Hæstiréttur íslands

Mál nr. 250/1999

Ásbjörn Þorleifsson (Jón Magnússon hrl.)
gegn
Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. (Baldur Guðlaugsson hrl.)

Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Miskabætur


           

Fimmtudaginn 4. nóvember 1999.

Nr. 250/1999.

Ásbjörn Þorleifsson

(Jón Magnússon hrl.)

gegn

Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

(Baldur Guðlaugsson hrl.)

Ráðningarsamningur. Uppsögn. Miskabætur.

Á var starfsmaður sjóðsins F, sem var sameinaður öðrum fjárfestingarlánasjóðum í fjárfestingarbankann FBA. Eftir sameininguna kom í ljós að í gögnum um gjaldeyrisstöðu F voru mistök sem færðust inn í gögn FBA um sama efni og tapaði bankinn talsverðu fé af þeim sökum. Stjórnendur FBA töldu Á bera ábyrgð á mistökunum og gáfu honum kost á að láta af störfum hjá bankanum með þeim kjörum sem ráðningarsamningur hans tryggði honum. Féllst Á á það.

Á taldi að í framhaldi af starfslokum sínum hjá bankanum hefðu stjórnendur hans breitt út rangar ásakanir um að hann hefði gefið rangar upplýsingar um gjaldeyrisjöfnuð F. Hefðu þessar ásakanir gert honum ókleift að fá starf við sitt hæfi. Stefndi hann FBA og krafði bankann um skaðabætur vegna tapaðra atvinnutekna og miskabætur.

Talið var að FBA bæri ekki skaðabótaábyrgð vegna starfslokanna sjálfra, enda hefði báðum aðilum verið heimilt að segja ráðningarsamningnum upp án sérstakra ástæðna. Þá var talið ósannað að ósk stjórnenda FBA um að Á léti þar af störfum hefði valdið honum frekari erfiðleikum við að finna sér nýtt starf en hann mátti búast við að því athuguðu að starfslok hans stöfuðu af mistökum sem hann bar a.m.k. að hluta ábyrgð á. Á hinn bóginn var talið að stjórnendur bankans hefðu gengið lengra í ávirðingum í garð Á en þeim var stætt á í bréfi til ríkisendurskoðunar, sem dreift var til nokkurs fjölda manna, þegar þeir fullyrtu að tapið sem varð, væri honum einum að kenna. Voru Á dæmdar miskabætur vegna þessa.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 1999. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 48.228.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. september 1998 til greiðsludags, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins var áfrýjandi ráðinn með samningi 29. október 1997 til starfa á viðskiptastofu stefnda frá 1. janúar 1998 að telja. Skyldi ráðningin vera ótímabundin, en um gagnkvæman uppsagnarfrest átti að fara eftir ákvæðum kjarasamnings Sambands íslenskra bankamanna við samninganefnd banka og sparisjóða. Síðastgreindan dag hóf stefndi starfsemi sem lánastofnun, sbr. 19. gr. laga nr. 60/1997 um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., og tók eftir nánari ákvæðum laganna við eignum og skuldbindingum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, sem þá voru lagðir niður. Áfrýjandi hafði fram að því starfað hjá Fiskveiðasjóði Íslands allt frá árinu 1971, þegar hann hóf þar vinnu nokkru eftir að hafa lokið stúdentsprófi. Í skýrslu fyrir héraðsdómi lýsti áfrýjandi starfsferli sínum hjá Fiskveiðasjóði í meginatriðum þannig að í byrjun hafi hann unnið við afgreiðslu sem almennur skrifstofumaður, en tekið fljótlega við bókhaldi og síðan stýrt tölvuvæðingu sjóðsins. Hann hafi frá árinu 1982 verið forstöðumaður tölvudeildar, en í kringum 1991 að stórum hluta verið farinn að fást við fjármál og erlend mál sjóðsins. Frá árinu 1996 hafi hann verið forstöðumaður fjárreiðu- og alþjóðasviðs Fiskveiðasjóðs og þá meðal annars haft umsjón með gjaldeyrisstýringu. Þessu starfi mun áfrýjandi hafa gegnt til ársloka 1997.

Í minnisblaði 24. febrúar 1998 til forstjóra stefnda frá manni, sem starfaði sem svonefndur innri endurskoðandi bankans, var greint frá því að seint í desember 1997 hafi þeir starfsmenn Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, sem hafi séð um gjaldeyrisjöfnuð sjóðanna, verið beðnir um að áætla stöðu jafnaðarins miðað við komandi áramót. Þetta hafi umræddir starfsmenn gert, þar á meðal áfrýjandi í þágu Fiskveiðasjóðs. Þeim hafi verið gerð grein fyrir því til hvers upplýsingarnar yrðu notaðar, en 2. janúar 1998 hafi áætlaður gjaldeyrisjöfnuður stefnda verið settur upp á grundvelli þessara upplýsinga. Unnið hafi verið eftir þeim jöfnuði við gjaldeyrisstýringu stefnda þar til „réttari upplýsingar“ hafi legið fyrir. Þegar lokið hafi verið að færa upplýsingar frá Fiskveiðasjóði inn í svokallað skuldabréfakerfi stefnda 22. janúar 1998 hafi komið í ljós mikill munur á gjaldeyrisjöfnuði sjóðsins, annars vegar samkvæmt fyrrnefndum upplýsingum frá desember 1997 og hins vegar samkvæmt því, sem ráðið yrði af skuldabréfakerfinu. Áfrýjandi, sem hafi í janúar 1998 fengist við að stýra erlendum bankareikningum stefnda, hafi verið beðinn um að veita aðstoð við leit að hugsanlegum villum, sem gætu valdið þessu. Nokkrar villur hafi fundist í kjölfarið, en þær þó ekki nægt til að skýra umræddan mun. Áfrýjandi hafi síðan verið beðinn um að fara aftur yfir yfirlit um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs í árslok 1997. Við þá skoðun hafi áfrýjandi 16. febrúar 1998 fundið þá villu að í yfirlitinu hafi verið tekin upp fjárhæð í þýskum mörkum, sem svaraði til um 2.566.000.000 króna og hafi ekki átt þar heima. Að þessu fram komnu hafi fengist samræmi milli fyrirliggjandi gagna. Þess var getið í minnisblaðinu að fram til dagsins, sem það var ritað, hafi stefndi tapað frá upphafi árs 1998 um 50.000.000 krónum vegna „þessara röngu upplýsinga“.

Um frekari skýringu á ástæðu tapsins, sem stefndi taldi sig hafa orðið fyrir og áður er nefnt, verður ráðið af gögnum málsins að hann hafi vegna fyrirmæla í reglum Seðlabanka Íslands 1. júlí 1997 um gjaldeyrisjöfnuð lánastofnana og þeirra er leyfi hafa til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti gætt að því að jöfnuður væri á hverjum tíma milli eigna sinna og skuldbindinga í einstökum erlendum gjaldmiðlum. Í þessu skyni hafi verið haldið saman upplýsingum um gjaldeyrisjöfnuð stefnda, en hann kveður stofninn að þeim hafa verið fenginn með fyrrgreindri áætlun 2. janúar 1998 á grundvelli gagna um eignir og skuldbindingar Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs í erlendum gjaldmiðlum undir lok ársins 1997. Stefndi kveður áðurnefnda villu í upplýsingum varðandi Fiskveiðasjóð hafa valdið því að í gögnum um gjaldeyrisjöfnuð hafi hann í upphafi árs 1998 talið skuldir sínar í þýskum mörkum sem svarar 2.566.000.000 krónum hærri en rétt var, en af þeim sökum hafi hann að ástæðulausu orðið að binda eignir sömu fjárhæðar í þeim erlenda gjaldmiðli. Þegar villan hafi komið í ljós hafi hann þegar þurft að selja þýsk mörk, sem þessari fjárhæð svaraði, til að hlíta fyrrnefndum reglum um gjaldeyrisjöfnuð. Á tímabilinu frá upphafi árs til síðari hluta febrúar 1998 hafi gengi þýsks marks gagnvart íslenskri krónu lækkað. Vegna þess gengismunar hafi tjón stefnda af því að binda að ófyrirsynju ígildi 2.566.000.000 króna í þýskum mörkum á nefndu tímabili orðið um 48.000.000 krónur.

