Hæstiréttur íslands
Mál nr. 228/2003
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Starfslokasamningur
- Trúnaðarskylda
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2003. |
|
Nr. 228/2003. |
Vífilfell hf. (Ástráður Haraldsson hrl.) gegn Hrafni Haukssyni (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) |
Vinnusamningur. Starfslokasamningur. Trúnaðarskylda.
H, sem gert hafði starfslokasamning við vinnuveitanda sinn, V, skýrði V frá starfstilboði sem hann hafði fengið frá samkeppnisaðilanum Ö. Að ósk V lét H þegar af störfum, en krafðist fullra efnda starfslokasamningsins. H var hvorki talinn hafa vanefnt samninginn né að þau atvik væru er valdið gætu ógildi hans. Ekki var á það fallist með V að draga mætti þá ályktun af reglum, sem giltu um laun í uppsagnarfresti, að draga skyldi laun H hjá Ö frá umsömdum greiðslum V til H samkvæmt starfslokasamningnum. Hvorki orðalag samningsins né upplýsingar um tilurð hans studdu heldur slíkan frádrátt. Kröfur H voru samkvæmt þessu teknar til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júní 2003. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hafði stefndi starfað sem fjármálastjóri hjá Sól-Víking hf. frá árinu 1997 þegar það fyrirtæki sameinaðist áfrýjanda í júnímánuði 2001. Eftir sameininguna var hann gerður að undirmanni Sveins Ragnarssonar, fjármálastjóra áfrýjanda. Ræddi hann eftir sameininguna við yfirmann sinn um að hann vildi láta af störfum hjá áfrýjanda en hélt þeim þó áfram um sinn að beiðni Sveins. Stefndi kvaðst í skýrslu fyrir héraðsdómi hafa leitað til ráðningarþjónustunnar Mannafls og sótt sumarið 2001 fyrir hennar milligöngu um tvö störf, en ekki fengið. Í lok október þess árs ræddi Hilmar Garðar Hjaltason, starfsmaður Mannafls, við stefnda og sagði honum að Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf. væri að leita að fjármálastjóra. Lýsti stefndi áhuga sínum á starfinu og fór í viðtal vegna þess hjá Hilmari Garðari, sem Jón Diðrik Jónsson forstjóri Ölgerðarinnar var viðstaddur. Ber stefnda og Jóni Diðrik saman um að þetta viðtal hafi farið fram í lok október 2001. Hilmar Garðar telur að það hafi verið í lok október eða byrjun nóvember þess árs. Ber þeim öllum saman um að stefnda hafi verið sagt að viðtalinu loknu að rætt yrði við fleiri umsækjendur og málið kannað nánar.
Eftir sameiningu félaganna voru gerðir starfslokasamningar við allnokkra starfsmenn Sól-Víkings hf. Sveinn Ragnarsson sagði í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hann og stefndi hafi verið búnir að ræða hvernig frágangur yrði á slíkum samningi milli aðila þessa máls vegna starfsloka stefnda og hafi hann „stillt“ slíkum samningi „upp“ eftir þær viðræður. Í skýrslu stefnda kom fram að þeir Sveinn hafi rætt um frágang slíks starfslokasamnings síðsumars 2001. Eftir fyrrgreint viðtal við stefnda vegna fjármálastjórastarfsins hjá Ölgerðinni kvað stefndi Hilmar Garðar hafa ráðlagt sér að „drífa það af“ að ljúka gerð starfslokasamnings við áfrýjanda. Ekki hafi þó reynst unnt að koma á fundi milli stefnda og Sveins til að ganga frá slíkum samningi fyrr en að morgni þriðjudagsins 6. nóvember 2001. Jón Diðrik kvaðst hafa hringt í stefnda tveimur eða þremur dögum eftir viðtalið til að fullvissa sig um að stefndi hefði áhuga á starfinu hjá Ölgerðinni áður en endanleg ákvörðun yrði tekin. Kvaðst hann hafa beðið stefnda að hafa við sig samband aftur þegar hann væri búinn að ganga frá starfslokum sínum hjá áfrýjanda. Stefndi telur að þeir hafi átt þetta samtal fyrsta sunnudag í nóvember 2001. Að morgni þriðjudagsins 6. nóvember 2001 hittust stefndi og Sveinn á skrifstofu þess síðarnefnda og undirrituðu starfslokasamning stefnda. Er efnisatriðum samningsins, sem dagsettur er 4. nóvember 2001, lýst í héraðsdómi.
Eftir fund þeirra Sveins hringdi stefndi í Jón Diðrik, sem bað hann að koma á sinn fund, þar sem Jón Diðrik gerði stefnda tilboð um að taka við starfi fjármálastjóra Ölgerðarinnar. Stefndi kveðst hafa tekið sér umhugsunarfrest til næsta dags en hringdi síðar sama dag í Svein og skýrði honum frá starfstilboði Ölgerðarinnar. Kveður stefndi Svein þá hafa beðið sig að láta strax af störfum hjá áfrýjanda. Lýsti Sveinn viðbrögðum sínum við þessum fréttum svo fyrir héraðsdómi að hann hafi sagt við stefnda að „það væri alveg ljóst að hann gæti ekki unnið fyrir okkur og aðalsamkeppnisaðila okkar á sama tíma. Það væri þá best að hann mundi bara fara að vinna hjá Ölgerðinni ef það væri hans ósk.“ Hafi þeir ákveðið að hittast síðar sama dag á skrifstofu stefnda til að ganga frá afhendingu lykla og öðru tengdu brotthvarfi hans. Hóf stefndi störf hjá Ölgerðinni næsta dag.
