember 2002, sem hann kvað vera alranga. Skýrði hann svo frá að þegar hann var að dansa hafi strákur komið og ýtt á hann eins og verið væri að biðja um slagsmál. Hafi ákærði æst sig við þetta en C gengið á milli. Síðan hafi slagsmál brotist út, ákærði ýtt við strák þannig að hann féll á gólfið og ákærði með. Hafi hann þá líklega slegið strákinn einu sinni eða tvisvar krepptum hnefa, en kvaðst ekki muna hvar höggin lentu. Taldi hann að ekki væri „fræðilegur möguleiki“ að þau hafi getað valdið rifbeinsbroti eða tættum skurði á enni. Kvaðst hann hvorki hafa notað glas né nokkurt áhald í átökunum, heldur einungis hnefana.
Y og ákærði gáfu skýrslu fyrir dómi. Sá fyrrnefndi staðhæfði þar að hann hafi séð ákærða reiða flösku eða gler til höggs og slá sig í ennið og síðan látið höggin dynja á sér eftir að báðir voru komnir á gólfið. Ákærði lýsti aðdraganda átakanna svo að „það voru læti“ og hann gengið á milli C og annars manns, sem hafi þá slegið sig á höku og brjóst og ákærði brugðist við með því að snúa manninn niður og báðir lent á gólfinu. Kvaðst hann alls ekki hafa slegið manninn, en blóð á höndum sínum geti hafa komið af manninum í átökunum. Aðspurður kvaðst hann vega 62 kg og vera 175 cm á hæð. Framburður þessara tveggja manna er að öðru leyti rakinn í héraðsdómi.
Fram er komið að bæði ákærði og Y voru hvor um sig á veitingastaðnum með nokkrum félögum sínum umrætt sinn. Auk C hafa tveir aðrir félagar ákærða verið nefndir í málinu, D og E. Við skýrslutöku hjá lögreglu í ágúst 2003 kvaðst hvorugur þeirra hafa verið á dansgólfinu þegar slagsmálin urðu eða orðið vitni að þeim. Er ekkert fram komið sem tengir þessa menn við átökin. Y var í för með félögum sínum, áðurnefndum A og B. Gáfu C og tveir þeir síðastnefndu skýrslu fyrir lögreglu á tímabilinu frá júlí 2003 til desember á sama ári. Kvaðst C hafa staðið við barinn þegar ýtt var við honum, en þá þegar hafi slagsmál verið úti á dansgólfinu. Kvaðst hann ekki hafa þekkt þá sem slógust. Hann hafi ætlað að hjálpa dyravörðum að stía mönnum í sundur, en verið ýtt frá og ekki skipt sér frekar af þessu. Hann hafi hvorki orðið vitni að árás á Y né tekið þátt í henni sjálfur. C gaf einnig skýrslu fyrir dómi þar sem hann bar á líkan hátt og fyrir lögreglu. Í skýrslu A hjá lögreglu kom fram að á dansgólfinu hafi hann rekist utan í ungan mann, sem nokkru síðar hafi ráðist á Y. Sá síðastnefndi hafi stuttu síðar ýtt við manninum, sem aftur réðist á hann og sló í höfuðið. Hafi það verið „eins og sveifla niður á við og í enni [Y].“ Hafi hann ekki veitt athygli hvort hann hélt á einhverju, en „meðan á árásinni stóð, þá brotnaði bjórflaska.“ Þegar Y ýtti árásarmanninum frá sér í upphafi hafi tveir félagar þess síðastnefnda staðið hjá honum og blandað sér strax í átökin. Kvaðst A þá hafa komið Y til hjálpar ásamt B, en þeir hafi ekki getað horft upp á að kunningi þeirra yrði borinn ofurliði. Hafi hann sjálfur dregið annan félaga árásarmannsins frá og snúið hann niður, en sá hafi verið áberandi þrekinn. Kvaðst A hafa bent lögreglu á ákærða sem þann, sem réðst á Y. Fyrir dómi lýsti vitnið því svo að hann hafi allt í einu séð „hvar [Y] kastast eitthvað til og þá fara þrír strákar í hann og bara um leið og þeir fara í hann þá sé ég einhverja hendi koma svona og brothljóð.