Í greinargerð, sem áfrýjandi ritaði 22. febrúar 1998 til forstjóra stefnda, sagði að upplýsingar um gjaldeyrisstöðu og jöfnuð Fiskveiðasjóðs Íslands hafi á sínum tíma komið fram í tvenns konar grunngögnum sjóðsins. Hafi þetta annars vegar verið svokölluð „swap bók“, þar sem hafi verið yfirlit yfir mynt- og vaxtaskiptisamninga sjóðsins, helstu skilmála og stöðu þeirra, vexti til greiðslu á næsta gjalddaga og samantekt stöðu eftir myntum, en þessu hafi áfrýjandi haldið saman. Hins vegar hafi verið samantekt, sem hafi verið nefnd „RFÍ vog“, um stöðu innlána og skulda, svo og nettó stöðu myntskiptisamninga, en að auki hafi þar komið fram upplýsingar um vegin vaxtakjör sjóðsins. Þessa samantekt hafi áfrýjandi gert og annar nafngreindur starfsmaður farið yfir. Auk þessa hafi verið til hjá Fiskveiðasjóði þrenns konar vinnuskjöl. Í fyrsta lagi hafi verið gerð yfirlit yfir framvirk gjaldeyrisviðskipti og vilnanir, sem tiltekinn starfsmaður hafi annast. Í öðru lagi hafi annar nafngreindur starfsmaður sjóðsins haldið saman yfirlitum yfir lántökur hans, þar sem hverri þeirra hafi verið lýst, þar á meðal kjörum, endurgreiðslu og lánveitanda. Loks hafi í þriðja lagi verið gerð samantektarblöð, sem hafi borið heitið „Mat á gengisáhættu“, úr öllum áðurnefndum grunngögnum og vinnuskjölum. Hafi þar verið teknar saman allar erlendar skuldbindingar sjóðsins, sem hafi verið flokkaðar í skuldir, framvirka gjaldeyrissölu, myntskiptisamninga í skuldahlið og stofnfjársjóðsinnistæður, og erlendar eignir, sem hafi verið útlán, framvirk gjaldeyriskaup, áfallnir vextir og myntskiptisamningar í eignahlið. Í greinargerðinni kvað áfrýjandi starfsmenn stefnda við svonefnt millibankaborð hafa fljótlega eftir að þeir hófu störf leitað eftir upplýsingum um gjaldeyrisstöðu Fiskveiðasjóðs. Hafi þeir um miðjan nóvember 1997 fengið fyrrnefnda „swap bók“ ásamt samantekt um RFÍ vog og mat á gengisáhættu, en um leið verið tjáð að þargreindar upplýsingar myndu taka breytingum, einkum þegar nær drægi áramótum. Hafi síðan ýmis eintök af þessum skjölum verið afhent starfsmönnum stefnda fram til ársloka 1997. Tók áfrýjandi fram í greinargerðinni að eintak af „swap bók“ hafi verið afhent starfsmönnum stefnda 30. desember 1997 og verið meðal vinnuskjala í bókhaldi hans, auk þess að eintak hafi verið til á millibankaborði. Sagði síðan eftirfarandi: „Aftur á móti er ekki til á millibankaborði eintak af skjalinu ”Mat á gengisáhættu” sem notað var við uppsetningu á gjaldeyrisjöfnuði FBA og því óhægt um vik að rekja uppruna þeirra talna sem skráðar voru í jöfnuðinn á fullnægjandi hátt.“ Í sérstökum kafla greinargerðarinnar vék áfrýjandi meðal annars að áreiðanleika gagna, sem stefndi hafi fengið frá því að hann hóf skráningu upplýsinga frá Fiskveiðasjóði til undirbúnings starfsemi sinni. Var þar bent á að mönnum hafi átt að vera ljóst að áreiðanleiki slíkra gagna væri ekki staðfestur, því uppgjöri sjóðsins væri ekki lokið. Þar var og lýst að í janúar 1998 hafi orðið uppvíst að ósamræmi væri í upplýsingum varðandi gjaldeyrisjöfnuð stefnda vegna atriða, sem lutu að Fiskveiðasjóði, svo og hvernig áfrýjandi hafi tekið þátt í að leita á því skýringa, en í þeim tilgangi hafi hann meðal annars sett upp blöð um mat á gengisáhættu sjóðsins. Um það, sem kom fram með þessum hætti, sagði áfrýjandi í greinargerðinni: „Við skoðun skjalsins kom í ljós að inni sat í reit fyrir swap samninga í þýskum mörkum viðbótartala upp á 2576 milljónir króna umfram myntskiptisamninga sem tilgreindir voru í swap bók og því ljóst að blaðið gaf ranga mynd af heildarstöðunni. Ég lét vita af þessu og kom þá í ljós að gjaldeyrisjöfnuður FBA hafði alfarið verið settur upp eftir þeim upplýsingum sem fram komu í þessu yfirliti og engin tilraun gerð til að sannreyna upplýsingarnar.“ Í lok greinargerðarinnar sagði síðan eftirfarandi: „Það vil ég taka fram um gang mála hjá Fiskveiðasjóði seinni hluta desembermánaðar að mikið álag var á öllu starfsfólki sjóðsins, mér sem öðrum og var samtímis verið að pakka, flytja til innan húsnæðis Fiskveiðasjóðs vegna breytinga á húsnæðinu og sinna þörfum Fjárfestingarbankans eins og kostur var. Villa sú sem er tilefni þessarar greinargerðar kemur að líkindum inn í skjalið ”Mat á gengisáhættu” á tímabilinu 16. desember til áramóta. Viðbótargögn eru afhent ... eftir það sem gáfu tilefni til að stemma þetta af en það er ekki gert. Það skal svo tekið fram að skekkja þessi hafði á engan hátt áhrif á afkomu Fiskveiðasjóðs en opin gjaldeyrisstaða sjóðsins var þó mun meiri en stefnt var að en þó ekki meiri en áður tíðkaðist hjá sjóðnum.“

Fram er komið í málinu að eftir að áfrýjandi hafði afhent áðurnefnda greinargerð hafi hann verið kvaddur til fundar með forstjóra og framkvæmdastjóra markaðsviðskipta stefnda 24. febrúar 1998. Við lok þess fundar hafi áfrýjanda verið tjáð að stefndi óskaði eftir að gera við hann samning um starfslok, en ella yrði honum sagt upp störfum með samningsbundnum fresti. Næsta dag undirrituðu málsaðilar samning, þar sem mælt var fyrir um að áfrýjandi léti þá þegar af störfum, en héldi launum og öðrum nánar tilgreindum kjörum til loka október 1998. Að öðru leyti ætti hvorugur aðilanna kröfu á hinn vegna starfslokanna, sem sátt væri um á milli þeirra.

Í bréfi 25. febrúar 1998 kom stefndi á framfæri í mörgum liðum athugasemdum vegna fyrirhugaðra ársuppgjöra 1997 fyrir Fiskveiðasjóð Íslands, Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð, en bréfi þessu var beint til ríkisendurskoðanda, sem hafði 12. júní 1997 verið skipaður formaður nefndar samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 60/1997 til að leggja mat á heildarfjárhæð stofnhlutafjár stefnda. Meðal athugasemda, sem þar voru gerðar, var eftirfarandi: „Vegna rangra upplýsinga starfsmanns FÍ um stöðu gjaldeyrisjafnaðar um s.l. áramót er áætlað að FBA hafi tapað um 48 m. kr. þar til mistökin komu í ljós. Farið er fram á að í uppgjöri FÍ verði tekið tillit til þess að sjóðurinn bæti bankanum þetta tjón.“ Í niðurlagi bréfsins var því komið á framfæri að vænst væri að ríkisendurskoðandi kæmi athugasemdunum í hendur fyrrgreindrar nefndar. Væri og talið afar mikilvægt að stjórnir sjóðanna fengju ábendingar um þau atriði, sem greint væri frá í bréfinu, til að þær gætu tekið ákvarðanir á grundvelli fullnægjandi upplýsinga um stöðu mála. Eftir því, sem liggur fyrir í málinu, varð stjórn Fiskveiðasjóðs ekki við þeirri ósk stefnda, sem áður greinir, þegar reikningar ársins 1997 voru gerðir fyrir sjóðinn. Mun stefndi ekki hafa fylgt þessari ósk frekar eftir.

