Hæstiréttur íslands

Mál nr. 449/2001


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald
  • Handtaka
  • Miskabætur
  • Gjafsókn


Miðvikudaginn 19

 

Miðvikudaginn 19. júní 2002.

Nr. 449/2001.

Steindór Einarsson

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Gæsluvarðhald. Handtaka. Miskabætur. Gjafsókn.

S krafði íslenska ríkið (Í) um greiðslu skaða- og miskabóta á þeim grundvelli að hann hefði að ósekju sætt handtöku og setið í gæsluvarðhaldi í 8 daga. Krafa S var og reist á því að hann hefði sætt harðræði í gæsuvarðhaldinu og að hann hefði verið borinn sökum um alvarlegt brot gegn almennum hegningarlögum allt þar til ríkissaksóknari hefði fellt málið niður rúmu ári síðar. Hæstiréttur taldi að lögmæt skilyrði hefðu verið til handtöku og gæslu­varðhalds S samkvæmt 97. og 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, og að sá tími, sem hann sat í gæsluvarðhaldinu, hefði verið nýttur til rannsóknar málsins. Þá taldi Hæstiréttur ekki efni til að dæma S sérstaklega bætur þótt ákvörðun ríkis­saksóknara um að höfða ekki mál á hendur honum hefði dregist nokkuð. Aftur á móti var Í ekki talið hafa sýnt fram á, að S hefði fengið þá læknisþjónustu og lyfjagjöf, sem honum bar samkvæmt 2. mgr. 30. gr. reglugerðar nr. 172/1992 um gæsluvarðhaldsvist, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 259/1995 fyrr en á þriðja degi gæsluvarðhaldsins. Þótti S hafa leitt líkur að því að þetta kynni að hafa haft áhrif á framvindu sjúkdóms hans í ein­hverjum mæli. Voru S því dæmdar miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2001 og krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.900.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 1998 til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en áfrýjandi hefur gjafsókn á báðum dómstigum samkvæmt 178. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar úr hendi áfrýjanda fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann verulegrar lækkunar á kröfu áfrýjanda og að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði felldur niður.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

I.

Í málinu gerir áfrýjandi kröfu um skaðabætur úr hendi stefnda á grundvelli XXI. kafla laga nr. 19/1991. Er krafan í fyrsta lagi reist á því, að áfrýjandi hafi að ósekju sætt handtöku 8. september 1998 og setið í gæsluvarðhaldi frá þeim degi til 15. september 1998, eða í 8 daga. Í öðru lagi er á því byggt að við framkvæmd gæsluvarðhalds hafi áfrýjandi sætt harðræði og í þriðja lagi hafi hann verið borinn sökum um alvarlegt brot, sem við liggi þung refsing samkvæmt almennum hegningarlögum. Hafi hann legið undir grun allt þar til 22. október 1999, er ríkissaksóknari felldi málið niður, eða í rúmt ár.

Með skírskotun til raka héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða hans að lögmæt skilyrði hafi verið til handtöku og gæsluvarðhalds áfrýjanda samkvæmt 97. gr. og 103. gr. laga nr. 19/1991 og að sá tími, sem hann sat í gæsluvarðhaldi, hafi verið nýttur til rannsóknar málsins.

II.

Í stefnu er málsástæða áfrýjanda um harðræði í gæsluvarðhaldi reist á því að nauðsynleg inntaka hans á geðlyfjum hafi verið sett úr skorðum auk þess sem kvörtunum hans um vanlíðan og hjartsláttartruflun hafi ekki verið sinnt. Þessar aðstæður, auk kvíða fyrir enn frekara gæsluvarðhaldi, hafi leitt til þess að hann hafi játað á sig sakir 15. september 1998.

