Hæstiréttur íslands
Mál nr. 787/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Eignarréttur
|
|
Fimmtudaginn 11. desember 2014. |
|
Nr. 787/2014.
|
Þrotabú Margeirs Margeirssonar (Guðmundur Ágústsson hrl.) gegn Margeiri Margeirssyni (Auður Björg Jónsdóttir hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Eignarréttur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu þrotabús M um að M yrði gert að afhenda eignarhluti sína í þremur nánar tilgreindum einkahlutafélögum þar sem ekki væri fullnægt skilyrðum 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. nóvember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að afhenda eignarhluti sína í þremur nánar tilgreindum einkahlutafélögum. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur engin haldbær rök fært fram fyrir kröfu sinni um að málinu verði vísað frá Hæstarétti og verður henni því hafnað.
Málsatvikum er skilmerkilega lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram leikur vafi á að varnaraðili sé eigandi hluta í þeim nánar tilgreindu einkahlutafélögum sem dómkrafa sóknaraðila lýtur að. Ný gögn sem sóknaraðili hefur lagt fram við meðferð málsins fyrir Hæstarétti fá þeim vafa ekki eytt. Samkvæmt þessu er fallist á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að ekki sé fullnægt skilyrðum 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 til að verða við kröfu sóknaraðila um afhendingu umræddra eignarhluta og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Eftir framangreindum úrslitum verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, þrotabú Margeirs Margeirssonar, greiði varnaraðila, Margeiri Margeirssyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2014.
Með beiðni, móttekinni 26. júní sl., leitaði skiptastjóri sóknaraðila, þrotabús Margeirs Margeirssonar, úrlausnar dómsins um skyldu varnaraðila, Margeirs Margeirssonar, til að afhenda skiptastjóra sóknaraðila alla hlutdeild sína í eftirfarandi félögum sem skiptist með svofelldum hætti:
1. Hlutafé í einkahlutafélaginu Pari ehf., kt. [...], með skráð lögheimili að Stapaseli 7, Reykjavík samtals að nafnverði 150.000 krónur. Útgefið og skráð hlutafé í Pari ehf. er að nafnverði 500.000 krónur. Er því krafist afhendingar á 30% af útgefnu hlutafé í félaginu.
2. Hlutafé í einkahlutafélaginu Sextán ehf., kt. [...], með skráð lögheimili að Stapaseli 7, Reykjavík, samtals að nafnverði 200.000 krónur. Útgefið og skráð hlutafé í Sextán ehf. er að nafnverði 500.000 krónur. Er því krafist afhendingar á 40% af útgefnu hlutafé í félaginu.
3. Hlutafé í einkahlutafélaginu Casino ehf., kt. [...], með skráð lögheimili að Stapaseli 7, Reykjavík, samtals að nafnverði 200.000 krónur. Útgefið og skráð hlutafé í Casino ehf. er að nafnverði 500.000 krónur. Er því krafist afhendingar á 40% af útgefnu hlutafé í félaginu.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar sameiginlega (in solidum) úr hendi sóknaraðila og umboðsmanns sóknaraðila að skaðlausu en að öðrum kosti krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu í báðum tilvikum að teknu tilliti til virðisaukaskatts
Málið var tekið til úrskurðar 20. október sl. að loknum munnlegum málflutningi en endurupptekið 29. sama mánaðar á grundvelli 104. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og tekið til úrskurðar að nýju.
I
Málsatvik
Bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómsins 31. október 2013 og var Ólöf Heiða Guðmundsdóttir héraðsdómslögmaður skipaður skiptastjóri þess. Með beiðni, sem móttekin var í héraðsdómi 26. júní sl., krafðist skiptastjóri sóknaraðila þess, með vísan til 82. gr. laga nr. 21/1991, að varnaraðila yrði gert að afhenda skiptastjóra 30% eignarhlut í félaginu Pari ehf. og 40% eignarhluta í félögunum Sextán ehf. og Casino ehf.
Í beiðni skiptastjóra kemur fram að á fundi með skiptastjóra 6. nóvember 2013 hafi þrotamaður lýst því yfir að hann væri eignalaus. Könnun skiptastjóra hafi á hinn bóginn leitt í ljós að hann væri hluthafi í ofangreindum félögum samkvæmt ársreikningum þeirra. Þá hafi hann verið skráður stjórnarmaður og/eða framkvæmdastjóri félaganna með prókúru allt fram til þess að skiptastjóri gerði kröfu um afhendinga hlutanna en þá hafi skráningum félaganna verið breytt hjá fyrirtækjaskrá eins og fram komi í gögnum málsins.
