Hæstiréttur íslands
Mál nr. 260/2007
Lykilorð
- Fyrning
- Húsbrot
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 15. nóvember 2007. |
|
Nr. 260/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari) gegn X (Garðar Garðarsson hrl.) |
Fyrning. Húsbrot. Skilorð.
Með ákæru 9. nóvember 2006 var X gefin að sök líkamsárás gegn A 8. apríl 2003, er þau voru í sambúð, og önnur líkamsárás 18. maí 2004, eftir að þau höfðu þau gengið í hjúskap. Voru báðar líkamsárásirnar heimfærðar undir 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hann var einnig ákærður fyrir tvö húsbrot á heimili A á árinu 2006 en þá voru þau skilin. Þegar rannsókn málsins hófst með yfirheyrslu X 8. júní 2006 var sök vegna líkamsárásanna fyrnd, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Ekki var því unnt að dæma honum refsingu fyrir þessa liði ákærunnar, sbr. 6. mgr. 82. gr. sömu laga. X játaði að hafa gerst sekur um húsbrotin eins og þeim var lýst í ákæru en taldi að við refsiákvörðun bæri að taka tillit til álags sem fylgt hefði skilnaði X og A árið 2004 og vefengingar á því að X væri faðir barns hennar. Ekki var fallist á það og var refsing hans ákveðin skilorðsbundið fangelsi í tvo mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. apríl 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst refsiþyngingar.
Ákærði krefst þess aðallega að refsing verði felld niður en til vara að hún verði milduð og þá að öllu leyti skilorðsbundin.
Ákæra 9. nóvember 2006 er í þremur liðum. Samkvæmt bæði I. og II. lið var ákærða gefið að sök líkamsárás sem heimfærð var til 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, annars vegar 8. apríl 2003 og hins vegar 18. maí 2004. Farið var með málið í héraði samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ákærði var kærður fyrir bæði brotin 7. apríl 2006 og var hann yfirheyrður hjá lögreglu vegna þeirra 8. júní 2006. Sök vegna brots sem heimfært er undir 217. gr. almennra hegningalaga fyrnist á tveimur árum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 81. gr. sömu laga. Þegar rannsókn málsins hófst með yfirheyrslu ákærða hjá lögreglu var fyrningarfrestur liðinn. Ákærða verður því ekki dæmd refsing samkvæmt I. og II. ákærulið, sbr. 6. mgr. 82. gr. sömu laga.
Í III. lið ákæru er ákærða gefið að sök að hafa tvisvar gerst sekur um húsbrot á heimili fyrrum eiginkonu sinnar á árinu 2006, 15. febrúar og 14. mars. Í fyrra tilvikinu var ákærði kominn út úr húsinu áður en lögregla kom á staðinn, en í síðara tilvikinu varð að fjarlægja hann.
Málsgögn sýna að ákærði og brotaþoli fengu lögskilnað með dómi árið 2004 og það ár var vefengingarmál höfðað gegn ákærða vegna barns brotaþola sem fæddist í hjúskap þeirra. Ekki er fallist á með ákærða að álag sem þessu hefur fylgt réttlæti brot hans tæpum tveimur árum síðar og kemur ekki til álita til refsilækkunar. Gögn er staðfesta önnur atvik er haft geti áhrif til mildunar refsingar hafa ekki komið fram. Við ákvörðun refsingar verður hins vegar að líta til þess að um var að ræða húsbrot á heimili, sem raskaði friðhelgi einkalífs. Þá sýna málsgögn að ákærða var gert að hlíta nálgunarbanni samkvæmt dómsúrskurði 17. júlí 2006. Ákærði hlaut síðast dóm 3. mars 1997 og hefur sakarferill hans ekki áhrif á refsingu nú. Refsing er ákveðin fangelsi í tvo mánuði, en hana þykir mega skilorðsbinda svo sem nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Eins og rakið hefur verið var ákærða ranglega dæmd refsing fyrir tvö brot sem eru fyrnd og af þeim sökum skal allur áfrýjunarkostnaður falla á ríkissjóð, samkvæmt 1. mgr. 169. gr. sömu laga, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Garðars Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. febrúar 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 7. febrúar sl., er höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með ákæru lögreglustjórans á Húsavík, útgefinni þann 9. nóvember 2006, á hendur X, [kt. og heimilisfang], fyrir hegningarlagabrot þremur liðum.
