Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-44

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Jóhannesi Baldurssyni (Reimar Pétursson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Markaðsmisnotkun
  • Fjármálafyrirtæki
  • Verðbréfaviðskipti
  • Afhending gagna
  • Fyrning
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr., sbr. 2. mgr. 17. gr., laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Með beiðni 18. desember 2019, sem barst Hæstarétti 29. janúar 2020, leitar Jóhannes Baldursson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 6. desember 2019 í máli nr. 332/2018: Ákæruvaldið gegn Jóhannesi Baldurssyni og X, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sem framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis banka hf. sakfelldur fyrir brot gegn a. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti með því að hafa, ásamt öðrum tilgreindum starfsmönnum bankans, stundað markaðsmisnotkun með hlutabréf, útgefin af bankanum sjálfum, á tilgreindu tímabili, samtals 331 viðskiptadag, með því að setja fram tilboð og eiga viðskipti í viðskiptakerfi kauphallar sem tryggðu óeðlilegt verð, bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Var leyfisbeiðanda gert að sæta fangelsi í 12 mánuði, en fullnustu refsingar var frestað skilorðsbundið í tvö ár sökum óhóflegs dráttar á meðferð málsins.

Við meðferð málsins fyrir Landsrétti krafðist leyfisbeiðandi endurskoðunar á úrskurðum héraðsdóms 18. október 2016, 23. mars 2017 og 11. maí sama ár sem ekki voru kæranlegir undir meðferð málsins í héraði. Með fyrrnefndum úrskurðum var hafnað nánar tilgreindum kröfum leyfisbeiðanda um aðgang og afhendingu gagna ásamt leit í rafrænum gögnum með leitarforriti lögreglu. Leyfisbeiðandi byggði á því að hann hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, til að fá aðgang að gögnum sem hann taldi sig þurfa til að undirbúa og setja fram varnir sínar. Með dómi Landsréttar var hafnað ómerkingu héraðsdóms á fyrrnefndum grunni. Var einkum vísað til þess að ekki yrði annað ráðið en að leyfisbeiðandi hefði fengið aðgang að öllum þeim gögnum sem hann hefði afmarkað sérstaklega og hefðu verið hluti af rannsóknargögnum málsins. Réttur ákærða til aðgangs að gögnum yrði hvorki talinn standa til þess að ákæruvaldinu yrði gert að veita aðgang að rafrænum gögnum með tækjabúnaði til leitar, sem lögregla notaði við rannsókn máls, né að afla viðbótargagna, nema fyrir lægi að þau vörðuðu sakarefni málsins sérstaklega.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt. Byggir hann á því að áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu, í fyrsta lagi um rétt leyfisbeiðanda til aðgangs að gögnum. Í þeim efnum vísar hann til þess að Hæstiréttur hafi ekki fjallað um slíkar kröfur frá uppkvaðningu dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 4. júní 2019 í máli Sigurðar Einarssonar gegn Íslandi, þar sem dómstóllinn hafi lýst gagnrýninni afstöðu til íslenskrar framkvæmdar á þessu sviði. Það hafi almenna þýðingu að Hæstiréttur taki afstöðu til þess hvaða sjónarmið eigi að ráða afgreiðslu slíkra krafna. Í öðru lagi að brotin, sem leyfisbeiðandi var ákærður fyrir að hafa framið, hafi verið fyrnd þegar dómur Landsréttar gekk. Leyfisbeiðandi byggir á að rannsóknin hafi stöðvast um óákveðinn tíma í skilningi 2. málsliðar 5. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sökum óhóflegra tafa á meðferð málsins fyrir Landsrétti. Í þriðja lagi að mat Landsréttar á því að umrædd viðskipti hafi ekki verið byggð á „viðskiptalegum sjónarmiðum“ og í fjórða lagi að leyfisbeiðandi hafi verið í réttmætri villu um lögmæti umræddra viðskipta. Í fimmta lagi að hvaða marki leyfisbeiðandi hafi haft heimildir til að gefa fyrirmæli um þau viðskipti sem ákært var fyrir, en um það hafi ekki verið fjallað í dómi Landsréttar. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni og formi til, auk þess sem málsmeðferð fyrir réttinum hafi verið stórlega ábótavant.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.