Hæstiréttur íslands

Mál nr. 247/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ábyrgðartrygging
  • Aðild
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 7

 

Þriðjudaginn 7. september 2004.

 

Nr. 247/2004.

Rannsóknarsjóður í slitgigtarsjúkdómum

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

 

Kærumál. Ábyrgðartrygging. Aðild. Frávísunarúrskurður staðfestur.

R krafði S hf. um greiðslu skaðabóta úr ábyrgðartryggingu fyrirtækis sem tekið hafði verið til skipta samkvæmt reglum um slit fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Með vísan til þess að ekkert lá fyrir um að skaðabótaskyldan hefði verið staðreynd, þótt fjárhæð kröfu R hefði verið viðurkennd af skiptastjóra á öðrum grundvelli, og að S hf. þyrfti ekki að vera bundið af þeirri ákvörðun skiptastjóra þar sem hann hefði hafnað bótaskyldu, voru skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga ekki talin vera fyrir hendi. Þá var ekki það samband með vátryggingartaka og S hf. að félagið hefði fyrirsvar fyrir þann fyrrnefnda. Samkvæmt þessu og með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var kröfum R vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp 17. maí 2004 í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila og Sigrúnu Eysteinsdóttur, en með honum var vísað frá dómi kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfur hans gegn varnaraðila til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2004.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 22. mars sl. er höfðað með stefnu birtri 11. september sl. á hendur Sigrúnu Eysteinsdóttur og 15. september sl. á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

                Stefnandi er Rannsóknarsjóður í slitgigtarsjúkdómum, Garðsenda 21, Reykjavík

Stefndu eru Sigrún Eysteinsdóttir, Lómasölum 21, Kópavogi og og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

- aðallega að Sigrúnu Eysteinsdóttur, Lómasölum 21, Kópavogi og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 3, Reykjavik, verði in solidum gert að greiða stefnanda kröfu að fjárhæð kr. 7.750.000,- ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 19. september 2001 til greiðsludags. Þá er gerð krafa um að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti á lögmannsþóknun.

- til vara er gerð krafa um að viðurkennt verði með dómi að Burnham International á Íslandi hf, hafi verið skaðabótaskylt gagnvart stefnanda vegna óheimillar ráðstöfunar á vörslufé stefnanda að fjárhæð kr. 7.750.000,- ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 19. September 2001 til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti á lögmannsþóknun.

 

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf, krefst þess aðallega að kröfum stefnanda á hendur félaginu verði vísað frá dómi og því verði dæmdur málskostnaður samkvæmt mati dómsins.

Fyrsta varakrafa stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf, er að félagið verði sýknað af kröfum stefnanda og að því verði dæmdur málskostnaður samkvæmt mati dómsins.

Önnur varakrafa stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., er að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og greiðsla úr vátryggingu sæti takmörkun samkvæmt vátryggingarskilmálum félagsins á dómskjali nr. 17 þannig að heildargreiðslur til allra kröfuhafa samkvæmt vátryggingunni geti aldrei orðið hærri en 50 milljónir króna að meðtöldum kostnaði umfram 1.5 milljón króna. Er þess krafist að málskostnaður verði í þessu tilviki felldur niður.

Þriðja varakrafa stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., er að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og greiðsla úr vátryggingu sæti takmörkun samkvæmt vátryggingarskilmálum félagsins á dómskjali nr. 18 þannig að heildargreiðslur til allra kröfuhafa samkvæmt vátryggingunni geti aldrei orðið hærri en 100 milljónir króna. Er þess krafist að málskostnaður verði í þessu tilviki felldur niður.

Stefnda, Sigrún Eysteinsdóttir, krefst aðallega sýknu á aðalkröfu stefnanda og kröfu um málskostnað og að henni verði dæmdur málskostnaður samkvæmt mati dómsins.

Til vara er þess krafist af hálfu stefndu, Sigrúnar Eysteinsdóttur, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega en málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.

 

Krafa Sjóvár Almennra trygginga hf. um að kröfum á hendur því félagi verði vísað frá dómi er til úrlausnar hér.

