Hæstiréttur íslands
Mál nr. 257/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Föstudaginn 17. apríl 2015. |
|
Nr. 257/2015.
|
Landsnet hf. (Þórður Bogason hrl.) gegn Bjarneyju Guðrúnu Ólafsdóttur Ólafi Þór Jónssyni og Sigríði Jónsdóttur (Guðjón Ármannsson hrl.) |
Kærumál. Hæfi dómara. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu B, Ó og S um að G viki sæti sem sérfróður meðdómandi. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að í málinu hefði G, sem dómari hafði lýst yfir að hann hefði í hyggju að kalla til starfans, ekki enn tekið sæti í dómi. Þótt dómara hefði verið heimilt að kveða upp sérstakan úrskurð um að ekki væri rétt að G skyldi kallaður til sem meðdómsmaður væri um að ræða atriði sem dómari hefði getað tekið afstöðu til með ákvörðun, sbr. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Yrði Hæstarétti ekki gert að mæla fyrir um að tilnefna skyldi umræddan meðdómsmann sem héraðsdómari hafði ákveðið að ekki skyldi taka sæti við meðferð málsins. Samkvæmt því var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2015 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að Gnýr Guðmundsson „víki sæti sem sérfróður meðdómandi“ í málinu. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til a. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði höfðuðu varnaraðilar 28. maí 2014 mál á hendur sóknaraðila og íslenska ríkinu vegna fyrirhugaðrar lagningar háspennulínu, svokallaðrar Suðurnesjalínu, með tilheyrandi mannvirkjum. Þá hafa aðrir landeigendur á svæði því er línan á að liggja um einnig höfðað mál á hendur sóknaraðila og íslenska ríkinu, en alls mun vera um að ræða fimm samkynja mál og hefur rekstur þeirra fylgst að.
Mál þetta var þingfest 27. maí 2014 og úthlutað öðrum héraðsdómara en nú fer með það í héraði. Í þinghaldi 14. október 2014 var því frestað til 21. nóvember sama ár en síðastgreindan dag var gagnaöflun lýst lokið og málinu frestað til aðalmeðferðar 4. mars 2015. Áður en til þess kom var málinu úthlutað 12. janúar 2015 á ný til þess dómara sem nú fer með það í héraði og kvað upp hinn kærða úrskurð. Hinn 12. febrúar sama ár sendi dómritari tölvubréf til lögmanna aðila með tilkynningu um að dómarinn „hyggst kveða til setu sem meðdómsmenn þau Áslaugu Björgvinsdóttur héraðsdómara og Gný Guðmundsson rafmagnstæknifræðing í ofangreindum málum. Vinsamlegast sendið mér staðfestingu á móttöku og þá athugasemdir ef einhverjar eru.“ Hinn 17. sama mánaðar var á ný sent tölvubréf til lögmanna aðila þar sem sagði: „Við gerum ráð fyrir að ekki séu athugasemdir við fyrirhugaða meðdómsmenn af ykkar hálfu þar sem engar hafa komið fram.“ Síðar sama dag sendi lögmaður varnaraðila héraðsdómi og öðrum lögmönnum aðila tölvubréf þar sem fram komu athugasemdir varnaraðila við hæfi sérfróða meðdómsmannsins.