Við yfirheyrslu áfrýjanda hjá lögreglu að morgni 8. september 1998 skýrði hann frá því að hann hefði verið mjög þunglyndur undanfarið og hafi lengi átt við geðræn vandamál að stríða. Við aðra yfirheyrslu síðar sama dag kvartaði hann yfir slæmri líðan og kvaðst ekki hafa fengið þau lyf, sem hann eigi að taka reglulega. Hér mun vera  um að ræða lyfin Litarex, Sipramil, Rivotril og Truxal. Hafði áfrýjandi verið hjá lögreglu frá því um kl. 10 að morgni þessa dags. Hann var færður í fangelsið að Litla-Hrauni þá um kvöldið eftir að hann hafði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald og kom hann þangað kl. 23.45. Pétur Sveinsson, annar þeirra rannsóknarlögreglumanna, sem fluttu hann þangað, bar fyrir dómi að talað hefði verið við fangavörð, sem við áfrýjanda tók, um að haft yrði samband við lækni hans þar sem hann þyrfti að fá lyf. Ekkert er um þetta bókað í dagbók fangelsisins. Næsta dag, þ.e. 9. september, var skráð í bókina að kl. 17.05 hafi verið haft samband við Magnús Sigurðsson fangelsislækni vegna áfrýjanda og hann ráðlagt að áfrýjanda yrði strax gefið Melleril og Largactil. Ekki var sérstaklega bókað í dagbókina að eftir þessu hefði verið farið, en viðkomandi fangavörður sagði fyrir dómi að hann bókaði aldrei um lyfjagjafir nema viðkomandi fengi umrædd lyf. Fyrir liggur að umræddur fangelsislæknir kom aldrei til áfrýjanda.

Tómas Zoëga geðlæknir ávísaði áfrýjanda lyfjunum Litíumsítrat, Rivotril, Truxal og Haldol hinn 10. september, eftir að hafa haft samband við heimilislækni áfrýjanda, en þau lyf bárust áfrýjanda ekki fyrr en daginn eftir. Þann dag kom Tómas Zoëga í fangelsið og talaði við áfrýjanda eins og fram kemur í héraðsdómi. Í framburði sínum fyrir dómi taldi hann áfrýjanda ekki hafa kvartað við sig um verki fyrir hjarta eða í brjóstholi.

Grétar Sigurbergsson geðlæknir, sem  hefur stundað áfrýjanda allt frá árinu 1987, kom fyrir dóm og lýsti því að eftir að áfrýjandi kom úr gæsluvarðhaldinu hafi hann verið spenntari en fyrr og hafi farið í hönd erfitt tímabil hjá honum. Um innilokunina í gæsluvarðhaldinu sagði hann meðal annars að erfitt væri að slá föstu hve slæm áhrif þetta hefði haft á hann, en hugsanlega hafi hér skipt máli að hann var án jafnvægislyfja. Hafi hér aðallega skipt máli jafnvægislyfið Litarex en oft megi litlu muna með það lyf og þurfi það að vera í vissu magni í blóðinu til að það hafi áhrif. Þetta ásamt innilokun og tilhugsun um dóm hafi ýtt undir maníu, sem hann hafi stöðugt verið í lengi eftir þetta.

III.

Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. reglugerðar nr. 179/1992 um gæsluvarðhaldsvist, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 259/1995, skal fangelsislæknir skoða gæsluvarðhaldsfanga sem fyrst eftir komu í fangelsi. Skal fangelsislæknir kallaður til án ástæðulauss dráttar ef ástæða er til að ætla að fangi sé sjúkur við komu í fangelsi eða þurfi að öðru leyti á læknishjálp að halda. Samkvæmt  1. mgr. 32. gr. skal fangelsislæknir ákveða hvort og með hvaða hætti lyfjagjöf skuli haldið áfram ef gæsluvarðhaldsfangi hefur lyf meðferðis við komu í fangelsi eða hann telur sig þurfa á lyfjum að halda í gæslunni. Í 4. mgr. sömu greinar segir að allar lyfjagjafir til gæsluvarðhaldsfanga skuli skráðar.

Fallast verður á það með héraðdómara að ekki liggi fyrir að áfrýjandi hafi þann tíma, er hann sat í gæsluvarðhaldi, kvartað yfir hjartsláttartruflunum eða óskað sérstaklega eftir læknishjálp. Hins vegar verður ekki horft fram hjá því að hann hafði lýst því við yfirheyrslur hjá lögreglu að hann ætti við geðræn vandamál að stríða og skýrt frá slæmri líðan sinni þar sem hann hefði ekki fengið lyf, sem honum væri nauðsynlegt að taka. Leggja verður til grundvallar þá frásögn Péturs Sveinssonar rannsóknarlögreglumanns, að tekið hefði verið fram við komu áfrýjanda í fangelsið að gera þyrfti ráðstafanir af þessum sökum og hafa samband við lækni hans. Fangelsislæknir vitjaði áfrýjanda aldrei og ráðleggingar hans um lyfjatöku daginn eftir að áfrýjandi kom í fangelsið tóku ekki til lyfja er áfrýjandi hafði notað reglulega, auk þess sem ekki er skráð með óyggjandi hætti í dagbók fangelsisins að eftir þessum ráðleggingum hafi verið farið. Liggur ekki fyrir að áfrýjandi hafi fengið nauðsynleg lyf fyrr en á þriðja degi gæsluvarðhaldsins, eða 11. september 1998.

