Hæstiréttur íslands

Mál nr. 284/2016

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
X (Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.) og Y (Sveinn Guðmundsson hrl.)

Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Sératkvæði

Reifun

X og Y voru ákærðir fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í nánar greindum fangaklefa í fangelsinu að Litla-Hrauni „í sameiningu veist með ofbeldi að A og veitt honum högg á kvið með þeim afleiðingum að rof kom á milta A og á bláæð frá miltanu sem leiddi hann til dauða skömmu síðar sökum innvortis blæðinga.“ Fjölskipaður héraðsdómur þar sem sérfróður meðdómsmaður í réttarmeinafræði átti sæti sýknaði X og Y á þeim grunni að ekki væri unnt að útiloka að það að A hefði fallið í fangaklefanum hefði orsakað áverkann eða að aðrir en X og Y hefðu haft möguleika á því að veita A þá áverka sem dregið hefði hann til dauða. Í dómi Hæstaréttar kom fram að fyrri ályktun héraðsdóms styddist við álit tveggja sérfróðra yfirmatsmanna og að auki við niðurstöðu réttarmeinafræðingsins sem framkvæmt hefði krufningu á líki A. Þá væri ekki að finna í gögnum málsins upplýsingar um að einhver ytri ummerki hefðu fundist, svo sem í klefanum, húsgögnum sem þar voru eða á X og Y, um að átök hefðu átt sér stað umrætt sinn. Að þessu virtu og gegn staðfastri neitun X og Y var talið að ekki hefðu verið færðar viðhlítandi sönnur á, svo að hafið væri yfir skynsamlegan vafa, að þeir hefðu valdið dauða A á þann hátt sem í ákæru greindi, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Voru X og Y því sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar af hálfu ákæruvaldsins 30. mars 2016. Hann krefst þess að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru og gerð refsing.

Ákærðu krefjast hvor fyrir sig aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.

Í málinu er ákærðu gefin að sök stórfelld líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 17. maí 2012 í nánar greindum fangaklefa í fangelsinu að Litla-Hrauni „í sameiningu veist með ofbeldi að [A] og veitt honum högg á kvið með þeim afleiðingum að rof kom á milta [A] og á bláæð frá miltanu sem leiddi hann til dauða skömmu síðar sökum innvortis blæðinga.“ Ákærðu neita báðir sök.

Hinn 21. maí 2012 framkvæmdi B réttarmeinafræðingur réttarkrufningu á líki A. Samkvæmt krufningarskýrslu hennar, sem gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi, voru ekki sýnilegir neinir nýir áverkar á brjósti, kvið og baki hins látna og við lagskipta skoðun á húð, húðbeð, fituvef og vöðvakerfi sáust engin merki um blæðingar. Í skýrslunni var banameinið sagt vera blæðing inn í kviðarhol frá lítilli rifu á milta og bláæð miltans. Þar sem gera yrði ráð fyrir að miltað hafi rifnað sökum ytri bitlauss áverka á kviðarhol kæmu annaðhvort til álita slys eða áverki af annarra völdum. Í kjölfarið var meðal annars fjallað í skýrslunni um aðstæður í fangaklefanum og hvort dauða hins látna hafi getað borið að „af völdum byltu“. Spurð fyrir héraðsdómi hvort hann hafi getað fengið áverkann við fall svaraði réttarmeinafræðingurinn: „Hann hefði getað dottið á tvo hluti ... annars vegar brún klósettsins og hins vegar  ... hægri hlið stólarms. Það einkennir þetta tvennt að þetta eru ávalir hlutir, engar ... hvassar brúnir og eru því þess eðlis að geta valdið þessum áverka án þess að hann væri sýnilegur“.

Í matsgerð C réttarmeinafræðings, sem lýst er í héraðsdómi, sagði um síðastgreint atriði: „Ég tel ekki mögulegt að fall í fangaklefa á gólfið eða á þá hluti sem þar voru til staðar hafi valdið áverkanum. Um er að ræða ónóga krafta við fall úr eigin hæð á rúmbrún, kassa undir rúmi, borðbrún, stólbrún eða klósettbrún, til að valda rifu á bláæð miltans í eðlilegu milta með eðlilegar æðar. Laus stóll færist til við fall á hann, sem gerir meiðsli á milta enn ólíklegri, og skorðaðar beygluðust stólfæturnir (stóllinn gaf eftir) þegar 80 kílógramma dúkka féll á hann (í eftirlíkingarklefa). Auk þess er lögun hlutanna í klefanum (þar með talin stólsins) sú að þeir hefðu valdið áverkum á húð og mjúkvefjum á öðrum svæðum (rifjaboga, brjóstkassa, bringubeini og jafnvel víðar) við fall á þá og ekki fundust slíkir áverkar í krufningunni.“ Matsmaðurinn staðfesti skýrslu sína fyrir dómi.

Samkvæmt yfirmati réttarmeinafræðinganna D og E voru þau sammála um að ekki væri útilokað að áverki sá, sem dró A til dauða, hafi verið til kominn vegna falls hans í fangaklefanum miðað við þá forsendu að hann hafi staðið á gólfi, rúmi eða öðru því sem þar var. Spurð fyrir dómi hvort líkur væru á því að hinn látni hafi fengið svo mikla blæðingu við fall svaraði D:  „Hann hefur alveg getað dottið, hann hefur þá þurft að detta mjög nákvæmlega á einhvern hlut sem hefur hitt ákkúrat þarna ... á ... ávalan hlut.“ E svaraði þeirri spurningu, hvort áverkinn gæti hafa orðið af falli hins látna, þannig fyrir dómi: „Já fyrst og fremst þá ef hann dettur á húsgögn þar sem er einhver kantur en þá má líka búast við að það verði áverkar á húðinni í þeim tilfellum.“ Í fyrrgreindu yfirmati taldi D ólíklegt, en ekki ómögulegt, að áverkinn á miltanu og einkum bláæð þess hafi verið af völdum högga eða sparka annars manns. Í yfirmati E sagði að fræðilega væri ekki unnt að útiloka áverka á milta vegna beins höggs með fótarsparki eða hnefa án sýnilegra áverka á húð eða í mjúkvef. Venjulega þegar þetta gerðist í átökum fyndust aðrir áverkar á líkama.

Í fjölskipuðum héraðsdómi, sem kvað upp hinn áfrýjaða dóm, sátu tveir sérfróðir meðdómsmenn, þar af var annar þeirra sérfræðingur í réttarmeinafræði. Í forsendum héraðsdóms er tekið fram að ekki sé hægt að útiloka að fall hins látna í fangaklefanum hafi orsakað áverkann sem dró hann til dauða. Þessi ályktun styðst við framangreint álit yfirmatsmannanna tveggja og að auki við áður tilvitnað svar réttarmeinafræðingsins sem framkvæmdi krufningu á líki hans.

Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til að A hafi hlotið áverka, sem leiddi hann til dauða, áður en F fór út úr fangaklefanum um klukkan 18.44 hinn 17. maí 2012 og ákærði X varð þar eftir ásamt A, en ákærði Y kom inn í klefann fimm sekúndum síðar. Þótt vitni, sem gaf skýrslu hjá lögreglu og síðar fyrir dómi án þess að greina frá nafni sínu, segðist á þeim tíma, sem ákærðu voru einir í klefanum með A, hafa heyrt hann öskra eins og verið væri „að berja úr honum líftóruna eða pína hann“ eru ákærðu einir til frásagnar um það sem þar gerðist í þær rúmlega ellefu mínútur er liðu uns ákærði Y fór þaðan og ákærði X skömmu síðar. Ekki er að finna í gögnum málsins upplýsingar um að einhver ytri ummerki hafi fundist, svo sem í klefanum, húsgögnum sem þar voru eða á ákærðu, um að átök hafi átt sér stað umrætt sinn.

Að virtu því, sem að framan greinir, sér í lagi þeirri ályktun héraðsdóms að ekki sé unnt að útiloka að fall í fangaklefanum hafi orsakað áverkann sem dró A til dauða, hafa ekki gegn staðfastri neitun ákærðu verið færðar viðhlítandi sönnur á, svo að hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að þeir hafi valdið dauða hans á þann hátt sem í ákæru greinir. Af þeim sökum verður  staðfest sú niðurstaða dómsins að sýkna ákærðu af kröfum ákæruvaldsins með vísan til 108. gr., sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, svo og ákvæði hans um sakarkostnað.

Samkvæmt þessum málsúrslitum verður allur áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu hér fyrir dómi sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til þess að annar verjendanna annaðist vörn skjólstæðings síns í héraði, en hinn ekki.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða X, Þórhalls Hauks Þorvaldssonar hæstaréttarlögmanns, 3.720.000 krónur, og verjanda ákærða Y, Sveins Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, 2.480.000 krónur.

 

 

Sératkvæði

Helga I. Jónssonar og

Benedikts Bogasonar

Við erum ósammála meirihluta dómenda og teljum að ómerkja eigi hinn áfrýjaða dóm af eftirfarandi ástæðum.

Í héraðsdómi er rakin frásögn ákærðu fyrir dómi um atvik í aðdraganda þess að A andaðist í fangelsinu á Litla Hrauni að kvöldi 17. maí 2012. Um mat dómsins á þeim framburði segir það eitt að dómendur hafi talið upptökur í mynd úr fangelsinu ekki styðja þá frásögn ákærðu að A hafi kúgast frammi á gangi í fangelsinu þar sem ákærðu ræddu við hann. Ef svo hefði verið hefði það sést af háttalagi A. Töldu dómendur nærtækast að ætla að meint skuld A við ákærða X hefði verið ástæðan fyrir þessari hegðun hans en í því sambandi yrði að líta til framburðar vitnisins G þess efnis að A hefði tjáð honum að hann væri smeykur við ákærðu og að hann skyldi tala við ákærðu í því skyni að þeir létu A í friði.

Fyrir dómi greindi ákærði X frá því að hann og ákærði Y hefðu haft áhyggjur af heilsu A því þeim hefði þótt vænt um hann. Einnig hefðu þeir rætt við A um að hann þyrfti að hætta neyslu fíkniefna og að hann hefði litið hræðilega út. Í hinum áfrýjaða dómi er ekkert vikið að því hvernig þessi framburður horfir við með hliðsjón af upptöku úr myndavélum fangelsisins en þar sést að ákærði X tekur ekki í útrétta hönd A þegar þeir hittast. Skýring ákærða á því háttalagi er fráleit. Jafnframt má sjá af upptökunni að ákærði Y tekur mjólkurglas sem A er að drekka úr og hellir úr því. Má greinilega ráða af upptökunni að ákærði var ekki að ganga frá glasinu eftir A. Þessi viðbrögð ákærðu voru því ögrandi þvert á framburð þeirra fyrir dómi um að engin óvild hafi búið þar að baki. Í þessu ljósi teljum við að dómendum hafi borið að leggja mat á trúverðugleika framburðar ákærðu. Er þess þá að gæta að ekkert styður að þeir hafi borið hag A fyrir brjósti heldur þvert á móti að þeir ættu eitthvað sökótt við hann sem skýri af hverju þeir fóru rakleitt á eftir honum inn í fangaklefa þar sem hann andaðist skömmu síðar vegna innvortis blæðingar frá milta og aðliggjandi æð.

Í niðurlagi hins áfrýjaða dóms er rakið að ekki verði ráðið af myndupptöku að A hafi borið þess merki að hafa fengið þá áverka sem drógu hann til dauða skömmu áður en hann gekk inn í klefa sinn og ákærðu í humáttina á eftir honum. Ákærði X hafi farið inn í klefann og verið einn með A í nokkrar sekúndur en ákærði Y staðið fyrir utan. Því næst hefðu komið tveir fangaverðir með poka til A en eftir það hafi A og F verið einir í klefanum í 3 sekúndur. Síðan hafi ákærði X komið þar inn og þeir þrír verið þar þangað til F yfirgaf klefann eftir að hafa verið þar í samtals 9 sekúndur. Eftir þetta hafi A verið einn í klefanum með ákærðu í rúmar 11 mínútur. Að þessu virtu taldi héraðsdómur ekki hægt að útiloka að F hefði veitt A áverka á þeim tíma sem hann dvaldi í klefanum. Þótti ekki loku fyrir það skotið að „aðrir“ en ákærðu hefðu haft möguleika á því að veita A þá áverka sem drógu hann til dauða þótt miklar líkur væru á því að ákærðu væru þeir einu sem kæmu til greina. Við mat á þessu teljum við að líta beri til þess að ákærði X hefur ekki greint frá því að A hafi borið merki þess að á hann hefði verið ráðist rétt áður en hann kom inn í klefann. Einnig hefur hann ekki greint frá því að F hafi ráðist á A þann skamma tíma sem þeir þrír voru í klefanum. Að þessu gættu eru engin efni til að ætla að F hafi ráðist á A í umrætt sinn. Þess utan hefði verið rétt, fyrst dómurinn taldi þetta hugsanlegt, að taka málið fyrir á ný í því skyni að F yrði leiddur fyrir dóminn og spurður sérstaklega um þetta, sbr. 168. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í héraðsdómi er rakið það álit B réttarmeinafræðings, sem gerði réttarkrufningu á líki A, að hún teldi eina möguleikann um rof á milta og bláæð eftir fall vera að hann hafi dottið á klósett eða stól í klefanum. Einnig er rakið það álit C réttarmeinafræðings, sem skilaði matsgerð í málinu, að hún teldi ómögulegt að A hefði dottið á klósettið án þess að fá áverka vegna lögunar þess og staðsetningar í horni klefans. Hefði hann þá átt að fá áverka á bringubogann og andlitið í það minnsta. Ef hann hefði hins vegar dottið á stólinn mætti gera ráð fyrir að stóllinn hefði brotnað eða bognað undan þunga hans. Hefði hann aftur á móti fallið á gólfið hefði mátt gera ráð fyrir áverkum á andliti og húðblæðingu yfir rifbeinsboganum á þeim stað þar sem húðin hefði klemmst á milli gólfsins og rifbeinsbogans. Þessu til viðbótar má nefna, eins og fram kemur hjá meirihluta dómenda, að yfirmatsmaðurinn E bar fyrir dómi að áverkinn hefði getað orðið af falli, en þá mætti gera ráð fyrir áverka á húð. Að þessu virtu og í ljósi þess að ekki voru áverkar á hinum látna, sem bentu til falls, er með öllu óútskýrt hvernig komist er að þeirri niðurstöðu í hinum áfrýjaða dómi að ekki væri útilokað að fall í klefanum hefði orsakað þá innvortis áverka sem drógu A til dauða.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið teljum við rétt vegna sönnunarmatsins í hinum áfrýjaða dómi að hann verði ómerktur svo munnleg sönnunarfærsla geti farið fram á ný í samræmi við 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008.

Eftir niðurlagi 2. mgr. 209. gr. laga nr. 88/2008 ber okkur að greiða atkvæði um efni málsins. Eins og málið liggur fyrir réttinum teljum við með vísan til 108. gr., sbr. 1. mgr. 109. gr., laga nr. 88/2008 að staðfesta beri niðurstöðu héraðsdóms. Þá erum við sammála meirihluta dómenda um áfrýjunarkostnað.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 23. mars 2016.

                Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 30. maí 2013 á hendur ákærðu, X, kt. [...], dvalarstaður fangelsið að Litla Hrauni og Y, kt. [...], með sama dvalarstað, 

„fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa fimmtudaginn 17. maí 2012 í fangaklefa nr. 42 í húsi nr. 3 í Fangelsinu á Litla Hrauni, í sameiningu veist með ofbeldi að [A] og veitt honum högg á kvið með þeim afleiðingum að rof koma á milta [A] og á bláæð frá miltanu sem leiddi hann til dauða skömmu síðar sökum innvortis blæðinga.

Brot ákærðu telst varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærðu neita báðir sök og krefjast sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

Málavextir.

Samkvæmt frumskýrslu dagsettri þann 18. maí 2012 var A færður í gæslu í fangelsinu að Litla-Hrauni, vegna síbrota, þann 16. maí sama ár. Fyrst um sinn var hann vistaður í gæsluklefa svo hægt væri að fylgjast með honum vegna þess að talið var að hann væri undir áhrifum óþekktra efna. Daginn eftir um klukkan 18:00 var hann svo færður úr gæsluklefanum yfir í herbergi nr. 42 á gangi nr. 4 í húsi nr. 3 þar sem hann átti að vera í lausagæslu. Skömmu áður en hann var fluttur á milli ganga var fengið hjá honum þvagsýni og gaf það sýni svörun við THC og BZD. Klukkan 19:08 fengu fangaverðir tilkynningu frá samfanga A, ákærða X, um að A væri eitthvað veikur og að hann hefði verið að kasta upp. Í kjölfarið fóru fangaverðir til að athuga með A og kom þá í ljós að öndun hans var grunn og enginn púls. Hófu þeir endurlífgun með blæstri og hjartahnoði og tilkynntu Neyðarlínu um málið. Kl. 19:53 sama dag var lögreglu tilkynnt að endurlífgun stæði yfir í fangelsinu Litla-Hrauni á fanganum  A, en hann hefði komið í fangelsið daginn áður og verið í mikilli fíkniefnaneyslu. Hann hafi verið fluttur í herbergi nr. 42 í húsi 3 um kl. 18:00 þennan dag og hafi fangi komið að honum þar sem A hafi verið búinn að kasta upp og hafi korrað í honum. Stuttu síðar hafi endurlífgunartilraunir fangavarða og síðar sjúkraflutningamanna hafist. Sjúkrabifreið var send frá Selfossi og kom læknir með að Litla-Hrauni. Endurlífgunartilraunum var haldið áfram til klukkan 19:55 en þá úrskurðaði læknir að A væri látinn. Var líkið flutt á lögreglustöðina á Selfossi þar sem H, vakthafandi læknir á HSU, kom og framkvæmdi líkskoðun að rannsóknarlögreglumanni viðstöddum. Ekkert óeðlilegt kom fram við skoðunina.

