Hæstiréttur íslands
Mál nr. 682/2014
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Lögheimili
- Gjafsókn
|
|
Þriðjudaginn 31. mars 2015. |
|
Nr. 682/2014. |
K (Guðrún Björg Birgisdóttir hrl.) gegn M (Margrét Gunnlaugsdóttir hrl.) |
Börn. Forsjá. Lögheimili. Gjafsókn.
M og K deildu um forsjá dætra þeirra og lögheimili, en forsjáin hafði frá árinu 2012 við skilnað þeirra að borði og sæng verið sameiginleg. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti, var talið að það samræmdist best högum stúlknanna að forsjáin yrði áfram sameiginleg og að lögheimili þeirra yrði hjá M. Var sú niðurstaða meðal annars rökstudd með því að M teldist hæfari til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf stúlknanna, fylgja þeim eftir með jákvæðum aga og tryggja þeim stöðugleika. Með hliðsjón af tengslum K við stúlkurnar var hins vegar talið rétt að umgengni við hana yrði ákveðin rýmri en verið hafði eða frá miðvikudegi til mánudags aðra hvora viku. Þá var K gert að greiða einfalt meðlag með hverri stúlku um sig til 18 ára aldurs þeirra.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. október 2014. Hún krefst þess að lögheimili dætra aðila, A, B og C, verði hjá sér og að stefndi verði dæmdur til að greiða sér einfalt meðlag með hverri stúlku frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs þeirra. Þá krefst hún þess að kveðið verði á um fyrirkomulag umgengisréttar og að sá sem hans njóti beri af honum allan kostnað.
Loks krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti en um gjafsóknarkostnað fer svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefnda, M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2014.
Mál þetta var höfðað 22. júní 2013 og dómtekið 3. september 2014.
Stefnandi er M, [...],[...].
Stefndi er K, [...],[...].
Stefnandi krefst þess að aðilar fari sameiginlega með forsjá barnanna A, fæddrar [...], B, fæddrar [...] og C, fæddrar [...], til 18 ára aldurs. Þess er krafist að lögheimili þeirra verði hjá stefnanda.
Þá er þess krafist að í dómi verðið kveðið á um umgengni við stefndu og að henni verði gert að greiða kostnað við hana. Jafnframt er þess krafist að áfrýjun fresti ekki réttaráhrifum dóms verði krafa stefnanda tekin til greina.
Stefnandi krefst þess einnig að stefndu verði gert að greiða stefnanda meðlag til framfærslu hvers barns um sig eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni til 18 ára aldurs þeirra frá 1. ágúst 2013 að telja.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að mati réttarins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefnda krefst þess að henni verði með dómi einni falin forsjá barnanna til 18 ára aldurs þeirra. Stefnda krefst þess jafnframt að hafnað verði kröfu stefnanda um sameiginlega forsjá og að lögheimili barnanna verði hjá stefnanda. Verði ákveðið að forsjáin verði sameiginleg krefst hún þess að lögheimili barnanna verði hjá stefndu.
Þá krefst stefnda að stefnanda verði gert að greiða stefndu meðlag með hverju barni til 18 ára aldurs eins og baralífeyrir er ákveðinn hverju sinni.
Stefnda krefst þess jafnframt að kveðið verði á um fyrirkomulag umgengni og að sá sem umgengni nýtur beri af henni allan kostnað.
Stefnda krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I.
Málavextir
Aðilar máls þessa gengu í hjónaband í ágúst 2007. Þau eignuðust dætur sínar, A árið [...], B árið [...] og C árið [...]. Þann 5. ágúst 2012 var sambúð aðila endanlega lokið en fram að því höfðu þau nokkrum sinnum slitið samvistum. Þann 17. ágúst 2012 gaf sýslumaðurinn í Reykjavík út leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Urðu þau ásátt um að fara áfram sameiginlega með forsjá dætra sinna sem eiga skyldu lögheimili hjá stefnda, sem þá var að [...] í [...]. Stefnanda var gert að greiða með þeim einfalt meðlag frá 1. ágúst 2012 til 18 ára aldurs.
Fram kemur í gögnum málsins að barnaverndarnefnd [...] hafi haft afskipti af málefnum fjölskyldunnar frá því í ágúst 2012 en þá hafi aðilar verið að skilja og hafi það reynst stefnda sérlega þungbært. Á tímabilinu október 2012 til apríl 2013 bárust lögreglu tilkynningar vegna harðvítugra deilna aðila, m.a. þegar dætur þeirra voru nærstaddar. Þá tilkynntu ýmsir aðilar, sem sumir vildu ekki láta nafns síns getið, að þeir hefðu áhyggjur af velferð telpnanna. Barnaverndarnefnd ráðgerði í apríl 2012 að vista þær utan heimilis hjá stuðningsfjölskyldu með umgengni þeirra við aðila til skiptis. Tillögur þess efnis voru fyrst og fremst byggðar á því að nauðsyn krefði að aðilar næðu tökum á sjálfum sér og leystu úr ágreiningi og deilum sínum. Var efast um að þau hefðu næga innsýn í þarfir telpnanna og ljóst að þau væru ófær um að halda þeim utan við deilurnar. Horfið var frá þessum fyrirætlunum og var tekin sú ákvörðun að veita stefnda sérhæfðan stuðning með ýmsum hætti með velferð telpnanna í huga. Þá hafði barnaverndarnefndin frumkvæði að því að reyna að sætta aðila og veita þeim stuðning og leiðsögn með það í huga að þau gætu afhent telpurnar án þess að til átaka kæmi á milli þeirra. Mun það hafa borið lítinn árangur. Þá tókst ekki að ná sáttum hjá sýslumanni og ganga frá ítarlegum umgengnissamningi. Að beiðni barnaverndarnefndar gengust aðilar undir forsjárhæfnismat og samhliða var þeim veitt margháttuð aðstoð er laut að umönnun dætra þeirra auk þess sem reynt var að tryggja þeim umgengni við báða foreldra sína.
Þann 13. mars 2013 féllst lögreglan á Suðurnesjum á beiðni sóknaraðila um að lagt yrði nálgunarbann á stefnda í sex mánuði en staðfestingu þeirrar ákvörðunar var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 20. mars 2013. Í úrskurðinum segir að ljóst sé að miklir samskiptaerfiðleikar séu á milli aðila sem eigi þrjú börn saman. Þyki brýnt að þau leiti sér aðstoðar við að bæta samskipti sín, en þau hljóti óhjákvæmilega að þurfa að eiga samskipti í framtíðinni vegna telpnanna. Að mati dómsins þóttu ekki skilyrði, eins og málið var vaxið, til að úrskurða stefnda til að sæta nálgunarbanni enda ljóst að gæta yrði varúðar þegar slíku íþyngjandi réttarúrræði yrði beitt.