 

Stefnandi gerði gerði samning 10. október 2000 við stefnda Burnham International á Íslandi hf. um þjónustu við fjárvörslu, þar sem þeim síðarnefnda var veitt umboð til að kaupa og selja verðbréf fyrir hann. Tekið var þar fram að umboð til viðskipta með verðbréf í þágu stefnanda væri bundið við ríkistryggð skuldabréf og víxla, húsbréf, bankatryggð skuldabréf og víxla, skuldabréf og víxla sveitarfélaga, víxla fyrirtækja með ábyrgðarmanni, hlutabréf skráð hjá Verðbréfaþingi Íslands hf. eða á opna tilboðsmarkaðinum, erlend verðbréf, sem skráð væru á viðurkenndum markaði, og óskráð erlend hlutabréf og fjárfestingarsamlög. Fólst í ákvæðum samningsins að slík viðskipti væru ekki háð samþykki stefnanda hverju sinni.

Í yfirliti frá Burnham International á Íslandi hf. til stefnanda 11. maí 2001 um verðbréf þess síðarnefnda í vörslum félagsins 30. apríl s. á. kom fram að stefnandi hafi þá átt þar innlend og erlend verðbréf að andvirði samtals 16.409.307 krónur, þar með talinn víxil, sem þar var tilgreindur með lýsingunni „S004083 Burnham Int.L“, að nafnverði 7.750.000 krónur. Þessa víxils og annarra samsvarandi var eftir þetta getið í yfirlitum um verðbréfaeign stefnanda í vörslum félagsins 31. júlí, 31. ágúst, 30. september og 31. október 2001, en þó þannig að númer víxla urðu önnur þegar fram liðu stundir. Í síðasta yfirlitinu, sem tók mið af verðbréfaeign stefnanda 28. nóvember 2001, var getið um víxil af þessum toga, sem bar númerið S004202 og var að nafnverði 7.750.000 krónur.

Burnham International á Íslandi hf. var svipt starfsleyfi til verðbréfaviðskipta 27. nóvember 2001. Sama dag mun gekk úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur um að félagið væri tekið til skipta eftir reglum um slit fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, sbr. áðurnefnda 59. gr. laga nr. 13/1996, eins og þeim hafði verið breytt með 7. gr. laga nr. 163/2000. Skiptastjóri, sem skipaður var til að fara með félagsslitin, gaf út innköllun vegna þeirra. Á kröfulýsingarfresti kom meðal annars fram krafa frá stefnanda í bréfi 9. janúar 2002. Hann vísaði þar til áðurgreinds samnings aðilanna 10. október 2000, sem hafi haft skýr ákvæði um heimildir Burnham International á Íslandi hf. til að ráðstafa fé stefnanda. Hafi hinn fyrrnefndi 19. júní 2001 varið hluta af fénu til kaupa á víxli án ábyrgðarmanna, sem stafaði frá honum sjálfum, en til þess hafi hann enga heimild haft. Taldi stefnandi þetta skýrlega vera brot á samningi aðilanna, enda ráðstöfunin bersýnilega ekki í samræmi við hagsmuni hans. Kröfunni lýsti stefnandi sem forgangskröfu samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 og nam fjárhæð hennar 8.466.382 krónum að meðtöldum áföllnum dráttarvöxtum og kostnaði. Í málinu liggur einnig fyrir bréf stefnanda til skiptastjóra 18. janúar 2002, þar sem aftur var lýst kröfu vegna sömu atvika og að framan er getið, en þó tekið fram að krafan væri um skaðabætur og fjárhæð hennar samtals 8.766.992 krónur. Rök voru þar færð fyrir skaðabótaskyldu og krafan sögð vera reist á „reglum skaðabótaréttar og lögum nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti.“ Í niðurlagi bréfsins vakti stefnanda athygli á því að hann hafi áður lýst kröfu til skiptastjóra „um greiðslu fyrrgreinds víxils.“

