Hæstiréttur íslands

Mál nr. 312/2013


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 13. mars 2014.

Nr. 312/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Jónasi Birgi Einarssyni

(Sveinn Guðmundsson hrl.)

Líkamsárás. Skilorð.

J var sakfelldur fyrir að hafa veist að A með því að skalla hann í höfuðið, slá hann tveimur höggum og skera með blaði úr dúkahníf. Voru brot J talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að J hafði tvisvar hlotið ákærufrestun, árásin átti sér stað í átökum og J hafði hlotið mikla áverka sjálfur í átökum við aðra þetta sinn. Refsing var ákveðin fangelsi í átta mánuði og var hún bundin skilorði í þrjú ár. J var dæmdur til að greiða A 1.000.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. apríl 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Brotaþoli hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína, sbr. 1. mgr. 208 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Framburður ákærða og vitna er réttilega rakinn í hinum áfrýjaða dómi að öðru leyti en því að framburður vitnisins B var ekki jafn eindreginn og framburður vitnanna C og D um að útilokað hefði verið að aðrir en ákærði gætu hafa skorið brotaþola. Þótt af honum megi ráða að svo hafi verið kom jafnframt fram hjá vitninu að hann hefði ekki fylgst með atvikum af athygli. Þá sagði í vottorði dr. E prófessors við Rannsóknastofu í meinafærði, réttarlækningadeild, að skurðarblað það sem um ræðir í málinu hafi verið þeirrar gerðar að áverkar á höndum ákærða samræmist því að hann hafi  haldið um skurðarblaðið. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti  eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Jónas Birgir Einarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 441.775 krónur þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2013.

Ár 2012, fimmtudaginn 7. mars, er á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 818/2012:  Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson) gegn Jónasi Birgi Einarssyni (Brynjólfur Eyvindsson hdl.), sem tekið var til dóms að aflokinni aðalmeðferð hinn 27. febrúar sl.

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 5. nóvember sl. á hendur ákærða, Jónasi Birgi Einarssyni, [...] „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, laust eftir miðnætti aðfararnótt sunnudagsins 11. mars 2012 utan við Kolaportið að austanverðu, Tryggvagötu 19, í Reykjavík, veist að A, með því að skalla hann í höfuðið, slá hann ítrekað í líkama og höfuð og hafa með blaði úr dúkhníf veitt honum rúmlega 40 cm. skurðarsár á kvið sem náði frá vinstri rifjaboga lóðrétt niður að vinstri mjaðmarspaða og þaðan aftur á við, auk tveggja minni sára vinstra megin á hálsi.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 11. mars 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafan er birt kærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“

Málavextir

Sunnudagsmorguninn 11. mars 2012 var tilkynnt um það til lögreglu að maður hefði verið stunginn í lærið í Tryggvagötu í Reykjavík.  Þegar lögreglumenn komu í Tryggvagötu sáu þeir hóp af fólki við Tollstöðvarhúsið.  Þar á meðal var A, f. [...], og var hann mjög blóðugur og skorinn frá vinstri síðu og upp undir vinstra brjóst.  Þá var hann með sár á bak við vinstra eyra.

Fram er komið í málinu að blóðugt blað úr dúkahníf fannst á vettvangi.  Var egg eftir því endilöngu og það án nokkurs handfangs.

Tekin var skýrsla af A tíu dögum síðar heima hjá honum 21. sama mánaðar.  Sagðist honum svo frá að ákærði, sem hann ekki þekkti, hefði skorið hann með hnífi í umrætt sinn.  Hefðu þeir verið að stympast og staðið þétt saman og hann ekki getað losað sig frá ákærða, sem hélt utan um hann. Hefði hann svo fundið mikinn sársauka í vinstri síðu og kviði og þegar hann gat losað sig með hjálp einhvers annars hefði hann séð að hann var skorinn.  Hann kvaðst ekki hafa séð að ákærði væri með hníf en jafnframt sagði hann að enginn annar en ákærði hefði verið nærri honum, þegar þetta gerðist, en ákærði. 