Samkvæmt krufningarskýrslu B leiddi krufning og frekari rannsóknir í ljós að banameinið var blæðing inn í kviðarhol frá lítilli rifu á milta og bláæð miltans. Við krufningu og smásjárskoðun á vefjarsýnum komu ekki fram neinar vísbendingar um veikindi sem hefðu getað leitt til skyndilegs rofs. Leiddi krufningin í ljós að orsök rofsins væri ekki innri orsök heldur áverki. Samkvæmt krufningarskýrslunni verður vegna þessa að gera ráð fyrir að miltað hafi rifnað sökum ytri áverka á kviðarhol og komi annaðhvort slys eða áverki af annarra völdum til álita. Engu að síður leiddu hvorki krufning né frekari rannsóknir í ljós afdráttarlaus merki þess hvort um utanaðkomandi áverka eða meiðsli af völdum byltu hafi verið að ræða. Ekki var hægt að tímasetja nákvæmlega hvenær meiðslin urðu vegna þess að hraði blóðmissis ræðst af mjög einstaklingsbundnum þáttum. Sennilega sé um eina til tvær klukkustundir að ræða. 

Eftir að bráðabirgðaniðurstöður úr krufningunni lágu fyrir þann 22. maí 2012 óskaði lögreglan eftir því við I, deildarstjóra á Litla-Hrauni, að hann myndi útvega lögreglu upptökur úr eftirlitsmyndavélum á gangi nr. 4 í húsi nr. 3. Við skoðun á þeim upptökum vöknuðu grunsemdir lögreglu um að andlát A hefði orðið af mannavöldum. Af upptökunum mátti ráða að ákærðu áttu í talsverðum samskiptum við A þar sem hann var á ganginum. M.a. fóru þeir með hann inn á klefa hans og eyddu þar um 11 mínútum einir með honum. Um 13 mínútum eftir að ákærðu koma út úr klefa A óskar ákærði X eftir aðstoð frá fangavörðum þar sem A væri í andnauð. Grunur beindist að ákærðu í máli þessu og voru þeir þann 24. maí sama ár úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 13. júní sama ár.

Nánar tiltekið var atburðarás samkvæmt þessum upptökum og tímaskeið sem hér segir:

Kl. 18.12.28 kemur A ([A]) inn á ganginn í fylgd tveggja fangavarða.

J ([J]) mætir honum og þegar fangaverðirnir fara fram ganginn aftur fer hann inn á klefa A kl. 18.13.51. Hann kemur út úr klefanum kl. 18.14.35. J dvaldi einn með A í 44 sekúndur.

Stuttu sídar (kl. 18.14.39) kom A úr sínum klefa og var stutt (sekúndur) í klefa 45 hjá G ([G]) en fór svo fram í sameignina þar sem hann dvaldi til kl. 18.20.42.

Kl. 18.20.42 fór A inn á sinn klefa.

Kl. 18.21.03 fór A inn á klefa J og dvaldi þar í 1 mín og 40 sek. (18.22.43). Þar á eftir fór hann fram í sameiginlegt rými og síðan inn á sinn klefa.

Kl. 18.26.53 fór A inn á klefa G og dvaldi þar í 2 mínútur og 57 sek. (kl. 18.29.50) en fór svo fram í sameignina.

Kl. 18.31.48 sést A í sameigninni þar sem hann gengur um, sest í sófann þar sem hann hallar sér bæði fram og aftur, reykir sígarettu og drekkur úr glasi. Hann opnar ísskápinn, beygir sig niður og réttir úr sér.

Kl. 18.39.22 kemur ákærði X ([X]) inn á ganginn.

Kl. 18.40.34 kemur ákærði Y ([Y]) inn á ganginn.

Kl. 18.42.58 fer A inn á sinn klefa og X gengur í humáttina á eftir honum. Y stendur fyrir utan klefann.

Kl. 18.43.06 koma tveir fangaverðir inn ganginn með poka til A. X fer út úr klefa A og fram á gang en síðan inn á sinn klefa með G kl. 18.43.24 eftir að hafa hitt hann innst inn á gangi fyrir framan klefana. Fangavörður fer inn á klefa A kl. 18.43.20. 

Kl. 18.43.43 fara fangaverðirnir út úr klefa A og fara fram ganginn. Þeir yfirgefa ganginn kl. 18. 44.04

Kl. 18.44.05 fer F ([F]) inn á klefa A.

Kl. 18.44.08 fer X inn á klefa A.

Kl. 18.44.14 fer F út úr klefa A eftir að hafa dvalið þar inni í 9 sekúndur og mætir G og Y fram á gangi.

Kl. 18.44.19 fer Y inn á klefa A.

Kl. 18.55.57 kemur Y út úr klefa A og fer beint inn á sinn klefa. Y dvaldi í klefa A í 11 mínútur og 38 sek.

Kl. 18.56.25 kemur X út úr klefa A og fer beint inn á sinn klefa. X dvaldi í klefa A í 12 mínútur og 17 sek. 

Ákærði Y gaf skýrslu hjá lögreglu þann 23. maí sama ár og kvað hann sakargiftir vera tilbúning lögreglu. Kvaðst ákærði hafa hitt A þegar hann var nýkominn úr útivist og hafi A verið frekar veiklulegur að sjá og verið að kveinka sér. Kvað hann ákærða X hafa stungið upp á því að A færi inn á klefa að leggja sig og ákærðu hafi svo í framhaldi gengið með honum þangað, rætt lítillega við hann og farið að því loknu fram. Stuttu síðar kvað ákærði að heyrst hafi einhvers konar „baul“ í A og hafi ákærði farið að kanna líðan hans sem honum hafi ekki litist á, en samkvæmt ákærða lá A hálfur í rúminu og hálfur á gólfinu líkt og að hann hefði dottið á rúmbríkina. Þá hafi ákærði tilkynnt samföngum sínum um ástand A. Ákærði X hafi þá farið og kannað með líðan A, sem þá hafði kastað upp og hafi ákærði X þá snúið honum á hliðina og kallað til fangaverði. Þegar fangaverðir hafi komið á vettvang kvað ákærði að kallað hefði verið á sjúkrabíl. Við skýrslutökuna kvaðst ákærði hafa þekkt A í mörg ár, hitt hann bæði innan og utan fangelsis. Kvaðst ákærði aldrei hafa séð A eins illa á sig kominn og hann hafi verið í umrætt skipti. Aftur var tekin skýrsla af ákærða Y þann 8. júní sama ár þar sem hann greindi frá því að þegar hann kom inn á ganginn umrætt kvöld hafi ákærði X og A verið að ræða um hurð sem A átti að hafa eyðilagt fyrir ákærða X og hvernig hann skyldi bæta fyrir tjónið.

Þann 12. júní 2012 var tekin skýrsla af ákærða Y fyrir dómi. Bar hann að hann hefði ekki hitt A áður en hann veiktist en A hefði liðið illa og verið að kúgast frammi á gangi áður en ákærðu hafi fylgt honum inn á klefann sinn. Í samtölum við A hafi komið fram að hann hefði verið að fá sér „súbba“ sem sé læknadóp. Kvað hann útlit A umræddan dag hafa verið hörmulegt, hann hafi verið mjög veiklulegur, hann hafi þekkt A í mörg ár og hafi aldrei áður séð hann svona horaðan og veiklulegan. Aðspurður kvað hann engin illindi hafa verið á milli ákærðu og A, þeir hafi samið um bætur vegna skemmda á hurð í eigu ákærðu. Bar hann að sér hefði verið orðið ljóst að A hafi verið eitthvað veikur frammi á gangi en þegar hann hafi heyrt „baulið“ í A og litið inn til hans hafi honum orðið ljóst að eitthvað alvarlegt var að. Hafi A legið í annarlegri stellingu, hálfur í rúminu og hálfur á gólfinu. Hafi hann þá kallað til A sem ekki hafi svarað en „klöngrast“ upp í rúmið og virst eiga erfitt með andardrátt. Kvað hann sig hafa látið samfanga sína vita, m.a. ákærða X sem hafi farið og litið á A. Þá hafi ákærði X kallað fram að A hafi verið búinn að kasta upp og kalla ætti til fangaverðina. Kvað hann töluverðan tíma hafa liðið frá því að fangaverðirnir voru kallaðir til uns þeir fóru að sinna A. 

Ákærði X gaf skýrslu hjá lögreglu þann 23. maí 2012, en í fyrri skýrslutöku tjáði hann sig ekki um málsatvik en tók fram að verið væri að saka hann um afbrot sem væri „bara þvílíkt kjaftæði“. Kvaðst ákærði vera alsaklaus og að hann hafi ekki átt nokkurn þátt í andláti A. Ákærði tók fram að ef hann eða ákærði Y hefðu lamið A myndi sjást verulega á manninum.

Þann 12. júní 2012 var tekin skýrsla af ákærða X fyrir dómi. Kvaðst hann hafa komið inn og séð A, heilsað honum og rætt í framhaldinu um að A hafði eyðilagt hurð í sinni eigu. Þar hafi ákærði Y komið að máli við þá og kvaðst hann þá hafa sammælst um að A greiddi bætur fyrir tjónið á hurðinni. Hann tók sérstaklega fram að engin vonska eða illindi hafi verið til staðar. Kvað hann A hafa verið að koma upp á einhverjum morfínlyfjum og af þeim ástæðum hafi hann og ákærði Y beint þeim tilmælum til A að vera ekki í þannig ástandi frammi á gangi þar sem verðirnir gætu séð til hans, svo hann myndi ekki draga athygli varðanna að öðrum sem hugsanlega hefðu einnig verið að neyta sambærilegra lyfja. Ákærðu hafi gengið með A inn á klefa hans og sagt honum að hann þyrfti að hætta þessu rugli sökum þess hve illa hann var á sig kominn. Að öðru leyti voru umræður þeirra einungis hversdagslegt tal. Kvað hann engar hótanir eða barsmíðar hafa átt sér stað og tók fram að hefðu ákærðu barið A hefði það sést. Ákærðu hafi yfirgefið klefann og hafi hann farið í sturtu. Ákærði Y hafi komið inn í sturtuna og tilkynnt sér að ekki væri allt með felldu hjá A og að hann hafði legið hálfur á rúminu og hálfur á gólfinu. Kvaðst hann hafa gengið fram hjá klefa A á leið sinni í sinn klefa og hafi hann þá heyrt hljóð frá A og farið í klefann til hans þar sem hann hafi séð A liggjandi á bakinu þar sem hafði kastað upp. Hafi hann þá kallað til verðina og velt A á hliðina. Verðirnir hafi ekki komið strax en þá hafi hann kallað á samfanga sína sem hafi komið til aðstoðar uns verðirnir hafi komið á staðinn og tekið við stjórninni. Hann kvaðst aldrei hafa séð A svona illa á sig kominn, hann hafi verið mjög grannur. Aðspurður bar hann að í klefanum hjá A hafi verið venjuleg húsgögn, þ.e. klósett, skápur, rúm, stóll og borð.

Ákærði X gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 20. júní 2012. Kvaðst ákærði vilja gefa skýrsluna eftir að hafa skoðað málsgögnin og við það séð ástæðu til að skýra ákveðin atriði nánar. Kvað hann ástæðu þess að hann hafi ekki viljað heilsa A með handabandi umræddan dag vera þá að hann hefði verið dópaður og venjan sé sú að menn komi með fíkniefni inn í fangelsið falin í endaþarmi og séu svo að ná í þau í tíma og ótíma, og af þeim sökum finnist sér ógeðslegt að taka í hendur á mönnum í slíku ástandi. Þá kvað hann lögreglu ekki hafa rannsakað hegðun þeirra á myndböndum nægilega vel, benti hann á að ef lengra tímabil yrði skoðað mætti sjá að ákærði Y sýni kýlingu í líkama samfanga sinna reglulega og því væri ekki hægt að draga þá ályktun að hann hafi verið að sýna samfanga sínum hvernig hann kýldi A með slíku athæfi. Bar ákærði að ákærðu hafi ekki verið að fela föt sem A hefði kastað upp á með því að setja þau í poka eins og sjá megi ákærðu gera á myndbandsupptökunni. Í raun hafi þeir verið að ganga frá fótboltabúningi þeim er hann klæddist í útivistinni fyrr um daginn í samræmi við venjur í þeim efnum.

Þann 19. júní 2012 fór fram sviðsetning atburðarásar umræddan dag. Sviðsetningin fór fram í íþróttasal Lögregluskóla ríkisins og viðstaddir voru rannsóknarlögreglumenn úr tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, rannsóknarlögreglumenn frá lögreglunni á Selfossi og verjendur ákærðu. Ákærði Y kom og svaraði spurningum lögreglu um afstöðu húsgagna og staðsetningu A og ákærðu á meðan á samtali þeirra stóð inni á klefanum. Þá gerði ákærði X einnig.

Vitnið G gaf skýrslu hjá lögreglu þann 22. maí 2012. Kvaðst vitnið hafa heilsað A þegar hann kom á ganginn og hafi A komið inn á klefa til þess þar sem þeir ræddu saman þangað til A hafi ætlað að fá sér að borða. Kvað vitnið A hafa sagt að hann væri slappur, þreyttur allavega. Kvað vitnið að það hefði heyrt að A hefði verið eitthvað veikur, litið til hans og séð hvar ákærði X var að snúa honum á hliðina svo hann gæti kastað upp á gólfið. Vitnið hafi þá kallað á samfanga sinn og beðið um viskastykki til þess að þrífa æluna. Hafi samfangi vitnisins komið með viskastykki og það hafist handa við að þrífa. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að A hafi átt einhverja óvildarmenn á ganginum. Bar vitnið að A hafi litið vel út, brúnn og fínn til augnanna, þrátt fyrir að hafa verið rýr og magur.

Vitnið K gaf skýrslu hjá lögreglu þann 24. maí 2012. Aðspurður um ástand A bar vitnið að hann hefði verið sljór eins og vaninn sé þegar menn hafi verið að taka efni. Kvað vitnið A hafa verið eins og draug. Hann hafi verið voða „linkulegur“, bara skinn og bein.

Vitnið J gaf skýrslu hjá lögreglu 24. maí 2012. Bar vitnið að sér hafi þótt erfitt að sjá A umræddan dag. Það hafi þekkt A frá því það var barn en aldrei áður séð hann eins grannan.

Vitnið L, fangavörður á Litla Hrauni, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 22. maí 2012. Kvað vitnið A hafa verið haldið í einangrun þegar hann hafi komið fyrst í fangelsið vegna ástand hans, en hann hafi verið að koma úr mikilli neyslu. Kvað vitnið A hafa verið orðin rosalega rýran og tekinn. Hann hafði fengið lyfjaskammt sem gefinn sé föngum sem séu í niðurtröppun. Kvað vitnið A hafa verið vel tekið af öðrum föngum þegar hann hafi komið á ganginn.

Vitnið M fangavörður gaf skýrslu hjá lögreglu þann 22. maí 2012. Kvað vitnið sig hafa tekið á móti A og vísað honum inn á klefann og sýnt honum hann. Bar vitnið að A hafi verið verr á sig kominn en oft áður. Hann hafi verið viðræðuhæfur en aldrei áður verið svona illa á sig kominn, grannur og skorinn eftir neyslu.

Vitnið N, fangavörður, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 22. maí 2012. Fór hann yfir atburðarásina, en hans verk hafi meðal annars falist í að loka aðra fanga inni á klefum sínum meðan endurlífgun á A hafi verið reynd. Tók vitnið sérstaklega fram að ákærðu hafi óskað eftir því að fá að vera lokaðir saman inn á klefa ákærða Y og hafi verið orðið við því.

Vitni sem merkt er A í rannsóknargögnum gaf skýrslu hjá lögreglu þann 15. júní 2012. Bar vitnið að A hafi verið mjög óttasleginn þegar hann hafi frétt að ákærðu væru á sama gangi og hann.

Vitni sem merkt er C í rannsóknargögnum gaf skýrslu hjá lögreglu þann 3. júlí 2012. Kvað vitnið A hafa verið hræddan við ákærðu. Kvað vitnið sig hafa heyrt læti sem gefið hafi til kynna að verið væri að beita A ofbeldi og að það hafi séð ákærðu ganga inn ganginn fljótlega áður en lætin byrjuðu.

Vitni sem merkt er D í rannsóknargögnum gaf skýrslu hjá lögreglu þann 15. júní 2012. Kvað vitnið ákærðu hafa byrjað að angra A með tali um skuld hans. Seinna kvað vitnið sig hafa hafa heyrt skarkala, dynki, kvein og óp.

Vitni sem merkt er F í rannsóknargögnum gaf skýrslu hjá lögreglu þann 4. september 2012. Kvað vitnið sig þekkja A vel og að A hafi ítrekað lýst ótta sínum við ákærðu vegna framgöngu þeirra við hann vegna skemmda á hurð á gistiheimili ákærðu. Einnig kvað vitnið A hafa þurft að þola ofbeldi af hálfu ákærðu áður.

                Þann 12. júní 2012 var C réttarmeinafræðingur dómkvödd að kröfu lögreglustjórans á Selfossi til að leggja mat á eftirfarandi:

1.       Hvers konar áverki er það sem veldur því að milta springur ásamt því að áverkar verði á nálægum æðum?

2.       Hvaða krafta þarf til að miltað springi?

3.       Hvort mögulegt sé að fall í fangaklefa hafi getað valdið áverkum þeim sem greinir í matsspurningum 1 og 2?

4.       Hvaða kraftar eða utanaðkomandi þættir geta leitt til áverka þeirra er greinir í matsspurningum 1 og 2?

5.       Hvort aðstæður inni í fangaklefa A hafi getað leitt til þess að áverkinn hafi orðið við fall?

6.       Er eitthvað sem kemur fram við krufningu á líki A sem leiðir líkur að því að miltað hafi sprungið af öðrum ástæðum? Svo sem lyf eða hugsanleg veikindi?