Skiptastjóri sendi varnaraðila bréf 14. febrúar 2014 þar sem rakið er að skráð séu á lögheimili varnaraðila nokkur einkahlutafélög og samkvæmt upplýsingum úr ársreikningum þeirra tengist hann þeim öllum beint eða í gegnum önnur félög. Þrátt fyrir það sé ekkert skráð um þessa hlutafjáreign í skattframtölum varnaraðila og hann tiltaki hvorki arð né reikni sér endurgjald. Óskað var upplýsinga um það af hverju eignarhlutir í ofangreindum félögum hafi ekki verið tileknir í skattframtölum hans og hvers vegna hann kveðist vera eignalaus og ekki eigandi hlutafjár í neinum félögum á fundi þeirra í nóvember 2013. Þá var óskað eftir því að hann móttæki tilkynningar til stjórnar félaganna Pars ehf, Sextán ehf. og Casino ehf. um breytingu á hlutaskrá þeirra þar sem hann sé framkvæmdastjóri og/eða stjórnarmaður í þeim öllum.
Þrotamaður mun hafa svarað bréfi þessu með tölvupósti og sagt þessa hluti í félögunum tilheyra dætrum sínum og sent hlutafjármiða því til staðfestingar.
Skiptastjóri ritaði lögmanni varnaraðila bréf 1. apríl 2014 þar sem fram kemur að skoðun skiptastjóra hafi leitt í ljós að búið sé að því er virðist eignalaust. Hvorki bifreiðar né fasteignir séu skráðar á nafn þrotamanns og gerningar þar sem eignir hafi verið seldar standi utan riftunarfresta laga. Samkvæmt skattframtölum eigi hann ekki heldur hlutafé í félögum. Þegar ársreikningar félaga sem skráð séu með heimilisfang á lögheimili þrotamanns séu skoðaðir komi hins vegar í ljós að hann sé eigandi að 40% eignarhluta í Sextán ehf., 40% hlutafjár í Casino ehf. og 30% hlutafjár í Pari ehf. Til viðbótar við fyrrnefnd félög séu skráð á lögheimili þrotamanns fjögur önnur einkahlutafélög; Icebest ehf., Benice ehf., Dollar ehf. og RIM ehf. Samkvæmt upplýsingum úr ársreikningum þessara félaga tengist öll félögin sjö á einn eða annan hátt og myndi þau eina samtvinnaða fléttu sem öll byggist á eignarhaldi þrotamanns á félögunum þremur. Þrátt fyrir þetta sé ekkert skráð um framangreinda hlutafjáreign í skattframtölum þrotamanns og þá tiltaki hann hvorki arð né reikni sér endurgjald. Var skorað á varnaraðila að afhenda skiptastjóra áðurnefnda hluti í félögunum þremur. Að öðrum kosti yrði leitað atbeina dómstóla.
Lögmaður varnaraðila svaraði fyrir hans hönd með bréfi 8. apríl 2014. Er því sem fram kom í bréfi skiptastjóra mótmælt sem röngu. Varnaraðili sé eignalaus og eigi það bæði við um fasteignir og hluti í félögum. Er vísað til skattframtals hans fyrir tekjuárið 2013 og til eldri skattframtala. Þar komi skýrt fram að hann sé ekki eigandi að hlutum í fyrrgreindum félögum, hafi ekki móttekið arð frá þeim né fengið frá félögunum endurgjald. Hið rétta sé að varnaraðili hafi verið stofnandi umræddra félaga á árinu 1996 og eigandi í upphafi. Á árinu 2009 hafi hann selt/afsalað öllum hlutum sínum í umræddum félögum til dætra sinna Kristínar og Margrétar Jónu. Samningur hafi verið á milli aðila um þetta og hafi aðilar fært kaupin/söluna í skattframtöl sín fyrir árið 2009. Söluverð hafi verið í samræmi við eignir í félögunum sem engar hafi verið þar sem félögin hafi eingöngu verið rekstrarfélög. Staðfesti lögmaðurinn að hafa móttekið afrit úr skattframtölum kaupenda þar sem fram komi að þær hafi verið skráðar eigendur að hlutunum frá 2009 og séu það enn í dag. Hvað varði önnur félög sem skráð séu með lögheimili á heimili varnaraðila séu þau ekki eign hans. Hann hafi verið skráður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri en störf hans í þessum félögum hafi ekkert haft með eignarhald á þeim að gera. Þá segir að bersýnilega séu rangfærslur í ársreikningunum þ.e. að þeir hafi ekki verið uppfærðir í samræmi við hlutaskrá félaganna. Það breyti ekki þeirri staðreynd að varnaraðili hafi framselt alla hluti sína í umræddum félögum árið 2009. Skoðunarmaður félaganna hafi upplýst skiptastjóra um raunverulegt eignarhald og gefið skýringar þar að lútandi. Þá segir að réttaráhrif að því er varðar beitingu eignarréttinda tengd hlutum í einkahlutafélögum miðist við skráningu í hlutaskrá félaga en ekki opinbera skráningu. Af þessu megi ljóst vera að bæði hin opinbera skráning sem felist í skráningu á hluthöfum í ársreikninga félaga og skráning hluthafa í hlutaskrá einkahlutafélaga geti einungis talist rétt skráning á hluthöfum sé ekki sýnt fram á annað.