Með ofangreint í huga verður að telja að stefnda hafi ekki tekist að sýna fram á, að áfrýjandi hafi fengið læknisþjónustu og lyfjagjöf, sem honum bar samkvæmt ákvæðum fyrrnefndrar reglugerðar fyrr en frá og með 11. september 1998. Þegar litið er til framburðar Grétars Sigurbergssonar við aðalmeðferð málsins þykja líkur hafa verið að því leiddar að þetta kunni að hafa haft áhrif á framvindu sjúkdóms áfrýjanda í einhverjum mæli. Þykja því vera skilyrði til að dæma honum miskabætur samkvæmt 176. gr og 175. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 42. gr. laga nr. 36/1999.

Þótt ákvörðun ríkissaksóknara um að láta ekki koma til saksóknar á hendur áfrýjanda hafi dregist nokkuð þykja ekki efni til að dæma sérstaklega bætur honum til handa vegna þess.

 Við svo búið þykir rétt að stefndi greiði áfrýjanda bætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 200.000 krónur, og beri dráttarvexti frá því að mánuður var liðinn frá kröfubréfi áfrýjanda.

Áfrýjandi hefur notið gjafsóknar í málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Eru því ekki efni til að dæma íslenska ríkið til greiðslu málskostnaðar, og verður hann felldur niður á báðum dómstigum. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti skal greiddur úr ríkissjóði  eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Steindóri Einarssyni, 200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 3. desember 1999 til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, samtals 500.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. ágúst sl., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 3. mars 2000.

Stefnandi er Steindór Einarsson, kt. 180966-4719, Írabakka 6, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Endanlegar dómkröfur stefnanda:

Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 1.900.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt ákvæðum III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. nóv. 1998 til 1. júlí 2001 og leggist áfallnir dráttarvextir árlega við höfuðstól, í fyrsta skipti 1. nóv. 1999. Frá 1. júlí 2001 til greiðsludags krefst stefnandi vaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Jafnframt krefst stefnandi  málskostnaðar að mati dómsins eins og málið væri eigi gjafsóknarmál en stefnandi fékk gjafsókn í málinu með leyfi dómsmálaráðherra, dags. 9. okt. 2000.

Dómkröfur stefnda:

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Til vara er þess krafist að fjárkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður í því tilviki látinn niður falla.

Hinn 21. nóv. sl. var kveðinn upp úrskurður í málinu þar sem frávísunarkröfu stefnda var hafnað.

Málavextir

Um kl. hálf eitt aðfararnótt laugardagsins 5. september 1998 var tilkynnt um lausan eld að Vatnsstíg 11 í Reykjavík. Eldurinn hafði komið upp á gangi á annarri hæð hússins. Samkvæmt ummerkjum hafði eldurinn verið mestur framan við herbergi nr. 207. Niðurstaða lögreglurannsóknar leiddi í ljós að eldurinn hefði komið upp í fatahrúgu á ganginum framan við herbergi nr. 206 og 207. Niðurstaða tæknideildar lögreglunnar var að kveikt hefði verið í. Síðar sömu nótt eða um klukkan tvö kom að nýju upp eldur í húsinu, þá í herbergi nr. 301 á þriðju hæð. Hafði þá kviknað í rúmi í herbergi þessu. Niðurstaða tæknideildar lögreglunnar var að kveikt hefði verið í. Næstu nótt, þ.e. aðfararnótt sunnudagsins 6. sept. 1998, rétt fyrir klukkan eitt var á ný tilkynnt um bruna í herbergi nr. 301 og virtust upptök eldsins aftur hafa verið í rúmi í herberginu. Niðurstaða tæknideildar lögreglunnar var að kveikt hefði verið í sama rúmi í herberginu og nóttina áður.

Á þessum tíma átti stefnandi lögheimili að Vatnsstíg 11, í herbergi 301. Húsið er þrílyft hús á kjallara. Í húsinu eru 25 íbúðarherbergi sem Félagsmálastofnun Reykjavíkur leigði út til skjólstæðinga sinna.

