Hæstiréttur íslands

Mál nr. 88/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


Miðvikudaginn 15

 

Miðvikudaginn 15. febrúar 2006.

Nr. 88/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Nálgunarbann.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að X sætti nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. febrúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2006, þar sem varnaraðila var með nánar tilteknum hætti gert að sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann sakarkostnaðar úr ríkissjóði.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Krafa sóknaraðila um nálgunarbann er dagsett 12. desember 2005 og eru í hinum kærða úrskurði rakin nokkur tilvik sem lögregla hefur til rannsóknar vegna ætlaðra brota varnaraðila gegn fyrrum sambúðarkonu sinni, A. Í gögnum málsins liggur einnig fyrir að lögregla var kölluð að heimili A 5. febrúar 2006 vegna ónæðis af hálfu varnaraðila. Var hann þá handtekinn og færður til yfirheyrslu. Einnig hefur verið lögð fyrir Hæstarétt lögregluskýrsla 11. febrúar 2006 þar sem fram kemur að varnaraðili hafi þann dag verið handtekinn vegna gruns um brot á nálgunarbanni því sem hann var látinn sæta með hinum kærða úrskurði, en samkvæmt 1. mgr. 143. gr. laga nr. 19/1991 frestaði kæra varnaraðila ekki réttarverkun hins kærða úrskurðar.

Ekki verður á því byggt í máli um nálgunarbann, að bannið muni hugsanlega raska umgengnisrétti barna við þann aðila sem banninu á að sæta, enda séu skilyrði nálgunarbanns uppfyllt.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða allan kostnað af kærumáli þessu eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Varnaraðili, X, greiði allan kostnað af kærumáli þessu, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], verði gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, í 6 mánuði þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, [kt.], [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis D-hús og jafnframt að lagt verði bann við því að hann veiti henni eftirför, nálgist hana á almannafæri og hringi til  hennar eða setji sig á annan hátt í samband við hana.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að A og X hafi kynnst á árinu 1994 og fljótlega hafið sambúð. A hafi tjáð lögreglu að X hafi fljótt farið að beita hana andlegu ofbeldi og skömmu síðar hafi hann farið að beita hana líkamlegu ofbeldi sem hafi staðið allar götur síðan. Kveður hún sambúð þeirra hafi staðið með hléum til vorsins 2002 en síðla sama árs hafi þau þó búið saman í stuttan tíma á heimili foreldra hans. A og X eiga þau saman tvö börn, B, sem fæddur er árið 1998, og C, sem fædd er árið 2003. A ber að hún hafi orðið fyrir stöðugu áreiti af hálfu X frá því að sambúð þeirra lauk. Hann hafi ítrekað ruðst í heimildarleysi inn á heimili hennar, beitt hana ofbeldi og hafi hún nokkrum sinnum þurft að leita skjóls í Kvennaathvarfinu. Hjá lögreglunni í Reykjavík séu nokkrar kærur A á hendur X til rannsóknar og þá eru nokkrar bókanir í dagbók lögreglu vegna ætlaðra brota gegn henni:

Mál nr. 010-2005-22735. 

Þann 21. júní sl. hafi A lagt fram kæru á hendur X vegna líkamsárásar sem hún segir að hafi átt sér stað á Spáni þann 13. eða 14. júlí 2004. Daginn eftir, eða sama dag, og A kom heim frá Spáni, fór hún á slysadeild Landspítala í Fossvogi. Við skoðun þar reyndist hún vera með brotna tönn, með punktblæðingar neðan við bæði eyru, sem læknir taldi að gætu verið eftir kyrkingatök, auk þess sem hún var með marbletti í andliti og á líkama. A hefur kært X fyrir líkamsárásina og er málið nú til rannsóknar hjá lögreglu.

Mál nr. 010-2005-21082:

Laust eftir miðnætti þann 11. júní 2005 hafi lögreglan verið kvödd að heimili A þar sem X væri að berja hús hennar að utan. Þegar lögreglumenn komu á vettvang hafi X farið í burtu.

