Hæstiréttur íslands

Mál nr. 619/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Kröfulýsingarfrestur
  • Vanlýsing


Föstudaginn 26. nóvember 2010.

Nr. 619/2010.

Venor Capital Master Fund Ltd.  

(Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

gegn

Glitni banka hf.

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Kröfulýsingarfrestur. Vanlýsing.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu V var hafnað og staðfest sú afstaða slitastjórnar G að taka kröfu V ekki inn á kröfuskrá þar sem henni hafði ekki verið lýst fyrir slitastjórn fyrr en eftir að kröfulýsingarfrestur rann út. Ekki var talið að tölvupóstur sem V sendi G innan kröfulýsingarfrests, þar sem hann óskaði eftir staðfestingu á því að eyðublað um kröfulýsingu væri fyllt út með fullnægjandi hætti, fullnægði þeim kröfum sem ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. gera til kröfulýsingar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2010, þar sem hafnað var að taka á kröfuskrá við slit varnaraðila kröfu sóknaraðila að fjárhæð 5.000.000 sterlingspund, en henni hafði verið lýst sem almennri kröfu. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og framangreind krafa hans tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Venor Capital Master Fund Ltd., greiði varnaraðila, Glitni banka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.                                

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2010.

I

Mál þetta sem þingfest var hinn 26. mars 2010 var tekið til úrskurðar 30. september 2010.  Sóknaraðili er Venor Capital Master Fund Ltd., USA, en varnaraðili er Glitnir banki hf., Sóltúni 26, Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila eru að krafa hans að fjárhæð 5.000.000 sterlingspunda verði viðurkennd sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila.  Þá krefst sóknaraðili máls­­kostn­aðar úr hendi varnaraðila.

Dómkröfur varnaraðila eru þær að sú afstaða slitastjórnar varnaraðila, til kröfu sóknaraðila að fjárhæð 5.000.000 sterlingspunda sem lýst var sem almennri kröfu, að taka kröfuna ekki inn á kröfuskrá, verði staðfest.  Þá krefst varnaraðili málskostn­að­ar úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.

II

Hinn 7. október 2008 ákvað fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila og skipa honum skilanefnd.  Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 sem standa átti til 13. febrúar 2009.  Var greiðslustöðvunin framlengd hinn 19. febrúar 2009 til 13. nóvember 2009.  Áður en sá tími var á enda, hinn 12. maí 2009,  var varnaraðila skipuð slitastjórn.  Gaf slitastjórnin út innköllun til skuldheimtu­manna sem birtist fyrra sinni í Lögbirtinga­blaði 26. maí 2009 og rann kröfulýsingar­frestur út sex mánuðum síðar eða 26. nóvember 2009.  Frestdagur var 15. nóvember 2008.  Auk birtingar innköllunar í Lögbirtingablaði birti slitastjórn varnaraðila auglýs­ing­ar um slitameðferð varnaraðila í þeim 46 löndum sem hún taldi mögulegt að kröfuhafar varnaraðila byggju.  Þá kom varnaraðili á fót vefsíðu þar sem útlistað var í hvaða formi krafa þyrfti að vera til þess að hún teldist gild og  kæmist inn á kröfuskrá.

Samkvæmt gögnum málsins var sóknaraðili handhafi skuldabréfs á hendur varnaraðila að fjárhæð 5.000.000 sterlingspunda.  Kemur fram hjá sóknaraðila að frá því að kröfu­lýsingar­frestur hófst og þar til honum lauk hafi talsverð viðskipti átt sér stað með skulda­bréf og aðra fjármálagerninga sem varnaraðili hafi gefið út eða tekið þátt í með öðrum hætti.  Hafi slitastjórn varnaraðila ítrekað fyrir kröfuhöfum að ekki væri unnt að stunda viðskipti með skuldabréf á hendur bankanum eftir að handhafar bréfanna hefðu sótt um svokallað lokunarnúmer (e. blocking number), en slitastjórn varnaraðila hafi jafnframt gert það að skilyrði að sótt yrði um lokunarnúmer fyrir allar skuldabréfakröfur á hendur bankanum.  Hafi sóknaraðili haft talsverða hagsmuni af því að bíða með að lýsa kröfu sinni á hendur bankanum þar til ljóst væri að ekki yrði af sölu skuldabréfsins á þeim markaði sem til staðar hafi verið áður en kröfulýsingarfresti í bú varnaraðila lyki.

Með tölvupósti 23. nóvember 2009 sendi David Zemel, fjármálastjóri Venor Capital Management LP, fyrirspurn á netfang varnaraðila þar sem hann óskaði eftir að fá staðfest, áður en að hann sendi kröfulýsingu sóknaraðila til varnaraðila, hvort eyðublað fyrir kröfulýsingu væri útfyllt með fullnægjandi hætti.  Með tölvupóstinum fylgdi krafa sóknaraðila á umræddu eyðublaði og kemur fram hjá David að hann óski eftir að fá svar sem fyrst þar sem hann ætli að senda kröfulýsinguna með hraðsend­ingu sama dag.

