Hæstiréttur íslands

Mál nr. 709/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


                                     

Mánudaginn 10. desember 2012.

Nr. 709/2012.

Ásabraut 31 ehf.

(Gunnar Örn Haraldsson fyrirsvarsmaður)

gegn

sýslumanninum í Reykjavík

(enginn)

Kærumál. Nauðungarsala. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá kröfu Á ehf. um ógildingu nauðungarsölu fasteignar. Í hinum kærða úrskurði var á því byggt að hvorki hefði verið skráð í gerðabók sýslumanns að Á ehf. vildi bera tiltekna ákvörðun sýslumanns undir héraðsdóms né hvaða kröfur félagið hygðist gera fyrir dómi eins og kveðið væri á um í XIII. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.  Hæstiréttur felldi úrskurðinn úr gildi þar sem héraðsdómur hefði átt að fara með kröfu Á ehf. samkvæmt XIV. kafla sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. nóvember 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2012 þar sem vísað var frá dómi máli um kröfu sóknaraðila um að nauðungarsala á fasteigninni Maríubakka 14 í Reykjavík, matshluta 0102 „verði dæmt ógilt og farið af stað með annað uppboðsferli.“ Um kæruheimild er vísað til 1. mgr. 79. gr. og 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Hinn 2. október 2012 tók sýslumaðurinn í Reykjavík fyrir nauðungarsölu á ofangreindri eign til að halda áfram uppboði á henni. Gerðarbeiðendur voru Vátryggingafélag Íslands hf. og Reykjavíkurborg, en gerðarþoli við nauðungarsöluna var þinglýstur eigandi eignarinnar, Handverk og hráefni ehf. Á nauðungarsölunni kom hæsta boð að fjárhæð 8.000.000 krónur frá Hildu ehf., en félagið á kröfu á hendur gerðarþola sem tryggð er með veði í eigninni. Einnig komu fram boð í eignina frá sóknaraðila, en þeim boðum hafnaði sýslumaður þar sem sami maður væri bæði prókúruhafi sóknaraðila og gerðarþola. Með bréfi 3. október 2012, sem barst héraðsdómi sama dag, hafði sóknaraðili uppi þá kröfu sem áður var getið. Máli um þá kröfu var vísað frá dómi með hinum kærða úrskurði og var sú niðurstaða reist á 2. mgr. 73. gr. og 1. mgr. 74. gr. laga nr. 90/1991.

Þegar nauðungarsala fer fram samkvæmt V. kafla laga nr. 90/1991 lýkur uppboði, sem er fram haldið á eigninni sjálfri, þegar fleiri boð berast ekki og sýslumaður lætur hamar falla til marks um það, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna. Í kjölfarið getur hver sá sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölunnar ef krafa þess efnis berst héraðsdómi innan fjögurra vikna frá því uppboði lauk, sbr. 1. mgr. 80. gr. nr. 90/1991. Um málsmeðferðina fer eftir reglum XIV. kafla laganna, en aðilar að slíku máli eru meðal annars gerðarþoli, gerðarbeiðandi og kaupandi að eigninni, sbr. 3. mgr. 82. gr. laganna.

Með þeirri kröfu sem sóknaraðili hafði uppi fyrir héraðsdómi eftir að uppboði á eigninni var lokið krafðist hann úrlausnar um gildi nauðungarsölunnar. Bar héraðsdómi að fara með þá kröfu samkvæmt XIV. kafla laga nr. 90/1991 en ekki eftir reglum XIII. kafla laganna sem á við þegar unnt er að bera tiltekinn ágreining við nauðungarsölu undir dóm áður en gripið verður til frekari aðgerða við söluna að því leyti sem þær geta ráðist af úrlausn um ágreiningsefnið. Þar sem héraðsdómur leysti úr málinu á röngum grundvelli verður að ómerkja hinn kærða úrskurð og málsmeðferðina í héraði.   

Dómsorð:

          Hinn kærði úrskurður og meðferð málsins í héraði er ómerkt og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2012.

Með bréfi, mótteknu 3. október sl., kærði Gunnar Örn Haraldsson fyrir hönd Ásabrautar 31 ehf., kt. 580510-1830, Sólheimum 23, Reykjavík, uppboð sem fram fór daginn áður á fasteigninni Maríubakka 14, Reykjavík, með fastanúmer 204-7950.

Fram kemur í 2. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu að sá sem vilji leita úrlausnar héraðsdómara skuli lýsa því yfir við fyrirtöku sýslumanns á nauðungarsölunni, þar sem sú ákvörðun kemur fram sem leita á úrlausnar um. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að þegar yfirlýsing skv. 2. mgr. hafi komið fram skuli sýslumaður þegar í stað stöðva frekari aðgerðir við nauðungarsöluna að því leyti sem þær geti verið háðar umdeildri ákvörðun hans, nema bersýnilegt þyki að skilyrði skorti til að leita úrlausnar héraðsdómara um hana. Komi yfirlýsing fram við fyrirtöku skuli bókað um hana í gerðabók ásamt því sem hlutaðeigandi kveðjist munu krefjast fyrir dómi. Einnig skuli bókað um viðhorf annarra til ágreiningsins og kröfur þeirra að því leyti sem hann geti varðað þá.

Með bréfi fyrirsvarsmanns Ásabrautar 31 ehf. fylgdi endurrit úr gerðarbók Sýslumannsins í Reykjavík vegna þessa uppboðs. Þar kemur m.a. fram að sýslumaður hafni boði Jóns Ingvars Hjaltasonar sem Gunnar Örn Haraldsson biðji um að bjóða í eignina fyrir sig. Einnig kemur fram að fulltrúi sýslumanns hafni boði Gunnars, þar sem hann sé prókúruhafi félagsins og því allt of tengdur því. Loks er tekið fram að sýslumaður hafni einnig boði leigutaka Gunnars sem bjóði fyrir hönd hans.

Í gerðabók er ekki skráð að Gunnar lýsi því yfir að hann vilji bera höfnun sýslumanns undir héraðsdóm, né hvaða kröfur hann kveðist munu gera fyrir dómi. Er skilyrðum 2. mgr., sbr. 3. mgr., 73. gr. laga nr. 90/1991 til að leita úrlausnar héraðsdóms því ekki uppfyllt. Með vísan til 1. mgr. 74. gr. sömu laga ber því að vísa þessu máli frá dómi.

Ásbjörn Jónasson, aðstoðarmaður héraðsdómara, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Þessu máli er vísað frá dómi án kröfu.