Í málinu leitar áfrýjandi bóta úr hendi stefnda. Hann telur stefnda hafa knúið sig til að láta af störfum á þeim forsendum að honum hafi orðið á alvarleg mistök í starfi með rangri upplýsingagjöf, en stefndi hafi í engu sýnt fram á að þessar ásakanir séu réttar. Með þessu hafi stefndi vegið að æru áfrýjanda og starfsheiðri, en jafnframt gert honum næstum ófært að fá sambærilegt starf, þar sem sérþekking hans nyti sín, enda hafi ásakanir stefnda í hans garð orðið alkunna á íslenskum fjármálamarkaði. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð nánari grein fyrir málsástæðum aðilanna og skýringum á dómkröfu áfrýjanda.

II.

Samkvæmt gögnum málsins, þar á meðal greinargerð áfrýjanda frá 22. febrúar 1998, sem áður er vitnað til, verður að leggja til grundvallar að verulegrar villu hafi gætt þegar upplýsingar voru upphaflega færðar í gagnasafn, sem stefndi hélt til að gæta að gjaldeyrisjöfnuði í starfsemi sinni. Af sömu gögnum verður og að telja sýnt að villan hafi komið til af því að skuldbindingar í þýskum mörkum, sem stefndi tók við af Fiskveiðasjóði Íslands, hafi verið verið oftaldar um sem svaraði 2.566.000.000 krónum. Af þeim ummælum í greinargerð áfrýjanda, sem áður er vitnað orðrétt til, verður ekki annað ráðið en að hann hafi þar kannast við að villan hafi átt rætur að rekja til rangra upplýsinga í gögnum, sem hann lét starfsmönnum stefnda í té í desember 1997. Í þessu ljósi máttu forráðamenn stefnda líta svo á að áfrýjandi hefði gengist við að eiga hlut að því að gerð hafi verið alvarleg mistök, sem höfðu áhrif á starfsemi stefnda. Ekki eru efni til að draga í efa staðhæfingu stefnda um að þessi mistök hafi bakað honum verulegt tjón, þótt umfang þess verði ekki staðreynt frekar eins og gögn málsins liggja fyrir.

Svo sem áður var nefnt voru ákvæði í ráðningarsamningi málsaðila um gagnkvæma heimild þeirra til uppsagnar. Stefnda var frjálst að neyta þessarar heimildar til að segja áfrýjanda upp störfum vegna mistaka, sem hann þó gerði í reynd áður en hann hóf störf hjá stefnda, enda var heimildin að engu leyti háð því að hann hefði brotið af sér í starfi. Ekki er deilt um það í málinu að samningur aðilanna um starfslok gerði áfrýjanda fjárhagslega ekki verr settan en ef stefndi hefði sagt honum upp störfum. Að þessu gættu verður ekki fallist á með áfrýjanda að stefndi hafi brotið á honum rétt með því að gefa honum kost á að gera samning um starfslok vegna mistaka hans, en sæta ella uppsögn úr starfi.

Til þess verður hins vegar að líta að stefndi hefur ekki sérstaklega vefengt áðurgreinda frásögn í greinargerð áfrýjanda 22. febrúar 1998 um að hann hafi afhent starfsmönnum stefnda fyrstu gögnin um gjaldeyrisstöðu Fiskveiðasjóðs Íslands í nóvember 1997, þar á meðal skjal með heitinu „Mat á gengisáhættu“, og síðan ýmis nýrri eintök af sömu gögnum á tímabilinu til loka ársins. Stefndi hefur heldur ekki mótmælt því, sem áfrýjandi leiddi getum að í greinargerðinni, að títtnefnd villa hafi fyrst komið fram í eintaki af fyrrnefndu skjali, sem hafi verið afhent á tímabilinu frá 16. desember 1997 til áramóta. Verður því að leggja þetta til grundvallar við úrlausn málsins, enda hefur stefndi hermt í málflutningi að skjöl þessi séu ekki lengur til í vörslum hans. Þótt áfrýjanda hafi að minnsta kosti átt að vera kunnugt um hvað ráðgert væri að gera við upplýsingar úr fyrrnefndum gögnum, verður ekki horft framhjá því að starfsmenn stefnda höfðu undir lok ársins 1997 í höndum eintök af gögnunum frá mismunandi tímum, þar sem ýmist gætti umræddrar villu eða ekki. Samkvæmt málflutningi stefnda fyrir Hæstarétti var sá starfsmaður, sem stýrði vinnu við að setja upp gjaldeyrisjöfnuð við upphaf starfsemi hans, hagfræðingur að mennt og með reynslu af hliðstæðum störfum við aðra bankastofnun. Starfsmönnum stefnda átti því fyllilega að vera ljóst mikilvægi þess að upplýsingar um þessi efni væru réttar. Þeim mátti og vera ljóst að í starfsemi Fiskveiðasjóðs þurfti ekki að fylgja þeirri tilhögun, sem mælt var fyrir um í áðurnefndum reglum Seðlabanka Íslands 1. júlí 1997 um gjaldeyrisjöfnuð lánastofnana, enda tóku þær ekki til starfsemi sjóðsins samkvæmt beinum fyrirmælum í 3. málslið 6. gr. þeirra. Þrátt fyrir þetta verður ekki annað séð en að við gerð gjaldeyrisjafnaðar, sem tók mið af upphafsdegi starfsemi stefnda, hafi starfsmenn hans eingöngu byggt á einu skjali af fjölmörgum, sem áfrýjandi hafði látið þeim í té varðandi Fiskveiðasjóð, og þar hafi gætt umræddrar villu. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að starfsmenn hans hefðu ekki getað fundið villuna og leiðrétt með vandaðri vinnubrögðum. Þess verður og að gæta að samkvæmt fyrrnefndu minnisblaði innri endurskoðanda stefnda 24. febrúar 1998 var þegar orðið kunnugt 22. janúar sama árs að villa væri í upplýsingum um gjaldeyrisjöfnuð vegna atriða, sem vörðuðu Fiskveiðasjóð. Hefur ekki verið skýrt með viðhlítandi hætti hvers vegna þær tafir, sem raun ber vitni, urðu á að þessi villa fyndist. Samkvæmt þessu gat stefndi með réttu hvorki kennt áfrýjanda einum um þau mistök, sem voru gerð varðandi gjaldeyrisjöfnuð stefnda, né rakið fjártjón sitt í heild til þess eins að mistökin hafi verið gerð.

Í bréfi stefnda til ríkisendurskoðanda 25. febrúar 1998 var sem áður segir staðhæft að vegna rangra upplýsinga starfsmanns Fiskveiðasjóðs Íslands um stöðu gjaldeyrisjafnaðar sjóðsins í lok árs 1997 hafi verið áætlað að stefndi hafi tapað um 48.000.000 krónum. Þess var krafist að stefnda yrði bætt þetta tjón með uppgjöri sjóðsins fyrir árið 1997. Í ljósi framangreinds gekk stefndi með þessum fullyrðingum sínum og kröfum verulega lengra í ávirðingum í garð áfrýjanda en honum var stætt á. Af orðsendingu ríkisendurskoðanda til löggilts endurskoðanda Fiskveiðasjóðs 27. febrúar 1998 sést að þeim fyrrnefnda hefur þá verið ljóst að ávirðingarnar í bréfi stefnda hafi beinst að áfrýjanda. Eins og áður greinir óskaði stefndi sérstaklega eftir því í niðurlagi bréfs síns 25. febrúar 1998 að ríkisendurskoðandi kynnti þargreindar athugasemdir fyrrnefndri matsnefnd og stjórnum Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Að þessu gættu gat stefndi með engu móti vænst annars en þess að ásakanir hans í garð áfrýjanda yrðu almennt kunnar. Með því að vega á þennan óréttmæta hátt að starfsheiðri áfrýjanda hefur stefndi bakað sér bótaskyldu gagnvart honum.

III.

Í málinu krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér bætur vegna fjártjóns að fjárhæð 43.228.000 krónur og 5.000.000 krónur í miskabætur. Fjárhæð fyrrnefnda kröfuliðarins er studd við útreikning tryggingarfræðings á mismun þeirra launa, sem áfrýjandi nýtur í núverandi starfi, og þeirra launa, sem hann hefði fengið í áframhaldandi starfi hjá stefnda, til 68 ára aldurs.