Mál nr. 010-2005-22080:

Að morgni 17. júní 2005 kl. 07:17 hafi lögreglan verið kvödd að heimili A þar sem X hefði ruðst í heimildarleysi inn í íbúð hennar og beitt hana  ofbeldi. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu tjáði A lögreglumönnum að X hafi ruðst inn í íbúð hennar og væri inn í herbergi með dóttur þeirra en hún þyrði ekki að koma nálægt honum vegna þess hve æstur hann væri. Lögreglumenn færðu X út úr íbúðinni og reyndu að tala við hann en hann var óviðræðuhæfur sökum æsings. Þá ræddu lögreglumenn við B, son A og X, sem skalf úr hræðslu. A hefur kært X fyrir húsbrot og líkamsárás umrætt sinn og sætir málið nú rannsókn lögreglu.

Mál nr. 010-2005-26856:

Þann 20. júlí 2005 kom A á lögreglustöð til að leggja fram kæru á hendur X fyrir að hafa ruðst inn á heimili hennar að kvöldi 15. júlí 2005 þar sem hann veittist að henni með ofbeldi. A ber að X hafi slegið hana með krepptum hnefa í upphandlegg og ýtt harkalega við henni. A leitaði á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss fjórum dögum síðar en við skoðun reyndist hún vera með marbletti á vinstri handlegg og á hægri úlnlið. A kærði líkamsárásina og sætir málið nú rannsókn lögreglu.

Mál nr. 010-2005-27084:

Aðfaranótt 21. júlí 2005 var lögreglan kvödd að heimili A þar sem X væri fyrir utan húsið. Er lögreglumenn komu á vettvang tjáði A þeim að kærði hefði komið og krafist þess að fá að sjá börn þeirra. Hún kvaðst hafa leyft honum að sjá börnin en hann hafi farið að æsa sig og ráðist á hana. Hafi hann m.a. tekið hana hálstaki og sparkað fast í læri hennar. A fór á slysadeild þann 22. s.m. Samkvæmt vottorði læknis reyndist hún vera með áverka á hálsi og marin á vinstri upphandlegg, á vinstra læri, á síðu og yfir mjaðmagrind. A hefur kært þessa líkamsárás og sætir málið nú rannsókn lögreglu.

Mál nr. 010-2005-29845:

Mánudaginn 8. ágúst 2005 fékk lögreglan boð um að fara með forgangi að heimili A þar sem X hefði beitt hana ofbeldi. Er lögreglumenn komu á vettvang var A í miklu uppnámi og kvað hún X hafa komið á heimili hennar og ráðist á hana. Hann hafi tekið hana hálstaki, snúið upp á handlegg hennar, rifið í hár hennar og slengt henni utan í ísskáp. Samkvæmt frumskýrslu málsins sáu lögreglumenn roða á hálsi A, auk þess sem hún kvartaði utan eymslum í hálsi, hendi og í hársverði. A fór á slysadeild eftir atvik þetta en áverkavottorð liggur ekki fyrir. Málið sætir nú rannsókn lögreglu.

Mál nr. 010-2005-43924:

Þann 10. nóvember 2005 óskaði A eftir aðstoð lögreglu þar sem X væri að ónáða hana. Er lögreglumenn komu að heimili A sagði hún að X væri farinn. A hefur lagt fram kæru á hendur X fyrir líkamsárás umræddan dag. Í kæruskýrslu greinir hún svo frá að X hafi komið á heimili hennar umræddan dag og hafi þau farið að rífast. X hefði síðan ráðist á hana og m.a. slegið hana hnefahögg í andlitið, hrint henni í gólfið og lagst ofan á hana á gólfinu. A ber að hún hafi m.a. brákast á rifbeini en áverkavottorð liggur ekki fyrir. Málið sætir nú rannsókn lögreglu.

Mál nr. 010-2005-45488:

Samkvæmt bókun í dagbók lögreglu hringdi A í lögreglu aðfaranótt 21. nóvember sl. og sagði að X hefði margsinnis ekið framhjá heimili hennar um nóttina.

Mál nr. 010-2005-45929:

Laust eftir miðnætti þann 24. nóvember 2005 var lögreglu tilkynnt um að maður væri að reyna að ryðjast inn á heimili A. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var maðurinn horfinn á brott.

