Hæstiréttur íslands
Mál nr. 129/2000
Lykilorð
- Skilorð
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn 28. september 2000. |
|
Nr. 129/2000: |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Völundi Helga Þorbjörnssyni (Ólafur Sigurgeirsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð.
V var ákærður fyrir líkamsárás. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu staðfest og V dæmdur til fangelsisrefsingar, sem var að hluta til skilorðsbundin.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. febrúar 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Völundur Helgi Þorbjörnsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 1999.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 31. ágúst sl. á hendur ákærða, Völundi Helga Þorbjörnssyni, kt. 110572-5739, Suðurgötu 57, Hafnarfirði, "fyrir líkamsárás með því að hafa, laugardaginn 31. október 1998 í félagi við óþekktan aðila ráðist á Lisu Victoriu Michelle Zenobiu Cobon, kt. 190174-2399, á heimili hennar að Freyjugötu 24, Reykjavík, handjárnað hana með hendur hennar fyrir aftan bak og hrist hana til og ákærði Völundur Helgi því næst þröngvað henni upp að vegg, tekið hana kverkataki, veitt henni raflost með rafloststæki á háls hennar og vinstri mjöðm og veitt henni högg aftan á háls, með þeim afleiðingum að Lisa Victoria Michelle Zenobia hlaut skrámur framan á hálsi vinstra megin og far þar eins og eftir fingur, klórsár neðst í mjóbaki vinstra megin, skrámur á báðum úlnliðum sem samsvara notkun handjárna og skrámur efst á baki.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 110. gr. laga nr. 82, 1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar."
Málavextir
Miðvikudaginn 4. nóvember í fyrra kom til lögreglunnar í Reykjavík Lisa Victoria Zenobia Cobon, kt. 190174-2399, þá dveljandi á gistiheimilinu, Freyjugötu 24 hér í borg. Kærði hún yfir því að tveir menn hefðu ruðst inn til hennar og ráðist á hana og veitt henni rafmagnshögg með þar til gerðu tæki, handjárnað hana, hrist og hrakið og beitt hana ógnunum. Hefðu þeir þannig viljað neyða hana til þess að afhenda þeim lykil að skemmtistaðnum Óðali sem hún hefði haldið til tryggingar fyrir launum sem hún ætti inni þar. Hefði hún að lokum afhent þeim lykilinn gegn því að annar þeirra skrifaði á miða viðurkenningu fyrir því að skemmtistaðurinn skuldaði henni 25.000 krónur. Það sem á honum stendur er á ensku og virðist hann vera undirritaður með nafninu “Harvar”. Konan hafði miða þennan meðferðis og afhenti lögreglunni. Fram kom að hún hafði leitað til slysadeildar strax eftir atburðinn og er vottorð um áverka á henni meðal gagna málsins. Konan kvaðst kannast við annan manninn og væri hann dyravörður á Óðali en hinn manninn þekkti hún ekki. Þegar þetta gerðist hefði verið staddur piltur sem hún þekkti, Sírnir Hallgrímur Einarsson, kt. 160675-3499. Í vottorði Curtis P. Snook, eins af læknum deildarinnar, segir að á hálsi konunnar hafi verið merki eins og gripið hefði verið um háls hennar; skrámur á húð vinstra megin og far sem gæti verið eftir fingur á manni. Neðst á mjóhrygg vinstra megin hafi verið klórsár rétt eins og vír hefði komið við hana. Þá hafi hún verið skrámuð um úlnliðina sem vel hefði getað samsvarað því að konan hefði verið handjárnuð. Þá hafi verið skrámur efst á baki hennar. Lisa Victoria benti á ákærða úr myndasafni lögreglunnar og það sama gerði Sírnir Hallgrímur. Vegna þess sem fram kemur hér á eftir ber að geta þess að meðal gagna málsins er ársskýrsla Kraftlyftingasambands Íslands fyrir síðasta ár. Kemur þar fram að svonefnt Jötnamót í bekkpressu var haldið í sal Karatefélags Kópavogs “24. 