Hæstiréttur íslands
Mál nr. 285/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Málsástæða
- Hlutafélag
- Umboð
- Prókúra
- Skipting sakarefnis
- Aðfinnslur
|
|
Föstudaginn 25. maí 2012. |
|
Nr. 285/2012.
|
Keops Properties A/S (Guðmundur Ágústsson hrl.) gegn þrotabúi Landic Property hf. (Björn L. Bergsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Málsástæður. Hlutafélög. Umboð. Prókúra. Skipting sakarefnis. Aðfinnslur.
Danska félagið KP lýsti kröfu við slit þrotabús L hf. á grundvelli þess að L hf. hefði með svonefndum staðfestingarbréfum tekist á hendur skuldbindingar KP. Skiptastjóri þrotabúsins hafnaði kröfunni einkum með vísan til þess að framkvæmdastjóri L hf. hefði ekki haft nægilegt umboð til áðurgreindrar samningsgerðar við KP auk þess sem ágreiningur var um skuldbindingargildi skjalsins. Talið var að framkvæmdastjóri L hf. hefði farið út yfir takmarkanir á heimild hans samkvæmt ákvæðum 77. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, samþykktum félagsins og sérstöku umboði stjórnar félagsins honum til handa. Samkvæmt því voru áðurgreind skjöl ekki talin skuldbinda þrotabú L hf. og var kröfu KP hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. apríl 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2012, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu að fjárhæð 17.916.400.943 krónur, sem sóknaraðili lýsti við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði viðurkennd sem almenn krafa við gjaldþrotaskiptin. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði var ákveðið í þinghaldi 15. desember 2011 að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst í stað yrði aðeins leyst úr ágreiningi um efni og skuldbindingargildi svonefndra staðfestingarbréfa, sem sóknaraðili reisir kröfu sína á, og heimild framkvæmdastjóra Landic Property hf. til að gefa þau út. Áður en sakarefninu var skipt hafði héraðsdómari lýst með ákvörðun afstöðu til mótmæla sóknaraðila gegn því að málsástæða varnaraðila um umboðsskort framkvæmdastjórans kæmist að í málinu með því að hún væri of seint fram komin og hafnaði þannig kröfu sóknaraðila um „að vísa þegar í stað frá dómi“ þessari málsástæðu.
Samkvæmt 177. gr. laga nr. 21/1991 skal við þingfestingu ágreiningsmáls af því tagi sem hér um ræðir gefa sóknaraðila kost á að leggja fram greinargerð, þar sem komi fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar, ásamt frekari gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við. Að framkomnum gögnum sóknaraðila skal varnaraðila gefinn kostur á að leggja fram greinargerð af sinni hendi, þar sem fram komi kröfur hans ásamt gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við. Samkvæmt þessu verður grundvöllur málsins lagður með greinargerðum aðila í héraði og eru málsástæður sem þar eru hafðar uppi því ekki of seint fram komnar.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila málskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Það athugast að engin heimild stóð til þess að héraðsdómari tæki sérstaka ákvörðun undir rekstri málsins um hvort áðurgreind málsástæða varnaraðila fengi komist að, heldur bar að taka afstöðu til þess í efnisúrlausn um kröfur aðilanna. Þá hefur nokkur fjöldi skjala verið lagður fram á erlendu tungumáli án þýðingar á íslensku, þar á meðal svonefnd staðfestingarbréf, sem ágreiningur aðilanna snýst um. Þessi málatilbúnaður, sem er í andstöðu við 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, er vítaverður, en ekki er alveg næg ástæða til að vísa málinu frá héraðsdómi af þeim sökum.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Keops Properties A/S, greiði varnaraðila, þrotabúi Landic Property hf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2012.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 9. mars sl., var þingfest 1. apríl 2011.
Sóknaraðili er Keops Properties A/S, Danmörku.
Varnaraðili er þrotabú Landic Property hf., kt. 450599-3529.
Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að ,,fjárhæð 17.916.400.943“ verði samþykkt sem almenn krafa í þrotabúi varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili krefst sýknu af öllum kröfum sóknaraðila og málskostnaðar úr hendi hans.
Málsatvik
Landic Property hf. var fasteignafélag á Íslandi og átti eignir í dótturfélögum, m.a. í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Sóknaraðili, Keops Properties A/S mun vera dótturfélag eins af dótturfélögum varnaraðila, Landic Property A/S, Kongevejen 195B, 2840 Holte.