7.       Er hægt að segja til um hvenær A hafi fengið áverka þá er greinir í matsspurningum í 1 og 2 og leggja mat á það hversu fljótt áverkarnir drógu hann til dauða?

8.       Þekkir matsmaður dæmi um það hvort mögulegt sé að fall manns á hlut eins og þá sem voru í fangaklefanum umrætt sinn kunni að valda áverkum eins og hinn látni hlaut?

9.       Hvort niðurstöður krufningar geti sagt til um hvort áverkar hafi orðið af mannavöldum eða falli?

                Matsgerð C er dagsett 4. mars 2013 og kemur þar fram að sljóir áverkar (högg, þrýstingsáverki), skyndileg hæging á vinstri efri hluta kviðar og á neðsta hluta brjóstkassa vinstra megin, geti skaðað miltað og meginæðar þess. Í heilbrigðu milta þurfi mikla krafta til að skaða það, af þeim styrkleika sem sjáist við umferðarslys, fall úr hæð, eða fall af þunga á hlut með lítið yfirborð, þar sem lítil kraftdreifing verði, eða kraftmikið högg eða spark á vinstri efri hluta kviðar/vinstri neðri hluta brjóstkassa. Þá telur matsmaðurinn ekki mögulegt að fall í fangaklefa á gólfið eða á þá hluti sem þar voru til staðar hafi valdið áverkanum sem leiddi til dauða A. Matsmaður bendir á að lögun hlutanna í klefanum sé sú að þeir hefðu valdið áverkum á húð og mjúkvefjum á öðrum svæðum við fall á þá, en slíkir áverkar hafi ekki fundist við krufningu. Í matsgerðinni kemur einnig fram að engin merki hafi verið að finna við krufningu um sjúkdóma sem hefðu getað leitt til þess að miltað og/eða æðar miltans rifnuðu við minniháttar áverka sem ekki hefðu haft neina þýðingu í heilbrigðum einstaklingum. Þau lyf sem fundist hafi í A við krufninguna og niðurbrotsefni þeirra hafi ekki haft áhrif. Varðandi það hvenær A hafi fengið áverka þá sem gerð sé grein fyrir í matsgerðinni segir að ekki sé nákvæmlega hægt að segja til um hversu hratt miltisáverkarnir hafi dregið A til dauða, en mjög líklegt sé að hann hafi verið orðinn án lífsmarka innan við klukkustund frá því hann hlaut áverkann. Matsmaðurinn skoðaði upptökur úr öryggismyndavélum á ganginum þar sem A sést áður en hann gengur út af sameigninni og inn á ganginn og taldi að A hafi ekki borið þess merki að vera búinn að fá áverka á kvið á þeim tíma, heldur hafi hann hlotið áverkann eftir það. Er það niðurstaða matsmannsins að ef einungis sé horft til krufningarinnar sé ekki hægt að segja til um hvort áverkarnir hafi orðið af mannavöldum eða falli, en skoða verði niðurstöðurnar í samhengi við kringumstæður og umhverfi mannsins sem hann hafi verið í skömmu fyrir og í kringum andlátið.

                Meðal rannsóknaraðgerða lögreglu var að fara fram á að dómkvaddir yrðu tveir óvilhallir matsmenn til að framkvæma rannsókn á gögnum sem aflað hafði verið úr öryggismyndavélum fangelsisins. Nánar tiltekið var þess óskað að lagt yrði mat á eftirfarandi atriði:

1.       Hvort sjá megi af upptökunum að hinum látna hafi eða hafi ekki verið ógnað.  Hafi honum verið ógnað þá af hverjum og á hvaða hátt.

2.       Hvort sjá megi af upptökunum að hinn látni hafi eða hafi ekki upplifað ógn eða aðra samsvarandi upplifun.

3.       Hvaða hegðunarmynstur sýna aðrir fangar af sér á upptökunum á gangi 4 í húsi 3 fyrir komu X og Y inn á ganginn.

4.       Hvaða hegðunarmynstur sýna aðrir fangar af sér á upptökunum á gangi 4 í húsi 3 eftir komu X og Y inn á ganginn.

5.       Er hægt að lesa eitthvað úr hegðun X og Y eftir hið meinta brot af upptökunum.

6.       Hvað sýnir/lýsir hegðun annarra fanga á upptökunum eftir hið meinta brot að mati matsmanna.

Með úrskurði dómsins þann 20. júní 2012 var fallist á að umbeðið mat færi fram og þann 28. júní sama ár voru O, sérfræðingur í réttarsálfræði og dr. P dómkvaddir til starfans. Matsgerð þeirra er dagsett 10. október 2012 og er þar að finna svör við ofangreindum spurningum að undanskilinni 4. spurningu.  Byggja matsmenn matið á þeirri forsendu að hegðun og líkamstjáning fanga sé almennt lík hegðun og líkamstjáningu annars fólks, t.d. hegðun sem sýni ógnun, stjórnun og yfirráð, að fara yfir mörk í persónulegu rými fólks eða vekja athygli á að það sé vandamál í gangi. Þetta séu viðurkennd almenn einkenni á hegðun fólks sem geti komið fram hjá mismunandi einstaklingum við ákveðnar aðstæður og í ákveðnum tilgangi. Í matsgerðinni er atburðarásin á myndbandsupptökunum rakin. Niðurstöður matsins eru þær að myndbandið frá því 16. maí 2012, deginum áður en A lést, virðist sýna eðlileg samskipti á milli fanganna. Hegðun fanganna á því myndbandi svipi til hegðunar þeirra á ganginum þann 17. maí 2012, áður en ákærðu komu inn á ganginn. Hegðun fanganna virtist taka breytingum þegar ákærðu koma inn á ganginn, en þá virtist mikil spenna myndast á milli annars ákærða, X, og A. Að mati matsmannanna gefur þetta til kynna að ákærði X hafi haft eitthvað á móti A og látið það í ljós í samskiptum við hann og hafi ákærði Y einnig tekið þátt í því. Í matsgerðinni kemur fram að sterkar vísbendingar séu á myndbandinu um að A hafi verið ógnað af báðum ákærðu en ekki sé hægt að segja til um það hvernig A upplifði ögrandi hegðun ákærðu. Tekið er fram í matsgerðinni að aðeins hafi verið hægt að meta hegðun fanganna í grófum dráttum. Myndböndin séu fremur óskýr, lítið sjáist af svipbrigðum fanganna, og að ekkert myndband hafi verið frá enda gangsins þar sem klefi A var.     

                Mál þetta var þingfest þann 11. júní 2013 og neituðu ákærðu sök. Við fyrirtöku málsins þann 10. júlí sama ár lögðu verjendur ákærðu fram matsbeiðnir sem annars vegar lutu að störfum sálfræðinganna O prófessors og P prófessors en þeir lögðu mat á framgöngu ákærðu sem sjá mátti á myndböndum og hins vegar matsbeiðni sem laut að mati C réttarmeinafræðings á mögulegri dánarorsök hins látna. Þá var óskað tiltekinnar gagnaöflunar. Í þinghaldi þann 2. október sama ár óskuðu verjendur bókað að matsbeiðnir þær er þeir hefðu lagt fram í málinu væru allar yfirmatsbeiðnir. Í því þinghaldi var af hálfu ákæruvaldsins fallist á að verjendur og sakborningar fengju á einhvern hátt aðgang að þeim upptökum sem til væru í málinu og þá var ekki lagst gegn þeirri ósk verjendanna að tiltekin vitni yrðu leidd fyrir dóminn. Dómkvaðningu yfirmatsmanna var hins vegar mótmælt af hálfu ákæruvaldsins og fór fram málflutningur um þann ágreining í sama þinghaldi.

                Yfirmatsbeiðnir verjenda vegna mats C voru samhljóða og var þess óskað að tveir dómkvaddir matsmenn legðu mat sitt á spurningar og svör fyrra mats og að sérstaklega yrði lagt mat á og svarað eftirgreindum spurningum:

1.       Voru sjáanlegir áverkar útvortis á líki A, og ef svo var ekki, hversu líklegt eða ólíklegt sé að manni verði með höggi af mannavöldum veittir þeir áverkar sem um ræðir í tilfelli hins látna, án sjáanlegra útvortis áverka?

2.       Var leitað eftir efninu buprenorphine (Subutex) í blóði hins látna er hann lést? Ef já, hversu mikið eða lítið var af efninu í blóði hins látna?

3.       Eru uppköst, ógleði, svimi og/eða óstöðugleiki dæmi um þekktar aukaverkandi af notkun efnisins buprenorphine (Subutex)?

4.       Af efnagreiningu á blóði hins látna að dæma, fundust einhver efni (lyf, lyfjaleifar eða annað) sem hafa sömu einkenni eða aukaverkanir og taldar eru í matsspurningu nr. 3?

5.       Af krufningu og/eða skoðun á líki að dæma, hversu langur tími leið líklegast frá því að A hlaut áverka þar til hann lést?

6.       Af krufningu og/eða skoðun á líki að dæma, hversu langur tími gæti mögulega hafa liðið frá því að A hlaut áverka þar til hann lést?

7.       Voru einhver efni í blóði hins látna sem gætu hafa orðið þess valdandi að honum blæddi hraðar en ella?

8.       Er útilokað að áverkar þeir sem drógu A til dauða séu til komnir vegna falls hans í klefa, s.s. á gólf, rúmbrík, stól, borð, salerni eða hvaðeina annað sem fyrirfinnst í klefa hans? Þessari spurningu óskast svarað miðað við þær forsendur að hinn látni hafi staðið á gólfi, staðið á rúmi, staðið á stól eða salerni, eða staðið á borði.

9.       Er útilokað að áverkar þeir sem drógu A til dauða séu til komnir vegna endurlífgunartilrauna, s.s. við hjartahnoð? Skal við svar spurningarinnar gera ráð fyrir framkvæmd endurlífgunartilraunarinnar af faglærðum einstaklingi annars vegar og ófaglærðum hins vegar.

10.    Af krufningu og/eða skoðun á líkinu að dæma, er hægt að fullyrða að áverkar þeir sem drógu  hinn látna til dauða séu af mannavöldum?

Verjendur rökstuddu yfirmatsbeiðnina með þeim hætti að í ljósi þess hversu frábrugðin niðurstaða C var miðað við krufningarskýrslu B væri nauðsynlegt að fá annað mat. Þá hafi engir matsfundir verið haldnir og sé mat C því meingallað að formi og efni. Töldu verjendur að vegna þess hversu mál þetta væri viðkvæmt og ákærðu þekktir hér á landi væri nauðsynlegt að fá erlenda sérfræðinga til verksins til að gæta fyllsta hlutleysis. Með úrskurði dómsins uppkveðnum þann 27. nóvember 2013 var fallist á að að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að svara þeim spurningum sem greinir í yfirmatsbeiðnum vegna matsgerðar C réttarmeinafræðings og vegna matsgerðar sálfræðinganna O og P. Í þinghaldi þann 19. mars 2014 var tekinn til úrskurðar ágreiningur aðila varðandi það hvaða yfirmatsmenn skyldi dómkveðja til að leggja mat á skýrslu C en frestað var að leysa úr ágreiningi vegna dómkvaðningar yfirmatsmanna vegna matsgerðar  ofangreindra sálfræðinga. Af hálfu ákæruvalds var því mótmælt sérstaklega að erlendir sérfræðingar yrðu fengnir til yfirmatsins og bent á að það væri hlutverk dómsins að finna óvilhalla menn til verksins.  Með úrskurði dómsins uppkveðnum þann 1. apríl 2014 var fallist á þá tillögu verjenda að tilteknir erlendir sérfræðingar yrðu fengnir til starfans en af hálfu ákæruvalds var því mótmælt án þess að bent hafi verið á aðra hæfa sérfræðinga. Dómurinn hafði undir höndum upplýsingar um þá sem verjendur höfðu lagt til að yrðu dómkvaddir og varð af þeim upplýsingum ekki annað ráðið en að þeir væru fyllilega hæfir til starfans. Voru þessi sérfræðingar sem verjendur ákærðu höfðu lagt til því dómkvaddir til starfans. Þessum úrskurði var skotið til Hæstaréttar Íslands sem með dómi uppkveðnum þann 2. maí 2014 felldi hinn kærða úrskurð úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að dómkveðja hæfa og óvilhalla menn til að framkvæma yfirmat vegna matsgerðar C og svara þeim spurningum sem greindi í yfirmatsbeiðnum. Var þessi niðurstaða byggð á þeirri meginreglu laga nr. 88/2008 að dómari hafi frumkvæði að vali á matsmanni. Dómarinn hóf þá tilraunir til þess að finna erlenda sérfræðinga til þess að taka að sér umræddan starfa. Gekk það vægast sagt mjög illa og bárust dóminum lengi vel engin svör frá þeim stofnunum og einstaklingum sem leitað var til. Á endanum tókst þó að finna erlenda sérfræðinga til þess að taka að sér starfann, þau D, prófessor í réttarvísindum við Oslóarháskóla og yfirlækni meinafræðideildar norsku lýðheilsustofnunarinnar og E, réttarmeinafræðing, yfirlækni og deildarforseta réttarlæknisdeildar í Linköping í Svíþjóð.

                Yfirmatsbeiðnir verjenda vegna mats sálfræðinganna O og P voru svohljóðandi:

1.       Er aðferðafræðin sem beitt er í greinargerð sálfræðinganna þekkt og viðurkennd aðferð í réttarsálfræði og stenst hún þær gæðakröfur sem sálfræðingar setja sér varðandi rannsóknir almennt?

2.       Eru gögnin sem sálfræðingarnir skoða og byggja niðurstöður sínar á nægilega góð til að hægt sé að komast að þeim niðurstöðum  sem þeim komast að, t.d. varðandi skýrleika myndbanda og aðra hluti?

3.       Til þess að draga svona ályktanir um hegðun einstaklinga á þeim gangi þar sem hinn látni bjó daginn sem hann lést, hefði þurft lengra samanburðartímabil en einn dag?

4.       Hefði þurft að skoða hegðun sakborninga í málinu yfir lengra tímabil til að fá einhvers konar „grunnmælingu“ á ógnandi hegðun þeirra almennt til að geta metið hvort þeir voru sérstaklega ógnandi í garð hins látna umfram aðra fanga?

5.       Hefðu sálfræðingarnir þurft að túlka hegðun einstaklinga á myndbandinu „blint“, þ.e. án þess að vita hverjir voru sakborningar, hver var hinn látni, og hverjir voru vitni, án þess að vita forsögu þeirra einstaklinga sem  hér eiga í hlut? Sérstaklega í ljósi þess að forsenda fyrir rannsókn þeirra sé að „hegðun og líkamstjáning fanga sé almennt lík hegðun og líkamstjáning annars fólks“ eins og fram kemur á blaðsíðu 2 í greinargerð þeirra.

Ekki var ágreiningur um að fá sérfræðingana Q, prófessor í réttarsálfræði við Glasgow Caledonian háskólann og háskólann í Bergen, R, prófessor í sálfræði við Gautaborgarháskóla í Svíþjóð og S,  aðstoðarprófessor í réttarsálfræði við háskólann í Þrándheimi til starfans, en vegna veikinda eins þeirra svo mánuðum skipti, lágu endanlegar niðurstöður þeirra ekki fyrir fyrr en 27. júní 2015.

Framangreindir sérfræðingar voru frá mismunandi löndum og var þeim gerð grein fyrir því að þeir ættu að skila sameiginlegum yfirmatsgerðum en þeir lýstu því allir yfir að slík vinnubrögð væru þeim framandi og varð niðurstaðan sú að hver og einn skilaði sínu áliti en þeir höfðu þó álit hinna undir höndum. Ekki var gerð athugasemd við þetta af hálfu sakflytjenda.