Í svarbréfi skiptastjóra 13. júní 2014 segir að í máli nr. E-2714/2013 Casino ehf. og Sextán ehf. gegn Reykjavíkurborg hafi fengist staðfest að varnaraðili sé eigandi hlutanna og að búið sé ekki eignalaust. Hlutverk skiptastjóra sé samkvæmt 122. gr. laga nr. 21/1991 að gæta þess að allar eignir og öll réttindi búsins komi fram og verði ráðstafað á sem hagkvæmastan hátt, engin réttindi fari forgörðum og gripið verði til þeirra aðgerða sem taldar séu nauðsynlegar til að varna tjóni. Þrotamaður hafi vísvitandi reynt að skjóta eignum undan skiptum og hafi þar að auki veitt skiptastjóra rangar upplýsingar. Gefi það fullt tilefni til rökstudds gruns um að þrotamaður kunni að hafa gerst sekur um refsivert athæfi. Eru að lokum ítrekuð tilmæli skiptastjóra um afhendingu hlutanna en að öðrum kosti verði krafa á grundvelli 82. gr. laga nr. 21/1991 send héraðsdómi.
Beiðni sóknaraðila var móttekin í héraðsdómi 26. júní sl.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfu sína um að varnaraðila verði gert að afhenda skiptastjóra hluti sína í áðurnefndum þremur félögum á 82. gr. laga nr. 21/1991 þar sem fram komi að þeim sem hafi eignir þrotabús í umráðum sínum sé skylt að veita skiptastjóra þær upplýsingar og láta honum í té þau gögn um málefni búsins sem hann krefst. Neiti þrotamaður að afhenda skiptastjóra eignir búsins geti skiptastjóri krafist þess skriflega að héraðsdómari kveði upp úrskurð um skyldu hlutaðeigandi til að láta eign af hendi.
Sóknaraðili greinir svo frá að í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991 hafi skiptastjóri aflað upplýsinga og gagna um eignir og skuldir þrotamanns. Í þessari skoðun hafi m.a. falist upplýsingaöflun úr ökutækjaskrá og fasteignaskrá ásamt yfirferð yfir skattframtöl og bankareikninga. Þessi skoðun hafi leitt í ljós að á lögheimili varnaraðila, sem sé í eigu félagsins Icebest ehf., séu skráð sjö einkahlutafélög: Sextán ehf., Casiono ehf., Par ehf., Icebest ehf., Benice ehf., Dollar ehf. og RIM ehf. Þrotamaður hafi á hinn bóginn greint svo frá á fundi með skiptastjóra 6. nóvember 2013 að hann væri eignlaus.
Samkvæmt upplýsingum sem skiptastjóri hafi aflað frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra hafi varnaraðili verið skráður stjórnarmaður og/eða framkvæmdastjóri og/eða prókúruhafi í öllum félögunum sjö á úrskurðardegi um gjaldþrotaskipti á búi hans. Ekkert hafi verið skráð um hlutafjáreign á skattframtölum varnaraðila. Skiptastjóri hafi aflað afrita ársreikninga félaganna, Sextán ehf., Casino ehf. og Pars ehf., en þeim hafði verið skilað í september 2013 skömmu fyrir úrskurð um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila. Af þeim hafi mátt glögglega sjá að varnaraðili væri skráður eigandi að 40% hlutafjár í félögunum Sextán ehf. og Casino ehf. og 30% hlutafjár í Pari ehf. Þau félög séu síðan eigendur hinna fjögurra félaganna á víxl og tengist öll félögin sjö á einn eða annan hátt og myndi eina, samtvinnaða og flókna fléttu sem öll byggist á eignarhaldi varnaraðila á áðurnefndum þremur félögum.