II.
Áfrýjandi telur að stefndi hafi vanefnt starfslokasamninginn annars vegar með því að hafa brotið gegn trúnaðarskyldum sínum við stefnda og hins vegar hafi hann ekki sinnt eða getað sinnt vinnuskyldu sinn hjá stefnda eftir að hann réð sig til Ölgerðarinnar. Þá telur áfrýjandi að starfslokasamningurinn sé ógildur vegna brostinna forsendna sem og á grundvelli 30. gr. og 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum.
Ljóst er af framburði Jóns Diðriks fyrir héraðsdómi að ekki var frá því gengið að stefndi hæfi þá þegar störf hjá Ölgerðinni og að stefndi hefði því getað sinnt starfi sínu hjá áfrýjanda samkvæmt ákvæðum starfslokasamningsins þrátt fyrir ráðningu sína þar. Mátti stefndi skilja framangreind viðbrögð Sveins þannig að ekki væri óskað frekara starfsframlags af hans hálfu í þágu áfrýjanda. Hvorki voru lagðar skorður við því í ráðningarsamningi stefnda né starfslokasamningi hans að hann réði sig til fyrirtækis í samkeppni við áfrýjanda. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að stefndi hafi skýrt frá upplýsingum, sem hann var bundinn trúnaði um gagnvart áfrýjanda. Með þessum athugasemdum, vísan til þeirra málsatvika, sem að framan eru rakin og forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans stefndi verði hvorki talinn hafa vanefnt samninginn né að þau atvik séu er valdið geti ógildi hans.
Áfrýjandi heldur því einnig fram að sýkna beri hann af fjárkröfu stefnda vegna þess að hann hafi ekki orðið fyrir tjóni. Það sé almenn grundvallarregla að frá bótum vegna ólögmætrar uppsagnar skuli draga þær tekjur sem starfsmaður hefur á uppsagnarfresti. Á sama hátt sé fyrir því dómvenja að við lögmæta uppsögn skuli draga frá launum á uppsagnarfresti þær tekjur sem starfsmaður afli sér frá öðrum. Hið sama telur hann gilda varðandi starfslokasamninga, sem séu í raun ráðningarsamningar sérstaks eðlis. Hafi stefndi haft að minnsta kosti jafn há laun í starfi sínu hjá Ölgerðinni á tímabili starfslokasamningsins og þau, sem kveðið hafi verið á um í samningnum. Með samningi málsaðila, sem undirritaður var 6. nóvember 2001, var kveðið á um starfslok stefnda og meðal annars greiðslu launa til hans vegna starfslokanna. Starfslokasamningnum verður því ekki jafnað til ráðningarsamnings heldur var með honum þvert á móti samið um lok þess ráðningarsamnings, sem í gildi hafði verið milli aðila. Ályktun um að draga skuli laun stefnda hjá Ölgerðinni á gildistíma starfslokasamningsins frá þar umsömdum greiðslum verður því ekki dregin af þeim reglum, sem gilda um laun á uppsagnarfresti. Þar sem ekki er heldur neina stoð að finna fyrir slíkum frádrætti í orðalagi samningsins né upplýsingum um tilurð hans verður ekki fallist á þessa málsástæðu áfrýjanda. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Vífilfell hf., greiði stefnda, Hrafni Haukssyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. febrúar síðastliðinn, er höfðað 3. júní 2002 af Hrafni Haukssyni, Víðiási 6, Reykjavík gegn Vífilfelli hf., Stuðlahálsi 1, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.026.679 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 545.359 krónum frá 1. nóvember 2001 til 1. desember 2001, af 1.139.541 krónu frá þeim degi til 1. janúar 2002, af 1.768.587 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2002, af 2.397.633 krónum frá frá þeim degi til 1. mars 2002 og af 3.026.679 krónum frá frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að gefa út afsal til stefnanda fyrir bifreiðinni UZ-955, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 10.000 krónur fyrir hvern dag, sem útgáfa afsals dregst fram yfir uppkvaðningu dóms.
Einnig krefst stefnandi, að stefndi verði verði dæmdur til að afhenda stefnanda málverkið ,,Sjálfsmynd” (35x25) eftir Helga Friðjónsson gegn greiðslu á 120.000 krónum, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 5.000 krónur fyrir hvern dag, sem afhending dregst fram yfir uppkvaðningu dóms.
Að lokum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara er krafist lækkunar þeirra. Málskostnaðar er krafist í báðum tilvikum.
I.
Stefnandi réði sig sem fjármálastjóri hjá Sól-Víking hf. árið 1997 og gerðu aðilar með sér sérstakan ráðningarsamning. Við sameiningu Sól-Víking hf. og stefnda í júní 2001 var stefnandi gerður að undirmanni fjármálastjóra í fyrirtækinu. Stefnandi fór að tala um það við fjármálastjóra stefnda þegar eftir sameininguna og aftur í september 2001, að stefnandi vildi láta af störfum, en að beiðni stefnda hélt stefnandi áfram störfum, þar til gengið var frá starfslokasamningi við hann 4. nóvember 2001. Samkvæmt 1. gr. og 2. gr. samningsins skyldi stefnandi láta af störfum í lok mánaðarins og fá greidd laun í fjóra mánuði frá gildistíma uppsagnarinnar, eða til 1. mars 2002. Auk þess skyldi stefnandi fá greitt áunnið orlof, sem ógreitt var og jafngilti einum mánaðarlaunum. Í 3. gr. samningsins er fjallað um kaup stefnanda á málverki og bifreið af stefnda og í 4. gr. er tekið fram, að stefnandi skuldbindi sig til að veita stefnda alla þá aðstoð, sem þurfi, út marsmánuð 2002. Starfslokasamningurinn var undirritaður 6. nóvember 2001. Síðar sama dag fór stefnandi í atvinnuviðtal hjá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson ehf. (hér á eftir nefnt Ölgerðin). Kom þar fram gagnkvæmur áhugi fyrir því, að stefnandi tæki að sér starf fjármála- og skrifstofustjóra hjá fyrirtækinu. Tilkynnti stefnandi næsta yfirmanni sínum, Sveini Ragnarssyni, fjármálastjóra, að stefnandi hefði fengið atvinnutilboð frá Ölgerðinni og að hann hygðist ganga að því að loknum ráðningartíma sínum hjá stefnda. Tjáði Sveinn þá stefnanda, að best væri, að hann legði niður störf þá þegar og skilaði öllum munum, sem tilheyrðu félaginu og hann hefði í sínum vörslum. Næsta dag var gengið frá ráðningu stefnanda hjá Ölgerðinni.