31. október.” Þar eru nafngreindir þrír keppendur, þ. á m. Karl Sædal og Gunnar Ólafsson og enn fremur eru þrír dómarar á mótinu nafngreindir. Aðrir eru ekki nefndir í sambandi við þetta mót.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið við meðferð málsins fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Hann hefur sagt að hann hafi ekki farið heim til stúlkunnar heldur hafi einn af starfsmönnum hans farið til þess að sækja lykil til hennar en hann hafi sjálfur ekki haft nein frekari afskipti af því. Annað hvort þeirra Ingibjargar eða Garðars, vinnuveitendur hans, hafi beðið hann um að sækja lykla til Lisu Victoriu annað hvort þennan dag sem um ræðir í málinu eða daginn á undan. Hann hafi svarað því að hann væri mjög upptekinn og beðið þau um að fá einhvern annan til þess. Þegar þetta gerðist hafi hann verið að halda “bekkpressumót” í kraftlyftingum í íþróttahúsi Digraness í Kópavogi og því verið fjarri vettvanginum. Kveðst hann hafa sent einhvern af starfsmönnum sínum en hann muni ekki hvern. Minnir hann að starfsmaðurinn hafi fært honum lyklana og hann svo sjálfur farið með þá niður á Óðal. Á þessum tíma hafi unnið um 7-8 starfsmenn á hans vegum á Óðali og eins segist ákærði hafa haft aðra 60 starfsmenn annars staðar. Segist hann ekki muna hvern af öllum þessum starfsmönnum hann hafi fengið til þess að sækja lyklana til stúlkunnar. Segist ákærði reka dyravörslufyrirtæki sem heiti Magnum Security. Hann segir stúlkuna hafa unnið stuttan tíma á Óðali þó hann muni ekki nákvæmlega hve lengi. Þegar honum er sýndur miðinn sem fyrr er nefndur kannast hann við að hafa skrifað það sem á honum stendur. Kveðst hann telja að þetta geti verið uppgjörsmiði fyrir eitt kvöld. Ákærði neitaði því þegar hann var yfirheyrður hjá lögreglunni 30. nóvember í fyrra að hann hefði gefið stúlkunni skuldaviðurkenningu fyrir launum hennar hjá Óðali og neitaði því að kannast við miðann. Hann ber því nú við að hann hafi misskilið lögregluna þegar hann var spurður út í miðann. Einnig segir hann að ekki sé rétt eftir honum haft í lögregluskýrslunni en kannast við að hafa skrifað undir hana. Um miðann segir hann nánar aðspurður að þar geti verið um að ræða eins kvölds laun fyrir nektardans en eins geti þetta verið tveggja vikna laun fyrir störf á barnum. Kveðst hann ekki muna hvaða störf stúlkan hafði þarna. Vinni hann með fleiri hundruð manns á ári og reki fleiri en einn skemmtistað. Ákærði segist hafa séð um dyravörslu á Óðali. Þá sjái hann um öryggisvörslu í húsi þar sem nektardansmeyjarnar búi. Segir ákærði þessa gæslu vera nauðsynlega. Stúlkurnar skrifi undir samning um það að þær dvelji í húsinu að næturlagi og fari ekki þaðan út og sé gæslunni ætlað að tryggja að samningnum sé framfylgt. Sé það í höndum eins næturvarðar. Þá sé gestum meinað að heimsækja stúlkurnar. Ákærði segist sjálfur ráða alla starfsmenn sína, þ.e.a.s. dyraverði og öryggisgæslumenn. Sé dansfólk og barmenn almennt ekki ráðið af sér heldur af eigendum húsanna. Í lögregluskýrslunni er haft eftir ákærða að hann hafi rekið Lisu Victoriu vegna þess hve lélegur starfsmaður hún hafi reynst. Segir hann nú til skýringar þessu að hann hafi stundum tekið að sér fyrir aðra að segja upp fólki sem þeir hefðu ráðið til starfa.