Skýrsla var tekin af ákærða á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 4. maí sl.  Skýrði hann svo frá að frænka hans, F, hefði haft samband við hann og kvartað undan því að A og piltur að nafni G, sem hún vissi að ákærði þekkti, hefðu verið með óhróður um hana á „Facebook“.  Hefði hún beðið hann um að hafa samband við strákana út af þessu.  Ákærði kvaðst þekkja þessa pilta enda hefðu þeir lagt hann í einelti þegar þeir voru saman í skóla.  Kvaðst hann hafa náð sambandi við þá á netsíðunni og spjallað við þá um þessa kvörtun F og fleira.  Hefðu þeir stungið upp á því við ákærða að þeir hittust og kvaðst ákærði hafa sagst vilja hitta þá við „Kolaportið“.  Hefði hann farið þangað með kunningja sínum, H .  Þegar þangað kom hefðu verið þar D og I nokkur.  Hefðu þeir tekið tal saman um þessa misklíð.  Eftir nokkra stund hefði A komið þarna að og gengið þétt upp að ákærða, ógnandi í fasi.  Hefði hann sett andlitið á sér framan í ákærða og spurt þrisvar til fjórum sinnum hvort ákærði vildi lemja hann.  Kvaðst ákærði að endingu hafa spurt hvort hann væri að biðja um það en í því hefði A skallað hann í andlitið.  Kvaðst hann hafa reynt að sparka A frá sér og komast í burtu.  Hefðu þá komið að strákar frá gámi sem þarna var, sumir með barefli.  Sumir þeirra hefðu ráðist að ákærða en aðrir að H, sem hefði hlaupið á brott.  Hann kvaðst muna að hann hefði ekki komið með hnífinn en sagðist hafa séð einn strákinn með skrúfjárn og annan með klaufhamar.  Kvaðst hann hafa fallið þegar honum var hrint og þá orðið þess var að hann var skorinn á hendi.  Strákarnir hefðu sparkað í búk hans og höfuð svo að hann vankaðist.  Eftir smástund hefði D komið að og skakkað leikinn.  Kvaðst hann hafa komist í bílinn hjá F með hjálp G.  Hann hefði svo verið fluttur á sjúkrahús í sjúkrabíl. 

Ákærði ítrekaði að hann hefði ekki komið með hníf á staðinn og ekki hafa orðið var við að A væri skorinn fyrr en hann sagði: „þeir eru með hníf“.  Hann sagði að ætlun hans hefði ekki verið að skaða A eða aðra en þetta gæti hafa verið slys og gæti hann ekki sagt að þetta væri sér að kenna.  Annars sagði hann nánar aðspurður að hann myndi þetta ekki og endurtók að hann hefði ekki komið með hnífinn.

Meðal gagna málsins er staðfest vottorð J skurðlæknis um áverka á A.  Segir þar að hann hafi verið með gapandi skurð á kvið þegar komið var með hann á slysadeild.  Náði skurðurinn frá vinstri rifjaboga lóðrétt niður og síðan aftur á við í hæð á við vinstra mjaðmarkamb, um 40 cm langur.  Var skurðurinn hreinskorinn eins og eftir skurðhníf og sást í vöðva á dýpinu.  Var skurðurinn saumaður saman og þurfti samtals rúmlega 100 spor til þess.  Þá voru tvö sár vinstra megin á hálsi, annað 3-4 cm langt neðan við eyrað og hitt sárið, sem var dýpra, var aðeins ofar.  Læknirinn tók ljósmyndir af sárunum og liggja þær frammi í málinu.

Þá er einnig í málinu gögn um áverka sem ákærði hlaut í átökum í þetta sinn og kemur þar fram að hann hafi fengið heilablæðingar eftir höfuðhögg sem hann fékk í átökum þennan morgun.  Hafi hann verið með kúlu á bak við vinstra eyra og miklar bólgur á vinstra kinnbeini og við augað.  Óvíst sé um bata eftir heilaáverkann.  Þá kemur einnig fram að hann hafi verið skorinn á baugfingri hægri handar.  Meðal gagna málsins eru myndir af höfuðáverkunum á ákærða, skurðinum á baugfingri og ennfremur af skurði á handarbaki vinstri handar hans fyrir ofan löngutöng.