Í yfirmatsgerð D dagsettri 5. janúar 2015 og viðauka dagsettum 16. febrúar sama ár kemur fram að rifan í miltanu hafi verið nálægt portinu. Sá hluti miltans liggur ekki beint undir brjóstvegg/kviðvegg. Þetta ásamt engum öðrum merkjum um ofbeldi, geri, að því er kemur fram í matsgerðinni, sennilegra að kviðarholsblæðingin hafi orðið vegna endurlífgunartilrauna og tákni því ekki dánarorsökina. Dánarorsökin geti því verið eðlileg, t.d. hjartsláttartruflanir eða tengd fíkniefnanotkun hins látna. Hún tekur undir C um að áverkar á milta hefðu haft áhrif á A sem ekki sáust á myndbandsupptöku áður en hann yfirgefur sameignina og gengur út á ganginn. Yfirmatsmaðurinn tekur fram að engin merki voru um útvortis áverka á líki A samkvæmt krufningarskýrslunni, þá voru ekki heldur áverkar á vegg kviðarhols eða í mjúkvef á baki. Því telur hún ólíklegt, en þó ekki algerlega ómögulegt, að áverkinn á miltanu, og einkum áverkinn á miltaæðinni, hafi verið af mannavöldum. Telur yfirmatsmaðurinn að líklegast hafi milli mínútna og klukkustunda liðið frá því A hlaut áverka þar til hann lést. Í yfirmatsbeiðni er yfirmatsmaður beðinn um að svara því hvort útilokað sé að áverkar þeir sem drógu A til dauða séu til komnir vegna falls hans í klefa, s.s. á gólf, rúmbrík, stól, borð, salerni eða hvaðeina annað sem fyrirfinnst í klefa hans. Þessu svarar yfirmatsmaðurinn á þá leið að hún geti ekki útilokað að A hafi einhvern veginn fengið áverkana við fall. Engin efni sem fundust í A, og yfirmatsmanni var kunnugt um, myndu valda hraðari blæðingu en þó sé einn sjúkdómur sem hefði getað hindrað blóðstorknun hans; lifrarsjúkdómurinn. Hann hafi verið með lifrarbólgu og bandvefsmyndun í lifur, mögulega skorpulifur. Þá var hún einnig krafin svara við því hvort útilokað sé að áverkar þeir sem drógu A til dauða séu til komnir vegna endurlífgunartilrauna, s.s. við hjartahnoð. Hún taldi áverkana vel geta verið af völdum endurlífgunartilrauna. Sjálf hafi hún ekki séð miltarof en þó hafi hún séð umtalsverða blæðingu frá lifrarrofi af völdum endurlífgunartilrauna. Hún bendir á að í fræðunum séu til skýrslur um miltarof. Möguleikinn á slíku rofi myndi vera meiri ef fagfólk framkvæmdi endurlífgunartilraunirnar, þar sem það sé yfirleitt kraftmeira. Bendir yfirmatsmaðurinn á að staðsetning rofsins gefi til kynna að möguleikinn á að slíkur áverki vegna ytri krafts annars en endurlífgunartilrauna sé minni, þar sem þessi hluti er jafnvel meira varinn en aðrir hlutar miltans. Þá veltir hún upp rofinu á miltaæðinni og tekur fram að hún hafi hvorki séð skýrslur um slíkan áverka vegna endurlífgunar, né ytri krafts án víðtækari áverka á kviðarholi. Hún velti fyrir sér hvort þessi áverki hafi komið til við krufninguna. Yfirmatsmaðurinn E lýsir sig í matsgerð sinni dagsettri 15. apríl 2015 sammála samantekt D á bakrunnsupplýsingum, niðurstöðum krufningar, eiturefnarannsóknar og dánarorsök. Hann gerði þær athugasemdir að hann væri sammála D að lýstum áverkum á baki beri saman við áverka eftir andlátið og að hans mati geti þeir stafað af langvarandi endurlífgun á hörðum fleti. Þá er hann sammála um að „harður lifrarvefur með hnútum“ og smásjárniðurstöður „aukning í tengivef“ gefi til kynna skorpulifur eða skilrúmsbandvefsmyndun þrátt fyrir fullyrðingu í krufningarskýrslu. Hann bendir á að ljósmyndir af miltanu sýni rof sem ekki séu nefnd í krufningarskýrslu og hans túlkun sé sú að þessi rof séu vegna meðhöndlunar á miltanu við og eftir krufningu. Hann lýsir sig sammála C um að ekkert bendi til þess að miltarofið sé vegna sjúkdóms, jafnvel þótt A hafi verið með skorpulifur með blóðkökkum eins og D nefni í mati sínu, eða vegna lyfja/efna sem fundust í blóði við krufningu. Yfirmatsmaðurinn telur að endurlífgun geti verið möguleg skýring á áverkanum á miltanu ásamt því að geta útskýrt óvenjulega staðsetningu áverkanna á innri hlið miltans. Fall úr standandi stöðu verði, að mati yfirmatsmannsins, ekki útilokað sem orsök áverkanna sem drógu A til dauða. Þá tekur hann undir með D um að orsök og hvernig dauðann bar að geti verið eðlileg eða tengd misnotkun fíkniefna þó sé ekkert í krufningarskýrslunni nema lifrarsjúkdómur sem styðji þessa kenningu. Stundum beri eðlilegan dauðdaga mjög brátt að, einkum dauði af völdum hjartabilunar, og þá finnast engin merki um hvað olli dauðanum við krufningu. 

Þrjár yfirmatsgerðir liggja frammi í málinu vegna matsgerðar þeirra O og P. Í áliti Q dagsettu 20. febrúar 2015  kemur fram að sérfræðivitnisburður ætti að byggjast á vísindalegum fræðum eða annarri afgerandi grein og verði að vera umfram þekkingu leikmanns. Athugasemdir og ályktanir ættu að vera umfram þekkingu og færni þess sem taki ákvarðanir, dómara í þessu tilviki. Yfirmatsmaður tekur fram að í fyrrgreindri undirmatsgerð hafi hann ekki fundið neina vísun til faglegra eða vísindalegra heimilda til að styðja þá afstöðu í fyrsta lagi að líta mætti á að vitnisburður þeirra hefði afgerandi grunn og í öðru lagi að þeir hefðu sérþekkingu í beitingu þessarar aðferðar. Telur hann að túlkun atferlis sé innan marka almennrar þekkingar og að sá sem tekur ákvarðanir þurfi ekki sérfræðing til að túlka það. Líkamstjáning án orða sé óaðskiljanlegur hluti af öllu félagslegu atferli manna. Við svar á þeirri spurningu hvort aðferðafræðin sem undirmatsmenn beiti sé aðferðafræðilega traust bendir yfirmatsmaðurinn á að til þess tryggja að vitnisburður hafi vægi þurfi áreiðanlegar verklagsreglur að vera hluti af aðferðafræðinni. Undirmatsmenn bendi ekki á nein gögn um áreiðanleika mats þeirra, en slíkt sé einkum mikilvægt þegar haft er í huga eðli vitnisburðar þeirra fyrir dómi. Rannsóknir á líkamstjáningu hafi leitt í ljós að slík tjáning geti verið tvíræð. Að mati yfirmatsmannsins eru mörg tæknileg atriði sem tákna að ályktanir undirmatsmannanna séu ekki áreiðanlegar. Bendir hann jafnframt á að notkun eftirlitsmyndavéla í dómsmálum geti í sumum tilvikum verið varhugaverð þegar um er að ræða auðkenningu og að hans mati séu ályktanir um andlegt ástand byggt á áhorfi á eftirlitsupptökum líklegar til að vera enn óáreiðanlegri. Þá tekur hann fram að undirmatsmenn notuðu ekki nægilega langa grunnviðmiðunarstöðu til að geta úrskurðað um það hvort viðkomandi hegðun hafi verið algeng eða óvenjuleg. Niðurstaða yfirmatsmannsins á því álitaefni hvort undirmatsmenn hefðu beitt þekktri og viðurkenndri aðferð í réttarsálfræði og hvort hún standist þær gæðakröfur sem sálfræðingar setja sér varðandi rannsóknir almennt, er sú að svo sé ekki. Í yfirmatsbeiðni er yfirmatsmaðurinn inntur eftir áliti sínu á því hvort skoða hefði þurft hegðun sakborninga yfir lengra tímabil, til þess að geta dregið ályktanir um hegðun einstaklinga á ganginum og fá einhvers konar „grunnmælingu“ á ógnandi hegðun ákærðu almennt til að geta metið hvort þeir voru sérstaklega ógnandi í garð A umfram aðra fanga. Yfirmatsmaðurinn kemst að þeirri niðurstöðu að grunnlínan hafi verið algerlega ófullnægjandi til að styðja ályktanir undirmatsmanna. Yfirmatsmaðurinn var í yfirmatsbeiðni krafinn um álit sitt á því hvort undirmatsmenn hefðu þurft að túlka hegðun einstaklinga á myndbandinu „blint“, þ.e. án þess að vita hverjir voru sakborningar, hvar var hinn látni og hverjir voru vitni, án þess að vita forsögu þeirra einstaklinga sem áttu í hlut. Í yfirmatsgerðinni segir varðandi þetta að það að vera blindur fyrir lykileinkennum þeirra sem athugaðir eru, sé grundvallaröryggisatriði vísindalegrar aðferðar við mat á gögnum og þar af leiðandi hefðu undirmatsmenn átt að vera blindir á allar aðstæður sem gætu haft skekkjandi árif. Að lokum kemur fram í yfirmatsgerðinni að hugsanlegt sé að undirmatsmenn hafi vikið frá hlutverki sínu sem sérfræðingar og inn á svið ákvörðunartakandans með því að svara því hvað hegðun annarra fanga á upptökunum eftir hið ætlaða brot sýnir/lýsir.

Í áliti R dagsettu 14. apríl 2015 kemur fram að athugun á hegðun sé algeng aðferð í réttarsálfræði og heilt yfir í sálfræði. Þó bendir hann á að mismunandi athugendur gætu komist að mismunandi niðurstöðu af áhorfi á hegðun og það séu margir þættir sem geti haft áhrif á hvað athugandi „sér“, til dæmis það að vita útkomuna. Telur yfirmatsmaðurinn að myndbandsupptakan sé óskýr og tekin úr fjarlægð og af þeim sökum sé mjög erfitt, nær ómögulegt, að sjá svipbrigði viðkomandi einstaklinga. Yfirmatsmaðurinn taldi að í þessu tiltekna máli hefði lengri samanburðartími ekki skipt máli fyrir gæði ályktana. Að mati yfirmatsmannsins var mikilvægasta álitaefnið sem að honum var beint sú spurning hvort undirmatsmennirnir hefðu þurft að túlka hegðun einstaklinga á myndbandinu „blint“, þ.e. án þess að vita hverjir voru sakborningar, hver var hinn látni og hverjir voru vitni, án þess að vita forsögu þeirra einstaklinga sem áttu í hlut. Kemur fram í yfirmatsgerðinni að rannsóknir sýni að þegar við vitum að eitthvað hefur gerst, hættir okkur til að líta á þá útkomu sem óumflýjanlega. Fyrirbærið, að fólk trúi að eitthvað hljóti að gerast þegar útkoman er vituð, nefnist eftiráhyggjuskekkja. Önnur skýring á því er að okkur hættir til að endurgreina atburð þannig að fyrri stig atburðarins eru orsakalega sniðin til að passa við lokaútkomuna. Yfirmatsmaður framkvæmdi samanburðarrannsókn þar sem hann bar saman tvo hópa, annar hópurinn fékk að vita um hvað rannsóknin raunverulega snerist en hinn hópurinn hélt að verið væri að rannsaka hvernig reyndari fangar hagi sér gagnvart nýjum föngum. Af rannsókninni dró yfirmatsmaðurinn tvær ályktanir, annars vegar var að þátttakendur skynjuðu allir ógn sem beindist að nýja fanganum og að þeir upplifðu ógnina ekki sem við ystu mörk, og hins vegar að ekki var mikill munur á þeim stigum sem kortlögð voru í rannsókninni. Að mati yfirmatsmannsins studdu niðurstöður rannsóknarinnar alls ekki þá hugmynd að mat undirmatsmannanna hafi orðið fyrir áhrifum á því að þeir vissu hina raunverulega útkomu.

Yfirmatsmaðurinn S lýsir sig í álitsgerð sinni dagsettri 27. júní 2015 sammála fyrrgreindri yfirmatsgerð frá Q. Telur yfirmatsmaðurinn að aðferð sú sem undirmatsmenn notuðu standist ekki gæðakröfur sálfræðinga varðandi almennar athuganir. Hann taldi að lengra grunnlínutímabil hefði  verið æskilegra, en í þessu tiltekna máli hefði það ekki skipt máli fyrir niðurstöðurnar þar sem gæði myndbandsupptökunnar voru svo léleg að ekki sáust svipbrigði fanganna. Varðandi það hvort undirmatsmenn hefðu þurft að túlka hegðun einstaklinga á myndbandsupptökunni „blint“ segir í matsgerðinni að það hafi venjulega áhrif á það sem matsaðilar sjá ef þeir vita útkomuna. Í yfirmatsgerðinni er rakin fyrrgreind rannsókn  sem R gerði og gerð er grein fyrir hér að ofan. Að mati yfirmatsmanns sýnir rannsóknin að sænski rannsóknarhópurinn var ekki litaður af réttarstaðfestingarskekkju, en ekki að undirmatsmenn væru ekki litaðir af áhrifum staðfestingarskekkju og að draga ályktanir um einstaklinga af hóprannsóknum sé aðferðafræðilegur galli. Að mati yfirmatsmannsins hefðu undirmatsmenn átt að vera blindir á allar kringumstæður sem gætu haft skekkjandi áhrif.

Framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

Ákærði X skýrði svo frá að komið hafi til tals milli hans og A að hann greiddi 50.000 krónur fyrir hurð sem hann  hefði skemmt og hafi A þótt sjálfsagt að gera það. Ákærði neitaði því að skuldin hefði verið 500.000 krónur. Hann kvaðst hafa vitað að A hefði fengið bætur úr vistheimilasjóði en hann kvaðst ekki vita hversu miklar. Hann kvað A hafa sagt að hann hefði tekið „súbba“ og væri honum farið að líða illa út af því. Hann kvaðst nú vita að hann hefði fengið þetta efni hjá G. Hann kvaðst ekki hafa séð A neyta þessa efnis. Hann kvaðst hafa sagt við A að það væri ekki gott fyrir hann að láta verðina sjá hann dópaðan frammi. Aðspurður hvers vegna hann hafi ekki tekið í hönd A þegar þeir hafi hist fyrst kvaðst ákærði hafa það fyrir reglu að taka ekki í hönd fanga sem séu dópaðir því þeir geymi dópið uppi í endaþarmi og nái sér í dóp þaðan nokkrum sinnum á dag. Kvaðst ákærði hafa margra ára reynslu í fangelsi og taki ekki í höndina á neinum sem séu í slíku ástandi.  Hann kvaðst ásamt meðákærða hafa verið í klefa A í 11-12 mínútur og hafi A og meðákærði verið að reykja og hafi þeir talað um að A þyrfti að fara að stoppa þetta bull í sér, þessa neyslu, en hann hafi litið hræðilega út þegar hann hafi komið inn. Þeir hafi haft áhyggjur af heilsu hans því þeim hafi þótt vænt um hann. Hann kvað A hafa setið allan tímann, verið sljór og kúgast upp í sjálfan sig en samt ekki ælandi og hafi hann ekki ælt meðan þeir hafi verið þarna. Hann kvaðst ekki hafa séð hann detta, hann hafi setið allan tímann á rúminu að hann hélt. Ákærði mundi ekki hvort A hafi verið reikull í spori eða átt erfitt með að  halda jafnvægi.  Ákærði kvaðst síðan hafa farið út úr herberginu, sett föt sín í poka og ætlað í sturtu því hann hafi verið löðrandi sveittur eftir að hafa verið að keppa í fótbolta. Meðákærði Y hafi síðan komið til sín og sagt að það hefði komið eitthvert baul upp úr A. Hafi meðákærði sagt að A hafi legið hálfur á gólfinu og hálfur uppi í rúminu og síðan klöngrast upp í rúmið. Ákærði kvaðst hafa verið kominn úr sturtu og  þá hafi hann heyrt eitthvert baul þegar hann hafi gengið inn ganginn. Hann kvaðst hafa farið inn í klefa A og þá séð hann liggja á bakinu í rúminu, ælandi upp í sig og hálf meðvitundarlaus. Hafi hann átt erfitt með andardrátt og kvaðst hann hafa velt A á hliðina, kallað á strákana og hringt á fangaverði, en þeir hafi ekki komið fyrr en hann hefði hringt í annað skiptið. Ákærði kvaðst aldrei hafa ógnað A, hann hafi komið honum til aðstoðar og hringt á aðstoð. Þá neitaði hann því að hafa veitt honum högg eða beitt hann annars konar ofbeldi.

Ákærði Y skýrði svo frá fyrir dómi að meðákærði X hafi talað um að A hefði skemmt hurð og hefði hann ætlað að borga hana þegar þeir hafi hitt A í eldhúsinu. Hann kvað meðákærða hafa lagt til að A væri ekki þarna frammi meðan  hann væri að kúgast og væri dópaður. Hafi A augljóslega verið undir áhrifum og hafi hann sjálfur talað um að honum liði illa. Ákærði vissi ekki á hvaða lyfi hann hefði verið. Hann kvað A hafa verið að drekka úr mjólkurglasi, honum hafi svelgst á því og sagt að hann ætlaði ekki að klára úr glasinu. Hafi ákærði séð að A myndi ekki ganga frá því sjálfur og því hafi hann hellt úr glasinu. Hafi engin óvild verið þar að baki. Hann kvað þá meðákærða hafa dvalið í herbergi A í 10-12 mínútur og hafi þeir verið að spjalla. Hafi líðan hans verið svipuð þegar þeir hafi skilið við  hann og hafi hann haldið áfram að kúgast en ekki ælt. Hann hafi verið að sötra mjólk frammi og þá hafi hann sagt að hann hafi borðað einhverja óhemju. Ákærða minnti að A hefði setið á rúminu þegar þeir hafi skilið við hann og hann kvaðst ekki hafa séð hann detta þarna inni. Þá minntist hann þess ekki að hann hafi átt erfitt með að halda jafnvægi. Kvað ákærði að 5-7 mínútum eftir að hann hefði farið úr herbergi A hefði hann heyrt nokkurs konar stunur frá honum og hafi verið augljóst að eitthvað væri að.  Hafi A verið að klöngrast upp í rúmið og minnti hann að hann hefði kallað til hans en hann hafi ekki svarað.  Hann kvaðst ekki hafa séð ælu, hann hafi komist upp í rúmið og kvaðst hann hafa kallað til hans en hann hafi ekki svarað. Ákærði kvaðst ekki hafa áttað sig á því að eitthvað alvarlegt væri að en hann hafi látið strákana vita að eitthvað væri að hjá A. Hafi meðákærði verið að koma úr sturtu. Ákærði neitaði því að hafa nokkurn tíma lagt hendur á A. Ákærði kvað G ekki hafa verið nálægt þeim þegar hann og meðákærði hafi rætt við A í eldhúsinu. Hann kvað G hafa komið til sín eftir að fangaverðir höfðu verið kallaðir til og sagt honum að ef hann segði frá því að hann hafi látið A fá „súbbann“ myndi hann drepa ákærða og kvaðst ákærði því hafa fengið morðhótun frammi í eldhúsinu. Ákærða fannst að A hefði átt að fá  læknisaðstoð strax þegar hann kom í fangelsið. Ástandið á honum hafi verið það slæmt og þá hafi honum fundist alveg út í hött hvað tekið hafi langan tíma fyrir verðina að koma honum til hjálpar.