Í kjölfar viðræðna héraðsdómara við málflytjendur 18. febrúar 2015 sendi hann þeim tölvubréf þar sem fram kom að sú breyting hefði orðið að Ásmundur Helgason héraðsdómari myndi taka sæti sem meðdómandi í stað þess héraðsdómara sem áður hafði verið nefndur. Þessu svaraði lögmaður varnaraðila með tölvubréfi degi síðar þar sem hann lýsti yfir vonbrigðum með að ekki skyldi tilnefndur sérfróður meðdómsmaður sem aðilar væru ásáttir um. Í samræmi við fyrirvara í síðastgreindu bréfi sendi lögmaðurinn svo 23. sama mánaðar tölvubréf með kröfu um að úrskurður gengi þess efnis að Gnýr Guðmundsson „víki sæti í málinu“. Með tölvubréfi héraðsdómara 27. sama mánaðar kvaðst hann myndu fresta fyrirhugaðri aðalmeðferð málsins og taka það sérstaklega fyrir „til þess eins að fjalla um hæfi meðdómanda.“
Við fyrirtöku málsins 6. mars 2015 var bókað: „Aðalmeðferð málsins var frestað utan réttar vegna athugasemda stefnenda um hæfi Gnýs Guðmundssonar sem meðdómsmanns en dómari málsins hafði tilkynnt lögmönnum um þá fyrirætlan sína að kveðja hann til sem sérfróðan meðdómsmann. Í þessu þinghaldi munu lögmenn aðila reifa sjónarmið sín varðandi þennan þátt.“ Eftir að lögmenn höfðu reifað sjónarmið aðila var málið tekið til úrskurðar.
II
Dómari máls gætir að því af sjálfsdáðum hvort þörf sé á að kveðja til til setu í dómi meðdómsmenn samkvæmt heimild í 2. mgr., sbr. lokamálslið 3. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 4. gr. laganna skal dómari að öðru jöfnu greina aðilum frá því með fyrirvara hverja hann hyggist kveðja til, þannig að aðilum gefist kostur á að gera athugasemdir ef þeir telja efni til.
Ákvörðun um hvern rétt sé að kveðja til starfa sem sérfróðan meðdómsmann hvílir á dómara og verður henni ekki hnekkt nema lög bjóði. Formleg þátttaka meðdómsmanna í máli hefst með því að þeir taka sæti í dómi með dómsformanni í þinghaldi ekki síðar en við upphaf aðalmeðferðar máls og verður að bóka um kvaðningu þeirra við það tækifæri, sbr. 1. og 2 mgr. 4. gr. laga nr. 91/1991. Telji dómari á hinn bóginn heppilegra að annar skuli kvaddur til starfa sem sérfróður meðdómsmaður en sá sem hann hafði áður í hyggju getur dómari allt til þess tíma er meðdómsmaður tekur sæti í dómi breytt fyrri ákvörðun sinni þar um, sbr. 5. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991.
Í máli því sem hér er til úrlausnar hafði hinn sérfróði meðdómsmaður, sem héraðsdómari hafði lýst yfir að hann hefði í hyggju að kveðja til starfans, ekki tekið sæti í dómi þegar hinn kærði úrskurður var upp kveðinn. Eru úrskurðarorð hans því ónákvæm um að meðdómsmaðurinn skuli víkja sæti í málinu.
Samkvæmt hinum kærða úrskurði taldi héraðsdómari að ekki væri rétt að hinn sérfróði maður sem um ræðir skyldi kvaddur til setu í dómi sem meðdómsmaður. Þótt dómara hafi verið heimilt að hafa þann hátt á að kveða upp sérstakan úrskurð með þeirri ályktun er hér um að ræða atriði, vegna niðurstöðunnar, sem dómari gat tekið afstöðu til með ákvörðun, sbr. síðari málslið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991. Verður Hæstarétti ekki gert að mæla fyrir um að tilnefna skuli tilgreindan meðdómsmann sem héraðsdómari hefur ákveðið að ekki skuli taka sæti við meðferð máls.
Samkvæmt öllu framansögðu verður máli þessu vísað frá Hæstarétti af sjálfsdáðum.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2015.
Stefnendur, Bjarney Guðrún Ólafsdóttir, kt. [...], Safamýri 47, Reykjavík, Sigríður Jónsdóttir, kt. [...], Hvassaleiti 56, Reykjavík og Ólafur Þór Jónsson, kt. [...], Sléttuvegi 31, Reykjavík höfðuðu mál þetta með stefnu birtri 28. maí 2014 á hendur íslenska ríkinu og Landsneti hf. Málið var þingfest 3. júní 2014.