Vegna rannsóknar á eldsvoðum þessum voru húsverðir að Vatnsstíg 11 yfirheyrðir svo og ýmsir íbúar hússins. Fram kom hjá einu vitni að það hefði séð til ferða stefnanda aðfararnótt laugardagsins 5. sept. 1998. Stefnandi hefði verið í herbergi sínu þegar eldur kom upp á annarri hæð hússins en verið nýfarinn þegar eldur kviknaði í herbergi hans umrædda nótt. Á laugardeginum hefði stefnandi komið við annan mann og brotið upp hurðina að herbergi sínu með því að sparka í hana. Síðan hafi þeir haldið á brott. Þetta vitni kvaðst hafa séð stefnanda fyrir utan húsið þegar verið var að slökkva fyrsta eldinn. Annað vitni sagði stefnanda hafa verið heima  þegar eldur kom upp á annarri hæð aðfararnótt laugardagsins. Eftir að íbúum hafi verið heimilað að fara til herbergja sinna kvaðst vitni þetta hafa séð stefnanda fara inn í herbergi sitt og kvaðst hafa séð hann hringja eitthvað. Síðar hafi vitnið séð stefnanda far út úr húsinu. Um tíu til fimmtán mínútum síðar hafi eldur blossað upp.

Hinn 8. sept. 1998 mætti stefnandi samkvæmt boðun til yfirheyrslu hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík. Gætt var ákvæða 32. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála en stefnandi var yfirheyrður sem sakborningur þar sem hann var grunaður um að hafa þrívegis valdið íkveikju að Vatnsstíg 11 og eignaspjöllum á húsnæðinu með því að sparka upp hurð á íbúð þeirri sem hann hafði haft á leigu. Stefnandi óskaði eftir verjanda og var þá gert hlé á yfirheyrslu þar til verjandi stefnanda, Kristján Stefánsson hrl., mætti.

Stefnandi kvaðst hafa verið heima hjá sér á föstudagskvöldið. Um kl. 23:30 kvaðst stefnandi hafa farið út og þá á Bíóbarinn. Þar kvaðst stefnandi hafa verið til að ganga þrjú um nóttina. Þaðan kvaðst hann hafa farið heim til foreldra sinna að Freyjugötu 1 og gist þar. Aðspurður um ástæður þess að hann fór ekki heim til sín þessa nótt sagði stefnandi að undanfarnar nætur hafi hann ekki gist að Vatnsstíg 11 vegna geðheilsu sinnar. Hann kvaðst hafa verið mjög þunglyndur upp á síðkastið og hafa lengi átt við geðræn vandamál að stríða. Hann kvaðst bara hafa komið að Vatnsstíg 11 nokkrum sinnum undanfarnar vikur og þá til þess að vökva blómin sín. Stefnandi kvaðst hafa frétt af brunanum í hádegisfréttum á laugardaginn. Stefnandi neitaði því að hafa komið að Vatnsstíg 11 aðfararnótt laugardagsins 5. sept. þegar slökkviliðið var þar að störfum. Vakin var athygli stefnanda á því að í skýrslu eins vitnis hafi komið fram að eftir að slökkviliðið hafði heimilað íbúum hússins að Vatnsstíg 11 að fara til íbúða sinna eftir að eldur kom upp á annarri hæð hússins aðfararnótt laugardagsins hafi vitnið séð stefnanda inn í herbergi sínu að hringja. Þetta kannaðist stefnandi ekki við.

Stefnandi heimilaði lögreglu að fá upplýsingar hjá Landssíma Íslands varðandi hringingar úr síma sínum 552 5760 umrædda nótt. Upplýst var að hringt hefði verið úr síma stefnanda, sem staðsettur var í herbergi stefnanda, kl. 01:36 í síma föður stefnanda að Freyjugötu 1.

Stefnandi kvaðst hafa tryggt innbú sitt að Vatnsstíg 11 hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. fyrir um mánuði síðan.

Stefnandi sagði að þegar hann kom að Vatnsstíg 11 laugardaginn 5. sept. og braut upp hurðina hafi hann bara ætlað að skoða hvernig umhorfs væri í íbúðinni. Eftir það kvaðst stefnandi hafa farið til Stokkseyrar með kunningja sínum. Stefnandi kvaðst ekki vera viss hvort hann hefði farið til Stokkseyrar á undan eða eftir að hann fór á Vatnsstíginn. Hann kvaðst hafa verð mjög drukkinn allan laugardaginn. Eftir þetta kvaðst stefnandi hafa verið á Freyjugötu 1 allt laugardagskvöldið og horft á box á Sýn með föður sínum og síðan hafi þeir farið að sofa. Síðan var stefnanda tilkynnt að hann væri handtekinn í þágu rannsóknar málsins og að hann yrði vistaður í fangageymslum. Hvorki gerði stefnandi né lögmaður hans neinar athugasemdir við það.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 8. sept. 1998, var stefnandi úrskurðaður í gæsluvarðhald allt til þriðjudagsins 15. sept. 1998 kl. 16:00. Ekki kærði stefnandi úrskurð þennan. Í endurriti Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að tilhögun gæsluvarðhaldsvistar sé fólgin í heimsóknarbanni, bréfaskoðun, símabanni og fjölmiðlabanni.