Í ráðningarsamningi málsaðila var sem fyrr segir mælt fyrir um gagnkvæma og skilyrðislausa heimild hvors þeirra til uppsagnar með nánar tilteknum fyrirvara. Af þessum ástæðum getur áfrýjandi ekki borið því við að hann hefði mátt treysta því að geta gegnt áfram störfum hjá stefnda um ókominn tíma. Ekkert liggur fyrir í málinu um hvort áfrýjandi hefði, að gættri starfsreynslu hans, aldri og menntun, getað gengið að sambærilegu starfi með hliðstæðum kjörum hjá öðrum vinnuveitanda ef starfslok hans hjá stefnda hefðu ekki borið að með þeim hætti, sem raun ber vitni. Þótt stefndi hafi samkvæmt áðursögðu gengið verulega lengra í ávirðingum gagnvart áfrýjanda en réttmætt var, verður ekki litið framhjá því að áfrýjandi átti hlut að því að alvarleg mistök voru gerð í starfsemi stefnda og lét af störfum af þeim sökum. Ekki eru efni til annars en að ætla að þetta hefði orðið uppvíst í viðleitni áfrýjanda til að afla sér annarrar atvinnu, þótt ekki hefði komið til þeirra ávirðinga, sem stefndi bar á hann með fyrrnefndu bréfi 25. febrúar 1998. Að öllu þessu gættu hefur áfrýjandi ekki sannað að óréttmætar gerðir stefnda gagnvart honum hafi leitt til fjártjóns.

Með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eru skilyrði til að dæma áfrýjanda miskabætur. Við ákvörðun fjárhæðar þeirra verður að líta til þess að með forsendum þessa dóms út af fyrir sig hefur hlutur áfrýjanda verið réttur eftir því, sem efni málsins standa til. Að því gættu er hæfilegt að dæma stefnda til að greiða áfrýjanda 300.000 krónur í miskabætur með vöxtum, eins og í dómsorði greinir.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf., greiði áfrýjanda, Ásbirni Þorleifssyni, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. september 1998 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 1. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu þann 31. ágúst 1998 af Ásbirni Þorleifssyni, kt. 190750-3619, Lálandi 10, Reykjavík, gegn Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., kt. 501097-2179, Ármúla 13A, Reykjavík, en málið var þingfest 1. september 1998.

Endanlegar kröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 43.228.000 krónur og miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingardegi til greiðsludags og að dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. september 1999. Einnig er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins auk virðisaukaskatts.

Stefndi gerir þá kröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda ásamt virðisaukaskatti.

Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni

Málsatvik eru þau að stefnandi hóf störf hjá stefnda í byrjun árs 1998 en ráðningarsamningur er dagsettur 29. október 1997. Þann 1. janúar 1998 tók stefndi við eignum, skuldum og skuldbindingum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs samkvæmt lögum um stofnun Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf. nr. 60/1997 en sjóðirnir voru lagðir niður samkvæmt 19. gr. laganna. Stefnandi hafði áður starfað hjá Fiskveiðasjóði en þar hóf hann störf á árinu 1971 að loknu stúdentsprófi.

Í janúar 1998 kom fram skekkja í gjaldeyrisjöfnuði hjá stefnda. Skýringin á henni fannst ekki fyrr en eftir miðjan febrúar það ár en þá kom í ljós að skuld Fiskveiðasjóðs í þýskum mörkum hafði verið oftalin um 2,5 milljarða króna um áramót. Þar sem ekki var vitað í upphafi ársins að skuldin var í raun ekki fyrir hendi keypti stefndi þýsk mörk til að leiðrétta gjaldeyrisjöfnuðinn. Þegar villan uppgötvaðist hafði gengi þýska marksins fallið og varð stefndi því fyrir tjóni sem nam um 48 milljónum íslenskra króna.

Starfsmenn stefnda töldu að skekkjan væri frá stefnanda komin. Af því tilefni óskaði forstjóri stefnda eftir greinargerð frá stefnanda þann 19. eða 20. febrúar 1998. Skilaði stefnandi henni mánudaginn 23. febrúar en hún er dagsett 22. febrúar. Þar gerir hann grein fyrir gögnum Fiskveiðasjóðs og því sem fram kemur í þeim varðandi gjaldeyrisstöðu og jöfnuð sjóðsins. Einnig hefur verið lagt fram í málinu afrit af bréfi stefnanda til endurskoðanda stefnda, dagsett sama dag, en þar gerir stefnandi grein fyrir gögnum, sem hann afhenti stefnda í nóvember og desember 1997 í þeim tilgangi að lýsa gjaldeyrisstöðu Fiskveiðisjóðs, en bréfið er svar við fyrirspurn endur­skoðandans um gögn, sem afhent voru stefnda varðandi gjaldeyrisjöfnuð sjóðsins um áramót.

Stefnandi var boðaður á fund forstjóra stefnda þann 24. febrúar 1998 en fundinn sat einnig framkvæmdastjóri markaðsviðskipta. Á fundinum kom fram að stefnanda væri gefinn kostur á því að gera starfslokasamning en ella yrði honum sagt upp störfum. Daginn eftir gerðu málsaðilar samkomulag um starfslok stefnanda sem var í aðalatriðum þannig að stefnandi léti þegar af störfum en stefndi greiddi honum föst mánaðarlaun og bifreiðastyrk til októberloka það ár. Í samningnum er tekið fram að hvorugur aðila ætti kröfu á hinn vegna starfslokanna. Einnig er tekið fram að sátt væri um starfslokin með þeim hætti sem lýst er í samningnum. Ástæða starfslokanna var sú að fyrirsvarsmenn stefnda töldu ekki grundvöll fyrir áframhaldandi starfi stefnanda hjá stefnda.

Í bréfi stefnda til ríkisendurskoðanda frá 25. febrúar 1998 eru settar fram athugasemdir í nokkrum liðum varðandi ársuppgjör Fiskveiðasjóðs 1997 og einnig eru þar athugasemdir varðandi Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð. Í athugasemdunum kemur m.a. fram að vegna rangra upplýsinga starfsmanns Fiskveiðasjóðs um stöðu gjaldeyrisjafnaðar um áramót sé áætlað að stefndi hafi tapað um 48 milljónum króna. Farið er fram á að í uppgjöri Fiskveiðasjóðs verði tekið tillit til þess að sjóðurinn bæti stefnda þetta tjón. Einnig er óskað eftir því að ríkisendurskoðun komi athugasemdunum í bréfinu til matsnefndar sem hafi með höndum samræmingu á lokauppgjörum fjárfestingarlánasjóðanna. Þá er einnig talið afar mikilvægt að stjórnir sjóðanna fái ábendingar um þau mál, sem fjallað er um í bréfinu, til þess að þær geti tekið ákvarðanir á grundvelli fullnægjandi upplýsinga er væru í samræmi við upplýsingar sem stefndi myndi styðjast við varðandi mat á eignum í uppgjöri árið 1998.

Í athugasemdum endurskoðanda Fiskveiðasjóðs til ríkisendurskoðanda, dagsettum 2. mars 1998, segir m.a., í tilefni af staðhæfingum stefnda í framangreindu bréfi frá 25. febrúar 1998 til ríkisendurskoðanda um rangar upplýsingar starfsmanns Fiskveiðasjóðs, að starfsmaðurinn hafi þann 23. desember 1997 látið starfsmönnum stefnda í té "vinnublað sem hann hafi verið að vinna með og skoða um hugsanleg áhrif myntskiptasamninga á gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs Íslands". Fundið er að því að starfsmenn stefnda skyldu ekki leita eftir staðfestingu á áreiðanleika þessara gagna þar sem um svo háar fjárhæðir og mikla hagsmuni hafi verið að ræða.

Stefnandi var boðaður á fund ríkisendurskoðanda þann 4. mars 1998 en lagðar hafa verið fram í málinu athugasemdir hans af því tilefni, dagsettar 3. mars það ár. Í þeim segir m.a. að gögnin, sem stefndi hafi fengið frá stefnanda sem starfsmanni Fiskveiðasjóðs, hafi á ótvíræðan hátt sýnt rétta gjaldeyrisstöðu sjóðsins. Þar er því jafnframt lýst að stefnandi hafi ekki fengið að sjá gögn frá Fiskveiðasjóði, sem gjaldeyrisjöfnuður stefnda hafi verið settur upp eftir, þrátt fyrir að stefnandi hafi gengið eftir því. Í málinu hafa einnig verið lagðar fram athugasemdir stefnanda dagsettar 6. mars 1998.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 16. mars 1998, er krafist skaðabóta úr hendi stefnda fyrir tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þess að hann hafi verið neyddur til uppsagnar á fölskum forsendum og að hann hafi þurft að sæta ósönnum ávirðingum, meiðyrðum og aðdróttunum af hálfu stefnda. Í bréfinu segir enn fremur að verði krafan ekki greidd eða samið um hana innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins verði höfðað mál á hendur stefnda til greiðslu kröfunnar. Með bréfi forstjóra stefnda, sem er dagsett 20. mars sama ár, var bótakröfunni hafnað með rökum sem þar koma fram.