Bú Landic Property hf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. janúar 2010. Í búið var lýst 444 kröfum. Þar á meðal voru 249 kröfur samtals að fjárhæð 113.299.939.476 krónur, sem Michael Ziegler lögmaður lýsti í þrotabúið fyrir hönd danskra dótturfélaga, dótturdótturfélaga og dótturdótturdótturfélaga varnaraðila, en hann er einn af þremur skiptastjórum í dótturfélögum varnaraðila, sem tekin hafa verið til gjaldþrotaskipta í Danmörku. Kröfunum var öllum hafnað, en skiptastjóri tók ákvörðun um að einungis þremur málum yrði vísað til héraðsdóms til efnislegrar úrlausnar, og að úrlausnir í þessum þremur málum yrðu lagðar til grundvallar niðurstöðu í þeim 246 málum sem eftir stæðu.
Kröfulýsingar sóknaraðila í þrotabúið eru reistar á þremur yfirlýsingum eða staðfestingarbréfum, svokölluðum ,,comfort letters“ sem Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri varnaraðila skrifaði undir. Tvö bréfanna eru dagsett 19. maí 2008, en það þriðja 22. maí 2008. Staðfestingarbréfin eru á ensku og stíluð á hvern þann sem málið kann að varða. Fyrsta bréfið varðar Landic Property A/S og dótturfélög þess, annað bréfið varðar Keops Development A/S og dótturfélög þess og þriðja bréfið varðar Landic félög á nánar tilgreindum stöðum í Danmörku.
Það bréf sem lýtur að kröfu sóknaraðila í máli þessu, snýr að dótturfélagi varnaraðila, Landic Property A/S Kongevejen 195B, Holte og dótturfélögum þess félags. Þar segir m.a. að Landic Property hf., Kringlunni muni (we will):
monitor the financial situation of the Subsidiary including all it´s subdsidiaries
exercise our influence in the Subsidiary in a manner, that ensures that the Subsidiary is able to meet it´s obligations towards it´s creditors and
ensure that the Subsidiary have sufficient capital to meet their obligations towards their creditors, if neccesary by way of cash injection.
Yfirlýsing þessi er stíluð á ,,to whom it may concern“ og einnig segir í niðurlagi yfirlýsingarinnar: ,,This comfort letter is to be governed by Danish law“.
Sakarefni málsins hefur með bókun í þingbók 15. desember 2011, verið afmarkað við að fá skorið úr álitaefnum er lúta að ofangreindum staðfestingarbréfum, efni þeirra, skuldbindingargildi og heimildum framkvæmdastjóra til þess að rita undir þau, en þess var óskað af hálfu aðila að beðið yrði með úrlausn annars ágreinings.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveður að árið 2007 hafi farið að halla undan fæti í starfsemi félagsins og margra dótturfélaga varnaraðila. Ráðist hafi verið í endurskipulagningu félaganna undir stjórn varnaraðila. Til að skapa svigrúm og frið við kröfuhafa hafi verið ákveðið að varnaraðili gæfi út staðfestingarbréf, ,,comfort letter“ sem beint yrði til þeirra sem málið varðaði. Tvö fyrstu bréfin hafi verið gefin út 19. maí 2008, en þriðja bréfið 22. maí 2008 og endurútgefið og ítrekað 26. ágúst 2008. Bréfin séu öll áþekk og í þeim komi fram að varnaraðili ábyrgist að dótturfélögin standi við skuldbindingar sínar við kröfuhafa sína. Þau séu öll útgefin af varnaraðila og hafi framkvæmdastjóri varnaraðila ritað undir bréfin.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á þessum bréfum og kveður að þau feli ekki aðeins í sér loforð um aðstoð við dótturfélög varnaraðila heldur feli þau í sér ábyrgð á greiðslu skuldbindinga þess eða ígildi slíkrar ábyrgðar sem skuldbindandi sé fyrir varnaraðila.
Það liggi fyrir að staðfestingarbréfin hafi verið gefin út og einnig að tilgangur útgáfu þeirra hafi verið að gefa sóknaraðila andrými meðan félagið var að endurskipuleggja rekstur sinn, varnaraðila og annarra dótturfélaga. Með útgáfu bréfanna þriggja hafi því kröfuhafar verið fengnir til að halda að sér höndum gegn loforði varnaraðila um lausn á greiðsluvanda þeirra.