Vitnið T skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hafi umrætt sinn verið fangi á Litla-Hrauni og verið staddur í klefa sínum en einn klefi hafi verið milli hans og klefa A. Hann kvaðst engin hljóð hafa heyrt ekki fyrr en ákærði X hafi reynt að kalla eftir hjálp. Hann kvað fangann G hafa verið að taka skýrslur af strákunum um það hvað þeir hafi heyrt. Hafi hann reynt að sannfæra vitnið um það að ákærðu hefðu gengið frá A en vitnið kvaðst ekki trúa þessu upp á þá.  Þá hafi G viðurkennt að hafa látið A hafa fullt af „Subutex“ og hafi hann talað um að helvítis merðirnir láti hann halda að hann hafi drepið A. Þá kvaðst hann hafa heyrt frá öðrum að G hefði verið að bjóða eiturlyf og annað fyrir að bera vitni gegn ákærðu og hafi honum virst mikið í mun að skilja sig strax frá málinu.

Vitnið K skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi hitt A þegar hann hafi komið í fangelsið og sagt við hann að það væri ekki sjón að sjá hann og hafi verið ljóst að hann hafi verið í einhverju rugli. Hann kvað verið geta að A hefði verið undir áhrifum fíkniefna. Hann kvaðst ekki hafa kíkt inn í herbergi hans en hann kvaðst hafa gengið fram hjá því og fundið mikla ælulykt. Hann kvaðst engin hljóð hafa heyrt sem bentu til þess að ofbeldi hefði verið beitt. Hann kvað að seinna hefði hann verið færður á annan gang þar sem G og F voru og þá hafi verið þrýst á hann að fara í aðra skýrslutöku og segja eitthvað meira og hafi honum verið boðið dóp í staðinn, ritalín og „súbbi“. Hann kvaðst vera ofsalega veikur fyrir fíkniefnum og því hafi hann logið upp á ákærðu og hafi fyrsta skýrsla af honum verið bull og hefði hann engin samtöl heyrt. Hann kvaðst sjá rosalega eftir þessu. Hann kvaðst ekki hafa heyrt ákærðu innheimta einhverja skuld hjá A. 

Vitnið G skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið sá fyrsti sem tekið hafi á móti A þegar hann hafi komið í fangelsið. Hann hafi verið mjór en eðlilegur í tali miðað við hvernig hann hafi verið oft áður. Honum virtist hann ekki undir áhrifum fíkniefna, hann hafi verið skýrmæltur og hvorki slagað né dottið. Hann kvaðst hafa tekið utan um A, boðið honum inn á herbergi og boðið honum „Suberson“ línu sem  hann hafi þegið. Hann hafi verið eitthvað stressaður og smeykur og sagst vera hræddur við ákærðu. Hann hafi sagt að það væri eitthvert vesen og spurt hvar þeir væru. Vitnið hafi sagt honum að þeir væru á þessum gangi og kvaðst hann myndu tala við ákærðu þegar þeir kæmu inn. Hann kvað A hafa talað um að hafa fengið einhverja greiðslu úr vistheimilasjóði og hafi ákærðu fengið einhvern hluta af þeirri greiðslu. Hann kvaðst hafa talað við ákærða X og spurt hvort hann vildi ekki láta A í friði, hann væri hræddur við þá, A myndi borga það sem hann skuldaði. Hafi ákærði X þá tekið í hönd vitnisins og sagst ætla að láta hann í friði. Vitnið kvaðst hafa beðið hann um að tala við ákærða Y og hafi vitnið farið inn til A og sagt honum að þetta yrði ekkert mál, hann væri búinn að tala við ákærðu. Vitnið hafi svo farið inn í klefa sinn og þá hafi F komið og sagt að A sé ælandi. Vitnið kvaðst strax hafa haldið að hann hefði orðið svona veikur út af þessari „Suberson“ línu sem hann hafi fengið hjá vitninu, en þetta sé morfínefni sem menn geti orðið veikir af. Vitnið kvaðst hafa hlaupið inn í endann á ganginum og inn í klefann og þá hafi ákærði X staðið við hliðina á A sem legið hafi á bakinu og átt erfitt með andardrátt og hafi komið froða út úr munninum á honum. Vitnið kvaðst hafa strokið honum og hallað honum á hliðina og sagt að það yrði að kalla á verðina. Hafi honum fundist þetta óvenjumikil og sterk viðbrögð af línunni. Þeim hafi verið vísað inn á klefa og klukkutíma seinna hafi verið tilkynnt að A væri dáinn. Vitnið kvaðst hafa staðið í þeirri trú að þessi lína hafi valdið því að hann hafi orðið svona veikur og hann hafi ekki verið látinn halda neitt annað. Þegar ákærðu hafi verið settir í gæsluvarðhald hafi hann spurt nokkra stráka sem verið hafi inni í klefa hans hvort ákærðu hafi gert A eitthvað en þeir hafi þá spurt hvort hann hafi ekki heyrt óhljóðin í honum. Hafi þessir strákar þá haldið að vitnið væri að hylma yfir eitthvað sem hefði gerst. Vitnið kvaðst hafa notað umrætt lyf mikið í fangelsi, manni verði bumbult af því, geti ekki hreyft sig og verði grár og sveittur.  Hann kvað þetta virka á 30-45 mínútum, kannski klukkutíma. Hann kvaðst hafa hvatt menn til þess að vera ekki að ljúga, standa með sannleikanum ef þeir hefðu eitthvað að segja.  Hafi strákarnir talað um að ákærðu hefðu farið fljótlega inn til A eftir að verðirnir hafi verið farnir af ganginum og hafi heyrst högg og einhverjir dynkir þarna inni. Þá hafi verið talað um að honum hefði verið hótað í eldhúsinu út af einhverri skuld. Hann kvaðst ekki hafa orðið vitni að því sem gerðist í eldhúsinu. Hann kvaðst ekkert hafa heyrt, hann hafi verið að hlusta á þungarokk í klefanum með öðrum fanga. Hann kannaðist við að hafa rætt við T um að segja bara sannleikann. Hann kvaðst á þessum tíma ekki hafa átt neitt sökótt við ákærðu, en honum virtist þeir sem hann hafi talað við vera hræddir við að tjá sig af ótta við ofbeldi af hálfu ákærðu. Vitnið mundi ekki eftir því að hafa boðið vitninu K fíkniefni fyrir að tjá sig. Vitnið kvaðst í fyrstu hafa staðið í þeirri trú að hann hefði borið ábyrgð á dauða A.

Vitnið U skýrði svo frá fyrir dómi að A hafi komið á ganginn og stuttu eftir það hafi vitnið farið inn í klefa hjá G. Þar hafi G látið A fá hálfa töflu af Superson eða Supertex. Þá kvað hann að eftir umrædda atburði hafi G verið að bjóða mönnum samning eða varning fyrir að bera ljúgvitni gagnvart ákærðu, hafi átt að segja að heyrst hefðu högg inni í klefa. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að ákærðu væru að hóta A, þeir hafi tekið vel á móti honum og boðið hann velkominn.

Vitnið V skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði engin hljóð heyrt meðan ákærðu voru inni í klefa A, en hann kvaðst allan tímann hafa verið inni í sameiginlega rýminu. Hann kvað G hafa haft samband við sig daginn eftir og boðið honum dóp fyrir að segja að ákærðu hafi ráðist á A vegna gamalla illdeilna. Vitnið kvað A hafa litið rosalega illa út og hefði G haft áhyggjur af því að hann hefði drepið hann með því að gefa honum „súbatex“. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að ákærðu væru að hóta A eða beita hann ofbeldi.

Vitnið BB fangavörður skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið að vinna í húsi nr. 4 þegar M hafi hringt í hann og beðið um aðstoð, þar væri eitthvað að hjá A. Þegar hann hafi komið þangað hafi aðrir fangaverðir verið þar fyrir og hafi hann sótt hjartastuðtæki að beiðni þeirra. Hann kvað A ekki hafa verið með meðvitund en einhver hreyfing hafi verið á honum og þá sýndist honum hann anda. Hafi A verið tengdur við tækið, en það hafi ekki mælt með að stuða hann, heldur að hefja endurlífgun. Hafi A verið færður niður á gólf og hafi hann verið beittur hjartahnoði og blæstri. Tækið mældi lífsmörk með reglulegu millibili en það hafi aldrei mælt með að stuða og hafi endurlífgun því verið reynd áfram. Síðan hafi sjúkraflutningamenn og læknir komið og tekið við stjórninni og hafi endurlífgunartilraunum verið haldið áfram. Læknir hafi síðan úrskurðað A látinn og sagt þeim að hætta endurlífgun.

Vitnið L fangavörður skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi tekið á móti A þegar hann hafi verið færður í einangrun í fangelsinu. Þá kvaðst hann hafa verið viðstaddur lífgunartilraunir á honum daginn eftir, hann hafi hlaupið til og útvegað það sem vantað hafi. Hann kvað A við komuna hafa verið gefið Risolid og Truxal um kvöldið, en hann hafi verið að koma úr neyslu. Hann kvað þessi lyf stuðla að betri líðan og hjálpa fólki yfir erfiðasta hjallann en þau gæfu ekki mikil vímuáhrif. Hann kvað A hafa verið grannan enda hafi hann verið að koma af götunni og hafi það komið honum á óvart hversu rýr hann hafi verið orðinn. A hafi síðan verið færður í klefa nr. 42 og kvaðst hann ekki merkt að hann væri kvíðafullur. Þá mundi vitnið ekki hvort A hefði spurt hvort ákærðu væru á þessum gangi. Hann kvað alla á ganginum hafa tekið vel á móti honum og hafi hann ekki orðið var við neina óvild í hans garð. Hann kvaðst næst hafa haft afskipti af A þegar neyðarboð hafi borist og lífgunartilraunir hafist. Vitnið kvaðst ekki hafa komið að hjartahnoði á A og mundi ekki hverjir það voru.

Vitnið M fangavörður skýrði svo frá fyrir dómi að tekið hafi verið á móti A þegar hann kom á gang 4 og hann færður í klefa. Hann kvað hann hafa verið illa á sig kominn, tekinn, grannur og horaður en hann hafi ekki virst laslegur og ekki borið sig illa. Hann hafi hins vegar borið þess merki að vera í fráhvörfum. Um klukkutíma síðar hafi verið tilkynnt í kallkerfi að A væri orðinn veikur og væri að æla og hafi verið sótt hjartastuðtæki og síðan hringt í neyðarlínuna. Reynd hafi verið endurlífgun og hafi þeir verið í sambandi við lækni allan tímann þar til hann hafi komið í sjúkrabíl. Vitnið kvaðst aldrei hafa farið inn í klefann, hann hafi verið á varðstofu allan tímann. Vitnið taldi að ákærði X hefði kallað eftir aðstoð.

Vitnið CC fangavörður skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi tekið á móti A þegar hann hafi verið færður í einangrun. Hann hafi verið laslegur, horaður og grár. Hann hafi daginn eftir verið færður yfir á gang 4 í húsi 3 og hafi hann ekki kvartað undan veikindum og þá hafi hann ekki séð hann detta. Hann kvaðst ekki muna hvort A hefð spurt um ákærðu. Hann kvað hafa verið kallað inni í varðstofu að A væri ælandi í klefanum og hafi hann og aðrir fangaverðir farið þangað. Hafi A legið í rúminu, ælandi, hálf meðvitundarlaus og hafi fullt af föngum verið inni í klefanum. Um tveimur mínútum eftir að hann hafi komið inn í klefann hafi A hætt að anda og hafi þá lífgunartilraunir hafist. Vitnið kvaðst hafa blásið í A og BB fangavörður hafi hnoðað hann. Hann kvað engan hjartslátt hafa náðst upp hjá A. Eftir að sjúkraflutningamennirnir hafi komið hafi þeir og fleiri fangaverðir skipst á að hnoða hann. Hann kvað hjartastuðtækið hafa strax gefið til kynna að hjartað væri stopp, þ.e. það dældi ekki. Vitnið kvað ákærða X hafa kallað eftir aðstoð í upphafi.

Vitnið DD fangavörður skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi fært A í klefa daginn eftir komu hans í fangelsið og hafi hann verið magur og slappur og illa farinn af langri neyslu. Hann kvað A hafa fengið góðar móttökur. Eftir að borist hefði tilkynning um veikindi hans hefði  hann farið inn í klefa hans  þar sem hann hafi verið meðvitundarlaus í rúminu, hafi þeir hlúð að honum, sett á hann hjartastuðtæki og byrjað að hnoða hann eftir að tækið hefði gefið merki um að það skyldi gert. Hafi verið hringt á sjúkrabíl og lækni og hafi hann síðan verið úrskurðaður látinn. Vitnið kvað hafa hryglað í A einhverjar mínútur í byrjun.

Vitnið N, fyrrverandi fangavörður, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi séð A álengdar við komu hans í fangelsið. Hann hafi ekki litið vel út, mjög grannur og vannærður. Hann kvaðst hafa farið inn í klefa A og fannst honum eins og hann væri að kafna í eigin ælu, en hann hafi legið á bakinu í rúminu. Mögulega hafi verið búið að velta honum á hliðina, vitnið mundi það ekki alveg, en greinilegt að eitthvað alvarlegt væri að gerast. Hann hafi þá verið tengdur við hjartalínurit og síðan hafi verið byrjað að hnoða hann eftir að tækið hafi gefið fyrirmæli um það. Hann kvaðst ekki hafa sjálfur hnoðað A. Hann kvað ákærða X hafa kallað eftir aðstoð.

Vitnið EE fangavörður skýrði svo frá fyrir dómi að hún kannaðist ekki við að hafa fengið neinn þvott í fangelsinu umræddan dag, en enginn komist inn í þvottahúsið þegar það sé lokað.

Vitnið FF fangavörður skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi farið til aðstoðar þegar tilkynnt hefði verið um veikindi A. Hann kvaðst ekki hafa komið að lífgunartilraunum en hann mundi eftir að hafa séð ælu í klefanum. Hann kvað það reglu að fangar séu settir í einangrun fyrstu nóttina eða sólarhringinn eftir að þeir séu teknir nánast inn af götunni. Hann kvað alltaf vera hringt í lækni í slíkum tilvikum en hann mundi ekki hvort læknir hafi skoðað A.

Vitnið GG  fangavörður skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi hitt A daginn sem hann hafi komið og hafi hann verið í frekar lélegu ástandi eða eins og menn séu þegar þeir komi af götunni, hann hafi verið tærður og grannur og í fráhvörfum. Honum virtist hann ekkert mjög veikur en hann kvaðst ekki hafa haft afskipti af honum fyrr en um það leyti sem verið var að klára lífgunartilraunir. Hann kvaðst vita til þess að A hafi verið gríðarlega mikill fíkill og alltaf til í neyslu. Hann minntist þess ekki að A hefði kvartað undan vanlíðan við sig.

Vitnið HH skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hefði verið kallaður að fangelsinu ásamt félaga sínum og hefðu þeir tekið með sér lækni. Hann kvað tvo fangaverði hafa verið í endurlífgunartilraunum en hann mundi ekki nákvæmlega hver hans þáttur hafi verið í þeim tilraunum. Þá mundi hann ekki eftir því að honum hafi fundist sem hann hefði hugsanlega brotið rifbein, enda langt um liðið. Hann kvað manninn hafa verið í hjartastoppi og hættur að anda. Vitnið staðfesti að það hefði aldrei upplifað svo mikil uppköst í endurlífgun áður.

Vitnið II skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið kallaður til sem sjúkraflutningamaður og hafi tveir fangaverðir reynt endurlífgun. Hafi verið búið að tengja hjartastuðtæki á manninn sem hafi kastað mikið upp, en það hafi truflað blásturinn. Hafi þurft að soga upp úr honum með sogtæki og hafi það flækt málið. Hann mundi ekki hvort hann hefði sjálfur hnoðað manninn. Hann kvað hjartastuðtæki virka þannig að þegar tækið leyfi stuð sé ennþá rafvirkni í hjartanu en ekki dæluvirkni sem slík. Hann varð ekki var við að rætt hefði verið um að rifbein hefði brotnað við hnoðið.

Vitnið JJ skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hafi komið á staðinn og þar hafi fangaverðir verið að sinna endurlífgun á manninum, þeir hafi verið að hnoða hann og blása. Læknir hafi fljótlega komið með seinni sjúkrabifreiðinni og hafi þeir því verið fimm að sinna manninum, þá hafi lögreglan komið fljótlega og aðstoðað við hnoð og annað. Maðurinn hafi þá verið alveg meðvitundarlaus og töluverð æla hafi komið upp úr honum. Hann kvaðst hafa verið með sogtæki og reynt að koma í veg fyrir að ælan færi öll ofan í hann með því að hreinsa öndunarveginn. Endurlífgun hafi engum árangri skilað og minnti vitnið að það hafi verið rafvirkni í hjartanu en engin dæluvirkni og enginn púls þar til þeir hafi hætt. Reynt hafi verið töluvert lengi en hann mundi ekki hve lengi. 

Vitnið KK skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi sem sjúkraflutningamaður aðstoðað fangaverðina við endurlífgunina. Notað hafi verið stuðtæki  en það hafi aldrei komið neinn stuðvænn taktur.

Vitnið LL lögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að þann 3. apríl 2012 hafi hann verið að aka með A frá lögreglustöðinni á Hverfisgötu upp í Breiðholt þegar hann hafi farið að ræða við hann um samskipti hans við ákærðu og hvort þeir hefðu reynt að kúga hann til þess að brjótast inn fyrir sig. Hafi A játað því og hafi hann þá sagst hafa stungið ákærða X með sprautunál og eftir það hafi þeir látið hann í friði. Hafi ákærði X verið að spyrja hann hvort sprautunálin hafi verið sýkt, þá kvaðst vitnið hafa spurt A hvort hún hefði verið sýkt en hann hefði ekki svarað því. Hann kvaðst hafa séð ástæðu til að skrifa sérstaka upplýsingaskýrslu um þetta eftir að A var dáinn.