Með úrskurði 22. júlí 2013 ákvað barnaverndarnefnd að vista telpurnar utan heimilis stefnda í tvo mánuði með vísan til b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og fela sóknaraðila umsjá þeirra um tíma, sbr. b-lið 67. gr. sömu laga. Mun sú ákvörðun hafa verið tekin þar sem úrræði fram að þessu voru ekki talin hafa skilað nægilegum árangri og þar sem uppeldisskilyrði telpnanna voru ekki talin viðhlítandi. Samhliða var tekin sú ákvörðun að veita aðilum báðum persónulegan stuðning, sálfræðiviðtöl og ráðgjöf, auk þess sem stefnda undirritaði tvo samninga, annars vegar um umgengni hennar við telpurnar, þ.e. aðra hverja helgi frá föstudegi og fram á mánudag og hins vegar um að láta af óæskilegri hegðun í garð sóknaraðila. Til grundvallar ákvörðun um vistun telpnanna hjá stefnanda lá m.a. ítarlegt forsjárhæfnismat á aðilum báðum en það annaðist D sálfræðingur.
Hvað varðar aðila málsins var niðurstaða sálfræðingsins sú að þeir væru báðir almennt hæfir til að sinna líkamlegum og daglegum grunnþörfum telpnanna. Hins vegar taldi hann hæfni stefndu ónóga um þær mundir sem matið var framkvæmt þegar horft væri til tilfinningalegra hagsmuna og velferðar telpnanna í ljósi markalausrar hegðunar hennar gagnvart sóknaraðila oft að þeim ásjáandi og meðvitandi um aðstæður og samskipti þeirra. Talsvert hafi vantað upp á svo unnt væri að kalla uppeldishætti stefndu eðlilega. Báðir aðilar ættu að mati sálfræðingsins við sálrænan vanda að stríða, en uppeldisár þeirra beggja voru erfið og sjálfsmynd þeirra brotin. Taldi hann ljóst að báðir aðilar þyrftu að vera í sálfræði-/geðmeðferð sem drægi úr persónulegum röskunum og efldi þá í foreldrahlutverkinu. Tvenns konar persónuleikapróf voru lögð fyrir aðila, MMPI-persónuleikaprófið og PAI- persónuleikaprófið sem sýndu ólíkar niðurstöður hvað stefndu varðar. Hið fyrra var mjög afgerandi hvað varðaði neikvæð persónueinkenni stefndu og taldi sálfræðingur niðurstöðu samsvara að mörgu leyti einkennum sem eiga við „hambrigðapersónuleikaröskun“.
Í ofangreindum úrskurði barnaverndarnefndar um tímabundna vistun telpnanna hjá stefnanda er jafnframt vísað til bréfs E sálfræðings en beiðni um sálfræðiaðstoð hennar við stefndu barst í gegnum Samvinnu starfsendurhæfingu á Suðurnesjum. Í bréfinu kom fram gagnrýni á mat D sálfræðings á persónuleikaröskun stefndu og færði hún rök fyrir því að ályktun hans um „hambrigðapersónuleikaröskun“ samkvæmt MMPI prófinu byggðist ekki á sterkum forsendum. Taldi hún stefndu hafa sýnt einlæga löngun til að hafa betri stjórn á líðan sinni og hafi hún greint fúslega frá því að hún hefði farið út yfir öll mörk í reiði, hvatvísi. Auk þess hafi hún verið í andlegu ójafnvægi sem því miður hafi bitnað á telpunum. Þá lýsti sálfræðingurinn þeim úrræðum sem stefnda hefði nýtt til þess að ná markmiðum sínum.
Í niðurstöðu úrskurðar barnaverndarnefndar er á því byggt að gögn málsins bæru með sér að telpurnar byggju við tilfinningalegt óöryggi og hlúa yrði að tilfinningalífi þeirra. Taldi nefndin mikilvægt að tryggja þeim öryggi og stöðugleika og foreldar næðu að vinna úr tilfinningum sínum og vanlíðan. Var stefnandi frekar talinn geta mætt þessum þörfum telpnanna fengi hann frið fyrir áreiti stefndu.
Stefnda krafðist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að ofangreindur úrskurður barnaverndarnefndar yrði felldur úr gildi en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 13. september 2013 og fallist á að telpurnar yrðu vistaðar utan heimilis til 22. september 2013. Í úrskurðinum segir svo að stefnda hafi ekki náð að hemja tilfinningar sínar og á meðan svo sé muni telpurnar búa við skapsveiflur hennar og ofsaköst sem skapi óstöðugleika í umhverfi þeirra og valdi þeim vanlíðan.
Þann 16. september 2013 kvað barnavernd Reykjaness upp úrskurð að nýju um að telpurnar yrðu vistaðar áfram utan heimilis, í allt að tvo mánuði, og að föður yrði falin umsjá þeirra en í framhaldi þeirrar ráðstöfunar fari nefndin fram á það fyrir Héraðsdómi Reykjaness að telpurnar verði vistaðar áfram utan heimilis samkvæmt 28. gr. laga nr. 80/2002 í tólf mánuði. Í úrskurðinum segir m.a. að stefnda hafi ekki virt þá samninga sem gerðir hafi verið við hana í tengslum við úrskurð nefndarinnar frá 22. júlí 2013. Var talið að gögn málsins bæru með sér að telpurnar byggju við mun meira tilfinningalegt öryggi og stöðugleika hjá stefnanda og hafi honum tekist að hlúa að tilfinningalífi þeirra og veita þeim vernd og umönnun. Taldi nefndin hagsmunum telpnanna best borgið í umsjá hans.
Ofangreindum úrskurði var framfylgt með aðstoð lögreglu þann 14. október 2013 en þá voru telpurnar sóttar á leikskólann [...] í Reykjavík og færðar stefnanda.
Þann 23. október 2013 var tekin til úrskurðar krafa stefndu um að ofangreindur úrskurður yrði felldur úr gildi en barnaverndarnefnd [...] krafðist staðfestingar úrskurðarins og að dómurinn úrskurðaði um áframhaldandi vistun telpnanna hjá stefnanda í allt að 12 mánuði, sbr. 28. gr. og b-lið 67. gr. barnaverndarlaga. Með úrskurði þann 30. október 2013 var felldur úr gildi úrskurður barnaverndarnefndar [...] auk þess sem hafnað var kröfu um vistun telpnanna utan heimilis. Taldi dómurinn að úrskurð barnaverndarnefndar hefði skort lagastoð þar sem nefndinni bar að gera sjálfstæða kröfu um úrskurð héraðsdóms um vistun telpnanna með vísan til 28. gr. laga nr. 80/2002. Auk þess hefði barnaverndarnefndin ekki haft vald til að úrskurða í málinu eftir að stefnda flutti með dætur aðila í annað umdæmi.
Eins og áður segir höfðaði stefnandi mál á hendur stefnda sem var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 3. október sl. Þann 19. desember 2013 var kveðinn upp úrskurður vegna kröfu stefnanda um fulla forsjá dætra aðila til bráðabirgða. Dómurinn féllst ekki á kröfu hans þar að lútandi en ákvað þess í stað að lögheimili þeirra yrði hjá stefnanda til bráðabirgða. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar [...] í máli nr. [...].
Að beiðni stefndu var þess óskað að dómkvaddur yrði sérfróður matsmaður til þess að meta forsjárhæfni málsaðila. Þann 10. febrúar 2014 var F sálfræðingur dómkvaddur í því skyni en matsgerð hans er dagsett 2. júní 2014. Niðurstöður hans eru þær helstar að hann telur aðila báða hæfa til þess að fara með forsjá telpnanna og að þær séu allar jákvætt og sterkt tengdar foreldrum sínum tilfinningalega. Ekkert bendi til þess að þeim sé hætta búin hjá öðru hvoru þeirra. Niðurstöður athugana bendi ekki til þess að stefnda sé með heilkenni hambrigðapersónuleikaröskunar. Matsmaður taldi mikilvægt að telpurnar væru í rúmri eða jafnri umgengni við foreldra sína. Þá taldi matsmaður ástæðu til að huga að möguleika um sameiginlega forsjá enda hefðu skapast skilyrði til þess sem áður voru ekki fyrir hendi.
Sættir voru reyndar með aðilum undir rekstri málsins en án árangurs. Í kjölfar ofangreindrar matsgerðar var ljóst af samtali við aðila að grundvöllur var til frekari sáttaviðræðna. Lýsti stefnda því yfir, til samræmis við það sem fram kom í matsgerðinni sjálfri, að hún væri reiðubúin til þess að samþykkja að aðilar hefðu sameiginlega forsjá telpnanna þeirra. Stefnandi var sömuleiðis reiðubúinn til þess en þegar á reyndi stóð ágreiningur um lögheimili og umgengni sem stefnda vildi að yrði jöfn. Ákveðið var að leitað yrði sátta með aðilum með aðstoð G sálfræðings en án tilætlaðs árangurs. Stóð ágreiningur þá um lögheimili telpnanna en stefnda óskaði eftir því að lögheimili einnar telpunnar yrði hjá henni. Þá óskaði hún þess að umgengni yrði jöfn en stefnandi vildi að telpurnar yrðu til skiptis í 6 daga hjá stefndu en 8 daga hjá honum. Í kjölfar sáttaumleitana fóru fram óformlegar sáttatilraunir aðila í tölvubréfum á milli lögmanna þeirra en án árangurs.
Við aðalmeðferð málsins komu málsaðilar fyrir dóminn, F sálfræðingur og H leikskólakennari.
Dómurinn taldi ekki þörf á að ræða við dætur aðila en það var gert af hálfu matsmanns og því ekki ástæða til að endurtaka það. Litið er til þess að þær eru allar ungar að árum og talið var að samræður við þær myndu ekki þjóna tilgangi.
Við aðalmeðferð málsins voru enn reyndar sættir en aðilar voru ekki fúsir til að draga úr kröfum sínum. Lagði stefnandi til að í sátt yrði kveðið á um endurskoðun á umgengni með tilteknu millibili og viljayfirlýsingu um að aðilar leituðu sér fagaðstoðar. Á þetta féllst stefnda ekki og vildi sem fyrr að umgengi yrði jöfn og að lögheimili einnar telpu yrði hjá henni.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi reisir aðalkröfu sína á 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 og byggir á því að ekki séu skilyrði til að ákvarða að forsjáin verði sameiginleg enda muni það ekki þjóna hagsmunum barnanna. Eins og gögn málsins beri með sér hafi aðilum ekki tekist þrátt fyrir stuðningsúrræði barnaverndar [...] að vinna saman að málefnum barnanna. Þvert á móti beri gögnin með sér að börnin hafa liðið fyrir samskipti foreldranna. Gögn málsins sýni enn fremur að ástæðu þess ástands sem ríkt hefur á milli aðila megi fyrst og fremst rekja til stefndu sem ekki hafi getað sætt sig við skilnaðinn. Þá skuli ákvörðun um fyrirkomulag forsjár taka mið af því sem barni sé fyrir bestu.
Stefnandi byggir kröfu sína jafnframt á því að það sé börnunum fyrir bestu að lúta forsjá hans eins. Í fyrsta lagi á því að stefnandi sé hæfari til að fara með forsjá barnanna en stefnda. Stefnandi hafi góða innsýn í þarfir barnanna og eigi auðvelt með að mæta þeim. Vísar stefnandi í þessu sambandi til þess sem fram kemur í niðurstöðum foreldrahæfismats D.
Byggt er á því að stefnda sé hins vegar vanhæf til að fara með forsjá barnanna og vera aðalumönnunaraðili þeirra. Ofangreint foreldrahæfismat sýni, svo ekki verið um villst, að stefnda hafi ekki burði til að tryggja börnunum viðunandi aðstæður og því sé hún vanhæf til uppeldisins.
Stefnandi telji líklegt að hugsanleg geðveila stefndu komi í veg fyrir að hún geti annast hlutverk sitt sem aðalumönnunaraðili ungra barna. Hann bendi á að sú atburðarás sem lýst hefur verið í málavöxtum sýni að stefnda sé ekki heil heilsu. Stjórnleysi hennar, ranghugmyndir, og ofsóknir sýni að hún sé trufluð á geði og því sé óábyrgt og óásættanlegt að fela henni svo ábyrgðarfullt hlutverk sem felst í því að tryggja öryggi, heilsu og þroskavænleg skilyrði kornungra barna. Niðurstaða persónuleikaprófana styðji þessar áhyggjur stefnanda. Þannig telur stefnandi ljóst að þrátt fyrir að stefnda geti sinnt þeim þáttum umönnunar sem snúi að ytri aðbúnaði barnanna, skorti hana getu til að tryggja andlega vellíðan þeirra, sem sé forsenda áframhaldandi þroska.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því að litlar líkur séu til þess að aðstæður barnanna breytist til hins betra verði stefndu falin forsjá þeirra enda komi fram í tveimur skýrslum tilsjónarmanns og foreldrahæfismati að stefnda virðist ekki geta nýtt sér stuðning barnaverndaryfirvalda þar sem hana skorti innsýn í þarfir telpnanna. Þetta styðji önnur gögn málsins, s.s. greinargerð barnaverndarnefndar [...] frá 18. apríl 2013 en þar komi fram að þau margvíslegu úrræði sem nefndin hafi beitt sér fyrir og snúi einkum að stuðningi við móðurina við umönnun barnanna, hafi ekki borið tilskilinn árgangur.
