Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-149

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
X (Björgvin Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Réttindasvipting
  • Lögmaður
  • Kæruheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 22. júní 2018 sem barst Hæstarétti 3. júlí sama ár leitar X eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 20. júní 2018 í máli nr. 438/2018: Ákæruvaldið gegn X, á grundvelli 4. mgr. 214. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 215. gr. sömu laga. Ríkissaksóknari leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu X um að felld verði niður svipting réttinda hans til að vera héraðsdómslögmaður sem ákveðin var með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2001 í máli nr. S-599/2001. Héraðsdómur féllst á kröfuna, en með ofangreindum úrskurði Landsréttar var henni hafnað.

Í 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 eru tæmandi taldar heimildir til að kæra úrskurði Landsréttar í sakamálum til Hæstaréttar. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort skilyrðum 2. mgr. 68. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sé fullnægt þannig felld verði niður réttindasvipting og Atla Guðjóni Helgasyni veitt lögmannsréttindi á ný. Úrskurð um slíkan ágreining er ekki heimilt að kæra til Hæstaréttar á grundvelli 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008. Þá er ekki mælt fyrir í þeim lögum um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til kæru á úrskurðum Landsréttar í sakamálum. Þegar af þeirri ástæðu er beiðninni hafnað.