Þegar svar hafði ekki borist skömmu eftir að David hafði sent fyrrgreindan tölvupóst sendi hann Árna Tómassyni, formanni skilanefndar varnaraðila, tölvupóst þar sem hann ítrekaði ósk sína um að fá staðfest hvort hann hefði fyllt umrætt eyðublað fyrir kröfulýsingu út með fullnægjandi hætti.  Árni framsendi erindið til slitastjórnar varnar­aðila og með tölvupósti síðar sama dag var David tilkynnt af starfsmanni varnaraðila að ekki væri unnt að taka afstöðu til einstakra krafna fyrr en eftir að kröfulýsingarfresti lyki hinn 26. nóvember 2009.  Þá var í tölvupóstinum áréttað mikilvægi þess að krafan bærist slitastjórn varnaraðila í síðasta lagi hinn 26. nóvember 2009.

Kröfulýsing sóknaraðila var svo póstlögð með aðstoð hraðflutningafyrirtækisins FedEx hinn 23. nóvember 2009 og kemur fram hjá sóknaraðila að hann hafi gengið út frá því að póstendingin bærist viðtakanda í síðasta lagi 26. nóvember 2009.  Vegna mistaka var póstsendingin send til Írlands og barst ekki í hendur varnaraðila fyrr en 30. nóvember 2009.

Hinn 14. desember 2009 tilkynnti slitastjórn varnaraðila sóknaraðila að ekki yrði tekin afstaða til kröfu hans þar sem henni hefði ekki verið lýst innan kröfulýsingarfrests.  Mótmælti sóknaraðili þessari afstöðu með bréfi til slitastjórnar varnaraðila 15. desember 2009.  Á kröfuhafafundi slitastjórnar varnaraðila 17. desember 2009 var fjallað um þann ágreining sem uppi var um kröfu sóknaraðila og tókst hvorki að jafna ágreininginn á þeim fundi né á kröfuhafafundi 25. janúar 2010.  Með bréfi 1. febrúar 2010 vísaði slitastjórn varnaraðila ágreiningnum til Héraðsdóms Reykjavíkur og var bréfið móttekið 2. febrúar 2010.

Í máli þessu lýtur ágreiningur aðila að því hvort krafa sóknaraðila hafi borist slitastjórn varnaraðila áður en kröfulýsingarfresti lauk en slitastjórn varnaraðila tók þá ákvörðun að hafna því að krafan yrði tekin inn á kröfuskrá með þeim rökum að hún hefði borist eftir að kröfulýsingarfrestur rann út.

III

Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því að tölvupóstsending David Zemel f.h. sóknaraðila á eina póstfang sem upp hafi verið gefið af varnaraðila, hafi falið í sér fullnægjandi kröfulýsingu og hafi að öllu leyti verið í samræmi við áskilnað laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, sbr. sérstaklega 117. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga um fjármála­fyrirtæki nr. 161/2002.  Í 1. mgr. 117. gr.  segi að sá sem halda vilji uppi kröfu á hendur þrotabúi og geti ekki fylgt henni eftir samkvæmt 116. gr. laganna, skuli lýsa henni fyrir skiptastjóra.  Sögnin að lýsa feli í sér að tilkynna eitthvað eða kunngera.  Þannig feli áskilnaður 1. mgr. 117. gr. um að lýsa kröfu fyrir skiptastjóra í sér að tilkynna honum um kröfuna eða kunngera hana fyrir honum.

Í 2. mgr. greinarinnar segi meðal annars að kröfulýsing skuli vera skrifleg og tekið skuli fram í hvers þágu hún sé gerð.  Af  bréfi slitastjórnar til héraðsdóms 1. febrúar 2010 megi ráða að kröfulýsing sóknaraðila hafi verið skrifleg og fyllt inn í sérstakt form sem slitastjórn varnaraðila hefði útbúið fyrir kröfuhafa félagsins.  Kröfulýsingin uppfylli áskilnað 117. gr. gjaldþrotaskiptalaga og í henni komi fram upplýsingar um í hvers þágu hún sé gerð, fjárhæð kröfu og vextir og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð. Að auki hafi kröfulýsingin að geyma ítarlegar upplýsingar sem slitastjórn varnaraðila hafi gert eigendum skuldabréfa að gefa upp, til dæmis upplýsingar um lokunarnúmer (e. blocking number) og auðkenni þeirrar skuldabréfaútgáfu sem sóknaraðili hafi tekið þátt í. Þá sé kröfulýsingin undirrituð af lögbærum aðila og dagsett 23. nóvember 2009.

Í 85. gr. gjaldþrotaskiptalaga sé kveðið á um hvernig innköllun skiptastjóra skuli háttað. Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 85. gr. skuli innköllunin hafa að geyma áskorun til lánardrottna um að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra með sendingu eða afhendingu kröfulýsingar á tilteknum stað innan tilgreinds kröfulýsingarfrests.

