Hæstiréttur íslands
Mál nr. 431/1998
Lykilorð
- Landskipti
- Sameign
|
|
Fimmtudaginn 30. september 1999. |
|
Nr. 431/1998. |
Ólafur Þórarinsson og Víðir Reyr Þórsson (Steingrímur Þormóðsson hdl.) gegn Jóni V. Karlssyni Sigurjóni Sigurðssyni og dánarbúi Kristrúnar Sigurðardóttur (Othar Örn Petersen hrl.) og til réttargæslu Sigþóri Jónssyni Eydísi Indriðadóttur Guðmundi Haukssyni Hermanni Guðjónssyni Guðrúnu Guðjónsdóttur Ingveldi Guðjónsdóttur og Jóni Hauki Guðjónssyni |
Landskipti. Sameign.
Ó og V, eigendur jarðarinnar Háfs, kröfðust þess að viðurkenndur yrði beinn eignarréttur þeirra yfir tilteknu landssvæði í Djúpárhreppi. Töldu þeir að landsvæðið tilheyrði Háfi og hefði aldrei verið frá jörðinni skilið. J, S og K, eigendur jarðanna Hala og Háfshóls töldu hins vegar að svæðið væri í óskiptri sameign Háfshóls, Hala og Háfs með Háfshjáleigu í jöfnum hlutföllum. Fyrir lá að Háfshverfið var upphaflega í eigu eins aðila og höfðu hjáleigurnar Háfshóll og Hali verið byggðar út frá landnámsjörðinni Háfi. Ekki var á það fallist að í skiptagerð árið 1929, þar sem skipt var tilteknu beitilandi og engjum að beiðni eigenda Háfshóls og Hala, hefði falist endanleg skipting lands til Háfshóls og Hala. Að virtum gögnum málsins þótti J, S og K hafa tekist að færa að því fullgild rök að hið umdeilda landsvæði hafi verið í óskiptri sameign framangreindra jarða. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á kröfu þeirra um að viðurkennt yrði að Ó og V tilheyrði í óskiptri sameign aðeins 1/3 hluti svæðisins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 22. október 1998. Þeir krefjast þess, að viðurkenndur verði með dómi beinn eignarréttur þeirra sem eigenda jarðarinnar Háfs, áfrýjandans Ólafs að þremur fjórðu og áfrýjandans Víðis Reyrs að einum fjórða, að því landsvæði innan Djúpárhrepps, Rangárvallasýslu, sem auðkennt er á uppdrætti og nefnt hefur verið Háfsgljá og Háfsfjara, þannig hnitmerkt: Frá punktinum 101 (x-633229,9/y-362469,7) að punktinum 102 (x-631400,2/y-364322,4), frá þeim punkti að punktinum 103 (x-631902,3/y-364603,9), frá þeim punkti að punktinum 104 (x-632252,6/y-365017,1), frá þeim punkti að punktinum 105 (x-632264,7/y-365403,0), frá þeim punkti að punktinum 106 (x-635848,9/y-366423,5), frá þeim punkti að punktinum 107 (x-636232,1/y-366075,1), frá þeim punkti fjöruborð Þjórsár að punktinum 108 (x-637918,5/y-366257,1), frá þeim punkti að punktinum 109 (x-637886,0/y-366077,9), en þaðan sjávarborð að punktinum 110 (x-634974,4/y-363950,8), frá þeim punkti að punktinum 111 (x-634927,9/y-364041,6), frá þeim punkti að punktinum 112 (x-633831,7/y-363060,8), frá þeim punkti að punktinum 113 (x-633857,7/y-363001,4) og þaðan sjávarborð að punktinum 101.
Til vara gera áfrýjendur þá dómkröfu, að viðurkenndur verði eignarréttur áfrýjandans Ólafs sem eiganda Háfs að þremur fjórðu og Víðis Reyrs sem eiganda Háfshjáleigu og eiganda Háfs að einum fjórða að ofangreindu landsvæði, þannig að Háfi og Háfshjáleigu tilheyri 40,74% landsvæðisins í óskiptri sameign með Hala og Háfshóli.
Í báðum tilvikum krefjast áfrýjendur sýknu af kröfu réttargæslustefndu um ómaksþóknun og að þeim verði dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Réttargæslustefndu gera ekki sjálfstæðar dómkröfur að öðru leyti en því, að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um málskostnað þeim til handa. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefnda Kristrún Sigurðardóttir andaðist 19. júní 1999. Dánarbúi hennar hefur ekki verið skipt, og tekur það við aðild hennar að málinu.
Mörg ný skjöl hafa verið lögð fram.
I.
Eins og lýst er í héraðsdómi deila aðilar um eignarrétt að Háfsfjöru og Háfsgljá. Ekki er deilt um mörk þessa svæðis, sem er strandlengja, talin 1089 ha að stærð. Áfrýjendur telja, að hið umdeilda landsvæði tilheyri landnámsjörðinni Háfi og hafi aldrei verið frá henni skilið. Hafi þeir eignast jörðina með gögnum og gæðum samkvæmt fullgildum eignaafsölum og telji því til beins eignarréttar yfir svæðinu. Út úr jörðinni hafi verið byggðar hjáleigurnar Háfshjáleiga, Háfshóll, Hali og Horn, sem hafi fengið úrskipt ákveðnu landi, þegar þær hættu að vera hjáleigur og urðu eignarjarðir. Allt land innan Háfshverfisins, sem ekki hafi þannig verið lagt til hjáleiganna, þar á meðal hið umdeilda landsvæði, hafi áfram verið í eigu landnámsjarðarinnar Háfs. Stefndu telja aftur á móti, að hið umdeilda svæði sé í óskiptri sameign Háfshverfisjarða í hlutföllunum einn á móti þremur, það er Háfshóls, Hala með Horni og Háfs með Háfshjáleigu.
II.
Fyrir liggur, að upphaflega var Háfshverfið í eigu eins aðila og voru framangreindar hjáleigur byggðar út frá landnámsjörðinni Háfi. Hvorki liggur ljóst fyrir hvenær það var né hvenær hjáleigurnar voru seldar til eignar, en í jarðabók yfir Rangárvallasýslu 1802-1804 kemur fram, að búið var að selja Háfshól og Hala. Í Nýrri jarðabók fyrir Ísland 1861 voru hjáleigurnar fyrst metnar sjálfstætt sérstöku jarðamati, hver hjáleiga fyrir sig.