Í ákærulið I. er ákærða gefin að sök „líkamsárás, með því að hafa fimmtudaginn 8. apríl 2003, á heimili ákærða og þáverandi sambýliskonu hans að Y, snúið upp á vinstri hönd hennar, með þeim afleiðingum að hún tognaði á vinstri úlnlið.“
Í II. ákærulið er ákærða gefin að sök „líkamsárás, með því að hafa þriðjudaginn 18. maí 2004, að Z, veist að þáverandi eiginkonu hans, tekið fast um handleggi hennar og ýtt við henni svo hún féll við og síðan sparkað í hana, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á framhandleggjum og eymsli í baki.“
Eru brot samkvæmt I. og II. ákærulið talin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Í III. lið ákærunnar er ákærða gefið að sök „húsbrot, með því að hafa í tvígang á árinu 2006 ruðst inn í íbúð fyrrverandi eiginkonu ákærða að Þ sem hér segir:
a. Miðvikudaginn 15. febrúar og synjað að yfirgefa íbúðina er hún skoraði á ákærða að gera það.
b. Þriðjudaginn 14. mars, synjað að yfirgefa íbúðina er hún skoraði á ákærða að gera það og dvalið þar uns lögregla handtók ákærða og færði hann af vettvangi.“
Eru brot ákærða samkvæmt ákæruliðum III.a og III.b talin varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og í málinu gerir A, [heimilisfang], skaðabótakröfu samtals að fjárhæð kr. 133.386, auk vaxta.
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Hann krefst þess að framkomin bótakrafa verði lækkuð. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.
Ákærði kom fyrir dóminn við fyrirtöku málsins þann 7. febrúar sl. ásamt skipuðum verjanda sínum og viðurkenndi brot sín eins og þeim er í ákæru lýst. Er játning hans í samræmi við gögn málsins og þykja brot hans því nægjanlega sönnuð og varða við tilgreind lagaákvæði í ákæruskjali. Í verknaðarlýsingu í ákæru er brotaþoli ekki nafngreindur og ákæran að því leyti ekki svo skýr sem æskilegt væri. Við fyrirtöku málsins var þó ljóst að þessi óskýrleiki kom ekki að sök og var vörn ákærða ekki áfátt vegna þessa. Eins og á stendur þykir því unnt að leggja dóm á málið, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Að framangreindu virtu þykir mega leggja dóm á málið á grundvelli 125. gr. laga nr. 19/1991.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins var ákærði þann 31. janúar 1991 dæmdur í 6 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir brot gegn 219. gr., 4. mgr. 220. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga og vopnalögum. Þann 3. mars 1997 var hann dæmdur í 3 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir kynferðisbrot. Þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði. Ekki þykir fært að skilorðsbinda refsinguna.
Í málinu gerir A, [kt.], kröfu um greiðslu bóta úr hendi ákærða, alls að fjárhæð kr. 133.386,-, auk vaxta og dráttarvaxta. Bótakrafan er þannig sundurliðuð:
Miskabætur kr. 100.000,-
Lögmannsþóknun skv. gjaldskrá Regula lögmannsstofu ehf. kr. 26.816,-
24,5% virðisaukaskattur á lögmannsþóknun kr. 6.570,-
Samtals kr. 133.386,-
Þá er gerð krafa um vexti skv. 16. gr. skaðabótalaga frá 7. apríl 2006 til 4. ágúst 2006 en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Við fyrirtöku málsins kvaðst ákærða samþykkja framkomna bótakröfu og verður hún því tekin til greina að fullu.
Í málinu liggur fyrir sakarkostnaður vegna öflunar læknisvottorðs, kr. 7.500,-. Með vísan til 165. gr. laga nr. 19/1991 verður ákærði dæmdur til greiðslu þess kostnaðar auk þóknunar skipaðs verjanda síns, Örlygs Hnefils Jónssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin kr. 90.000- og er virðisaukaskattur þar innifalinn.
Dóminn kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði X sæti fangelsi í 3 mánuði.
Ákærði greiði A kr. 133.386-. ásamt vöxtum samkv. 16. gr. skaðabótalaga frá 7. apríl 2006 til 4. ágúst s.á. en dráttarvöxtum samkv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þ.d. til greiðsludags.
Ákærði greiði kr. 97.500- í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Örlygs Hnefils Jónssonar hdl., kr. 90.000- og er virðisaukaskattur innifalinn.