Vitnið, Lisa Victoria Michelle Zenobia Cobon, hefur skýrt frá því að hún hafi unnið tímabundið við ræstingar á Óðali. Hefði maður að nafni Guðjón, sem þarna sá um ræstingarnar, ráðið hana til að vinna störfin í sinn stað á meðan hann var í leyfi og skyldi hann greiða henni launin. Þeir sem hún vann fyrir hafi hins vegar ekki kunnað að meta störf hennar og sagt henni að hún yrði að vinna þann hálfa mánuð sem hún var ráðin til og fengi hún ekki greidd laun fyrir það. Henni hafi mislíkað þetta og talið þetta ranglátt og farið heim. Á leiðinni hafi hún tekið eftir því að hún var enn með lykilinn að húsinu og ákveðið að skila honum ekki fyrr en hún hefði fengið launin greidd sem hún taldi sig eiga rétt á. Skömmu eftir að hún kom heim hafi maður að nafni Gísli hringt í hana og sagt að Garðar, eigandi Óðals, hefði hringt í sig og óskað eftir að fá lykilinn. Segist hún hafa sagt Gísla að hún myndi halda lyklinum þar til hún hefði fengið launin sín greidd. Muni Gísli hafa hringt í Garðar og skilað þessu til hans því að hann hringdi aftur í hana og sagði að Garðar ætlaði að senda nokkra náunga til hennar að sækja lykilinn. Segist hún hafa orðið hrædd en Gísli sagt henni að ekkert myndi gerast, enda gætu þeir ekkert gert henni. Þar sem hún hafi verið ein í húsinu hafi hún hringt í Sírni Hallgrím og beðið hann um að koma til hennar. Nokkrum mínútum eftir að Sírnir Hallgrímur kom til hennar var dyrabjöllunni hringt og fyrir utan stóðu tveir menn frá Magnum öryggisfyrirtækinu og var annar þeirra ákærði sem hún ber kennsl á í réttarsalnum. Hinn maðurinn hafi verið mjósleginn og virst vera í einhvers konar vímu. Hún kveðst hafa beðið þá um að koma ekki inn en þeir hafi þröngvað sér inn og verið ógnandi í framkomu. Hafi hún sagt við þá að þetta snérist aðeins um 23.000 krónur sem Garðar ætti að borga henni og kæmi þeim þetta ekki við. Mennirnir hafi verið með frekari ógnanir og ákærði loks tekið handjárn og handjárnað hana, þrýst henni upp að veggnum og tekið hana kverkataki. Mjóslegni maðurinn hafi ekki gert svo mikið heldur staðið við hlið ákærða og stutt hann í þessu og skoðað í skúffur í eldhúsinu, líklega til þess að leita að lyklinum. Sírnir Hallgrímur hafi komið fram úr herberginu sem hann hafði verið í og reynt að róa mennina niður. Þeir hafi sagt við hann að ef hann skipti sér af þessu myndu þeir meiða hana meira. Eins hafi þeir reynt að fá Sírni Hallgrím til að tala hana til. Síðan hafi þeir lokað hann inni í herbergi og byrjað að nota raflosttæki á hana, tvisvar sinnum eða ríflega það. Þegar þeir hafi ætlað að setja þetta á hrygginn á henni í mænustað segist hún hafa spurt annan mannanna hvort hann vildi ekki skrifa viðurkenningu um það að hún fengi launin sín greidd. Hann hafi þá skrifað á dálítinn gulan miða og undirskrifað öðru nafni en sínu eigin. Hún hafi svo farið upp í herbergið sitt og mennirnir á eftir, tekið lykilinn og afhent þeim. Heimsókn mannanna hafi varað í á að giska 25 mínútur. Þau Sírnir Hallgrímur hafi farið á slysadeild og látið líta á áverkana á henni um tvöleytið og hafi þá verið liðinn um hálftími frá heimsókn mannanna. Hún kveðst nú búa með Sírni Hallgrími en á þessum tíma hafi þau verið nýbúin að kynnast.