Með skiptagjörðinni 25. júní 1929, sem fram fór á grundvelli landskiptalaga nr. 57/1927 og lýst er í héraðsdómi, var skipt beitilandi og engjum með Kálfalæk, að beiðni eigenda Hala og Háfshóls, og var skipt eftir jarðamati frá 1861 að tillögu úttektarmanna. Áfrýjendur telja, að þá hafi Hala og Háfshól endanlega verið skipt úr landi Háfs. Skipt hafi verið því sameiginlega landi, sem enn var óskipt og annað land hafi ekki verið sameiginlegt.
Í skiptagerðinni 1929 er ekki tekið fram, að verið sé að skipta öllu landi jarðarinnar Háfs með tæmandi hætti heldur aðeins beitilandi og engjum. Með gerðinni var ekki aðeins verið að skipta út landi til Háfshóls og Hala heldur var einnig verið að afmarka land Háfs. Verður ekki talið, að með gerðinni hafi farið fram endanleg skipting lands gagnvart stefndu.
Í þinglýstri lögfestu 1874, þar sem lýst var mörkum Háfsjarðarinnar í heild, er merkjum lýst til sjávar, og svo var einnig gert í þinglýstri landamerkjaskrá 1885, hvorttveggja undirritað af öllum eigendum umræddra jarða.
Árið 1922, er sátt var gerð um Ásfjöru, sem liggur að því svæði sem um er deilt, komu allir eigendur Háfshverfis sameiginlega fram gagnvart eigendum Áss.
Við skipti haustið 1938 á svokölluðum Fiskivatnseyrum, sem er svipað landsvæði og hér er deilt um, var skipt í þrjá jafna hluta. Fékk Hali 1/3 hluta, Háfur og Háfshjáleiga 1/3 og Háfshóll 1/3. Bendir það til samkomulags um, að svæðið væri í óskiptri sameign í þeim hlutföllum.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms ber að staðfesta að stefndu hafi tekist að sanna, að hið umdeilda landsvæði hafi verið í óskiptri sameign jarðanna í Háfshverfinu. Þá ber einnig að staðfesta, að réttarsátt sú, sem gerð var 20. janúar 1932, hafi falið í sér breytingu á skiptagerðinni frá 1929 en ekki sölu á tilteknu landi.
Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um málskostnað og dæma ber áfrýjendur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Ólafur Þórarinsson og Víðir Reyr Þórsson, greiði in solidum stefndu, Jóni V. Karlssyni, Sigurjóni Sigurðssyni og dánarbúi Kristrúnar Sigurðardóttur, samtals 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Áfrýjendur greiði in solidum réttargæslustefndu, Sigþóri Jónssyni, Eydísi Indriðadóttur, Guðmundi Haukssyni, Hermanni Guðjónssyni, Guðrúnu Guðjónsdóttur, Ingveldi Guðjónsdóttur og Jóni Hauki Guðjónssyni, samtals 30.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Héraðsdómur Suðurlands 29. júlí 1998.
Mál þetta er höfðað með stefnu útgefinni 27. nóvember 1997. Það var þingfest 16. desember 1997 og dómtekið 8. júní s.l. Stefnendur málsins eru Ólafur Þórarinsson, kt. 210728-7599, Háfi og Víðir Reyr Þórsson, kt. 250971-5089, Háfi II, Djúpárhreppi; Rangárvallasýslu.
Stefndu eru Jón V. Karlsson, kt. 170133-4209, Hala, Djúpárhreppi, Rangárvallasýslu, eigandi jarðarinnar Hala, Djúpárhreppi, Sigurjón Sigurðsson, kt. 080527-3499, Hvassaleiti 16, Reykjavík og Kristrún Sigurðardóttir, kt. 190425-3129, Efstasundi 97, Reykjavík, eigendur jarðarinnar Háfshóls, Djúpárhreppi.
Réttargæslustefndu eru eigendur jarðarinnar Áss, Ásahreppi, Rangárvallasýslu: Sigþór Jónsson, Eydís Indriðadóttir og Guðmundur Hauksson, Ási I, Hermann, Guðrún, Ingveldur og Jón Haukur Guðjónsbörn, Ási II til IV. Eigendur jarðarinnar Fljótshóla, Gaulverjabæjarhreppi, Árnessýslu: Einar, Jón Kristinn, Guðrún og Jóna Sturlubörn og Júlíus Júlíusson, Fljótshólum I, Arnar Bjarnason, Fljótshólum II og III, Pálmi Þormóðsson, Fljótshólum IV og Djúpárhreppur
Dómkröfur.
Dómkröfur stefnenda eru:
1. Aðallega, að viðurkenndur verði með dómi beinn eignarréttur þeirra, sem eigenda jarðarinnar Háfs, Ólafs að þremur fjórðu og Víðis Reyrs að einum fjórða, að því landssvæði innan Djúpárhrepps, Rangárvallasýslu, sem auðkennt er á meðfylgjandi uppdrætti og nefnt hefur verið Háfsgljá og Háfsfjara, þannig hnitmerkt: Frá punktinum 101 (x-633229,9/y-362469,7) að punktinum 102 (x-631400,2/y-364322,4), frá þeim punkti að punktinum 103 (x-631902,3/y-364603,9), frá þeim punkti að punktinum 104 (x-632252,6/y-365017,1), frá þeim punkti að punktinum 105 (x-632264,7/y-365403,0), frá þeim punkti að punktinum 106 (x-635848,9/y-366423,5), frá þeim punkti að punktinum 107 (x-636232,1/y-366075,1), frá þeim punkti fjöruborð Þjórsár að punktinum 108 (x-637918,5/y-366257,1), frá þeim punkti að punktinum 109 (x-637886,0/y-366077,9), en þaðan sjávarborð að punktinum 110 (x-634974,4/y-363950,8), frá þeim punkti að punktinum 111 (x-634927,9/y-364041,6), frá þeim punkti að punktinum 112 (x-633831,7/y-363060,8), frá þeim punkti að punktinum 113 (x-633857,7/y-363001,4) og þaðan sjávarborð að punktinum 101.
2. Til vara, að viðurkenndur verði eignarréttur Ólafs, sem eiganda Háfs að þremur fjórðu og Víðis Reyrs sem eiganda Háfshjáleigu og eiganda Háfs að einum fjórða, að ofangreindu landsvæði innan Djúpárhrepps, Rangárvallasýslu, sem auðkennt er með meðfylgjandi uppdrætti og nefnt hefur verið Háfsgljá og Háfsfjara, þannig að Háfi og Háfshjáleigu tilheyri 40,74% landsvæðisins í óskiptri sameign með Hala og Háfshóli.
3. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar að skaðlausu skv. 130. gr. eml. 91/1991 og virðisaukaskatts á málskostnað skv. l. nr. 50/1988.
Dómkröfur stefndu eru:
1. Aðallega krefjast stefndu sýknu af öllum kröfum stefnenda.
2. Til vara er þess krafist að Háfi og Háfshjáleigu tilheyri aðeins 1/3 hluti þess lands sem kröfugerð stefnenda tekur yfir.
3. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnendum verði in solidum gert að greiða stefndu málskostnað skv. málskostnaðarreikningi og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Af hálfu réttargæslustefndu, Sigþórs Jónssonar, Eydísar Indriðadóttur, Guðmundar Haukssonar, Hermanns, Guðrúnar Ingveldar og Jóns Hauks Guðjónsbarna er krafist ómaksþóknunar, en engar kröfur eru gerðar á hendur þeim.
Sáttatilraunir í þessu máli hafa reynst árangurslausar.
Málsástæður og önnur atvik.
Í marsmánuði 1997 strandaði kaupskipið Vikartindur í svonefndri Háfsfjöru skammt austan ósa Þjórsár. Í framhaldi af því risu deilur um eignarrétt á Háfsfjöru og svonefndri Háfsgljá. Hið umdeilda svæði er í suðri afmarkað af Atlantshafinu, að vestan af Þjórsá til Háfsósa, að austan séu mörkin síðan Háfsósar, að skurði, er kemur í Háfsósa, rétt fyrir neðan brúna yfir Háfsósa, síðan sá skurður að landmörkum Háfs og Þykkvbæinga og síðan að austan þau landmörk til sjávar.
Landsvæði það sem deilt er um hér er strandlengja, talin 1.089 ha að stærð, sem fram yfir miðbik þessarar aldar hefur að mestu leyti verið nær ógróinn sandur. Er landsvæðið hæst við sjó fram, þar sem myndast hefur fjörukambur, en lækkar síðan inn til landsins, að svokölluðum Háfsósum, en svo hefur Kálfalækur heitið fyrir innan brúna yfir Háfsósa heim að Háfshverfisbæjum. Til margra ára var landsvæði þetta á vori hverju undirorpið vatnavöxtum Þjórsár og Markarfljóts og á veturna var landsvæðið alísa og skóf þá sandinn yfir ísinn, inn á graslendið næst Gljánni. Vegna landgræðslustarfa, fyrst Sandgræðslu Íslands og síðan Landgræðslu ríkisins, allt frá 1928, hefur náðst að hefta sandfokið. Er sá árangur helst því að þakka að svæðið hefur verið friðað, en einnig hefur verið sáð í landið og borið á það, þó að í takmörkuðum mæli hafi verið. Í mars 1997 hafði umrætt svæði tekið miklum stakkaskiptum gróðurfarslega og var víða orðinn samfelldur gróður þar sem raki var til staðar, en annars staðar þakti melgresi landið að mestu, en einnig voru þar melhólar með ógrónu svæði á milli. Vegna strands Vikartinds, varð gróður í Háfsgljánni fyrir verulegum skemmdum að mati stefnenda vegna aðgerða á strandstað, án þess að stefnendur gætu aðhafst nokkuð, þar sem eignatilkall þeirra hafði hvorki verið viðurkennt af yfirvöldum né eigendum jarðanna Hala og Háfshóls. Ekki er ágreiningur um að reki hefur verið nýttur af eigendum Háfshverfisins, en ekki er ágreiningslaust milli málsaðila hver önnur not hafa verið af svæðinu. Virðist þó að hluti svæðisins hafi verið nýttur sem slægjur um skeið og jafnframt hefur verið skorið korn fyrr á árum auk einhverrar beitar.
Stefnendur byggja aðalkröfu sína á, að frá því land var numið, milli Þjórsár og Rangár, hafi hið umdeilda landsvæði tilheyrt landnámsjörðinni Háfi og aldrei verið frá henni skilið. Hafi stefnendur eignast jörðina Háf með gögnum og gæðum skv. fullgildum eignaafsölum og telji því til beins eignarréttar yfir landsvæðinu.
Fyrir aðalkröfu sinni færa stefnendur ennfremur neðangreindar málsástæður:
1) Í lögfestu frá 1874, og landamerkjaskrá frá 1885 fyrir Háfshverfi, sé hið umdeilda svæði innan marka jarðarinnar Háfs. Bæði lögfestan og landamerkjaskráin séu undirrituð af eiganda Háfs og umráðamönnum hjáleigna Háfs. Af þessum gerningum leiði stefnendur rétt sinn. Landamerkjaskráin sé einnig samþykkt af eigendum Fljótshóla og Þykkvabæjarjarða.
2) Að í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segi, að Háfur eigi reka fyrir landi sínu, og í vísitasíugjörð síra Skúla Gíslasonar frá 1884 segi að Háfsfjara tilheyri Háfi.
3) Að Hali og Háfshóll hafi verið hjáleigur Háfs, skv. jarðamatinu frá 1861. Af því leiði, að undir lögfestuna frá 1874 og landamerkjaskrána frá 1885, riti hjáleigubændur, hvað varðar hjáleigurnar Háfshjáleigu, Horn, Hala og Háfshól. Engin gögn hafi fundist þar sem tekið sé fram, að jarðir þessar séu ekki lengur hjáleigur. Sé hjáleiga skiki úr lögbýli, sem hjáleigubóndi fékk til afnota. Hafi þessi staðreynd í för með sér, að stefndu geti ekki með nokkru móti talist eiga land utan landamerkja jarða sinna. Áréttað sé, að allt Háfshverfið hafi upphaflega tilheyrt landnámsjörðinni Háfi. Sé því ómögulegt, að hinar jarðirnar, hjáleigurnar, hafi öðlast rétt til frekara lands en nú hafi sannanlega verið til þeirra skipt.