“ Aðspurður um frásögn sína hjá lögreglu af atvikinu kvaðst hann örugglega hafa munað það betur þá en nú. Sagði hann að sig minnti að hann hafi séð glerflösku á lofti. Sá sem honum hafi fundist sveifla hendi hafi verið sá, sem var „mest pirrandi þarna á gólfinu.“ Líklega hafi það verið ákærði sem sló, en hann hafi ekki séð hver af þessum þremur ýtti við Y í upphafi. Hann kvaðst hins vegar reikna með að „þetta sé alltaf sami strákurinn.“ Þá kvað hann lýsingu hafa verið daufa á staðnum. B gaf einnig skýrslu bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Hjá lögreglu kvaðst hann hafa verið á dansgólfinu og rámaði í að Y hafi rekist utan í mann, sem hafi verið „þrekinn og eitthvað hærri en 177 cm á hæð.“ Kvaðst B síðan hafa fært sig frá og farið að ræða við skólafélaga sinn og ekki séð árásina á Y. Honum var kynntur framburður A hjá lögreglu og ítrekaði af því tilefni að hann hafi ekki séð árásina og ekki muna eftir að hafa verið hjá A þegar hann sneri félaga árásarmannsins niður. Fyrir dómi sagði hann að Y hafi inni á veitingastaðnum varað hann við að þar væru strákar, sem hafi verið með „óþarfa læti“, en hann ekki hlustað neitt sérstaklega á það og haldið áfram að dansa. Hann hafi síðan séð að „þeir voru allir í hrúgu á gólfinu“, en hann farið frá enda ekki dottið í hug að þetta væru einhverjir, sem hann þekkti. Hann hafi síðar komið að Y alblóðugum inni á salerni, sem hafi sagt að hann hafi verið laminn með flösku eða glasi.
II.
Í framburði ákærða og vitna, sem að framan er rakinn, er ekkert fram komið sem tengir aðra félaga ákærða en C við það, sem gerðist á dansgólfinu. Sjálfur bar C á þann veg að hann hafi ekki verið þar er átökin hófust og eftir það haft óveruleg afskipti af þeim. Af lýsingum vitna verður hins vegar ekki annað ráðið en að einn eða tveir félagar ákærða að minnsta kosti hafi verið með honum á dansgólfinu og verið beint eða óbeint þátttakendur í slagsmálum þar. Ekkert liggur þó frekar fyrir um hverjir áttu í hlut. Þannig lýsti Y atvikum þannig að eftir árásina á sig hafi hóp vina ákærða drifið að, en ákærði síðan rutt sér leið í gegnum þvöguna til að ráðast að nýju á sig. A kvað tvo félaga ákærða hafa staðið hjá honum á dansgólfinu og blandað sér strax í átökin. Ekkert er fram komið um hverjir áttu þar hlut að máli eða hver sá þrekvaxni félagi ákærða það var, sem A kveðst hafa snúið niður. B kveðst hafa séð Y rekast utan í þrekvaxinn mann á dansgólfinu, en af þeirri lýsingu er víst að það hefur ekki verið ákærði. Hefur samkvæmt þessu ekki tekist að varpa skýru ljósi á hverjir hafi komið við sögu á dansgólfinu þegar Y kveðst hafa orði fyrir höfuðmeiðslum sínum. Um nokkur atriði ber vitnum ekki saman, svo sem þeim A og B um þátttöku þess síðarnefnda í rás atburða. Þá er ekki fullt samræmi í framburði nokkurra vitna hjá lögreglu annars vegar og fyrir dómi hins vegar, svo sem að framan er rakið, en langur tími leið frá atvikum málsins þar til skýrslur voru loks teknar af vitnum fyrir lögreglu. Framburður A er ekki afdráttarlaus og ákærði hefur neitað sök frá upphafi. Þegar allt þetta er virt verður ekki talið að fram sé komin lögfull sönnun um sekt ákærða, sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Verður niðurstaða málsins samkvæmt því sú að ákærði verður sýknaður og allur sakarkostnaður lagður á ríkissjóð. Skaðabótakröfu Y verður vísað frá héraðsdómi.
III.
