Hæstiréttur íslands
Mál nr. 177/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Sjálfræði
|
|
Þriðjudaginn 23. mars 2010. |
|
Nr. 177/2010. |
A (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) gegn B (enginn) |
Kærumál. Sjálfræði.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði á grundvelli a. liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2010, þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila sviptur sjálfræði í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði segir.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur þannig að sjálfræðissviptingin telst frá 11. mars 2010.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 188.250 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2010.
Með beiðni, dagsettri 26. febrúar sl., hefur B, kt. [...], [...], [...], krafist þess að sonur hennar, A, kt. [...], verði sviptur sjálfræði í 12 til 18 mánuði á grundvelli a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. 1. mgr. 5. gr. sömu laga. Við meðferð málsins fyrir dómi óskaði talsmaður sóknaraðila eftir því að breyta kröfunni þannig að varnaraðili yrði sviptur sjálfræði í 12 mánuði á grundvelli framangreindra lagaákvæða.
Varnaraðili mótmælir kröfunni, en krefst þess til vara að sviptingu sjálfræðis verði markaður skemmri tími.
Í vottorði Þórðar Sigmundssonar geðlæknis, dagsettu 25. febrúar sl., kemur fram að varnaraðili hafi lengi átt við geðsjúkdóm að stríða og sé óvinnufær af þeim sökum. Frá 1986 hafi hann ítrekað dvalist á geðdeild Landspítala og notið geðrofslyfjameðferðar. Árið 2009 hafi hann óskað eftir að lyfjameðferð yrði hætt. Hafi sprautumeðferð þá verið hætt, en reynt að fá varnaraðila til að taka lyfið í töflum. Meðferðarheldni hafi ekki verið góð. Í október 2009 hafi varnaraðili veikst með bráðum geðrofseinkennum og verið færður af lögreglu á geðdeild, þar sem hann hafi verið vistaður nauðugur í kjölfarið. Hafi varnaraðili náð ágætu jafnvægi á meðan á nauðungarvistun stóð, en geðrofseinkenni þó ekki horfið með öllu. Hafi nauðungarvistun verið aflétt á þriðju viku, en varnaraðili þá útskrifast af geðdeild gegn læknisráði. Hafi heilsu hans hrakað mjög eftir þetta. Varnaraðili hafi verið farinn að haga sér undarlega og nágrannar haft af honum áhyggjur. M.a. hafi hann kveikt eld á svölum fjölbýlishúss þar sem hann býr. Þann 9. febrúar sl. hafi lögregla verið kölluð til og varnaraðili færður á geðdeild. Við komu á geðdeild hafi varnaraðili verið mjög æstur, órólegur og ógnandi. Hafi dómsmálaráðuneytið samþykkt beiðni aðstandenda hans um 21 dags nauðungarvistun. Á meðan á nauðungarvistun stóð hafi varnaraðili þegið geðrofslyf í forðasprautum, en sé ekki enn farinn að svara meðferð. Hann hafi ekki sjúkdómsinnsæi og sé ekki til neinnar samvinnu. Hann hafi ranghugmyndir, sé órólegur og ógnandi og hafi valdið spjöllum á eignum sjúkrahússins. Varnaraðili sé með bráðaeinkenni geðklofa og þarfnist meðferðar og innlagnar á geðdeild. Óhjákvæmilegt sé að svipta varnaraðila sjálfræði svo að unnt verði að koma við viðeigandi meðferð.
Þórður Sigmundsson kom fyrir dóminn sem vitni og áréttaði álit sitt að þessu leyti. Sagðist vitnið telja að nægjanlegt myndi vera að svipta varnaraðila sjálfræði í 12 mánuði til að ná þeim árangri sem að framan er lýst. Varnaraðili þjáist af geðklofa og þurfi á lyfjameðferð að halda. Hann svari lyfjameðferð mjög vel. Hann hafi hins vegar ekki verið til samvinnu um að sækja lyfjameðferð. Varnaraðila skorti sjúkdómsinnsæi. Nauðsynlegt sé að svipta varnaraðila sjálfræði í því skyni að færa megi hann á sjúkrahús á tveggja til fjögurra vikna fresti til lyfjagjafar.
Varnaraðili tjáði sig fyrir dóminum. Var á honum að skilja að hann teldi lyfjagjöf ekki gagnast til lækninga á sjúkdómi sínum.
Niðurstaða.
Af framangreindu vottorði Þórðar Sigmundssonar geðlæknis, vætti sérfræðingsins fyrir dómi og framburði varnaraðila, er sýnt fram á það að varnaraðili er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi, sem hann fáist ekki til að þiggja læknishjálp við og sé þannig ófær um að ráða persónulegum högum sínum, sbr. a-lið 4. gr. lögræðislaga. Ber að svipta hann sjálfræði tímabundið í 12 mánuði.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga skal greiða úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., og skipaðs verjanda, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 75.000 krónur til hvors um sig að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ragnheiður Harðardóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í 12 mánuði.
Þóknun talsmanns sóknaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., og skipaðs verjanda, Brynjólfs Eyvindssonar hrl., 75.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.