Í innköllun slitastjórnar varnaraðila, sem birst hafi í Lögbirtingablaði 26. maí 2009, sé skorað á kröfuhafa að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir slitastjórn bankans innan sex mánaða frá birtingu innköllunarinnar.  Kröfulýsingarnar skyldu sendar til slitastjórnar bankans að Sóltúni 26, 105 Reykjavík og efni þeirra vera í samræmi við fyrirmæli 2. og 3. mgr. 117. gr. gjaldaþrotaskiptalaga.

Sé fulljóst að innköllun varnaraðila hafi ekki að geyma áskilnað um að eintök kröfulýs­inga sem send skuli slitastjórn varnaraðila skuli vera áþreifanleg, enda hafi skiptastjóri, eða slitastjórn í tilviki varnaraðila, engar heimildir til að þrengja þau skilyrði sem gjald­þrota­skiptalög setji um gerð og efni kröfulýsinga og hafna síðar kröfum sem ekki upp­fylli hinn einhliða áskilnað þar sem hann sé umfram kröfur laganna.

Hafi sóknaraðili neytt allra tiltækra ráða til að tryggja að kröfulýsing hans kæmist í hendur slitastjórnar varnaraðila fyrir lok kröfulýsingar­frests.  Þannig hafi kröfulýsingin fyrst verið send á eina uppgefna netfang slitastjórnar varnaraðila, síðar á formann skila­nefnd­ar varnaraðila og loks starfsmenn slitastjórnar varnaraðila líkt og fyrirliggjandi tölvupóstsamskipti gefi til kynna.  Sóknaraðili hafi þar með komið fullmótaðri og undirritaðri kröfulýsingu sinni til slitastjórnar varnaraðila innan kröfulýsingarfrests.  Hvorki ákvæði gjaldþrotaskiptalaga né orðalag innköllunar slitastjórnar varnaraðila standi í vegi fyrir því að krafa sóknaraðila á grundvelli kröfulýsingar hans verði tekin til greina.

Í öðru lagi byggir sóknaraðili málsins á því að kröfulýsing hans hafi verið ákvöð í skilningi íslensks samningaréttar og hafi því öðlast réttaráhrif, þ.e. orðið bindandi fyrir slitastjórn varnaraðila, þegar hún var send af stað á nægilega tryggan hátt eða í síðasta lagi þegar kröfulýsingin var komin til slitastjórnar varnaraðila.

Feli kröfulýsing í sér tilkynningu um að kröfuhafi hyggist leita fullnustu kröfu sinnar úr búi þess sem kröfulýsingunni sé beint til.  Því sé um að ræða tilkynningu sem hafi orðið bindandi fyrir slitastjórn varnaraðila þegar hún var send af stað á nægilega tryggan hátt en eins og gögn málsins beri skýrlega með sér hafi kröfulýsingin verið send af stað hinn 23. nóvember 2009.  Þessi regla hafi verið lögfest í vissum tilvikum.  Þannig gildi hún meðal annars um vissar tegundir tilkynninga eftir lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, sbr. 39. gr. laganna, tilkynningar samkvæmt lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000, sbr. 82. gr. laganna og um stjórnsýslukærur sbr. 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Ætla megi að regla þessi helgist að miklu leyti af sann­girnis­­sjónar­miðum í garð sendanda tilkynningar sem treyst hafi öðrum, sem ekki hafi beina hagsmuni af tilkynningunni, til að koma henni til skila.

Veigamikil rök hnígi til þess að sama regla skuli gilda um kröfulýsingu sóknaraðila og kröfulýsingar almennt, enda hafi forsvarsmenn sóknaraðila sýnt þann ásetning í verki að lýsa kröfu sóknaraðila fyrir slitastjórn varnaraðila fyrir 26. nóvember 2009 með áþreif­an­legri kröfulýsingu.   

Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að þrátt fyrir að áþreifanleg útgáfa kröfulýsingar hans hafi borist slitastjórn varnaraðila eftir að kröfulýsingarfresti var lokið, leiði sú niðurstaða slitastjórnar að hafna kröfu sóknaraðila til ósanngjarnrar niðurstöðu sem ekki sé í samræmi við grunnrök íslensks gjaldþrotaskiptaréttar.

Þessu til stuðnings megi benda á að sóknaraðili sé erlendur kröfuhafi og þó að honum hafi verið kunnugt um gjaldþrotaskiptin þegar hann póstlagði kröfulýsingu sína hafi hann ekki áttað sig á afleiðingum vanlýsingar samkvæmt íslenskum gjaldþrotarétti fyrr en 6. nóvember 2009, en þá hafi Goldman Sachs sent tölvupóst til sóknaraðila þar sem honum hafi verið greint frá kröfulýsingarferlinu.