Í máli því sem hér um ræðir hafa stefnendur uppi þá dómkröfu, í fyrsta lagi, að ógilt verði með dómi ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 24. febrúar 2014 um annars vegar heimild Landsnets til að framkvæma eignarnám til ótímabundinna afnota vegna lagningar 220 kV háspennulínu (Suðurnesjalínu 2) á landi undir 437 metra langt og tæplega 46 metra breitt háspennulínubelti, samtals 179 metra langa og 6 metra breiða vegslóða og 2 burðarmastur, á jörðinni Stóra Knarrarnes I (landnr. 130884), Vogum á Vatnsleysuströnd, og hins vegar um að í þessu skyni verði svohljóðandi kvöð þinglýst á jörðina Landakot:
1. Landsneti hf., kt. 580804-2410, er heimilt að leggja um óskipt land jarðarinnar Stóra Knarrarnes I, landnr. 130884, samtals 437 metra langa 220 kV rafmagnslínu, svokallaða Suðurnesjalínu 2, ásamt því að reisa 2 stauravirki í landinu, nánar tiltekið 2 burðarmöstur, til að bera línuna uppi. Skal Landsnet hf. jafna allt jarðrask að loknum framkvæmdum og sá í gróðursár. Verða mannvirki þessi óskoruð eign Landsnets hf. eða annars þess aðila sem fyrirtækið framselur rétt sinn til. Er heimild vegna háspennulínunnar og annarra réttinda samkvæmt yfirlýsingu þessari ótímabundin og sú kvöð sem lega mannvirkja þessara setur á jörðina óuppsegjanleg af hálfu landeigenda eða rétttaka þeirra.
2. Línulögn þessari fylgir sú kvöð, í samræmi við ákvæði reglugerðar um raforkuvirki nr. 678/2009, með áorðnum breytingum, að óheimilt verður að koma fyrir mannvirkjum á belti, sem er að jafnaði 46 metra breitt undir og við línuna. Landsnet hf. eða þeir, sem það felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að stauravirkjum og rafmagnslínunni í landi jarðarinnar, bæði að því er varðar byggingarframkvæmdir, svo og viðhald, eftirlit og endurnýjun síðar. Landsneti hf. er heimilt að leggja samtals 179 metra langa vegslóða að línunni og meðfram henni og halda slóðanum við eftir því sem þörf krefur. Mega mannvirki þessi standa í landinu ótímabundið og óátalið af eigendum og ábúendum jarðarinnar.
3. Landsneti hf. er heimilt að leggja ljósleiðara í jörðu meðfram rafmagnslínunni í eldri línuvegi. Sú kvöð fylgir að allt verulegt jarðrask kringum legu strengsins er óheimilt nema í samráði við og undir eftirliti Landsnets hf. Ljósleiðarinn skal að öðru leyti lúta sömu kvöðum og réttindum og rafmagnslínan.
4. Landsnet hf. eða þeir, sem fyrirtækið felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að helgunarsvæði rafmagnslínunnar og ljósleiðara í landi jarðarinnar, bæði vegna byggingarframkvæmda, sem og vegna viðhalds, eftirlits og endurnýjunar síðar.
Í öðru lagi krefjast stefnendur þess að kvöð, tilgreind sem 434-A-000681/2014, sem þinglýst var 1. apríl 2014 á jörðina Stóra Knarrarnes I (landnr. 130884), Vogum á Vatnsleysuströnd, og sem greinir í lið (1) verði afmáð úr þinglýsingarbókum.
Stefndu, Landsnet hf. og íslenska ríkið, krefjast sýknu af öllum kröfum stefnenda. Bæði stefnendur og stefndu krefjast málskostnaðar úr hendi gagnaðila.
I.