Þann 14. nóvember 2001 hafði stefnandi samband við stefnda vegna bifreiðarinnar UZ-955, sem samist hafði milli aðila um, að stefnandi keypti af stefnda samkvæmt áðurnefndum starfslokasamningi. Óskaði stefnandi eftir því, að stefndi leysti bifreiðina út af verkstæði vegna viðgerðar, þannig að stefnandi gæti tekið við henni að nýju. Þessu hafnaði stefndi í fyrstu og tók fram, að hann teldi forsendur fyrir gerð ráðningarsamningsins brostnar. Nokkrum dögum síðar sendi stefndi beiðni til verkstæðisins og hlutaðist til um afhendingu bifreiðarinnar til stefnanda að nýju.
Í lok desember 2001 bárust stefnanda drög að nýjum starfslokasamningi frá stefnda, ásamt kaupsamningi um fyrrgreinda bifreið og skuldabréfi. Með rafbréfi 22. janúar 2002 óskaði áðurnefndur Sveinn Ragnarsson eftir fundi með stefnanda til að ganga frá ,,bílamálunum”. Hittust stefnandi og Sveinn 24. sama mánaðar af því tilefni. Á fundinum fékk stefnandi afhentan kaupsamning um bifreiðina og handhafa-skuldabréf, að fjárhæð 820.000 krónur, sem hann undirritaði og afhenti stefnda. Þá óskaði Sveinn eftir því, að stefnandi undirritaði nýjan starfslokasamning, en því hafnaði stefnandi og afhenti yfirlýsingu um, að hann krefðist fullra efnda stafslokasamnings síns og stefnda.
Þann 21. febrúar 2002 barst stefnanda bréf frá lögmanni stefnda, þar sem fram kemur, að stefndi teldi forsendur fyrir gerð ráðningarsamningsins brostnar. Einnig segir í bréfinu, að stefnandi hafi vanefnt samninginn og frekari vanefndir séu jafnframt fyrirsjáanlegar. Hafi forsenda fyrir gerð starfslokasamningsins verið sú, að stefndi skyldi vinna út nóvembermánuð 2001 og veita nauðsynlega aðstoð til 1. apríl 2002, auk þess sem trúnaður við stefnda skyldi haldast eftir starfslok. Hafi stefnandi hvorki heiðrað umrædd ákvæði samningsins né geti hann það. Með vísan til þessa lýsti stefndi yfir riftun á starfslokasamningnum, nema hvað orlofsgreiðslur varðaði. Þá var þess krafist, að bifreiðinni UZ-995 yrði skilað innan þriggja daga. Stefnandi var boðaður til fundar hjá lögmanni stefnda 12. mars 2002. Á fundinum var þess beiðst af hálfu stefnda, að aðilarnir kæmust að samkomulagi um breytingar á starfslokasamningnum, en því hafnaði stefnandi.
II.
Stefnandi byggir á því, að ein grundvallarregla samningaréttarins sé sú að halda skuli gerða löggerninga. Verði reglur samningaréttarins um brostnar forsendur m.a. skýrðar með hliðsjón af þessari meginreglu, og leiði af því, að einungis í algerum undantekningartilvikum geti menn vikið sér undan samningsskuldbindingum á grundvelli brostinna forsendna. Almennt sé viðurkennt, að til þess að aðili geti borið fyrir sig forsendubrest, verði forsendan að hafa verið veruleg og jafnframt ákvörðunarástæða aðilans um, að löggerningur var gerður. Um leið verði gagnaðila að hafa verið ljóst, að tiltekin forsenda hafi haft úrslitaáhrif á aðilann um, að viðkomandi löggerningur var gerður. Gögn málsins beri með sér, að hvergi í samningum aðilanna eða aðdraganda þeirrar samningsgerðar hafi verið getið um þá forsendu, sem stefndi kjósi að bera fyrir sig. Beri þar að hafa í huga, að aðilarnir hafi komist að samkomulagi um gerð starfslokasamningsins löngu áður en hann kom til framkvæmda og var undirritaður af aðilunum. Stefnandi hafi því ekki á nokkrum tímapunkti haft ástæðu til að ætla, að honum væru hömlur settar með það, hvar hann réði sig til starfa að loknum stafsskyldum sínum hjá stefnda. Samkvæmt því, og eins og atvik máls þessa liggi fyrir, sé ótvírætt, að skilyrði brostinna forsendna séu ekki fyrir hendi, og sé stefndi því bundinn af starfslokasamningi aðilanna.