Stefnanda tókst ekki að fá annað starf fyrr en 1. janúar 1999 en þá hóf hann störf hjá Íbúðalánasjóði. Hann heldur því fram að hann hafi átt í erfiðleikum með að fá starf, sambærilegt því starfi og hann hafði áður hjá stefnda, þar sem sérþekking hans njóti sín, vegna umtals fyrirsvarsmanna stefnda um starfslok hans hjá stefnda og eru bótakröfur hans í málinu byggðar á því. Í málinu er deilt um bótaskyldu stefnda. Í því sambandi er deilt um það hvort stefnandi veitti starfsmönnum stefnda rangar upplýsingar varðandi eign Fiskveiðasjóðs í þýskum mörkum í desember 1997. Einnig er deilt um það hvort fyrirsvarsmenn stefnda hafi veitt upplýsingar um hin meintu mistök stefnanda á saknæman hátt þannig að bótaskyldu varði.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er málavöxtum lýst þannig að stefnandi hafi hafið störf hjá stefnda í byrjun árs 1998 þegar stefndi yfirtók rekstur, réttindi og skuldbindingar Fiskveiðasjóðs Íslands og fleiri lánasjóða samkvæmt lögum nr. 60/1997 um stofnun Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf. Stefnandi hafi áður starfað um árabil sem forstöðumaður fjárreiðu- og alþjóðasviðs hjá Fiskveiðasjóði.

Þann 24. febrúar 1998 hafi stefnandi verið boðaður á fund Bjarna Ármannssonar, forstjóra hjá stefnda, og hafi honum verið tilkynnt að til stæði að segja honum upp störfum. Hafi stefnanda verið gefnir tveir kostir, annað hvort að gera starfslokasamning eða að honum yrði sagt upp. Ástæður þessa hafi verið þær að forráðamenn stefnda hafi haldið því fram að stefnandi hafi gefið rangar upplýsingar um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs og vegna þessa hefði bankinn tapað umtalsverðum fjármunum þannig að skipti tugum milljóna. Samkvæmt bréfi frá stefnda, dagsettu 25. febrúar 1998, sé áætlað að stefndi hafi tapað 48.000.000 króna vegna þessarar meintu röngu upplýsingagjafar stefnanda. Forráðamenn stefnda hafi að engu haft skýringar, sem stefnandi hafi umbeðinn gefið þeim skriflega þann 22. febrúar 1998, en stefnandi hafi frá upphafi haldið því fram að ásakanir um ranga upplýsingagjöf á hendur honum væru ekki á rökum reistar. Undir þá skoðun stefnanda hafi tekið bæði stjórn og endurskoðandi Fiskveiðasjóðs Íslands.

Stefnanda hafi ekki verið gefinn annar frestur en til næsta dags til að ákveða hvort hann vildi ganga til starfslokasamnings eða vera sagt upp. Hann hafi verið miður sín vegna aðstöðu sinnar og þeirra alvarlegu ásakana, sem hafðar hafi verið uppi gagnvart honum. Hann hafi því samþykkt tilneyddur að ganga frá starfslokasamningi enda ljóst að ella yrði honum sagt upp störfum.

Fljótlega eftir starfslok stefnanda hafi honum orðið ljóst að forráðamenn stefnda hafi ekki farið leynt með ásakanir sínar í hans garð. Honum hafi jafnframt orðið ljóst að þessar röngu ásakanir hefðu skaðað orðstír hans og myndu valda honum erfiðleikum við að finna annað sambærilegt starf. Þetta hafi komið á daginn en stefnandi hafi árangurslaust reynt að sækja um sambærileg störf á fjármálamarkaðnum eða við fjárumsýslu. Fjölmargir aðilar hafi frétt af ásökunum forsvarsmanna stefnda á hendur honum og væri nú, að því er virtist, almenn vitneskja í fjármálastofnunum og hjá fleiri aðilum um þessar röngu ásakanir í garð stefnanda.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann hafi starfað hjá Fiskveiðasjóði frá árinu 1971 við góðan orðstír. Hafi hann með dugnaði og elju unnið sig upp í stöðu forstöðumanns fjárreiðu- og alþjóðasviðs. Allan þann tíma hafi vel verið látið af störfum hans og hafi hann aldrei fengið tiltal eða áminningu hvað þá heldur að hann hafi verið vændur um að hafa gert mistök í starfi. Þegar stefndi hafi tekið yfir starfsemi Fiskveiðasjóðs hafi verið ljóst að stefnandi naut góðs álits sem starfskraftur á fjármálamarkaði. Frá því í október 1997 hafi stefnandi verið í sambandi við þá starfsmenn stefnda, sem þá hafi verið komnir til starfa, og hafi hann gert þeim ítarlega grein fyrir því hvernig gjaldeyrisstöðu og meðferð gjaldeyrismála hjá Fiskveiðasjóði væri háttað. Þá hafi stefnandi haft samráð við þessa starfsmenn stefnda, allt til þess tíma að stefndi tók við starfsemi, eignum, réttindum og skyldum Fiskveiðasjóðs. Hjá stefnda hafi því verið fyrir hendi allar upplýsingar um meðferð gjaldeyrismála áður en stefnandi var ráðinn til starfa hjá stefnda.

Með því að knýja stefnanda til uppsagnar á þeim forsendum að honum hafi orðið á alvarleg mistök í starfi með rangri upplýsingagjöf hafi verið vegið að æru hans og starfsheiðri. Skaðinn, sem þessar ásakanir valdi, sé enn meiri eftir því sem þær berist víðar.

Auk þess að skaða æru og starfsheiður stefnanda sé ljóst að tilefni starfslokanna hjá stefnda geri honum nánast ómögulegt að finna sambærilegt starf á hinum smáa íslenska fjármálamarkaði þar sem sérþekking hans njóti sín. Jafnframt sé ljóst að ásakanirnar muni gera honum örðugt um vik að afla sér vinnu sem almennur skrifstofumaður enda muni hann alltaf þurfa að gera grein fyrir ástæðum starfsloka hjá fyrri vinnuveitanda.

Forráðamenn stefnda hafi í engu sýnt fram á að hinar alvarlegu ásakanir þeirra á hendur stefnanda um ranga upplýsingagjöf um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs eigi við rök að styðjast. Bæði stjórnendur og endurskoðandi Fiskveiðasjóðs haldi því fram að ásakanir þessar séu rangar. Hafi jafnvel verið leiddar að því líkur að ásakanirnar hafi eingöngu verið settar fram í því skyni að auka hagnað stefnda og er í því sambandi vísað til framlagðra gagna, m.a. frá endurskoðanda og stjórn sjóðsins.

 Af hálfu stefnanda er því haldið fram að þessar röngu ásakanir forráðamanna stefnda, sem hafi verið tilefni þess að stefnandi hafi verið neyddur til að segja upp störfum hjá stefnda, hafi skaðað æru stefnanda og starfsheiður. Á þann hátt hafi forráðamenn stefnda brotið gegn 235. gr. almennra hegningarlaga, enda hafi þeir ekki fært fram neinar sönnur fyrir réttmæti aðdróttana sinna.

Hinar röngu ásakanir hafi verið settar fram af forsvarsmönnum stefnda á gálausan hátt og hafi þær valdið stefnanda tjóni, einkum í ljósi þess að ásakanirnar hafi síður en svo farið leynt. Sé fjölmörgum aðilum, sem starfi í tengslum við hinn íslenska fjármálamarkað, kunnugt um þessar ásakanir á hendur stefnanda. Vegna þessa beri forsvarsmenn stefnda bótaábyrgð samkvæmt sakarreglunni á tjóni stefnanda og stefndi beri ábyrgð á þessari háttsemi þeirra samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð.

Kröfur vegna fjártjóns og miska styður stefnandi eftirfarandi rökum.

Kröfuna um bætur vegna fjártjóns byggir stefnandi á því að telja megi fullvíst að hinar röngu ásakanir hafi leitt til þess að stefnandi eigi ekki möguleika á því að fá jafn vel launaða vinnu þar sem sérþekking hans njóti sín en um það vitni framlögð gögn um árangurslausar atvinnuumsóknir. Vegna þessa sé farið fram á bætur fyrir tekjutap stefnanda samkvæmt útreikningum tryggingafræðings frá 25. febrúar 1999.