Aðalmeðferð

Ákærði neitar því að hafa skallað A í höfuðið og neitar því að hafa skorið hann með hnífsblaðinu.  Þá neitar hann því að hafa slegið A ítrekað í líkama og höfuð.  Hann segist hafa slegið A en það hafi ekki verið ítrekað heldur einu sinni eða tvisvar.  Hann segir að hann hafi ekki komið með hníf með sér og ekki beitt honum á A, a.m.k. ekki viljandi.  Þegar á hann er gengið segist hann ekki vita hvort hann olli áverkanum með hnífsblaðinu sem fannst á staðnum.  A.m.k. hafi hann ekki verið með hnífinn þegar hann kom á svæðið.  Segist hann ekki hafa haldið á hnífsblaðinu og ekki hafa skorið A.  Sé það nokkuð ljóst.  Hann segir þá tvo hafa tekist á og þeir fallið í þeim átökum.  Þá segir hann að margir strákar hafi verið þarna í kring.  Hann segist hafa staðið upp við bíl og A upp við annan bíl en D öskrað.  Hafi þá fleiri strákar komið að og þeir A svo skollið saman.  Hann segir strák hafi verið fyrir aftan sig og kveðst hann hafa fengið á sig högg.  Hafi þeir A staðið andspænis og nálægt hvor öðrum og segir hann einhvern hafa reynt að draga sig í burtu frá A.  Hafi hann þá séð hnífinn í hendi einhvers, sem hann veit ekki hver var.  Kveðst hann hafa gripið í A og dregið hann að sér og A þá rekið upp öskur, hlaupið í burtu.  Segir hann D hafa sett sig í jörðina.  Hann segist ekki vita hvernig hann skarst á höndum.  Þá viti hann ekki heldur hvernig það gerðist að A var skorinn.  Hann kveðst hafa fengið í sig högg og spörk í höfuðið, þ.á.m. í hnakkann, þar sem hann lá. 

Ákærði segir átökin annars hafa byrjað með því að A fór að egna ákærða til átaka.  Hafi þeir staðið þétt andspænis hvor öðrum og segir hann A hafa skallað sig í andlitið og þeir farið að slást.  Þeir H og D hafi svo ætlað að grípa inn í átökin en þá hafi komið strákar aðvífandi að og þau þá hafist fyrir alvöru.  Hafi þannig 5 til 6 strákar blandað sér í átökin.  Ákærði kveðst hafa verið allsgáður þegar þetta gerðist.

A hefur skýrt frá því að þeir ákærði hafi byrjað að rífast þegar þeir hittust.  Hann segist hafa verið búinn að drekka 5 bjóra þegar þetta gerðist. Ákærði hafi spurt hvort hann vildi verða barinn en hann svarað því neitandi og ýtt ákærða frá sér.  Segir hann ákærða þá hafa skallað sig á hvirfilinn.  Hafi þeir tekist á eftir það en hann hopað frá ákærða og upp að bíl sem þarna var.  Hafi ákærði fylgt eftir og hafi hann fundið fyrir sársauka í síðunni og séð höndina á ákærða hreyfast þegar hann skar.  Þá hafi ákærði einnig skorið hann fyrir aftan eyrað.  Hann segist ekki hafa séð hnífinn eða áhaldið sem hann var skorinn með, hvorki á undan né eftir.  Hann segir engan annan hafa getað skorið hann en ákærða, enda hafi hann einn verið það nálægur að geta það.  Þá segir hann C svo hafa rifið ákærða af sér og hafi hann gert sér grein fyrir að hann var með langan skurð á líkamanum.  Hann segir afleiðingarnar af þessu aðallega vera andlegs eðlis en einnig fá hann stundum verki í skurðinn.  Þá geti hann ekki stundað líkamsrækt, eins og hann gerði áður.  Þá segist hann ekki lengur vera þekktur með nafni heldur sem strákurinn sem var skorinn.  Hann segir þetta hafa haft mikil áhrif á skólanám sitt.  Hafi hann fallið tvisvar á annarprófi.  Hann segist nú hafa byrjað nám aftur og bindi vonir við það.  Hann kveðst ekki geta skýrt áverkana á ákærða.   

C hefur skýrt frá því að hann hafi, ásamt kunningjum, komið þar að sem A, vinur hans, og D voru að ræða við ákærða.  Hafi þeir staðið álengdar en svo séð að slagsmál brutust út með þeim ákærða og A.  Hann hafi ekki séð upptökin að þessum átökum en leikurinn borist upp að bíl sem þarna var og þeir tveir tuskast þar og einhverjir pústrar hafi einnig gengið.  Hafi þeir einir verið í átökum.  Kveðst hann þá hafa hlaupið að til að skilja þá og þeir tveir þá staðið andspænis hvor öðrum.  Hafi hann komið aftan að ákærða, rifið í axlirnar á ákærða og tekið hann frá en þá séð að A hafði verið skorinn.  Hafi orðið uppnám og öskur.  Hann segist hafa séð glitta í eitthvað í hendi ákærða en ekki séð hvað það var.  Hann segir engum öðrum til að dreifa en ákærða og segist hafa verið sá eini sem blandaði sér í átök þeirra A.  Ákærði hafi svo farið inn í bíl sem ók á brott. 