Sírnir Hallgrímur Einarsson hefur skýrt frá því að hann hafi farið til Lisu Victoriu og setið hjá henni eftir að hún hafði hringt í hann og beðið hann að koma. Hefði hún sagt að hún óttaðist það að henni yrði gerð heimsókn sem hún hefði beyg af. Þá hafi verið knúið dyra og stúlkan farið fram en hann setið eftir í herbergi þarna inn af. Hafi hann heyrt að stúlkan bannaði einhverjum að koma inn og hann þá farið fram og séð þar tvo menn. Segist hann ekki hafa séð þessa menn áður en annan þeirra hafi hann séð síðan og sé það ákærði. Hafi ákærði haldið stúlkunni í tökum upp við vegg þannig að hendur hennar voru fyrir aftan bak, og hún stóð þétt upp að veggnum. Hafi sá sem hélt henni þrýst henni upp að veggnum en seinna hafi hann séð að hún var í handjárnum. Kveðst hann hafa vitað að þetta snérist um lykil sem stúlkan hafði á sér og neitaði að skila. Segist hann hafa lagt til við stúlkuna að hún skilaði lyklinum til þess að komast hjá frekari vandræðum. Hafi hann fengið að tala einslega við hana inni á salerni og reynt að tala um fyrir henni en hún hafi ekki viljað skila lyklinum. Næst hafi það gerst að hann hafi verið látinn fara inn í herbergið þar sem hann hafði setið áður og verið bannað að koma fram. Hafi verið lokað á milli en hann hafi þó heyrt að einhver átök voru þarna frammi. Þegar þeim lauk hafi verið gengið upp stigann og upp í herbergi stúlkunnar. Í sömu andrá hafi hinn maðurinn lokið upp herberginu þar sem vitnið beið og stungið handjárnum í innanávasa. Stúlkan og ákærði hafi svo komið niður og þeir farið með lykilinn. Munu þessir atburðir hafa gerst seinni part dags, líklega á milli kl. 14 og 15.
Vitnið, Gísli Þráinsson, hefur skýrt frá því að á þeim tíma sem máli skiptir hafi verið húsvörður á Freyjugötu 24 og einnig verið plötusnúður á Óðali. Gististaður þessi sé ekki tengdur Óðali en aftur á móti hafi einhverjir dansarar þaðan gist þarna. Hafi eigandi Óðals, Garðar, hringt á Freyjugötuna og beðið sig að fara til Lisu Victoriu og sækja til hennar lykil sem hún hefði ekki skilað. Segist hann þá hafa farið upp á herbergi til hennar og beðið hana um að afhenda sér lykilinn en hún neitað og sagst ekki mundu afhenda hann fyrr en hún fengi launin sín. Segist hann þá hafa farið út úr húsinu og hringt í Garðar úr farsíma sínum og sagt honum málalyktir, og að þetta mál væri á milli þeirra Garðars og stúlkunnar. Minnir hann að Garðar hafi þá sagt að hann ætlaði að senda einhvern til að ná í lykilinn. Segist hann hafa beðið Garðar um að sjá til þess að það yrði ekkert „vesen” og Garðar sagt að þetta yrði allt í rólegheitunum. Myndi hann senda mann til þess eins að tala við hana. Hann segist hafa farið frá en komið svo aftur á Freyjugötuna nokkru seinna og stúlkan þá verið þarna grátandi ásamt kærasta sínum. Hafi þau sagt sér að dyraverðir af Óðali, sem þau sögðu ekki deili á, hefðu komið þarna og handjárnað hana og annað hvort ógnað henni með rafmagnstæki eða notað það á hana en kærastanum verið haldið inni í herbergi á meðan. Hann segist ekki muna hvoru megin hádegisins þetta hafi gerst. Vitnið segir þau tvö ekki hafa sagt nein deili á dyravörðunum.