Stefnandi hafi veitt alla þá aðstoð, sem eftir hafi verið leitað af stefnda allt frá því að hann lét af störfum hjá stefnda. Hafi fyrstu fyrirspurnir þessa efnis borist stefnanda 19. nóvember 2001, eða innan tveggja vikna frá því að hann lét af störfum. Hafi stefnandi veitt aðstoð og upplýsingar með jöfnu millibili allt fram í marsmánuð 2002, þegar eftir því hafi verið leitað af starfsmönnum stefnda. Stefnandi hafi þannig að fullu staðið við 4. gr. samnings aðilanna um að veita aðstoð. Hafi fullum trúnaði við stefnda því verið haldið í samræmi við starfslokasamning aðilanna og 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og starfssamband stefnanda við samkeppnisaðila stefnda þar engin áhrif haft. Hafi stefnandi ekki veitt upplýsingar um atvinnuleyndarmál, rekstur stefnda eða viðskiptavini hans. Sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu, að stefnandi hvorki hafi né getað heiðrað nefnd ákvæði samningsins. Að öðru leyti vísi stefnandi til þess, að 5. gr. samnings aðilanna verði að túlka með hliðsjón af frelsi hans til að velja sér starf á grundvelli menntunar, sérþekkingar og starfsreynslu.
Um dómkröfur stefnanda.
Fyrri dómkrafa stefnanda byggi á 1., 2. og 3. gr. starfslokasamnings aðilanna. Feli krafan í sér, að full laun verði greidd frá þeim tíma, sem stefnandi lét af störfum til 1. mars 2002. Krafa um laun fyrir nóvembermánuð byggi á 1. gr. samningsins. Hafi það verið að ósk stefnda, að stefnandi lét af störfum fyrir umsaminn tíma og starfaði ekki út nóvembermánuð, eins og gert hafi verið ráð fyrir. Þar sem stefndi hafi tekið þessa ákvörðun einhliða, beri honum að greiða laun allan umræddan mánuð í samræmi við samkomulag aðilanna.
Dómkrafan sundurliðast sem hér segir:
1. Mánaðarlaun 2.506.679 kr.
2. Ökutækjastyrkur 370.000 kr.
3. Ógreiddar lífeyrisgreiðslur 150.000 kr.
Samtals 3.026.679 kr.
Liður 1 sé tölulega þannig uppbyggður, að stefnandi telji sig eiga rétt á fullum launum frá þeim degi, er starfskrafta hans hafi ekki verið lengur óskað, eða frá 7. nóvember 2001 til 1. mars 2002. Fyrir nóvembermánuð 2001 hafi stefnandi einungis fengið greiddar 68.919 kr., en átt rétt á 510.278 kr. Mismunur sé því 441.359 kr. Laun í desember hefðu numið 510.278 kr., en frá dragist 20.096 kr., sem stefnandi hafi fengið greiddar fyrirfram. Sé því krafist 490.182 kr. fyrir desember. Þá hefðu laun í janúar, febrúar og mars 2002 numið 525.046 kr. fyrir hvern mánuð. Nemi krafan því 441.359 + 490.182 + 525.046 + 525.046 + 525.046 = 2.506.679 kr.
Liður 2 byggist á lokamálslið 3. gr. starfslokasamningsins. Um sé að ræða greiðslur til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðarinnar UZ-955. Stefnandi krefjist því 74.000 kr. fyrir nóvember, desember, janúar, febrúar og mars, 74.000 x 5 = 370.000 kr.
Lokaliður fyrstu dómkröfunnar byggist á viðbótarsamningi nr. 2 á ráðningarsamningi milli aðila frá 4. apríl 1997. Þar sé gert ráð fyrir, að stefndi greiði stefnanda mánaðarlega 30.000 kr. í viðbótarlífeyrissjóð stefnanda. Stefnandi krefjist því 30.000 kr. fyrir nóvember, desember, janúar, febrúar og mars, 30.000 x 5 = 150.000 kr.
Þess beri að geta, að laun stefnanda hefðu hækkað um 3% 1. janúar 2002, og sé gert ráð fyrir þeirri hækkun í dómkröfunni.
Önnur dómkrafa stefnanda lúti að því, að þann 24. janúar 2002 hafi stefnandi afhent stefnda handhafaskuldabréf að fjárhæð 820.000 kr. vegna sölu bifreiðarinnar UZ-955, sem sé árgerð 1995 af Toyota Camry gerð. Á sama tíma hafi verið skrifað undir kaupsamning um bifreiðina, allt í samræmi við 3. gr. starfslokasamningsins. Þrátt fyrir að stefnandi hafi þannig staðið við gerðan kaupsamning og greitt að fullu umrædda bifreið með útgáfu skuldabréfsins, hafi stefndi enn ekki gefið út afsal fyrir bifreiðinni stefnanda til handa. Sé þess krafist, að stefndi verði dæmdur til útgáfu afsalsins að viðlögðum dagsektum.
Þriðja dómkrafa stefnanda byggist á, að 1. málsl. 3. gr. starfslokasamnings verði efndur. Þar sé gert ráð fyrir, að stefnandi kaupi umrætt málverk af stefnda á 120.000 kr., og eigi kaupverðið að dragast frá uppgjöri á launakröfum stefnanda.