4) Stefnendur benda á, að í fasteignamati frá 1918 sé tekið fram, að Háfshverfisjarðirnar eigi saman óskipt beitiland. Þar sem land þetta hafi upphaflega verið eign Háfs, hafi slíkt ekki orðið, án þess að samkomulag tækist, milli eigenda Háfs og eigenda annarra jarða, á þann veg að beitilandinu yrði skipt. Engu slíku sé hins vegar til að dreifa varðandi Háfsgljánna og Háfsfjöruna, sem leiði til þess að eigendur höfuðbýlisins Háfs teljist einir eigendur svæðisins.
5) Þá benda stefnendur á, til frekari stuðnings, að þau eignarskilríki sem tilgreind séu fyrir hjáleigunum Hala og Háfshóli, í veðmálabókum Rangárvallasýslu, sýni að eigendur þeirra geti ekki átt nokkurn rétt til þessa svæðis. Lögfestunnar frá 1874 sé getið, sem eignarheimildar hjáleigna. Telja stefnendur að með engu móti verði séð, að nokkrir seinni tíma gerningar hafi breytt stöðu þeirra eða skapað þeim aukinn rétt. Því þurfi stefndu að sanna að jarðir þeirra séu ekki lengur hjáleigur og að jörðunum tilheyri land utan landamerkja þeirra.
6) Stefnendur telja, að stefndu beri sönnunarbyrðina fyrir því, að stefndu séu að einhverju leyti eigendur hins umdeilda svæðis. Stefnendur hafa lagt fram þinglesin skilríki, eignarrétti sínum til grundvallar. Verði stefndu því að sýna fram á með óyggjandi hætti og skjalfestum heimildum, með hvaða hætti eignarréttur þeirra að hinu umdeilda svæði hafi stofnast.
7) Stefnendur benda á, að þó til væru gögn sem sýndu að reka hafi verið skipt í ákveðnum hlutföllum milli jarðanna, sé einungis um að ræða tiltekin hlunnindi, sem geti ekki með nokkru móti verið grundvöllur þess, að stefndu teljist eiga hluta af hinu umdeilda landsvæði, enda hlunnindi ekki bundin beinum eignarrétti.
8) Stefnendur byggja á því að milli þeirra sé skipting landsvæðisins, eins og kemur fram í dómkröfum, að stefnandi Ólafur telji til réttar að þremur fjórðu yfir jörðinni Háfi, en stefnandi Víðir Reyr að fjórðungi. Sé það í samræmi við þau hlutföll, sem verið hafa á milli stefnanda Ólafs og Sigurbjörns Halldórssonar, þegar þeir keyptu jörðina árið 1951. Leiði því stefnendur rétt sinn að hinu umdeilda landsvæði af eignarhaldi sínu að landnámsjörðinni Háfi og hafi til þess lögvarinn rétt að fá staðfestan með dómi beinan eignarrétt að hinu umdeilda landsvæði, samkvæmt þinglýstum skilríkjum. Þannig fáist úr því skorið, hvort stefndu geti leitt rétt sinn til hins umdeilda landsvæðis, samkvæmt eignarhaldi yfir Hala og Háfshóli.
Varakröfu sína styðja stefnendur neðangreindum málsástæðum:
Verði ekki viðurkennt með dómi, að hið umdeilda landsvæði teljist séreign stefnenda, beri að skipta því í þeim hlutföllum, sem komi fram í jarðamatinu frá 1861. Samkvæmt þeirri skiptingu yrði hlutur Háfs og Háfshjáleigu í hinu umdeilda landsvæði 40,74%. Stefnendur telja, að sáttargerðin frá 20. janúar 1932, þegar eigandi Háfshóls keypti afmarkaða landspildu af eiganda Háfs, hafi engu breytt í þessu sambandi. Einnig megi benda á, að árið 1929 hafi beitilandi verið skipt í hlutföllum samkvæmt jarðarmatinu frá 1861 í samræmi við 1. mgr. 2. gr. landskiptalaga.
Að lokum mótmæla stefnendur því viðhorfi, sem kemur fram í bréfum stefndu til sýslumannsins í Rangárvallasýslu, að landinu eigi að skipta þannig milli jarðanna, að Hali fái 1/3, Háfshóll 1/3 og Háfur og Háfshjáleiga sameiginlega 1/3. Benda stefnendur á, að ekki séu til staðar nein gögn, er sýni fram á réttmæti þessarar skiptingar, en um þau atriði beri stefndu sönnunarbyrðina.
Stefndu byggja kröfu sína um sýknu á því, að Háfsgljá og Háfsfjara, að þeim hluta sem kröfugerð stefnenda tekur til, séu í óskiptri sameign Háfshverfisjarða í hlutföllunum einn á móti þremur, þ.e. Háfshóls, Hala og Háfi með Háfshjáleigu. Í öllum skjallegum heimildum sé landi Háfshverfisjarða lýst sameiginlega og því sem hverfinu tilheyrir.
Í sóknarlýsingu sr. Benedikts Eiríkssonar sé Háfshverfisjörðunum sameiginlega lýst, mörkum þeirra og hlunnindum. Í lögfestu frá árinu 1874 sé lýst landamerkjum Háfstorfunnar og undir hana riti eigendur jarðanna. Í beitarbanni frá 1879 sé vísað til fyrrgreindrar lögfestu, sem eigendur og ábúendur Háfshverfisjarðanna hafi gert. Þar hafi eigendur lagt svo til að bann yrði lagt við sauðfjárbeit frá Hólabæjum í Vestur-Landeyjarhreppi í melum, sem Háfshverfisbændur hafi álitið mest arðberandi af öllu því landi sem umræddum jörðum hafi fylgt vegna korns þess sem melarnir gáfu af sér árlega. Undir beitarbannið hafi þáverandi eigendur og ábúendur Háfshverfisins ritað.
Stefndu benda einnig á það, að í landamerkjaskrá frá 1885 fyrir jörðina Háf með Háfshjáleigu, Horni, Hala og Háfshól sé að finna lýsingu á sameiginlegu landi þeirra og tekið skýrt fram að undir hana riti sameigendur og ábúendur Háfstorfunnar. Af landamerkjaskránni megi glögglega ráða að landið hafi verið í sameign jarðanna, sbr. orðalagið “sameigendur og ábúendur Háfstorfunnar“. Í fasteignamati frá 1918 sé þess einnig getið að Háfshverfisjarðirnar eigi óskipt beitiland og að landamerki fyrir allri torfunni séu innfærð í landamerkjabók sýslunnar. Þá sé þess getið að þær eigi allar reka á Háfsfjöru.