Með kröfulýsingu sinni hafi sóknaraðili lagt fram lögfræðilegt álit Tinu Kang, aðstoðarmanns skiptastjóra sóknaraðila, um gildi staðfestingarbréfanna og túlkun þeirra samkvæmt dönskum rétti. Niðurstaða álitsins hafi verið að enginn vafi léki á skuldbindingargildi staðfestingarbréfanna samkvæmt dönskum rétti. Sóknaraðili óskaði einnig eftir áliti Torsten Iversen prófessors við lagadeild háskólans í Árósum, á nánar tilgreindum spurningum. Sóknaraðili kveður að umsögn fræðimannsins sé lögð fram með greinargerð sinni og teljist hluti hennar. Sóknaraðili áréttar að samkvæmt staðfestingarbréfunum sjálfum sé mælt fyrir um að við túlkun þeirra skuli fara að dönskum lögum og danskri lagaframkvæmd. Niðurstaða hans um skuldbindingargildi staðfestingarbréfanna sé afdráttarlaus. Telji hann að yfirskrift bréfanna skeri ekki úr um það hvort í bréfinu felist lagaleg skuldbinding samkvæmt dönskum rétti, heldur sé fyrst og fremst afgerandi hvert orðalag yfirlýsingarinnar sé. Orðalag yfirlýsingarinnar sé með þeim hætti að þar sé ekki aðeins lofað að dótturfélagið hafi nægt fjármagn til að standa við skuldbindingar gagnvart öllum sem málið varðar, heldur einnig hvernig staðið verði við loforðið, það er með ,,innspýtingu fjármuna“, ef þörf er á. Hér sé ekki um að ræða yfirlýsingu sem einungis beinist að ,,áframhaldandi starfsemi“ heldur beinlínis að því að skuldbindingarnar verði efndar. Að mati fræðimannsins fæli staðfestingarbréfið í sér loforð um að sjá öllum dótturfélögunum fyrir fjármunum, gerðist þess þörf, til þess að dótturfélögin gætu staðið við skuldbindingar sínar.
Þá kveður sóknaraðili að sú spurning hafi verið lögð fyrir fræðimanninn hvort varnaraðili væri skuldbundinn til að greiða afskrifaðar viðskiptakröfur dótturfélaga sóknaraðila hjá sóknaraðila, eða að öðrum kosti að bæta tjón dótturfélagsins í kjölfar brests á framfylgni staðfestingarbréfsins. Hafi fræðimaðurinn talið að hægt væri að leggja fram slíka kröfu og að móðurfélagið væri skuldbundið til greiðslu, annað hvort á grundvelli þess loforðs sem fram kæmi í yfirlýsingunni, eða það væri skaðabótaskylt á þeirri forsendu að það efndi ekki það bindandi loforð sem það hefði gefið með staðfestingarbréfinu. Hafi fræðimaðurinn talið það styrkja þessa túlkun að staðfestingarbréfin séu ekki stíluð á tiltekinn aðila, heldur til þess er málið varði og nái það til allra dótturfélaganna er tengist félaginu með beinum eða óbeinum hætti.
Sóknaraðili kveður kröfu sína byggða á viðskiptareikningi varnaraðila og staðfestingarbréfunum. Verði krafan ekki samþykkt á grundvelli þess að um skuldbindandi loforð hafi verið að ræða, er á því byggt að varnaraðili hafi bakað sér skaðabótaábyrgð með því að efna ekki skuldbindinguna sem þar komi fram. Tjónið nemi lýstri fjárhæð kröfunnar.
Sóknaraðili tekur fram að í alþjóðarétti sé gerður skýr greinarmunur á annars vegar viljayfirlýsingu og hins vegar staðfestingarbréfum. Viljayfirlýsing lýsi fyrirætlun aðila um að ganga til samninga eða til ákveðinna verka. Staðfestingarbréf sé næsta skref viðskipta og feli yfirleitt í sér að skilyrði viljayfirlýsingarinnar hafi verið rutt úr vegi og aðilar ætli að ganga frá endanlegum samningi. Það ráðist af orðalagi staðfestingarbréfsins að hvaða marki aðili sé skuldbundinn til að ganga frá samningi. Í þessu tilviki leiki enginn vafi á því.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til umsagnar Torsten Iversen og þeirra lagaákvæða sem hann tiltaki, sem og þeirra dóma sem í umsögn hans eru raktir.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili kveður að kröfu sóknaraðila sé svo lýst að um sé að ræða reikningsjöfnuð milli kröfulýsanda og Landic Property A/S, sem gerð hafi verið grein fyrir í yfirliti yfir færslur á bókhaldslykli úr kerfum kröfulýsanda. Samkvæmt lýsingu á einstökum færslum virðist þær vera af mjög ólíkum toga, en ekki verði ráðið af yfirlitinu að þessar færslur sem slíkar tengist samskiptum eða viðskiptum milli sóknar-og varnaraðila. Greind kröfulýsing sé fyrst og fremst grundvölluð á þremur yfirlýsingum sem ritað hafi verið undir af þáverandi framkvæmdastjóra varnaraðila, Skarphéðni Berg Steinarssyni. Ekkert liggi fyrir um að framkvæmdastjóra hafi verið veitt sérstakt umboð þáverandi stjórnar varnaraðila til að undirrita yfirlýsingarnar, auk þess sem málefnið hafi ekki verið til umfjöllunar á vettvangi stjórnar varnaraðila. Þar hafi aldrei verið minnst á útgáfu yfirlýsinga af þessu tagi, hvað þá að framkvæmdastjóranum hafi verið falið að gefa slíkar yfirlýsingar út.