Garðar Kjartansson, sem rak skemmtistaðinn Óðal á þeim tíma sem hér skiptir máli, hefur skýrt frá því að Lisa Victoria hafi leyst af mann við ræstingar að nafni Guðjón. Hafi hún ekki verið á launaskrá veitingastaðarins heldur átt að þiggja laun hjá Guðjóni. Stúlkan hafi ekki mætt í tvö skipti til þess að ræsta og í þriðja skiptið þegar það gerðist hafi verið hringt í hana og hún kölluð á staðinn. Taldi hann að hún ætlaði þá að þrífa en hún hafi horfið á brott með húslykil. Kveðst hann hafa hringt í hana og beðið hana um að skila lyklinum en hún hafi neitað að gera það fyrr en hún fengi launin sín. Segist vitnið hafa sagt henni að hann hefði ekkert með launin að gera, hún yrði að tala við Guðjón um þau. Segist hann svo hafa beðið ákærða um að sækja lykilinn. Ekki muni hann hvort ákærði var þarna staddur eða hvort hann þurfti að hringja í hann. Hafi ákærði eða einhver annar fyrir hann farið og sótt lykilinn og honum verið skilað. Segist hann ekki minnast þess að ákærði bæðist undan þessari ferð vegna tímaskorts. Hann kveður ákærða hafa séð um dyravörsluna í Óðali sem verktaki. Hafi hann ekki komið nálægt öðrum mannaráðningum en dyravarðanna og ekki sagt öðrum upp. Segist hann ekki vita til þess að ákærða hafi verið falið að segja stúlkunni upp enda hafi hún ekki verið ráðin hjá húsinu.
Sambýliskona Garðars, Ingibjörg Örlygsdóttir, hefur skýrt frá því að Guðjón sem þarna vann við ræstingar hafi ráðið Lisu Victoriu í ræstingar í afleysingum í viku eða 10 daga meðan hann var í leyfi. Hafi hún ekki unnið önnur störf þarna. Stúlkan hafi hins vegar ekki staðið í stykkinu og aðeins mætt í tvö skipti og segist hún hafa þurft að hringja í hana til að fá hana til að koma og vinna verkin. Hafi stúlkan komið en svo farið aftur eftir 5 mínútur eða svo og verið með lykilinn. Launamál stúlkunnar hafi verið þeim óviðkomandi því hún hafi átt að taka við launum úr hendi Guðjóns. Garðar hafi þá hringt í hana og beðið hana um að skila lyklinum. Svo hafi hann hringt í ákærða og beðið hann að sækja lykilinn. Hafi þetta verið einhvern tíma eftir hádegi en ekki man vitnið hvað klukkan var. Hafi ákærði skilað lyklinum til Garðars sama dag. Ákærði hafi verið dyravörður í húsinu og haft aðra dyraverði á sínum snærum. Hafi hann ekki neitt haft með starfsmannamál hússins að gera önnur en dyravarðanna.