Samkvæmt ljósriti úr dagbók fangelsisins að Litla Hrauni var stefnandi færður úr húsi 1 yfir í hús 3 kl. 14:55 miðvikudaginn 9. sept. 1998. Þar sætti hann heimsókna-, bréfa- og símabanni en af honum var létt fjölmiðlabanni. Kl. 17:05 sama dag var haft samband við Magnús Sigurðsson lækni vegna stefnanda og ráðlagði læknirinn að stefnanda væri gefið Mellerín 1 stk. strax og aftur síðar um kvöldið og 1 stk. Largacil 25 mg.

Samkvæmt sama ljósriti var haft samband við Tómas Zoëga geðlækni vegna stefnanda kl. 19:15 þriðjudaginn 8. sept. en samkvæmt bréfi Fangelsismálastofnunar ríkisins er þarna um misritun að ræða, þarna hafi átt að standa miðvikudaginn 9. sept.

Í bréfi Magnúsar Sigurðssonar læknis, dags. 8. des. 1998, segir að 9. sept. 1998 hafi verið haft samband við lækninn og einnig Tómas Zoëga geðlækni, sem hafi aflað sér upplýsinga um lyfjagjafir stefnanda hjá heimilislækni hans, Árna Skúla Gunnarssyni. Tómas Zoëga hafi skrifað lyfseðil 10. sept. og þann 11. sama mánaðar  hafi stefnandi farið í viðtal til Tómasar. Í bréfi þessu segir að lyfjagjafir hafi hafist strax 9. sept. 1998.

Meðal skjala málsins er lyfseðill Tómasar Zoëga vegna stefnanda, dags. 10. sept. 1998, þar er stefnanda ávísað lyfjunum Litiums, Rivotri, Truxal og Haloper.

Stefnandi fór í viðtal til Tómasar Zoëga geðlæknis 11. sept.

Sama dag var stefnandi yfirheyrður af rannsóknarlögreglu að Litla Hrauni að viðstöddum verjanda sínum.

Við yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglu hinn 15. sept. 1998, kl. 11:20, viðurkenndi stefnandi að hafa viljandi kveikt í herbergi sínu aðfararnótt laugardagsins 5. sept. og svo aftur aðfararnótt 6. sept. 1998. Verjandi stefnanda var viðstaddur þessa yfirheyrslu. Með bréfi til lögmanns stefnanda, dags. 17. sept. 1998, afturkallaði stefnandi játningu sína. Þá afturköllun staðfesti stefnandi fyrir rannsóknarlögreglu 2. okt. 1998 og staðhæfði sakleysi sitt. Við það tækifæri veitti stefnandi lögreglu heimild til þess að afla vottorða læknis um andlegt heilbrigði sitt og samþykkti að undirgangast sérstaka geðrannsókn í þágu málsins.

Tvö vitni sem yfirheyrð voru þann 16. og 17. des. 1998 báru að stefnandi hefði viðurkennt í þeirra eyru eftir að hann kom úr gæsluvarðhaldi að hafa kveikt í.

Með bréfi, dags. 22. október 1999, felldi ríkissaksóknari málið niður á grundvelli 112. gr. laga nr. 19/1991.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Kröfur stefnanda eru reistar í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi að ósekju sætt handtöku og setið í gæsluvarðhaldi í 8 daga.

Í öðru lagi að við framkvæmd gæsluvarðhalds hafi stefnandi sætt harðræði. Nauðsynleg inntaka geðlyfja hafi verið sett úr skorðum auk þess sem kvörtunum stefnanda um vanlíðan og hjartsláttartruflun hafi ekki verið sinnt. Þessar aðstæður auk þess kvíða fyrir enn frekara gæsluvarðhaldi hafi leitt til þess að stefnandi játaði á sig sakir.

Í þriðja lagi hafi stefnandi verið borinn sökum um mjög alvarlegt brot sem við liggi þyngsta refsing að íslenskum hegningarlögum. Þá hafi stefnandi verið undir grun allt þar til 22. október 1999 er ríkissaksóknari felldi málið niður eða í rúmt ár. Sakaráburður hafi leitt til þess að tryggingarfélag hafi neitað bótaskyldu að svo stöddu vegna munatjóns er stefnandi hafi orðið fyrir við brunann.