Stefndi byggir sýknukröfu á því, að forsendur séu brostnar fyrir gildi starfslokasamningsins, en tilurð hans hafi verið að frumkvæði stefnanda. Ritað hafi verið undir samninginn 6. nóvember 2001. Síðar sama dag hafi stefnandi tilkynnt stefnda, að stefnandi ætlaði að ráða sig til Ölgerðarinnar í sambærilegt starf og hann gegndi hjá stefnda. Að mati stefnda var forsenda fyrir starfslokasamningi hans við stefnanda þar með brostin, enda sé Ölgerðin einn helsti samkeppnisaðili stefnda. Hafi stefnanda mátt vera þetta ljóst. Um hafi verið að ræða gróft brot gegn 4. gr. samningsins, en í þar segi, að stefnandi skuldbindi sig til að veita stefnda alla þá aðstoð, sem stefndi þyrfti, út mars 2002. Auk þess segi í 5. gr. samningsins, að stefnandi sé bundinn trúnaði varðandi upplýsingar um rekstur félagsins, sem og samninga við viðskiptavini eða annað, sem hann hafi orðið áskynja um varðandi rekstur félagsins eða viðskiptavini þess á starfstíma sínum hjá stefnda, svo og félaginu Sól-Víking hf. Að mati stefnda sé fyrrnefndur starfslokasamningur gagnkvæmur, íþyngjandi samningur. Í því felist, að hvor aðili um sig verði að inna sína greiðslu af hendi gegn því, að gagnaðilinn inni sína greiðslu af hendi. Af því leiði, að það sé forsenda greiðsluskyldu hvors aðila um sig, að gagnaðilinn afhendi sína greiðslu. Augljóst sé, að stefnanda hafi verið gjörsamlega ókleift að inna sína greiðslu af hendi, þ.m.t. að veita stefnda alla þá aðstoð, sem stefndi þyrfti, og að halda trúnað gagnvart stefnda, sérstaklega í ljósi þess, að hann réð sig til samkeppnisaðila. Auk þess verði að líta til þess, að stefnandi hafi ráðið sig í starf, sem sé að öllu leyti sambærilegt við það starf, sem hann hafi gegnt hjá stefnda. Af öllu þessu leiði, að forsenda fyrir greiðsluskyldu stefnda hafi verið brostin.
Auk framangreinds byggir stefndi á því, að stefnandi hafi, með því að ráða sig til samkeppnisaðila, brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnda, en stefnandi hafi verið samningsbundinn stefnda, er hann gerði það. Af almennum reglum samningaréttarins leiði, að á stefnanda hafi hvílt sú skylda að láta ekki eigin hagsmuni ráða einhliða athöfnum sínum, heldur hafi honum þvert á móti borið að taka tillit til skyldna sinna gagnvart viðsemjanda sínum. Þannig hafi hvílt á stefnanda skylda til að sýna m.a. eðlilega sanngirni og virða þagnarskyldu. Samkvæmt eðli máls og ólögfestum meginreglum um trúnaðarskyldu starfsmanns, hafi hvílt sú skylda á stefnanda að hefja ekki störf hjá samkeppnisaðila stefnanda á starfslokatíma eða áður. Verði að telja háttsemi stefnanda sérstaklega viðsjárverða í ljósi þess, að er hann samdi við stefnda um starfslok sín, hafi hann þegar verið byrjaður á samningaviðræðum við Ölgerðina vegna nýs starfs þar og gengið frá munnlegum ráðningarsamningi. Sé þannig er ljóst, að stefnandi hafi verið búinn að taka ákvörðun um að vanefna samning sinn við stefnda, áður en endanlegur samningur lá fyrir.
Einnig er á því byggt, að á stefnanda hafi hvílt vinnuskylda gagnvart stefnda, sem hann hafi ekki sinnt og ekki getað sinnt eftir gerð ráðningarsamnings við Ölgerðina. Hafi hann ekki getað innt þá skyldu af hendi, sem sé veruleg vanefnd á starfslokasamningi hans við stefnda, en það hafi heimilað stefnda að rifta greindum samningi. Feli vanefnd stefnanda á vinuskyldu sinni jafnframt í sér, að stefnandi eigi ekki rétt á því endurgjaldi, sem gert hafi verið ráð fyrir í starfslokasamningnum.
Í annan stað byggi sýknukrafa á því sjónarmiði, að starfslokasamningurinn sé ógildur. Stefnandi hafi fyrst komið í atvinnuviðtal hjá ráðningarstofunni Mannafli um mánaðarmótin maí/júní 2001. Um haustið hafi ráðningarstofan haft samband við stefnanda og boðið honum starf fjármálastjóra framsækins fyrirtækis og lýst því í smáatriðum í hverju starfið var fólgið, en gefið honum jafnframt frest til dagsloka til að svara, hvort hann hefði áhuga á starfinu. Það hafi stefnandi gert og fengið þá upplýsingar um hvaða aðila væri að ræða, þ.e. Ölgerðina. Hafi liðið um vika frá þeim degi, þar til að skrifað hafi verið undir ráðningarsamning milli aðila, en samið hafi verið um ráðningarkjör fyrir helgina 3. og 4. nóvember 2001. Ritað hafi verið undir starfslokasamning milli stefnda og stefnanda 6. nóvember 2001, en þá þegar hafi stefnandi verið búinn að ganga frá munnlegu ráðningarsambandi við Ölgerðina. Stefnandi hafi því beitt stefnda svikum við gerð starfslokasamnings. Sé því löggerningurinn ekki skuldbindandi fyrir stefnda, sbr. 1. mgr. 30. gr. samningalaga, en stefnandi hafi með ólögmætum hætti og gegn betri vitund leynt stefnda upplýsingum varðandi ráðningarsamband sitt við Ölgerðina með það að ásetningi að fá hann til að gera starfslokasamning.
Verði eigi fallist á ofangreint, er á því byggt, að það sé eigi heiðarlegt af stefnanda að krefjast efnda skv. samningi aðila á grundvelli 33. gr. saml. Óheiðarlegt sé af hálfu stefnanda að bera starfslokasamninginn fyrir sig. Sá samningur hafi verið fenginn með óheiðarlegum hætti, sem heiðvirður maður geti ekki borið fyrir sig.