Með héraðsdómi var verjanda ákærða, Jóni Egilssyni héraðsdómslögmanni, gert að greiða í ríkissjóð 40.000 krónur í réttarfarssekt fyrir háttsemi við aðalmeðferð málsins, sem nánar er lýst í niðurlagi forsendna dómsins. Hefur þessum þætti dómsins verið áfrýjað sérstaklega og krefst verjandinn sýknu. Mótmælir hann því að nokkurt þeirra atriða, sem héraðsdómari tilgreinir sem ástæðu fyrir þeirri ákvörðun að beita réttarfarssekt, eigi við rök að styðjast. Af hljóðupptöku frá aðalmeðferð málsins í héraði er ljóst að verjandinn hefur komið ósæmilega fram í dómsal, eins og nánar er skýrt í forsendum héraðsdóms, og sýnt réttinum fádæma óvirðingu. Braut hann með því ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 19/1991. Verður ákvæði hins áfrýjaða dóms um réttarfarssekt því staðfest.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í málinu.
Skaðabótakröfu Y er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, samtals 250.000 krónur.
Ákvæði héraðsdóms um réttarfarssekt skal vera óraskað.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2004.
Mál þetta sem dómtekið var 10. júní sl. er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 2. mars sl. á hendur X fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 1. desember 2002 á skemmtistaðnum Vídalín, Aðalstræti 10, Reykjavík, slegið Y, hnefahögg á ennið og ýtt við honum svo hann féll á gólfið, með þeim afleiðingum að hann hlaut 6 sm langan skurð á enni, sem sauma þurfti saman, og rifbeinsbrotnaði.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegingarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu gerir Y kröfu um skaðabætur að fjárhæð 519.762 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri upphæð frá 1. desember 2002 til 12. desember 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður, en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst verjandi þess að skaðabótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi. Einnig krefst hann málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 1. desember 2002, fór lögregla á skemmtistaðinn Vídalín í Aðalstræti þar sem tilkynnt hafði verið um mann með áverka á höfði. Á vettvangi var A að stumra yfir brotaþola, Y, sem var með skurð á enni og benti A á ákærða, X, sem þann sem slegið hefði brotaþola. Ákærði var handtekinn og var hann blóðugur á báðum höndum, auk þess sem hann var hruflaður á hnúum vinstri handar. Hann tjáði lögreglu að komið hefði til hópslagsmála á skemmtistaðnum og vissi hann ekki hver hefði átt upptökin. Hann neitaði því að hafa veitt brotaþola þá áverka sem hann hafði. Ákærði var klæddur blárri peysu með pepsí auglýsingu framan á.
Brotaþoli kvaðst hafa verið að dansa á dansgólfi skemmtistaðarins er karlmaður í blárri peysu ,,með einhverju hvítu framan á” hefði lamið sig. Líklega hefði hann lamið sig í ennið með flösku eða glasi, þar sem hann hefði fengið glerbrot yfir andlitið.
Í málinu var lagt fram læknisvottorð Hlyns Þorsteinssonar frá 15. desember 2002. Í vottorðinu kemur fram að brotaþoli hafi komið á slysa- og bráðamóttöku LSH í Fossvogi 1. desember 2002. Við skoðun hafi andlit hans verið blóði drifið og um 6 sm skurður, sigðlaga, hafi verið á enni. Sárið hafi verið dálítið tætt og gæti í sjálfu sér svarað til þess að honum hafi verið veitt högg með hörðum hlut, t.a.m. úr gleri og hluturinn hafi þá brotnað á enni brotaþola. Ekki hafi sést glerbrot í skurðinum. Önnur áverkamerki hafi ekki reynst í andliti, en smávegis eymsli yfir kinnbeinum alveg upp við nef hægra megin. Við þreifingu hafi enn fremur fundist aumur punktur yfir 8. rifbeini út á síðunni. Lungnahlustun hafi verið eðlileg og ósennilegt að nokkur áverki hafi orðið á öndunarfærum. Sárið hafi verið deyft og saumað með 9 sporum, en vegna þess hve skurðurinn hafi verið tættur virtist hann liggja fremur illa saman. Reynt hafi verið að snyrta kanta sársins eftir föngum, en líklegt hafi þótt að örið gæti orðið fremur áberandi. Vegna gruns um rifbrot hafi brotaþoli fengið lyfseðil upp á bólgueyðandi lyf og verkjastillandi lyf.
