Hæstiréttur íslands

Mál nr. 446/2007


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur
  • Sératkvæði


         

Fimmtudaginn 8. maí 2008.

Nr. 446/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

Bjarna Tryggvasyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.

 Magnús B. Brynjólfsson hdl.)

(Hilmar Gunnlaugsson hrl. réttargæslumaður)

 

Kynferðisbrot. Miskabætur. Sératkvæði.

B var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við A á meðan hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Í héraðsdómi, sem staðfestur var um sakfellingu ákærða, var talið sannað með vísan til trúverðugs framburðar A, áverka þeirra sem hún bar á kynfærum og endaþarmi og framburðar læknis um að þeir gætu samrýmst harkalegum eða óundirbúnum samförum, framburðar vitnisins C, framburða annarra vitna um ástand A og þeirra sálrænu einkenna sem hrjáðu hana eftir atburðinn að B hefði framið verknað þann sem ákært var fyrir. Var hann dæmdur í 2 ára fangelsi og til að greiða A 833.207 krónur í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 2. ágúst 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þyngingar á refsingu og að ákærði verði dæmdur til að greiða A 1.233.207 krónur með vöxtum eins og í ákæru greinir.

Ákærði krefst aðallega sýknu og að bótakröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að refsing verði milduð og bætur lækkaðar.

Í ákæru er ætlað brot ákærða heimfært undir 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992. Eftir útgáfu ákæru var þessum ákvæðum breytt með lögum nr. 61/2007. Ber því að heimfæra ætlað brot til 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans um sakfellingu ákærða staðfest.

Ákærði var dæmdur 20. febrúar 2007 til greiðslu 70.000 króna sektar og sviptingar ökuréttar í átta mánuði vegna brots á 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þótt refsing ákærða verði nú ákveðin sem hegningarauki við það brot, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, hefur það ekki áhrif á hana. Með vísan til þeirra atriða, sem greinir í hinum áfrýjaða dómi varðandi ákvörðun refsingar, er hæfilegt að ákærði sæti fangelsi í tvö ár.

Ákvörðun héraðsdóms um bætur til handa A verður staðfest að öðru leyti en því að krafan ber dráttarvexti frá 22. mars 2007.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað, framlögðum ferðakostnaðarreikningi réttargæslumanns brotaþola að fjárhæð 28.680 krónur og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Bjarni Tryggvason, sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði greiði A 833.207 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 800.000 krónum frá 15. október 2006 til 22. mars 2007 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 833.207 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 703.597 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hilmars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

                                                              Sératkvæði

Árna Kolbeinssonar og

Gunnlaugs Claessen

Við erum sammála meirihluta dómara um annað en refsingu ákærða. Varðandi það er rétt að líta til þess að refsingar fyrir kynferðisbrot hafa almennt verið að þyngjast í dómum Hæstaréttar á síðustu árum. Það á einnig við um brot gegn 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem ákærði er sakfelldur fyrir að hafa brotið, sbr. nú 2. mgr. 194. gr. laganna eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 61/2007. Refsingar fyrir slík brot hafa í dómum réttarins á rúmum áratug hækkað frá því að vera almennt 6 til 9 mánaða fangelsi í fangelsi í 12 til 15 mánuði og í einstaka alvarlegum tilvikum 18 mánaða fangelsi. Brotið sem ákærði er nú sakfelldur fyrir var framið fyrir gildistöku laga nr. 61/2007, en með þeim var kveðið á um lágmark fangelsisrefsingar  fyrir slík brot og hámarksrefsing fyrir þau þyngd til muna. Getur sú lagabreyting engin áhrif haft á refsingu ákærða í þessu máli, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga. Í ljósi framanritaðs og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti teljum við að staðfesta beri ákvörðun hans um refsingu ákærða.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 10. júlí 2007.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. júní sl. að aflokinni aðalmeðferð, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 22. mars 2007, á hendur Bjarna Tryggvasyni, kt. 061263-5199, nú með lögheimili að Tröllavegi 4, Neskaupstað “fyrir kynferðisbrot, með því að hafa, að morgni sunnudagsins 15. október 2006, að X, Fáskrúðsfirði, haft samræði við A meðan þannig var ástatt um hana að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.

Telst þetta varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakrafa:

Af hálfu A, kennitala [...], er krafist bóta að fjárhæð kr. 1.233.207, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. október 2006 til greiðsludags, verði greiðsludagur síðar en 3. febrúar 2007 er gerð krafa um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, og greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.”

Af hálfu ákærða er krafist sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda með virðisaukaskatti og útlagður kostnaður hans greiðist úr ríkissjóði.

II.

    Málavextir

Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að kl. 9.18 hinn 15. október 2006 hafi B hringt í bakvaktarsíma lögreglu og tjáð lögreglu að hann hefði ekið fram á unga stúlku á [...], sem verið hefði í miklu uppnámi. Hann hefði tekið hana upp í bifreið sína og væru þau nú við lögreglustöðina á Fáskrúðsfirði, en hann teldi að stúlkan þyrfti að ná tali af lögreglu.

Í skýrslunni segir að Grétar Helgi Geirsson lögreglumaður hafi þegar farið á lögreglustöðina og hitt þar fyrir kæranda, sem hafi verið grátandi og í miklu uppnámi. Hafi hún tjáð honum að hún hefði vaknað skömmu áður í húsi í bænum þar sem tveir naktir karlmenn hefðu verið yfir henni og hún fundið fyrir einhverju inni í sér. Hún hefði öskrað og náð taki á einhverjum nálægum hlut, sem hún hefði kastað í annan manninn og í framhaldinu heyrt einhver brothljóð. Hún hefði ekkert þekkt til þarna og hvorugan manninn þekkt eða séð áður. Hún hefði legið á dýnu á gólfi, sennilega í stofu hússins. Umrætt hús hefði verið skammt frá þeim stað þar sem maðurinn hefði tekið hana upp í bílinn. Hún myndi ekki hvernig hún hefði komið inn í þetta hús, en hún hefði verið að skemmta sér um kvöldið og nóttina, sem endað hefði með því að hún hefði rifist við manninn sinn og síðan orðið viðskila við hann. Hún myndi síðan ekkert frekar. Í skýrslunni segir að kærandi hafi tjáð lögreglu að hún byggi á [...] en væri ókunnug á Fáskrúðsfirði.

Í skýrslu lögreglu segir að kærandi hafi lýst mönnunum þannig að þeir hefðu verið naktir og að annar þeirra væri sköllóttur með útstæð eyru og sennilega á milli þrítugs og fertugs. Sá maður hefði sagst heita Bjarni og hefði hann sagt henni að vera róleg þegar hún hefði farið að berjast um. Hinn maðurinn hefði verið nokkuð eldri en hinn, dökkhærður, feitur og með skegg í kringum munninn og aftur með kjálkum. Hann hefði sennilega búið í umræddu húsi.

Í skýrslu lögreglu segir að rannsóknarlögreglumaður hafi verið látinn vita af málinu og einnig hafi verið haft samband við vaktlækni á Fáskrúðsfirði og í samráði við hann hafi verið óskað eftir sjúkrabíl til að flytja kæranda á Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupstað til aðhlynningar og rannsóknar.

Þar sem kærandi hafi ekki getað gefið nákvæma lýsingu á húsinu hafi hún fallist á að fara með áðurnefndum lögreglumanni og benda á húsið um leið og henni var ekið á móts við sjúkrabílinn. Á leið þeirra vestur Búðaveginn hafi þau mætt manni á gangi, sem svipað hafi til lýsingar kæranda á sköllótta manninum, og hafi kærandi sagt að þetta væri annar mannanna. Í skýrslunni segir að lögreglumaðurinn hafi þekkt manninn sem ákærða í máli þessu. Kærandi hafi síðan bent lögreglumanninum á húsið við X og sagt að atvikið hefði átt sér stað þar inni. Í skýrslunni segir að þar búi C og hafi lögreglumaðurinn séð hann við eldhúsgluggann þegar ekið hafi verið fram hjá húsinu.

Í skýrslunni segir að rannsóknarlögreglumaður hafi verið látinn vita af því hvar hinir grunuðu væru og hann gert viðeigandi ráðstafanir. Kæranda hafi verið ekið að starfsstöð sjúkrabifreiðarinnar á Fáskrúðsfirði þar sem sjúkraflutningamenn hafi tekið á móti henni og flutt hana til Neskaupstaðar.

Samkvæmt handtökuskýrslu var ákærði handtekinn þar sem hann var staddur að Y á Fáskrúðsfirði hinn 15. október 2006 kl. 11.10. Var hann færður í lögreglubifreið og fluttur til Neskaupstaðar til læknisrannsóknar vegna ætlaðs kynferðisbrots. Í skýrslunni segir að ákærði hafi haft samband við lögfræðing og eftir að hafa ráðfært sig við hann hafi hann neitað að undirgangast rannsóknina. Vegna þessa hafi verið ákveðið að fresta rannsókninni og hafi ákærði verið fluttur á lögreglustöðina á Eskifirði þar sem hann hafi verið vistaður í klefa þar til dómsúrskurður lægi fyrir.

Með úrskurði Héraðsdóms Austurlands, uppkveðnum 15. október 2006, var heimilað að framkvæma líkamsleit og líkamsrannsókn á ákærða, þ.á m. að taka úr honum blóðsýni og önnur lífsýni.

Í læknisvottorði vegna skoðunar á ákærða að kvöldi 15. október 2006 segir að engir áverkar hafi verið á líkama hans. Hann hafi ekki verið með neina áverka á vörum, munnholi, kvið, baki, kynfærum eða ganglimum.

Samkvæmt gögnum málsins var ákærða dregið blóð kl. 21.00 sama kvöld og jafnframt lét hann í té þvagsýni. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 23. nóvember 2006, mældist alkóhól ekki í blóði eða þvagi ákærða. Í blóði mældist amfetamín 40 ng/ml og MDMA 30 ng/ml. Tetrahýdrókannabínól var ekki í mælanlegu magni í blóðinu. Í þvagi fannst amfetamín, MDMA, og tetrahýdrókannabínólsýra. Fram kemur í álitsgerðinni að tetrahýdrókannabínól sé hið virka efni í kannabis og að tetrahýdrókannabínólsýra sé óvirkt umbrotsefni þess í þvagi.

Niðurstaða álitsgerðarinnar er eftirfarandi:

“Hlutaðeigandi hefur því verið undir örvandi áhrifum amfetamíns og MDMA þegar blóðsýnið var tekið. Þar sem tetrahýdrókannabínólsýra fannst í þvagi en tetrahýdrókannabínól fannst ekki í blóði bendir það til neyslu á kannabis en að hlutaðeigandi hafi ekki verið lengur undir áhrifum þess þegar blóðsýnið var tekið.”

