Hæstiréttur íslands

Mál nr. 474/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Úrskurður
  • Ómerking ákvörðunar héraðsdóms


Miðvikudaginn 23

 

Miðvikudaginn 23. október 2002.

Nr. 474/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Einar Jakobsson hdl.)

 

Kærumál. Vitni. Úrskurður. Ómerking ákvörðunar héraðsdóms.

Héraðsdómari ákvað að hafna kröfu X um að fá að leiða þrjú nafngreind vitni í máli, sem hún hafði borið undir héraðsdóm til að fá leyst úr lögmæti halds, sem lagt var á dagbók í eigu hennar við rannsókn lögreglu á opinberu máli. Hæstiréttur felldi þessa ákvörðun úr gildi með vísan til þess að dómaranum hefði borið að kveða upp úrskurð í stað þess að taka ákvörðun, sbr. 61. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2002 um að hafna kröfu varnaraðila um að fá að leiða þrjú nafngreind vitni í máli, sem hún hefur borið undir héraðsdóm til að fá leyst úr lögmæti halds, sem lagt var á dagbók í eigu hennar við rannsókn sóknaraðila á opinberu máli. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að henni verði heimilað að leiða þessi vitni í málinu.

Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun héraðsdómara verði staðfest.

Eins og ráðið verður af framansögðu er nú að frumkvæði varnaraðila rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál til úrlausnar um lögmæti halds, sem lögreglan lagði 25. júlí 2002 á dagbók í eigu hennar vegna rannsóknar á opinberu máli. Þegar mál þetta var tekið fyrir 7. október sl. krafðist varnaraðili þess að fá að leiða nánar tiltekin vitni fyrir dóm til að bera um atvik að haldlagningunni. Því mótmælti sóknaraðili. Féllst héraðsdómari á þau mótmæli með hinni kærðu ákvörðun.

Samkvæmt 61. gr. laga nr. 19/1991 ber héraðsdómara að úrskurða ágreining um atriði, sem varða vitni. Af þeim sökum var honum ekki fært að taka afstöðu til deilu aðilanna með ákvörðun, heldur bar honum að kveða upp úrskurð samkvæmt 2. mgr. 134. gr. laga nr. 19/1991 um ágreiningsefnið. Verður því ekki komist hjá að fella ákvörðun héraðsdómara úr gildi og leggja fyrir hann að kveða upp úrskurð um ágreining málsaðilanna.

Dómsorð:

Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi.