Hæstiréttur íslands
Mál nr. 355/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Útburðargerð
- Birting
|
|
Föstudaginn 11. júlí 2008. |
|
Nr. 355/2008. |
Ólöf Kristín Ingólfsdóttir ogHannes Ragnarsson(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) gegn Kaupþingi banka hf. (Bjarni Aðalgeirsson hdl.) |
Kærumál. Útburðargerð. Birting.
H og Ó byggðu á því að hafna bæri kröfu K um útburð þar sem boðun til þinghalds til fyrirtöku beiðninnar hefði ekki farið fram með lögmætum hætti. Talið var að aðfararbeiðni hefði verið birt H og Ó með lögformlegum hætti og að efni birtingarvottorðs hefði ekki verið hnekkt. Þar sem K naut umráðaréttar yfir eigninni samkvæmt 55. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 var fallist á kröfu bankans um útburð H og Ó.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðilar skutu máli þessu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2008, þar sem varnaraðila var heimilað með beinni aðfarargerð að fá sóknaraðila borna út úr fasteigninni nr. 8 við Gljúfrasel í Reykjavík, ásamt öllu því sem þeim tilheyrir. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðilar krefjast þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að þau verði borinn út úr fasteigninni og að þeim verði dæmdur kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að hann falli niður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Ólöf Kristín Ingólfsdóttir og Hannes Ragnarsson, greiði óskipt varnaraðila, Kaupþingi banka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2008.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 8. maí sl., barst dóminum með beiðni móttekinni 29. janúar 2008.
Sóknaraðili, Kaupþing banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík, krefst þess að varnaraðilar, Ólöf Kristín Ingólfsdóttir og Hannes Ragnarsson, Gljúfraseli 8, Reykjavík, verði ásamt þeim og öllu því sem þeim tilheyrir, bornir út úr húsnæði því er þeir hafa haft til afnota að Gljúfraseli 8, fastanúmer 205-4485, Reykjavík, með beinni aðfarargerð.
Þá er krafist málskostnaðar auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Af hálfu varnaraðila Ólafar hefur ekki verið sótt þing í málinu.
Varnaraðili Hannes krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar.
I.
Málavextir eru þeir að þann 10. september 2007 var fasteignin Gljúfrasel 8, Reykjavík, fastanúmer 205-4485, seld nauðungarsölu, en eignin var þinglýst eign varnaraðila Ólafar. Sóknaraðili var hæstbjóðandi á uppboðinu. Með yfirlýsingu sýslumannsins í Reykjavík dags. 11. janúar 2008 var því lýst yfir að boð sóknaraðila hefði verið samþykkt þar sem greitt hafi verið í samræmi við uppboðsskilmála og sóknaraðili nyti því umráða yfir hinni seldu eign. Lá þá fyrir frumvarp til úthlutunar á söluverði dags. 10. janúar 2008, en það var síðan leiðrétt með nýju frumvarpi dags. 25. janúar 2008. Með skeyti sem birt var varnaraðilum þann 14. janúar 2008 var skorað á þá að rýma húsnæðið og afhenda eigi síðar en 23. janúar. Með tölvupósti dags. 25. janúar 2008 var varnaraðilum boðið að kaupa eignina aftur á ákveðnu verði. Gefið var út uppboðsafsal til handa sóknaraðila fyrir eigninni þann 25. febrúar 2008.
II.
Sóknaraðili byggir á að hann njóti umráða yfir eigninni samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og 8. gr. uppboðsskilmála auglýsingar nr. 41/1882. Eignin hafi verið seld sóknaraðila ásamt öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber að engu undanskildu.
Varnaraðilar hafi engan leigusamning við sóknaraðila. Þeir hafi ekkert greitt fyrir afnotin af húsnæðinu og hafi neitað að fara út þrátt fyrir beiðni sóknaraðila þar um.
III.
Varnaraðili Hannes byggir á að aðfararbeiðni hafi ekki verið birt með lögmætum hætti. Það geti ekki staðist að boðun til þinghalds til fyrirtöku beiðninnar hafi verið birt fyrir varnaraðila Ólöfu á þeim tíma sem kveðið er á um í birtingarvottorði, þar sem hún hafi ekki verið heima á þeim tíma. Henni hafi því ekkert verið birt vegna málsins. Við aðalmeðferð málsins kvaðst varnaraðili, Hannes, hafa mætt við fyrirtöku málsins í héraðsdómi þar sem hann hafi séð tilkynningu um þinghaldið á vefnum.