Fram kemur í málsgögnum að C hafi einnig verið handtekinn á heimili sínu hinn 15. október kl. 10.30 vegna gruns um aðild að ætluðu kynferðisbroti. Var hann færður á lögreglustöðina á Eskifirði þar sem framkvæmd var á honum læknisfræðileg rannsókn vegna ætlaðs brots. Einnig hafi verið framkvæmd vettvangsrannsókn á heimili C með hans samþykki.

C var dregið blóð sama dag kl. 12.20 og jafnframt lét hann í té þvagsýni. Rannsókn leiddi í ljós að 1,16‰ af alkóhóli mældust í blóði hans en 1,82‰ í þvagi. Í læknisvottorði vegna skoðunar á honum sama dag segir að engir áverkar hafi verið sýnilegir á vörum, brjóstkassa, kvið eða á kynfærum. Roðablettur hafi verið á baki á milli sjötta og sjöunda rifs vinstra megin, sem hafi verið 6 cm langur og legið í stefnu rifbeins. Í blettinum hafi verið roði en ekki mar.

Meðal gagna málsins er læknabréf Magnúsar H. Jónssonar læknis dags. 15. október 2006 vegna skoðunar á kæranda þann dag. Þar kemur fram að kærandi hafi gefið skýra og greinargóða lýsingu á því við hvaða aðstæður hún hefði vaknað og á eftirfarandi atburðarás. Hún hafi verið miður sín í viðtalinu og þurft að gera hlé á máli sínu vegna ekka og gráts. Þess á milli hafi hún haft stjórn á tilfinningum sínum og verið samvinnuþýð. Kærandi hafi tjáð honum að hún hefði vaknað nakin og að yfir henni hefðu verið tveir naktir karlmenn, annar þeirra með getnaðarlim sinn inni í henni. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir því hvort hann hefði verið með getnaðarliminn í skeið hennar eða endaþarmi. Kærandi hafi kvartað um særindi í endaþarmi, spöng og skeið er hún hafi verið innt einkenna.

Í skeið hafi fundist mjólkurlitaður vessi er minnt hafi á sæði. Spöng hafi verið þrútin og yfirborð hennar alsett litlum aflöngum húðsprungum er legið hafi í stefnu milli endaþarms og skeiðar. Þá hafi endaþarmur verið óeðlilega aumur við innsetningu á baðmullarpinna. Aðspurð hafi kærandi ekki sagst hafa orðið fyrir neinum áverkum á kynfæri eða haft einkenni frá kynfærum fyrir umræddan atburð. Þá segir að tekin hafi verið strok úr skeið og endaþarmi til rannsóknar. Í lok læknabréfsins segir að frásögn sjúklings, svo og sálrænt og líkamlegt ástand hans, samrýmist kynferðislegri misbeitingu í endaþarm og skeið í ástandi þar sem sjúklingur hafi ekki verið fær um að verjast eða andmæla.

Meðal gagna málsins er einnig stöðluð skýrsla um læknisfræðilega skoðun vegna kynferðismáls/kynferðislegrar árásar, dags. 15. október 2006 og undirrituð af Magnúsi H. Ólafssyni lækni og Önnu Sigríði Vernharðsdóttur hjúkrunarfræðingi. Í skýrslunni gefur að líta eftirfarandi frásögn sjúklings:

Er á balli. Neytir áfengis, ekki aðrir vímugjafar. Missætti v/kærasta. Man eftir að balli líkur (svo) & að hafa verið á göngu. Vaknar nakin ca. kl. 9-10 & 2 naktir karlmenn að hafa samfarir v/sig. A.m.k. annar þeirra inn í sjúkling. Hún hristir þá af sér, lemur til þeirra & hleypur út. Ekki slegin eða haldið svo hún muni.

Í skýrslunni, undir fyrirsögninni, Frásögn sjúklings, koma fram nokkrar spurningar þar sem merkt hefur verið við viðeigandi reiti, þ.e. já, nei eða veit ekki. Þar er merkt við já í eftirfarandi tilvikum: Kynmök í leggöng, kynfæri konu sett í munn, snerting með getnaðarlimi, káfað á kynfærum, káfað á brjóstum, káfað á rassi og fingur settur í leggöng. Merkt er við veit ekki í eftirfarandi tilvikum: Kynmök í endaþarm, getnaðarlimur settur í munn, aðskotahlut stungið um líkamsop og sáðlát. Að lokum er merkt við nei við spurninguna: Smokkur notaður.

Undir liðnum, Ástand við skoðun, kemur eftirfarandi fram:

Gefur skýra og greinargóða frásögn af þeim hluta nætur sem hún man eftir og eftir að hún vaknar. Er miður sín og fær grátköst en þess á milli er hún í tilfinningalegu jafnvægi. Á erfitt með að endurupplifa nauðgunina vegna viðbjóðs.

Í sömu skýrslu kemur fram undir liðnum, Áverkar og önnur verksummerki, að margar smáar aflangar samhliða sprungur hafi verið á spöng er liggi á milli endaþarms og skeiðar. Einnig hafi verið þroti og eymsli við viðkomu. Sagt er að áverkarnir samrýmist þvinguðum samförum í endaþarm eða skeið. Þá er lýst sárum sviða í endaþarmi við sýnatöku með saltvatnsvættum bómullarpinna, sem stungið hafi verið inn fyrir endaþarmsop. Sagt er að áverkinn samrýmist penetration í endaþarm.

Kæranda var dregið blóð 15. október kl. 12.00 og jafnframt lét hún í té þvagsýni. Rannsókn leiddi í ljós að 1,37‰ af alkóhóli mældust í blóði hennar en 1,70‰ í þvagi.

Í niðurstöðu álitsgerðar Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði dags. 8. janúar 2007 vegna rannsóknar á framangreindum sýnum úr kæranda segir m.a. að þar sem einungis eitt blóðsýni hafi borist sé ekki hægt að reikna út brotthvarfshraða viðkomandi einstaklings, en rannsóknir sýni að hann sé á bilinu frá 0,12‰ til 0,25‰ á klukkustund. Ef reikna eigi til baka til kl. 8.30 verði að ganga út frá því að áfengisdrykkju hafi að mestu verið lokið um kl. 7.30. Megi þá ætla að etanólstyrkur í blóði konunnar hafi verið milli 1,8‰ og 2,2‰ kl. 8.30. Þá segir að ef drykkja hefur staðið lengur en til kl. 7.30 eða fram til kl. 8.30 hafi frásogi ekki verið lokið fyrr en eftir þann tíma og sé þá ekki hægt að reikna etanólstyrk í blóði konunnar kl. 8.30 með neinni nákvæmni.

Samkvæmt framlögðum gögnum kom kærandi á heilsugæslustöðina á Egilsstöðum 18. október 2006. Í vottorði læknis um ástand kæranda segir að eftir að kærandi gekkst undir skoðun á sjúkrahúsinu á Neskaupstað hafi komið hafi fram nokkrir marblettir. Frá því er greint að kærandi sé einnig með verki og vöðvaspennu í hálsi, svo og höfuðverk. Ekkert annað óeðlilegt hafi komið fram við skoðun. Kærandi hafi tjáð lækni að hún ætti erfitt með svefn og hafi þurft að taka svefnlyf. Einnig hafi hún fengið ávísað lyfinu sobril vegna ótta og kvíða. Þá hafi kærandi kvartað yfir að hafa fundið fyrir sviða við þvaglát eftir atvikið.

Meðal gagna málsins eru nokkrir samskiptaseðlar heilsugæslunnar á Egilsstöðum vegna málsins. Þar kemur fram að 19. október var lagt til við kæranda að hún færi í sálfræðiviðtöl á neyðarmóttöku í Reykjavík sem hún hafi samþykkt. Samkvæmt samskiptaseðli dags. 3. nóvember hafi kærandi kvartað um verulega vanlíðan en að hún gæti þó sótt skóla. Þá hafi hún kvartað um gulleita útferð og lykt, svo og sagt að hún hefði orðið vör við ferskt blóð við hægðalosun. Loks hafi kærandi sagst hafa flash back og martraðir og viljað svefnlyf áfram, en hafi lítið notað af sobril. Á samskiptaseðli dags. 10. nóvember kemur fram að líðan kæranda hafi verið aðeins betri vikuna á undan og hún hafi sofið tvær nætur án svefnlyfja. Önnur post trauma einkenni séu hins vegar óbreytt frá síðustu viku. Kærandi hafi hins vegar kvartað um óþægindi við að pissa. Samkvæmt samskiptaseðli dags. 17. nóvember hafi andleg líðan kæranda verið verri, en hún hafi þó stundað skóla. Hinn 13. nóvember hafi verið tekið sýni til ræktunar úr leghálsi kæranda, en við þá sýnatöku hafi verið mikill roði í og kringum leghálsop og það svæði hafi verið mjög aumt viðkomu og þakið örlitlum bólum. Niðurstaða rannsóknar á sýninu var sú að smásjárskoðun benti til skeiðarsýkingar (vaginal bacteriosis) og sveppasýkingar (e.coli +++), en enginn vöxtur hafi verið af sveppum. Í athugasemdum í skýrslu sýklafræðideildar segir að sýnið hafi verið 2ja daga gamalt við komu á sýkladeildina og það gæti skýrt e.coli +++. Á samskiptaseðli dags. 1. desember segir að andleg líðan kæranda sé nánast sú sama og að útferð sé byrjuð aftur svo og verkir. Á samskiptaseðli dags. 15. desember er greint frá því að kærandi hafi haft töluverða vanlíðan og grátköst, en þó hafi henni gengið ágætlega í prófum.

Í vottorði Berglindar Guðnadóttur sálfræðings dags. 22. desember 2006 kemur fram að hún hafi hitt kæranda tvívegis í október og rætt við hana tvívegis í síma í nóvember. Í vottorðinu segir m.a. að kærandi hafi greinst með einkenni áfallaröskunar eða Post traumatic Stress disorder. Hún hafi grátið og sýnt áberandi aukningu í streituviðbrögðum, greint frá miklum erfiðleikum með svefn og einbeitingu frá því að atburðurinn átti sér stað, svo og að hafa fundið fyrir tilfinningadoða og ótta gagnvart umhverfi sínu. Þá hafi hún verið ofurárvökul.