Skiptastjóri kveðst hafa sent varnaraðila fyrirspurn um ofangreint 14. febrúar sl. og óskað eftir skriflegum svörum og útskýringum. Þá hafi verið send tilkynning til stjórna félaganna þriggja og óskað eftir því að breyting yrði gerð á hlutaskrám félaganna þannig að skráður eigandi hlutanna yrði þrotabú varnaraðila. Varnaraðili hafi svarað því til að hlutir í félögunum væru eign dætra hans og sent hlutafjármiða því til staðfestingar. Hann hafi á hinn bóginn ekki orðið við beiðni skiptastjóra um að leggja fram afrit kaupsamninga. Þá hafi hann vísað til þess að það væri alfarið á ábyrgð skoðunarmanns félaganna að hafa skilað inn ársreikningum með röngum upplýsingum um hluthafa. Skráningum félaganna sjö hafi verið breytt í fyrirtækjaskrá í kjölfar þessa erindis og varnaraðili sé því ekki lengur skráður framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður í þeim.
Sóknaraðili kveður að varnaraðili hafi við aðalmeðferð máls nr. E-2714/2013 Casino ehf., Sextán ehf. gegn Reykjavíkurborg í Héraðsdómi Reykjavíkur farið fram á að gefa aðilaskýrslu fyrir dómi sem eigandi félaganna og fyrirsvarsmaður þeirra. Dómur hafi verið kveðinn upp í málinu 10. júní sl. og þar segi um skýrslu varnaraðila og dóttur hans: „Við aðalmeðferð gáfu skýrslu Margrét Jóna Margeirsdóttir, rekstrarstjóri Mónakó og Monte Carlo og Margeir Margeirsson, starfsmaður og eigandi stefnenda.“
Á grundvelli upplýsinga úr ársreikningum félaganna og þess sem varnaraðili staðfesti fyrir dómi í ofangreindu máli um eignarhald sitt hafi skiptastjóri ítrekað kröfu sína um afhendingu á hlutunum í félaginu 13. júní sl. þannig að mögulegt væri að ráðstafa eignunum upp í kröfur sem lýst hafi verið í búið. Varnaraðili hafi ekki orðið við því.
Sóknaraðili byggir á því að fyrir liggi að varnaraðili sé skráður eigandi 40% hluta í félögunum Sextán ehf. og Casiono ehf. og 30% eignarhluta í Pari ehf. samkvæmt ársreikningum félaganna sem staðfestir voru á aðalfundum þeirra í ágúst og september 2013. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga skuli stjórn og framkvæmdastjóri bera ábyrgð á samningu ársreiknings fyrir hvert reikningsár og skal ársreikningurinn hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, sjóðstreymi, skýringar og skýrslu stjórnar. Þá sé kveðið á um það í 65. gr. laganna að í skýrslu stjórnar með ársreikningi skuli upplýsa um fjölda hluthafa í upphafi og lok reikningsárs. Þá skuli upplýsa að lágmarki um tíu stærstu hluthafa og hundraðshluta hlutafjár hvers þeirra í lok ársins. Stjórn og framkvæmdastjórn skuli undirrita ársreikninginn lögum samkvæmt. Hafi skoðunarmaður yfirfarið ársreikninginn skuli undirritun hans og dagsetning vera fylgiskjal með ársreikningnum. Í samræmi við 59. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög skuli leggja fram ársreikning og skýrslu skoðunarmanns á aðalfundi og enn fremur taka ákvörðun um staðfestingu ársreikningsins. Með vísan til ofangreinds telur sóknaraðili ljóst að það sé stjórnarmaður og framkvæmdastjóri sem beri ábyrgð á ársreikningum og þeim upplýsingum sem fram koma í þeim. Í þeim tilvikum sem hér um ræði sé það varnaraðili og eiginkona hans. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og samkvæmt upplýsingum í ársreikningum hafi skráning félaganna verið með eftirfarandi hætti á síðasta aðalfundi þeirra:
Par ehf., kt. 650796-2769
Dagsetning aðalfundar: 28.9.2013
Stjórnarmaður: Ingibjörg Reykdal
Framkvæmdastjóri: Margeir Margeirsson
Hluthafar: Margeir Margeirsson (30%) og Icebest ehf. (70%)
Casino ehf., kt. 650796-2689
Dagsetning aðalfundar: 10.8.2013
Stjórnarmaður: Margeir Margeirsson
Framkvæmdastjóri: Ingibjörg Reykdal
Hluthafar: Margeir Margeirsson (40%) og Icebest ehf. (60%)
Sextán ehf., kt. 650796-2339
Dagsetning aðalfundar: 8.9.2013
Stjórnarmaður: Ingibjörg Reykdal
Framkvæmdastjóri: Margeir Margeirsson
Hluthafar: Margeir Margeirsson (40%) og Icebest ehf. (60%)
Þrátt fyrir framangreint haldi varnaraðili því fram að hann sé ekki eigandi umræddra félaga heldur dætur hans enda hafi hann selt þeim eignarhluti sína í félögunum á árinu 2009 og hafi lagt fram hlutafjármiða þessu til staðfestingar. Hann hafi á hinn bóginn hvorki lagt fram kaupsamninga, staðfestingu á móttöku greiðslna á kaupverði né afrit af skattframtölum dætra sinna til að staðfesta þessa fullyrðingu.