Hinar röngu ásakanir forráðamanna stefnda og starfslokin í framhaldi af þeim hafi skaðað æru stefnanda og valdið honum umtalsverðum álitshnekki. Hafi þær jafnframt valdið honum andlegum þjáningum og óþægindum, einkum í samskiptum við fyrrum starfsbræður sína á fjármálamarkaðnum. Vegna þessa miska er krafist miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísað er einnig til meginreglna skaðabótaréttarins og ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er varða refsingu fyrir ærumeiðingar, sbr. m.a. 235. gr. laganna.

Krafa stefnanda um vexti er reist á vaxtalögum nr. 25/1987 og krafa um málskostnað á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Er sérstaklega óskað eftir að tillit verði tekið til kostnaðar við öflun útreiknings á tjóni stefnanda vegna uppsagnarinnar.

Málsástæður og lagarök stefnda

 Af hálfu stefnda er vísað til þess að allir starfsmenn Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, sem tóku laun samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga og ekki var boðið starf hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, hafi átt rétt á starfi hjá stefnda og skyldu þeir njóta sömu réttinda og þeir höfðu áður samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Stefnandi hafi gegnt starfi forstöðumanns fjárreiðu- og alþjóðasviðs hjá Fiskveiðasjóði Íslands og um kjör hans farið samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna (SÍB). Samkvæmt 2. gr. ráðningarsamningsins frá 29. október 1997 skyldi hann vera ótímabundinn. Um uppsagnarfrest af beggja hálfu skyldi fara eftir kjarasamningi SÍB en samkvæmt 11.2.3 grein hans hafi stefnandi átt rétt á 6 mánaða uppsagnarfresti.

 Þar sem af yfirtöku stefnda á áður starfandi lánastofnunum hinn 1. janúar 1998 hafi leitt að fella þurfti saman gjaldeyrisjöfnuð þriggja lánastofnana hafi starfsmenn Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, sem ábyrgð báru á gjaldeyrisjöfnuði þeirra, verið beðnir um upplýsingar um stöðu gjaldeyrisjöfnuðar viðkomandi sjóðs í lok desember 1997, miðað við 31. desember það ár. Í tilviki Fiskveiðasjóðs hafi stefnandi verið beðinn um þessar upplýsingar. Þessum aðilum hafi verið gerð grein fyrir því til hvers þessar upplýsingar yrðu notaðar og hafi þeim því verið kunnugt um að þær hefðu áhrif á rekstur stefnda allt frá fyrsta degi starfsemi hans sem lánastofnunar þann 1. janúar 1998. Stefnandi hafi veitt upplýsingar um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs og er í því sambandi vísað til útprentunar á dskj. nr. 28. Hafi gjaldeyrisjöfnuði stefnda verið stillt upp á grundvelli þessara upplýsinga og hafi verið unnið eftir því við gjaldeyrisstýringu stefnda. Í minnisblaði innri endurskoðanda og forstöðumanns reikningshalds og áætlanagerðar stefnda frá 21. febrúar 1998 á dskj. nr. 30 sé greint frá vandkvæðum við að fá aðgang að gögnum Fiskveiðasjóðs til að unnt yrði að kanna hvort eignir og skuldir Fiskveiðasjóðs í erlendum myntum samkvæmt uppgjöri 31. desember 1997 stemmdu við áður fengnar upplýsingar um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs á þessum tímapunkti. Í minnisblaði innri endurskoðanda stefnda frá 24. febrúar 1998 á dskj. nr. 31 sé gerð grein fyrir því hvenær og hvernig í ljós hafi komið að stór villa hafi verið í þeim upplýsingum sem stefnandi hafi veitt um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs. Hafi villan falist í því að inn í uppgefnum upplýsingum hefði skuld Fiskveiðasjóðs í þýskum mörkum verið oftalin um u.þ.b. 2,5 milljarða króna en þetta komi fram á dskj. nr. 38. Vegna misræmis, sem í ljós hafi komið að hafi verið til staðar á milli þess gjaldeyrisjöfnuðar sem unnið hafi verið út frá hjá stefnda og þeirrar stöðu, sem tölvukerfi stefnda hafi sýnt þegar upplýsingakerfi sjóðanna þriggja, sem hann yfirtók, hafi verið samkeyrð, hafi stefnandi í janúar og febrúar 1998 margoft verið beðinn um að yfirfara gögn um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs. Þótt hann kæmi auga á smærri villur, sem hafi þá verið leiðréttar, hafi hann ekki komið auga á fyrrgreinda villu. Eftir að hún hafi uppgötvast hafi stefnandi skýrt mistökin sjálfur þannig að hann hefði í desember 1997 verið að skoða áhrif hugsanlegra samninga á gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs og hefði þá slegið inn í yfirlit um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs tölu sem hafi ekki átt að vera þar. Hafi hann afhent þeim, sem unnu að því að stilla upp gjaldeyrisjöfnuði stefnda, skjal með þessum röngu upplýsingum. Stefnandi hafi og viðurkennt þessi mistök á bls. 3 í greinargerð frá 22. febrúar 1998 á dskj. nr. 13 sem hann hafi tekið saman að beiðni forstjóra stefnda eftir að villan hafi uppgötvast.

 Gjaldeyrisjöfnuði stefnda hafi verið stýrt miðað við þær upplýsingar sem stefnandi hafi látið í té um gjaldeyrisstöðu Fiskveiðasjóðs allt þar til villan hafi uppgötvast. Strax og hún hafi uppgötvast hafi gjaldeyrisstaða stefnda verið leiðrétt. Mistökin hafi hins vegar valdið stefnda verulegu fjárhagslegu tjóni, sem hafi stafað af því að í stað þess að eignir og skuldir stefnda í erlendum myntum, þ.m.t. í þýskum mörkum, væru jafnar eins og gjaldeyrisstýringin hafi miðast við, hafi stefndi reynst eiga umfram eign að jafnvirði 2.567 milljóna íslenskra króna í þýskum mörkum og minni eign í íslenskum krónum sem því hafi numið. Frá 1. janúar 1998 og þar til villan hafi uppgötvast og gjaldeyrisstaðan leiðrétt hafi gengi þýska marksins hins vegar lækkað úr 40,29 krónum í 39,54 krónur. Tjón stefnda vegna umframeignar í þýskum mörkum hafi því orðið um 50 milljónir króna sem gjaldfærst hafi beint í rekstrarreikningi stefnda á árinu 1998.

 Eftir að fyrrgreind villa hafi uppgötvast upp úr miðjum febrúar 1998 hafi stjórnendur stefnda komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri grundvöllur fyrir áframhaldandi störfum stefnanda hjá stefnda en stefndi hafi átt rétt á að segja stefnanda upp störfum með 6 mánaða fyrirvara. Stefnandi hafi sjálfur kosið að gerður yrði starfslokasamningur fremur en að honum yrði sagt upp. Að ósk stefnanda hafi verið tekið inn í starfslokasamkomulagið sérstakt ákvæði um að hvorugur aðila ætti kröfu á hinn vegna starfslokanna. Stefnandi hafi fengið greiðslur frá stefnda í samræmi við ákvæði samkomulagsins.

Ríkisendurskoðandi hafi verið skipaður formaður matsnefndar, sem skipuð hafi verið af viðskiptaráðherra til að leggja mat á heildarfjárhæð stofnhlutafjár í hinu stefnda hlutafélagi samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 60/1997. Með bréfi viðskiptaráðuneytisins 24. júní 1997 hafi matsnefndinni jafnframt verið falið að fylgjast með lokafrágangi stofnefnahagsreiknings stefnda. Ríkisendurskoðun hafi jafnframt annast lögum samkvæmt endurskoðun fjárfestingarlánasjóða í eigu ríkisins og endurskoðun stefnda, sbr. 6. gr. laga nr. 86/1997 um ríkisendurskoðun. Af þessum ástæðum hafi stefndi komið á framfæri við Ríkisendurskoðun, á meðan á vinnu við uppgjör fjárfestingarlánasjóðanna þriggja fyrir árið 1997 stóð, margháttuðum athugasemdum varðandi uppgjör þeirra. Þar á meðal hafi í bréfi stefnda til Ríkisendurskoðunar dags. 25. febrúar 1998 verið greint frá því að áætlað væri að stefndi hefði tapað um 48 miljónum króna vegna rangra upplýsinga starfsmanns Fiskveiðasjóðs um stöðu gjaldeyrisjafnaðar um áramótin 1997/1998. Hafi verið farið fram á að í uppgjöri Fiskveiðasjóðs yrði tekið tillit til þessa og Fiskveiðasjóður látinn bæta stefnda þetta tjón.