Varnaraðili bendir á, að í samþykktum félagsins, eins og þær hafi verið í síðari hluta maí 2008, sé fjallað um hlutverk framkvæmdastjóra í grein 4.4. Þar sé kveðið á um að framkvæmdastjóri hafi með höndum stjórn á daglegum rekstri og komi þar fram fyrir hönd félagsins í öllum málum er varði venjulegan rekstur. Sérstaklega er áréttað að hinn daglegi rekstur taki ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar.
Að mati varnaraðila þurfi ekki að velkjast í vafa um það að útgáfa yfirlýsingar sem tekist er á um í máli þessu, sé bæði óvenjuleg ráðstöfun og mikils háttar, enda ótakmörkuð bæði er varðar tíma og fjárhæðir. Þess sé einnig getið í samþykktum varnaraðila að ákvarðanir í slíkum málum geti framkvæmdastjóri aðeins tekið samkvæmt sérstakri heimild stjórnar, sem ekkert liggi fyrir um að hafi verið veitt. Gögn þrotabúsins bendi til hins öndverða. Ef slík ákvörðun sé tekin, þar sem hún þoli alls ekki bið, beri framkvæmdastjóra að tilkynna stjórn tafarlaust um slíkar ráðstafanir. Ekkert liggi fyrir um að slíkt hafi verið tilkynnt.
Samþykktir varnaraðila séu opinberlega skráðar hjá fyrirtækjaskrá eins og lög áskilji, sbr. t.d. 14. gr. laga nr. 2/1995. Þær séu því aðgengilegar hverjum þeim sem vilji kynna sér málefni varnaraðila, hvort sem er á íslensku eða ensku, en samþykktirnar séu birtar á báðum tungumálunum. Þessi ákvæði samþykktanna séu að auki í góðu samræmi við 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995. Á því er byggt af hálfu varnaraðila að sóknaraðili geti ekki skákað í skjóli grandleysis hvað heimildarskort framkvæmdastjórans snerti. Slíkt sé ekki tækt, andspænis samþykktum varnaraðila í neinu tilviki. Eigi það sérstaklega við um sóknaraðila, þar sem hann, sem náskyldur aðili hafi mátt vera í góðri aðstöðu til að grennslast fyrir um þetta.
Þar sem undirritun yfirlýsinga sem þessara samrýmist engan veginn heimildum framkvæmdastjóra samkvæmt samþykktum varnaraðila, hefði hverjum þeim sem vildi byggja á þeim rétt, borið að ganga úr skugga um að framkvæmdastjóranum hefði verið veitt sérstök heimild til að rita undir yfirlýsingarnar af hálfu stjórnar, sbr. t.d. 2. tl. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995. Það að láta slíkt undir höfuð leggjast verði ekki lagt öðrum til lasts en sóknaraðila. Verði fallist á að nefndar yfirlýsingar feli í sér jafn víðtæka skuldbindingu og sóknaraðili haldi fram, sé á því byggt að erfitt sé að finna betra dæmi en það sem hér um ræði, um ákvörðun sem teljist óvenjuleg eða mikils háttar.
Þá er bent á að það sé meðal skilgreinds hlutverks stjórnar varnaraðila að rita firma félagsins samkvæmt samþykktum, sbr. grein 4.2., sbr. einnig 74. gr. laga nr. 2/1995, en skilmerkilega sé gerð grein fyrir því í opinberlega birtum gögnum hlutafélagaskrár, að firmað riti fjórir stjórnarmenn saman sem þannig falli að 2. mgr. 74. gr. sömu laga. Framkvæmdastjóri hafi ekki verið stjórnarmaður og því ekki einn af þeim sem ritað hafi firma félagsins.
Í sömu skráningu komi fram að framkvæmdastjóri njóti prókúruumboðs. Ekkert komi hins vegar fram um að það umboð sé annað og rýmra en lög geri ráð fyrir, sbr. 25. gr. laga nr. 42/1903, þar sem afmarkað sé að prókúruumboð nái hvorki til að selja eða veðsetja eignir umbjóðanda. Ekki sé unnt að byggja undirritun undir hinar umþrættu yfirlýsingar á svo afmörkuðu umboði sem prókúruumboð er. Úr því að sölu- og veðsetningarheimild sé ekki til að dreifa, felist það ekki í prókúruumboði að gefa út galopna ábyrgðaryfirlýsingu.