Ennfremur benda stefndu á, að á árinu 1922 hafi risið ágreiningur milli eigenda Áss og eigenda Háfstorfunnar. Í útskrift úr dómsmálabók Rangárvallasýslu segi að þriðjudaginn 27. júní 1922 hafi í aukarétti Rangárvallasýslu verið tekið fyrir: “Ágreiningsmál um landamerki Ásfjöru milli eigenda jarðarinnar Áss, annars vegar, og eigenda Háfstorfunnar hins vegar.“ Til réttarins hafi mætt eigendur Háfshverfisjarða. Sátt hafi orðið með aðilum um merkin og hún hafi verið undirrituð af þeim.
Jarðir stefndu hafi við sölu þeirra á sínum tíma, af hálfu eigenda alls Háfshverfisins, orðið sjálfstæðar og fullgildar jarðir með sömu réttarstöðu og jörðin Háfur. Réttarstaða þeirra sem hjáleigna hafi verið bundin því að um væri að ræða leiguábúð frá Háfi. Allt land Háfshverfisjarðanna hafi verið sameign viðkomandi jarða. Í samræmi við það, hafi eigendur jarðanna komið fram sameiginlega þegar ákvarðanir voru teknar er lutu að nýtingu landsins. Síðar hafi verið farið að skipta hinu sameiginlega landi á milli jarðanna. Skiptin á sameiginlegu landi og hlunnindum jarðanna staðfesti hvernig eignarhlutföll hafi verið ákveðin. Við skiptin á beitilandi og engjum með Kálfalæk í Háfshverfi hafi verið farið eftir „forna mati“, þ.e. jarðarmatinu frá 1845 og landinu skipt milli hlutaðeigandi jarða í nefndum hlutföllum, sbr. sáttagerðina frá 20. janúar 1932. Við skiptin á svonefndum Fiskivatnseyrum og hluta af Háfsgljárlandi 25. október 1938 hafi jafnframt verið byggt á sömu hlutföllum. Hlunnindum jarðanna hafi einnig ætíð verið skipt í þrjá jafna hluti. Prestmata 36 kg., sem hafi hvílt á hverfinu, hafi einnig verið skipt með þremur.
Stefndu telja, að þótt jarðir þeirra hafi í jarðabókinni frá 1861 verið nefndar hjáleigur með sama hætti og fjölmargar aðrar jarðir, sem nú séu sjálfstæðar og fullgildar sjálfseignarjarðir, breyti það því ekki að hvergi í síðari tíma gögnum, hvorki í afsölum hlutaðeigandi jarða né fasteignamatsbókum, sé þess getið að jarðir stefndu séu hjáleigur. Öll samskipti eigenda jarðanna, bæði fyrr og síðar, bendi til þess að um sjálfstæðar jarðir sé að ræða, sem eigi sameiginlegt land. Í því sambandi benda stefndu jafnframt á, að eigendur og ábúendur annarra jarða í Háfshverfinu hafi aldrei innt af hendi afgjald til eigenda Háfs.
Stefndu vekja athygli á því, að við skipti sem fram hafi farið, hafi því aldrei verið borið við af hálfu eigenda Háfs að aðrar jarðir í Háfshverfinu væru hjáleigur. Þvert á móti hafi réttur jarðanna til þess lands, sem skipt hafi verið, og þá í hlutföllunum einn á móti þremur, verið viðurkenndur. Þáverandi eigendur Háfs hafi staðið að þessum skiptum og hafi þeir ekki verið í vafa um hvernig eignarhlutföll Háfshverfisjarða voru, bæði hvað varðaði skipt og óskipt land. Fjörulandið, sem er í óskiptri sameign jarðanna, hafi ávallt verið notað sameiginlega. Stefnendur leiði rétt sinn frá fyrri eigendum og geti því ekki öðlast víðtækari rétt en þann, sem þeim hafi verið afsalað. Engin eldri gögn séu til um misklíð milli Háfshverfisjarðanna að því er hið umdeilda landsvæði varðar.
Um varakröfu stefnenda nefna stefndu sérstaklega að með dómssátt, dags. 20. janúar 1932, hafi sameiginlegu landi verið skipt eftir jarðarmatinu frá 1845, „forna mati“, þar sem allt Háfshverfið hafi sameiginlega verið metið 412/3 af hundraði. Hafi landinu verið skipt í hlutföllunum einn á móti þremur. Eigendur jarða í Háfshverfi hafi undirritað sáttina og þar með viðurkennt eignarhlutföll jarðanna í óskiptu landi. Með sátt þessari hafi landskiptum frá 1929 þar sem farið hafi verið eftir jarðarmatinu frá 1861 verið hnekkt. Stefndu telja einnig að síðari skipti hafi verið í samræmi við það samkomulag aðila að miða við 1/3. Við skipti á Fiskivatnseyrum 25. október 1938 hafi sömu hlutföllum verið beitt. Ennfremur hafi hlunnindum ætíð verið skipt með þessum hætti.
Lagarök.
Stefnendur styðja kröfugerð sína við reglur um réttarsamband höfuðbóls og hjáleigna. Einnig vísa stefnendur til réttarreglna um stofnun og vernd eignarréttinda og réttarreglna um áreiðanleika þinglýstra heimilda. Þá vísa stefnendur til 3. ml. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki.
Til grundvallar varakröfu sinni vísa stefnendur til 1. mgr. 2. gr. landskiptalaga nr. 46/1941. Telja stefnendur að sá sem vill skipta á annan hátt en þar er tilgreindur, beri sönnunarbyrðina fyrir því.
Um lagarök vísa stefndu til meginreglna um stofnun eignarréttar og eignarráð fasteignareiganda, 4. mgr. 2. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 og almennra meginreglna um sérstaka sameign.
Kröfu um málskostnað styðja stefnendur við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt styðja stefnendur við ákvæði laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Um málskostnaðarkröfuna sína vísa stefndu til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr.
Niðurstöður.