Samkvæmt 86. gr. gjaldþrotaskiptalaga hefði slitastjórn varnaraðila verið rétt að upplýsa sóknaraðila um hvenær kröfulýsingarfrestur tæki enda og hverjar afleiðingar það gæti haft að kröfu væri ekki lýst í tæka tíð  innan frestsins.  Í athugasemdum við greinina sem fylgt hafi með frumvarpi því sem síðar varð að gjaldþrotaskiptalögum segi að ráðstafanir þær sem mælt sé fyrir um í greininni geti einkum þjónað þeim tilgangi að koma í veg fyrir að erlendir lánardrottnar geti komið að kröfum eftir lok kröfulýsingar­frests í skjóli 2. tl. 118. gr.  Í þeirri grein sé veitt undanþága frá meginreglunni um vanlýsingu kröfu sem ekki sé lýst innan frests ef kröfuhafi er búsettur erlendis og honum hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um gjaldþrotaskiptin og kröfunni sé lýst innan ákveðinna tímamarka.

Í 111. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 6/1978, sem lög nr. 21/1991 hafi tekið við af, segi að undanþágan frá meginreglunni gildi einnig ef skiptaráðandi telji afsakanlegt vegna búsetu kröfuhafa í öðru landi eða af svipuðum ástæðum, að kröfulýsing hafi dregist fram yfir frestinn. Í athugasemdum við 118. gr. frumvarps sem síðar hafi orðið að gjaldþrotaskiptalögum nr. 21/1991 segi að undantekningar greinarinnar eigi sér ýmist hliðstæður í 111. gr. laga nr. 6/1978 eða ólögfestum fordæmisreglum.

Í fjórða lagi byggir sóknaraðili á að tilgangur kröfulýsingarferlisins sé að skiptastjóri eða slitastjórn í tilviki varnaraðila átti sig á eðli og umfangi krafna og skrái þær í kröfuskrá. Krafa sóknaraðila eigi rætur að rekja til útgáfu skuldabréfa af hálfu fyrirrennara varnaraðila, Íslandsbanka hf.  Skuldbinding sú er hvílt hafi á varnaraðila hafi verið skráð í bækur félagsins og hafi varnaraðili getað nálgast upplýsingar um eigendur skuldabréfa samkvæmt útgáfunni.  Fall þriggja stóru viðskiptabankanna haustið 2008 hafi brotið blað í sögu íslensks gjaldþrotaskiptaréttar og liggi það í augum uppi að ekki hafi verið gert ráð fyrir skiptameðferðum af slíkri stærðargráðu við setningu gjaldþrotaskiptalaganna sem hafi verið orðin 17 ára gömul, og eldri að stofni til, þegar bankarnir þrír hafi fallið.  Því séu lögin ófullkomin og barn síns tíma að mörgu leyti.  Eigi þetta ekki síst við um meðferð krafna á borð við skuldabréf sem séu skráð með kerfisbundnum og rafrænum hætti og ítarlegar upplýsingar um umfang skuldbindingarinnar liggi fyrir hjá útgefanda.  Í þessu samhengi sé rétt að geta þess að gjaldþrotaskiptalög Danmerkur, Noregs og fleiri nágrannaríkja Íslands geri ekki ráð fyrir því að innköllun bústjóra hafi útilokunaráhrif þannig að kröfum sem ekki sé lýst innan frests sem þar sé getið verði hafnað, líkt og gildi hér á landi.

Af framangreindu megi vera ljóst að veigamikil rök hnígi til þess að kröfu sóknaraðila verði hleypt að og fái slík niðurstaða stoð í gjaldþrotaskiptalögum, fyrirrennara þeirra og lögskýringargögnum. Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar sóknaraðili til laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, fyrirrennara þeirra laga og lögskýringargagna, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 með síðari breytingum og meginreglna gjaldþrota­skipta-, samninga- og kröfuréttar.

IV

Varnaraðili kveður sóknaraðila byggja kröfur sínar í fyrsta lagi á því að tölvupóst­sending geti verið ígildi skriflegrar lýsingar kröfu á heimilisfang bankans eins og áskilið sé í lögum númer 21/1991, sbr. 117. gr. laganna.  Sé rétt að árétta að um kröfulýsingar og kröfulýsingarferlið gildi lögfestar reglur.  Sé eðlilegt að um kröfuferlið í heild sinni gildi strangar reglur enda komi fram að kröfulýsingu fyrir skiptastjóra fylgi sömu áhrif og ef mál hefði verið höfðað um kröfuna á þeirri stund sem hún hafi borist honum, sbr. 6. mgr. 117. gr. gjaldþrotalaganna.  Eðlilegt sé að skýra ákvæðið með þeim hætti að til að kröfulýsing hafi þau áhrif sem henni sé ætlað, það er að vera ígildi stefnu, þurfi birting hennar að vera nægjanleg.  Birting kröfulýs­ing­ar sóknaraðila geti ekki talist vera í því formi sem áskilið hafi verið samkvæmt innköllun þeirri sem birtist 26. maí 2009, en í 4. tl. 1. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. komi fram að í áskorun til lánardrottna og annarra, sem telji sig eiga kröfur á hendur búinu eða til muna í vörslum þess, þurfi að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra með sendingu eða afhendingu kröfulýsinga á tilteknum stað innan tilgreinds kröfulýsingarfrests, sem hafði verið ákveðinn eftir 2. mgr. sömu greinar.  Þessi tiltekni staður hafi verið ákveðinn að Sóltúni 26, 105 Reykjavík.

Skýrlega hafi verið tiltekið í innköllun varnaraðila í hvaða formi kröfulýsingar ættu að vera og hvar afhenda ætti kröfulýsinguna.  Hvergi hafi verið gefinn upp sá  möguleiki að senda kröfulýsingar með tölvupóstskeytum.  Hafi þessum upplýsingum frá upphafi verið komið á framfæri við kröfuhafa meðal annars á sérstakri heimasíðu sem innihaldi nákvæmar upplýsingar um það hvernig kröfuhafa beri að lýsa kröfum sínum.  Lýsing kröfulýsingar sóknaraðila hafi því ekki farið fram fyrr en að liðnum þeim tímafresti sem gefinn hafi verið upp í samræmi við 2. mgr. 85. gr. gjaldþrotalaganna og teljist krafan því fallin niður gagnvart varnaraðila, sbr. 118. gr. sömu laga. 

Tölvupóstskeyti það er sóknaraðili vísi til og haldi fram að sé nægjanleg lýsing kröfu­lýs­ingar hafi einungis að geyma spurningu til viðtakanda um það hvort formið sem útfyllt hafi verið uppfylli skilyrði slitastjórnar varnaraðila, en kveði með engum hætti á um að hún eigi að teljast til formlegrar kröfulýsingar.  Í svari starfsmanns varnar­aðila hafi verið ítrekað að kröfulýsingin þyrfti að berast til slitastjórnar þann 26. nóvember 2009.  Verði ekki með neinum hætti séð að tölvupóstsamskipti þau sem átt hafi sér stað beri með sér að þau teljist löggild lýsing eða afhending kröfu í því formi sem áskilið hafi verið í innköllun birtri samkvæmt 85. gr. gjaldþrotalaga.

Með lögum númer 21/1991 hafi verið settar mun strangari formreglur en eldri lög höfðu að geyma og hafi skiptastjóra jafnframt verið veitt heimild í  4. tl. 1. mgr. 85. gr. sömu laga til að ákveða í hvernig formi kröfulýsingar þurfi að berast til hans.  Leiðbeiningar og skilyrði kröfulýsinga hafi verið sett fram af hálfu slitastjórnar í innköllun, auglýsingum birtum í dagblöðum, tölvupósti starfsmanns varnaraðila og á vefsíðu bankans.

Varnaraðili kveður þau rök sóknaraðila að kröfulýsing hans hafi verið ákvöð sem hafi orðið bindandi fyrir slitastjórn varnaraðila þegar hún var send af stað ekki eiga við í meðferð gjaldþrotamála.  Í dómi Hæstaréttar í máli númer 279/1986 hafi dómurinn skýrt sögnina „að lýsa“ með þeim hætti að orðið verði ekki skilið á annan veg en þann að í því felist sú merking að gera þurfi skiptaráðanda grein fyrir kröfunni, munnlega eða skriflega, innan umrædds tímamarks.  Þeim áskilnaði verði ekki fullnægt með öðru móti en því að krafan sé óumdeilanlega komin í hendur skiptaráðanda fyrir lok kröfulýsingarfrests að viðlögðum kröfumissi.

Gildi strangar formreglur um kröfulýsingar, enda hafi þær sömu réttaráhrif og ef mál hefði verið höfðað um kröfuna. sbr. 6. mgr. 117. gr. gjaldþrotaskiptalaganna.  Sé ótækt að fallast á að það að senda kröfuna af stað innan kröfulýsingarfrests, hafi þau réttaráhrif að kröfu teljist hafa verið lýst fyrir réttan tíma.  Slík niðurstaða væri ekki í samræmi við 1. mgr. 118. gr. gjaldþrotaskiptalaga þar sem skýrt komi fram að krafan skuli hafa borist skiptastjóra innan kröfulýsingarfrests.

Varnaraðili kveður að málatilbúnaður sóknaraðila virðist ganga út á að varnaraðili hafi ekki upplýst sóknaraðila með nægjanlegum hætti um áhrif vanlýsingar en gjaldþrota­lögin eigi ekki að  stuðla að ósanngjarnri niðurstöðu fyrir sóknaraðila.  Beri að hafa í huga að kröfulýsingarfrestur hafi verið ákveðinn 6 mánuðir en það sé hámark slíks frests sbr. 2. mgr. 85. gr. gjaldþrotaskiptalaga.  Hafi kröfuhafar því haft alla möguleika á að lýsa kröfum sínum innan frestsins.  Hafi varnaraðili farið í einu og öllu að skilyrðum laganna en innköllun hafi verið birt í 46 löndum auk annarra tilkynninga.