Í þessu samhengi verði einnig að horfa til þess að eftir að yfirlýsingarnar hafi verið gefnar út hafi sóknaraðili ekki látið á þær reyna með fjárkröfu. Það hafi fyrst verið við greiðsluþrot varnaraðila sem reynt hafi verið að halda fram ábyrgð varnaraðila á öllum skuldum sóknaraðila. Aðrir en dótturfélögin hafi ekki haft uppi slíka kröfugerð og sýni það að mati varnaraðila betur en flest annað hvaða augum beri að líta þessar yfirlýsingar, kröfuhafar haldi sig við þær tryggingar sem þeir hafi, hver fyrir sig í sínum kröfum.
Varnaraðili telji yfirlýsingar þessar með öllu óskuldbindandi og þar með einnig yfirlýsingu um að dönsk lög eigi við um þær. Því beri fyrst og fremst að líta til íslensks réttar í máli þessu. Jafnvel þótt talið væri að efni yfirlýsinganna lyti dönskum rétti hefði það ekki áhrif á heimildarleysi framkvæmdastjóra varnaraðila. Varnaraðili er íslenskt fyrirtæki með lögheimili á Íslandi og hafi alla tíð lotið íslenskum lögum um skipan mála sinna. Íslensku hlutafélagalögin gildi óskorað í málinu, bæði fyrrgreind ákvæði sem og ákvæði 77. gr. laganna, þar sem kveðið sé á um að löggerningur bindi ekki félag ef framkvæmdastjóri hafi farið út fyrir þær takmarkanir á heimild sinni sem ákveðnar eru í lögunum. Jafnvel þótt fallist yrði á að reglur danskra laga ættu við um efni nefndra yfirlýsinga, gæti slíkt aldrei gilt um þær reglur sem eigi við samkvæmt birtum samþykktum félagsins og íslenskum lögum um það hvaða heimildir og undirskriftir þurfi til að binda félagið og rita firma þess.
Engar venjulegar umboðsreglur skjóti heldur rótum undir kröfugerð sóknaraðila, hvorki samkvæmt lögum nr. 7/1936, né dönskum lögum, svo sem ,,lov om avtaler og andre retshandler på formuerettens område“ nr. 600/1986 með síðari breytingum. Ákvæði beggja laga um umboð séu eins.
Sömu sögu sé að segja um ólögfestar reglur kröfuréttar, þær séu að mati varnaraðila svo ámóta samkvæmt íslenskum og dönskum rétti að einu megi gilda. Standi líka vani til þess hérlendis að líta til danskra fræðimanna við túlkun á slíkum reglum. Þeir dómar sem vitnað hafi verið til af hálfu sóknaraðila feli ekki í sér fordæmi sem leiði til greiðsluskyldu varnaraðila.
Varnaraðili telur inntak skuldbindingar yfirlýsingarinnar vera takmarkað og túlki sóknaraðili, sem og lögmaður og prófessor á hans vegum, yfirlýsingar þessar allt of rúmt. Þær séu túlkaðar sem óskilyrtar ábyrgðaryfirlýsingar sem feli í sér skilyrðislausa greiðsluskyldu. Að auki sé óhjákvæmilegt að mótmæla framlagningu þessa álits. Samantekt Torsten Iversen hafi ekkert sönnunargildi í málinu eða vægi umfram önnur fræðiskrif. Sérfræðisamantektir, sérstaklega á sviði lögfræði eigi ekki erindi meðal framlagðra dómskjala, enda hvorki um skjal né sýnilegt sönnunargagn að ræða. Bent er á, að í fræðiskrifum þessum sé algerlega litið fram hjá tilefni útgáfu yfirlýsinganna. Þær séu ekki gefnar út í tilefni af lántöku eða kaupum eða einhverri réttindaaukningu dóttur- og dótturdótturfélaga. Eins og tilefnið sé skilgreint af hálfu sóknaraðila virðist markmiðið hafa verið það helst að komast hjá innheimtuaðgerðum vegna skuldbindinga sem þegar hafi verið til staðar og skapa frið um reksturinn á yfirstandandi rekstrarári, þ.e. árinu 2008. Að mati varnaraðila fari því fjarri að við slíkt tækifæri geti kröfuhafar og enn síður dóttur- og dótturdótturfélög haft réttmætar væntingar til þess að móðurfélag gangi í óskilyrta ótímabundna og óafmarkaða sjálfskuldarábyrgð. Í yfirlýsingum þessum felist ekki skilyrðislaus móðurfélagsábyrgð.
