Hæstiréttur íslands
Mál nr. 166/2016
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Hegningarauki
- Skilorð
- Tafir á meðferð máls
- Skaðabætur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. febrúar 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að sér verði ekki gerð sérstök refsing, til vara að ákvörðun um refsingu verði frestað skilorðsbundið, en að því frágengnu að hún verði milduð. Þá krefst hann þess að fjárhæð einkaréttarkröfu verði lækkuð.
Brotaþoli, A, krefst þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu verði staðfest.
Héraðsdómur verður staðfestur með vísan til forsendna hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu háttsemi hans til refsiákvæðis. Ákærði hefur unnið sér til refsingar.
Rannsókn máls þessa hjá lögreglu hófst með kæru barnaverndarnefndar [...] 21. júní 2013. Hinn 12. júlí það ár var tekin skýrsla af brotaþola, en af ákærða ekki fyrr en 8. apríl 2014 og játaði hann skýlaust þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Lauk þá rannsókn málsins hjá lögreglu, en rannsóknargögn voru þó ekki send ríkissaksóknara fyrr en 12. september 2014. Ákæra var gefin út 5. júní 2015. Varð þannig óhóflegur dráttur á meðferð málsins, sem er ekki flókið eða umfangsmikið. Verður hvorki ákærða um þetta kennt né hefur ákæruvaldið gefið fullnægjandi skýringar hér um. Í þessu samhengi verður einnig að líta til þess að 4. júlí 2013 hafði verið gefin út ákæra á hendur ákærða fyrir brot gegn sama lagaákvæði og um ræðir í þessu máli. Gekk dómur í héraði 15. nóvember sama ár þar sem ákærði hlaut 18 mánaða fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára. Sá dómur var staðfestur með dómi Hæstaréttar 5. júní 2014 í máli nr. 53/2014. Var um refsingu ákærða þá meðal annars vísað til þess að ákvæði lokamálsliðar 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ættu við um hluta háttsemi hans, hann hefði játað greiðlega brot sín og frá ágúst 2012 gengist undir meðferð hjá sálfræðingi vegna hegðunar sinnar. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga verður sá dómur tekinn upp og dæmdur með máli þessu og refsing tiltekin eftir 77. gr. og 78. gr. sömu laga.
Samkvæmt öllu framansögðu, en að öðru leyti með vísan til þeirra atriða sem tiltekin eru í héraðsdómi um refsingu ákærða, verður hún ákveðin fangelsi í 20 mánuði bundin skilorði á þann hátt sem greinir í dómsorði.
Að virtum atvikum máls og gögnum um hagi brotaþola tengdum háttsemi ákærða verða henni dæmdar 800.000 krónur í miskabætur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða helming sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti, þar með talinn helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns og þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 20 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði brotaþola, A, 800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði helming sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti, sem nemur samtals 827.846 krónum, en þar eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur. Að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 5. nóvember 2015, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 5. júní 2015, á hendur X, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa ítrekað á tímabilinu frá 7. apríl 2012 og fram í júní 2012, á heimili ákærða að [...] í Reykjavík, og í eitt skipti í fellihýsi á ferðalagi um landið, haft samræði við stúlkuna A, sem þá var 14 ára gömul.
Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Verjandi krefst þess aðallega að ákærða verði ekki gerð refsing í málinu, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa, sbr. lokaákvæði 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Þá krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.
Í þinghaldi 2. september sl. játaði ákærði þá háttsemi sem lýst er í ákæru rétta, en neitaði sök í málinu. Var bókað í þingbók eftir verjanda að ákærði teldi háttsemina sér refsilausa með vísan til lokaákvæðis 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.
Auk ákærða og brotaþola gáfu skýrslu fyrir dóminum B, móðir brotaþola, C, móðir ákærða, og D sálfræðingur.
Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann hafi framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru, en með því hefur hann gerst brotlegur við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru.
Ákærði er fæddur í [...] 1996. Hann er í máli þessu sakfelldur fyrir endurtekin kynferðisbrot gegn barnungri stúlku. Af framburði brotaþola fyrir dóminum og vottorði sálfræðings sem liggur fyrir í málinu verður ráðið að brotin hafi valdið stúlkunni mikilli vanlíðan. Ákærði var 16 ára gamall þegar hann framdi brotin, en brotaþoli 14 ára, og kom fram við meðferð málsins fyrir dómi að þau hefðu verið kærustupar á þeim tíma. Samkvæmt því þykir mega færa refsingu ákærða niður fyrir lögbundið refsilágmark þeirrar háttsemi sem hann hefur verið sakfelldur fyrir, með vísan til lokaákvæðis 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður jafnframt litið til 1. og 4. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar.
Með dómi Hæstaréttar Íslands 5. júní 2014 í málinu nr. 53/2014 var ákærði dæmdur til 18 mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir kynferðisbrot samkvæmt 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við þrjár stúlkur á aldrinum 12 til 14 ára á tímabili frá í byrjun desember 2011 til ágúst 2012, en dómur var kveðinn upp í málinu í héraði 15. nóvember 2013. Brot þau sem ákærði er sakfelldur fyrir í máli þessu voru framin fyrir uppkvaðningu framangreinds refsidóms. Verður dómurinn því tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir öll brotin, sbr. 60. gr., 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár, en rétt þykir að binda refsinguna skilorði eins og í dómsorði greinir.
Ákærði hefur hafnað bótakröfu í málinu. Sem að framan er rakið olli ákærði brotaþola miska með brotum sínum og verður hann því dæmdur til að greiða henni bætur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Þykir fjárhæð bótakröfu hæfileg og verður hún dæmd eins og hún er fram sett með vöxtum eins og rakið er í dómsorði.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 695.640 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 492.125 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 52.000 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Marín Ólafsdóttir aðstoðarsaksóknari.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði A miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 7. apríl 2012 til 23. júlí 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 695.640 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 492.125 krónur, og 52.000 krónur í annan sakarkostnað.