Sóknaraðili kveður ljóst að þegar vægi upplýsinga í ársreikningum, sem séu opinberar upplýsingar sem ætlað sé að gefa utanaðkomandi aðilum möguleika á að afla upplýsinga um félög, og upplýsingar í skattframtölum sem séu ekki opinberar almenningi, sé metið sé ljóst að opinberar upplýsingar vegi ávallt þyngra sér í lagi þegar litið sé til þess að varnaraðili hafi verið fyrirsvarsmaður félaganna er aðalfundur var haldinn og ársreikningum skilað inn. Honum hafi því verið í lófa lagið að leiðrétta þær upplýsingar sem þar komu fram væru þær ekki réttar. Það hafi hann ekki gert. Varnaraðili hafi með því að samþykkja ársreikninga á aðalfundum staðfest að hann sé eigandi hlutafjár í félögunum.
Ljóst sé því að varnaraðili hafi verið skráður eigandi eignarhluta í þremur félögum á úrskurðardegi um töku bús hans til gjaldþrotaskipta. Hlutir þessir teljist til eigna þrotabúsins og skulu því koma til skipta milli kröfuhafa. Ekki sé hægt að halda því fram að opinberar upplýsingar í ársreikningum félaganna sem varnaraðili og eiginkona hans báru ábyrgð á séu rangar og vísa til afrita af hlutafjármiðum enda stafi upplýsingar í ársreikningum frá varnaraðila sjálfum.
Þá hafi varnaraðili í fjölmiðlum ávallt sagst vera eigandi þeirra veitingastaða sem félögin Sextán ehf. og Casino ehf. reki, nánar tiltekið staðanna Monte Carlo og Monaco. Þá hafi hann verið skráður ábyrgðarmaður rekstrarleyfa staðanna.
Þar sem varnaraðili hafi ekki orðið við óskum sóknaraðila um að afhenda skiptastjóra hlutina sé sóknaraðila nauðugur einn kostur að fara fram á að dómur úrskurði um skyldu varnaraðila þar að lútandi.
Um málskostnað vísar sóknaraðili til 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Mótmælir sóknaraðili sérstaklega því að umboðsmanni sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað in solidum með sóknaraðila.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Kröfu sína um að kröfum sóknaraðila verði hafnað byggir varnaraðili á því að um aðildarskort sé að ræða sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Hann sé ekki eigandi að þeim hlutum sem dómkröfur sóknaraðila beinist að heldur dætur hans, Margrét Jóna Margeirsdóttir, Kristín Margeirsdóttir og Jóhanna Margeirsdóttir sem hafi borið réttindi og skyldur sem slíkar frá þeim tíma er þær eignuðust sína hluta. Þetta hafi varnaraðili staðfest með skattframtölum dætra sinna sem staðfest séu af ríkiskattstjóra, yfirlýsingu skoðunarmanns félaganna, framlagningu hlutaskrár og yfirlýsingum núverandi eigenda.