Í samantekt sálfræðingsins segir m.a.:

Allt viðmót stúlkunnar bendir til þess að hún hafi upplifað mikla niðurlægingu, ógn og ótta. Sálræn einkenni í kjölfarið samsvara einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarlega áföll eins og nauðgun, stórslys eða hamfarir. Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvara vel frásögnum stúlkunnar í viðtölum. Hún virðist ávallt hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér.

Í rannsóknarskýrslu málsins, sem unnin er af Elvari Óskarssyni lögreglufulltrúa, gefur að líta ljósmyndir af vettvangi þar sem sjá má dýnu á stofugólfi ásamt sæng og kodda og kemur fram í skýrslunni að dýnan hafi verið í innri (vestari) stofunni. Á gólfinu í ytri (austari) stofunni hafi verið glerbrot um allt gólfið og hafi komið í ljós að um hafi verið að ræða brotið vínglas. Þá kemur fram í skýrslunni að úr innri stofunni séu dyr með rennihurð fram á ganginn að eldhúsinu. Í skýrslunni gefur og að líta ljósmynd af plastfati, handklæði og glasi upp við norðurvegg í innri stofunni. Að sögn C hafi þessi hlutir verið settir fyrir kæranda þar sem hún hafi orðið veik og þurft að kasta upp. Þá gefur og að líta ljósmynd af sófa og sófaborði með óhreinum matardiskum.

Í rannsóknarskýrslunni segir að lagt hafi verið hald á rúmföt og dýnuhlíf, en þessa muni ásamt fötum sakborninga og kæranda, ásamt lífsýnum, hafi tæknideild lögreglunnar í Reykjavík tekið til rannsóknar.

Skýrslur tæknideildar lögreglu eru allar dagsettar 17. nóvember 2006.

Í skýrslu tæknideildarinnar segir að við skoðun á fatnaði kæranda og ákærða hafi ekkert markvert komið fram. Lífsýni úr leggöngum og endaþarmi kæranda, svo og af andanefju (spekulum) hafi verið prófuð með sæðisprófi en þau hafi ekki gefið svörun við prófinu. Lífsýni af forhúð og úr munnholi ákærða hafi ekki verið skoðuð þar sem sýni hafi verið á formi þekjufruma. Niðurstaða skýrslunnar er sú að í þeim gögnum, sem afhent hafi verið lögreglu til rannsóknar hafi engin lífsýni fundist sem nothæf gætu talist til DNA-kennslagreiningar í málinu.

Ekkert markvert hafi komið fram við skoðun á sængurveri og dýnuhlíf. Við skoðun á koddaverinu hafi hins vegar fundist þrjú dökk hár. Þau hafi verið skoðuð í smásjá og hafi útlit háranna bent til þess að um kynhár gæti verið að ræða. Jafnframt segir að þau hafi verið sams konar að útliti og samanburðarkynhár, sem safnað hafi verið frá ákærða. Hárin hafi hins vegar verið mjög ólík samanburðarkynhárum, sem safnað hafi verið frá kæranda. Í gögnum þessum hafi engin lífsýni fundist sem nothæf gætu talist til DNA-kennslagreiningar í málinu.

Miðvikudaginn 18. október 2006 kom kærandi á lögreglustöðina á Egilsstöðum og lagði fram kæru á hendur gerendum í málinu og áskildi sér jafnframt rétt til að leggja fram skaðabótakröfu á síðari stigum málsins.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.

Ákærði neitaði sakargiftum. Hann sagðist hafa hitt kæranda fyrir utan dansstaðinn eftir dansleikinn, sennilega um klukkan fimm til hálf sex um morguninn. Kærandi hefði verið með hóp af strákum og einn þeirra hefði komið að máli við hann og spurt hvort hann hefði far fyrir hana til [...]. Hann hefði sagt að það ætti ekki að vera neitt vandamál en hann kæmist ekki af stað strax þar sem hann hefði neytt áfengis. Hann myndi því fyrst fara til vinar síns til að láta renna af sér áður en hann legði af stað. Hann og kærandi hefðu síðan lagt af stað heim til vinar hans þar sem bifreið hans hefði verið. Á leiðinni hefðu þau spjallað saman og hún spurt hann hvort hann ætti í nefið. Hann hefði sagt að það gæti vel verið en ákærði sagðist hafa neytt fíkniefna á þessum tíma. Fyrir aftan þau hefði verið maður sem hefði dregið þau uppi og farið að spjalla við þau. Ákærði sagðist ekkert hafa þekkt til þessa manns. Þegar þau hefðu verið komin á móts við eitt húsið hefði maðurinn sagt að þar ætti hann heima og spurt þau að því hvort þau vildu koma inn og smakka hjá sér færeyskan bjór. Þau hefðu farið inn í húsið og sest þar að drykkju. Hefðu þau öll þrjú verið ókunnug hvert öðru. Maðurinn hefði sett gamlar vinylplötur á fóninn sem þau hefðu hlustað á. Á þessum tíma hefði klukkan verið að ganga sex eða orðin sex um morguninn. Kærandi hefði þá fundið til óþæginda og sagðist ákærði hafa fylgt henni á salernið og aðstoðað hana við að kasta upp. Þau hefðu síðan farið fram aftur og sest inn í stofu. Kæranda hefði ekki liðið vel og því hefði hann stungið upp á því við C að koma með dýnu svo að hún gæti lagt sig. Sagðist hann hafa viljað hafa kæranda hjá þeim svo að hann gæti fylgst með henni. Hún hefði síðan lagst út af og losað eitthvað um fötin sín áður og þeir síðan breitt yfir hana. Þeir C hefðu síðan haldið áfram að drekka bjór og hlusta á tónlist. Þó nokkuð löngu síðar hefði C spurt hann að því hvort hann væri ekki svangur og hefði hann játað því. C hefði því farið fram í eldhús og byrjað að elda. Sjálfur hefði hann ákveðið að henda sér aðeins út af til að slaka sér niður fyrir aksturinn til [...] og því hefði hann lagst við hliðina á kæranda. Kærandi hefði þá vaknað og hann talað aðeins við hana. Sagðist hann hafa spurt hana hvort ekki væri allt í lagi með hana og sagt henni að C væri að elda mat. Þau myndu síðan borða og hressa sig við og aka síðan til [...]. Sagðist hann hafa verið ber að ofan, en í buxum og sennilega skóm. Við neyslu amfetamíns yrði mönnum heitt og því hefði hann löngu verið farinn úr bolnum. Kærandi hefði síðan dottað og hann hefði því sest í stólinn og fengið sér aftur bjór í innri stofunni. C hefði verið frammi að elda. Kærandi hefði síðan allt í einu rokið upp með andfælum og byrjað að öskra og kalla og lemja í kringum sig. Sagðist hann hafa stokkið til og spurt hvað væri í gangi. Einnig hefði C komið fram í stofu. Sagðist ákærði hafa tekið í hendurnar á kæranda og reynt að róa hana niður og tekist það að lokum. Þau hefðu síðan sest inn í stofu og talað saman og hún farið að tala um að eitthvað hefði verið átt við hana. Hann hefði sagt henni að ekkert hefði gerst og að enginn hefði gert neitt við hana. Hún hefði þá róast aðeins niður en síðan hefði hún allt í einu sprungið aftur, tekið glas af borðinu og farið upp í sófann. Þar hefði hún setið á sófabakinu í einhverju móðursýkiskasti og verið öll uppspennt. Hann hefði náð að róa hana niður aftur og sagt henni að ekkert hefði gerst. Hún hefði þá spurt hann að því hvað hann myndi gera ef hún kærði hann fyrir nauðgun. Hann hefði þá sagt að hann gæti ekki gert neitt við því. Hún hefði síðan farið inn á salerni og komið svo aftur til baka og tekið saman eitthvert dót frá sér í stofunni og rokið út. Sagðist ákærði hafa farið út á eftir henni og kallað á eftir henni og spurt hvað væri í gangi. Kærandi hefði þá sest niður og snúið sér undan og ekki svarað honum. Hann hefði þá farið aftur inn í húsið og þeir C fengið sér að borða.

Ákærði sagðist hafa verið drukkinn og undir áhrifum amfetamíns. Sagðist hann halda að hann hefði síðast fengið sér amfetamín undir lok dansleiksins. Hann sagðist ekki hafa neytt fíkniefna eftir að þau kærandi hittust enda hefði hann ekki átt meira af efnum. Hann sagðist eingöngu hafa drukkið bjór þetta kvöld og um nóttina. Sagðist hann hafa komið til D, kunningja síns, um kl. 22.00 til 23.00 og fengið sér einn til tvo bjóra þar. Á ballinu hefði hann áreiðanlega drukkið tvo til fjóra bjóra. Hann sagðist aldrei hafa fundið til áfengisáhrifa, enda hefði hann einnig neytt amfetamíns. Hann sagði að þegar hann hefði hitt kæranda fyrst hefði hún verið undir áhrifum áfengis og í stuði en hann sagðist alls ekki hafa getað áttað sig á því að hún væri á einhverjum tímapunkti í óminnisástandi. Hann sagði að kærandi hefði drukkið bjór heima hjá C og síðan orðið veik. Hann sagði að hún hefði verið slöpp eftir að hún kastaði upp.

Ákærði var spurður út í skýrslu D hjá lögreglu þar sem haft væri eftir honum að ákærði hefði sagt honum frá kynnum sínum af kæranda umræddan morgun og að þau hefðu verið að möndla eitthvað en ekki haft samfarir. Sagði ákærði þá að þegar hann hefði lagst hjá kæranda hefðu þau eitthvað verið að þrýsta og kúra og strjúka en samskipti þeirra hefðu aldrei farið yfir á kynferðislegt stig. Hann sagði að það hefði verið ælulykt af kæranda og því hefði hann ekki haft kynferðislega löngun til hennar. Aðspurður um það hvort kærandi hefði sýnt honum einhvern kynferðislegan áhuga sagði hann að hvorugt þeirra hefði verið á þeim buxunum þarna á dýnunni. Hann sagði að ekki væri rétt hjá D að hann hefði sagt honum að kærandi hefði nuddað sér upp við hann á dýnunni og að eitt hefði leitt af öðru. Sagði ákærði að samskipti þeirra kæranda hefðu aldrei farið á það stig að um kynferðisleg samskipti hefði verið að ræða. Ákærði var einnig inntur út í þann framburð D að hann hefði verið með roðaákomur á höndum og öxlum eftir samskiptin við kæranda. Sagðist ákærði ekki muna eftir þessum áverkum eða að hafa sýnt D slíka áverka.