Stefnendur hafa gert það að höfuðröksemd sinni í máli þessu að landamerki Háfshverfisins séu í raun landamerki landnámsjarðarinnar Háfs. Út úr jörðinni hafi verið byggðar nokkrar hjáleigur, sem sumar hverjar hafi síðar lagst af, en eftir standi hjáleigurnar Háfshóll, Háfshjáleiga, Horn og Hali. Til þessara hjáleigna hafi verið skipt ákveðnu landi þegar þær hættu að vera hjáleigur í þess orðs skilningi og urðu að eignarjörðum. Allt það land innan Háfshverfisins sem ekki hafi þannig verið lagt til hjáleignanna hafi því áfram verið í eign landnámsjarðarinnar Háfs. Telja stefnendur að svo sé háttað með Háfsfjöruna og Háfsgljánna, sem er það svæði sem deilt er um eignarétt að í máli þessu, en um mörk þess svæðis er ekki ágreiningur. Telja stefnendur þannig að það sé eigenda jarðanna Háfshóls og Hala (með Horni) að sanna að þeim tilheyri meira land en hefur sérstaklega verið til þeirra lagt.
Ekki er að fullu ljóst hvenær Háfshóll og Hali (með Horni) hætta að vera hjáleigur og verða sjálfseignarjarðir. Í jarðarmatinu 1802-1804 eru þær skráðar hjáleigur, en jafnframt kemur fram að þær eru sjálfseignarjarðir og þeim tilheyrir réttur til selveiði og reka. Í Sýslu- og sóknarlýsingum hins íslenzka bókmenntafélags sem samdar voru á árunum 1839-1845, 1856 og 1872-1873 fyrir Rangárvallasýslu er skráð lýsing Sr. Benedikts Eiríkssonar á Háfssókn og segir þar:
„Í Háfssókn eru þessir bæir:
|
Háfur |
|
|
|
13 1/3hndr. |
|
Miðhjáleiga |
Miðhjáleiga = Háfshjáleiga er 1/3 af þessum 13 1/3 hndr og Horn eins mikið af Halanum. |
|
Hali |
|
|
|
13 1/3hndr. |
|
Horn |
|
Standa allar á sama hól (í líkingu við háf) við Þjórsá syðst rúma 1 mílu suður-útsuður frá Kálfholti og Háfshóll 13 1/3 hndr., skammt fyrir ofan Háf. Allar þessar jarðir kallast Háfshverfi, voru áður stólseign, hafa rétt góðar engjar, gott haglendi á sumrum í Háfsbót sem fljótt verður undirlögð af snjó og ís á vetrum. Til landkosta þessara jarða má telja melskurð á Háfsfjöru og meltak.“
Þann 26. maí 1874 var þinglýst á manntalsþingi í Þjóðólfshaga lögfestu undirritaðri 23. maí sama ár. Þar lýstu mörkum ábýlisjarðar sinnar Háfs þeir Þorgeir Sigurðsson, óðalsbóndi á Háfi, Bjarni Bjarnason, óðalsbóndi í Háfshjáleigu, Þorkjell Gíslason bóndi á Horni, Þórður Guðmundsson, bóndi á Hala og Jón Brynjólfsson bóndi á Háfshól. Segir í lögfestunni:
„Hérmeð lögfestum við undirskrifaðir ábýlisjörð okkar Háf liggjandi innan Holtamannahrepps og Þjóðólfshaga þingsóknar í Rangárvallasýslu. Landamerki jarðarinnar eru þessi: Að austan þegar staðið er við sjó þá á miðjan Kálfalækjafarveg að jaðra vestan við Kastalabrekku að bera í bæjarnúppinn á Skarðsfjalli. En undirmið eru varða hlaðin við Álptarós í Borgartúnsnesi að bera í aðra vörðu á Fiskivatnseyrum, ræður svo Kálfalækur mörkum uppeftir þángað sem Sandhólaferjuland tekur við fyrir norðan og er það sjónhendíng frá læknum, að Háþúfa í Baggahóli á að bera í Náttmálahnjúk á Hellisheiði beint vestur í Þjórsá. Að vestan ræður Þjórsá til sjáfar, og að sunnan sjáfarströndin til áður sagðra austurmarka. Allt það land sem liggur innan þessara takmarka lögfestum við og friðhelgum fyrirbjóðandi einum og sérhverjum, úngum sem gömlum konum sem köllum húsbændum og hjúum allar landsnytjar og fjörugaungur án okkar leyfis. Við bönnum því öllum óviðkomandi mönnum í þessu okkar ábúðarlandi, alla beit fyrir stærri sem smærri fénað, slátt, silúngsveiði, melrifrildi, torfskurð, kekkjastúngu, rekahirðingu og stángarskurð samt eggjatekju selveiði og skot.“
Samkvæmt þessu verður vart annað séð en að á þessum tíma hafi ábúendur og eigendur jarðanna í Háfshverfi litið svo á að þeir hefðu sameiginlegra hagsmuna að gæta um nytjar í öllu hverfinu og þeir með þessari lögfestu verið að leggja áherslu á þau réttindi sín.
Um beitarbann sem þinglýst var 5 árum síðar gildir það sama. Því banni var beint gegn bændum í Hólahverfi í V-Landeyjum vegna ágangs sauðfénaðar og segir þar m.a.:
„Þareð sauðfénaður frá Hólabæjum í Vestur landeyjahreppi hefir um mörg undanfarin ár gengið, troðið og bitið mela þá sem liggja fyrir Háfslandi í Holtamannahreppi þrátt fyrir árlega bón og bann er við eignar- og ábúendur Háfsjarðanna höfum gjört velnefndum bændum á ofannefndum jörðum í Vestur landeyjahreppi. Þar eð við Háfshverfisbændur álítum áðurnefnda mela mest arðberandi af öllu því landi er tjéðum jörðum fylgir utan, góðan kálgarð sökum korns þess er þeir gefa af sér árlega..“
Árið 1885 var þinglýst á manntalsþingi að Þjóðólfshaga landamerkjum fyrir jörðina Háf með Háfshjáleigu, Horn, Hala og Háfshól. Undir landsmerkjalýsinguna rituðu:
„Sameigendur og ábúendur Háfstorfunnar Þorgeir Sigurðsson, Háfi, Bjarni Bjarnason, Háfshjál, Þórður Guðmundsson, Halann og Hornið, Sesselja Ásgrímsdóttir eigandi að ½ Háfshólnum, Sigurður Ögmundsson eigandi að ½ Háfshólnum.“
Skúli prófastur Gíslason skoðaði þann 15. júlí 1887 kirkjuna að Háfi. Segir m.a. í vístasíugjörð hans:
„Eigninni tilheira heimajörðin Háfur með hjáleigonum, Háfshól, Hala, Horni og Háfshjáleigu“ Þá er rakið hverjir eru eigendur að hinum ýmsu hlutum jarðarinnar og segir síðan „ Eigninni tilheyrir Háfsfjara og á kyrkjan 1/3 af vogrekum sem bera upp á hana. Af eigninni gjelst prestmata 7 fjórðungar sem svarast þannig: Af heimajörðinni 15£, Hala 15£ , Háfshól 24£ , Horni 8£ , og Háfshjál. 8£.“
Í fasteignamati árið 1918 segir svo í athugasemd um Háfshverfisjarðirnar eftir að fjallað hefur verið um hverja jörð.