Í þeim auglýsingum sem birst hafi frá varnaraðila, þar sem innköllunin sé birt í heild sinni, sé þess skýrlega getið hverjar afleiðingar það hafi í för með sér að kröfu sé ekki lýst innan þess tíma sem upp hafi verið gefinn í innkölluninni.  Þá komi þessar upplýsingar einnig fram á heimasíðu varnaraðila.

Varnaraðili kveður ekki unnt að fallast á að þær undantekningar frá vanlýsingar­áhrif­um sem upp séu taldar í 118. gr. gjaldþrotalaganna eigi við í þessu máli.  Hafi sóknaraðila átt að vera ljóst hver áhrif vanlýsingar væru þegar við birtingu innköllunar og í allra síðasta lagi 6. nóvember 2009, þegar hann hafi fengið sendan tölvupóst frá Goldman Sachs Asset Service þar sem áhrif vanlýsingar hafi verið reifuð.  Hafi sóknaraðila verið í lófa lagið að senda kröfulýsingu sína fyrr svo tryggt væri að hún bærist á tilskildum tíma.  Hafi sóknaraðili hins vegar teflt á tæpasta vað með þeim afleiðingum að krafa hans hafi ekki borist innan kröfulýsingafrests.

Varnaraðili færi engin önnur rök fyrir þeirri málsástæðu að sanngirnissjónarmið eigi að leiða til þess að krafa hans verði tekin til greina en þau að íslensk gjaldþrotalög séu úreld og barn síns tíma.  Geti varnaraðili ekki fallist á þetta.  Form og skilyrði þess að lýsa kröfu við gjaldþrotaskipti byggist á ákvæðum gjaldþrotalaga.  Skilyrðin séu sanngjörn og eðlileg og lengd kröfulýsingarfrests þannig að öllum kröfuhöfum hafi verið í lófa lagið að tryggja að kröfulýsing bærist innan frestsins.  Engin rök séu því til þess að víkja frá lögunum vegna sanngirnissjónarmiða.  Allt að einu geti sóknaraðili ekki öðlast aukinn rétt á þessari málsástæðu einni saman, enda séu lögin vel til þess bær að taka á þeim vanda sem mál þetta lúti að.  Kröfulýsing sem berist eftir þann frest sem upp sé gefinn í innköllun útgefinni í samræmi við 85. gr. gjaldþrotalaganna hafi vanlýsingaráhrif samkvæmt 118. gr. sömu laga.

Um lagarök vísar varnaraðili til laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, og lögskýringar­gagna, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 með síðari breytingum, 3. þáttar laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og meginreglna gjaldþrotaskipta-, samninga- og kröfuréttar. 

V

Samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skal sá sem vill halda uppi kröfu á hendur þrotabúi lýsa henni fyrir skiptastjóra.  Þá er í 2. mgr. ákvæðisins greint frá því að kröfulýsing skuli vera skrifleg og hvað skuli þar koma fram og í 3. mgr. ákvæðisins kemur fram að þau gögn skuli fylgja kröfulýsingu sem kröfur séu studdar við.  Í 1. mgr. 85. gr. laganna er talið upp í 5 töluliðum hvað skuli koma fram í innköllun, en samkvæmt 4. tl. ákvæðisins skal þar vera áskorun til lánardrottna og annarra sem telja sig eiga kröfur á hendur búinu um að lýsa kröfum sínum til skiptastjóra með sendingu eða afhendingu kröfulýsinga á tilteknum stað.   Samkvæmt 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki skal beita sömu reglum um efni innköllunar, kröfulýsingarfrest og tilkynningar eða auglýsingar vegna erlendra kröfuhafa og við gjaldþrotaskipti.  Þá segir í 4. mgr. þess ákvæðis að ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gildi um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess, þar á meðal um áhrif þess að kröfu sé ekki lýst. 