Með tölvuskeyti dómritara til lögmanna aðila 12. febrúar sl. var tilkynnt að dómari hygðist í þessu máli, sem og fjórum öðrum samkynja málum sem rekin eru hér fyrir dómi, kveðja til setu í dómi tvo menn til viðbótar. Til þeirrar sögu var nefndur einn embættisdómari, auk Gnýs Guðmundssonar rafmagnstæknifræðings. Í tölvubréfinu var óskað eftir því að móttaka þess yrði staðfest, auk athugasemda lögmanna ef einhverjar væru. Fimm dögum síðar sendi dómritari annan tölvupóst til lögmanna þar sem fram kom að ekki væri gert ráð fyrir að athugasemdir væru gerðar um „fyrirhugaða meðdómsmenn“ þar sem engar athugasemdir hefðu borist. Síðar þann sama dag bárust þau svör frá lögmanni stefnenda að gerðar væru „ákveðnar athugasemdir við sérfróða meðdómsmanninn“. Með tölvupósti 18. febrúar sl. tilkynnti dómari lögmönnum að fyrirhugað væri að Gnýr tæki sæti í dómnum og fór þess á leit við lögmenn stefnenda, að upplýst yrði um það hið fyrsta ef þess yrði krafist af hálfu stefnenda að Gnýr viki sæti á grundvelli 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í svari lögmanns stefnenda 19. febrúar sl. var móttaka skeytis dómara staðfest og tekið fram að í framhaldi yrði tekin ákvörðun um hvort gerð yrði krafa um það að Gnýr Guðmundsson viki sæti í málinu. Boðað var að þeirri skoðun yrði hraðað og að ákvörðun myndi liggja fyrir í síðasta lagi við lok dags mánudaginn 23. febrúar sl. Með tölvubréfi 23. febrúar sl. upplýsti lögmaður stefnenda að þess yrði krafist af hálfu umbjóðenda hennar að Gnýr Guðmundsson viki sæti í málinu og að óskað yrði úrskurðar um það efni. Að þessum upplýsingum fengnum ákvað dómari að boða til þinghalds þar sem fjallað yrði um þessa kröfu stefnenda, en tekið var fram að fyrirhuguð aðalmeðferð málsins frestaðist af þessum sökum þar til leyst hefði verið úr ágreiningi þessum.
Í boðuðu þinghaldi 6. mars sl. var sú krafa áréttuð af hálfu stefnenda að Gnýr Guðmundsson viki sæti sem sérfróður meðdómsmaður í máli þessu, en af hálfu stefnda Landsnets hf. var þess krafist að fram kominni kröfu stefnenda yrði hafnað. Af hálfu aðila var ekki gerð krafa um málskostnað í þessum þætti málsins. Stefndi, íslenska ríkið, hefur ekki látið þennan ágreining til sín taka.
II.
Málsástæður stefnenda
Sú krafa stefnenda sem hér er til úrlausnar, þ.e. að sérfróður meðdómandi víki sæti, er á því byggð að hann hafi, ásamt tveimur embættisdómurum, setið í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2768/2015, sem kveðinn var upp 12. janúar sl. Þar var um að ræða mál þar sem stefnendur kröfðust þess að úrskurðir matsnefndar eignarnámsbóta í málum nr. 4/2014, 5/2014, 6/2014, 7/2014 og 8/2014, sem allir voru kveðnir upp 29. júlí 2014, yrðu ógiltir með dómi. Með úrskurðum þessum var stefnda, Landsneti hf., veitt heimild til umráðatöku lands innan jarða stefnenda vegna áforma Landsnets hf. um að leggja svokallaða Suðurnesjalínu 2 í lofti. Í þeirri lagaþrætu sem þar um ræðir kröfðust stefndu, Landsnet hf. og íslenska ríkið, sýknu af öllum kröfum stefnenda. Áðurnefndum dómi 12. janúar 2015 hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.