„Þessar jarðir, 34-38, Háfshverfið, eiga óskipt beitiland. Landsmerki fyrir allri torfunni eru innfærð í Landamerkjabók sýslunnar I,8.“ Síðan fylgir nánari lýsing á landinu en í lokin segir: „Allar eiga þær reka á Háfsfjöru. Selveiði og réttur til silungsveiði. Skógarítak eiga þær í Hraunteigi, en hefur ekki verið notað um langan tíma.“
Í aukarétti Rangárvallasýslu var þann 27. júní 1922 gerð sátt í ágreiningsmáli um landamerki Ásfjöru milli eigenda jarðarinnar Áss annars vegar og eigenda Háfstorfunnar hins vegar. Efni sáttarinnar skiptir í sjálfu sér ekki máli hér, en þarna mættu fyrir dóm sem eigendur Háfstorfunnar;
„Halldór bóndi Halldórsson, Sauðholti og Sigurður bóndi Ögmundsson í Háfshóli sem eigendur þeirrar jarðar. Fyrir Háfinn er mættur Sigfús bóndi Guðnason sama stað og fyrir Háfshjáleigu eigandi og ábúandi Halldór Bjarnason og fyrir Hala og Horn Ingimundur bóndi Jónsson Hala fyrir sjálfan sig og jafnframt fyrir hönd dánarbús Þórðar heit. Guðmundssonar frá Hala. “
Undirrituðu ofantaldir sáttargjörðina sem eigendur Háfstorfunnar. Þarna var verið að fjalla um réttindi á því svæði sem nú er deilt um. Verður vart annað séð en að eigendur Háfshóls, Háfshjáleigu, Hala og Horns hafi þarna komið að sáttinni sem meðeigendur að umræddu landsvæði.
Að ósk Ingimundar Jónssonar, bónda í Hala og Sigurðar Sigurðssonar bónda í Háfshól fóru fram skipti samkvæmt landskiptalögum á beitilöndum og slægjum meðfram Kálfalæk og sunnan við Háfshól, svonefndrar Vatnsskákar. Er skiptagjörðin dagsett 25. júní 1929 og stóðu að henni úttektarmenn Ásahrepps og skipaður oddamaður. Segir svo í skiptagjörðinni:
„En í ljós kom að ýmsar nytjar jarðanna höfðu ekki verið í samræmi við jarðarmat, svo sem reki og engjar en landskiptamenn litu svo á, að það sem nú væri óskipt af sameignarlandinu yrði að skiptast eftir jarðarmati frá 1861, en hlutföll á engjaskiptum, sem nú liggja fyrir, yrðu að haldast.“
Er síðan í skiptagjörðinni nánar greint frá skiptingu landsins, en undir skiptagjörðina rituðu, auk landskiptamannanna eigendur og/eða umboðsmenn allra jarðanna í Háfshverfinu. Skipti þessi taka til hluta af Háfshverfislandi.
Sigurður Sigurðsson bóndi á Háfshóli var ósáttur við þessa skiptingu og þann 18. desember 1931 gaf hann, þá staddur að Efra-Hvoli, út sáttakæru. Í henni er byggt á því að rétt hefði verið við skiptin að fara eftir jarðamatinu frá 1845, hinu svonefnda „forna mati“, en ekki eftir jarðamatinu frá 1861 eins og gert var. Taldi hann að þetta hafi breytt eignarhlutföllum Háfshverfisins og setur hann fram í sáttakærunni mörg atriði sem hann taldi sanna að áður fyrr hafi öll skipti innan torfunnar verið miðuð við að Háfshverfið skiptist í þrjá jafna hluta þannig að Háfshóll teldist vera 1/3 hluti, Háfur og Háfshjáleiga 1/3 hluti og Hali og Horn 1/3. Meðal þess sem hann taldi upp er skiptingin samkvæmt matinu frá 1845, að innnytjar allar svo sem silungsveiði, selveiði, tjáreki, stangartekja og skógarítak í Hraunteig hafi a.m.k. frá 1845 verið skipt með þrem. Þá hafi hleðslukostnaði Djúpóss, kostnaði við Háfskirkju og prestmötu einnig verið skipt í þrennt. Voru kröfur hans að skipti milli eigna á Háfshverfinu verði óbreytt frá því sem áður hafði verið. Sáttafundur var haldinn 20. janúar 1932. Komst þar á sátt milli aðila um tilfærslur á merkjum, Háfshóli til hagsbóta. Samkvæmt sáttargerðinni skyldu eigendur Háfshóls greiða eiganda Háfs 200 krónur.
Landsvæði í austurhluta Háfshverfisins gengur undir nafninu Fiskivatnseyrar. Þann 22 október 1929 afsalaði Benedikt Jónasson 12 nafngreindum Þykkbæingum eign sinni, 1/3 hluta Fiskivatnseyra, sem áður hafði fylgt jörðinni Hala og Horni, eftir nánari lýsingu í kaup- og afsalsbréfi. Engu að síður fóru eiginleg uppskipti á Fiskivatnseyrum ekki fram fyrr en 25. október 1938, en þá skiptu úttektarmenn hreppsins ásamt skipuðum oddamanni, Ásgeiri L. Jónssyni, þessu landsvæði. í þriðjungs hluta þannig að í hlut Háfs og Háfshjáleigu kom 1/3, Háfshóls 1/3 og Hala og Horns (þ.e. Þykkbæingarnir 12) 1/3 . Austasti hlutinn kom í hlut Þykkbæinganna 12, miðhlutinn í hlut Háfs og Háfshjáleigu og vestasti hlutinn í hlut Háfshóls. Í þessu tilfelli var verið að skipta landi sem ekki hafði þá um skeið a.m.k. verið nýtt af ábúendum í Háfshverfinu. Eignarhluta Háfs og Háfshjáleigu í Fiskivatnseyrum var síðan afsalað, þann 30. desember 1951, til þeirra sömu aðila og áður höfðu eignast hluta Hala og Horns.