Kröfur stefnanda eru reistar á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991 auk ólögfestra meginreglna skaðabótaréttar og skaðabótalögum nr. 50/1993.

Við munnlegan málflutning var því haldið fram af hálfu stefnanda að dæma beri málið eftir gildandi rétti þ.e. eftir XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála eins og þau séu nú.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að lögmæt skilyrði hafi verið fyrir handtöku stefnanda á grundvelli 97. gr. laga nr. 19/1991, enda hafi augljóslega verið fyrir hendi rökstuddur grunur um að hann hefði framið afbrot sem sætt geti ákæru og ákvæði greinarinnar að öðru leyti fyrir hendi. Framburður stefnanda hafi ekki verið í samræmi við frásögn vitna sem séð höfðu til ferða hans á staðnum. Til rannsóknar hafi verið brot bæði gegn 164. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefnandi hafi viðurkennt að hafa sparkað upp hurð á húsnæði því sem hann hafði haft á leigu. Af hálfu stefnda er einnig vísað til IX. kafla laganna og ákvæða lögreglulaga nr. 90/1996.

Lögmæt skilyrði hafi einnig verið fyrir gæsluvarðhaldi stefnanda enda hafi verið úrskurðað um það af dómi á grundvelli 103. gr. laga nr. 19/1991. Stefnanda hafi ekki verið haldið lengur í gæsluvarðhaldi en efni stóðu til og tíminn á meðan á gæsluvarðhaldi stóð nýttur til rannsóknar málsins, þ. á m. til að yfirheyra mörg vitni. Ekki hafi stefnandi kært úrskurðinn.

Rangt sé og ósannað að stefnandi hafi sætt harðræði er hann var í gæsluvarðhaldi. Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir þeim staðhæfingum sínum.

Samkvæmt greinargerð Fangelsismálastofnunar og gögnum frá fangelsinu á Litla Hrauni, þar sem stefnandi var vistaður í gæsluvarðhaldi, hafi strax daginn eftir komu stefnanda aflétt einangrun og haft hafi verið samband við Magnús Sigurðsson fangelsislækni og Tómas Zoëga geðlækni. Í bréfi hins fyrrnefnda komi fram að þegar hafi veri aflað upplýsinga um lyfjagjafir og hafi stefnanda verið ávísuð lyf og lyfjagjöf hafi þegar hafist þennan dag. Stefnandi hafi einnig farið í viðtal til geðlæknisins. Hann hafi ekki kvartað um einkenni fyrir hjarta eða brjóstholi. Ekki verði ráðið af gögnum málsins að stefnandi hafi beðið um frekari læknishjálp.Aðgerðir í þágu rannsóknar málsins gagnvart stefnanda hafi hvorki verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi né móðgandi hátt. Fullt tilefni hafi verið til þeirra og lögmæt skilyrði. Við upphaf gæsluvarðhalds hafi strax verið dregið úr einangrun. Fangavörðum hafi strax verið skýrt frá að stefnandi teldi sig þurfa á lyfjum að halda. Beiðnum um læknisaðstoð hafi verið sinnt.

Fullyrðingar um að tekin hafi verið lyf af stefnanda séu ósannaðar og þá um leið að það hafi leitt til þess að hann játaði. Er hann játaði hafi hann verið á leið úr varðhaldi.

Rökstuddur grunur hafi beinst að stefnanda og hafi rannsókn málsins verið í samræmi við það. Framburðir stefnanda hafi sannanlega ekki flýtt rannsókninni. Engu að síður hafi rannsóknin á síðari stigum beinst að þeim þáttum sem mælt gætu gegn refsingu, meðal annars vegna andlegs ástands og öðrum atriðum sem gátu orðið stefnanda til málsbóta, þrátt fyrir fram komnar játningar. Ríkissaksóknari hafi síðar fellt málið niður með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991. Af hálfu stefnda er því mótmælt að grundvöllur til bóta sé fyrir hendi vegna meðferðar málsins. Enginn óeðlilegur dráttur hafi orðið á málinu. Í bréfi lögreglustjóra til ríkissaksóknara hafi verið talið rétt að framhaldsrannsókn færi fram og bréf þess efnis ritað síðla júlímánaðar 1999 og því svarað í byrjun ágúst sama ár.