Við aðalmeðferð máls þessa gaf ákærði skýrslu fyrir dómi og vitnin Y, A, C, B, Karl Jóhann Sigurðsson lögreglumaður og Hlynur Þorsteinsson læknir.
Verður nú rakinn framburður þeirra.
Ákærði, X, kvaðst hafa verið að skemmta sér umrætt kvöld á skemmtistaðnum Vídalín. Nokkur læti hafi verið á dansgólfinu og ákærði gengið á milli C vinar síns og brotaþola. Hann hafi þá fengið högg í höku og á brjóstkassa. Hann hafi upplifað það sem árás og snúið brotaþola niður og þeir báðir fallið á gólfið og endað inni á salerni. Hann kvaðst ekki hafa slegið brotaþola, en hann hafi ýtt við honum svo að hann féll á gólfið, en það hafi ákærði gert í vörn. Ákærði hafi séð blóð í andliti brotaþola. Aðspurður hvaðan blóð það kom sem var á höndum ákærða er hann var handtekinn, kvaðst ákærði telja að það hafi verið blóð úr brotaþola, en kvaðst annars ekki vita það. Ákærði kvaðst hafa meiðst á hökunni í þessum átökum. Þegar borinn var undir ákærða framburður ákærða í lögregluskýrslu frá janúar 2004, um að hann hefði slegið ákærða einu eða tveimur höggum, kvað ákærði þar rangt eftir sér haft. Nánar aðspurður kvað hann það ,,bara rugl” sem haft var eftir honum. Hann hafi ekki lesið skýrsluna yfir, en staðfest hana engu að síður með undirskrift sinni.
Vitnið, Y, kvaðst hafa verið að skemmta sér á veitingastaðnum Vídalín. Hann hafi ásamt vinum sínum, A og B farið að dansa. Einhver hamagangur hafi verið á A á dansgólfinu og hafi A rekist í vitnið, sem rekist hafi í manninn sem við hlið hans var á dansgólfinu. Vitnið hafi snúið sér við og hafi þá ákærði slegið sig í ennið. Ítrekað aðspurt kvaðst vitnið hafa séð ákærða reiða til höggs en ákærði hafi væntanlega haldið á flösku. Afleiðingar höggsins hafi verið 6 sm langur skurður á enni. Ákærði hafi verið klæddur í bláan bol. Vitnið kvaðst hafa vankast við höggið og hörfað undan, fallið aftur fyrir sig inn á salerni sem er við hlið dansgólfsins. Vitnið hafi lent á bakinu og ákærði ofan á vitninu. Vitnið kvaðst gera ráð fyrir að hann hafi fallið í gólfið vegna þess að ákærði hefði ýtt við sér. Vitnið kvaðst ekki hafa lent í illindum við neinn annan en ákærða umrætt kvöld.
Vitnið kvað A hafa staðið við hlið sér á dansgólfinu er þetta gerðist, en kvaðst ekki vita hvar B vinur hans hafi verið. Vitnið kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis þetta kvöld og kvað ákærða hafa verið mjög ölvaðan og æstan. Vitnið kvaðst hafa farið á slysadeild og hafi það hlotið rifbeinsbrot við árás ákærða og fengið skurð á höfuðið. Vitnið kvaðst hafa verið lengi að jafna sig eftir rifbeinsbrotið, og beri ör á enni eftir skurðinn.
Vitnið, C, kvaðst hafa verið staddur á veitingastaðnum Vídalín umrætt kvöld ásamt ákærða. Hann kvaðst hafa staðið þar við barborðið og brotist hafi út læti einhvers staðar á bak við vitnið. Hann hafi snúið sér við og fengið högg í andlitið. Þegar hann hafi farið að verja sig hafi komið dyraverðir og leyst upp átökin. Hann kvaðst ekki hafa séð ákærða þegar þetta gerðist, en vitnið kvaðst vita að ákærði hefði verið í húsinu. Hann kvaðst ekki hafa séð áverka á neinum.
