Hæstiréttur íslands
Mál nr. 275/2002
Lykilorð
- Bifreið
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Örorka
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 5. desember 2002. |
|
Nr. 275/2002. |
Guðrún Lilja Önnudóttir(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Friðfinni Júlíusi Tómassyni og Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Gjafsókn.
G lenti í umferðarslysi á Reykjanesbraut í desember 1997 og slasaðist allnokkuð. Aðilar málsins deildu um hvort greiða skyldi bætur fyrir varanlega örorku G samkvæmt 5.-7. gr. eða 8. gr. skaðabótalaga. G hafði lokið grunnskólanámi vorið 1995 og eftir það unnið víða. Hún hafði ekki unnið lengi á hverjum stað og haft lágar vinnutekjur fyrir slysið. Atvinnusaga G, fyrir og eftir slysið, þótti ekki benda til þess að G hafi stefnt að föstu starfi eða að hún hafi haft í huga að afla hærri tekna en hún hafði gert fyrir slysið. Hún hafi því nýtt vinnugetu sína á annan hátt. Var ekki fallist á með G að þær aðstæður væru fyrir hendi að bætur til hennar skyldi ákvarða eftir reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þar sem G höfðu þegar verið greiddar bætur samkvæmt 8. gr. laganna voru stefndu sýknaðir af kröfu G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. júní 2002. Hún krefst þess að stefndu verði í sameiningu dæmd til að greiða sér 1.322.404 krónur með 2% ársvöxtum frá 27. desember 1997 til 30. júní 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí sama árs og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málkostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Guðrúnar Lilju Önnudóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2002.
I
Málið er höfðað 4. október sl. og dómtekið 7. mars sl.
Stefnandi er Guðrún Lilja Önnudóttir, Álfaskeiði 76, Hafnarfirði.
Stefndu eru Friðfinnur Júlíus Tómasson, Sjafnarvöllum 11, Keflavík og Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða sér 1.322.404 krónur með 2% vöxtum frá 27. desember 1997 til 30. júní 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí s.á. en samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndu krefjast aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að kröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
II
Málavextir eru þeir að 27. desember 1997 lenti stefnandi í umferðarslysi á Reykjanesbraut. Stefnandi slasaðist allnokkuð, brotnaði m.a. á þvertindi mjóbaksliðbols, ytri hluta hægri sköflungs og hlaut sprungu inn á liðinn. Þá fékk stefnandi áverka á vinstri upphandlegg, hægra læri og hægri ökkla auk annars. Stefnandi var lögð inn á sjúkrahús til meðhöndlunar og var síðan í eftirliti hjá bæklunarlækni fram til ársins 2000. Kveður stefnandi óþægindi sín aldrei hafa jafnað sig að fullu og hún fái verki í hægra hnéð við álag auk þess að hafa haft verki og óþægindi í baki.
Tveir læknar mátu afleiðingar slyss stefnanda og komust að þeirri niðurstöðu að tímabundið atvinnutjón hennar hafi verið 100% frá 27. desember 1997 til 1. apríl 1998 og 50% frá 2. apríl 1998 til 15. júní 1998. Þá telja læknarnir að varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins sé 10%, varanleg örorka einnig 10% og að stefnandi hafi verið veik í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 27. desember 1997 til 15. júní 1998, þar af 3 daga rúmliggjandi.
Ekki er ágreiningur með aðilum um framangreinda málavaxtalýsingu og heldur ekki framangreinda niðurstöðu læknanna.
Stefnandi krafði stefndu um skaðabætur og byggði á því að henni bæru bætur í samræmi við ákvæði 5. - 7. gr. skaðabótalaganna. Stefndu hafa ekki fallist á þetta heldur boðið fram og greitt bætur í samræmi við ákvæði 8. gr. skaðabótalaganna og snýst ágreiningur málsins um þetta. Kröfur stefnanda eru um bætur vegna varanlegrar örorku en bætur vegna annars tjóns hafa stefndu að fullu greitt henni.
Ágreiningslaust er í málinu að ef bætur til stefnanda yrðu ákveðnar samkvæmt 5. - 7. gr. skaðabótalaganna þá myndu þær nema stefnufjárhæðinni en ef þær yrðu ákveðnar eftir 8. gr. laganna þá hafi stefndu að fullu bætt henni tjón hennar.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á því að hún hafi lokið grunnskólanámi árið 1995 og einungis verið í framhaldsskóla einn mánuð þá um haustið. Að öðru leyti hafi hún verið á vinnumarkaði. Við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku verði að hafa í huga að stefnandi hafi verið atvinnulaus mikinn hluta ársins 1997 og átt við heilsufarsvanda að stríða. Tekjur þess árs gefi því ekki raunsanna mynd af tekjumöguleikum hennar. Þegar slysið varð kveðst stefnandi hafa verið búin að ráða sig í vinnu hjá saltfiskvinnslufyrirtæki og hafi staðið til að hefja þar störf í ársbyrjun 1998. Hefði það gengið eftir hefðu meðalmánaðartekjur stefnanda numið 109.513 krónum á mánuði. Stefnandi byggir á því að alkunna sé að tekjur fólks hækki jafnan fram undir og yfir 26 ára aldur. Þess vegna sé lagt til grundvallar að árstekjur hennar nemi 1.600.000 krónum, m.a. með vísan til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eða 1.696.000 krónum að viðbættum 6% vegna greiðslu vinnuveitanda í lífeyrissjóð.