H hefur skýrt frá því að hann hafi komið með ákærða á umræddan stað.  Hann segist ekki hafa orðið var við að ákærði hefði hníf eða hnífsblað með sér.  Þar fyrir hafi verið A og D og einhver þriðji pilturinn.  Hafi ákærði og A farið að rífast.  Hafi ákærði skallað A.  Hann segir vin eða vini A þá hafa ráðist á sig.  Viti hann ekki hvað gerðist fleira á milli þeirra ákærða í framhaldi af því en einhver eða einhverjir af vinum A hafi komið honum til hjálpar.  Hann hafi svo orðið þess áskynja að A hafði verið skorinn.  Aðspurður um það sem haft er eftir honum í lögregluskýrslu að A hafi skallað ákærða segist hann ekki muna þetta vel núna en ef þetta standi í skýrslunni sé það rétt, enda hafi þá verið styttra frá atburðinum.  Þá sé það einnig rétt sem þar segi að sá sem skallaði Jónas hafi spurt sig hvort hann hefði stungið A. 

D hefur skýrt frá því að hann hafi farið með A á umræddan stað.  Hafi A og ákærði farið að kýta og hafi A átt upptökin að því.  Hann segir þá tvo hafa „farið saman með hausinn“ og A skallað ákærða og þeir tuskast eftir það og einhver högg hafi gengið.  Hann segist ekki hafa séð að aðrir en þeir tveir ættu í átökum þarna.  Hann kveðst ekki hafa séð hvernig það gerðist að A var skorinn.  Þá hafi hann ekki orðið var við hníf eða vopn í fórum manna þarna.  Hann kveðst hafa staðið nokkuð álengdar við þá A og ákærða.  Hann kveðst ekki hafa orðið var við að aðrir en þeir tveir ættu í átökum.  Hann segist svo hafa séð A koma í áttina til sín og að hann hafði verið skorinn.  Hann segist hafa gengið að ákærða og séð að hann var skorinn á hendi.   

F hefur skýrt frá því að hún hafi séð ákærða og A standa „með hausinn á móti hvor öðrum“.  Hafi henni sýnst A skalla ákærða og allt farið í uppnám.  Ekki muni hún hver gerði hvað á hlut annarra en þarna hafi verið margir strákar, áþekkir og hún hafði ekki áður.  Hún hafi þó séð að eftir að A skallaði ákærða hafi ákærði „komið á móti“ og byrjað að slá A „eða eitthvað“ B komið og vaðið í ákærða.  Þarna hafi svo orðið hrúga af strákum í áflogum á milli bílanna og hún ekki séð hvað þar gerðist nánar. Aftur á móti segist hún hafa séð að strákar sóttu að ákærða með höggum.  Erfitt er annars að henda reiður á frásögn vitnisins um þennan atburð.  Hún man eftir A blóðugum og öskarandi. 

I segist ekki hafa fylgst með upphafi átakanna enda setið inni í bíl.  Þegar hann fór úr bílnum hafi átökin verið af staðin og A verið blóðugur. 

B hefur skýrt frá því að hann hafi komið þar að sem þeir voru að rífast ákærði og A.  Hafi ákærði talað um að hann vildi berja A.  Í framhaldi hafi hann svo skallað A.  Hafi leikurinn svo borist út á plan og fáeinum sekúndum síðar hafi ákærði gengið frá og sest inn í bíl, allur blóðugur.  Hann segist ekki hafa séð hvað fleira gerðist í átökum þeirra tveggja, enda hafi bíll skyggt á.  Hann segist ekki hafa séð að aðrir en A ættu í átökum við ákærða.   

Samantekt

                Blóðugt dúkahnífsblað fannst á vettvangi eftir átökin og ákærði var skorinn á baugfingri hægri handar og handarbaki vinstri handar.

Ákærði hefur ekki afdráttarlaust neitað því að hafa veitt A áverkana með hnífnum eða hnífsblaðinu.  Hefur verið gengið á hann með þetta og hann sagst a.m.k. ekki hafa skorið A viljandi.  Aftur á móti hefur hann lagt áherslu á það að hann hafi ekki komið með áhaldið á mótsstaðinn við Tollhúsið.  Ákærði neitar því að hafa skallað A en viðurkennir að hafa slegið hann einu sinni eða tvisvar. 