Í innköllun slitastjórnar varnaraðila kemur fram að kröfulýsingar­frestur sé sex mánuðir en samkvæmt 2. mgr. 85. gr. gjaldþrotaskiptalaga skal kröfulýsingarfrestur að jafnaði ákveðinn tveir mánuðir en ef sérstaklega standi má megi skiptastjóri ákveða að fresturinn verði tiltekinn mánaðarfjöldi frá þremur til sex mánaða og að kröfulýsingar­frest­ur byrji að líða við fyrri birtingu innköllunar.  Þá var í innköllun slitastjórnar varnaraðila tilgreint að kröfulýsingar skyldu sendar á heimilisfang slitastjórnar varnaraðila að Sóltúni 26, Reykjavík, sbr. 4. tl. 1. mgr. 85. gr. gjaldþrotaskiptalaga.  Ekki er ágreiningur um að kröfulýsingarfrestur rann út 26. nóvember 2009 og að krafa sóknaraðila sú sem send var með pósti barst slitastjórn varnaraðila 30. nóvember 2009.  Þá er ágreiningslaust að sóknaraðili sendi kröfulýs­ingu sína sem fylgiskjal með tölvupósti til varnaraðila 23. nóvember 2009, en í tölvupóstinum er sóknaraðili að óska eftir því að fá staðfest, áður en hann sendi kröfulýsinguna með hraðsendingar­fyrir­tækinu FedEx, hvort hann hafi fyllt eyðublað fyrir kröfulýsingu út með full­nægjandi hætti.  Af tölvupósti þessum verður ekki annað ráðið en að sóknaraðili sé með fyrirspurn til varnaraðila sem hann óskar eftir að fá svar við áður en hann sendi kröfulýsinguna af stað og verður tölvupóstur þessi ekki með nokkrum hætti skilinn á þá lund að með honum hafi sóknaraðili verið að lýsa kröfu í búið.   Ber tölvupósturinn þess glögglega merki að sóknaraðili leit sjálfur ekki á þennan tölvupóst sem kröfulýsingu enda kemur fram í honum að hann hygðist póstsenda kröfulýs­ing­una þennan sama dag og því lægi honum á að fá svar fljótt.  Þá var hvorki í innköllun né öðrum auglýsingum um slitameðferðina boðið upp á að hægt væri að lýsa kröfum á hendur varnaraðila með tölvupósti.

Eins og fram kemur í 4. tl. 1. mgr. 85. gr. gjaldþrotaskiptalaga skal í innköllun koma fram áskorun, til lánadrottna og annarra sem telja sig eiga kröfur á hendur búi eða til muna í vörslum þess, um að lýsa kröfum fyrir skiptastjóra með sendingu eða afhendingu kröfulýsinga á tilteknum stað innan tilgreinds kröfulýsingarfrests.  Orðalag ákvæðis þessa verður ekki skilið á annan veg en að lýsing kröfu fyrir skiptastjóra feli það í sér að kröfuhafi þarf að senda eða afhenda kröfu sína á þeim tiltekna stað sem um getur í innköllun og þarf krafan að hafa borist skiptastjóra fyrir lok kröfulýsingar­frests.  Í tilviki varnaraðila bar kröfuhöfum að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir slita­stjórn varnaraðila að Sóltúni 26, Reykjavík, en sóknaraðili sendi einmitt kröfu sína þangað en fyrir mistök fór sendingin til Írlands og barst því ekki til slitastjórnar varnaraðila fyrr en 30. nóvember 2009.  Samkvæmt framangreindu ákvæði 4. tl. 1. mgr. 85. gr. hefur skiptastjóri, í þessu tilviki slitastjórn varnaraðila, heimild til að ákveða hvert senda beri eða afhenda kröfulýsingar og því ekki annað séð en að  innköllun slitastjórnar varnaraðila hafi verið í fullu samræmi við ákvæði gjaldþrota­skipta­laga, sbr. 2. og 4. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki og hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að með innkölluninni hafi skilyrði gjaldþrota­skipta­laga verið þrengd með nokkrum hætti.

Sóknaraðili telur að þar sem kröfulýsing hans sé ákvöð í skilningi íslensks samningaréttar hafi hún öðlast réttaráhrif, þ.e. orðið bindandi fyrir slitastjórn varnaraðila, þegar hún var send af stað með tryggum hætti.  Með vísan til þess sem að framan er rakið eru gjaldþrotaskiptalögin skýr varðandi það að kröfuhafi þarf að lýsa kröfu sinni með sendingu eða afhendingu kröfulýsingar á þann stað sem uppgefinn er í innköllun, fyrir lok kröfulýsingarfrests.  Að þessu virtu og í ljósi þess að kröfulýsingu fyrir skiptastjóra fylgja sömu áhrif og ef mál hafi verið höfðað um kröfuna á þeirri stund sem hún berst honum, sbr. 6. mgr. 117. gr. gjaldþrotaskiptalaga, var ekki nægjanlegt að sóknaraðili hefði sent kröfulýsinguna af stað fyrir lok frestsins.

Sóknaraðili telur að sú niðurstaða skilanefndar varnaraðila að hafna kröfu sóknaraðila leiði til ósanngjarnrar niðurstöðu sem sé ekki í samræmi við grunnrök íslensks gjald­þrota­skipta­réttar.  Því til stuðnings bendir hann á að sóknaraðili sé erlendur kröfuhafi og hafi hann ekki áttað sig á afleiðingum vanlýsingar samkvæmt íslenskum gjaldþrotarétti fyrr en 6. nóvember 2009.  Þá vísar sóknaraðili hvað þetta snertir til 86. gr. gjaldþrota­skipta­laga og telur að slitastjórn varnaraðila hafi verið rétt að upplýsa sóknaraðila um hvenær kröfulýsingarfrestur rynni út og um afleiðingar vanlýsingar.  Í  1. mgr. 86. gr. gjaldþrota­skipta­­laga segir að jafnframt því að gefa út innköllun sé skiptastjóra rétt að leita sérstaklega vitneskju um hvort einhver sá sem kann að telja til kröfu á hendur þrotabúinu sé búsettur erlendis.  Komi fram vitneskja um slíkt sé skiptastjóra rétt að tilkynna þekktum kröfuhöfum búsettum erlendis um gjaldþrotaskiptin, kröfulýsingarfrest og afleiðingar vanlýsingar.  Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að skiptastjóra sé rétt ef hann telji ástæðu til að ætla að lánardrottnar kunni að vera búsettir erlendis, sem ekki sé vitað hverjir séu eða hvar náð verði til, að birta auglýsingu erlendis með sama efni og tilkynning samkvæmt 1. mgr.  Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að skiptastjóra sé rétt að fá birta tilkynningu samkvæmt 1. mgr. í dagblaði hér á landi eða á annan hátt sem hann kýs ef sérstök ástæða þykir til.