Stefndi hafi lýst margsinnis yfir riftun starfslokasamningsins og eigi því stefnandi ekki kröfu til þess, að samningur aðila sé efndur in natura, heldur einungis rétt til efndabóta, sé á annað borð fallist á, að riftun stefnda hafi verið ólögmæt.
Verði fallist á, að stefnandi komi að málsástæðu um efndabætur og í öðrum tilvikum, byggir stefndi á því, að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna riftunar starfslokasamningsins. Stefnandi hafi þegar hafið störf hjá Ölgerðinni eftir starfslok sín hjá stefnda og þegið laun. Beri að draga þau laun, sem stefnandi þáði í starfi hjá Ölgerðinni, frá launakröfum á uppsagnarfresti hjá stefnda. Annað fjártjón hafi stefnandi ekki sannað, en sú skylda hvíli á honum að sanna bæði bótagrundvöll sem og tjón sitt. Þannig liggi ekki annað fyrir, en að verðmæti bifreiðarinnar og málsverksins skv. starfslokasamkomulaginu, sé markaðsvirði slíkra hluta og að greiðslukjör þeirra séu það, sem almennt gerist á markaði fyrir slíka hluti.
Verði ekki fallist á framangreint byggir stefndi málatilbúnað sinn á því, að með háttsemi sinni hafi stefnandi brotið gegn samningi sínum við stefnda svo og hagsmunum hans. Samningsbrot hans séu vítaverð og af þeim sökum beri að lækka dómkröfur stefnanda verulega.
Útreikningi skaðabótakröfu stefnanda er mótmælt. Þannig er mótmælt sérstaklega tilvísun stefnanda til ógreiddra lífeyrisgreiðslna, en ekki sé tekin afstaða til þeirra í starfslokasamningi, en telja verði, að sá samningur mæli fyrir um fullnaðaruppgjör á milli aðila og að aðilar eigi ekki kröfur á hvorn annan umfram það, sem þar greinir.
Jafnframt beri að virða til lækkunar, að stefnandi hafi þegar fengið greiddar orlofsgreiðslur skv. starfslokasamkomulaginu, eða í lok nóvember að fjárhæð 221.525 kr. Jafnframt þurfi að virða til lækkunar og frádráttar kröfu stefnanda, að stefndi gleymi að gera ráð fyrir frádragi vegna staðgreiðslu skatta og lífeyrissjóðsframlags stefnda.
Stefndi hafi greitt tryggingar af bifreiðinni UZ-955 og gjaldfallin bifreiðagjöld á gjalddaga í janúar og júlí 2002 og einnig þurft að bera fjármagnskostnað af bifreiðinni. Jafnframt skuldi stefnandi 20.096 kr. á viðskiptareikningi stefnda. Sé krafa stefnanda á hendur stefnda viðurkennd, að hluta eða öllu leyti, lýsi stefndi yfir skuldajöfnuði við kröfu stefnanda vegna ofangreindra krafna á hendur stefnanda. Skilyrði séu fyrir skuldajöfnuði skv. 28. gr. eml.
Kröfum stefnanda um dagsektir er mótmælt, enda sé ekki vísað til þess á hvaða lagaheimild slíkt skuli byggt, en sé á dagsektir fallist, er þeim mótmælt sem of háum.
III.
Stefnandi hafði gegnt starfi fjármálastjóra hjá Sól-Víking hf. frá árinu 1997, þar til félagið og Vífilfell hf., stefndi í máli þessu, sameinuðust í júní 2001. Munu samningaviðræður félaganna hafa hafist í ársbyrjun 2001. Er upplýst í málinu, að stefnandi hafi leitað til nafngreindrar ráðningarstofu um vorið það ár vegna áhuga á öðru starfi. Eftir samruna áðurnefndra félaga var stefnandi gerður að undirmanni fjármálastjóra. Kemur fram í skýrslu Sveins Ragnarssonar, fjármálastjóra stefnda, að stefnandi hafi lýst vilja sínum til að láta af störfum hjá stefnda þegar eftir samruna félaganna, en vitnið fengið hann til halda áfram. Þá hafi stefnandi reifað aftur síðla í september sama ár, að hann vildi hætta hjá stefnda, en vitnið viljað hafa hann þar lengur og tekist það.
Aðilar rituðu undir umræddan starfslokasamning 6. október 2001. Nokkrum dögum áður höfðu farið fram viðræður milli stefnanda og Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson hf. um, að stefnandi hæfi störf hjá því félagi. Hafði stefnandi samband við forstjóra þess félags, Jón Diðrik Jónsson, sama dag og hann undirritaði starfslokasamninginn við stefnda og skýrði honum frá því. Samdist svo um milli þeirra, að stefnandi hæfi störf hjá Ölgerðinni, þegar hann hefði lokið störfum hjá stefnda. Stefnandi skýrði fyrrnefndum fjármálastjóra stefnda frá þessu sama dag, og sagði hinn síðarnefndi þá, að ljóst væri, að stefnandi gæti ekki á sama tíma unnið hjá stefnda og samkeppnisaðila hans. Tók stefnandi því svo, að starfskrafta hans væri ekki lengur óskað hjá stefnda og réð sig Ölgerðarinnar næsta dag.