Varnaraðili kveður það venju í viðskiptum með hluti í einkahlutafélögum að þau séu einungis staðfest með færslum í skattframtölum án þess að afsal eða kaupsamningur sé gerður. Munnlegir samningar séu þannig mjög algengir í viðskiptum með hluti í einkahlutafélögum. Sóknaraðili geti ekki byggt kröfu sína á rangfærslum í ársreikningum, orðalagi í héraðsdómi og viðtölum í fjölmiðlum. Slíkt geti ekki breytt eignarhaldi á félögum eða skert lögvarða hagsmuni þriðja aðila. Af þessum sökum sé fyrir hendi ómöguleiki fyrir varnaraðila að verða við kröfu sóknaraðila og beri af þeim sökum að sýkna hann á grundvelli aðildarskorts sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Þá beri, með tilliti til eðlis málsins, að hafna kröfunni þar sem efnisleg skilyrði standi í vegi fyrir þeim málalokum sem sóknaraðili krefjist.
Nýir ársreikningar félaganna 2014 fyrir árið 2013 staðfesti enn fremur eignarhaldið í samræmi við það sem varnaraðili haldi fram. Með þeim sé leiðrétt það sem rangt var farið með í eldri ársreikningum. Dómkrafa sóknaraðila byggi á eignarhaldi í félögunum eins og það hafi verið fyrir árið 2009 þegar varnaraðili hafi einn verið eigandi félaganna ásamt félaginu Icebest ehf. Síðar hafi eignarhaldið breyst þannig að varnaraðili varð eigandi að helmingshlut í félögunum á móti eiginkonu sinni Ingibjörgu Reykdal. Ársreikningum félaganna hafi í gegnum árin verið skilað inn rafrænt af skoðunarmanni félaganna sem feli í sér að eigandi þurfi ekki að undirrita ársreikningana. Varnaraðili hafi þannig ekki undirritað ársreikninga í um tíu ár og þegar vísað sé í ársreikningi til hlutahafafundar þá sé um að ræða formlega tilvísun til dagsetningar fundar sem einnig sé venja fyrir að ekki sé haldinn í einkahlutafélögum ef aðeins einn eigandi er að hlutunum í félaginu eins og eigi við í þessu máli.
Munnlegir samningar á milli varnaraðila og kaupenda hlutanna hafi verið raunverulegir gjörningar og gangi þeir eðli málsins samkvæmt framar skráningu hjá ársreikningaskrá um eignarhlutina. Rangfærsla í upptalningu á hluthöfum í félagi feli ekki í sér neina ábyrgð sem hafi lagalega þýðingu og upptalning á hluthöfum í ársreikningi hafi ekki réttaráhrif í raun eða að lögum.
Hafa beri í huga að skráning eignarhluta í ársreikningum félaga og lagaákvæði þar að lútandi séu einungis með það markmið að auka gagnsæi eignarhalds. Sú staðreynd að skil á ársreikningum til ársreikningaskrár eigi að fara fram í síðasta lagi átta mánuðum eftir lok reikningsárs sýni að áskilnaður um eignarhluti í ársreikningum sé ekki til þess fallinn að veita upplýsingar um eignarhaldið í rauntíma og því síður ef viðskipti með bréf eru tíð.
Réttaráhrif að því er varðar beitingu eignarréttinda tengda hlutum í einkahlutafélögum miðist þannig við skráningu í hlutaskrá félaga en ekki opinbera skráningu. Sú skrá sem gefi einna best yfirlit yfir eignarhald sé hlutaskrá félaga á hverjum tíma. Eins og fram komi í þeim gögnum sé ljóst að varnaraðili sé ekki eigandi umræddra hluta og því sé ómöguleg að bregðast við kröfum sóknaraðila.
Varnaraðili byggir á því að skilyrði 82. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt þar sem ekki sé um eignir þrotabúsins að ræða og varnaraðila sé ómögulegt að afhenda hlutina. Sóknaraðili sé með réttu að höfða mál um hagsmuni sem annar aðili eigi með réttu og sé þannig augljóslega um aðildarskort að ræða sem leiði til þess að hafna beri kröfu sóknaraðila. Aðildarskortur valdi réttarháhrifum (res judicata áhrifum) sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 sem leiðir til þess að sama sakarefni verður ekki borið aftur undir dómstóla af sömu aðilum þar sem leyst hefur verið úr sakarefninu efnislega.