Stefnandi byggir á því að samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna skuli leggja til grundvallar bótaútreikningi vegna varanlegrar örorku heildartekjur tjónþola næstliðið ár fyrir slysið. Þegar sérstaklega standi á, skuli hins vegar meta árslaun sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga. Þessi grein taki m.a. til þeirra aðstæðna þegar tjónþoli hafi ekki getað nýtt vinnugetu sína til fulls, hafi verið í hlutastarfi eða þess háttar. Ákvæðinu sé hins vegar einnig ætlað að taka til annarra aðstæðna, sbr. það sem segi í greinargerðinni að bætur til þeirra sem eru atvinnulausir þegar þeir lenda í slysi skuli einnig reiknaðar út eftir 5. 7. gr. skaðabótalaganna en ekki 8. gr. Þá er bent á að samkvæmt greinargerðinni eigi þeir sem atvinnulausir eru, þegar þeir verða fyrir slysi, rétt á bótum eftir 5. 7. gr. skaðabótalaganna og eigi það þá einnig við um stefnanda sem var komin með fasta vinnu þegar hún varð fyrir slysinu.
væmt greinargerðinni eigi þeir sem atvinnulausir eru, þegar þeir verða fyrir slysi, rétt á bótum eftir 5. 7. gr. skaðabótalaganna og eigi það þá einnig við um stefnanda sem var komin með fasta vinnu þegar húStefndu byggja kröfur sínar á því að samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaganna eigi bætur til tjónþola, sem að verulegu leyti nýti vinnugetu sína þannig að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur, að ákvarða á grundvelli miskastigs samkvæmt 4. gr. laganna. Benda stefndu á að samkvæmt framtölum stefnanda fyrir árin 1996 til og með 2000 hafi hún haft mjög litlar vinnutekjur. Af hálfu stefndu sé því enginn vafi á því að stefnandi sé einstaklingur, sem að verulegu leyti nýti vinnugetu sína þannig að hún hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur og eigi það að leiða til þess að bætur henni til handa skuli ákvarðaðar samkvæmt 8. gr. skaðabótalaganna og þar sem bætur í samræmi við það ákvæði hafi þegar verið greiddar beri að sýkna stefndu.
IV
Stefnandi lauk grunnskólanámi vorið 1995 og var einn mánuð í framhaldsskóla þá um haustið. Eftir það kveðst hún hafa verið á vinnumarkaðnum. Samkvæmt skattframtölum hennar vann hún hjá fjórum vinnuveitendum árið 1996 og hafði tæpar 180.000 krónur í árstekjur. Árið 1997 vann hún hjá sex vinnuveitendum og hafði rúmar 190.000 krónur í árstekjur. Árið 1998 vann hún hjá fimm vinnuveitendum og hafði rúmar 140.000 krónur í árstekjur. Árið 1999 vann hún hjá fjórum vinnuveitendum og hafði rúmar 75.000 krónur í árstekjur og árið 2000 hafði hún tæpar 290.000 krónur í árstekjur hjá þremur vinnuveitendum.
Stefnandi upplýsti við aðalmeðferð að hún hefði unnið víða eftir að hún lauk grunnskólanámi og ekki lengi á hverjum stað. Þetta hefði að hluta til stafað af því að hún hefði verið í óreglu en hún kvaðst nú laus úr henni og hefði svo verið frá árinu 2000. Hún kvaðst ekki vera í vinnu þessa stundina en vera á leið norður í Mývatnssveit þar sem hún myndi fá vinnu við fiskeldi. Aðspurð kvaðst hún síðast hafa unnið í sláturhúsi á Selfossi sl. haust.
Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og hún var þegar stefnandi slasaðist, áttu bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýttu vinnugetu sína þannig að þeir höfðu engar eða takmarkaðar vinnutekjur, að ákvarðast á grundvelli miskastigs. Eins og að framan var rakið vann stefnandi víða og hafði lágar vinnutekjur fyrir slysið. Eftir slysið virðist ekki hafa orðið breyting þar á, þrátt fyrir að því sé haldið fram að hún hafi haft í huga að hefja fasta vinnu við saltfiskvinnslu í ársbyrjun 1998 en slysið 27. desember 1997 hafi komið í veg fyrir að hún hæfi hana. Atvinnusaga stefnanda, fyrir og eftir slysið, bendir þannig ekki til þess að hún hafi stefnt að föstu starfi eða að hún hafi haft í huga að afla hærri tekna en að framan greinir. Hún hefur því nýtt vinnugetu sína á annan hátt. Það er því ekki fallist á það með henni að þær aðstæður séu fyrir hendi að bætur til hennar skuli ákvarða eftir reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna.
Stefndu verða því sýknaðir en málskostnaður þykir mega falla niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greiddur úr ríkissjóði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Stefndu, Friðfinnur Júlíus Tómasson og Tryggingamiðstöðin hf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Guðrúnar Lilju Önnudóttur.
Málskostnaður fellur niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda, 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greiddur úr ríkissjóði.