Ákærði sagði að gangur væri á milli stofunnar og eldhússins heima hjá C. Sagði hann að vel gæti verið að hurðin þar á milli hefði verið lokuð í einhvern tíma á meðan hann kastaði sér út af á dýnunni. Hann sagði að C hefði hins vegar komið einu sinni eða tvisvar inn í stofuna á þessu tímabili. Hann sagði að vel gæti verið að hann hafi bandað C í burtu í eitt skiptið eins og fram kæmi í skýrslu hans hjá lögreglu. Hann sagðist hins vegar ekki muna eftir því sjálfur. Aðspurður sagðist hann ekki halda að kærandi hefði fækkað fötum, en hún hefði losað eitthvað um fötin. Hann sagði að kærandi hefði verið í fötum þegar hún hefði lagst fyrir og einnig þegar hún hefði vaknað upp með andfælum síðar. Kærandi hefði virst vera að vakna upp við martröð þar sem mikil spenna hefði verið í henni. Aðspurður sagði hann að C hefði verið alklæddur allan tímann. Hann sagðist ekki kannast við að kærandi hefði slegið og sparkað í þá C þegar hún vaknaði. Hann sagði að ekki hefði liðið langur tími frá því að C fór að elda og hann lagðist á dýnuna og þar til kærandi yfirgaf húsið.

Aðspurður sagðist ákærði hafa verið með meðvitund allan tímann og muna atburðarás þó að hann myndi ekki einhver smáatriði. Ákærði sagðist frekar vera þekktur fyrir það að hjálpa fólki og passa upp á það fremur en að misþyrma því. Margir hefðu því verið mjög hissa þegar þetta mál hefði komið upp þar sem þeir hefðu þekkt hann af öðru. Ákærði sagði að á þeim tíma sem um ræddi í málinu hefði hann verið búinn að vera undir áhrifum fíkniefna á 12 ár. Hann sagðist hins vegar hafa farið mjög fínt með neyslu sína og náð að halda sig réttu megin við strikið. Hann sagðist ekki hafa neytt meiri fíkniefna umrætt kvöld en venjulega. Hann sagði að fólk, sem hann hefði þekkt og umgengist árum saman, hefði aldrei séð hann ölvaðan eða uppspenntan af fíkniefnaneyslu.

Ákærði sagði að persónulegir hagir hans í dag væru með þeim hætti að hann væri í sambúð með konu, sem hann hefði verið með síðastliðin þrjú ár. Þá hefði hann unnið við netagerð á Eskifirði síðustu mánuði. Hann sagðist hafa farið í meðferð í byrjun nóvember sl. og hætt allri neyslu áfengis, fíkniefna og tóbaks. Sagðist hann vera að vinna í þeim málum nú.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 15. október 2006. Þar bar hann á svipaðan hátt um atburðarás fram að því er kærandi var lögð til á dýnu í stofunni eftir að hafa orðið veik og kastað upp. Hjá lögreglu sagði ákærði að þeir C hefðu síðan haldið áfram að drekka og hlusta á tónlist og að ekkert annað hefði gerst um kvöldið. Hann neitaði því að hafa reynt að hafa samræði við kæranda og sagðist ekki hafa séð C reyna það heldur. Ákærði kaus að svara ekki spurningum lögreglu um það hvort hann hefði lagst á dýnuna hjá kæranda eða hvort hann hefði rifist við kæranda og þá hvers vegna. Í lögregluskýrslu sagðist hann halda að þau hefðu komið á heimili C um fimmleytið. Hann sagði að kærandi hefði farið úr húsinu skömmu á undan honum en sagðist ekki muna klukkan hvað það hefði verið. Þau kærandi hefðu talað saman áður en hún fór en ákærði sagðist ekki vilja tjá sig um það sem þeim hefði farið á milli. Þá sagði hann að það hefði brotnað glas eða staup en sagðist ekki vita hvers vegna. Kærandi hefði þá verið í sófa í stofunni og hann setið þar á stól.

Kærandi, A, sagðist hafa byrjað að neyta áfengis heima hjá sér um kl. 20.00 áður en þau lögðu af stað á dansleikinn. Sagðist hún þá hafa drukkið u.þ.b. tvö glös af hvítvíni og tvö glös af vodka. Á leiðinni á dansleikinn hefði hún drukkið einn vodka-breezer. Þá hefði hún verið með pela af tópas-skoti með sér í töskunni og einnig hefði hún keypt sér tvö glös af vodka á dansleiknum. Að dansleiknum loknum, á milli klukkan þrjú og fjögur, hefði hún og kærastinn hennar verið fyrir utan staðinn með fullt af fólki. Þeim hefði orðið sundurorða og kærastinn hennar farið. Hún hefði því orðið ein eftir með einhverju fólki og sagðist hún hafa verið mjög drukkin. Hún sagðist síðan ekki muna eftir sér fyrr en hún hefði verið á gangi með tveimur karlmönnum og næst myndi hún eftir sér þegar hún hefði verið að kasta upp inni á klósetti í ókunnugu húsi. Eftir það myndi hún ekkert fyrr en hún hefði vaknað upp nakin á dýnu á gólfinu þar sem tveir karlmenn hefðu verið yfir henni. Annar þeirra, þ.e. sá sköllótti, hefði verið með getnaðarlim sinn inni í leggöngunum á henni, en hinn, þ.e. sá feiti, hefði verið að fróa sér yfir henni. Þegar hún vaknaði hefði hún byrjað að öskra og slá og sparka og þá hefðu þeir hætt og sagt: Þetta er allt í lagi, þú vildir þetta. Sagðist hún muna eftir að hafa dregið sængina yfir sig og öskrað á þá og spurt hvar fötin hennar væru. Þeir hefðu bent henni á fötin og hún klætt sig í þau. Sá sköllótti hefði sagt hinum að fara fram úr stofunni og hefði hann gert það. Hún hefði verið komin inn í innri stofuna og staðið þar uppi í sófa, en sá sköllótti hefði sest í stól, sem hefði staðið þar skáhallt á móti. Sagðist hún muna eftir að hafa þá tekið glas eða eitthvað annað af borði eða hillu. Eftir að sá sköllótti hefði sagt henni ítrekað að vera róleg og allt væri í lagi því hann væri bara að reyna að hjálpa henni hefði hún kastað hlutnum frá sér og hann lent á veggnum eða í gólfinu og brotnað. Hún hefði haldið áfram að öskra á hann og hann sagt henni að vera róleg. Sagðist hún síðan muna eftir að hafa farið út úr húsinu og hlaupið niður á götu. Þegar hún hefði verið komin skamman spöl frá húsinu hefði borið að bíl, sem hún hefði stöðvað og hún beðið ökumanninn um að aka sér á lögreglustöðina. Ökumaðurinn hefði snúið við og ekið henni þangað þar sem lögreglumaður hefði tekið á móti henni og tekið af henni stutta skýrslu. Eftir það hefðu þau farið til baka og á leiðinni þangað hefðu þau mætt sköllótta manninum fyrir utan húsið og lögreglumaðurinn hefði jafnframt séð hinn manninn inn um glugga á húsinu. Því næst hefði hún farið með sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Neskaupstað þar sem hún hefði gengist undir rannsókn og sýnatöku.

Nánar aðspurð sagðist hún halda að hún hefði legið á bakinu þegar hún vaknaði upp á dýnunni og ákærði legið ofan á henni. Hinn maðurinn hefði verið við hliðina á ákærða.

Kærandi sagði að sér hefði liðið mjög illa eftir þetta atvik og að hún hefði orðið að taka inn svefnlyf og þunglyndislyf vegna þess. Sagðist hún hafa sofið illa og fengið miklar martraðir. Hún sagðist ekki hafa átt við svefntruflanir að stríða fyrir atvikið. Hún sagðist hafa hitt og talað við sálfræðing í Reykjavík í október og nóvember og jafnframt gengið til hjúkrunarfræðings hér fyrir austan fram að jólum Eftir það hefði hún farið í viðtöl hjá Stígamótum hér fyrir austan. Hún sagðist hafa verið með nokkra marbletti eftir atvikið og jafnframt fengið sveppasýkingu í leggöng sem hún hefði ekki lagast af fyrr en í janúar eða febrúar. Sagðist hún ekki hafa fundið fyrir þessum einkennum fyrr en eftir atvikið. Hún sagðist hafa verið í skóla þegar þetta gerðist og búið á heimavist. Hún sagði að atvikið hefði haft þau áhrif á hana að hún hefði átt erfitt með að hafa samskipti við skólafélaga sína og einnig hefði hún átt erfitt með að stunda kynlíf með kærastanum sínum. Hún sagðist hafa útskrifast úr [...] síðastliðin jól.

Aðspurð sagðist hún ekki geta skýrt ósamræmi sem væri á frásögn hennar og frásögn sjúklings á skjali merktu IV, 6-4. Aðspurð af verjanda sagðist hún ekki geta skýrt það hvers vegna mjólkurlitaður vessi hefði fundist í skeið hennar við skoðun læknis. Aðspurð sagðist hún ekki muna eftir að hafa spurt ákærða að því hvort hann ætti eitthvað í nefið. Sagðist hún aldrei hafa snert fíkniefni. Hún sagði að það hefði gerst áður en atvik málsins áttu sér stað að hún færi í óminnisástand við neyslu áfengis. Aðspurð sagði hún að höggin frá henni hefðu lent aftan á bakinu og öxlinni á öðrum mannanna. Hún sagðist hins vegar ekki hafa séð hvar spörkin frá henni lentu. Hún sagðist ekki muna eftir að hafa séð áverka á mönnunum.

Kærandi gaf skýrslu hjá lögreglu 18. október 2006 sem er í öllum meginatriðum í samræmi við frásögn hennar fyrir dóminum. Hjá lögreglu sagðist kærandi hafa vaknað upp á dýnu á stofugólfi hússins. Hún sagðist ekki muna alveg hvernig hún hefði legið en sagðist muna eftir að hafa horft framan í tvo menn sem hefðu verið hjá sér. Mennirnir hefðu verið naktir og annar þeirra með getnaðarlim sinn inni í fæðingarvegi hennar. Hefði sá maður verið sköllóttur. Hinn maðurinn hefði verið við hlið þess sköllótta og með getnaðarlim sinn í hendinni og að fróa sér. Sá hefði verið með stutt hár, þétt skegg í andliti og þybbinn. Sköllótti maðurinn hefði legið á sér en hún sagðist ekki vera viss um hvernig hann hefði legið á sér. Kærandi greindi á sama veg frá því sem gerðist í framhaldinu hjá lögreglu og hér fyrir dómi, sem og áfengisdrykkju sinni umrætt kvöld og nótt og andlegri líðan eftir atvikið. Hún sagðist halda að hún hefði komið höggi á báða mennina þegar hún vaknaði en einnig sagðist hún hafa slegið þann sköllótta í hægri öxlina og aftan á bakið, þ.e. herðablaðið eða öxlina, á meðan þau hefðu verið ein í stofunni.