Áætluðu tjóni er mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Óljóst sé hvort málsástæða stefnanda um að tryggingafélag hafi mótmælt bótaskyldu að svo stöddu, vegna munatjóns, eigi að skoðast sem rökstuðningur samkvæmt stefnu. Engin gögn liggi fyrir um þau málalok og ekki heldur hvernig hafi reynt á vátryggingu sem stefnandi segist hafa keypt. Þeirri málsástæðu er mótmælt sem órökstuddri og ósannaðri. Afstaða tryggingafélags geti ekki verið afleiðing lögmætra aðgerða í þágu rannsóknar máls. Félagið hafi hlotið að meta sjálfstætt fyrir sitt leyti hvort trygging kæmi til greiðslu. Um það sé ekkert upplýst af hálfu stefnanda.

Með vísan til alls framanritaðs telur stefndi að ekki séu uppfyllt skilyrði XXI. kafla laga nr. 19/1991 til greiðslu bóta og beri því að sýkna af öllum kröfum stefnanda. Í kaflanum séu tæmandi talin þau tilvik sem geti orðið grundvöllur bóta en þar sé mælt fyrir um heimild en ekki skyldu. Þar sem hvorki séu uppfyllt skilyrði 175. né 176. gr. laganna til greiðslu bóta beri að sýkna stefnda. Af hálfu stefnda er vísað til laganna eins og þau voru fyrir setningu laga nr. 36/1999. Sérstaklega er bent á að ekki séu uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 175. gr. eins og hún var enda sé framburður misvísandi. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði b-liðar 1. mgr. 175. gr. laganna eins og þau voru fyrir gildistöku laga nr. 36/1999. Sama sé þótt málið yrði dæmt á grundvelli nefndra breytingalaga að ekki séu uppfyllt skilyrði nefndra ákvæða XXI. kafla laga nr. 19/1991. Engri saknæmri eða ólögmætri háttsemi sé til að dreifa sem stefndi beri ábyrgð á og ekki séu uppfyllt bótaskilyrði eftir almennum reglum að öðru leyti. Þá eigi bótakrafa stefnanda sér ekki stoð í skaðabótalögum nr. 50/1993 sem stefnandi vísi til án nánari skýringa.

Verði ekki á framangreint fallist séu engu að síður skilyrði til að fella bætur niður á grundvelli niðurlagsákvæðis 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 enda hafi legið fyrir játning stefnanda og þannig séu líkur á að hann hafi valdið íkveikjum og framburður vitna hafi einnig getað bent til þess. Þá hafi framburður stefnanda verið misvísandi og á reiki. Með því móti hafi hann torveldað rannsókn málsins sem leiði til þess að ekki sé bótaréttur samkvæmt ákvæðum XXI. kafla, sbr. 175. gr. eða a.m.k. skilyrði til að fella niður bætur og sýkna.

Kröfum stefnanda er mótmælt sem of háum. Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt með vísan til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 en engin rökstudd bótakrafa hafi verið sett fram af hálfu stefnanda. Geti því ekki komið til annars en að dráttarvextir verði í fyrsta lagi dæmdir frá dómsuppsögu eða í fyrsta lagi mánuði frá þingfestingu ef á bótakröfu verði fallist að einhverju leyti. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu fyrir dómi og læknarnir Grétar Sigurbergsson, Magnús Sigurðsson og Tómas Zoëga svo og Pétur Sveinsson rannsóknarlögreglumaður og Elías Baldursson fangavörður.

Niðurstaða

Með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 12. okt. 2000 í máli nr. 175/2000 ber við mat á bótarétti stefnanda að byggja á 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 eins og henni var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999.

Þegar til þess er litið sem að framan er rakið varðandi málavexti verður ekki á það fallist með stefnanda að hann hafi sætt handtöku að ósekju. Lögmæt skilyrði voru fyrir handtöku stefnanda, sbr. 97. gr. laga nr. 19/1991. Jafnframt voru fyrir hendi lögmæt skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi stefnanda enda var úrskurðað um gæsluvarðhaldið á grundvelli 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þann úrskurð kærði stefnandi ekki. Tíminn sem stefnandi sat í gæsluvarðhaldi var nýttur til rannsóknar málsins.

Ekkert er fram komið um að stefnandi hafi sætt harðræði í gæsluvarðhaldinu. Daginn eftir komu stefnanda í fangelsið var aflétt einangrun hans, en hann sætti áfram heimsókna-, bréfa- og símabanni. Þrátt fyrir það var stefnanda lögum samkvæmt heimilt að hafa samband við verjanda sinn.