Í skrá um lýstar kröfur, sem skiptastjóri gerði 14. mars 2002, greindi hann frá þeirri afstöðu að hafna ætti áðurnefndum kröfum stefnanda, sem væru „bótakröfur-víxill“ að fjárhæð 8.766.992 krónur. Á skiptafundi, sem skiptastjóri hélt 22. sama mánaðar, komu fram mótmæli stefnanda gegn þessari afstöðu. Skiptafundur var haldinn á ný 19. apríl 2002 til að leitast við að jafna ágreining um lýstar kröfur, þar á meðal kröfu stefnanda. Á þeim fundi féll stefnandi frá kröfu sinni um að fjárkröfu hans yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Að öðru leyti var eftirfarandi tekið fram í fundargerð varðandi umfjöllun um þessa kröfu og tvær aðrar, sem sams konar ágreiningur stóð um: „Skiptastjóri ákveður að breyta afstöðu sinni og samþykkja kröfurnar sem almennar kröfur með þeim fjárhæðum sem koma fram í kröfulýsingum. Skiptastjóri viðurkennir þó ekki að Burnham á Íslandi hf. hafi bakað sér bótaábyrgð vegna þeirra viðskipta sem liggja að baki kröfunum. Lögmenn kröfuhafa mótmæla þessari afstöðu skiptastjóra og telja að um bótaskylt tjón sé að ræða sem falli undir þær tryggingar sem Burnham á Íslandi hf. hafi keypt af Sjóvá-Almennum hf.“ Var enn ákveðið að reyna að jafna þennan ágreining á síðari skiptafundi, sem var haldinn 20. ágúst 2002. Sú viðleitni bar ekki árangur og beindi skiptastjóri ágreiningsefninu til Héraðsdóms Reykjavíkur 27. sama mánaðar og var mál þingfest þar fyrir dómi 20. september 2002. Því máli lauk með dómi Hæstaréttar 10. apríl 2003 þar sem málinu var sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi. Var talið að stefnandi gæti ekki nú haldið kröfu sinni, sem þegar hafði verið viðurkennd, til streitu með málsókn fyrir dómi til þess eins að fá úr því leyst hvort það skyldi gert á grundvelli einnar málsástæðu sinnar fremur en annarrar, sbr. meginreglu 1. mgr. 98. gr. laga um meðferð einkamála. Hefði stefnandi því ekki haft lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, svo sem það hafði verið lagt fyrir dómstóla.

Stefnandi hefur nú höfðað mál þetta á hendur stefndu Sigrúnu Eysteindóttur og stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og kemur fram í málatilbúnaði hans að hann telji ekki unnt að beina kröfum að Burnham International á Íslandi hf. vegna framangreindrar úrlausnar dómstóla.

 

Í málatilbúnaði stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf. segir að Burnham International á Íslandi hf hafi verið með tvennskonar tryggingar í gildi á þeim tíma sem hér skiptir máli, annars vegar almenna starfsábyrgðartryggingu fyrir starfsmenn og hins vegar vátryggingu fyrir stjórnendur félagsins, eins og þeir séu skilgreindir í skilmálum tryggingarinnar.

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., byggir á því að stefnandi máls geti ekki beint kröfum sínum beint að honum samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga um vátryggingarsamninga, sbr. og 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu sé fyrst unnt að höfða má1 beint á hendur vátryggingarfélagi þegar „staðreynt hefur verið, að vátryggður sé skaðabótaskyldur þeim, er tjónið beið, og upphæð bótanna ákveðin." Eins og gögn málsins beri með sér hafi þessu skilyrði ekki verið fullnægt og sé því engin lagaheimild til þess að höfða má1 þetta beint á hendur stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Beri því að vísa kröfu stefnanda á hendur félaginu frá dómi, en öðrum kröfum í stefnu sé ekki beint að stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Verði ekki fallist á frávísun máls vegna 26. gr. laga nr. 91/1991 sé í öllu falli ljóst að sýkna beri stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. sömu laga.