Stefnendur byggja á því að Gnýr Guðmundsson hafi, ásamt tveimur embættisdómurum, í ofangreindum dómi í reynd tekið efnislega afstöðu til þess að framkvæmdin sem hér er deilt um, þ.e. lagning 220 KW loftlínu, sé nauðsynleg. Þetta hafi verið gert enda þótt nauðsyn framkvæmdarinnar sem slíkrar hafi ekki verið til úrlausnar þar og stefnendur ekki sett fram röksemdir gegn þessari ályktun. Stefnendur telja að þau hafi, eins og hér er ástatt, réttmæta ástæðu til að draga í efa óhlutdrægni meðdómsmannsins út frá hlutlægu sjónarmiði. Þau geti ekki treyst því að hann líti fram hjá fyrri afstöðu og skoði röksemdir þeirra af fyllsta hlutleysi. Að auki vísa stefnendur til þeirra vanhæfisástæðna sem áður hafa verið hafðar uppi og Hæstiréttur fjallaði um í áðurnefndum dómi í máli nr. 696/2014. Að mati stefnenda má líta til nefndra atriða til viðbótar þeim sem byggt er á nú.
Um lagarök vísa stefnendur til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991, svo og til 70. gr. stjórnarskrárinnar, auk 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
III.
Málsástæður stefnda Landsnets hf.
Af hálfu stefnda Landsnets hf. er um varnir gegn kröfu stefnenda skírskotað til þess að Hæstiréttur Íslands hafi á fyrri stigum hafnað sjónarmiðum stefnenda um ætlað vanhæfi Gnýs Guðmundssonar. Engar réttmætar ástæður séu til að draga hæfi hans í efa. Meta verði álitamál um hæfi út frá sjónarhóli þess dómara sem um ræðir hverju sinni. Fyrir liggi að Gnýr hafi sérþekkingu á sviðinu sem hér er deilt um, hann hafi enga persónulega hagsmuni að verja og engin atvik liggi fyrir sem varða persónu hans og gætu leitt til vanhæfis. Gnýr hafi hvorki tjáð sig um málið í ræðu né riti, heldur sé hann aðeins einn af þremur dómurum sem kváðu upp greindan dóm 12. janúar sl. Einnig skipti hér máli að sömu aðilar eigi aðild að þeim málum sem hér um ræðir.
IV.
Niðurstaða
Svo sem áður er fram komið hverfist dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2768/2014 um aðrar dómkröfur en þær sem hér eru uppi. Engu að síður þykir mega fallast á það með stefnendum að gaumgæfilegur yfirlestur þess dóms renni stoðum undir þá ályktun stefnenda að þar hafi verið tekin afstaða til sakarefnis þess sem til úrlausnar er í þessu máli hér. Hefur þá sérstaklega verið litið til eftirfarandi setningar í niðurstöðukafla héraðsdóms í máli nr. E-2768/2014: „[...] telur dómurinn að fallast verði á það mat stefnda Landsnets ehf. að þörfin á að bæta tengingu þess svæðis sem hér um ræðir við meginflutningskerfi stefnda sé ekki einungis nauðsynleg vegna langtímasjónarmiða, heldur sé hún einnig aðkallandi til skemmri tíma litið.“
Þegar atvik að baki ágreiningi málsaðila eru heildstætt virt þykir verða að sýna því sjónarmiði stefnenda skilning að í hinu tilvitnaða orðalagi í niðurstöðum Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2768/2014 geti falist efnisleg afstaða til þess sakarefnis sem til úrlausnar er í þeirri síðari deilu málsaðila sem nú er komin til meðferðar fyrir héraðsdómi. Með hliðsjón af þeim sérstöku aðstæðum sem hér eru uppi telur dómurinn að líta verði svo á að að stefnendur geti á þessum forsendum með réttu dregið óhlutdrægni Gnýs Guðmundssonar í efa. Verður krafa stefnenda því tekin til greina.
Svo sem áður greinir eru engar málskostnaðarkröfur hafðar uppi í þessum þætti málsins og verður málskostnaður því ekki ákvarðaður.
Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari, kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Fallist er á þá kröfu stefnenda Bjarneyjar Guðrúnar Ólafsdóttur, Sigríðar Jónsdóttur og Ólafs Þórs Jónssonar að Gnýr Guðmundsson víki sæti sem sérfróður meðdómandi í máli þessu.