Þegar mat sé lagt á hvaða væntingar sé réttmætt að gera til inntaks yfirlýsingarinnar verði einnig að horfa til þess að varnaraðili hafi verið félag sem rekið hafi starfsemi og átt eignir í fjórum löndum. Þar af hafi starfsemin í Danmörku verið mikil. Ef jafnvíðtæk ábyrgðaryfirlýsing hefði verið gefin út og sóknaraðili telji, hefði það riðið varnaraðila að fullu ef starfsemin í Danmörku hefði farið illa. Kröfuhafar dönsku félaganna og þau sjálf hafi mátt vita að engin rök stæðu til þess að standa svo að máli. Slík framganga stríddi gegn inntaki þess að reka starfsemi á hlutafélagaformi og gegn þeirri grunnhugsun að dreifa áhættunni í rekstrinum með því að hafa starfsemina í mörgum félögum. Sóknaraðila sé ekki tækt að bera fyrir sig grandleysi í þessum efnum, enda sé honum kunnugt um þennan hátt á starfsemi varnaraðila. Hefði sóknaraðila því verið brýnt að ganga úr skugga um það þegar yfirlýsingin var gefin út, að hún fæli í sér ótakmarkaða móðurfélagsábyrgð ef byggja ætti á henni sem slíkri.
Sé rýnt í texta yfirlýsingarinnar feli hún fyrst og fremst í sér áskilnað um það hvernig varnaraðili hyggist ganga fram gagnvart dóttur- og dótturdótturfélögum til þess að rekstur þeirra sé í góðu horfi. Þá sé ákvæði um það að tryggja dótturfélögunum nægt fjármagn til að mæta skuldbindingum sínum gagnvart kröfuhöfum með ,,peningainnspýtingu“. Við fyrstu sýn gæti sá texti virst sem mjög víðtæk skuldbinding, en þar með væri einnig búið að slíta þessa setningu úr samhengi við annað efni skjalsins og úr samhengi við tilefni útgáfu þessa skjals. Skjal þetta sé ekki ábyrgðaryfirlýsing, það sé ekki tryggingarskjal og það sé ekki fjármálagerningur í neinum venjulegum skilningi þess orðs. Það skorti mjög hugtaksskilyrði þess að geta talist viðskiptabréf. Slík orð séu hvergi notuð í skjalinu og skjalið stílað á hvern þann sem hafa vill, án afmörkunar. Sú túlkun sóknaraðila að skjalið feli í sér óskilyrta, ótakmarkaða og ótímasetta sjálfskuldarábyrgð varnaraðila sé alltof víðtæk og viðurhlutamikil. Að auki sé frágangur skjalsins með þeim hætti að enginn fagmaður í viðskiptum myndi byggja á því sem fjárskuldbindingu, undirritanir á skjalinu séu ekki vottaðar, orðalag ónákvæmt og ekkert umboð sé til undirritunar eða staðfesting stjórnar varnaraðila. Yfirlýsing þess verði því ekki lögð til grundvallar greiðsluskyldu varnaraðila.
Þá sýnist ljóst að skjalið feli ekki í sér skuldbindingar út yfir gröf og dauða. Þrotabú sé í eðli sínu ófært um þau verk sem lýst er í skjalinu, þar sem tilvist þrotabúa taki fyrst og fremst mið af því að koma eignum í verð og ráðstafa andvirði þeirra.Verkefni þrotabúa falli seint að þeim yfirlýsingum um athafnir sem skjalið feli í sér. Ef einhver greiðsluskylda verði reist á þessari yfirlýsingu, sé það grundvallarforsenda að varnaraðili sé í aðstöðu til að efna þá skyldu. Gjaldþrota félag sé ekki í þeirri aðstöðu og leiði það til þess að sýkna verði varnaraðila af kröfu sóknaraðila.
Niðurstaða
Þar sem tekin var til greina sú krafa aðila að aðeins yrði lagður fyrir dóminn tilgreindur, afmarkaður ágreiningur, verður í niðurstöðu aðeins fjallað um málsástæður varðandi þann ágreining, en ekki um aðrar málsástæður aðila.
Krafa sóknaraðila er reist á svokölluðu staðfestingarbréfi, ,,comfort letter“, sem framkvæmdastjóri sóknaraðila, Skarphéðinn Berg Steinarsson undirritaði 19. maí 2008. Þar er því m.a. lýst yfir að varnaraðili muni tryggja dótturfélaginu og dótturfélögum þess nægt fjármagn til þess að mæta skuldbindingum sem á því hvíli og ef nauðsyn krefji með því að félaginu yrði lagt til fé. Í niðurlagi staðfestingarbréfs þessa segir eftirfarandi: This comfort letter is to be governed by Danish law.
Ágreiningur er um skuldbindingargildi þessa staðfestingarbréfs og heimildir framkvæmdastjóra til að undirrita bréfið.
