Hæstiréttur íslands

Mál nr. 782/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


                                     

Miðvikudaginn 2. desember 2015.

Nr. 782/2015.

Guðrún Einarsdóttir

(Björgvin Þórðarson hrl.)

gegn

Kvistfelli fasteignum ehf. og

Þorsteini Þorvaldssyni

(Marteinn Másson hrl.)

Kærumál. Vitni.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu K ehf. og Þ um að fá að leiða tvö nafngreind vitni við aðalmeðferð í máli G gegn þeim. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom m.a. fram að af 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 yrði ályktað að aðili í einkamáli mætti færa sönnur fyrir umdeildu atviki með því að leiða fyrir dóm vitni, sem svarað gæti munnlegum spurningum um slík atvik af eigin raun, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 190/1996. K ehf. og Þ hefðu ekki borið því við að vitnin gætu borið af eigin raun um atvik að baki málsókn G. Þá væru vitnin heldur ekki mats- eða skoðunarmenn eftir ákvæðum IX. kafla áðurgreindra laga sem leiddir yrðu fyrir dóm til að svara spurningum, sbr. 65. gr. sömu laga. Var kröfu K ehf. og Þ því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. nóvember 2015, sem barst réttinum 19. sama mánaðar, en kærumálsgögn bárust 23. þess mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. nóvember 2015,

 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fá að leiða tvö nafngreind vitni við aðalmeðferð málsins. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hyggst lögmaður varnaraðila spyrja Erling Magnússon við aðalmeðferð málsins um hvað farið hafi fram á matsfundi, sem hann hafi mætt á fyrir hönd lögmannsins. Þá hyggst lögmaðurinn spyrja Stefán Guðmundsson um gögn, sem stafa frá honum og varða verðlagningu á tilteknum verkþáttum vegna vinnu við sumarbústað, sem um er deilt í málinu.

Af 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 verður ályktað að aðili í einkamáli megi færa sönnur fyrir umdeildu atviki með því að leiða fyrir dóm vitni, sem svari munnlega spurningum um slík atvik af eigin raun, sbr. dóm Hæstaréttar 21. maí 1996 í máli nr. 190/1996, sem birtur er á bls. 1785 í dómasafni það ár. Varnaraðilar bera því ekki við að áðurnefndir menn geti borið af eigin raun um atvik sem búa að baki málsókn sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Þá eru þeir heldur ekki mats- eða skoðunarmaður eftir ákvæðum IX. kafla laga nr. 91/1991, sem verða leiddir fyrir dóm til að svara spurningum, sbr. 65. gr. laganna. Brestur því skilyrði til að verða við kröfu varnaraðila til að fá að leiða umrædda menn fyrir dóm til að gefa munnlega skýrslu. Verður kröfunni því hafnað.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Kvistfells fasteigna ehf. og Þorsteins Þorvaldssonar, um að fá að leiða Erling Magnússon og Stefán Guðmundsson fyrir dóm til munnlegrar skýrslugjafar í máli sóknaraðila, Guðrúnar Einarsdóttur, á hendur þeim.

Varnaraðilar greiði sameiginlega sóknaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. nóvember 2015.

                Mál þetta er höfðað með stefnu sem birt var 12. mars 2015.

                Stefnendur eru Guðrún Einarsdóttir, Rauðagerði 31, Reykjavík en stefndu eru Kvistfell fasteignir ehf. og Þorsteinn Þorvaldsson, en báðir stefndu eru til heimilis að Þóristúni 18 á Selfossi.

                Dómkröfur stefnanda eru að stefndi Kvistfell fasteignir ehf. verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 3.629.942,- þar af óskipt með stefnda Þorsteini Þorvaldssyni, kr. 2.290.336, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 sbr. 9. gr. laganna, af þeirri fjárhæð frá 27. nóvember 2014 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

                Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara lækkunar á stefnukröfum, auk málskostnaðar.

                Í þinghaldi í málinu 29. október sl. var þess krafist af hálfu stefndu að fá að leiða vitnin Erling Magnússon og Stefán Guðmundsson við aðalmeðferð málsins sem fyrirhuguð er 27. nóvember nk. Af hálfu stefnanda er því mótmælt og þess krafist að vitnaleiðslan verði ekki heimiluð.

                Gerðu lögmenn grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi framangreinda vitnaleiðslu og ítrekuðu kröfur sínar. Var krafan tekin til úrskurðar.

                Lögmaður stefndu telur að bæði vitnin geti upplýst um atvik málsins af eigin raun og við sönnunarfærslu í málinu sé nauðsyn á að þessi vitni gefi skýrslu.

                Lögmaður stefnanda andmælti því að stefndu fái að leiða þessi vitni og heldur lögmaðurinn því fram að vitnin geti ekkert um málsatvik borið af eigin raun og því sé vitnisburður þeirra bæði óþarfur og óheimill.

                Lögmaður stefndu kveðst hafa í hyggju að spyrja vitnið Erling um það hvað hafi farið fram á matsfundi, en vitnið mun hafa mætt þar fyrir hönd lögmannsins. Vitnið Stefán kveðst lögmaðurinn munu spyrja um gögn sem frá vitninu stafa og sem hafa verið lögð fram í málinu og varða verðlagningu á tilteknum verkþáttum í tengslum við vinnu við sumarbústað sem deilt er um í málinu.

          Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 er vitni sem orðið er 15 ára skylt að koma og svara spurningum um málsatvik. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. sömu laga er það á valdi dómara hverjar spurningar verða lagðar fyrir vitni og getur hann svipt aðila rétti til að spyrja, t.d. ef spurningar hans til vitna eru sýnilega tilgangslausar, auk þess að geta umorðað, lagað og skýrt spurningar aðila áður en vitni svarar þeim. Þessar heimildir fela það í sér að dómari getur synjað um að spurning verði lögð fyrir vitni.

Mat á því fyrir fram hvort vitnaleiðsla skuli heimiluð eða ekki er ýmsum vandkvæðum bundið því að undir rekstri málsins geta komið fram upplýsingar sem réttlætanlegt er að spyrja vitni um án þess að það liggi ljóst fyrir í upphafi aðalmeðferðar.

Lögmaður stefndu hefur gert grein fyrir því að hverju hann hyggist spyrja framangreind vitni, en ekki þykir unnt að hafna vitnaleiðslunni á þeim grundvelli að þær spurningar varði ekki málsatvik.

Þykir rétt að lögmaður stefndu fái að leiða vitnin tvö án þess að í því felist heimild til þess að bera megi undir þau spurningar um annað en það sem lögmaður stefndu hefur þegar gert grein fyrir. Það verður að meta þegar til yfirheyrslu kemur.

                Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.             

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Stefndu, Kvistfelli fasteignum ehf. og Þorsteini Þorvaldssyni, er heimilt að leiða vitnin Erling Magnússon og Stefán Guðmundsson við aðalmeðferð málsins.