Samkvæmt gögnum þeim sem lögð voru fram í dóminum í dag var kærði handtekinn sunnudaginn 5. febrúar sl. [við D-hús] á grunndvelli handtökuskipunar sem gefin var út 27. desember sl. vegna þessa máls.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan telji að rannsóknargögn framangreindra mála og bókanir í dagbók lögreglu beri með sér að X hafi ítrekað raskað friði A og valdið henni miklum ótta. Hann hafi ruðst í heimildarleysi inn á heimili hennar og beitt hana alvarlegu ofbeldi.  A greini frá því í skýrslu hjá lögreglu að hún horfi oft út um glugga heimilis síns þegar bifreið sé ekið framhjá til að kanna hvort X sé þar á ferð. Hún óttist að fara niður í þvottahús í kjallara hússins, sérstaklega á kvöldin, þar sem X hafi tvisvar sinnum verið kominn inn á stigagang án þess að hún vissi af. Af fyrirliggjandi gögnum verði ekki ráðið að X muni láta af háttsemi sinni gagnvart A heldur virðist hann þvert á móti vera að færast í aukana. Engum vafa sé undirorpið að mati lögreglu að þessi háttsemi X hafi mikil áhrif á líf barna þeirra þar sem afbrot X gagnvart A séu flest framin inn á heimili þeirra. A óski eftir að X raski ekki friði hennar en X virðist fyrirmunað að virða þá ósk hennar. X hafi ekki sinnt ítrekuðum kvaðningum lögreglu um að mæta til skýrslutöku vegna rannsókna framangreindra mála og sé hann nú eftirlýstur í lögreglukerfinu. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið hér að framan telji lögreglan að rökstudd ástæða sé til að ætla að X muni fremja afbrot og raska á annan hátt friði A og því sé nauðsynlegt að hann sæti nálgunarbanni.

       Varnaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu sóknaraðila um nálgunarbann, til vara krefst hann þess að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími. Þá krefst varnarðili þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

         Í greinargerð varnaraðila kemur fram að hann hafi í gegnum tíðina haft verulegar áhyggjur af velferð og aðbúnaði barna hans og A vegna vímuefnaneyslu hennar og umgengni við þekkta fíkniefnaneytendur. Kveðst hann því hafa reynt að fylgjast með börnunm. Það sé fjarri lagi að hann hafi beitt A ofbeldi eins og ætla megi af kærum þeim sem hún hefur lagt fram hjá lögreglu. Séu kærur hennar reistar á einhliða frásögnum hennar. Varnaraðili mótmælir því alfarið að hann sé með stöðugt áreiti gagnvart A og það sé rangt að hann hafi ítrekað ruðst inn á heimili hennar.

       Ástæða þess að hann hafi farið á heimili A síðastliðin sunnudagsmorgun hafi verið sú að hann hafði áhyggjur af börnum sínum vegna grunns um að þar færi fram fíkniefnaneysla.

       Telur varnaraðili að fullnægjandi rök fyrir nálgunarbanni séu ekki fyrir hendi. Sé ósannað með öllu að fyrir hendi sé rökstudd ástæða til að ætla að varnaraðili muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði A sbr. 10. gr. laga nr. 19/1991. Ef nálgunarbann verði tekið til greina eins og krafist er megi ljóst vera að umgengni varnaraðila við börn sín væru hindruð.

       Ekki verður fallist á það með varnaraðila að nálgunarbann komi í veg fyrir rétt hans til umgengni við börn sín. Með vísan til rannsóknargagna og þess sem fram er komið í málinu, þykir vera rökstudd ástæða til að ætla að varnarðili muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði A. Er því fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík og ákveðið með heimild í 110. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000 að taka kröfu lögreglustjórans til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, og þykir ekki ástæða til að marka nálgunarbanninu skemmri tíma en krafist er. 

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber varnarðila að greiða allan sakarkostnað þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl. sem þykir hæfilega ákveðin 75.000 krónur þar með talinn virðisaukaskattur.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Varnaraðili, X, [kt. og heimilisfang], skal sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, í 6 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, [kt. og heimilisfang], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis D-hús og jafnframt er honum bannað að veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri og hringja til hennar eða setja sig á annan hátt í samband við hana.

Varnarðili greiði allan sakarkostnað þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 75.000 krónur þar með talinn virðisaukaskattur.