E, unnusti kæranda, sagðist hafa orðið viðskila við kæranda að loknum dansleik um kl. 3.00 til 3.30. Hann sagði að þau hefðu bæði verið drukkin og þau rifist. Kærandi hefði verið búin að neyta áfengis áður en þau lögðu af stað á dansleikinn, þá hefði hún keypt áfengi á barnum á dansleiknum og einnig haft með sér opal-skot. Hann sagði að kæranda væri búið að líða illa frá því að atvikið gerðist, en nokkur dagamunur væri á henni. Hann sagðist geta tekið undir það að atvikið hefði haft áhrif á andlega líðan kæranda, skólagöngu hennar og samskipti þeirra á milli.

C sagðist ekki hafa þekkt ákærða áður en atvik málsins áttu sér stað og að ákærði hefði aldrei komið á heimili hans áður. Hann sagðist hafa hitt kæranda eftir dansleik á Fáskrúðsfirði umrædda nótt, en ekki muna klukkan hvað það hefði verið. Kærandi hefði verið að vandræðast yfir því að hún hefði ekki far til [...]. Hann hefði þá boðið henni að gista hjá sér og þegar þau hefðu verið að leggja af stað hefðu þau hitt ákærða sem slegist hefði í för með þeim. Þau hefðu síðan farið heim til vitnisins og farið inn í stofu að hlusta á tónlist. Þau hefðu drukkið eitthvað af áfengi og eftir svolítinn tíma hefði kærandi orðið veik og þeir ákærði farið með hana inn á salerni þar sem ákærði hefði hjálpað henni að kasta upp. Hann hefði síðan farið og sótt dýnu og rúmföt og þeir búið um kæranda í fremri stofunni. Sagði hann að sig minnti að hún hefði verið í hvítri blússu og pilsi þegar hún hefði lagst fyrir. Þeir ákærði hefðu síðan haldið áfram að tala saman og hlusta á tónlist í innri stofunni. Eftir dálítinn tíma hefði ákærði staðið upp og farið inn í fremri stofuna og lagst við hliðina á kæranda. Eftir smátíma hefði hann einnig farið fram og kíkt á ákærða og kæranda og þá hefði honum sýnst ákærði liggja hálfpartinn yfir kæranda eins og hann væri að tala við hana. Hann sagðist þó hvorki hafa heyrt orðaskil né heyrt stúlkuna svara ákærða. Hann hefði því farið aftur inn í hina stofuna. Nánar aðspurður sagði hann að ákærði hefði legið við hliðina á kæranda og hallað sér yfir hana, en hann sagðist ekki hafa tekið eftir því hvort kærandi var vakandi. Ákærði hefði á þessum tímapunkti verið fullklæddur. Síðar hefði hann verið að fara fram í eldhús og þegar hann hefði verið á milli stofanna tveggja hefði ákærði staðið upp allsnakinn og með reistan lim og rétt höndina í áttina til hans. Hann hefði spurt ákærða: Hvað er þetta? og þá hefði ákærði svarað: Þetta er lyktin af kynfærunum á henni. Hann sagðist ekki gera sér grein fyrir hvort kærandi hefði einnig verið nakin á þessum tímapunkti eða hvort hún hefði verið vakandi. Sagðist vitnið því næst hafa farið fram í eldhús og farið að hita upp mat. Eftir dálítinn tíma hefði hann kíkt fram og þá hefði ákærði bandað honum í burtu. Eftir svolítinn tíma hefði hann síðan heyrt brothljóð framan úr stofu og þá hefði hann farið inn til að athuga hvað væri um að vera. Ákærði og kærandi hefðu þá bæði verið komin inn í innri stofuna og hún setið í sófanum og ákærði í stól. Þau hefðu verið að tala saman og bæði virst nokkuð æst. Fljótlega hefði kærandi farið út og ákærði hefði hringt í vin sinn. Hann sagði að ákærði hefði tjáð sér að kærandi hefði spurt hann að því hvað hann myndi gera ef hún kærði hann fyrir nauðgun. Þeir hefðu síðan setið í nokkurn tíma á eftir og talað saman og síðan hefði ákærði farið.

Aðspurður sagðist hann ekki hafa gert sér grein fyrir því hvort ákærði hefði verið að hafa samfarir við kæranda áður en hann stóð upp nakinn og rétti að honum höndina. Þá sagðist hann ekki gera sér grein fyrir ástandinu á kæranda á þessum tímapunkti. Hann sagðist aðspurður ekki hafa heyrt í henni. Aðspurður sagðist hann ekkert hafa athugað hvort kærandi sofnaði eftir að hún lagðist fyrir á dýnunni. Sagðist hann hafa verið mjög drukkinn og dómgreindarlaus þessa nótt.

Þegar ákærði var spurður út í ósamræmi, sem væri á skýrslu hans fyrir dóminum og skýrslu þeirri sem hann gaf hjá lögreglu um þátt ákærða sagði hann að þegar hann hefði gefið skýrslu hjá lögreglu hefði hann ekki munað eftir þessu atviki, en það hefði rifjast upp fyrir honum síðar. Hann hefði þó ekki séð ástæðu til þess að láta lögreglu vita. Hann sagðist aðspurður ekki hafa sagt ósatt frá hjá lögreglu. Aðspurður sagðist hann ekki muna eftir að hafa setið á nakinn á dýnunni og verið að fróa sér í umrætt sinn eins og kærandi hefði borið um. Hann minntist ekki annars en að hann hefði verið fullklæddur allan tímann. Aðspurður sagðist hann ekki hafa rætt við aðra um málið eftir að hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Hann las yfir skýrslu, sem hann gaf hjá lögreglu sem sakborningur 15. október 2006 og staðfesti að svo búnu efni hennar og undirskrift sína.

Í lögregluskýrslunni greindi vitnið frá atvikum málsins með svipuðum hætti og hér fyrir dómi fram að því er vitnið og ákærði bjuggu um kæranda á dýnu á gólfinu. Þeir hefðu síðan farið aftur inn í stofu og setið þar við drykkju og spjall og jafnframt hlustað á tónlist. Þeir hefðu verið búnir að sitja þar töluvert lengi þegar hann hefði ákveðið að útbúa mat handa þeim. Hann hefði því farið fram í eldhús að matbúa en ákærði verið áfram í stofunni. Eftir að hafa verið nokkurn tíma í eldhúsinu hefði hann horft fram í stofuna og þá séð kæranda liggja á maganum á dýnunni með höfuð í vestur og sængina yfir sér upp að öxlum. Ákærði hefði þá verið lagstur við hlið hennar og snúið eins en hann hefði legið á vinstri hlið og snúið að kæranda sem hefði virst vera sofandi. Sagðist hann ekki hafa séð ákærða gera neitt sérstakt og ætlað að hann hefði verið að líta til með því hvernig kæranda liði. Sagðist hann hafa dregið rennihurðina aftur fyrir og haldið áfram að matbúa. Ekki hefði liðið langur tími þar til hann hefði horft aftur fram með því að opna fyrrnefnda hurð. Hefði hann þá séð kæranda liggja líkt og áður með sængina upp að öxlum og sjáanlega verið í skyrtunni. Ákærði hefði legið við hlið hennar fullklæddur líkt og áður. Hann hefði ekki séð neitt gerast á milli þeirra en ákærði hefði gefið sér merki um að fara aftur fram auk þess sem hann hefði sagt honum að fara. Sagðist hann hafa haldið áfram að elda mat í eldhúsinu. Um fimm til tíu mínútum síðar hefði hann heyrt brothljóð úr stofunni og farið fram til að athuga hvað væri um að vera og þá séð að ákærði og kærandi voru komin inn í ytri stofuna. Staup, sem hefði verið á borði í ytri stofunni hefði þá legið mölbrotið á gólfinu og brotin úr því verið um allt gólf. Ákærði hefði setið á stól við glugga að sunnanverðu en kærandi setið í sófanum við austurvegginn. Þeim hefði legið hátt rómur og bæði verið nokkuð æst. Hann sagðist hins vegar ekki muna hvað þeim hefði farið á milli. Kærandi hefði verið í skyrtunni og pilsinu en ákærði hefði verið farinn úr bolnum. Kærandi hefði síðan farið og skömmu síðar hefði ákærði einnig farið eftir að hafa rætt við einhvern í síma. Aðspurður sagðist hann ekki vita til þess að ákærði hefði verið að káfa á kæranda eða snerta hana. Ákærði hefði verið farinn úr bolnum og hefði bolurinn legið á gólfinu við dýnuna þar sem kærandi hefði legið. Þá sagðist hann aðspurður ekki hafa orðið var við nein kynferðisleg samskipti á milli ákærða og kæranda umrædda nótt og engin slík samskipti hefðu verið á milli hans og kæranda. Aðspurður um áverka á baki sem komið hefði fram við skoðun sagðist hann ekki hafa vitað af honum og ekki vita hvernig hann hefði komið til.

B sagði að kærandi hefði verið skælandi þegar hann hefði ekið fram á hana á Hafnargötu eða Búðavegi fyrir kl. 9.00 um morguninn. Hún hefði ekki virst vera drukkin en þó litið út fyrir að vera nývöknuð og að hafa verið að skemmta sér um nóttina. Sagðist hann hafa farið með hana beint niður á lögreglustöð. Hann sagðist hafa heyrt stúlkuna segja lögreglunni frá því að hún hefði vaknað upp við það að tveir karlmenn hefðu verið að hafa við hana samfarir. Hann gaf skýrslu hjá lögreglu 7. nóvember 2006 sem er í samræmi við framangreint en þó ítarlegri. Þar er eftir honum haft að hann hefði í greint sinn ekið vestur Búðaveg og þegar hann hefði verið á móts við hús nr. 40 hefði hann ekið fram á konu sem hefði gefið sér merki um að stöðva. Konan hefði virst vera nýlega vöknuð en ekki áberandi ölvuð ef þá nokkuð ölvuð. Hann hefði stöðvað bifreiðina og séð að konan var grátandi og virst vera langt niðri.

D staðfesti að hann væri ágætiskunningi eða félagi ákærða. Hann sagðist muna eftir að hafa hitt ákærða snemma um morguninn en hann sagðist ekki muna eftir því um hvað þeir ræddu. Ástand ákærða hefði þá verið ágætt, þ.e. hann hefði ekki verið drukkinn en svolítið hvekktur vegna þess að einhver hefði verið að ljúga upp á hann einhverjum sökum. Hann staðfesti og að ákærði hefði verið stressaður. Aðspurður sagði hann að sig rámaði í að ákærði hefði sýnt honum einhverja áverka á sér, þ.e. klórför, en hann sagðist ekki muna hvar þeir áverkar hefðu verið. Hann las yfir skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu hinn 16. október 2006 og staðfesti að svo búnu efni hennar og undirskrift.