Þá er stefnandi var yfirheyrður í fangelsinu að Litla Hrauni hinn 11. sept. 1998 að viðstöddum verjanda sínum bar hann ekki fram kvartanir vegna þess að honum hafi verið synjað um læknishjálp. Því er ekki  haldið fram að stefnandi hafi kvartað við verjanda sinn um að honum væri neitað um læknishjálp. Að sögn Tómasar Zoëga geðlæknis sem skoðaði stefnanda 11. sept. 1998 kvartaði hann ekki yfir hjartsláttartruflunum við þá skoðun. Verður því að telja fullyrðingar stefnanda um að hann hafi kvartað yfir hjartsláttartruflunum og óskað eftir læknishjálp, án árangurs, ósannaðar.

Varðandi lyfjagjöf til stefnanda á meðan á gæsluvarðhaldi stóð er fram komið að síðdegis daginn eftir að hann kom í fangelsið, þ.e. 9. sept., var honum gefið Mellerín og Largacil. Þá lyfjagjöf taldi Tómas Zoëga geðlæknir eðlilega. Grétar Sigurbergsson geðlæknir var á sömu skoðun.

Hinn 10. sept. ávísaði Tómas Zoëga stefnanda lyfjunum Litiums, Rivotri, Truxal og Haloper. Hér fyrir dómi kvaðst Tómas Zoëga ekki minnast þess að stefnandi hafi kvartaði yfir því að hafa ekki fengið lyf. Á dskj. 82 sem er minnisblað Tómasar Zoëga, dags. 11. sept. 1998, segir m.a. að stefnandi sé rólegur og yfirvegaður. Tómas Zoëga hafði samband við heimilislækni stefnanda sem staðfesti lyfjatöku stefnanda.

Fram kom hjá Grétari Sigurbergssyni geðlækni, sem hefur haft með stefnanda að gera allt frá árinu 1987, fyrst inni á Borgarspítalanum og síðan á milli innlagna, að á tímabilum hafi stefnandi verið betri og þá ekki komið til læknisins. Mánuði áður en stefnandi var úrskurðaður í gæsluvarðhald kom stefnandi til læknisins með föður sínum. Þá hafði stefnandi verið þunglyndur nokkuð lengi og heilsufar versnandi. Svo sá læknirinn stefnanda mánuði eftir að hann var í fangelsinu og þá var hann aftur orðinn spenntur og í hönd fór erfitt sjúkdómstímabil hjá stefnanda alveg næsta ár og rúmlega það. Grétar Sigurbergsson bar að stefnandi hefði verið á jafnvægislyfinu Litarex, sem sé  litiumsamband, sem sé aðallyf stefnanda, þunglyndislyfinu Sipramil, Rivotril sem sé notað sem svokallað "antimaniskt" lyf og svefnlyfinu Truxal. Læknirinn sagði ekkert vera skráð hjá sér um lyfjatöku stefnanda í fangelsinu og hann kvaðst ekki muna hvort stefnandi hefði talað um það eftir fangavistina. En læknirinn kvaðst hafa skráð hjá sér að stefnandi hafi sagt að sér hafi liðið mjög illa í fangelsinu.

Fram kom hjá Einari Steindórssyni, föður stefnanda, við skýrslugjöf hjá rannsóknarlögreglu 9. sept. 1998 að heilsa stefnanda hafi verið mjög slæm undanfarin 11 ár. Sjúkdómurinn lýsi sér í miklum sveiflum, hann sé ýmist mjög  hátt uppi og spenntur eða hann geti ekki haldið sér vakandi. Undanfarna síðustu daga hafi hann verið í þessu spennuástandi. Ástandið sé þannig núna að stefnandi sé mjög illa farinn líkamlega auk þess að honum hafi hrakað ár frá ári.

Þá er stefnandi var yfirheyrður hjá rannsóknarlögreglu 8. sept. 1998 kvaðst hann hafa verið mjög þunglyndur upp á síðkastið og hafa lengi átt við geðræn vandamál að stríða.

Þegar það er virt sem hér hefur verið rakið þykir ósannað að slæmt heilsufar stefnanda eftir fangavistina stafi af fangavistinni eða því að nauðsynleg inntaka geðlyfja hans hafi verið sett úr skorðum þannig að bótaskyldu varði.

Fram kom hjá stefnanda hér fyrir dómi að tryggingarfélag sem tryggt hafði innbú stefnanda hafi greitt honum 425.000 kr. vegna brunatjóns á innbúi.

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að hvorki séu fyrir hendi bótaskyld atvik samkvæmt XXI. kafla laga nr. 19/1991 né meginreglum skaðabótaréttar og skaðabótalögum og ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Kristjáns Stefánssonar hrl., 186.000 kr. Við ákvörðun málflutningsþóknunar hefur verið litið til virðisaukaskatts.

Málið dæmir Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Steindórs Einarssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Kristjáns Stefánssonar hrl. 186.000 kr.