Stefnandi hafi hins vegar nýtt sálfræðitíma vel, mætt í þá alla og sé á góðri leið með að ná jafnvægi. Hann hafi nú kannast við kynhneigð sína sem hafi valdið nokkru umróti í lífi hans og ekki hikað við að leita sér stuðnings þegar hann hefur þurft á stuðningi að halda. Þá séu sterkar vísbendingar um að stuðningur við hann beri árangur enda komi fram í greinargerð Barnaverndar frá 18. apríl 2013 að hann hafi tekið leiðbeiningum vel og haft frumkvæði að því að leita sér aðstoðar hjá presti og samtökum 78. Hann hafi mætt reglulega í sáfræðiviðtöl og farið á HAM námskeið sem hann telji að hafi hjálpað sér við að setja stefndu mörk sem hann viti að sé mikilvægt fyrir telpurnar. Þá hafi hann undirgengist foreldrahæfisnámskeið sem hann hafi lært mikið af.
Í þriðja lagi er byggt á því að telpurnar séu orðnar mun tengdari stefnanda en stefndu. Stefnandi telji sig hafa annast börnin allt frá fæðingu þeirra til jafns á við stefndu fram til þess að hann sleit sambúð. Hafi hann verið sá sem veitti þeim skjól þegar hömluleysi stefndu hafi komið í ljós. Eftir að telpurnar hafi farið að vera meira hjá föður sínum hafi öryggi þeirra aukist en það hefur dýpkað tengsl þeirra við stefnanda.
Í fjórða lagi sé krafa stefnanda reist á því að persónulegar og félagslegar aðstæður hans falli betur að uppeldi telpnanna en aðstæður stefndu. Hann sé reglusamur, rólegur, hlýr og staðfastur og því eigi hann auðvelt með að veita þeim það öryggi sem þau þarfnast til að geta þroskast eðlilega. Til að mæta þörfum telpnanna hafi stefnandi sagt vinnu sinni lausri vegna vinnutíma sem ekki hafi samræmst daglegri rútínu þeirra. Stefnandi hafði safnað töluverðum fjármunum í sjóð til að mæta óvæntum útgjöldum þar til hann finnur nýtt starf.
Krafa stefnanda er enn fremur reist á því að hann sé líklegri en stefnda til að veita börnunum þann stöðugleika sem þeim er nauðsynlegur. Verði stefndu hins vegar falin forsjá barnanna eða ef ákveðið verður að lögheimili þeirra skuli vera hjá stefndu séu meiri en minni líkur til þess að börnin búi áfram við óviðundandi aðstæður samkvæmt skilningi barnaverndaryfirvalda, sem sé að mati stefnanda óásættanlegt. Þá telji stefnandi ekki koma til greina að skilja telpurnar að. Mikilvægt sé að þær fái að alast upp saman enda séu þær mjög samrýmdar.
Verði ekki fallist á að stefnandi fari einn með forsjá barnanna er þess krafist að ákveðið verði með dómi að lögheimili barnanna skuli vera hjá stefnanda með sömu rökum og fram hafi komið.
Krafa stefnanda um meðlag er reist á 54. gr. sbr. 53. gr. barnalaga nr. 76/2003. Upphafstími meðlagskröfu miðast við þann tíma sem börnunum var komið fyrir hjá stefnanda, en hann hefur frá þeim tíma séð einn um framfærslu barnanna. Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. er gert ráð fyrir að meðlag skuli ákveðið með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra.
Krafan um forsjá er reist á V. kafla barnalaga nr. 76/2003, einkum 34. gr. laganna. Varakrafa stefnanda er reist á 3. mgr. 34. gr. barnalaga en þar segir að ef dómari dæmir sameiginlega forsjá beri jafnframt að kveða á um hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili. Krafan um greiðslu málskostnaðar er reist á 3. mgr. 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en krafan um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1998.
III.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda byggir kröfu sína um fulla forsjá telpnanna á því að allt aðrar aðstæður séu fyrir hendi nú en voru þegar aðilar máls þessa stóðu í skilnaði og hafi sífellt verið að rekast á hvort annað auk þess sem skiptum á milli þeirra hafi verið ólokið. Þá hafði ekki heldur verið komið skipulag á umgengni. Stefnda hafi gert mikið til að forða árekstrum milli aðila og eiga þau í raun ekki að þurfa að hittast nú.
Stefnda telur verulega ágalla hafa verið á úttekt og rannsókn sem gerð hafi verið af hálfu barnaverndarnefndar [...] og hafi það verið viðurkennt með því að fela öðrum sálfræðingi gerð forsjárhæfismats. Þá verði að líta til valdníðslu barnaverndarnefndar [...] og starfsmanna barnaverndar [...] sem hafi ekki virt lög um barnavernd þó þeim væri bent á nýjan Hæstaréttardóm þeim til stuðnings. Ekki geti talist traustvekjandi að byggja frekari ákvarðanir varðandi börnin á neinum gögnum frá nefndinni eða starfsmönnum hennar.
Þá byggir stefnda á því að hagsmunum telpnanna sé betur borgið hjá stefndu og að hún sé hæfari til að fara með forsjá þeirra. Ekkert hafi komið fram nú sem bendi til að stúlkunum líði ekki vel hjá móður, engar tilkynningar hafa borist barnavernd Reykjavíkur, frá Leikskólanum [...] þar sem allar stúlkurnar voru í dagvistun eða leikskóla þeirra nú. Hvað varði varakröfu stefnanda um sameiginlega forsjá telpnanna telur stefnda í ljós leitt að aðilar málsins geti ekki farið saman með forsjá barnanna og því engar forsendur fyrir slíkum dómi.
Einnig gerir stefnda kröfu um að kveðið verði á um fyrirkomulag umgengni og að stefnandi beri kostnað af umgengni sinni við börnin. Stefnda telur það telpunum fyrir bestu að föst skipan sé á umgengni, þær séu til jafns hjá aðilum og fylgist að.
Stefnda krefst að stefnanda verði gert að greiða stefndu meðlag vegna framfærslu barnanna til 18 ára aldurs þeirra eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni. Þá krefst stefnda greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að teknu tilliti til virðisaukaskatts eins og eigi væri um gjafsóknarmál að ræða.