Eftir skýrslugjöf vitnisins LL komu ákærðu aftur fyrir dóminn og lýstu því yfir að þessi frásögn vitnisins væri röng.

 Vitnið H, sérnámslæknir í gjörgæslu- og svæfingalækninum, skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hafi tekið þátt í og stjórnað lífgunartilraunum á A. Hann kvað hann hafa legið á bakinu og hafi lífgunartilraunir verið í gangi. Hann hafi verið búinn að kasta upp, mikil æla hafi verið í vitum. Hann kvaðst fyrst hafa taktgreint manninn þar sem grunur hafi verið um hjartastopp en enginn púls hafi fundist. Stuðtækið hafi sýnt rafleysu án dæluvirkni en það þýði að hjartað búi til rafboð en dæli ekki blóði. Meðferð við því sé hjartahnoð og öndunarstuðningur auk adrenalíns og vökva. Þessi endurlífgun hafi staðið yfir í hálftíma en tækið hafi aldrei sýnt breyttan takt, aðeins rafleysi án dæluvirkni. Nokkrar ástæður geti verið fyrir því, t.d. vökvaskortur í æðakerfinu, súrefnisskortur o.fl.  Þá geti innri blæðing úr æðakerfinu skýrt þennan takt. Vitnið staðfesti að enga ytri áverka hafi verið að sjá á manninum. Hann kvað vel þekkt að rifbein brotni við endurlífgunartilraunir, jafnvel komi mar á lungu og hjarta. Hann kvað fræðilega mögulegt að miltað hafi rofnað við endurlífgunartilraunir, enda miklir kraftar að verki en hann taldi sig ekki geta sagt af eða á um það.  Þá kvað vitnið ekki ósennilegt að á 45 mínútum gætu dælst út 2 lítrar af blóði í kviðarhol eftir rof á milta, en tók fram að hann væri ekki alveg með töluna um það hversu mikið blóðflæði á mínútu miltað þurfi, en hjartað pumpi 6 lítrum á mínútu. Hann kvað vel þekkt að milta og lifur geti orðið fyrir miklum skaða af völdum „blunts“ eða mjúks áverka án þess að merki þess sjáist á líkamanum.

Vitnið Q, prófessor í réttarsálfræði, staðfesti yfirmatsskýrslu sína fyrir dómi. Hann kvað aðferðafræðina sem beitt hafi verið í greinargerð undirmatsmannanna ekki þekkta í réttarsálfræði. Þá hafi gögnin sem stuðst hafi verið við ekki verið nægilega skýr til þess að byggja áreiðanlega niðurstöðu á. Það þyrfti lengri tíma til þess að geta séð hvernig mynstrið sé almennt og til að geta sagt hvort um sé að ræða undantekningar frá reglunni. Þá taldi hann nauðsynlegt að sálfræðingarnir hefðu túlkað hegðun einstaklinganna blint, annars leiti rannsakandinn að hlutum til að staðfesta þá kenningu sem hann sé með fyrirfram. Þá taldi hann undirmatsmennina hafa farið út fyrir hlutverk sinn sem hlutlausir matsmenn. Hann gat ekki sagt að þeir hafi fyrirfram verið búnir að mynda sér skoðun um sekt ákærðu en aðferð þeirra hafi verið það gölluð að ekki sé hægt að komast að réttri niðurstöðu með henni. Þá taldi hann hafa skort á að þeir vísuðu í fræðibækur þar sem þeir sanni á hvaða grundvelli þeir byggi ályktanir sínar.

Vitnið MM, verkfræðingur, staðfesti fyrir dómi skýrslu sem hann vann um greiningu á höggálagi sem orsakað hafi rof á milta A og hvort hann hafi getað fallið inni í fangaklefanum með þeim afleiðingum að milta hans gæti hafa rofnað. Hann staðfesti að notast hafi verið við endurgerð fangaklefans og útreikningar gerðir útfrá þeim munum sem þar hafi verið. Þá hafi dúkka verið notuð við tilraunirnar auk þess sem lögreglumaður hafi verið látinn falla á dýnu. Hann staðfesti að niðurstaðan hafi verið að höggkraftur og þrýstingur á kviðarhol þegar mannslíkaminn lendi við fall á klósett, borð, stól eða rúm geti valdið rof á milta og æðum við miltað en líkanatilraunir sýni jafnframt að höggið myndi valda áverka á rifbeinum. Þá staðfesti hann að samkvæmt líkanareikningum geti mannslíkaminn ekki lent á neinum hlut við frjálst fall í fangaklefanum sem orsakað geti rifið milta eða rof á æðar við milta án þess að valda mari eða áverkum við eða á rifbeinunum. Hann kvaðst hafa búið til líkan af búk mannsins til þess að greina hvernig kraftdreifingin verður innan búksins ef hann verður fyrir áverka. Hann kvaðst hafa sett álag á búkinn og þá séð hvernig sá kraftur dreifðist um líkamann og hvernig hann í rauninni barst upp að miltanu og æðinni og með þessu þá kvaðst hann geta greint það hvað æðin og miltað þoldu. Niðurstaðan hafi verið sú að það hafi ekki verið hægt að finna samsvörun milli þess að æðin fór og A hefði dottið á eitthvað í fangaklefanum. Hann kvað athugun sína vera nokkurs konar lífverkfræði, sambland af læknis- og verkfræði, en tók fram að hann væri ekki læknisfræðimenntaður.  Hann kvað forsendur niðurstöðu sinnar vera þær að um heilbrigðan einstakling hefði verið að ræða. Hann kvaðst ekki hafa beðinn um mat á því hvort högg frá manni gæti valdið rofi á milta og ekki geta svarað því hversu mikinn kraft þurfi til þess. Hann taldi að lögreglumennirnir sem tekið hafi þátt í tilrauninni hafi verið svipaðir á hæð og A. Hann kvað sviðsmyndina hafa verið setta upp þannig að þrýstingur á bláæðina ýti henni bæði upp og aftur og rífi hana og rífi í leiðinni upp miltað, þannig að rof í milta sé í rauninni úr frá bláæðinni. Hann gat ekki svarað því hvort þetta hefði getað gerst við endurlífgun eða krufningu.

 Vitnið NN verkfræðingur staðfesti fyrir dómi rannnsókn sem hann vann  vegna hljóðburðar á Litla-Hrauni. Hafi lögreglan viljað komast að því hvernig hljóð bærist eða hve mikill hljóðburður væri úr tilteknum fangaklefa og fram í eldhús. Gerð hafi verið venjuleg stöðluð mæling á hljóðburði þar sem settur sé hátalari með miklum styrk til þess að yfirgnæfa bakgrunnshljóð þannig að það sé örugglega það hljóð sem mælt sé  bæði í klefanum og í eldhúsinu. Mælt sé á báðum stöðum og fundinn út mismunur á því og þegar það sé komið þá sé vitað hvernig hljóð í mismunandi tíðni berist þessa leið og þá sé hægt að beita þessari mælingu á ýmiss konar hljóð sem eigi upptök sín í klefanum. Þá hafi lögreglumenn verið fengnir til þess að leika uppgjör því vantað hafi einhver hljóð sem væri líkust því sem menn ímynduðu sér að hefðu heyrst þarna, þ.e. hljóð sem myndist þegar menn tali lágt saman og svo þegar þeir hækki róminn, brýni raustina og jafnvel þegar einhverjir pústrar verði milli þeirra.  Hann kvað mælingarnar ekki hafa verið gerðar í nálægum klefum, aðeins í opna rýminu eða eldhúsinu.

 Vitnið R, prófessor í sálfræði við Háskólann í Gautaborg, staðfesti yfirmatsskýrslu sína í símaskýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst hafa ákveðið að einblína á það atriði þegar maður veit hver útkoman verður, en þá sjái maður allt sem maður horfi á sem hluta af því sem eigi eftir að gerast en er ekki á upptökunni, t.d. þegar vitað sé að viðkomandi deyr. Hann kvaðst hafa gert tilraun með tvo hópa sem fengið hafi mismunandi bakgrunnsupplýsingar um það sem búið væri að gerast. Hafi fyrsti hópurinn fengið þær upplýsingar að fanginn væri látinn og hverjir væru grunaðir. Hinn hópurinn hafi ekki fengið þessar upplýsingar. Hann kvað báða hópana hafa komist að þeirri niðurstöðu að umræddir einstaklingar hafi ekki verið ógnandi í hegðun. Hann kvað að því lengra sem samanburðartímabilið væri þá yrði niðurstaðan nákvæmari, en það ætti ekki að hafa haft mikil áhrif þegar tekið sé með í reikninginn hversu lélegar upptökurnar hafi verið. Hann kvaðst ekki skilja gagnrýni S á aðferðafræði þessarar rannsóknar.  Hann kvað sér hafa fundist mikilvægust sú spurning hvort það hafi haft áhrif að undirmatsmenn hafi vitað fyrirfram hver útkoman varð og hafi rannsókn hans sýnt að svo hafi ekki verið.

Vitnið B, réttarmeinafræðingur, staðfesti krufningarskýrslu sína fyrir dómi. Hún kvað dánarorsökina hafa verið innvortis blæðingu sem átt hafi uppruna sinn í miltanu eða æðum þess. Í kviðarholi hafi verið tveir lítrar af fljótandi blóði og hafi orsök skemmda á milta eða á æðum verið áverki. Hjartað hafi verið skoðað vefjafræðilega í smásjá og eins með berum augum og hafi ekkert gefið til kynna að um einhver veikindi eða sjúklega veilu væri að ræða. Í lifrinni hafi fundist hersli, hnútar, en ekki beinlínis skorpulifur, heldur frekar fibrosa (bandvefsaukning). Lifrarvefurinn hafi verið harðari en í eðlilegu ástandi vegna þess að frumur lifrarinnar breytist í bandvefsfrumur. Þetta ferli hafi ekki verið gengið það langt að segja mætti að um skorpulifur væri að ræða. Hún kvað skorpulifur draga úr blóðstorknun. Hún kvað erfitt að svara því hvort ástand lifrarinnar hafi verið með þeim hætti að valdið hafi breytingum á storknun blóðs. Hún kvað miltað hafa verið af eðlilegri stærð, ein rifa hafi verið á bláæð, 0,3 cm og 0,5 cm rifa á vef miltans. Aðspurð hvort einhver möguleiki væri á því að þessi áverkar hafi orðið til við krufningu svaraði hún því til að jaðrar þessara rifa hafi ekki verið þráðbeinir heldur meira tenntari. Megi draga þá ályktun af því að ekki hafi verið um skurð að ræða, heldur hafi eitthvað rifnað. Brottnám miltans sé vandasöm aðgerð og geti verið að rifan hafi stækkað eitthvað, en skaðinn hafi verið þarna áður, því um leið og kviðarholið hafi verið opnað hafi verið tveir lítrar af blóði í kviðarholinu. Hún kvaðst strax hafa séð að blóðvottur hafi verið undir miltishylkinu en ekki hafi verið hægt að sjá hversu mikið fyrr en miltað hafði verið numið brott. Þetta helgist af tækninni sem beitt sé við miltisnám þar sem miltað sé tengt maganum og öðrum vefjum. Hún kvað engin lyf eða efni hafa fundist í blóðinu sem gætu hafa valdið aukinni blæðingu eða blóðþynningu, nema örlítinn heilabjúg sem gæti bent til þess að viðkomandi hafi verið undir áhrifum lyfja. Efnagreining hefði leitt í ljós að vissulega hafi verið um að ræða efni í styrk sem hefðu getað haft áhrif á andlegt ástand en engan veginn hefði slíkt leitt til dauða. Hún kvað að sést hafi gulir þurrir blettir á mörkum neðri hryggjaliða, brjósthryggjaliða, lendarhryggjaliða og eins á brjósthryggjarliðnum og undir vinstra herðablaði, en  síðastnefndu svæðin, blettirnir, séu einkennandi fyrir þá sem legið hafi á gólfi. Þá bendi guli liturinn til þess að þeir hafi myndast eftir andlát og með það í huga að gerðar hafi verið lífgunartilraunir á manninum þá megi ætla að blettirnir hafi orðið til við það. Að öðru leyti hafi enga ytri áverka verið að sjá. Þá kvað hún ekkert benda til þess að hann hefði kafnað í eigin ælu vegna þess að í öndunarveginum hafi engar matarleifar verið eða nokkrir aðrir aðskotahlutir. Matarleifar hafi þó fundist við op öndunarvegar en um hafi verið að ræða matarleifar sem upp hafi komið við endurlífgunartilraunir. Vissulega hafi fundist í lungum örsmár vottur af matarleifum en engan veginn í þeim mæli að slíkt hafi leitt til dauða. Hún kvað líklegustu ástæðu rofs á milta vera sljóan ytri áverka, ekki sé hægt að segja til um hvort um hafi verið að ræða egglausan, bitlausan hlut eða einhvern líkamshluta. Högg, spörk og fall á eitthvað gætu valdið þessu og því skýrari lögun sem hlutur hafi, oddhvass og þannig, þeim mun líklegra sé að hann skilji eftir sig sýnileg eða merkjanleg ummerki heldur en um mjög ávalan hlut sé að ræða. Hún vissi dæmi þess að fólk hafi hreinlega fallið á gólfið og við það hafi miltað rofnað. Hún  kvað þrútið og bólgið milta þurfa minni og vægari áverka til að springa heldur en heilbrigt milta eins og verið hafi í þessu tilviki. Hún kvað fall fram á við geta valdið slíkum áverka og frekar ólíklegt væri að ekki kæmu áverkar á höfuð en ekki útilokað. Hún taldi útilokað að heilbrigt milta springi við lífgunartilraunir. Miltað sé mjög vel varið rifbeinum og þá sé útilokað að hægt sé að dæla tveimur lítrum út úr blóðrásinni inn í kviðarholið í lífgunartilraunum. Hún kvaðst engin önnur merki hafa séð um lífgunartilraunir en hina gulleitu bletti á hrygg eða baki. Hún kvaðst hafa framkvæmt yfir þúsund krufningar og aldrei séð heilbrigt milta með rifum eins og í þessu tilviki. Hún kvað að draga megi þá ályktun að heilbrigt milta eins og hér um ræði hafi orðið fyrir ytri áverka. Hún kannaðist við að hafa verið viðstödd rannsókn sem fram hafi farið í klefa sem byggður hafi verið sérstaklega ásamt C og hafi verkefni þeirra falist í því að athuga hvort ytri áverki hefði getað  komið til við þessar aðstæður, en ljóst hafi verið strax eftir krufningu að rofið milta og blæðingin hafi verið andlátsorsökin og hlyti því utanaðkomandi áverki að hafa valdið henni. Hún staðfesti að um lungnabjúg hefði verið að ræða hjá hinum látna og geti slíkt leitt til hjartastopps. Aðstæður í því tilviki séu þá allt aðrar, um sé að ræða hjartasjúkdóm, vökvasöfnun í brjóstholi og aðra tegund lungnabjúgs en í þessu tilviki. Megi því draga þá ályktun að bæði lungnabjúgur og heilabjúgur hafi orsakast af lyfjaneyslu. Hún var ósammála því að fíkniefnamisnotkun hefði orðið valdur að dauða A. Hún ítrekaði að tveir lítrar af blóði í kviðarholinu segi það að áverkinn hafi verið veittur að manninum lifandi en séu ekki afleiðing lífgunartilrauna. Hún kvað rifbein ekki hafa verið brotin. Hún staðfesti að blæðingin úr miltanum hefði getað orðið að  honum lifandi innan örfárra mínútna eða klukkutíma. Hún kvað að með vaxandi blóðmissi skerðist meðvitundin, um æðarrof hafi verið að ræða og ekki við því að búast að hann falli um skyndilega, heldur verði hann smám saman ófær um gang eða hlaup eða þurfi hreinlega að leggjast út af. Erfitt sé að segja til um hvort þetta hafi valdið honum sársauka strax í upphafi, blóðmissirinn sjálfur sé í eðli sínu ekki sársaukafullur  og þá hafi hann verið undir áhrifum annarra lyfja sem vissulega virki sem verkjastillandi. Hún kvað A hafa getað dottið á tvo hluti í klefanum, annars vegar brúnina á klósettinu og hins vegar á hægri hlið stólbaks en á þessum hlutum séu engar beittar eða hvassar brúnir og því séu þeir þess eðlis að hafi getað valdið þessum áverka án þess að hann væri sýnilegur.  

Vitnið S, vísindamaður og prófessor í sálfræðideild, staðfesti yfirmatsgerð sína í símaskýrslu fyrir dómi. Hann kvað aðferð þá sem sálfræðingarnir hafi notað ekki standast gæðakröfur sálfræðinga. Þá kvað hann R ekki geta dregið ályktanir um einstaklinga í hóprannsóknum, það sé aðferðafræðilegur galli.