Vitnið, A, kvaðst hafa verið staddur á veitingastaðnum Vídalín umrætt kvöld ásamt brotaþola. Þeir hafi verið þar um eittleytið og hafi þeir verið búnir að neyta einhvers áfengis. Þeir hafi verið að dansa á gólfinu og einhverjir þrír strákar hafi verið þar fyrir og sér hafi fundist að þeir væru að espa vitnið og félaga hans upp. Vitnið hafi þó látið sér fátt um finnast, en allt í einu séð hvar brotaþoli hafi kastast til og þrír strákar farið í hann. Um leið og það hafi gerst hafi hann séð hönd á lofti og vitnið hafi heyrt brothljóð. Hann hafi þó ekki séð höggið ríða af. Vitnið hafi þá þrykkt í einn af þessum þremur strákum og reynt að draga hann frá hópnum. Síðan hafi dyravörður komið og leyst upp hópinn. Hann kvaðst hafa séð árásarmann þegar dyraverðir höfðu hann í haldi og þótt eðlilegt að sá maður væri í haldi, en ekki hinir tveir, þar sem hann hafi ekki séð þá tvo veita brotaþola nein högg. Sá sem í haldi var hafi verið ,,þessi sem mér fannst sveifla” og ,,þessi sem var mest pirrandi á dansgólfinu”. Hann hafi verið grannur vexti. Vitnið kvaðst ekki hafa séð brotaþola aftur fyrr en hann var kominn í umsjá starfsfólks, en fossblætt hafi úr enni brotaþola. Borin var undir vitnið lögregluskýrsla sem það gaf 1. september 2003 fyrir lögreglu og staðfesti vitnið að þar væri rétt eftir því haft.
Vitnið, B, kvaðst hafa verið ásamt brotaþola og A á skemmtistaðnum Vídalín umrædda nótt. Vitnið kvaðst ekki hafa séð atburðarásina, en brotaþoli hafi verið búinn að vara hann við því að einhverjir strákar þarna væru með óþarfa læti. Vitnið hafi ekki séð hvað gerðist en séð að einhver átök voru á dansgólfinu, en sá ekki hverjir áttu í þeim. Honum hafi ekki dottið í hug að þar væri um vini hans að ræða. Hann hafi síðan farið á salernið og hitt þar brotaþola, alblóðugan, og hafi brotaþoli sagt við hann að hann hafi verið laminn í höfuðið með glasi eða flösku, en ung stúlka hafi verið að stumra yfir honum. Vitnið hafi síðan frétt að brotaþoli hafi verið fluttur á brott í sjúkrabifreið. Vitnið kvaðst hafa neytt áfengis um kvöldið, en ekki svo mikils að hann hafi ekki munað stað og stund.
Vitnið, Karl Jóhann Sigurðsson, lögreglumaður kom fyrir dóm. Hann kvaðst ekkert muna eftir atviki þessu, en staðfesti að hann hefði unnið frumskýrslu lögreglu frá 1. desember 2002.
Vitnið Hlynur Þorsteinsson, læknir á slysa- og bráðamóttöku LSH, kvaðst ekki sjálfur hafa metið hvort um rifbrot væri að ræða hjá brotaþola, heldur hafi Gísli Björn Bergmann aðstoðarlæknir skoðað brotaþola. Vitnið sagði að í fæstum tilvikum væru teknar röntgenmyndir þegar grunur væri um rifbrot, en einkenni sjúklings réðu því hvort læknir mæti að um rifbrot væri að ræða. Ef þau væru nægilega mikil, þannig að sama sé hvar á beinið er þrýst, þá væru líkindi fyrir því að sprunga hafi myndast íbeininu. Vitnið kvaðst ekki geta staðfest að um rifbrot hafi verið að ræða hjá brotaþola, þess vegna væri oft tekið svo til orða í læknisvottorðum að grunur væri um rifbrot, enda væri ekki svo auðvelt að staðfesta brot.
Vitnið kvað hugsanlegt að sárið sem brotaþoli fékk hafi verið eftir gler, t.d. flöskubrot, en ósennilegt væri að áverkinn hefði hlotist af hnefahöggi einu saman.
Niðurstaða.