Stefnda byggir kröfu sína um að hafnað verði kröfu stefnanda um forsjá stúlknanna og að henni verði með dómi einni falin forsjá þeirra á 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Krafa um meðlag og ákvörðun umgengni byggir á 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Málskostnaðarkrafan styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.
IV.
Niðurstaða
Í máli þessu gerir stefnda aðallega kröfu um fulla forsjá dætra sinna A, B og C. Stefnandi féll frá aðalkröfu sinni sem var sama efnis og krefst nú að forsjáin verði sameiginleg eins og verið hefur frá því að sambúð lauk í ágúst 2012. Þá krefst hann að lögheimili telpnanna verði hjá honum. Aðilar máls gera hvor um sig kröfu um að dómurinn kveði á um inntak umgengnisréttar og meðlag.
Atvikum og aðdraganda máls þessa hefur áður verið líst, svo og því ástandi sem ríkti frá þeim tíma er sambúð aðila lauk og þar til úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur var kveðinn upp 19. desember 2013, þar sem fallist var á varakröfu stefnanda um að flytja lögheimili telpnanna til bráðabirgða til hans þar til dómur gengi í málinu. Til grundvallar þeirri niðurstöðu var fyrst og fremst það sem talið var telpunum fyrir bestu en samskipti aðila voru með þeim hætti að það kom niður á þeim með merkjanlegum hætti. Vegna vanstillingar stefndu reyndist henni ekki kleift að halda þeim utan við deilur hennar við stefnanda. Þegar af þeirri ástæðu var stefnandi talinn vera betur í stakk búinn til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf telpnanna og betur til þess fallinn að halda eðlilegum samskiptum í skorðum. Þessari niðurstöðu til stuðnings var auk þess forsjárhæfnismat Einars Inga Magnússonar sálfræðings sem framkvæmt hafði verið að beiðni barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar. Ekki þóttu forsendur til þess að fella niður til bráðabirgða sameiginlega forsjá málsaðila en fallist var á kröfu stefnanda um takmarkaða umgengni stefndu við telpurnar.
Til þess að fallast megi á að hverfa skuli frá sameiginlegri forsjá telpnanna eins og hún er nú og fela stefndu forsjána að öllu leyti þurfa að liggja fyrir þau rök að það sé telpunum fyrir bestu rétt eins og kveðið er á um í 2. mgr. 34. gr. barnalaga. Í ákvæðinu er að finna vegvísa sem dómari skal líta til þegar leist er úr ágreiningi um forsjá eða lögheimili, þ.e. hæfi foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Samkvæmt 4. mgr. 34. gr. laganna skal dómari við mat á því hvort forsjá skuli vera sameiginleg, auk ofangreindra atriða, taka mið af því hvort forsjáin hafi áður verið sameiginleg og af aldri og þroska barns. Þá ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði.
Staða málsaðila er áþekk þegar kemur að vissum þáttum. Uppeldisár þeirra beggja voru erfið og hafa þau bæði gengið í gegnum mikla erfiðleika þó af ólíkum toga sé. Þau eru einstæð í dag en njóta stuðnings fjölskyldu og vina. Ekki liggur annað fyrir en að þau séu bæði reglusöm og vinna þau bæði að því að styrkja sjálf sig með ýmsum úrræðum, m.a. félagslegum og sálfræðilegum. Hvorugt þeirra er í föstu starfi um þessar mundir og fá þau því bæði bætur frá hinu opinbera.
Óumdeilt er, og staðfest í matsgerð F sálfræðings, að málsaðilar báðir eru hæfir foreldrar. Stefnda telur hins vegar að hún sé hæfari og því beri að fallast á aðalkröfu hennar. Hvað varði mat á persónuleika hennar hafi D sálfræðingur ranglega greint hana með hambrigðapersónuleikaröskun. Gagnrýni var sett fram á greininguna með rökstuddum hætti af hálfu sálfræðings stefndu E og undir þá gagnrýni tekur F í sínu mati en engin merki hafa sést í prófum stefndu um geðveiki eða persónuleikaröskun. Hins vegar telur hann ljóst að stefnda hafi orðið fyrir áfalli þegar stefnandi sleit sambúð þeirra sem hafi vakið upp undirliggjandi einkenni áfallastreituröskunar.
Hvað varðar uppeldislega þætti sem hér skipta mestu máli er hæfni foreldra til þess að gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem neikvæð hegðun hefur á telpurnar, svo og eftirfylgni þar að lútandi. Þetta er það atriði sem stóð stefndu sérstaklega fyrir þrifum. F gaf skýrslu fyrir dóminum og staðfesti að frá þeim tíma er síðasta mat var framkvæmt og þar til stefnda kom í viðtöl og próf til hans hefði hún náð verulegum árangri í að bæta hugarfar sitt, jafna sig á kvíða, sorg og reiði eftir skilnað og bæta samskipti sem fóru úr skorðum. Fram kemur í mati hans að stefnda mælist nú laus við þunglyndi og kvíðaröskun, en þau einkenni voru til staðar samkvæmt fyrra forsjárhæfnismati. Þær niðurstöður benda til þess að hún finni sig standast aðsteðjandi álag og hafi tekist að aðlaga sig og skapa sér nokkurn stöðugleika. Telur hann að stefnda búi nú yfir nægri hæfni til að hafa með höndum forsjá barna sinna og hlúa að velferð þeirra rétt eins og stefnandi. F kvaðst treysta foreldrunum báðum fyrir telpunum og að þeim væri ekki hætta búin í umsjá þeirra.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum og staðfesti að stefnda hefði tekið sig á og væri í betra jafnvægi. Þau vandi sig bæði í samskiptum barnanna vegna og hafi því ekki orðið árekstrar í sama mæli og áður. Þó sé enn mikil spenna þeirra á milli og þurfi því ævinlega að stíga varlega til jarðar. Stefnda bar á sama veg og kvaðst í dag „komin á annan stað“, hún hafi tekið á reiðivanda sínum og sé enn að vinna í sjálfri sér. Málsaðilar báðir kváðust meðvitaðir um þörf á að halda telpunum utan við ágreining þeirra og sögðust þegar merkja jákvæð áhrif þess á telpunum. Væri það sér í lagi þegar þær skynjuðu að foreldrar þeirra gætu átt eðlileg samskipti og talað á afslöppuðum nótum um hvort annað. Vildu þau bæði hlúa að telpunum til að stuðla að aukinni öryggistilfinningu þeirra og vellíðan.