Vitnið C staðfesti matsgerð sína fyrir dómi. Hún kvað eftir að hafa farið yfir krufningarskýrsluna að dánarorsökin væri að manninum hafi blætt út, hann hafi verið með tvo lítra af blóði í kviðarholi og taldi hún þetta blóðtap hafa valdið dauða hans. Hafi blóðtapið verið vegna áverka á miltisbláæðina og einnig hafi verið lítil rifa í miltanum sjálfu. Hún kvað sljóa áverka af ýmsu tagi geta valdið því að miltað springur, hvort sem það er högg í tengslum við bílslys eða fall eða högg af völdum annarra. Hún kvað ekki hægt að segja nákvæmlega til um hve langan tíma það tæki að blæða inn í kviðarholið þannig að maður missti meðvitund eða færi í hjartastopp. Það færi einnig eftir ástandi viðkomandi, ef einstaklingur er blóðlaus áður þoli hann slíkt bóðtap verr. Þetta geti verið frá fáum mínútum til nokkurra klukkutíma. Það fari eftir því hvort verið sé að tala um áverkana á miltishýðinu eða áverka á miltisbláæðinni. Blætt geti úr áverkum sem komi á miltishýðið svo klukkutímum skipti og sé um miklu lengri tíma en þegar um gat á miltisbláæð sé að tefla. Hún kvaðst hafa skoðað myndband þar sem A gekk um, borðaði og drakk og reykti. Svo hafi hann staðið upp úr sófa og gengið. Hún taldi að af þessu myndbandi að dæma hafi hann ekki verið búinn að hljóta áverkana. Ef eingöngu væri verið að tala um rifu á hýðinu með hægfara blæðingu bjóst hún við að ertingin á lífhimnunni væri slík að hann væri með verki og ætti þar af leiðandi erfitt með að hreyfa sig eðlilega, hann standi óhikað upp, borði og drekki og sé slík  hegðun ekki líkleg ef hann hafi verið með hæga blæðingu í kviðarholi. Hún taldi ekkert benda til þess að bláæðin hafi verið skorin í sundur við krufningu, ekki sé skorið djúpt þegar kviðveggurinn sé opnaður í krufningu, miltisbláæðin liggi djúpt í kviðarholinu og þá hafi tveir lítrar af blóði blasað við í kviðarholinu.  Hún kvaðst oft sjá afleiðingar endurlífgunartilrauna og gangi oft mikið á með mörgum rifbrotum og lifrarrifum og kvaðst hún sjálf ekki hafa séð miltisrof af völdum lífgunartilrauna.  Hún gat ekki komið því heim og saman að hálfs sentimetra rifa í milta af völdum lífgunartilrauna hafi valdið því að það séu tveir lítrar af blóði í kviðarholi, það er bara þriðjungur og hugsanlega 40% af blóðrúmmáli mannsins.  Hún kvaðst hafa lesið að blóðmagn frá miltisrifum eftir lífgunartilraunir hafi mælst 2-300 ml og þá hafi miltað reyndar verið tvöfalt þyngra en eðlilegt hafi verið. Í öðru tilviki hafi verið um miltisstækkun að ræða og þá hefðu mælst 400 ml. Þá kvað hún lifraráverka miklu algengari vegna þess að lifrin sé miklu stærri og síður varin en miltað, en engin skaði hafi verið á lifur A.  Hún mundi ekki að hafa séð dæmi um að heilbrigt milta hafi blætt tveimur lítrum af blóði úr rifu eftir lífgunartilraunir. Hún kvað niðurstöðu sína hafa verið þá að líklegasta ástæða blæðingarinnar hafi verið einhvers konar ofbeldi, högg, spörk eða fall. Hún kvaðst ósammála yfirmatsmönnum þar sem því sé lýst í helstu textabókum réttarmeinafræðinnar að það sé nokkuð algengt ef ekki mjög algengt að það sjáist engir áverkar á kviðveggnum við innri áverka á líffærum í kvið þannig að það að hafa engan sjáanlegan áverka á húðinni eða á mjúkvefjunum undir húðinni útiloki ekki að um högg hafi verið að ræða. Hún kvaðst hafa verið viðstödd í eftirlíkingarklefanum þegar tveir lögreglumenn hafi verið fengnir til þess að skoða hvort mögulegt gæti verið að A hefði dottið á eitthvað í fangaklefanum sem gæti skýrt þessa áverka. Hafi allt verið skoðað sem hægt hefði verið að ganga á, reka sig í eða detta ofan á og hafi það verið niðurstaða hennar að fall í klefanum kæmi ekki til greina sem útskýring á þessum áverkum. Hefði hann t.d. dottið ofan á klósettsetuna hefði höfuðið verið komið út í vegg. Hún kvað miltað varið af rifjaboganum vinstra megin þannig að höggið myndi koma á vinstri efri hluta kviðar. Hún kvað áverka á miltað sjálft vel þekkta en áverkar á miltisbláæðina séu afskaplega sjaldgæfir einir og sér. Hún kvað ekki um að ræða miltisstækkun hjá manninum en of stórt milta sé viðkvæmara fyrir áverkum. Í krufningarskýrslu sé talað um bandvefsaukningu í lifrinni en eðlileg stærð miltans mæli gegn því að það hafi verið kominn einhver þrýstingur í miltisbláæðina sem hefði gert hana viðkvæmari fyrir áverka. Hún kvað morfínlyf í ofskömmtum, eitrunarskömmtum, geta valdið öndunarstoppi og þá fylgi að sjálfsögðu hjartastopp á eftir. Hún kvað lyfjamælingu sem gerð hafi verið á honum hafa sýnt að hann hafi verið með klórprótíxen í blóði eins og greint sé frá eftir töku venjulegs lækningalegs skammtar og síðan verið með klórdíasepoxíð og umbrotsefni þess nærri efri mörkum gilda sem greint sé frá eftir töku stórra lækningalegra skammta. Um sé að ræða lækningalega skammta  og þetta séu lyf sem séu ekki þekkt af því að hafa í för með sér einhverja sérstaka hættu á hjartsláttartruflunum þannig að hún gat ekki séð að þessi lyf sem að fundust hjá honum skýri þetta. Hún staðfesti að hún hefði oft séð áverka á innri líffærum í kviðarholi án þess að það sjáist ytri áverkar á kviðveggnum.  Hún kvaðst ekki sammála þeirri fullyrðingu B að áverkinn hefði getað komið við falla á klósett þar sem klósettsetan hafi verið það breið að það hefði komið marblettur á brúnina á brjóstkassanum. Þá hafi skrokkurinn verið það nálægt veggnum að höfuðið væri þá komið í vegginn. Að því er stólinn varðaði hafi stóllinn farið í klessu þegar dúkka hafi verið látin falla á hann. Það minnki ákomuna ef maður dettur á hlut sem gefur undan, þá sé um að ræða mjög lítið högg af þeim hlut. Hún taldi því útilokað miðað við aðstæður í eftirlíkingaklefanum að fall í klefanum hefði orsakað áverkann. Hún kvað að ef blæðingin er mjög hægfara sjáist ekki í upphafi nein einkenni og það fari eftir hraða blæðingarinnar hversu hratt eða hægt einkennin komi fram.

Vitnið D skýrði svo frá fyrir dómi að það gæti gerst að högg með hnefa eða hné í kviðarhol geti valdið rofi á milta en hún taldi það mjög ósennilegt í þessu tilviki þar sem engin meiðsli hafi verið á húð eða fituvef þar í kring. Hún kvaðst hafa framkvæmt þúsund krufningar og aldrei séð meiðsl á milta sem dánarorsök, það hafi alltaf verið önnur meiðsli með. Hún kvað koma fram í krufningarskýrslu að lifrin í viðkomandi hafi verið með mikinn bandvef og þá haldist hún miklu betur saman og sé ekki eins líkleg til að skaðast.  Hún taldi að hefði bláæðarskemmdin orðið við krufninguna hefði getað blætt tveimur lítrum af blóði úr miltishýðinu í kviðarholið við lífgunartilraunir. Hún kvað næstum útilokað að fá ekki líka meiðsl á húð og vef sem liggur á milli yfirborðs líkamans og miltans við það mikið högg að það skaði miltað. Hún kvað rifbein geta brotnað við endurlífgunartilraunir og gætu rifin í sumum tilvikum stungist inn í lifrina en í öðrum tilfellum ekki, þá sé það bara þrýstingurinn sem kemur ofan á líkamann sem geri það að verkum að líffærin skaddist. Hún taldi líklegast að áverkinn á miltanu hafi  komið við hjartahnoð og í þessu tilviki sé því engin dánarorsök en ekki sé óalgengt að réttarmeinafræðingar finni enga dánarorsök. Hún taldi mögulegt að hann hefði getað fengið þessa blæðingu við fall en hann hefði þá þurft að detta mjög nákvæmlega á einhvern ávalan hlut. Hún kvað tvo lítra af blóði í kviðarholi nægjanlega blæðingu til að skýra andlát mannsins og hefði þetta blóðmagn getað komið til við hjartahnoð í 45 til 50 mínútur. Hún kvað mögulegt að sá sem gefið hafi hjartahnoð hafi hnoðað aðeins of neðarlega.

Vitnið O staðfesti skýrslu sína í símaskýrslu fyrir dómi og lýsti þeim aðferðum sem beitt var við skoðun myndskeiða úr fangelsinu. Hann kvað enga hefðbundna aðferðafræði til við að meta hegðun og líkamsbeitingu af myndbandi. Hann kvað þá P hafa stuðst við það sem vitað sé í sálfræðinni og klíníska reynslu þeirra. Hann útilokaði ekki þann möguleika að hefðu þeir ekki vitað hvað orðið hefði um A gæti það hafa haft einhver áhrif á hvernig þeir hafi túlkað hegðunina en hann taldi að þeir hafi farið mjög vandlega í gegnum þetta allt og faglega að því er hann taldi. Hann kvaðst vanur að meta myndbönd, hann geri það mjög oft við t.d. yfirheyrslur hjá lögreglu og í fangelsi. Þetta snúist um að skoða hegðunina og hvernig menn haga sér en kannski megi túlka hlutina á mismunandi vegu. Hann kvaðst ekki hafa heyrt þá skýringu varðandi glasið sem ákærði Y hafi tekið af borðinu og hellt úr að A hafi svelgst á mjólkinni og hafi ákærði Y verið að ganga frá glasinu en  hann tók fram að frásögn A af atburðum lægi ekki fyrir. Hann kvað hegðun ákærðu hafa breyst þegar A hafi komið á deildina frá því sem verið hafi deginum áður. T.d. rétti hann út höndina en ákærði X taki ekki í hana. Þeir standi fyrir framan hann eins og þeir hafi verið að elta hann og elta hann meira að segja inn í herbergið. Vitninu var gerð grein fyrir skýringu ákærða X á þessu, hafi ekki tekið í hönd A vegna þess að hann sé þekktur fíkniefnaneytandi og hann hafi ekki haft áhuga á því að taka í höndina á manni sem gjarnan væri búinn að setja fíkniefni upp í endaþarm og væri jafnvel með þau geymd þar. Vitnið kvað það vera hlutverk dómara að meta þetta en hann útilokaði ekki að þetta gæti verið rétt skýring. Hann sagði niðurstöðurnar gefnar með fyrirvara um aðrar skýringar, myndböndin gefi hugmyndir um hvað sé að gerast, ekki sé um ágiskun að ræða, heldur mat. Hann kvað það að vera með krosslagðar hendur hugsanlega vera ógn en annað geti verið á bak við það. Ákærðu hafi báðir verið með þessa hegðun, staðið nálægt A og þannig gefið til kynna að þeim væri eitthvað misboðið.

Vitnið P, staðfesti skýrslu sína í símaskýrslu fyrir dómi. Hann kvað þá og sérstaklega O hafa töluverða reynslu af því að meta myndbönd, meta fólk í viðtölum og það væri sú klíníska reynsla sem þeir hafi byggt á. Hann kvað þá hafa haft myndbönd frá tveimur dögum og hafi þeir því metið breytingu á ástandi á ganginum sem orðið hafi þegar ákærðu hafi komið þangað. Hann kvað ekki um fræðilega úttekt að ræða heldur sálfræðimat sem byggt væri á klínískri reynslu þeirra. Hann kvað þessi fræði takmörkuð og þá væru myndböndin takmörkuð, enda óskýr, en það hafi verið ákveðin atriði sem hafi mátt sjá af þeim. Ekki sé um skoðanir þeirra að ræða, þetta sé rökstutt mat, þeir lýsti atburðarásinni nokkuð nákvæmlega og lýsi því sem þeir sjái og túlki það á þann hátt sem nokkuð viðurkennt sé. Aðspurður hvort það hefði haft einhver áhrif á niðurstöðu þeirra ef þeir hefðu haft skýringar á tiltekinni hegðun ákærðu taldi hann að það hefði ekki breytt miklu, enda hafi þeir ekki verið beðnir um að tala við nokkurn mann. Hann  kvað það ekki alltaf ógn að vera með krosslagðar hendur en geti verið það í ákveðnu samhengi. 

Vitnið E staðfesti yfirmatsgerð sína fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa farið yfir skýrslur til 16 ára á sjúkrahúsinu í Linköping og hefðu 14000 dauðsföll verið rannsökuð og aðeins í 13 tilvikum hefði áverki á milta verið aðaldánarorsök. Í einu tilviki hefði ekkert sést utan á líkamanum en áverkar og blæðingar hafi verið á mörgum stöðum inni í líkamanum, í mjúkvefnum og þá hafi verið rifbeinsbrot í þessu tilviki. Í öllum öðrum tilvikum hafi líka verið áverkar á húðinni. Í tveimur tilvikanna hafi verið um að ræða áverka unna af annarri manneskju og í öðru tilvikinu hafi verið áverki á húðinni og rifbeinsbrot. Hann kvað svona innri áverka ekki nauðsynlega sjást á húðinni. Slíkir áverkar geti orðið af falli manns, t.d. ef hann dettur á húsgögn þar sem einhver kantur er en þá megi búast við áverka á húð. Hann kvaðst hafa gert 2000 krufningar og aðeins í einu tilfelli hafi hann orðið var við áverka af völdum hjartahnoðs, þá hafi lifrin verið stungin en aldrei miltað. Hann kvað þetta þó geta gerst. Ef miltað sé stækkað sé aukin áhætta en A hafi ekki verið með stækkað milta. Hann vissi um tilvik þar sem hjartahnoði hefði verið beitt en lifrin hafi skaddast en blóð hafi pumpast meðan manneskjan var látin, 1 og 1/2 lítri af blóði út í kviðarholið. Hann taldi mögulegt að skaðinn á bláæðinni hafi orðið við krufninguna en um mjög óvenjulegan áverka hafi verið að ræða. Ef áverkinn hefði orðið við endurlífgun hefði hún ekki verið rétt framkvæmd, ýtt hafi verið of neðarlega á búknum. Hugsanlegt sé að áverkinn sé af völdum ofbeldis en áverkinn sé mjög einkennilegur. Þá kvaðst hann ekki skilja, hefði verið um spark að ræða, hvers vegna ekki hafi verið áverki á neðri fremri hluta miltans og þá kvaðst hann ekki skilja af hverju ekki voru áverkar á mjúkum pörtum þar í kring. Hann taldi að hefði bláæðin verið skorin í sundur í krufningunni þá hefði það ekki getað valdið tveggja lítra blæðingu í kviðarhol. Hann kvað það mjög ósannfærandi að dánarorsök hefði ekki fundist en hann kvað tveggja lítra blæðingu nægjanlega til að skýra dauða A, einn og hálfur lítri ætti að duga til að viðkomandi deyi.  Þar sem ekki hafi verið merki um ytri áverka og heldur ekki í kringum miltað taldi hann líklegast að þetta hafi gerst meðan verið var að endurlífga manninn en hann gat ekki útilokað að hann hefði fengið mjög nákvæmt spark í miltað. Fái lifandi manneskja högg komi mar í vef á höggsvæðið en ekki sé um slíkt að ræða þegar verið sé að endurlífga, blóðið leki úr miltanu í gegnum gatið á því.  Hann útilokaði ekki skyndidauða út af eiturlyfjanotkun. Hann kvað lifur A hafa verið harðari vegna bandvefshnúta í henni og því ólíklegri til að verða fyrir áverka. Hann gat ekki útilokað að lifrin hafi því þolað endurlífgun en skaðinn komið á miltað. Hann staðfesti að í endurlífgun sem taki 45 mínútur sé hægt að dæla tveimur lítrum af blóði í gegnum æð sem sé með 0,3 cm gati.    

Niðurstaða.

                Í máli þessu liggur fyrir að þegar A heitinn var færður í fangelsið að Litla-Hrauni þann 16. maí 2012 hafði hann verið í töluverðri neyslu fíkniefna og fundust í hans fórum sex sprautunálar og ein sprauta. Haft er eftir þeim fangavörðum sem afskipti höfðu af honum að hann hafi verið rýr, skorinn, grannur og tekinn eftir langvarandi neyslu og þá hafi hann verið eitthvað ölvaður og undir áhrifum einhverra lyfja. Að þeirra sögn hafi A verið nokkuð samur við sig, viðræðuhæfur og rólegur. Hann hafi varið svangur, kaffiþyrstur og langað í tóbak. Fyrsta sólarhringinn var hann settur á gæsluvarðhaldsganginn til þess að hægt væri að fylgjast nánar með honum með tilliti til fráhvarfseinkenna. Fyrir liggur að hringt var í vakthafandi lækni sem ráðlagði svokallaðan R-skammt sem innihélt lyfin Risolid og Truxal, en þau eru venjulega notuð þegar um slík einkenni er að ræða. Ekki er að sjá af skoðun á myndbandsupptöku að A hafi verið bráðveikindalegur við komuna í fangelsið. Hann virðist geta gengið einn og óstuddur, án riðu eða jafnvægisleysis, jafnvel þegar hann er járnaður með hendur fyrir framan líkamann. Daginn eftir, eða þann 17. maí 2012 var A færður á gang 4 í húsi 3 og að mati hinna sérfróðu meðdómenda var ekkert í fari hans þá sem benti til þess að hann hafi verið kominn með áverka á miltað sem blætt hafi rólega úr. Við skoðun myndbandsupptöku er ekki að sjá A sé með bráðakviðverki frá því að hann sést í mynd kl 18:12 og fram undir 18:40. Hann virðist á köflum afslappaður og hallar sér aftur á bak í sófa á tímabili þannig að bráðir kviðverkir virðast ekki vera til staðar. Blæðing í kviðarholi myndi að öllu jöfnu valda magaverk vegna áreitis á lífhimnuna og/eða sársauka í öxl/axlir vegna þindaráreitis. Þá væri líklegt að A hefði fundið fyrir svima og ógleði vegna fallandi blóðmagns í æðakerfinu og fallandi blóðþrýstings, en þessir þættir væru þó háðir hraða blæðingarinnar.