Ákærði hefur neitað því að hafa slegið brotaþola með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir, en viðurkennt að hafa í sjálfsvörn ýtt við honum svo að hann féll á gólfið. Ákærði gat enga skýringu gefið á afturhvarfi frá þeim framburði sínum fyrir lögreglu að hann hefði slegið ákærða einu eða tveimur höggum. Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði ætlað að ganga á milli C vinar síns og brotaþola og þá verið sleginn í andlitið. Vitnið C bar hins vegar fyrir dómi að hann hefði ekki séð ákærða í þeim átökum sem urðu á dansgólfinu, en sannað er með framburði ákærða sjálfs að hann var þar.
Brotaþoli, Y, lýsti því að hann hefði séð ákærða reiða til höggs og hafi höggið komið í enni hans. Hann kvaðst ekki hafa lent í illdeilum við neinn annan en ákærða umrætt kvöld. Brotaþoli kvað ákærða væntanlega hafa haldið á flösku er hann reiddi til höggs. Framburður brotaþola var greinargóður, borinn fram af mikilli yfirvegun og ýkjulaus.
Vitnið, A, bar fyrir dómi að hann hefði séð árásarmann þegar dyraverðir höfðu hann í haldi og þótt eðlilegt að sá maður væri í haldi, þar sem það hafi verið sá sem hafi verið ,,mest pirrandi á gólfinu” og sá sem honum hafi fundist vera árásarmaðurinn. Hann hafi verið grannur vexti. Framburður vitnsins var að mati dómsins trúverðugur og rennir stoðum undir framburð brotaþola.
Er lögrega yfirheyrði brotaþola á vettvangi kvað brotaþoli árásarmann hafa verið klæddan blárri peysu ,,með einhverju hvítu framan á”. Í lögregluskýrslu kom fram að ákærði var klæddur blárri peysu með pepsí auglýsingu framan á. Þar kom jafnframt fram að ákærði var blóðugur á höndum er hann var handtekinn og fyrir dómi bar ákærði að líklega hefði það blóð komið úr brotaþola.
Með hliðsjón af framangreindu er ótrúverðugur sá framburður ákærða að hann hafi aðeins ýtt við brotaþola, svo að hann féll á gólfið.
Í læknisvottorði Hlyns Þorsteinssonar læknis kemur fram að er brotaþoli kom á slysadeild hafi hann verið með 6 sm sigðlaga skurð á enni og hafi sárið verið tætt. Sárið gæti í sjálfu sér svarað til þess að honum hafi verið veitt högg með hörðum hlut, t.a.m. úr gleri, en ekki hafi sést glerbrot í skurðinum. Fyrir dómi kom enn fremur fram hjá vitninu að það gæti ekki staðfest að um rifbrot hafi verið að ræða hjá brotaþola, enda væri ekki svo auðvelt að staðfesta brot. Enn fremur kvað vitnið sennilegt að sárið á enni brotaþola hefði myndast við högg frá hörðum hlut, en ekki einungis af hnefahöggi.
Framburður annarra vitna var ekki afdráttarlaus um það hvort ákærði hefði veitt brotaþola högg með glerhlut og verður hann ekki lagður til grundvallar, enda er einungis ákært í málinu fyrir hnefahögg.
Þegar allt framangreint er virt er sannað að ákærði hafi slegið Y hnefahögg í ennið og ýtt við honum svo að hann féll í gólfið með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut 6 sm skurð á enni. Ákærði er því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Með hliðsjón af framburði vitnisins Hlyns Þorsteinssonar læknis fyrir dómi er ósannað að ákærði hafi rifbrotnað af völdum ákærða.
Refsiákvörðun.
Ákærði er fæddur í apríl 1981. Hann gekkst undir 68.000 króna sekt 24. ágúst 1999 fyrir brot gegn 1., sbr. 3. mgr. 45. og 73. gr. umferðarlaga. Þá hlaut hann 3 mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundinn í 2 ár, 29. desember 2000, fyrir brot gegn 1. mgr. 259. gr., 1. mgr. 259. gr., sbr. 20. gr., og 244. gr almennra hegningarlaga, 7., sbr. 22. gr. laga nr. 112/1984, 1. mgr. 3. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 113/1984 og 22., sbr. 27. gr. áfengislaga. Síðast hlaut ákærði 105 daga fangelsisdóm 18. maí 2001 fyrir brot gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga, skilorðsbundinn í 2 ár frá 29. desember 2000. Með þeim dómi var 3 mánaða skilorðsdómur frá 29. desember 2000 tekinn upp og dæmdur með.