Þá byggir varnaraðili á að farið hafi verið af stað með útburðarbeiðni áður en frumvarp til úthlutunar var samþykkt og uppboðsafsal gefið út. Jafnframt sé farið af stað með útburð um leið og varnaraðilum sé boðin eignin til kaups. Því sé ekki rétt staðið að útburðarmáli þessu af hálfu sóknaraðila.
IV.
Í máli þessu byggir varnaraðili, Hannes, á því að aðilar hafi ekki verið boðaðir til þinghalds til fyrirtöku aðfararbeiðninnar með lögmætum hætti og því beri að hafna beiðni sóknaraðila. Þá hafi varnaraðili, Ólöf, verið þinglýstur eigandi til útgáfu uppboðsafsals þann 25. febrúar 2008.
Samkvæmt birtingarvottorðum var boðun til þinghalds til fyrirtöku aðfararbeiðninnar birt varnaraðilum af stefnuvotti þann 29. febrúar sl. kl. 17.50. Birt hafi verið fyrir varnaraðila Ólöfu. Á birtingarvottorðum kemur fram að hún hafi neitað að opna og veita boðuninni viðtöku, og hafi boðunin því verið skilin eftir í póstlúgu varnaraðila.
Um birtingu aðfararbeiðni samkvæmt fyrirmælum 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 fer samkvæmt 80. gr. laganna. Þá segir í 84. gr. laganna að almennum reglum um meðferð einkamála í héraði skuli beitt um mál sem rekin séu samkvæmt 13. kafla aðfararlaga. Samkvæmt 3. mgr. 87. gr. laga um meðferð einkamála telst efni birtingarvottorðs rétt þar til hið gagnstæða sannast. Varnaraðili, Hannes, hefur lagt fyrir dóminn yfirlýsingu Báru Kemp hárgreiðslumeistara, þess efnis að varnaraðili, Ólöf, hafi verið á hárgreiðslustofu hennar á þeim tíma sem birting á að hafa farið fram. Verður ekki fallist á það með varnaraðila að með þessu teljist hafa verið sýnt framá að efni birtingarvottorða sé rangt.
Það er því niðurstaða dómsins að aðfararbeiðni hafi verið birt gerðarþolum með lögformlegum hætti líkt og kveðið er á um í 80. gr. aðfararlaga, fyrir þar til bærum aðila samkvæmt 2. mgr. 80. gr., og efni birtingarvottorðs hafi ekki verið hnekkt.
Samkvæmt 55. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 nýtur kaupandi eignar umráðaréttar yfir eign frá því boð hans er samþykkt, ef ekki er mælt á annan veg í uppboðsskilmálum. Með vísan til þessa lagaákvæðis sem og 8. gr. uppboðsskilmála auglýsingar nr. 41/1992 má ljóst vera að sóknaraðili hefur skýlausan rétt til ráðstöfunar yfir eigninni frá því boð hans var samþykkt, sbr. yfirlýsing sýslumannsins í Reykjavík dags. 11. janúar 2008. Sóknaraðili hafði gefið varnaraðilum hæfilegan frest til að rýma eignina áður en aðfararbeiðni var send til héraðsdóms. Var það gert eftir að boð sóknaraðila var samþykkt. Skilyrðum 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 er því fullnægt.
Það er því niðurstaða dómsins að taka skuli greina kröfu sóknaraðila um að varnaraðilar verði ásamt öllu því sem þeim tilheyrir, bornir út úr húsnæðinu að Gljúfraseli 8, Reykjavík.
Með vísan til þessarar niðurstöðu málsins verða varnaraðilar dæmdir til greiða sóknaraðila kr. 70.000 í málskostnað.
Ekki eru efni til að mæla fyrir um heimild til fjárnáms fyrir kostnaði af væntanlegri gerð vegna ákvæða 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.
Þorgerður Erlendsdóttir, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Varnaraðilar, Ólöf Kristín Ingólfsdóttir og Hannes Ragnarsson, Gljúfraseli 8, Reykjavík, skulu ásamt þeim og öllu því sem þeim tilheyrir, bornir út úr húsnæði því er þeir hafa haft til afnota að Gljúfraseli 8, fastanúmer 205-4485, Reykjavík, með beinni aðfarargerð.
Varnaraðilar greiði sóknaraðila 70.000 krónur í málskostnað.