 Þegar stjórnendur stefnda hafi komist að raun um það, u.þ.b. einum og hálfum mánuði eftir að stefndi hafði tekið til starfa sem lánastofnun, að stefndi hefði orðið fyrir tæplega 50 milljón króna tjóni vegna framangreindra mistaka hafi þeir talið óhjá-kvæmilegt að gera iðnaðar- og viðskiptaráðherra grein fyrir því fjárhagslega áfalli er stefndi hefði orðið fyrir.

 Stefndi hafi að öðru leyti ekki greint neinum aðilum utan vébanda stefnda sjálfs frá þeim mistökum sem hafi átt sér stað í upplýsingagjöf um gjaldeyrisjöfnuð. Innan stefnda sjálfs hafi einungis stjórnendum verið greint frá málinu. Öðrum starfsmönnum stefnda hafi aðeins verið greint frá því að stefnandi hefði látið af störfum en stjórnendur stefnda hafi hvorki innan né utan vébanda stefnda fjallað um tildrög starfslokanna.

 Sýknukrafa stefnda er að öðru leyti studd eftirfarandi málsástæðum og lagarökum.

 Málsaðilar hafi gert með sér samkomulag um starfslok stefnanda hjá stefnda. Í samkomulaginu hafi að frumkvæði stefnanda verið sett ákvæði um að hvorugur ætti kröfu á hinn vegna starfslokanna. Stefnandi geri ekki kröfu til þess að starfsloka-samkomulagið verði dæmt ógilt, enda engar forsendur fyrir slíkri kröfu, þar sem stefnandi hafi sjálfur valið að starfslok hans ættu sér stað með þessum hætti fremur en að stefndi segði honum upp með samningsbundnum uppsagnarfresti. Það sé rangt að stefnandi hafi verið "neyddur til að segja upp störfum sínum hjá stefnda" eins og hann haldi fram. Stefndi hafi samkvæmt ráðningarsamningi aðila og kjarasamningi SÍB átt rétt á að segja stefnanda einhliða upp störfum. Hann hafi hins vegar boðið stefnanda að í stað starfsuppsagnar yrði gert samkomulag um starfslok. Á það hafi stefnandi fallist. Í starfslokasamkomulaginu hafi sérstaklega verið kveðið á um að hvorugur samkomulagsaðila ætti kröfu á hinn vegna starfslokanna. Sé af og frá að stefnandi, sem sjálfur hafi sérstaklega farið fram á að þetta ákvæði yrði tekið upp í starfslokasamkomulagið, geti haft uppi bótakröfur vegna þeirra ástæðna sem forráða-menn stefnda færðu fram fyrir starfslokaákvörðun sinni. Allan lagagrundvöll skorti því fyrir kröfum stefnanda á hendur stefnda vegna starfslokanna og tildraga þeirra.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að forráðamenn stefnda hafi ekki farið leynt með rangar ásakanir sínar í hans garð eða að þær hafi verið settar fram á gálausan hátt. Einnig er því mótmælt að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni og miska, sem stefndi beri bótaábyrgð á samkvæmt sakarreglunni og almennum reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð. Fullyrðingar stefnanda séu órökstuddar og heldur ekki studdar nokkrum gögnum. Forráðamenn stefnda hafi ekki borið út nokkrar ásakanir á hendur stefnanda, hvað þá rangar ásakanir. Fyrir liggi að gjaldeyrisjöfnuði hjá stefnda hafi verið stillt upp á grundvelli rangra upplýsinga frá stefnanda um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs. Af því hafi hlotist verulegt fjárhagslegt tjón fyrir stefnda sem hafi talið vegna þessa útilokað að hafa stefnanda áfram í starfi. Vegna þess fjárhagslega skakkafalls, sem stefndi hafi orðið fyrir, hafi stjórnendur stefnda talið nauðsynlegt að beina því til Ríkisendurskoðunar, bæði sem endurskoðanda fjárfestingarlánasjóðanna og stefnda og sem tengiliðs við matsnefnd samkvæmt lögum nr. 60/1997. Einnig að því yrði beint til stjórnar Fiskveiðasjóðs, til þess að tillit yrði tekið til tjóns stefnda í uppgjöri sjóðsins og hann látinn bæta stefnda tjónið, enda hafi verið leitað til stefnanda um upplýsingar sem starfsmanns sjóðsins. Með sama hætti hafi stjórnendur stefnda talið óhjákvæmilegt að greina forsvarsaðilum eigenda stefnda frá hinu óvænta og umtalsverða tjóni stefnda. Hefði það áreiðanlega verið brot á starfsskyldum stjórnenda stefnda ef þeir hefðu látið undir höfuð leggjast að greina þessum aðilum frá málinu. Bæði ríkisendurskoðandi og aðrir starfsmenn Ríkisendurskoðunar, matsnefnd samkvæmt lögum nr. 60/1997, stjórnendur Fiskveiðasjóðs og starfsmenn ráðuneyta hafi verið og væru bundnir þagnarskyldu, sbr. 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, 3. mgr. 4. gr., sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 60/1997 og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 123/1993 um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 43. gr. laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði. Samskipti stefnda við Ríkisendurskoðun og umfjöllum matsnefndar og stjórnar Fiskveiðasjóðs um málið og samskipti stefnda við fulltrúa eigenda stefnda hafi aðeins falið í sér lýsingu á staðreyndum en ekki nokkrar rangar ásakanir á hendur stefnanda. Þau geti því ekki orðið grundvöllur bótaábyrgðar gagnvart stefnanda.

 Stefndi mótmælir því að forráðamenn hans hafi á öðrum vettvangi en að framan greinir fjallað um mistök stefnanda eða tildrög starfsloka hans eða að þeir hafi yfir höfuð greint utanaðkomandi aðilum frá fjárhagslegu tjóni sínu. Allt umtal um mistök í innra starfi geti verið skaðlegt en það gildi enn frekar þegar í hlut eigi ný lánastofnun eins og í tilviki stefnda. Það hafi því beinlínis verið andstætt hagsmunum stefnda að skýra frá tildrögum að starfslokum stefnanda og umræddu tjóni stefnda. Hins vegar hafi stefnandi sjálfur skýrt fyrrum samstarfsmönnum sínum hjá Fiskveiðasjóði frá tildrögum starfsloka sinna.

Stefndi telur að ekkert liggi fyrir um að rekja megi orsakir þess að stefnandi hafi ekki ráðið sig til starfa að nýju til þess að fyrir liggi almenn vitneskja á fjármálamarkaðnum, hvað þá á vinnumarkaðnum almennt, um tildrög starfsloka hans hjá stefnda. Ekki hafi heldur verið sýnt fram á að sú vitneskja, sem einhvers staðar kunni að liggja fyrir um það, sé frá forráðamönnum stefnda komin. Auk þess hafnar stefndi því með öllu að um sé að ræða sök hjá forráðamönnum stefnda í sambandi við umfjöllun þeirra um málefni stefnanda.

 Samkvæmt framansögðu skorti skilyrði fyrir bótaskyldu stefnda með öllu og beri þar af leiðandi að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda.

 Ef svo ólíklega færi að það yrði talið geta varðað stefnda bótaskyldu gagnvart stefnanda að forráðamenn stefnda skyldu þannig greina frá umræddu tjóni og tildrögum þess, bendir stefndi á að ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru fjárhagslegu tjóni af þeim sökum. Samkvæmt starfslokasamningi aðila hafi stefnandi haldið fullum launum til 1. nóvember 1998. Þennan tíma hafi stefnandi m.a. nýtt til þess að halda áfram þátttöku í námskeiði fyrir verðandi verðbréfamiðlara en stefndi hafi greitt námskeiðsgjöld fyrir hann. Því er mótmælt að framlögð svarbréf við atvinnuumsóknum stefnanda sanni að fyrir hendi sé í atvinnulífinu einhver almenn vitneskja um tildrög starfsloka stefnanda hjá stefnda, sem stafi frá stefnda, og valdi stefnanda erfiðleikum við að fá starf við sitt hæfi.