Með broti því sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð 105 daga fangelsisdóms frá 18. maí 2001 og ber því með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp dóminn og ákveða refsingu ákærða í einu lagi, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Þegar framangreint er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 5 mánaða fangelsi, en rétt þykir í ljósi þess hversu rannsókn málsins hefur dregist á langinn, án þess að við ákærða sé að sakast, að fresta fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Skaðabótakrafa.
Í málinu liggur frammi skaðabótakrafa Y að fjárhæð 519.762 og er hún sundurliðuð svo:
1. Þjáningabætur kr. 9.600
2. Miskabætur kr. 350.000
3. Útlagður kostnaður kr. 40.000
4. Lögmannsaðstoð með vsk. kr. 120.162.
Brotaþoli féll frá kröfu sinni um útlagðan kostnað að fjárhæð 40.000 krónur.
Krafa um þjáningabætur er reist á 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Miskabótakröfu styður brotaþoli við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Árás ákærða á brotaþola hafi ekki aðeins verið tilefnislaus, heldur fólskuleg og gróf og verði ekki afsökuð með nokkru móti. Með fólskulegri og hættulegri aðför sinni að líkama brotaþola hafi ákærði af ásetningi gerst sekur um grófa og ólögmæta meingerð gegn friði og persónu brotaþola, sbr. a- og b- lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Vegna þessa eigi brotaþoli rétt til miskabóta úr hendi ákærða.
Kröfu sína um greiðslu vegna lögmannsaðstoðar styður brotaþoli við 4. tl. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og vaxtakröfu sína styður brotaþoli við 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og 9. gr. , sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Vaxta er krafist samkvæmt 8. gr. laganna frá þeim degi er hið bótaskylda atvik áttir sér stað, sbr. og 11. gr. laganna, en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna frá því að mánuður var liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar.
Sannað er í málinu að ákærði veitti brotaþola áverka í andlit, 6 sm langan skurð á enni.
Við ákvörðun miskabóta verður að líta til þess að ákærði réðst fólskulega að brotaþola og veitti honum stóran skurð á enni og ber hann varanleg mein árásarinnar. Með þessari háttsemi gerðist ákærði sekur um ólögmæta meingerð gegn persónu brotaþola. Samkvæmt því og með vísan til 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ber að dæma ákærða til að greiða brotaþola miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 75.000 krónur. Þá verður ákærði og dæmdur til að greiða brotaþola kostnað hans vegna lögmannsaðstoðar við að halda fram kröfu sinni, sem þykir hæfilega ákveðinn 70.000 krónur.
Í málinu nýtur engra læknisfræðilegra gagna við um að brotaþoli geti hafa talist veikur í skilningi 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga í kjölfar árásar ákærða og er kröu um þjáningabætur því vísað frá dómi.
Ákærði er því dæmdur til að greiða Y 145.000 krónur í skaðabætur. Ákærða var birt skaðabótakrafan 16. janúar 2004 og ber hún því dráttarvexti frá 16. febrúar 2004 til greiðsludags samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Sakarkostnaður.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 80.000 krónur.
Við aðalmeðferð málsins braut verjandi ákærða gegn 1. mgr. 11. gr. laga nr. 19/1991. Hann virti að vettugi ábendingar dómara um að gæta að reglum 2. mgr. 59. gr. laganna við spurningar sínar til vitna, greip ítrekað fram í fyrir vitnum og dómara, gerði dómara upp skoðanir, truflaði yfirheyrslur gagnaðila yfir vitnum og sýndi með þessu af sér ósæmilega framkomu í dómsal. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laganna verður honum gerð 40.000 króna sekt vegna þeirrar hegðunar, sem renni í ríkissjóð.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Daða Kristjánssyni fulltrúa lögreglustjórans í Reykjavík.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði Y 145.000 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 1. desember 2002 til 16. febrúar 2004 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laganna til greiðsludags. Vísað er frá dómi kröfu vegna þjáningabóta.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 80.000 krónur.
Verjandi ákærða, Jón Egilsson, héraðsdómslögmaður greiði í ríkissjóð 40.000 króna sekt.