Í máli þessu liggur fyrir að slitastjórn varnaraðila birti auglýsingar um gjaldþrotaskiptin í samræmi við fyrrgreint ákvæði 2. mgr. 86. gr. í 46 löndum.  Þá voru upplýsingar á heimasíðu varnaraðila um, hvernig lýsa bæri kröfum, kröfulýsingarfrest og áhrif vanlýsingar.  Þá er óumdeilt að sóknaraðili var sérstaklega upplýstur um hverjar væru afleiðingar vanlýsingar  með tölvupósti Goldman Sachs Asset Servicing Department, föstudaginn 6. nóvember 2009.  Að þessu virtu þykir ljóst að slitastjórn varnaraðila stóð réttilega að innköllun og auglýsingum samkvæmt ákvæðum 85. og 86. gr. gjaldþrotalaga og í síðasta lagi hinn 6. nóvember 2009 mátti sóknaraðila vera ljósar afleiðingar þess að kröfu væri lýst of seint.  Þrátt fyrir það hófst hann ekki handa við að senda kröfulýsingu af stað fyrr en 23. nóvember 2009, aðeins þremur dögum áður en fresturinn rann út.  Þá var enn áréttað í tölvupósti starfsmanns varnaraðila 23. nóvember 2009 mikilvægi þess að krafan bærist slitastjórn í síðasta lagi 26. nóvember 2009.  Verður sóknaraðili að bera allan halla af því að hafa ekki sent kröfulýsingu sína fyrr af stað en raun ber vitni.  Verður ekki talið að undantekning frá vanlýsingaráhrifum sem fram kemur í 2. tl. 1. mgr. 118. gr. gjaldþrotaskiptalaga eigi við en þar er vísað til þess þegar kröfuhafi er búsettur erlendis og hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um gjaldþrotaskiptin. 

Af málatilbúnaði sóknaraðila má ráða að hann telji, að þar sem krafa hans eigi rætur að rekja til útgáfu skuldabréfa sem skráð hafi verið í bækur varnaraðila og hann hafi því getað nálgast upplýsingar um eigendur skuldabréfanna, beri að rýmka þær reglur sem gilda um kröfulýsingar.  Séu gjaldþrotaskiptalögin gömul og ófullkomin og barn síns tíma.  Við setningu þeirra hafi ekki verið gert ráð fyrir skiptameðferð af þeirri stærðar­gráðu sem fall stóru viðskiptabankanna hér á landi hafi haft í för með sér.  Vísar sóknaraðili til þess að gjaldþrotalög í Noregi, Danmörku og fleiri nágrannaríkjum, geri ekki ráð fyrir að innköllun bústjóra hafi útilokunaráhrif.  Ekki verður annað séð en að ákvæði íslensku gjaldþrotaskiptalaganna um kröfulýsingarfresti og áhrif vanlýsingar séu sanngjörn og eðlileg.  Þykja engin rök til þess að víkja frá þeim á grundvelli sanngirnis­sjónarmiða eða á þeim forsendum að þau eigi ekki við í tilviki varnaraðila vegna stærðargráðu skiptameðferðarinnar.

Með því að kröfu sóknaraðila var ekki lýst fyrir slitastjórn varnaraðila fyrr en eftir að kröfulýsingarfrestur rann út fellur hún niður samkvæmt 1. mgr. 118. gr. gjaldþrotaskiptalaga en undantekningar frá því sem taldar eru upp í ákvæðinu í sex töluliðum eiga ekki við hér enda verður ekki séð af málatilbúnaði sóknaraðila að byggt sé á þeim, sbr. þó það sem að framan greinir varðandi 2. tl. ákvæðisins.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður kröfum sóknaraðila hafnað í máli þessu og krafa varnaraðila tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Heiðar Ásberg Atlason hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Páll Eiríksson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfum sóknaraðila, Venor Capital Master Fund Ltd. er hafnað í máli þessu og staðfest sú afstaða slitastjórnar varnaraðila, Glitnis banka hf., til kröfu sóknaraðila að fjárhæð 5.000.000 sterlingspunda, sem lýst var sem almennri kröfu í bú varnaraðila, að taka kröfuna ekki inn á kröfuskrá.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.