Stefnandi skuldbatt sig samkvæmt starfslokasamningi aðila til að veita stefnda alla þá aðstoð, sem þyrfti, út mars 2002. Þá er ákvæði í samningnum um, að stefnandi væri bundinn trúnaði varðandi upplýsingar um rekstur félagsins sem og samninga við viðskiptavini eða annað, sem hann hafði orðið áskynja um í rekstri félagsins eða um viðskiptavini þess á starfstíma hans hjá stefnda og Sól-Víking hf. Engar skorður eru hins vegar við því lagðar í samningnum, sem saminn var af stefnda, að stefnandi réði sig til annars fyrirtækis, þar á meðal samkeppnisaðila. Þá er heldur ekkert fram komið í málinu, sem bendir til annars, en að stefnandi hafi mátt vera í góðri trú um, að honum væri það heimilt, svo fremi sem hann stæði við samninginn af sinni hálfu. Að mati dómsins er ósannað af hálfu stefnda, að stefnandi hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningnum og þá mátti stefnandi skilja áðurnefnd orð umrædds fjármálastjóra stefnda, er stefnandi tilkynnti um fyrirhugað starf sitt hjá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson hf., á þann veg, að starfskrafta stefnanda væri eigi lengur óskað hjá stefnda.
Samkvæmt framansögðu er hvorki fallist á málsástæður stefnda um forsendubrest fyrir samningnum vegna starfs stefnanda hjá nefndu hlutafélaga né að stefnandi hafi vanefnt samninginn fyrir sitt leyti. Þá er heldur ekkert hald í þeim málsástæðum stefnda, að starfslokasamningurinn sé ógildur, með því að stefnandi hafi fengið stefnda til samninga við sig með sviksamlegum hætti, sbr. 30. gr. laga nr. 7/1936, eða að óheiðarlegt sé af hálfu stefnanda að bera samninginn fyrir sig, sbr. 33. gr. sömu laga. Að lokum er ósannað, að stefnandi hafi brotið gegn samningsskyldum sínum að öðru leyti.
Verður nú vikið að einstökum kröfuliðum samkvæmt dómkröfum stefnanda.
Um fyrsta kröfulið.
Samkvæmt 2. gr. starfslokasamningsins skyldi stefnandi fá greidd laun í fjóra mánuði frá gildistíma uppsagnar, eða til 1. mars 2002, en auk þess skyldi greiða honum ,,allt ógreitt og áunnið orlof og jafngildir það eins mánaðarlaunum eða til loka apríl 2002”. Dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu, stefnandi hafi mátt skilja viðbrögð fjármálastjóra stefnda við vitneskju hans um fyrirhugað starf stefnanda hjá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson hf., á þann veg, að starfskrafta hans væri eigi lengur óskað hjá stefnda. Var stefnanda því rétt að láta af störfum þegar í stað, sér að vítalausu. Á stefnandi því rétt á launum hjá stefnda þá fjóra mánuði, sem samningur aðila kveður á um. Stefnandi fékk greiddar 68.919 krónur fyrir nóvember 2001, en átti rétt á að fá greiddar 510.278 krónur. Nemur mismunurinn því 441.359 krónum. Laun stefnanda í desember hefðu numið 510.278 krónum, en frá dragast 20.096 krónur vegna fyrirframgreiddra launa. Á stefnandi þannig rétt á greiðslu 490.182 króna fyrir þann mánuð. Þá hefðu laun í janúar, febrúar og mars 2002 numið 525.046 krónum fyrir hvern mánuð. Fellst dómurinn samkvæmt því á, að launakrafa stefnanda nemi samtals 2.506.679 krónum (441.359 + 490.182 + 525.046 + 525.046 + 525.046). Engin skilyrði eru að lögum til að draga laun stefnanda hjá Ölgerðinni frá umsömdum launum stefnanda samkvæmt starfslokasamningnum. Stefnandi gerir ekki kröfu um greiðslu áunnins orlofs, sem kveðið er á um í samningnum, að hann eigi rétt á, enda er fram komið í málinu, að stefndi efndi samninginn að því leyti með greiðslu 221.525 króna í nóvember 2001. Þar sem þessi krafa er ekki höfð uppi af hálfu stefnanda kemur hún ekki til frádráttar, svo sem stefndi krefst. Stefndi gerir og kröfu til þess, að virða beri til lækkunar kröfu stefnanda, að ekki sé tekið tillit til frádrags vegna staðgreiðslu skatta. Á þetta verður eigi fallist, enda verður að gera ráð fyrir, að hefðbundið launauppgjör fari fram milli aðila, þar með talinn frádráttur vegna staðgreiðslu skatta.
Þá krefst stefnandi þess, að stefndi greiði sér samtals 150.000 krónur í viðbótarlífeyrissjóð fyrir nóvember og desember 2001 og janúar, febrúar og mars 2002 samkvæmt ,,ákvæði í viðbótarsamningi nr. 2 á ráðningarsamningi milli aðila frá 4.4.1997”. Stefnandi gerði samning þennan við Sól-Víking hf. Hefur hann ekki sýnt fram á, að stefndi hafi yfirtekið samninginn við sameiningu þess félags og stefnda. Þá er þessara greiðslna ekki getið í starfslokasamningi málsaðila, en þar segir þvert á móti, að um fullnaðaruppgjör sé að ræða og eigi hvorugur aðili kröfu á hendur hinum. Með vísan til framanskráðs ber að hafna þessari kröfu stefnanda.