Hjá lögreglu bar vitnið um það að þeir ákærði hefðu farið saman á dansleik á Fáskrúðsfirði umrætt kvöld, en orðið viðskila á ballinu. Eftir að hafa skroppið til Reyðarfjarðar um nóttina hefði hann farið heim til sín að sofa um kl. 3.30. Hann hefði síðan vaknað upp við það að síminn hringdi á milli klukkan átta og níu morguninn eftir. Í símanum hefði verið ákærði sem hefði tjáð honum að hann hefði samband þegar færi að líða að hádegi. Bjarni hefði síðan komið til hans og virst vera mjög stressaður og til marks um það hefði hann keðjureykt vindlinga. Ákærði hefði tjáð honum að hann hefði farið í hús eftir dansleikinn með konu og manni, en maðurinn hefði verið húsráðandi í húsinu. Konan hefði óskað eftir því að fá að koma með honum og hefði hann leyft henni það, en konan hefði eitthvað verið að gera sér dælt við hann. Eftir að þau hefðu verið komin heim til þessa manns hefði verið búið um konuna á dýnu og hann lagst hjá henni, en húsráðandi, sem heiti C, hefði farið inn í eldhús að elda mat. Ákærði hefði sagt að konan hefði nuddað sér upp við hann þar sem þau hefðu legið á dýnunni og eitt leitt af öðru. Hefði hann sagt að þau hefðu eitthvað verið að möndla en ekki haft samfarir. Ákærði hefði síðan sagt að allt í einu hefði þessi kona snappað og orðið alveg brjáluð. Hún hefði ráðist að ákærða og hann verið með einhverjar roðaákomur eftir hana á öxlum og höndum. Hann hefði reynt að róa hana og fengið hana til að setjast í sófa í stofunni. Konan hefði talað um að þessi feiti hefði verið að hafa við hana samfarir og þess vegna orðið brjáluð. Sagðist vitnið halda að þessi feiti væri þá húsráðandinn, C Vitnið hefur einnig eftir ákærða að konan hefði spurt hann: Hvað ef ég kæri þig? Eftir þetta hefði konan haldið á braut. Vitnið sagði að liðið hefðu 30 til 45 mínútur frá því að ákærði kom heim til hans um morguninn og þar til lögregla náði í hann. Þegar hann var spurður nánar um ástand ákærða þegar hann kom til hans sagði vitnið að ákærði hefði ekki verið sjáanlega ölvaður en hvekktur, sár og stressaður og reykt mikið. Þá hefði hann farið að tala um sameiginlegan vin þeirra sem nú væri að afplána fangelsisdóm vegna kynferðisbrots.

Elísabet Sólbergsdóttir lyfjafræðingur gaf skýrslu fyrir dóminum í gegnum síma. Hún staðfesti álitsgerð sína á dskj. nr. 4. Hún sagði að ástand manns sem væri með 1,8‰ til 2,2‰ af áfengi í blóði væri mjög einstaklingsbundið og færi t.d. eftir því hvort viðkomandi væri vanur áfengisdrykkju. Þá sagði hún að þreyta og svefnleysi gæti einnig haft áhrif á ástand viðkomandi.

F sagðist hafa hitt kæranda og kærasta hennar eftir dansleik á Fáskrúðsfirði aðfaranótt 15. október sl. Hann sagði að dansleiknum hefði lokið kl. 3.00 og þetta hefði því verið einhvern tímann á fjórða tímanum. Hann sagði að kærandi hefði verið töluvert og áberandi drukkin og svolítið viðskotaill við kærasta sinn. Þau þrjú hefðu verið að tala saman þegar kæranda og kærastanum hefði orðið eitthvað sundurorða og kærandi rokið í burtu. Meira hefði hann ekki séð af henni um nóttina. Hann sagðist sjálfur hafa verið ölvaður.

Magnús Hjaltalín Jónsson, fyrrverandi afleysingalæknir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað, sagðist muna eftir þegar kærandi kom til skoðunar á sjúkrahúsinu. Hann sagði að kærandi hefði augljóslega verið í uppnámi en gefið skýra og greinargóða lýsingu á því sem gerst hefði og því sem hún mundi eftir. Hún hefði einnig verið samvinnuþýð, en þurft öðru hvoru að gera hlé á máli sínu til að jafna sig.

Hann sagði að við skoðun á kæranda hefðu komið í ljós augljósir áverkar á spöng, þ.e. langar og smáar rifur sem væru óeðlilegar. Hann sagði að þessar rifur gætu hafa komið eftir harkalegar eða óundirbúnar samfarir. Þá sagði hann að kærandi hefði verið óeðlilega aum í endaþarminum eins og hún hefði verið særð í endaþarmi. Ekki væri þó hægt að fullyrða að eitthvað hefði verið sett upp í endaþarminn. Hann sagðist hafa spurt kæranda að því hvort hún hefði verið með einhver einkenni þarna áður, t.d. vegna hægðatregðu eða sýkingar, en kærandi hefði neitað því. Hann sagði að miðað við hversu aum kærandi var á þessum stað hefði hún t.d. ekki getað losað hægðir án þess að finna til. Hann sagði að miðað við skoðun hans á kæranda og frásögn hennar hefði hún fengið þessa áverka um nóttina.

Aðspurður sagðist hann hafa skoðað kæranda um kl. 11.00 um morguninn og ekki séð aðra áverka á henni en að framan greindi. Marblettir eða a.m.k. roðablettir hefðu þá átt að vera sýnilegir hefði hún borið slíka áverka eftir atvikið. Hann sagði að hjúkrunarfræðingur hefði séð um að krossa við spurningar eftir frásögn sjúklings á skjali merktu IV, 6-4. Hann sagðist sjálfur ekki hafa spurt kæranda út í þessi atriði.

Hann sagði að sveppa- og bakteríusýking í skeið kvenna væri algeng án þess að viðkomandi hefði nein einkenni. Sama ætti við um karlmenn. Slík sýking gæti komið upp án þess að nokkuð sérstakt ætti sér stað; nóg væri að hlutfall bakteríu- og sveppaflóru viðkomandi raskaðist. Hann sagði að mjólkurlitaður vessi, sem fundist hefði í skeið kæranda, gæti verið vessi sem hún hefði sjálf framleitt og þá mögulega vegna einhvers ofvaxtar á bakteríum. Hann sagði að við skoðun hans og hjúkrunarfræðings hefðu þau hins vegar ekki orðið vör við neina óeðlilega lykt. Bakteríusýking í skeið gæti hins vegar valdið þrota og útferð. Hann sagði að við slíkar sýkingar gætu myndast sprungur í spöng en þá væru þær mjög nálægt sjálfu leggangaopinu. Sprungurnar, sem hefðu verið á spöng kæranda við skoðun, hefðu hins vegar verið of langar og náð of langt að endaþarmsopinu til að geta verið af völdum slíkrar sýkingar.

Hann benti á að læknabréf og frásögn sjúklings, sem hann hefði tekið niður á skjali merktu IV, 6-3, bæri ekki alveg saman. Hann sagðist hins vegar minna að kærandi hefði tjáð sér að þegar hún hefði vaknað hefðu tveir naktir karlmenn verið yfir henni og annar þeirra inni í henni eins og fram kæmi í læknabréfinu á skjali merktu IV, 6-1.

Jakob Líndal Kristinsson gaf skýrslu fyrir dóminum í gegnum síma. Hann staðfesti matsgerð á skjali merktu IV, 15, 3-1. Hann sagði að helmingunartími amfetamíns væri mjög breytilegur og því væri ekki hægt að reikna magn amfetamíns í blóði aftur í tímann með neinni nákvæmni.

Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur sagðist hafa hitt kæranda í fyrsta skipti 24. október sl. Kærandi hefði verið í miklu krísuástandi og verið með áfallastreitueinkenni. Sjáanleg líkamleg einkenni hefðu verið þau að kærandi hefði verið niðurlút og setið í fósturstellingu, þ.e. hún hefði dregið sig saman. Þegar þær ræddu saman hefði hún grátið og sýnt örvæntingu og fjarlægð í augnaráðinu. Hún hefði í samtölum þeirra greint frá miklum ótta, kvíða og vanlíðan. Næst hefði hún hitt hana 27. október og síðan fylgt henni eftir með símaviðtölum, þ.e. 13. og 21. nóvember. Þá hefði hún verið Höllu, hjúkrunarfræðingi á [...], innan handar um meðferð kæranda. Síðast hefði hún rætt við Höllu í desember. Hún sagði að einkenni kæranda hefðu verið nokkuð stöðug á þessu tímabili. Kærandi hefði átt í miklum erfiðleikum með svefn og náð að sofa í mesta lagi 2-4 klukkutíma á nóttu. Þá hefði hún átt í erfiðleikum með einbeitingu og haft svokölluð hliðrunareinkenni, þ.e. átt í erfiðleikum með að fara út úr húsi vegna ótta við umhverfi sitt. Einnig hefði kærandi fundið fyrir tilfinningadoða. Hún sagði að þessi viðbrögð væru mjög algeng eftir slík áföll. Þegar hún hefði rætt við kæranda í nóvember hefði hún verið að takast á við ótta sinn við umhverfið og hliðrunareinkennin hefðu ekki verið eins sterk og áður. Hún sagði að þegar áfallastreitueinkenni væru enn til staðar mánuði eftir atvikið minnkuðu líkurnar á því að þau hyrfu án inngrips eða meðferðar.

Grétar Helgi Geirsson lögreglumaður sagði að þegar hann hefði hitt kæranda umræddan morgun hefði hún verið stödd í bíl hjá manni, sem hafði tekið hana upp í skömmu áður. Hann sagði að kærandi hefði verið grátandi og í miklu uppnámi og nokkra stund hefði tekið að fá fram hjá henni hvað hefði gerst. Hann sagði að kærandi hefði tjáð sér að hún hefði vaknað upp í ókunnugu húsi og að yfir henni hefðu verið tveir naktir karlmenn og hún fundið fyrir einhverju inni í sér. Hún hefði fundið fyrir sársauka og náð að kasta einhverjum hlut í annan manninn. Hann sagði að kærandi hefði ekki virst vera ölvuð. Hann staðfesti að hafa fundið hina grunuðu og vettvang atviksins á grundvelli frásagnar og lýsinga kæranda. Hann staðfesti efni frumskýrslu í málinu á skjali merktu I, 1-1.