Sóknaraðili telur að bréf þetta feli ekki einungis í sér loforð um greiðslu við dóttur-, dótturdóttur- og dótturdótturdótturfélög varnaraðila, heldur feli það í sér ábyrgð á greiðslu skuldbindinga þeirra eða ígildi slíkrar ábyrgðar, sem skuldbindandi sé fyrir varnaraðila.
Varnaraðili telur á hinn bóginn að meginágreiningsefni máls þessa snúist um hvort framkvæmdastjóri félagsins hafi haft umboð til þess að undirrita slíkt bréf eða yfirlýsingu, en einnig um inntak og efni bréfsins og skuldbindingargildi þess.
Fyrir dómi rakti framkvæmdastjóri varnaraðila tildrög þessa bréfs, ásamt þeim tveimur öðrum bréfum sem liggja frammi í málinu. Kvað hann tildrögin hafa verið þau að við uppgjör og frágang ársreiknings ársins 2007 hjá Landic Property Danmark, sem þá hefði heitið Keops, hefði borið nauðsyn til að leggja fram þetta bréf, til þess að athugasemdalaus áritun endurskoðandans í Danmörku á ársreikning félagsins fengist. Bréfin hafi verið útbúin af Klaus Lund, lögfræðingi félagsins í Kaupmannahöfn. Framkvæmdastjórinn vissi ekki hvort stjórnarformaður varnaraðila hefði vitað um þessi bréf og mundi ekki hvort þau hefðu verið send til stjórnar varnaraðila. Þá mundi hann ekki eftir því að bréfin hefðu verið rædd í stjórn varnaraðila, enda hefði ekki verið ástæða til þess, þar sem tilurð bréfanna yrði rakin til uppgjörs og frágangs á ársreikningi.
Kristín Jóhannesdóttir stjórnarformaður varnaraðila kvaðst nýlega hafa séð umrædd bréf. Hún taldi af og frá að í bréfum þessum fælist ábyrgð á öllum skuldbindingum dótturfélaganna, um væri að ræða stuðningsyfirlýsingu á einblöðungi, gefna út vegna endurskoðunar á dótturfélögum varnaraðila.
Það orðalag sem fram kemur í niðurlagi staðfestingarbréfsins, ,,This comfort letter is to be governed by Danish law“ breytir í engu því að varnaraðili er íslenskt félag með lögheimili á Íslandi. Samþykktir þess eru gerðar á grundvelli íslenskra laga um hlutafélög og við túlkun á heimildum framkvæmdastjóra til að skuldbinda félagið og rita firma þess verður að hafa mið af íslenskri löggjöf um það efni.
Í 1. tölulið 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög segir að ef sá sem kemur fram fyrir hönd félags samkvæmt 74. eða 75. gr. gerir löggerning fyrir þess hönd bindi sá gerningur félagið nema hann hafi farið út fyrir þær takmarkanir á heimild sinni sem ákveðnar séu í sömu lögum. Í 75. gr. laganna segir að framkvæmdastjóri geti ávallt komið fram fyrir hönd félagsins í málum sem eru innan verksviðs hans samkvæmt ákvæðum 68. gr. laganna, en þar segir í 2. mgr. að framkvæmdastjóri annist daglegan rekstur félagsins og skuli hann í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hafi gefið. Hinn daglegi rekstur taki ekki til ráðstafana sem séu óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir geti framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana félagsstjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Í slíkum tilvikum skuli félagsstjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.
Samkvæmt hlutafélagaskrá hafði framkvæmdastjóri varnaraðila prókúruumboð, en firmað rituðu fjórir stjórnarmenn saman. Í málinu hafa verið lagðar fram samþykktir félagsins, sem bæði eru á ensku og íslensku, þar sem kveðið er svo á um í grein 4.4. að framkvæmdastjóri hafi með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og komi fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varði venjulegan rekstur. Hinn daglegi rekstur taki ekki til ákvarðana sem séu óvenjulegar eða mikils háttar, en slíkar ákvarðanir geti framkvæmdastjóri aðeins tekið samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn félagsins, nema því aðeins að það sé andstætt hagsmunum félagsins að bíða ákvörðunar stjórnar þess. Framkvæmdastjóri skuli tafarlaust tilkynna stjórn félagsins slíkar ráðstafanir.
Af gögnum málsins og framburði vitna fyrir dóminum verður ráðið að undirritun framkvæmdastjóra á fyrrgreint staðfestingarbréf, sem án alls vafa var ráðstöfun sem telja verður mikils háttar, var ekki borin undir stjórn varnaraðila, í samræmi við fyrrgreint ákvæði samþykkta félagsins og ákvæði 2. mgr. 68. gr. hlutafélagalaga.