Varnaraðili krefst málskostnaðar sameiginlega (in solidum) úr hendi sóknaraðila og umboðsmanns hans með vísan til 131. gr. laga nr. 21/1991, sbr. einkum 2. og 4. mgr. þeirrar lagagreinar. Sú krafa byggir á því að einungis með því móti geti hann farið skaðlaus frá þessu máli. Þá krefst hann einnig álags á málskostnað á grundvelli c-liðar 2. mgr. 131. gr. laganna, sbr. 4. mgr. þeirra, þar sem málið sé höfðað af þarflausu og skiptastjóri hafi haft uppi staðhæfingar sem hann hafi vitað að væru rangar og haldlausar. Verði ekki fallist á þetta krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila auk álags eins og að framan greinir. Málatilbúnaður sóknaraðila hafi nú þegar valdið varnaraðila tjóni sem skiptastjóra beri að bæta samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar sbr. 77. gr. laga nr. 21/1991.
Um lagarök að öðru leyti vísar varnaraðili til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 2. mgr. 16. gr. þeirra og laga nr. 21/1991, einkum XXIV kafla þeirra og þá helst 2. mgr. 178. gr. þeirra. Málskostnaðarkrafa byggist á 2. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Álag á málskostnað byggist á 131. gr. laga nr. 91/1991 einkum 2. mgr. og 4. mgr. hvað varðar sameiginlega ábyrgð sóknaraðila og umboðsmanns hans á greiðslu málskostnaðar. Krafa um virðisaukaskatt er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV
Niðurstaða
Bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómsins 31. október 2013. Fram er komið í málinu að þrotamaður lýsti yfir eignaleysi á fundi með skiptastjóra 6. nóvember 2013. Við yfirferð skiptastjóra hafi á hinn bóginn komið í ljós að á lögheimili þrotamanns hafi verið skráð nokkur einkahlutafélög, þ. á m. félögin Sextán ehf., Casino ehf. og Par ehf. Við skoðun ársreikninga þessara þriggja félaga hafi komið í ljós að varnaraðili væri þar tilgreindur eigandi hlutafjár í öllum félögunum þremur. Hefur skiptastjóri nú leitað úrlausnar dómsins á grundvelli 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til afhendingar eigna sem hann telur tilheyra þrotabúinu. Varnaraðili heldur því fram að hann sé ekki eigandi hlutafjár í félögunum þremur, heldur dætur hans, og ómögulegt sé því fyrir hann að verða við kröfu skiptastjóra. Hefur hann í fyrsta lagi byggt á því að kröfu sóknaraðila beri af þessum sökum að hafna á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 en í öðru lagi sökum þess að skilyrði 82. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt.
Í málinu liggja fyrir fjölmörg gögn er lúta að umræddum félögum, þ. á m. eru ársreikningar þeirra fyrir árið 2012. Sóknaraðili hefur á því byggt að gögn þessi leiði í ljós að varnaraðili sé eigandi hlutafjár í öllum félögunum þremur. Gögnin séu opinber gögn sem líta verði svo á að gefi rétta mynd af því hverjir eigi hlut í viðkomandi félögum. Hefur sóknaraðili, máli sínu til stuðnings, bent á ákvæði laga nr. 3/2006 um ársreikninga þar sem kveðið er á um færslu og skil ársreikninga félaga og laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, um hlutverk, ábyrgð og skyldur stjórnarmanna félaga í því sambandi.
Varnaraðili hefur í málinu haldið því fram að umræddir hlutir í félögunum hafi á árinu 2009 og 2011 verið seldir dætrum hans Kristínu, Margréti Jónu og Jóhönnu. Máli sínu til stuðnings hefur hann lagt fram staðfest endurrit skattframtala dætra sinna vegna kaupa auk upplýsinga úr eigin skattframtali er varða sölu þeirra. Verður ekki annað ráðið af þessum gögnum en að umræddir hlutir hafi verið taldir fram af dætrum þrotamanns sem eign annars vegar á árinu 2009, hvað varðar öll félögin þrjú, og hins vegar á árinu 2011, hvað varðar félögin Casino ehf. og Par ehf. Fram kemur í þessum gögnum um hlutabréfaeign, kaup og sölu að Kristín Margeirsdóttir keypti á árinu 2009 hlutabréf í Sextán ehf. að nafnverði 250.000, í Pari ehf. að nafnverði 250.000 og í Casino ehf. að nafnverði 250.000. Jóhanna Margeirsdóttir keypti á árinu 2009 hlutabréf í Casino ehf. að nafnverði 250.000 krónur og í Pari ehf. að nafnverði 250.000 krónur. Margrét Jóna Margeirsdóttir keypti á árinu 2009 hlutabréf í Sextán ehf. að nafnverði 250.000 og á árinu 2011 í Casino ehf. að nafnverði 250.000 og í Pari ehf. að nafnverði 250.000. Þá kemur fram í skattframtali varnaraðila um hlutabréfaeign, kaup og sölu á árinu 2009 að hann selur hlutabréf í Casino ehf. samtals að nafnverði 500.000 krónur, í Pari ehf. selur hann hlutabréf samtals að nafnverði 500.000 krónur og í félaginu Sextán ehf. samtals að nafnverði 500.000 krónur. Í lok ársins á hann ekkert hlutafé í þessum félögum. Hefur þessu ekki verið hnekkt af hálfu sóknaraðila. Dómurinn telur því að ekki verði fram hjá þessum gögnum litið. Þá verður og að líta til þess að í málinu liggur fyrir yfirlýsing skoðunarmanns reikninga félaganna, Sævars Reynissonar, um að færsla ársreikninga, sem sóknaraðili hefur byggt á í málinu, sé röng og að ársreikningarnir yrðu leiðréttir. Var það ítrekað við munnlegan flutning málsins.