Fyrir dóminn kom leikskólakennari telpnanna sem bar um að þær væru allar í góðu jafnvægi og hefðu hver um sig náð miklum framförum bæði í þroska og félagslega. Nefndi hún einstaka þætti í þessu sambandi. Kvað hún leikskólann hafa haft áhyggjur af eldri telpunum fyrir skilnaðinn enda hafi ágreiningur foreldra komið greinilega niður á þeim. Í dag væru þær „rosalega flottar“ og allt sem viðkæmi telpunum væri í góðri samvinnu við báða foreldra en það væri breyting frá því sem áður var hvað stefndu varðaði.
Eins og fram er komið flutti stefnda aftur til [...] í sumar. Telpurnar voru í um tvo og hálfan mánuð á leikskóla í Reykjavík og var umönnun og aðbúnaði telpnanna á þeim tíma ekki ábótavant. Stöðugleiki telpnanna hingað til hefur hins vegar oft verið lítill og eftir skilnaðinn voru þær ýmist hjá stefnanda eða stefndu í lengri eða skemmri tíma. Hins vegar er ljóst að líðan telpnanna nú er allt önnur en hún var fyrir skilnað aðila. Ástæða þess er eflaust aðlögunarhæfni þeirra og bætt andleg líðan beggja aðila málsins.
Tilfinningaleg tengsl telpnanna við aðila báða eru að mati F sálfræðings talin sterk og jákvæð. Athugun á samskiptum aðila við börnin sýni að þau beri ást og umhyggju til þeirra og eigi auðvelt með að tjá sig um það og sýna í verki. Ekki voru framkvæmd tengslapróf á telpunum sem þóttu of ungar til þess. Taldi sálfræðingurinn þá elstu, A, hafa að hans mati gefið skýr skilaboð um að hún vildi njóta rýmri samvista við móður sína. Aðspurður kvaðst hann ekki greina merki þess að tengsl stefndu við börnin væru óheilbrigð, þ.e. að hún notaði telpurnar sem sálusorgara og ekki væri heldur sýnt fram á innrætingu. Ekki var framkvæmt sérstakt tengslapróf á foreldrum líkt og í forsjárhæfnismati D sálfræðings. Var þá framkvæmt próf á foreldraálagi og tengslum en niðurstöður þeirra voru innan eðlilegra marka eða vel innan eðlilegra marka hjá aðilum báðum.
Frá því að úrskurður héraðsdóms var kveðinn upp í desember sl. hafa telpurnar verið aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudags hjá stefndu en annað fyrirkomulag var um jól og páska. Í sumar gerðu aðilar samkomulag um að hafa telpurnar hjá sér til skiptis hálfan mánuð í senn. Fyrir dómi nefndu þau dæmi um að stefnda hefði fengið rýmri umgengni þegar hún gekk eftir því og gátu þau haft eðlileg samskipti um það. Fram kom að ekki hefði komið formleg beiðni um rýmri umgengni frá stefndu á tímabilinu. Í skýrslutökum af aðilum fyrir dómi og í samræðum við þá í sáttaumleitunum kom glögglega fram gagnkvæmt vantraust þeirra sem er orsök veikleika í samskiptum þeirra í dag. Bæði telja þau að þegar máli þessu ljúki sé hætta á að hinn aðilinn muni ekki tryggja rétt telpnanna til umgengni og jafnvel að hinn aðilinn muni flytja í burtu með telpurnar. Vísa þau bæði til atvika úr fortíðinni og draga af því ályktanir til framtíðar. Að mati dómsins eru engin teikn um að þau hafi ástæðu til að óttast þetta og það án samráðs við hinn aðilann.
Hvað varðar viðhorf þeirra til umgengni telpnanna við hitt foreldrið kveðst stefnandi nú viðurkenna og sjá þörf telpnanna til þess að vera meira hjá stefndu en verið hefur. Kvaðst hann sjá fyrir sér að með tíð og tíma yrði hún til jafns. Hann telji hagsmunum þeirra þó betur borgið ef sú rýmkun yrði í áföngum og að aðilar myndu á tímabilinu fá aðstoð sameiginlega við að bæta samskiptin þeirra á milli með hag telpnanna í huga. Hafi þessi hugmynd verið viðruð við hann af stefndu upphaflega. Stefnda hefur frá upphafi talað fyrir rúmri umgengni við hitt foreldrið og telur að hún eigi að vera jöfn.
Stefnda byggir á að vilji telpnanna komi glöggt fram í athugunum F sálfræðings og vísar til umfjöllunar í matsgerð um heimsókn á heimili stefndu og teikninga A. Að mati dómsins verða ekki dregnar af þessum atriðum aðrar ályktanir en þær sem áður eru raktar að A þarfnist þess að vera meira með móður sinni en verið hefur. Hún var sú eina sem var fædd þegar stefndi flutti út í tvígang, annars vegar á árinu 2009 og hins vegar á árinu 2010. Hins vegar verður ekki hjá því litið að hún er á þeim aldri er barn leggur sig fram við að þóknast foreldrum sínum. Af hegðun barnanna á þessum aldri er því varhugavert að draga of víðtækar ályktanir.
Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 76/2003 á barn rétt á forsjá beggja foreldra sem eru í hjúskap eða hafa skráð sambúð sína í þjóðskrá. Samkvæmt þessu er sameiginleg forsjá meginregla þegar svo er ástatt og færa þarf fram sérstök rök fyrir því að réttlætanlegt sé að víkja frá henni. Að mati dómsins hefur stefnda ekki sýnt fram á að hún sé hæfari til þess að fara með forsjá telpnanna og að það réttlæti frávik frá ofangreindri meginreglu.
Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2012 þar sem gerðar voru breytingar á barnalögum, m.a. með ákvæðum um sameiginlega forsjá, segir að ganga verði út frá því að gott samstarf sé alla jafna forsenda þess að vel takist til með sameiginlega forsjá foreldra sem ekki búa saman og þetta fyrirkomulag leggi foreldrum ríkar skyldur á herðar. Hins vegar megi ekki líta fram hjá því að sameiginleg forsjá geti átt rétt á sér þótt aðilar séu ekki sammála um allt í lífi barns, takist á og þurfi jafnvel að leita aðstoðar til að leysa úr ágreiningi. Þá verði að taka tillit til þess að forsjá hefur mikilvæg réttaráhrif jafnvel þegar um lítil samskipti er að ræða, t.d. á réttarstöðu forsjárforeldris við andlát hins foreldrisins. Lykilatriði sé að foreldrum takist að halda barni utan við ágreining og tryggja að ágreiningurinn, eða það hvernig foreldri beiti forsjánni, komi ekki í veg fyrir, hindri eða dragi úr möguleikum barns að alast upp við örugg og þroskavænleg skilyrði.