Í málinu hefur verið lagt fram sérstakt umboð stjórnar varnaraðila til framkvæmdastjóra félagsins, ,,Mandate and authority of the CEO of Landic Property hf.“, sem þinglýst hefur verið í desember 2007. Í 2. gr. þessa umboðs segir:
The Board of Directors of Landic wishes to sructure the organisation of the Company by giving the Chief Executive Officer (hereinafter called the CEO) mandate and authority, in accordance with the Icelandic Companies Act, no 2/1995 (especially Article 68, paragraph 2), The Articles of Association of the Company (specially Article 4, paragraph 4.4.) and the Board´s rules of Procedure (especially Article 3, and in particular paragraphs 3.2 and 3.5) to manage the daily operations of the Company. All decisions having major consequences on the Company or extraordinary matters of major importance shall be brought to the attention of the Board of Directors if possible.
Þannig segir í lokamálslið 2. gr. framangreinds umboðs, að bera skuli allar ákvarðanir sem hafi mikil áhrif á félagið eða ákvarðanir sem eru óvenjulegar eða meiriháttar undir stjórn félagsins, ef mögulegt er.
Í 8. gr. umboðsins segir að stjórn félagsins veiti framkvæmdastjóra umboð til að ,,framkvæma eftirfarandi sem hluta af daglegri starfsemi félagsins:
8.1 Að undirrita einstaka samninga tengda fjárfestingum, eða sölu og kaupum á eignum, allt að verðmæti 50.000.000 evra í hverju tilviki.
8.2. Að undirrita einstaka lán og lánasamninga, eða aðrar fjárskuldbindingar, svo sem veðsamninga og ábyrgðir, allt að verðmæti 50.000.000 evra, í hverju tilviki.
8.3. Að undirrita alla leigusamninga
8.4. Alla aðra einstaka samninga sem tengjast starfsemi félagsins allt að verðmæti 50.000.000 evra í hverju tilviki“.
Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að ákveðnar takmarkanir voru á umboði framkvæmdastjóra til þess að skuldbinda félagið, bæði samkvæmt grein 4.4 í samþykktum félagsins, sem er nær samhljóða ákvæði 2. mgr. 68. gr. hlutafélagalaga, og einnig samkvæmt sérstöku umboði stjórnar varnaraðila til framkvæmdastjóra. Í 2. tölulið 1. mgr. 77. gr. hlutafélagalaga kemur fram að ef sá sem kemur fram fyrir hönd félagsins samkvæmt ákvæðum 74. og 75. gr. laganna geri löggerning fyrir hönd þess, bindi sá gerningur félagið nema hann hafi farið út fyrir takmakarnir á heimild sinni, sem ákveðnar eru í lögunum, eða hann hafi farið út fyrir takmarkanir á heimild sinni á annan hátt, enda hafi viðsemjandi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn og telja verði ósanngjarnt að viðsemjandi haldi fram rétti sínum. Sóknaraðili er dótturdótturfélag varnaraðila og mátti, með vísan til framanrakinna samþykkta varnaraðila og sérstaks umboðs til framkvæmdastjóra frá stjórn, vera ljóst að framkvæmdastjóri varnaraðila hafði ekki heimild til svo gríðarmikillar, ótímabundinnar og ótakmarkaðrar skuldbindingar félagsins sem byggt er á í málinu, og ósanngjarnt er að sóknaraðili haldi fram þeim rétti sínum. Kröfur þær sem dóttur- og dótturdótturfélög varnaraðila hafa lýst á grundvelli staðfestingarbréfanna nema rúmlega 113 milljörðum íslenskra króna, en sú fjárhæð er langt umfram hámark þeirrar heimildar sem framkvæmdastjóri hefur til þess að skuldbinda varnaraðila samkvæmt 8. gr. sérstaks umboðs til framkvæmdastjóra.
Þar sem framkvæmdastjóri varnaraðila fór samkvæmt framangreindu út fyrir takmarkanir á heimild sinni samkvæmt ákvæðum 77. gr. hlutafélagalaga, samþykktum varnaraðila og sérstöku umboði sínu, skuldbindur staðfestingarbréf það sem byggt er á málinu ekki varnaraðila. Þegar af þessari ástæðu verður kröfu sóknaraðila hafnað, en með hliðsjón af atvikum máls þessa verður málskostnaður látinn niður falla milli aðila, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.o.fl..
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Guðmundur Ágústsson hrl. og af hálfu varnaraðila flutti málið Björn L. Bergsson hrl.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu sóknaraðila, Keops Properties A/S sem lýst var í þrotabú varnaraðila, Landic Property hf., er hafnað.
Málskostnaður fellur niður milli aðila.