Elvar Óskarsson lögreglufulltrúi staðfesti að hafa tekið ljósmyndir á vettvangi að X, sem fram kæmu í rannsóknarskýrslu á skjali merktu IV, 19-1.

Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur í tæknideild lögreglunnar í Reykjavík, staðfesti að fundist hefðu þrjú dökk hár í koddaveri, sem haldlagt hefði verið á vettvangi. Smásjárrannsókn á hárunum hefði bent til að um kynhár væri að ræða. Hann sagðist hafa borið þessi hár saman við kynhár frá ákærða og þau reynst eins að útliti og samanburðarhár frá honum. Hann sagðist því ekki geta útilokað að umrædd kynhár væru frá honum komin, en ekki væri hins vegar hægt að fullyrða að þau væru frá honum. Samanburðarhár frá C hefðu verið mun dekkri og því væri mjög ólíklegt að þau væru frá honum. Þá hefðu samanburðarhár frá kæranda verið mun styttri og auk þess skáskorin og því væri útilokað að þau væru frá henni.

III.

                                                                                Niðurstaða.

Í máli þessu er ákærða gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa að morgni sunnudagsins 15. október 2006 haft samræmi við kæranda meðan þannig var ástatt um hana að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.

Mikið bar í milli framburðar ákærða og kæranda fyrir dóminum um það sem gerðist umræddan sunnudagsmorgun. Kvaðst kærandi hafa vaknað upp nakin á dýnu á stofugólfi í ókunnugu húsi með tvo nakta karlmenn yfir sér og hefði annar þeirra, sköllóttur maður, verið með getnaðarlim sinn inni í leggöngum hennar. Hinn maðurinn, sá feiti, hefði verið við hlið þess sköllótta og verið að fróa sér. Hún hefði byrjað að öskra og slá og sparka frá sér og hefðu mennirnir þá hætt. Þá hefði hún spurt um fötin sín og klætt sig. Sagðist hún síðan hafa farið inn í innri stofuna, staðið þar uppi í sófa og tekið glas eða eitthvað annað af borði eða hillu. Eftir að sá sköllótti hefði ítrekað sagt henni að vera róleg og allt væri í lagi og að hann hefði bara verið að hjálpa henni hefði hún kastað hlutunum frá sér svo að hann brotnaði. Hún hefði haldið áfram að öskra á manninn og hann sagt henni að vera róleg, en hún hefði síðan hlaupið út úr húsinu og út á götu.

Ákærði hefur hins vegar borið um það að hafa aðstoðað kæranda við að kasta upp um nóttina og að hafa síðan ásamt húsráðanda, C, búið um hana á dýnu á stofugólfinu. Síðar um nóttina hefði hann ákveðið að henda sér aðeins út af við hliðina á kæranda á meðan C tók til mat handa þeim frammi í eldhúsi. Kærandi hefði vaknað og hann talað aðeins við hana. Hún hefði síðan dottað og hann staðið upp og sest aftur við drykkju í innri stofunni. Skyndilega hefði kærandi rokið upp með andfælum og byrjað að öskra og lemja í kringum sig og talað um að eitthvað hefði verið átt við sig. Hann hefði reynt að róa hana niður og tekist það um stund en hún hefði síðan rokið upp aftur, tekið glas af borðinu og öll verið uppspennt eins og hún væri í móðursýkiskasti. Skömmu síðar hefði kærandi yfirgefið húsið. Þegar gengið var nánar á ákærða varðandi samskipti hans við kæranda á dýnunni, sérstaklega í ljósi framburðar D hjá lögreglu, sagði ákærði að samskipti þeirra hefðu aldrei farið yfir á það stig að vera kynferðisleg. Þau hefðu hins vegar eitthvað verið að þrýsta, kúra og strjúka eins og ákærði orðaði það.

Vitnið C bar fyrir dóminum að ákærði hefði staðið upp frá spjalli þeirra og lagst við hlið á kæranda á dýnunni. Hann hefði séð ákærða liggja við hliðina á kæranda og halla sér yfir hana eins og hann væri að tala við hana. Þegar hann hefði verið á leið fram í eldhúsið nokkru síðar hefði ákærði staðið upp allsnakinn og með reistan lim og rétt höndina í áttina til hans og sagt að þetta væri lyktin af kynfærum kæranda. Enn síðar hefði ákærði bandað honum í burt þegar hann hefði kíkt fram í stofuna. Eftir svolítinn tíma hefði hann síðan heyrt brothljóð frammi í stofu og nokkru síðar séð ákærða og kæranda í innri stofunni og bæði virst nokkuð æst.

Ofangreindur framburður C er ekki í samræmi við framburð hans hjá lögreglu, en þar var hann yfirheyrður með stöðu grunaðs manns. Þar bar hann um það að hafa séð ákærða liggja við hlið kæranda á dýnunni en ekki séð hann gera neitt sérstakt. Í seinna skiptið hefði ákærði þó gefið sér merki um að fara. Um fimm til tíu mínútum síðar hefði hann heyrt brothljóð úr stofunni. Sagðist hann ekki hafa orðið var við nein kynferðisleg samskipti á milli ákærða og kæranda umrædda nótt.

Skýringar vitnisins á ósamræmi því sem er á framburði þess fyrir dóminum og hjá lögreglu um háttsemi ákærða þykja ekki trúverðugar. Líta ber hins vegar til þess að við skýrslugjöf hjá lögreglu hafði vitnið réttarstöðu sakbornings vegna gruns um aðild að sama kynferðisbroti og hér um ræðir, en síðar kom í ljós að hann sætti ekki ákæru vegna málsins. Í ljósi þess þykir komin fram eðlileg skýring á breyttum framburði vitnisins hér fyrir dómi um þátt ákærða. Þá hefur komið fram að ákærði og vitnið þekktust ekkert áður en atvik málsins áttu sér stað og að engin tengsl eru á milli þeirra. Ekkert er því komið fram í málinu sem bendir til þess að vitnið hafi breytt framburði sínum fyrir dóminum vegna annarlegra sjónarmiða, sem dregið gæti úr trúverðugleika framburðar hans hér fyrir dómi um þátt ákærða. Ljóst er hins vegar að framburður vitnisins og kæranda ber ekki saman um háttsemi vitnisins umræddan morgun en augljósar skýringar þykja vera á því ósamræmi með því að ella myndi vitnið fella á sig sök í málinu, sbr. 51. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Nokkur atriði þykja draga úr trúverðugleika framburðar ákærða. Í fyrsta lagi hefur framburður hans ekki verið stöðugur og er nokkurt ósamræmi á framburði hans hjá lögreglu og hér fyrir dómi. Hjá lögreglu sagði ákærði að eftir að hann og C hefðu búið um kæranda á dýnu á gólfinu hefðu þeir haldið áfram að hlusta á tónlist og drekka áfengi og að ekkert annað hefði gerst um nóttina. Hann sagði þó að glas eða staup hefði brotnað en að hann vissi ekki hvers vegna. Þó bar hann um það að hann og kærandi hefðu verið í stofunni þegar það gerðist. Þá kaus ákærði að svara ekki spurningum lögreglu um það hvort hann hefði lagst á dýnuna hjá kæranda eða hvort hann hefði rifist við hana. Loks kvaðst hann hafa rætt við kæranda áður en hún yfirgaf húsið en vildi ekki tjá sig um það sem þeim hefði farið á milli.

Af framburði ákærða fyrir dóminum verður ráðið að til töluvert meiri tíðinda hafi dregið umrædda nótt en ráða mátti af framburði hans hjá lögreglu. Bar ákærði t.d. um það að C hefði hitað upp mat í eldhúsinu og hann hent sér út af á dýnunni við hliðina á kæranda á meðan. Hefði hann þá verið farinn úr að ofan. Síðar þegar hann hefði verið staðinn upp aftur og sestur við drykkju í stofunni hefði kærandi skyndilega rokið upp með andfælum og byrjað að öskra og lemja í kringum sig þar sem hún hefði talið að átt hefði verið við sig. Þá hefði hún tekið glas af borðinu og farið upp í sófann í stofunni og setið þar á sófabakinu í móðursýkiskasti. Hún hefði síðan spurt hann að því hvað hann myndi gera ef hún kærði hann fyrir nauðgun.

Skýringar ákærða á því hvers vegna hann fækkaði fötum umrædda nótt þykja ekki trúverðugar. Þá þykir ótrúverðugur sá framburður ákærða að kærandi hafi skyndilega og án alls tilefnis rokið upp með andfælum og byrjað að öskra og lemja í kringum sig í ljósi þess að hún var afar drukkin þessa nótt og hafði skömmu áður verið lögð til á dýnunni eftir að hafa kastað upp. Þá hefur ákærði borið um það að hann hafi rætt við kæranda á meðan hann lá á dýnunni en vitnið C hefur sagt að hann hafi hvorki heyrt í kæranda né heyrt hana svara ákærða. Þá þykir ótrúverðugur sá framburður ákærða að hann hafi lagst á dýnuna hjá kæranda í þeim tilgangi að hvíla sig fyrir akstur til [...] í ljósi þess að kærandi var honum með öllu ókunnug og af henni var ælulykt eins og ákærði hefur sjálfur borið um. Þá þykir það framferði ákærða við upphaf rannsóknar málsins að neita að gangast undir líkamsrannsókn nema að undangengnum dómsúrskurði, sem varð til þess að slík rannsókn fór ekki fram fyrr en um hálfum sólarhring síðar, vera til þess fallið að draga úr trúverðugleika framburðar hans. Loks þykir framburður ákærða, bæði hjá lögreglu og hér fyrir dómi, bera þess merki að ákærði hafi nokkra tilhneigingu til að fegra sjálfan sig. Með vísan til alls framangreinds þykir framburður ákærða um samskipti hans og kæranda umrædda nótt ekki trúverðugur.

Kærandi hefur allt frá upphafi rannsóknar málsins gefið skýra og greinargóða lýsingu á atburðarás eftir að hún vaknaði upp á dýnunni í umrætt sinn. Hefur framburður hennar verið stöðugur og hún verið sjálfri sér samkvæm í frásögn sinni af atvikum málsins. Fyrstu lýsingu á atburðum gaf kærandi aðeins nokkrum mínútum eftir að hún vaknaði upp á dýnunni og hljóp út úr húsinu. Skýrði kærandi frá á sama veg hjá lækni tæplega tveimur tímum síðar. Skýrsla hennar hjá lögreglu er og í samræmi við framburð hennar hér fyrir dómi og samrýmast þær báðar fyrstu lýsingum hennar á atvikum. Þá er fram komið að á grundvelli greinargóðrar lýsingar kæranda á ákærða og vitninu C náði lögregla að hafa uppi á þeim og handtaka þá skömmu síðar. Fram hefur komið að kærandi hvorki þekkti né hafði séð umrædda menn áður. Þykir framburður kæranda einkar trúverðugur.