Stefnda byggir kröfu sína um fulla forsjá m.a. á því að ekki sé lengur grundvöllur fyrir sameiginlegri forsjá enda telji hún vafasamt að aðilar geti haft góð samskipti um málefni telpnanna til framtíðar. Í samræðum við stefndu við sáttaumleitanir undir meðferð málsins og við aðalmeðferð málsins kom fram hjá henni að hún teldi sig hafa stigið skref í átt að bættum samskiptum en stefnandi hefði hins vegar ekki gert hið sama. Þau jákvæðu áhrif sem bersýnileg væru á telpunum væru því hennar vegna. Þá taldi hún það einnig hafa haft jákvæð áhrif á þær að hún hefði flutt aftur til [...]. Greina mátti þörf hjá henni fyrir að eiga vináttu við stefnanda og á hún erfitt með að skilja hvers vegna hann býður hana ekki fram en það er að hennar mati börnunum fyrir bestu. Kemur þetta viðhorf einnig fram í matsgerð F.
Að mati dómsins verður ofangreindri málsástæðu stefndu ekki fundin stoð í gögnum málsins eða framburðum vitna. Í þessu sambandi nægir að nefna framburð málsaðila sjálfra um bætt samskipti sín á milli og jákvæð áhrif þeirrar framþróunar á telpurnar. Samræmist það framburði leikskólakennara telpnanna, svo og mati F sálfræðings sem telur að með góðum sátta- og samstarfsvilja aðila geti þau haft með sér sameiginlega forsjá dætra sinna. Telur dómurinn sýnt að ekki sé aðalatriði hvaða þættir það eru helstir sem leiddu til þessarar jákvæðu breytinga á telpunum, heldur breytingin sjálf sem er fólgin í því að telpunum er haldið utan við ágreining aðila. Slíkt gerist aðeins með samstarfi á einn eða annan hátt. Fallast má á það með stefndu að nauðsynlegt sé að telpurnar skynji áfram bætt samskipti aðila en skilyrði þess er þó ekki endilega að aðilar séu í sérstöku vinfengi hvort við annað heldur að þau viðurkenni samábyrgð sína gagnvart telpunum. Af framburði stefnanda fyrir dómi verður skýrt ráðið að hann vilji axla þá ábyrgð þrátt fyrir að hann vilji ekki vinasamband við stefndu.
Með vísan til ofangreinds telur dómurinn að áframhaldandi sameiginleg forsjá þjóni best hagsmunum telpnanna. Í samræmi við vilja aðila beggja leggur dómurinn áherslu á að þeir fái fagaðstoð til þess að bæta samskipti sín með hið sameiginlega hlutverk að leiðarljósi. Fram kom í skýrslu F sálfræðings fyrir dómi að hann teldi þetta mjög æskilegt.
Í samræmi við 3. mgr. 34. gr. barnalaga ber dómara að kveða á um hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili. Í 28. gr. a segir að þegar foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns skuli þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir er varða barn. Ef foreldrar búi ekki saman hafi það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf þess. Í ákvæði eru talin upp í dæmaskyni nokkrar ákvarðanir af þeim meiði. Þá segir að foreldrar sem fari saman með forsjá barns skuli þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum tilteknu málefnum barns er ráðið til lykta. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 61/2012 segir um þessa grein að með þessu orðalagi séu foreldrar hvattir til að taka tillit til skoðana og sjónarmiða hvors annars.
Við mat á því hvar lögheimili telpnanna sé best fyrir komið er litið til sömu sjónarmiða og þeirra sem þegar hafa verið rakin. Í þessu sambandi ber jafnframt að líta til þess er fram kemur í mati F um niðurstöður persónuleikaprófs. Þar segir m.a. um stefnanda að ekki séu merki um þunglyndi, kvíða eða reiðivanda. Honum gæti hætt til stífni í samskiptum, að ofgera hlutum eða dæma ef honum mislíkar. Hann hafi fulla trú á eigin dómgreind, skorti ekki sjálfstraust, treysti öðrum varlega og geti farið sínu fram af ákveðni og festu.
Hvað stefndu varðar bendir útkoman til þess að henni hætti til að bregðast við mótlæti með fljótfærni eða reiði. Hún treysti vel eigin dómgreind og eigi ekki erfitt með að taka ákvarðanir. Þá geti hún orðið óörugg undir streituálagi eða ráðalaus og finnst þá mikilvægt að geta treyst á aðra. Hún treysti öðrum yfirleitt vel.
Aðspurður fyrir dómi kvað sálfræðingurinn það einkenna stefnanda sem uppalanda að hann fylgdi hlutum betur eftir, en stefnda væri hlýrri. Bæði væru hæf til þess að örva telpurnar til þroska en það samræmist framburði leikskólastjóra um þær breytingar sem orðið hafa á því sviði undanfarið.
Á meðal gagna málsins er bréf E sálfræðings, dagsett 15. október 2013, þar sem hún lýsir framförum stefndu við að styrkja sjálfa sig. Taldi hún hana því hafa til að bera þá forsjárhæfni sem til þyrfti til að annast dætur sína. Af hálfu stefndu var þess ekki óskað að E kæmi fyrir dóminn og gæfi skýrslu. Því er óupplýst um áframhaldandi vinnu og árangur í þessum efnum.
Það er mat dómsins að það þjóni hagsmunum telpnanna best að lögheimili þeirra verði hjá stefnanda. Má þar helst nefna ofangreinda þætti í persónugerð stefnanda sem gera hann hæfari til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, fylgja þeim eftir með jákvæðum aga og tryggja þeim stöðugleika. Þá verður ekki hjá því litið að þrátt fyrir að stefnda hafi gert mikið til þess að styrkja sjálfa sig og efla forsjárhæfni sína, eru ákveðnir óvissuþættir tengdir því hvernig hún bregst við mótlæti og álagi. Fram kom hjá stefndu við sáttaumleitanir og við aðalmeðferð málsins að hún teldi ákveðna tryggingu vera fólgna í því ef lögheimili einnar telpunnar yrði hjá henni og meira jafnræði með aðilum. Dómurinn telur, með vísan til þess sem áður er rakið, ekki rök standa til þess að líta til þessara sjónarmiða. Telpurnar eru allar áþekkar að aldri og mynda samstilltan hóp. Er eðlilegt að þær fylgist að og skal lögheimili þeirra allra því vera hjá stefnanda.
Í málinu gera aðilar kröfu um að dómurinn kveði á um inntak umgengnisréttar í samræmi við 5. mgr. 34. gr. barnalaga. Við mat á því skal litið til þeirra sjónarmiða sem tilgreind eru í 1.-4. mgr. 47. gr. barnalaga en um þau sjónarmið má vísa til þess sem áður er rakið.