A hefur sagst hafa fundið til sársauka í síðunni þegar þeir stóðu í hvor á móti öðrum í fangbrögðum og svo séð ákærða hreyfa höndina þegar hann skar hann en ekki séð vopnið í höndum ákærða.  Þá hafi ákærði skorið hann á bak við eyrað. Loks segir hann ákærða hafa skallað sig í höfuðið.  C hefur sagt að ekki hafi aðrir blandast í átök ákærða og A sem gætu hafa skorið A.  Jafnframt segist hann hafa séð skurðinn á A þegar hann sleit ákærða frá honum og að glitti á eitthvað í hendi ákærða.  Hann segir einhverja pústra hafa gengið á milli þeirra tveggja.  D segir þá ákærða og A hafa tuskast og einhver högg hafi gengið á milli þeirra.  Ekki hafi hann séð að aðrir en þeir tveir ættu í átökum þarna.  B segir ákærða hafa skallað Aog leikinn hafa borist út á plan.  Fáeinum sekúndum síðar hafi ákærði gengið frá og sest inn í bíl, allur blóðugur.  Hann segist ekki hafa séð að aðrir en A ættu í átökum við ákærða.   

Þau A, H og F hafa borið að ákærði hafi skallað A.

Niðurstaða

Ákærði neitar því ekki afdráttarlaust að hafa skorið A og engin vísbending hefur komið fram í málinu um það að aðrir hafi blandast í átök þeirra A og getað skorið hann.  Jafnframt segja sjónarvottarnir C, D og B það útilokað að aðrir hefðu verið í aðstöðu til þess.  Frásögn A er afdráttarlaus um að hann hafi bæði fundið fyrir og séð þegar ákærði skar hann.  C sá áverkann á A þegar í stað og jafnframt glitta á eitthvað í hendi ákærða.  Loks sá B ákærða sjálfan blóðugan fáeinum sekúndum eftir átökin.  Verður að telja sannað með framburðum vitnanna, og að nokkru leyti ákærða sjálfs, að hann hafi veitt A áverka þá með eggvopni, sem lýst er í ákærunni.  Dómurinn lítur svo á að áverkarnir á A séu þess eðlis að um einbeitt ásetningsverk hafi verið að ræða.

Ákærði játar að hafa slegið A eitt eða tvö högg.  C og D hafa borið að nokkur högg hafi gengið á milli ákærða og A.  Er óhætt að telja sannað að ákærði hafi slegið A tvö högg.  Þá telst sannað með vætti A, H og F að ákærði hafi skallað A.

Líkamsárás ákærða á A var stórkostlega hættuleg og olli miklum áverka.  Varðar hún við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

Ákærði hefur tvisvar hlotið ákærufrestun fyrir hegningarlagabrot.  Hann var 17 ára þegar hann framdi brotið.  Árás ákærða átti sér stað í átökum og í framhaldi af ýfingum þeirra á milli.  Þá hlaut ákærði mikla áverka sjálfur í átökum við aðra í þetta sinn.  Refsing ákærða þykir með hliðsjón af 2. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 218. gr. b þeirra laga vera hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði.  Rétt er að fresta því að framkvæma refsingu þessa og fellur hún niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til þess að greiða honum 1.000.000 krónur í miskabætur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001, um vexti og verðtryggingu frá 11. mars 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafan er birt kærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.  A mátti þola gríðarlegan áverka og mikinn miska af hendi ákærða.  Þykir miskabótakröfunni því vera í hóf stillt.  Ber að taka hana til greina að fullu og dæma ákærða til þess að greiða A 1.000.000 krónur í bætur ásamt vöxtum, eins og krafist er.  

 Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Brynjólfi Eyvindssyni hdl., 450.000 krónur í málsvarnarlaun og Bjarna Haukssyni hdl. 450.000 krónur í réttargæslulaun, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti. 

Ekki er kunnugt um annan sakarkostnað.

Pétur Guðgeirsson  héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Jónas Birgir Einarsson, sæti fangelsi í 8 mánuði.  Frestað er því að framkvæma refsinguna og fellur hún niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð.

Ákærði greiði A 1.000.000 króna í miskabætur auk almennra vaxta frá 11. mars 2012 til 27. desember 2012, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði verjanda sínum, Brynjólfi Eyvindssyni hdl., 450.000 krónur í málsvarnarlaun og Bjarna Haukssyni hdl. 450.000 krónur í réttargæslulaun.