Eins og rakið hefur verið komu allir bændur og eigendur jarða í Háfshverfi að þeim gerningum sem máli skipta og vörðuðu það landsvæði sem um ræðir. Þá verður ekki annað séð af þeim gögnum sem rakin hafa verið en að þeir hafi allir nýtt fjöruna að því er virðist að jöfnu í hlutföllunum 1/3. Er þá einkum litið til þess hvernig staðið var að sáttargerð um Ásfjöru á árinu 1922, sem hið umdeilda svæði umlykur, en þar komu eigendur allra jarða Háfshverfisins sameiginlega fram gagnvart eigendum Áss. Einnig verður að hafa sérstaklega í huga að þegar Fiskivatnseyrum, sem ekki höfðu verið nytjaðar af Háfshverfisbændum um langt skeið var skipt, komu að þeim skiptum eigendur allra Háfshverfisjarðanna og verður ekki séð að neinn ágreiningur hafi orðið um þá niðurstöðu að skipta því landsvæði í þrjá jafnstóra hluta.
Þegar allt þetta er virt, verður litið svo á að stefndu hafi tekist að færa fullgild rök fyrir því, að landsvæði þau innan marka Háfshverfisins, sem ekki hafa verið lögð til einstakra jarða, hafi verið í óskiptri sameign jarðanna í Háfshverfinu. Í samræmi við þetta verður að sýkna stefndu af aðalkröfu stefnenda í máli þessu.
Varakrafa stefnenda byggir á því að hið umdeilda svæði sé í óskiptri sameign með stefndu og skiptist milli eigenda Háfshverfisjarðanna í þeim hlutföllum er fram komu í jarðarmatinu frá 1861, þannig að Háfi og Háfshjáleigu tilheyri eignaréttur að 40,74% af hinu umdeilda landsvæði
Eins og kröfugerð stefndu er háttað og málið hefur verið lagt fyrir dóminn má telja að varakrafa stefndu um að Háfi og Hafshjáleigu tilheyri aðeins 1/3 hluti hins óskipta lands sem kröfugerð stefnenda nær yfir, rúmist innan kröfugerðar stefnenda. Þykir því rétt að leysa úr ágreiningi aðila að því er varðar eignarhlutdeild í hinu umdeilda landsvæði.
Eins og áður hefur verið rakið fóru landskipti fram í júní 1929. Segir í landskiptagjörðinni: „ landskiptamenn litu svo á, að það sem nú væri óskipt af sameignarlandinu yrði að skiptast eftir jarðarmati frá 1861, “ Eigandi Háfshóls var ekki sáttur við þessi skipti og var gefin út sáttakæra í dessember 1931. Var höfuð krafan samkvæmt þeirri sáttarkæru að landinu yrði skipt eftir jarðarmatinu frá 1845, hinu svokallaða „forna mati“. Breytingar voru gerðar á skiptunum og greiddi eigandi Háfshóls 200 krónur til þess að ná fram sáttinni.
Gögn málsins bera það með sér að þrætulandið og nytjar þess hafi skipst í samræmi við hið forna mat, eða í hlutföllunum 1/3, enda var miðað við það hlutfall við skipti á Fiskivatnseyrum í október 1938. Verður því 1. mgr. 2. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 ekki lögð til grundvallar við úrlausn þessa máls. Samkvæmt því verður einungis fallist á það að stefnendur eigi sameiginlega 1/3 hluta af því landi sem kröfugerð þeirra tekur yfir svo sem það svæði er skilgreint í stefnu og nánar greinir í dómsorði.
Í samræmi við ákvæði 1. mgr. 130. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála ber að ákveða að stefnendur greiði in solidum stefndu málskostað 350.000. krónur. Hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefndu að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Á sama hátt ber stefnendum in solidum að greiða þeim réttargæslustefndu sem létu sig málið varða 40.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefndu að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Dómur þessi er kveðinn upp af Kristjáni Torfasyni dómstjóra ásamt meðdómendunum, héraðsdómununum Eggerti Óskarssyni og Ólafi Berki Þorvaldssyni. Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna anna dómara og sumarleyfa. Lögmenn málsaðila hafa skriflega lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi málsins og eru dómendur sama sinnis.
Dómsorð:
Stefndu, Jón V. Karlsson, Sigurjón Sigurðsson og Kristrún Sigurðardóttir eru sýknuð af aðalkröfu stefnenda Ólafs Þórarinssonar og Víðis Reyrs Þórssonar í máli þessu.
Viðurkenndur er eignarréttur stefnenda að hinu umdeilda landsvæði, þannig að Háfi og Háfshjáleigu tilheyri í óskiptri sameign með Hala og Háfshóli 1/3 hluti þess landsvæðis innan Djúpárhrepps, Rangárvallasýslu, sem auðkennt er á meðfylgjandi uppdrætti og nefnt hefur verið Háfsgljá og Háfsfjara, þannig hnitmerkt: Frá punktinum 101 (x-633229,9/y-362469,7) að punktinum 102 (x-631400,2/y-364322,4), frá þeim punkti að punktinum 103 (x-631902,3/y-364603,9), frá þeim punkti að punktinum 104 (x-632252,6/y-365017,1), frá þeim punkti að punktinum 105 (x-632264,7/y-365403,0), frá þeim punkti að punktinum 106 (x-635848,9/y-366423,5), frá þeim punkti að punktinum 107 (x-636232,1/y-366075,1), frá þeim punkti fjöruborð Þjórsár að punktinum 108 (x-637918,5/y-366257,1), frá þeim punkti að punktinum 109 (x-637886,0/y-366077,9), en þaðan sjávarborð að punktinum 110 (x-634974,4/y-363950,8), frá þeim punkti að punktinum 111 (x-634927,9/y-364041,6), frá þeim punkti að punktinum 112 (x-633831,7/y-363060,8), frá þeim punkti að punktinum 113 (x-633857,7/y-363001,4) og þaðan sjávarborð að punktinum 101.
Stefnendur greiði in solidum stefndu 350.000 krónur í málskostnað.
Stefnendur greiði in solidum réttargæslustefndu, Sigþóri Jónssyni, Eydísi Indriðadóttur, Guðmundi Haukssyni, Hermanni, Guðrúnu Ingveldi og Jóni Hauki Guðjónsbörnum 40.000 krónur í málskostnað.