Gunnar Ólafsson hefur skýrt frá því að hann hafi verið keppandi á bekkpressumótinu á Digranesi þann dag sem um ræðir. Muni mótið hafa byrjað um klukkan 14 en hann hafi verið kominn á staðinn u.þ.b. hálftíma fyrr. Hafi ákærði verið þar fyrir. Kveðst hann hafa farið úr húsinu á milli kl. 17 og 17.30. Hann segist ekki vita annað en ákærði hafi verið allan tímann þarna á staðnum. Hann hafi að vísu ekki haft hann fyrir augunum allan tímann en hann viti ekki annað. Keppendur hafi verið þrír eða fjórir
Vitnið, Karl Sædal, hefur skýrt frá því að hann hafi verið þátttakandi í bekkpressumótinu í Kópavogi og segir hann að ákærði hafi verið mótshaldari. Mótið hafi átt að byrja kl. 14 og hafi hann sjálfur komið í húsið um það leyti. Ákærði hafi þá verið kominn og hafi hann verið þarna þann tíma sem hann var þarna sjálfur. Kveðst hann hafa farið af staðnum á milli kl. 17 og 18 og hafi þá verið eftir að ganga frá. Hann muni ekki annað en ákærði hafi verið þarna allan þennan tíma og telur hann að menn hefðu orðið varir við ef hann hefði brugðið sér frá því þetta hafi allt hvílt meira og minna á honum.
Vitnið, Dæja Björk Kjartansdóttir, hefur skýrt frá því að hún hafi verið ritari á umræddu bekkpressumóti í Kópavogi og skráð keppnisskýrslur. Hafi hún komið í húsið um kl. 14 og farið um kl. 18. Ákærði hafi verið kominn í húsið þegar hún kom og var hann eftir þegar hún fór. Hafi hann verið allan tímann sem hún dvaldist þarna og geti hún fullyrt það því hann hafi verið fyrir augum hennar allan tímann. Hún kveðst vera áhugamanneskja um lyftingar og þekkja til margra lyftingamanna, þ.á m. ákærða.
Niðurstaða
Ákærði hefur neitað sök frá upphafi. Aftur á móti hefur framburður hans ekki verið stöðugur. Hefur hann verið um sumt ótrúverðugur í sjálfu sér og er t. d. ekki að öllu leyti í samræmi við það sem eigendur Óðals, þau Garðar og Ingibjörg, bera í málinu. Þá er þess að gæta að ákærði falsaði nafn á miðann sem er í málinu og þykir það einnig veikja frásögn hans mjög. Þau vitni sem hafa borið að hann hafi verið á lyftingamótinu í Kópavogi geta ekki talist óvilhöll og framganga eins þeirra fyrir dómi, Dæju Bjarkar, var einurðarlaus og ekki að öllu leyti traustvekjandi. Skýrsla kraftlyftingasambandsins styrkir heldur ekki frásögn ákærða. Á hinn bóginn hafa þau Lisa Victoria og Sírnir Hallgrímur verið staðföst í framburði sínum um að ákærði hafi komið til hennar á Freyjugötu 24 í umrætt sinn. Ber að leggja til grundvallar frásögn stúlkunnar um ofbeldi og áverka ákærða við hana enda fær hún stuðning af læknisvottorðinu og vætti þeirra Gísla og Sírnis Hallgríms. Hefur ákærði orðið sekur um líkamsárás með þeim hætti sem lýst er í ákærunni og brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing og sakarkostnaður
Ákærði á að baki nokkurn sakferil. Í október 1996 var hann dæmdur í sekt fyrir líkamsárás og brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Þá var hann sektaður og sviptur ökurétti fyrir umferðarlagabrot í maí 1998. Í febrúar á þessu ári var hann dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir tollalaga- og umferðarlagabrot og sviptur ökurétti. Var sá dómur staðfestur í Hæstarétti í sumar. Loks var hann sakfelldur fyrir lögreglusamþykktarbrot í mars, en þó ekki gerð sérstök refsing. Refsingu ákærða nú verður að tiltaka sem hegningarauka og ber að dæma upp skilorðsdóminn og gera ákærða refsingu í einu lagi. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði. Rétt þykir að fresta framkvæmd tveggja mánaða af refsingunni og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns, Ólafs Sigurgeirssonar hrl., 45.000 krónur.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Völundur Helgi Þorbjörnsson, sæti fangelsi í 3 mánuði. Frestað er framkvæmd tveggja mánaða af refsingunni og fellur hún niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns, Ólafs Sigurgeirssonar hrl., 45.000 krónur.