Ljóst er að hugsanleg brot framkvæmdastjóra félaga og stjórnarmanna á skyldum sínum samkvæmt ákvæðum laga nr. 3/2006 um ársreikninga og lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög eru ekki til umfjöllunar í ágreiningsmáli þessu og geta þau ekki ráðið úrslitum um það hvort fallist verður á kröfu sóknaraðila í þessu máli.
Dómurinn bendir á að verði skiptastjóri þess áskynja við skipti á þrotabúi að atvik séu með þeim hætti að þau gefi tilefni til rökstudds gruns um að þrotamaðurinn eða aðrir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi skuli hann tilkynna það embætti sérstaks saksóknara sbr. 84. gr. laga nr. 21/1991. Slíkt er á hinn bóginn ekki efni ágreiningsmáls þessa og niðurstaða þess getur ekki byggst á grun eða getgátum um að refsivert athæfi kunni að hafa átt sér stað. Verður dómurinn að leggja til grundvallar niðurstöðu sinni þau gögn sem fyrir hann hafa verið lögð, sem ekki hefur verið hnekkt og ekki verður séð að unnt sé að draga í efa.
Eins og málið liggur fyrir dóminum, og á grundvelli þeirra gagna sem fyrir hann hafa verið lögð og ekki hefur verið hnekkt eins og áður sagði, verður því að telja í ljós leitt að varnaraðili sé ekki eigandi þeirra hluta sem sóknaraðili krefst afhendingar á. Verður að fallast á með varnaraðila að efnisleg skilyrði standi í vegi fyrir þeim málalokum sem sóknaraðili krefst og að skilyrði 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt. Verður því ekki séð að unnt sé að fallast á kröfu sóknaraðila og verður henni því hafnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Lög nr. 21/1991 hafa að geyma ítarleg ákvæði um störf skiptastjóra og upphafsaðgerðir þeirra við skipti hvað varðar upplýsinga- og gagnaöflun um málefni þrotabús sem m.a. miða að því að tryggja að allar eignir þess og réttindi komi fram. Ákvæði 3. mgr. 82. gr. laganna er ætlað að auðvelda skiptastjórum þrotabúa að rækja framangreint hlutverk sitt. Ljóst má vera að gögn er mikla þýðingu höfðu við úrlausn málsins lágu ekki fyrir fyrr en við rekstur máls þessa fyrir dóminum. Verður ekki talið að málshöfðun þessi hafi því verið að þarflausu eða án neins tilefnis og eru engin efni til þess að gera umboðsmanni sóknaraðila að greiða málskostnað sameiginlega (in solidum) með búinu á grundvelli 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður heldur ekki talið að 3. mgr., sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar um álag á málskostnað geti átt við í málinu.
Með hliðsjón af úrslitum málsins verður sóknaraðila gert, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, að greiða varnaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn, 350.000 krónur að teknu tilliti til umfangs málsins og reksturs þess fyrir dóminum, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 4. júlí sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu sóknaraðila, þrotabús Margeirs Margeirssonar, um að varnaraðila, Margeiri Margeirssyni, verði gert að afhenda 30% eignarhlut í Pari ehf., 40% eignarhlut í Casino ehf. og 40% eignarhlut í Sextán ehf.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 350.000 krónur í málskostnað, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.