Hæstiréttur íslands

Mál nr. 186/2017

Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Grímur Hergeirsson hdl.)
gegn
X (Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 17. mars 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 12. apríl 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er undir sterkum grun um að hafa brotið gegn tveimur konum svo að varðað geti við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og krafist er. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands17. mars 2017.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur krafist þess að X, kt. [...], til lögheimilis að [...],og með dvalarstað að [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 miðvikudaginn 12. apríl 2017.

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað, en krefst þess til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að 17. febrúar sl. hafi kærða með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. [...] verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, allt til föstudagsins 17. mars 2017 kl. 16:00. Úrskurður héraðsdóms hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. [...]. Áður hafi kærða, í kjölfar handtöku hans á brotavettvangi, verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. úrskurð Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. [...], dags. [...], allt til föstudagsins 17. febrúar sl. kl. 16:00.

Líkt og rakið sé í ofangreindum úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, [...], hafi lögregla haft til rannsóknar þrjú ætluð brot X gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hin meintu brot hafi verið framin á [...] undir morgun mánudaginn 13. febrúar sl., með skömmu millibili og hafi beinst gegn þrem konum, A, kt. [...], B, kt. [...], og C, kt. [...]. Allar þrjár hafi þær verið gestir á [...] umrædda nótt og verið sofandi hver á sínu hótelherbergi þegar hin ætluðu brot hafi verið framin. Tvö hinna ætluðu brota varði við 2. mgr. 194. gr. laganna og hið þriðja við 199. gr. laganna. Sem kunnugt sé geti brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðað allt að 16 ára fangelsi og því ljóst að um alvarleg brot sé að ræða. Kærði hafi alfarið neitað sök.

Að mati lögreglu teljist, þrátt fyrir neitun kærða, sterkur rökstuddur grunur kominn fram um að hann hafi gerst sekur um öll hin þrjú ætluðu brot. Það mat byggi á því að kærði hafi verið handtekinn á vettvangi síðasta brotsins, þ.e. við herbergi nr. [...], strax í kjölfar tilkynningar til lögreglu. Þá staðfesti framburður vitna að kærði hafi verið inni á herbergi nr. [...], herbergi brotaþolans A, þegar vitnin hafi komið þar inn. Brotaþolinn B hafi staðfest við lögreglu á vettvangi að kærði, X, sé sá sem hefði brotið gegn henni inni á herbergi [...] þá skömmu áður. Þriðji brotaþolinn, C, hafi borið að hún þekki kærða og að hann hafi káfað á henni innan klæða inni á herbergi [...], auk þess sem vitni hafi  þekkt hann á vettvangi. Þá verði einnig að líta til þess að kærði sjálfur hafi í framburði hjá lögreglu sagt að hann hafi farið inn á þrjú herbergi umrætt sinn og að hann hafi haft kynferðismök við tvær konur. Framburður hans um að kynferðismökin hafi verið með samþykki brotaþolanna og hann síðan látið af háttsemi sinni þegar þær hafi beðið hann um að hætta sé aftur á móti afar ótrúverðugur og í algjörri andstöðu við framburði brotaþolanna sjálfra og viðbrögð þeirra í kjölfarið. Hið sama eigi við hvað varði framburð kærða um að hann hafi verið að leita að tóbakinu sínu uppi í rúmi þriðja brotaþolans, herbergi [...], og þess vegna hafi hann verið með hendurnar undir sæng brotaþolans.

Hinn sterki rökstuddi grunur hafi að mati lögreglu styrkst frá því dómur Hæstaréttar hafi gengið í málinu nr. [...]. Byggi það á því að frá þeim tíma hafi farið fram frekari yfirheyrslur vitna sem m.a. hafi leitt í ljós að þær skýringar sem kærði hafi gefið í framburðum sínum hjá lögreglu fái ekki staðist. Þá komi fram í framburði vitnisins D, vinar kærða, að kærði hafi greint vitninu frá því umræddan morgun á [...] að hann hafi farið inn á eitthvað herbergi hjá stelpu sem hafi annað hvort verið sofandi eða dauð. Kærði hafi sagt vitninu að ljósin í herberginu hafi ekki verið kveikt og hann hafi farið að eiga við stelpuna í rúminu vitandi að hún væri sofandi. Hann hafi svo hætt og farið út þegar hún hafi vaknað og kveikt ljósið.

Rannsókn lögreglu sé á lokastigi. Beðið sé niðurstaðna úr DNA greiningu á sýnum sem tekin hafi verið á upphafsstigum rannsóknarinnar og vænta megi að þær berist á næstu 4-5 vikum. Að öðru leyti sé rannsókn málsins lokið. Málið verði sent embætti Héraðssaksóknara til ákvörðunar um saksókn eins fljótt og unnt verði.

Í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. R-9/2017 hafi verið á það fallist með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum rökstuddum grun um tvö brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá hafi einnig verið fallist á það með lögreglustjóra að uppfyllt væru skilyrði um að kærði sætti gæsluvarðhaldi með tilliti til almannahagsmuna sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sá úrskurður héraðsdóms hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. [...].

Lögreglustjóri telur að öll þau sömu skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sakamálalaga sem staðfest hafi verið með greindum dómi Hæstaréttar í máli nr. [...] séu enn til staðar. Lögreglustjóri telur að þau brot sem hér um ræðir séu þess eðlis að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Óforsvaranlegt sé að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarleg brot sem honum séu gefin að sök. Að mat lögreglu sé kærði hættulegur umhverfi sínu og brotin þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings að hann gangi laus meðan mál hans séu til meðferðar.

Með vísan til alls framangreinds, úrskurðar Héraðsdóms Suðurlands í málinu [...] sem og dóms Hæstaréttar í málinu nr. [...], framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, fer lögreglustjórinn þess á leit að framangreind krafa um áframhaldandi gæsluvarðhald nái fram að ganga. Ekki er gerð krafa um að kærða verði með úrskurði gert að sæta einangrun eða öðrum takmörkunum í gæsluvarðhaldinu nái krafan fram að ganga.

Forsendur og niðurstaða

Samkvæmt því sem að framan greinir og að virtum rannsóknargögnum verður fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa í umrætt sinn brotið gegn tveimur konum með stuttu millibili svo að varðað geti við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og á sama tíma gegn hinni þriðju svo að varðað geti við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en við brotum sem hann er grunaður um liggur fangelsisrefsing, ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum samkvæmt nefndu ákvæði 194. gr. laganna.

Þá verður fallist á það með lögreglustjóra að eins og atvikum er háttað í málinu sbr. það sem að framan segir, séu uppfyllt skilyrði til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi og að ætla megi að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og 1. mgr. 95. gr. laganna. 

Ber því að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en lengd gæsluvarðhaldsins þykir í hóf stillt.

                Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 12. apríl 2017 kl. 16:00.