Vitnið B hefur borið um það að kærandi hafi verið grátandi og virst nývöknuð þegar hann tók hana upp í bifreið sína á [...] skammt frá heimili C skömmu eftir klukkan níu um morguninn. Á sama veg hefur borið Grétar Helgi Geirsson lögreglumaður, sem hitti kæranda skömmu síðar, en hann sagði að kærandi hefði verið grátandi og í miklu uppnámi og að nokkra stund hefði tekið að fá fram hjá henni hvað gerst hefði. Magnús Hjaltalín Jónsson læknir, sem skoðaði kæranda síðar um morguninn, hefur og borið um það að kærandi hafi augljóslega verið í uppnámi og þurft öðru hvoru að gera hlé á máli sínu til að jafna sig.

Kærandi hefur greint frá því að hún hafi verið haldin mikilli vanlíðan eftir atvikið. Hún hafi átt í miklum erfiðleikum með svefn og einbeitingu og orðið að nota bæði svefnlyf og þunglyndislyf. Einnig hafi hún fundið fyrir tilfinningadoða og miklum ótta gagnvart umhverfi sínu. Berglind Guðnadóttir sálfræðingur hefur staðfest fyrir dóminum að kærandi hafi eftir atvikið greinst með einkenni áfallaröskunar og sálræn einkenni hennar samsvari einkennum sem séu þekkt hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll eins og nauðgun, stórslys eða hamfarir. Þá kemur fram í framlögðu vottorði sálfræðingsins að niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvari vel frásögnum stúlkunnar í viðtölum og að hún hafi ávallt virst hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér.

Í framlögðu læknisvottorði Magnúsar Hjaltalíns Jónssonar læknis, sem skoðaði kæranda í kjölfar tilkynningar hennar til lögreglu, segir að kærandi hafi kvartað um særindi í endaþarmi, spöng og skeið er hún hafi verið innt einkenna. Við skoðun hafi komið í ljós að spöng var þrútin og yfirborð hennar alsett litlum, aflöngum húðsprungum er legið hafi í stefnu milli endaþarms og skeiðar. Einnig hafi verið eymsli við viðkomu. Sagt er að áverkarnir samrýmist þvinguðum samförum í endaþarm eða skeið. Þá hafi endaþarmur verið óeðlilega aumur og lýst hafi verið sárum sviða við sýnatöku með saltvatnsvættum bómullarpinna. Sagt er að áverkinn samrýmis penetration í endaþarm. Aðspurð hafi kærandi ekki sagst hafa orðið fyrir neinum áverkum á kynfæri eða haft einkenni frá kynfærum fyrir umræddan atburð.

Fyrrgreindur læknir kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sitt. Hann sagði að við skoðun á kæranda hefðu komið í ljós augljósir áverkar á spöng, þ.e. langar og smáar rifur, sem hefðu verið óeðlilegar. Sagði hann að þessar rifur gætu hafa komið eftir harkalegar eða óundirbúnar samfarir. Ennfremur sagði hann að umræddar sprungur hefðu verið of langar og náð of langt að endaþarmsopinu til að geta verið af völdum bakteríusýkingar. Þá sagði hann að kærandi hefði verið óeðlilega aum í endaþarmi, þ.e. eins og hún hefði verið særð þar. Ekki væri þó hægt að fullyrða að eitthvað hefði verið sett upp í endaþarminn. Sagði læknirinn að miðað við skoðun hans og frásögn kæranda hefði hún fengið þessa áverka um nóttina. Framburður læknisins, framlagt læknisvottorð og áverkar þeir sem voru á kæranda við skoðun umræddan morgun styðja mjög framburð kæranda í málinu.

Eins og að framan greinir hefur vitnið C borið um það að ákærði hafi staðið upp frá spjalli þeirra og lagst á dýnuna hjá kæranda. Hann hafi síðan séð ákærða liggja hálfpartinn yfir kæranda, eins og vitnið orðaði það. Síðar hafi hann séð ákærða standa upp af dýnunni allsnakinn og með reistan lim, rétta að honum aðra höndina og segja að þetta væri lyktin af kynfærum kæranda. Enn síðar hafi hann kíkt fram í stofuna og þá hefði ákærði bandað honum frá. Nokkru síðar hefði hann heyrt brothljóð framan úr stofunni. Ákærði hefur viðurkennt að C hafi komið einu sinni eða tvisvar inn í stofuna á meðan hann lá á dýnunni og sagði að vel gæti verið að hann hefði bandað honum einu sinni í burtu. Þykir þetta styrkja framburð C fyrir dóminum. Af framburði C þykir ljóst að ákærði hafði kynferðisleg afskipti af kæranda á dýnunni. Það að ákærði var allsnakinn og með reistan lim þykir og benda eindregið til þess að hann hafi verið þess albúinn að hafa samfarir við kæranda.

Kærandi hefur borið um það frá upphafi að hafa fundið fyrir einhverju inni í sér þegar hún vaknaði og í læknisvottorði kemur fram að hún hafi tjáð lækni að annar karlmannanna hafi verið með getnaðarlim sinn inni í henni, en hún hafi ekki gert sér grein fyrir hvort hann var í skeið hennar eða endaþarmi. Hjá lögreglu bar kærandi um það að annar mannanna, sá sköllótti, hefði verið með getnaðarlim sinn í leggöngum hennar þegar hún vaknaði og bar hún á sama veg hér fyrir dómi. Ljóst er að lýsing kæranda á umræddum manni kemur heim og saman við útlit ákærða, en hann og vitnið C eru mjög ólíkir í útliti.

Með vísan til afar trúverðugs framburðar kæranda um að ákærði hafi verið með getnaðarlim sinn í leggöngum hennar þegar hún vaknaði, áverka þeirra sem hún bar á kynfærum og endaþarmi og framburðar læknis um að þeir geti samrýmst harkalegum eða óundirbúnum samförum í skeið eða endaþarm, framburðar vitnisins C um að ákærði hafi legið á dýnunni hjá kæranda allsnakinn og með reistan lim, framburðar annarra vitna um að kærandi hafi verið grátandi og í miklu andlegu uppnámi eftir að hún kom af heimili C, svo og með vísan til þeirra sálrænu einkenna sem hrjáð hafa kæranda eftir atburðinn þykir í ljós leitt og hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi haft samræði við kæranda í greint sinn.

Af framlagðri álitsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði verður ráðið að talsvert magn alkóhóls hafi verið í blóði kæranda um kl. 8.30 um morguninn. Þá hefur kærandi borið um það að hafa hafið drykkju sína um kl. 20.00 kvöldið áður eða um hálfum sólarhring fyrr og drukkið talsvert af sterku áfengi umrætt kvöld og nótt. Hefur hún borið um það að hafa verið í óminnisástandi frá því að hún varð viðskila við unnusta sinn að dansleik loknum og þar til hún vaknaði upp á dýnunni. Á þessu tímabili myndi hún aðeins eftir tvennu, þ.e. að hafa verið á gangi með tveimur karlmönnum og að hafa kastað upp inni á salerni í ókunnugu húsi. Þá hafa vitni borið um það að kærandi hafi verið áberandi drukkin umrædda nótt og ákærði og vitnið C hafa báðir skýrt frá því að hún hafi orðið veik og kastað upp. Ljóst þykir með vísan til framangreinds að þannig hafi verið ástatt um kæranda umræddan morgun að hún hafi ekki getað spornað við verknaði ákærða sökum ölvunar og svefndrunga.

Með vísan til alls framangreinds þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir. Er háttsemi ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði hefur ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi sem áhrif hefur á ákvörðun viðurlaga í málinu. Með háttsemi sinni braut ákærði gróflega gegn persónu- og kynfrelsi ungrar stúlku, sem haft hefur í för með sér miklar andlegar þjáningar hennar og félagslega erfiðleika. Þykir ákærði ekki eiga sér neinar málsbætur. Miðað við eðli og alvarleika brotsins þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Ekki þykja efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Brotaþoli hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.233.207 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. október 2006 til 3. febrúar 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Er krafan sundurliðuð með þeim hætti að krafist sé miskabóta að fjárhæð 1.200.000 krónur og bóta vegna útlagðs kostnaðar að fjárhæð 33.207 krónur. Vísað er til þess að ákærði hafi gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn persónu brotaþola og beri því að greiða henni miskabætur, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Brot ákærða sé til þess fallið að valda brotaþola andlegri vanlíðan og óöryggi og er vísað til framlagðra læknisvottorða og vottorðs sálfræðings því til stuðnings. Um útlagðan kostnað brotaþola er vísað til 1. gr. laga nr. 50/1993 og kemur fram í bótakröfu að hann sé vegna fjölmargra heimsókna brotaþola til lækna, svo og ferða- og lyfjakostnaðar. Brotaþoli hafi átt við mikla andlega og líkamlega erfiðleika að stríða í kjölfar brotsins, sem krafist hafi lyfjagjafar og læknisaðstoðar.

Ákærði hefur verið fundinn sekur um þá háttsemi sem er grundvöllur bótakröfunnar og er fallist á bótaábyrgð með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun fjárhæðar miskabóta er litið til verknaðarins og þess hvaða áhrif hann hefur haft á líðan brotaþola sem hefur þurft að leita sér sérfræðiaðstoðar. Að þessu gættu þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Krafa um bætur vegna útlagðs kostnaðar er tekin til greina að fullu, enda er hún studd gögnum. Samtals er því ákærða gert að greiða brotaþola 833.207 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 800.000 krónum frá 15. október 2006 til 17. maí 2007 en þá var liðinn mánuður frá því að ákærða var kynnt krafan við þingfestingu málsins, sbr. 9. gr. sömu laga, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af tildæmdri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði er jafnframt dæmdur til að greiða sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dóm þennan kveða upp Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri, Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari og Pétur Guðgeirsson héraðsdómari. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómsformanns.

Dómsorð:

Ákærði, Bjarni Tryggvason, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði brotaþola, A, skaðabætur að fjárhæð 833.207 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 800.000 krónum frá 15. október 2006 til 17. maí 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af tildæmdri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 965.985 krónur, þar af málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., að fjárhæð 323.700 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Evu Dísar Pálmadóttur hdl., að fjárhæð 233.064 krónur.