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., byggir jafnframt á því að kröfugerðin á hendur félaginu sé vanreifuð í stefnu þar sem það hafi farist fyrir að gera grein fyrir því á hvaða grundvelli stefnandi krefjist greiðslu beint frá félaginu. Eins og fyrr segi hafi félagið verið með tvenns konar tryggingar í gildi, annars vegar vátryggingu fyrir stjórnendur og hins vegar hefðbundna starfsábyrgðartryggingu fyrir alla starfsmenn. Í stefnu sé enginn greinarmunur gerður á þessum tveimur tryggingum og því óljóst á grundvelli hvorrar tryggingarinnar stefnandi byggi sína kröfugerð, en skilmálar trygginganna séu ekki eins. Einnig skorti uppá að stefnandi geri grein fyrir því á grundvelli hvaða ákvæða í tryggingarskilmálunum kröfugerð hans sé reist. Krefst stefndi frávísunar máls vegna þessarar vanreifunar með vísan til 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýra framsetningu kröfugerðar og málsástæðna í stefnu. Önnur varakrafa stefnda taki mið af því að stefnandi byggi kröfugerð sína á starfsábyrgðartryggingunni. Þriðja varakrafa taki hins vegar mið af því að hún sé reist á „stjórnendatryggingunni". Mismunandi takmörkunarreglur séu í tryggingarskilmálum, sem taka þurfi mið af ef til þess komi að það reyni á beina ábyrgð stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., gagnvart stefnanda.

 

Í þessum þætti málsins er þess krafist af stefnanda að kröfu um frávíun verði hafnað og  að honum verði úrskurðaður máslkostnaður í þessum þætti málsins.

Stefnandi eigi þess ekki kost að höfða mál á hendur Burnham International á Íslandi hf. sem geti leitt til þess að stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. sleppi undan því að greiða bætur úr ábyrgðartryggingu þeirri er Burnaham Internationl á Íslandi hf keypti hjá honum. Sé það óviðunandi niðurstaða að reglur réttarfarslaga leiði til þess að stefnandi geti ekki fengið úrlausn um efni kröfu sinnar. Það hljóti að vera hlutverk dómstóla að leysa úr álitaefni eins og hér sé á ferðinni og beri að hafna kröfu stefnda um frávísun krafna á hendur honum.

 

Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sem tekur til ábyrgðartrygginga, öðlast sá, sem tjón bíður, rétt vátryggðs á hendur vátryggingarfélagi, þegar staðreynt hefur verið, að vátryggður sé skaðabótaskyldur þeim, er tjónið beið og upphæð bótanna hefur verið ákveðin. 

Stefnandi beinir aðalkröfu sinni að stefndu Sigrúnu Eysteinsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Burnham International á Íslandi hf. og stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. in solidum. Enda þótt fyrir liggi að fjárhæð kröfu stefnanda hafi verið viðurkennd af skiptastjóra Burnham International á Íslandi liggur ekki fyrir að skaðabótaskylda samkvæmt ábyrgðartryggingu þeirri er keypt var hjá hinu stefnda tryggingarfélagi hafi verið staðreynd. Er og þess að gæta að stefndi, Sjóvá - almennar tryggingar hf., þarf ekki að vera bundinn af framangreindri ákvörðun vátryggingartaka um fjárhæð kröfu stefnanda enda bótaskyldu hafnað af skiptastjóra. Skortir því á að skilyrði framangreinds lagaákvæðis séu fyrir hendi og verður því þessari kröfu stefnanda á hendur stefnda vísað frá dómi.

Þá er ekki það samband með tryggingartaka og stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að tryggingarfélagið hafi fyrirsvar fyrir þann fyrrnefnda og stefnandi getur ekki að óbreyttum lögum beint kröfum að stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. einum með það að markmiði að fá dóm um skaðabótaskyldu Burnham International á Íslandi hf. Verður þannig að fallast á það með þessum stefnda að skilyrði til málsóknar þessarar séu ekki fyrir hendi.

Samkvæmt þessu og með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður kröfum stefnanda á hendur stefnda Sjóvá Almennum tryggingum hf. vísað frá dómi. Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan

ÚRSKURÐARORÐ

                Kröfum stefnanda, Rannsóknarsjóðs í Slitgigtarsjúkdómum, á hendur stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., er vísað frá dómi.

                Málskostnaður fellur niður.