 Þá er því vísað á bug að nokkuð liggi fyrir um framtíðartjón stefnanda. Nú sé mikil eftirspurn á vinnumarkaði hér á landi og næg atvinnutækifæri. Jafnvel þótt leitt þætti í ljós að það hefði spurst út í þröngum hópi fyrir mörgum mánuðum fyrir tilverknað forráðamanna stefnda hvers vegna stefnandi lét af störfum hjá stefnda, þá hafi slíkt hvorki víðtæk né langvarandi áhrif. Stefnandi hafi starfað hjá Fiskveiðasjóði Íslands þar til í árslok 1997 og liggi ekkert annað fyrir en að fyrrum vinnuveitendur hans geti gefið honum meðmæli. Loks sé á það að líta í þessu sambandi að málshöfðun stefnanda kunni sem slík að leiða til þess að vitneskja um tildrög starfsloka hans berist miklu víðar en áður. Stefndi hafnar því að stefnandi hafi orðið fyrir miska sem rekja megi til frásagna forráðamanna stefnda um tildrög starfsloka hans. Ekkert liggi fyrir um fjárhagslegt tjón eða miska stefnanda, sem rekja megi til háttsemi, sem stefndi beri ábyrgð á, og beri samkvæmt því að sýkna stefnda.

 Ef svo ólíklega færi að stefndi verði talinn bótaskyldur er bótakröfum stefnanda mótmælt sem allt of háum og eru mótmælin studd eftirfarandi rökum:

 Skaðabótakrafa stefnanda byggi á útreikningi, sem miðist við að stefnandi hefði haldið sömu launum og hann hafði árið 1997 hjá Fiskveiðasjóði. Þessi forsenda sé augljóslega röng þar sem stefndi hafi tekið fullgilda og lögmæta ákvörðun um að til starfsloka stefnanda kæmi hjá honum og því ljóst að stefnandi hefði ekki haldið þeim launum sem hann hafði hjá Fiskveiðasjóði.

 Í bótakröfum stefnanda sé ekki gert ráð fyrir neinum frádrætti frá útreiknuðum skaðabótum vegna skattfrelsis bóta og hagræðis af eingreiðslu eins og venja standi til. Með hliðsjón af dómaframkvæmd ætti frádráttur vegna þessara þátta að nema að lágmarki 45%.

 Miskabótakröfu stefnanda er mótmælt sem allt of hárri og úr samræmi við dómvenju. Verði skaðabætur dæmdar verði auk þess að líta til þess að miski væri væntanlega, a.m.k. að hluta til, innifalinn í dæmdri skaðabótafjárhæð.

 Stefndi vísar til laga nr. 60/1997 um stofnun Fjárfestingarbanka Íslands, 6. gr. laga nr. 86/1997 um Ríkisendurskoðun, lagaákvæða um þagnarskyldu ríkisstarfsmanna, stjórnenda lánastofnana og matsnefndar samkvæmt lögum nr. 60/1997 og almennra reglna skaðabótaréttarins. Kröfur um málskostnað styður stefndi við ákvæði 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. laganna.

 

Niðurstöður

Stefnandi hefur upplýst varðandi störf sín hjá Fiskveiðasjóði að hann hafi fyrst unnið við almenn skrifstofustörf en fljótlega hafi hann tekið við bókhaldi sjóðsins. Síðar var honum einnig falið að sjá um erlendar fjárfestingar. Þegar til kom að tölvuvæða Fiskveiðasjóð var honum falið það verkefni en í tengslum við það lagði hann stund á nám í tölvunarfræðum við Háskóla Íslands árin 1979 og 1980 samhliða starfinu og árið 1982 var hann settur forstöðumaður tölvudeildar. Fljótlega eftir það var honum einnig falið að hafa með höndum erlend fjármál sjóðsins og að sjá um útreikninga í því sambandi. Á árinu 1991 starfaði hann að stórum hluta við fjármál og erlend mál og á árinu 1996 varð hann forstöðumaður fjárreiðu- og alþjóðasviðs. Í því fólst að hafa yfirsýn yfir gengisáhættu Fiskveiðasjóðs og stýringu á þeim málum sjóðsins.

Forstjóri stefnda upplýsti við munnlegar skýrslutökur fyrir dóminum að umrædd villa í gjaldeyrisjöfnuði hjá stefnda í þýskum mörkum og ástæðan fyrir henni hafi verið rædd í hópi stjórnenda og enn fremur hafi stjórn stefnda verið greint frá henni. Einnig var ríkisendurskoðanda skýrt frá því að starfsmaður Fiskveiðasjóðs hefði veitt rangar upplýsingar um gjaldeyrisstöðu sjóðsins og afleiðingum af því eins og fram kemur í bréfi stefnda til ríkisendurskoðanda dagsettu 25. febrúar 1998. Í bréfinu eru settar fram ákveðnar kröfur í þessu sambandi og var jafnframt óskað eftir því að ríkisendurskoðandi kæmi þessum upplýsingum á framfæri við stjórn Fiskveiðasjóðs. Þá kom fram að iðnaðarráðherra og ráðuneytisstjóra í því ráðuneyti hafi verið greint frá þessu. Stjórnendur hjá stefnda hafi ekki skýrt öðrum en framangreindum aðilum frá þessum mistökum. Telja verður ósannað í málinu að fyrirsvarsmenn stefndu hafi komið upplýsingum um hina meintu villu á framfæri á annan hátt en hér hefur verið lýst.

Forstjórinn upplýsti einnig fyrir dóminum að eftir að greinargerð stefnanda lá fyrir varðandi villuna og eftir samráð við innri endurskoðanda bankans og framkvæmdastjóra markaðsviðskipta hafi verið tekin ákvörðun um að stefnandi léti af störfum. Það hafi ekki eingöngu verið vegna villunnar, sem sú ákvörðun var tekin, heldur hafi það verið mat stjórnenda hjá stefnda að stefnandi gæti ekki starfað þar áfram og hafi verið litið svo á “að þeirra leiðir lægju ekki saman”.

Aðrir, sem komu fyrir dóminn, lýstu ólíkum skoðunum á því hvort stefnandi hafi veitt starfsmönnum stefnda rangar upplýsingar um gjaldeyrisstöðu Fiskveiðasjóðs en þeir eru fyrrum fyrirsvarsmenn Fiskveiðasjóðs og endurskoðandi sjóðsins, fyrrverandi starfsmaður stefnda, sem fékk hinar meintu röngu upplýsingar frá stefnanda, og innri endurskoðandi og framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá stefnda. Ekki vissu þeir þó í öllum tilfellum hverjar þær upplýsingar voru sem stefnandi hafði veitt. Af skriflegum gögnum málsins virðist ekki unnt að ráða með vissu hvort stefnandi veitti starfsmönnum stefnda rangar upplýsingar en gögnin útskýra villuna og hvers vegna starfsmenn stefnda töldu hana frá stefnanda komna.

Ekki kemur fram í gögnum málsins hvort sérstök rannsókn, önnur en sú sem fór fram hjá stefnda sjálfum, hefur farið fram í tilefni af hinni meintu röngu upplýsingagjöf stefnanda. Hins vegar er ljóst að þeir stjórnendur stefnda, sem tóku ákvörðun um að stefnandi léti af störfum og komu upplýsingum á framfæri um framkomna villu með þeim hætti sem hér að framan er lýst, töldu á þeim tíma engan vafa leika á því að hinar röngu upplýsingar væru frá stefnanda komnar enda höfðu þeir enga ástæðu til að ætla annað þar sem þá hafði ekkert komið fram sem benti til að ályktanir þeirra í þessum efnum væru rangar eða að þær ættu ekki við rök að styðjast. Að þessu virtu og því sem fram hefur komið af hálfu stefnda um ástæður fyrir því að fyrirsvarsmenn stefnda skýrðu frá hinni meintu villu, á þann hátt sem þegar hefur verið lýst, verður ekki talið að umræddar yfirlýsingar þeirra hafi verið settar fram af gáleysi eins og haldið er fram af hálfu stefnanda.

Með vísan til þessa verður ekki fallist á að upplýsingar, sem stjórnendur stefnda komu á framfæri um hina meintu villu, eins og hér hefur verið rakið, hafi verið veittar með saknæmum hætti þannig að varði stefnda bótaskyldu að lögum. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að stefnandi greiði stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf., skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Ásbjörns Þorleifssonar, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.