Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-85

A (Stefán Ólafsson lögmaður)
gegn
B (Guðbjarni Eggertsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Börn
  • Innsetningargerð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 23. júní 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 5. mgr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 16. júní 2023 í máli nr. 584/2022: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að barn aðila verði tekið úr umráðum gagnaðila með beinni aðfarargerð og afhent sér.

4. Með úrskurði héraðsdóms var kröfu leyfisbeiðanda hafnað. Með úrskurði Landsréttar 25. október 2022 var krafa leyfisbeiðanda tekin til greina. Hæstiréttur ómerkti þann úrskurð með dómi 25. janúar 2023 í máli nr. 58/2022 og vísaði málinu til Landsréttar til meðferðar að nýju. Við nýja meðferð málsins í Landsrétti var aflað mats sérfróðs manns á tengslum aðila við barnið og hver áhrif það kynni að hafa á andlega og líkamlega líðan þess og hvort því yrði á annan hátt komið í óbærilega stöðu ef fallist yrði á kröfu um innsetningu og gagnaðila væri ekki fært að fylgja barninu til heimalands leyfisbeiðanda. Matsgerð lá fyrir 13. apríl 2023. Við munnlegan flutning málsins var því lýst yfir af hálfu leyfisbeiðanda að ekki væru gerðar athugasemdir við niðurstöðu matsgerðarinnar.

5. Með úrskurði Landsréttar 16. júní 2023 var úrskurður héraðsdóms staðfestur um að hafna kröfu leyfisbeiðanda. Landsréttur féllst á að gagnaðili héldi barni aðila með ólögmætum hætti hér á landi í skilningi 11. gr. laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Hins vegar væri barnið ungt og af gögnum málsins mætti ráða að erfitt yrði fyrir gagnaðila að fylgja því til heimalands leyfisbeiðanda. Þegar horft væri heildstætt á þau gögn sem lægju fyrir í málinu, einkum matsgerð dómkvadds manns og takmarkaða möguleika gagnaðila til að fylgja barninu sem og lítilla tengsla föður og fjölskyldu hans við barnið, yrði að fallast á það með gagnaðila að alvarleg hætta væri á því að afhending myndi skaða barnið andlega og líkamlega eða koma því á annan hátt í óbærilega stöðu, sbr. 2. tölulið 12. gr. laga nr. 160/1995.

6. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefni málsins hafi verulegt fordæmisgildi sem og grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Jafnframt byggir hann á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng. Hann telur nauðsynlegt að Hæstiréttur fjalli um hvort skilyrði 11. gr. laga nr. 160/1995 séu uppfyllt. Með niðurstöðu hins kærða úrskurðar sé gengið lengra en áður þekkist í íslenskri dómaframkvæmd um að hafna afhendingu barns á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laganna. Þá hafi Mannréttindadómstóll Evrópu ekki gengið jafn langt í sínum niðurstöðum um sambærileg álitaefni og gert er í úrskurði Landsréttar.

7. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess geti haft slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur. Enda þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda og barns hans háttar svo almennt til í málum sem lúta að málefnum barna. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.