Þegar litið er til tengsla stefndu við telpurnar, svo og annarra sjónarmiða sem ber að líta til við mat þetta, telur dómurinn rétt að umgengni telpnanna við hana verði ákveðin rýmri en verið hefur, þ.e. aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudags. Telpurnar hafa þörf fyrir hana hver á sinn hátt en eins og áður segir viðurkennir stefnandi þessa þörf þeirra og tekur tillaga hans um umgengni mið af henni. Hann telur hins vegar varhugavert að ákveða nú þegar jafna umgengni, í samræmi við tillögu stefndu, og vísar í því sambandi til jákvæðra framfara telpnanna í þroska og líðan.
Til þess er mælst í matsgerð F, að telpurnar verði í rúmri eða jafnri umgengni við foreldra sína. Aðspurður fyrir dómi taldi hann vel koma til greina að auka umgengnina smám saman eftir því sem samstarf aðila þróaðist með velferð dætra þeirra í huga.
Við mat á því hvort rúm eða jöfn umgengni sé æskileg fyrir barn ber sérstaklega að líta til þess hvort það hafi jákvæð áhrif á þroska þess miðað við aðstæður. Til þess er að líta að aðilar búa nú í sama sveitarfélagi og telpurnar eru saman á leikskóla. Þær eru allar á forskólaaldri en sú elsta byrjar í grunnskóla á næsta ári. Á þessum mikilvægu mótunarárum eru börn viðkvæm og þarfnast stöðugleika. Of miklar breytingar geta valdið streituviðbrögðum, óöryggi og afturför eða stöðnun í þroska. Til þessa hafa uppeldisár þeirra einkennst af tilfinningalegu róti foreldra þeirra og óstöðugleika, sem sýnilega kom niður á þroska þeirra.
Samkvæmt 3. mgr. 47. gr. barnalaga er heimilt þegar sérstaklega stendur á að úrskurða um umgengni allt að 7 daga af hverjum 14 dögum. Orðalag ákvæðisins bendir til þess að þessari heimild skuli beita af varfærni. Almennt er ekki mælt með því fyrirkomulagi fyrir ung börn, af þeim ástæðum sem raktar voru og sér í lagi ekki þar sem togstreita ríkir á milli foreldra.
Með hliðsjón af þessu telur dómurinn rétt að telpurnar dvelji hjá stefndu frá miðvikudegi til mánudags. Telpurnar verði sóttar í leikskóla og skilað þangað aftur. Fyrirkomulag umgengni skal að öðru leyti vera í samræmi við tillögur stefnanda og eins og í dómsorði greinir.
Dómurinn telur mikilvægt að málsaðilar vinni saman með það fyrir augum að auka umgengni telpnanna við stefndu samfara aldri og þroska þeirra. Bent skal á að samkvæmt 6. mgr. 47. gr. barnalaga hefur sýslumaður heimild til breytinga á umgengnisákvörðun þessari verði þess krafist. Aðilar geta þó ævinlega samið um umgengni án milligöngu sýslumanns.
Fram kom fyrir dóminum að ekki væri ágreiningur um að það foreldri sem njóti umgengni greiði kostnað vegna umgengninnar í samræmi við meginreglu 2. mgr. 47. gr. b.
Með vísan til 1. mgr. 53. gr., sbr. 3. mgr. 57. gr., barnalaga er stefndu gert að greiða einfalt meðlag með telpunum hverri um sig frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra. Dómurinn telur ekki forsendur til þess að dæma afturvirkt meðlag með telpunum frá 1. ágúst 2013 í samræmi við kröfu stefnanda. Liggur m.a. ekkert fyrir um það hvort réttur til meðlagsgreiðslna hafi verið virkur frá þeim tíma talið.
Í ljósi niðurstöðu málsins þykir rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af rekstri málsins.
Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 8. apríl 2014, var stefnanda veitt gjafsókn í málinu og var þá jafnframt felld úr gildi gjafsókn til handa stefnanda frá 22. janúar 2014. Gjafsóknin er takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, réttargjöld, þóknun lögmanns og undirmatsgerð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hans Katrínar Theódórsdóttir hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.957.800 kr., greiðist úr ríkissjóði.
Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 6. mars 2014, var stefndu veitt gjafsókn í málinu og var þá jafnframt felld úr gildi gjafsókn til handa stefnanda frá 16. desember 2013. Gjafsóknin er takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, réttargjöld, þóknun lögmanns og undirmatsgerð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þ.m.t. þóknun lögmanns hans Þuríðar Halldórsdóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.827.280 kr., greiðist úr ríkissjóði.
Við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar er litið til umfangs málsins, sem var talsvert, auk þess sem við bætist þóknun lögmanna vegna flutnings um kröfu stefndu um bráðabirgðaforsjá.
Dóminn kveða upp Sigríður Hjaltested héraðsdómari, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Þorgeir Magnússon sálfræðingur.
D Ó M S O R Ð:
Stefnandi, M, og stefnda, K, skulu fara sameiginlega með forsjá barna sinna, A, B og C, til 18 ára aldurs þeirra.
Lögheimili barnanna skal vera hjá stefnanda.
Börnin dveljist hjá stefndu frá miðvikudegi til mánudags aðra hverja viku. Móðir sæki börnin í leikskóla á miðvikudögum og skili þeim þangað aftur.
Um páska dveljist börnin hjá foreldrum til skiptis, hjá föður sínum um páskana 2015 en hjá móður sinni páskana 2016 og þannig koll af kolli. Miða skal við páskaleyfi í grunnskólum.
Um jól og áramót dveljist börnin til skiptis hjá foreldrum sínum, hjá móður sinni jólin 2014-2015, á aðfangadegi jóla og jóladag en hjá föður sínum gamlársdag og nýársdag. Jólin 2015-2016 dveljist þær hjá föður sínum á aðfangadegi jóla og jóladag en hjá móður sinni á gamlársdag og nýársdag og svo koll af kolli.
Í sumarleyfum dveljist börnin hjá hvoru foreldri um sig í fjórar vikur og fellur umgengni niður á þeim tíma nema samið verði um annað. Tímasetning sumarleyfa verði ákveðin af foreldrum fyrir 15. apríl ár hvert.
Stefnda skal greiða einfalt meðlag með hverju barni fyrir sig frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hans Katrínar Theódórsdóttir hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.957.800 kr., greiðist úr ríkissjóði.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar Þuríðar Halldórsdóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.827.280 kr., greiðist úr ríkissjóði.