Í starfslokasamningnum er ákvæði um, að stefnandi skyldi taka rekstur umræddrar bifreiðar yfir 1. desember 2001 og fá greiddar 74.000 krónur á mánuði til marsloka 2002 til að mæta rekstrarkostnaði hennar. Er hér um að ræða ótvíræða greiðsluskyldu stefnda samkvæmt samningnum og því fallist á réttmæti kröfunnar, sem nemur samtals 370.000 krónum. Stefndi hefur uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar vegna greiðslu tryggingariðgjalda af bifreiðinni, að fjárhæð 82.485 krónur, og bifreiðagjalda, að fjárhæð 22.278 krónur. Þá hafi stefndi þurft að bera fjármagnskostnað af bifreiðinni, 61.500 krónur. Fallist er á með stefnda, að hann eigi kröfu á hendur stefnanda vegna greiðslu tryggingariðgjalds og bifreiðagjalda, samtals að fjárhæð 104.763 krónur. Hins vegar er krafa stefnda um fjármagnskostnað óútskýrð og verður því ekki tekin til greina. Sama á við skuld stefnanda á viðskiptamannareikningi stefnda, að fjárhæð 21.096 krónur. Þar sem uppfyllt eru að mati dómsins skilyrði til skuldajafnaðar ber að lækka þennan kröfulið stefnda, sem nemur mismuni á henni og viðurkenndri gagnkröfu stefnda, eða í 265.237 krónur (370.000 104.763).
Um annan kröfulið.
Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að gefa út afsal til stefnanda fyrir bifreiðinni UZ-955, að viðlögðum dagsektum. Í starfslokasamningnum er ákvæði um, að stefnandi eigi rétt á að kaupa umrædda bifreið á 820.000 krónur, sem hann skuli greiða með skuldabréfi til tveggja ára. Skuli bréfið bera 4% ársvexti og greiðast með fjórum afborgunum. Aðilar eru sammála um, að stefnandi hafi gefið út skuldabréf fyrir bifreiðinni samkvæmt fyrrnefndu ákvæði í starfslokasamningnum, að fjárhæð 820.000 krónur, á fundi hans og Sveins Ragnarssonar 24. janúar 2002. Þá hafi Sveinn gefið samhliða út afsal fyrir bifreiðinni. Þá eru aðilar á einu máli um, að stefnandi hafi, á leið sinni af fundinum, hringt í fjármálastjórann og beðið hann um að senda sér gögnin, en eyðileggja þau að öðrum kosti, þar sem stefnandi hafi ekki gætt þess að taka með sér eintak af afsali fyrir bifreiðinni og hefði því ekkert í höndunum um það, en stefndi væri hins vegar bæði með afsalið og skuldabréfið. Hefur Sveinn fullyrt, að hann hafi eytt gögnunum. Allt að einu þykir verða að leggja til grundvallar við úrlausn málsins, að stefnandi hafi efnt skyldu sína samkvæmt samningnum og gefið út skuldabréfið. Á stefndi þess kost að leita ógildingardóms eftir ákvæðum XVIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sé bréfið glatað. Ber því að taka til greina kröfu stefnanda um, að stefndi gefi út afsal fyrir bifreiðinni. Stefnandi hefur á hinn bóginn ekki rennt viðhlítandi stoðum undir kröfu sína um, að stefndi verði dæmdur til greiðslu dagsekta að fjárhæð 10.000 krónur fyrir hvern dag, sem útgáfa afsals dregst fram yfir uppkvaðningu dóms, og verður sú krafa því ekki tekin til greina.
Um þriðja kröfulið.
Að lokum krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að afhenda stefnanda málverkið ,,Sjálfsmynd” (35x25) eftir Helga Friðjónsson gegn greiðslu á 120.000 krónum, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 10.000 krónur fyrir hvern dag, sem afhendingin dregst fram yfir uppkvaðningu dóms. Kveðið er á um kauprétt stefnanda á málverkinu í starfslokasamningnum, en þar segir, að stefnandi kaupi málverkið við ofangreindu verði, sem dragist frá ,,uppgjöri skv. lið 2”, en þar er kveðið á um að greiða beri stefnanda laun í fjóra mánuði frá gildistíma uppsagnar, eða til 1. mars 2002, auk ógreidds og áunnins orlofs. Er fallist á þessa kröfu stefnanda samkvæmt skýru ákvæði í samningnum. Samkvæmt því dragast umræddar 120.000 krónur frá viðurkenndri launakröfu stefnanda, að fjárhæð 2.506.679 krónur, sem lækkar því í 2.386.679 krónur. Með sömu rökum og áður greinir ber að hafna kröfu stefnanda um greiðslu dagsekta.
Samkvæmt framansögðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 2.651.916 krónur, ásamt dráttarvöxtum, eins og krafist er, af 441.359 krónum frá 1. nóvember 2002 til 1. desember 2002, en af 931.541 krónu frá þeim degi til 1. janúar 2002, en af 1.456.587 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2002, en af 1.981.633 krónum frá þeim degi til 1. mars 2002 og af 2.651.916 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá verður stefndi dæmdur til útgáfu afsals fyrir bifreiðinni UZ-955 og að lokum ber að dæma, að stefnda sé skylt að afhenda stefnanda málverkið ,,Sjálfsmynd” (35x25) eftir Helga Friðjónsson.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, er þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Vífilfell hf., greiði stefnanda, Hrafni Haukssyni, 2.651.916 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 441.359 krónum frá 1. nóvember 2001 til 1. desember 2001, af 931.541 krónu frá þeim degi til 1. janúar 2002, af 1.456.587 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2002, af 1.981.633 krónum frá frá þeim degi til 1. mars 2002 og af 2.651.916 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi skal gefa út afsal til stefnanda fyrir bifreiðinni UZ-955 og þá er stefnda skylt að afhenda stefnanda málverkið ,,Sjálfsmynd” (35x25) eftir Helga Friðjónsson.
Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.