                Þegar ákærðu koma til A í eldhúsinu virkar hegðun hans þvingaðri og er það  mat sálfræðinganna O og P að sterkar vísbendingar séu um að ákærðu hafi ógnað A. Yfirmatsmennirnir S og Q vekja þó athygli á aðferðarfræðilegum annmörkum við þessa skýrslu. Nægilega hefur verið upplýst að ákærði X hafi minnt A á tiltekna skuld hans vegna hurðar við sig og er ekki útilokað að þar sé að finna skýringu á hegðun A. Að mati dómsins styðja myndbandsupptökur ekki þann framburð ákærðu að A hafi verið farinn að kúgast frammi á gangi þegar þeir hafi talað við hann. Ef svo hefði verið myndi það sjást þegar kviðurinn, þindin og vöðvarnir sem stuðla að öndun herpast bylgjukennt saman, einnig dragast axlirnar oft upp og menn standa aðeins bognir. A stendur vissulega hokinn gagnvart ákærðu, hann gengur um álútur og boginn og lútir höfði eins og hann sé þeim undirgefinn. Er því nærtækast að ætla að umræða um skuld A við X hafi verið ástæða þessarar hegðunar A. Þá ber að líta til framburðar vitnisins G þess efnis að A hafi tjáð honum að hann væri smeykur við ákærðu og að hann skyldi tala við ákærðu í því skyni að láta A í friði. Að mati dómsins útiloka myndbandsupptökur ekki að þessi samskipti A og G hafi átt sér stað. 

Samkvæmt myndbandsupptökum og öðrum gögnum málsins fara ákærðu inn í klefa A um kl. 18:44. Samkvæmt framburði þeirra verður A skömmu síðar veikur með uppsölum og kl. 19:08 kallar ákærði X á fangaverði og skýrir frá því að A sé orðinn fárveikur. Fangaverðir koma á vettvang og hefja lífgunartilraunir, náð er í hjartastuðtæki sem er tengt kl. 19:13 við A og finnur tækið ekki stuðanleganlegan takt. Lífgunartilraunir með hjartahnoði héldu áfram og sjúkraflutningamenn komu á vettvang kl. 19:24 og tengja sitt hjartastuðtæki sem greinir ekki stuðanlegan takt. Samkvæmt læknisvottorði H var A aldrei með lífsmarki eftir að sjúkralið mætti á vettvang og hann var úrskurðaður látinn klukkan 19:55.

Samkvæmt krufningarskýrslu fundust 2000 ml af blóði í kviðarholi A. Það var 0,3 cm rifa á bláæð miltans og um 0,5 cm rifa á vef miltans.  Ekki eru merki um að hann hafi haft hjartasjúkdóm eða að hann hafi kafnað vegna ælu, hvorki samkvæmt krufningarskýrslu né skýrslum yfirmatsmanna. Þá var styrkur þeirra lyfja sem hann hafði tekið deginum áður í lækningalegu magni í vessum hans. Við mat á dánarorsök verður að horfa til þess að A er við skoðun alveg frá því hjartastuðtæki er fyrst sett á hann aldrei með stuðanlegan takt. Telja verður því sennilegt að hann hafi fengið bráðakviðverki vegna rifu á miltisbláæð og því ælt og síðan farið í lostástand vegna blóðmissis eftir missi á um hálfum lítra blóðs og hlotið af því óstuðanlegan takt. Ljóst er að rifa á miltisbláæð kallar á verulegt högg miðað við framburð allra sérfróðra vitna. Þegar horft er til þess rýmis sem fangaklefi A er þá er vart mögulegt að gera ráð fyrir að slíkur áverki hljótist við fall í klefanum án þess að aðrir áverkar fyndust á líkinu. Miklar líkur benda því til þess að hann hafi fengið hnefahögg eða hnéspark í kvið á þeim tíma sem hann er inni í klefa sínum en þó er ekki hægt að útiloka að áverkinn hafi stafað af falli.

Samkvæmt krufningarskýrslu og framburði B fyrir dómi var áverkinn á sjálfu miltanu 0,5 cm langur og óreglulegur (tenntur) í kantinn. Í krufningarskýrslunni kemur fram að það hafi verið lítilsháttar blæðing undir hylkið en að mati hinna sérfróðu meðdómenda útilokar það í raun langvarandi dulda blæðingu. Gera má ráð fyrir að langvarandi dulin blæðing undir hylkið svo klukkustundum eða dögum skipti, sem gæfi  tveggja lítra blóðsöfnun í kviðarhol við rof hylkisins, hefði að öllu jöfnu skilið eftir sig meiri ummerki á miltisvefnum og hylkinu er raun bar vitni. Samkvæmt gögnum málsins var miltað eðlilegt að stærð og þyngd og engin merki um sjúkdóma fundust, hvorki við krufningu né smásjárskoðun.  Rifan á bláæðinni mældist 0,3 cm og voru kantarnir óreglulegir (tenntir), en það bendi til rofs, þeir voru ekki skarpir eins og eftir hníf eða skæri að því er B skýrði frá fyrir dómi. Við opnun kviðarhols sást strax að blóðið í kviðarholinu var fljótandi og segist B þá hafa farið varlega til að staðsetja blæðingarupptökin. Hún hafi séð rifuna á miltanu og blæðinguna undir hylkið áður en hún fjarlægði miltað. Ekkert er því að mati dómsins fram komið um það að áverkar á miltanu og bláæðinni hafi komið til við krufninguna.  Ekki er annað fram komið en að B hafi mikla reynslu af krufningum og þá fékk hún sérfræðing í meinafræði til að hafa umsjón með smásjárskoðun. Ljósmyndir sem teknar voru af áverkunum voru að mati dómsins ekki nægilega góðar til að hægt væri að greina áverkana og af þeim sökum voru þær gagnslausar fyrir yfirmatsmennina. Að mati dómsins mælir ekkert gegn því að bæði miltað og bláæðin hafi getað rofnað á sama tíma og við sama áverka. Báðar rifurnar eru staðsettar nálægt hvor annarri og vel er þekkt að milta geti rofnað við svokallaðan „blunt force“ eða sljóan áverka, t.d. við bílslys eða fall úr mikilli hæð, en einnig eru dæmi um miltisáverka við t.d. fall á stýri á hjóli, í glímu o.s. frv. Þá er miltað viðkvæmara fyrir hnjaski þegar það er stækkað, t.d. vegna blóðsjúkdóma, skorpulifrar o.s. frv., en eðlilegt milta og getur vissulega rofnað við minni háttar áverka.  Sjaldgæfara er að bláæðin rofni við sljóan áverka en það er þó ekki útilokað og dæmi þess þekkjast. Sérstaklega gæti það komið fyrir ef um væri að ræða æðagúl á miltisbláæðinni vegna skorpulifrar og í slíkum tilvikum gæti rifan jafnvel komið án þess að áverki hafi verið veittur. Engin merki eru um að ástand A hafi verið með þessum hætti. Samkvæmt krufningarskýrslu fannst lítilvægur heilabjúgur en hann getur hafa verið vegna lyfjaáhrifa og einnig getur hann sést eftir lífgunartilraunir. Engin merki fundust um amfetamín, kókaín, opíöt eða alkóhól. Þá fundust engin merki um Suboxone, eða Súbba eins og fangar hafa nefnt það efni, en um er að ræða lyf sem inniheldur buprenorphin, blandað við naloxon. Þetta lyf er notað við fráhvarfs- og viðhaldsmeðferð hjá þeim sem háðir eru opíötum og ákærðu og fleiri fangar hafa borið að A hafi tekið inn hálfa töflu af þessu lyfi með því að sjúga það í gegnum nefið. 

Ýmislegt getur útskýrt af hverju A byrjaði að kasta upp inni í klefanum. Það gæti hafa verið vegna endurlífgunartilrauna þegar lofti var blásið niður í magann af fangavörðum og sjúkraflutningamönnum. Það gæti einnig stafað af lélegu heilsufari hans og vegna lyfjanna. Þá gæti högg á kviðinn hafa ert magann, auk þess sem fallandi blóðþrýstingur og/eða blóðþéttni vegna blæðingar getur valdið ógleði og uppköstum. Þá verður af krufningarskýrslu og framburði B fyrir dómi ráðið að köfnun vegna innöndunar fæðu hafi ekki verið banamein A. Engin vefjaviðbrögð hafi verið í kringum aðskotahlutina við smásjárskoðun af vef frá lungunum en það þýðir að aðskotahluturinn hefur komist þangað eftir dauðann. B taldi eina möguleikann um rof á milta og bláæð eftir fall vera ef A hefði fallið á klósettið og/eða stólinn í klefanum. C taldi ómögulegt fyrir A að detta á klósettið án þess að fá aðra áverka vegna lögunar þess og staðsetningar í horni klefans. Hann hefði þá átt að fá áverka á bringubogann og andlitið í það minnsta. Ef hann hefði dottið á stólinn mætti gera ráð fyrir að stóllinn hefði brotnað eða bognað undan þunga hans. Hefði hann fallið á gólfið hefði mátt gera ráð fyrir áverkum á andliti og húðblæðingu yfir rifbeinsboganum á þeim stað þar sem húðin hefði klemmst á milli gólfsins og rifbeinsbogans. Þá er til þess að líta að enginn réttarmeinafræðinganna töldu það sennilegt að um fall hefði verið að ræða.  Það var mat B að það að tveir lítrar af blóði hafi fundist í kviðarholinu séu merki þess að A hafi verið á lífi þegar blæddi úr miltanu/bláæðinni og telur hún ekki mögulegt að slík blóðsöfnun verði við misheppnaða endurlífgunartilraun þar sem einstaklingurinn er úrskurðaður látinn. Augljóst er að beri endurlífgunartilraun árangur og þrýstingur næst í æðakerfið, getur þessi þrýstingur stuðlað að nægjanlegu blóðstreymi til að blætt geti úr líffæri eða æð sem hafi rofnað, en í þessu tilviki var ekki um slíkt að ræða. Þá fundust engin rifbeinsbrot á A við krufninguna, en þau eru algengustu áverkarnir eftir hjartahnoð.

                Yfirmatsmaðurinn D leggur aðaláherslu á það að mjög ósennilegt sé að miltisskaðinn gæti orðið án ytri áverka. Hún taldi að fengi maður svo hart  högg á kviðinn að miltað rofnaði væri ómögulegt að ekki sæist ytri blæðing. Hinir sérfróðu meðdómendur geta ekki fallist á þetta, þvert á móti er velþekkt að maður geti fengið svo mikið högg á kvið án þess að ytri áverkar sjáist en innri líffæri skaðist lífshættulega. Þá stenst engan veginn framburður hennar þess efnis að tveggja lítra blæðing í kviðarhol hefði getað komið til við endurlífgunina og þær fræðigreinar sem hún afhenti dóminum og styðja áttu framburð hennar gerðu það þvert á móti alls ekki. Í öllum þeim tilvikum var um að ræða velheppnaða endurlífgun þar sem hjartsláttur og blóðþrýstingur náðist upp. Í skriflegu mati hennar kom fram að um mikinn lungnabjúg hefði verið að ræða en við aðalmeðferð málsins kom fram að um þýðingarvillu var að ræða.

                Yfirmatsmennirnir D og E telja það ólíklegt en ekki ómögulegt að miltisrofið og rofið á bláæðinni hafi orsakast af höggi eða sparki af mannavöldum. Þá eru þau sammála um að rofið á bláæðinni gæti hafa gerst í krufningunni, en líklegast þótti E að rofið hefði komið til við endurlífgunartilraunir og jafnframt að þær útskýrðu blóðmagnið í kviðarholinu. Þá taldi hann nánast óhugsandi að ekki hafi fundist ytri áverkar eða áverkar á innra borði við krufningu ef um högg eða spark hafi verið að ræða.

                Ljóst er að ákærðu einbeittu sér mjög að A heitnum þegar þeir komu inn á ganginn um kl. 18:39, þeir gengu í humáttina á eftir honum inn á klefann hans kl. 18:44 og dvöldu þar með honum í u.þ.b. 12 mínútur. Ekkert bendir til þess að A hafi haft dulda blæðingu eða verið farinn að kúgast frammi á gangi og því ekkert sem benti til þess að hann væri það sjúkur að hann yrði rænulaus um 20 mínútum síðar. Hann kom hins vegar aldrei lifandi út úr klefanum.  Ef gert er ráð fyrir að rofið á miltað hafi komið við hjartahnoðið og tveir lítrar af blóði hafi lekið í kviðarholið um þessa 0,5 cm rifu og rifan á bláæðina hafi komið við krufninguna, þá þarf að skýra ástæðu meðvitundarleysisins, uppkastanna og hjartastoppsins. Eiturefnaskoðun leiddi í ljós að ekki var um ofskammt lyfja að ræða, hann kafnaði ekki í eigin ælu samkvæmt niðurstöðu krufningar og þá var hann ekki lífshættulega veikur á neinn hátt. Að vísu er ekki hægt að sanna eða sýna fram á nýtilkomnar breytingar í hjarta eða hjartsláttartruflanir en ekkert við smásjárskoðun benti til hjartasjúkdóms og þá var ekkert að rafvirkni hjartans við endurlífgunartilraunina. Líklegasta skýringin er að miltað og miltisbláæðin hafi rofnað inni í klefanum og hafi A blætt svo mikið að hann hafi fengið einkenni blóðþurrðar, m.a. ógleði, uppköst, rænuleysi og síðar hjartastopp. Kemur þá tvennt til greina, annað hvort að A hafi fallið á eitthvað í klefanum eða að honum hafi verið veittur áverki á kvið í klefanum og hafi þessi áverki orsakað rof á miltað og miltisbláæðina með þeim afleiðingum að honum blæddi út í kviðarholið.

                Kemur þá til skoðunar hvort ákæruvaldinu hafi í máli þessu tekist að sanna með þeim hætti að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru. Ákærðu neita alfarið sök og kannast hvorugur þeirra við að hafa veitt A áverka. Engin vitni hafa verið leidd í máli þessu sem bera að ákærðu hafi átt hlut að máli en upplýst var við aðalmeðferð málsins að vitnið G hefði í fyrstu staðið í þeirri trú að lyf sem  hann hefði gefið A hefði orðið honum að aldurtila. Þá hafa vitni borið að G hefði verið að bjóða mönnum samning eða varning gegn því að bera sakir á ákærðu. Samkvæmt gögnum málsins var A einn í klefa með J, fyrst í 44 sekúndur og síðan í 1 mínútu og 40 sekúndur. Þar á eftir er hann einn í klefa með G í 2 mínútur og 57 sekúndur. Eftir að A hafði verið í klefunum með ofangreindum föngum fór hann í sameignina þar sem hann m.a. fékk sér að borða, drekka og reykja. Hann gengur um einn og óstuddur, beygir sig niður og réttir úr sér við ísskápinn, sest í sófann þar sem hann hallar sér fram og aftur og rís úr sófanum áreynslulaust. Engin merki virðast þá um að hann hafi haft rifu á miltanu eða bláæðinni, þar sem slíkt hefði gefið líkamleg einkenni, t.d. ertingu á lífhimnu, fallandi blóðþrýsting og fallandi blóðþéttni. A fer síðan inn í sinn klefa og ákærðu í humáttina á eftir honum, ákærði X fór inn í klefann og var einn með A í nokkrar sekúndur en ákærði Y stóð fyrir utan. Á þessum tíma komu tveir fangaverðir með poka til A og verður að telja líklegt að þeir hefðu brugðist við hefðu þeir séð að hann væri orðinn lasinn. Eftir þetta eru A og F einir saman í klefa í 3 sekúndur áður en ákærði X kemur inn í klefann. F er samanlagt í 9 sekúndur í klefanum áður en hann yfirgefur hann. Eftir þetta er A einn í klefanum með ákærðu í um 12 mínútur. Samkvæmt framansögðu er ekki hægt að útiloka að F hafi veitt A áverka á þeim tíma sem hann var í klefa hans. Þegar allt framanritað er virt benda miklar líkur til þess að ákærðu séu þeir einu sem til greina komi sem gerendur í máli þessu en ekki er loku fyrir það skotið að aðrir en ákærðu hafi haft möguleika á því að veita A þá áverka sem drógu hann til dauða. Þá er ekki heldur hægt að útiloka að fall í klefanum hafi orsakað áverkann. Að mati dómsins leikur því það mikill vafi á sekt ákærðu að þessu leyti að ekki verður hjá því komist með vísan til 108. gr., sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að sýkna ákærðu af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Vararíkissaksóknari gerði þá kröfu í þinghaldi þann 11.júní 2013 þess efnis að verjanda ákærða X yrði gerð réttarfarssekt skv. c. lið 1. mgr. 223. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 vegna ummæla verjandans þess efnis að ákærði hafi verið færður fyrir dóminn í þágu fjölmiðla. Þessari kröfu, sem ítrekuð var við aðalmeðferð málsins, var mótmælt af hálfu verjandans. Að mati dómsins voru ummæli þessi vissulega óheppileg og óviðeigandi en ekki þykir ástæða til að gera verjandann að greiða sekt.

Sakarkostnaður.

                Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, ber að fella allan kostnað sakarinnar á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., 16.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 705.000 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Y, Sveins Guðmundssonar hrl., 12.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 276.000 krónur. Þá greiðist einnig úr ríkissjóði þóknun fyrri verjanda ákærða Y, Inga Freys Ágústssonar hdl., 1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 69.090 krónur.

                Dóm þennan kveða upp Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri, dómsformaður, auk sérfróðu meðdómendanna Kristins Tómassonar, geð- og embættislæknis og Snjólaugar Níelsdóttur, sérfræðings í réttarlæknisfræði. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómendur og málflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

D Ó M S O R Ð:

                Ákærðu, X og Y, skulu vera sýknir af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

                Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., 16.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 705.000 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Y, Sveins Guðmundssonar hrl., 12.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 276.000 krónur. Þá greiðist einnig úr ríkissjóði þóknun fyrri verjanda ákærða Y, Inga Freys Ágústssonar hdl., 1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 69.090 krónur.