Hæstiréttur íslands
Mál nr. 522/2011
Lykilorð
- Samningur
- Leiga
- Vatnsréttindi
|
|
Fimmtudaginn 22. mars 2012. |
|
Nr. 522/2011.
|
Jóhann H. Jónsson (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) gegn Fallorku ehf. (Árni Pálsson hrl.) |
Samningur. Leiga. Vatnsréttindi.
Málsaðilar höfðu gert með sér leigusamning um lands- og vatnsréttindi á jörð J í Eyjafjarðarsveit. J taldi að óháð þeim samningi bæri F ehf. að greiða sér aukreitis fyrir töku malar úr umræddu landi vegna virkjunarframkvæmda á svæðinu. Ekki var fallist á með J að annar samningur hefði verið gerður þess efnis að hann hlyti sérstakar greiðslur vegna umrædds malarnáms. Með hliðsjón af aðdraganda og efni leigusamnings aðila var á hinn bóginn fallist á með F ehf. að túlka bæri leigusamninginn þannig að í leigugjaldi fyrir nýtingu landsins hefði einnig falist greiðsla vegna umrædds malarnáms og jarðrasks sem virkjunarframkvæmdunum óhjákvæmilega fylgdu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. september 2011. Hann krefst þess aðallega stefnda verði gert að greiða sér 3.569.943 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. ágúst 2006 til greiðsludags, en til vara 2.867.424 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2006 til 19. ágúst sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður hér fyrir dómi verði felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Með samningi 20. júní 2005 gerði stefndi sem leigutaki og áfrýjandi sem leigusali með sér samning um leigu lands- og vatnsréttinda vegna Djúpadalsvirkjunar 2. Í samningnum segir svo: „LEIGUANDLAG 1. Hluti jarðarinnar Stóra-Dals í Eyjafjarðarsveit er fellur undir uppistöðulón virkjunaráfanga 2 við Djúpadalsá og veg. 2. Þau vatnsréttindi jarðarinnar Stóra-Dals í Djúpadalsá sem nauðsynleg eru til viðkomandi raforkuframleiðslu. LEIGUGJALD OG SAMNINGSTÍMI Leigutaki greiðir leigusala, eiganda jarðarinnar Stóra-Dals, fjárhæð sem nemur kr. 1.280.000 árlega. Leigugjaldið skal breytast til hækkunar eða lækkunar eftir breytingum á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 240,7 stig í júní 2005. Gjalddagi skal vera 1. febrúar ár hvert. Leigugjald vegna ársins 2005 skal greitt við undirskrift samningsins. Samningur þessi gildir svo lengi sem virkjunin er starfrækt. Unnt er að óska eftir endurskoðun samningsins vegna breyttra forsendna s.s. vegna nýrra mannvirkja eða annarra breytinga á virkjunarsvæðinu eða verulegra breytinga á rekstrarforsendum virkjunarinnar. ÖNNUR ÁKVÆÐI Fyrirkomulag mannvirkja og umfang verður eins og gert er ráð fyrir í gildandi deiliskipulagi. [...]“ Ekki er deilt um stærð hins leigða lands.
Aðilar deila einkum um hvort stefnda hafi verið heimilt samkvæmt samningnum að taka efni úr lónsstæðinu í tengslum við virkjunarframkvæmdir sínar án frekari greiðslu en þar um ræðir. Óumdeilt er að 71.400 rúmmetrar af möl voru teknir úr lónsstæðinu og fór megnið af efninu til stíflugerðar. Fyrir Hæstarétti féll áfrýjandi frá aðalkröfu þeirri sem hann hafði uppi í héraði. Aðalkrafa áfrýjanda hér fyrir dómi er reist á því að Hjalti Þórsson, verktaki við gerð virkjunarinnar, hafi fyrir hönd stefnda samið við áfrýjanda um efnistöku en þó án tilgreiningar á magni efnis og gjalds fyrir hvern rúmmetra malar. Fyrir það beri stefnda að greiða sanngjarnt endurgjald í samræmi við meginreglu 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Það sé 50 krónur auk virðisaukaskatts fyrir hvern rúmmetra efnis í samræmi við yfirmatsgerð, eða samtals 3.569.943 krónur. Verði ekki fallist á að slíkur samningur hafi komist á um malartökuna gerir áfrýjandi kröfu um greiðslu bóta fyrir heimildarlausa töku stefnda á mölinni. Séu þær bætur 50 krónur fyrir hvern rúmmetra efnis án virðisaukaskatts, eða samtals 2.867.424 krónur. Þessari kröfu til stuðnings vísar áfrýjandi til almennu skaðabótareglunnar, reglunnar um vinnuveitandaábyrgð og eftir atvikum óskráðrar bótareglu um óréttmæta auðgun.
II
Hjalti Þórsson andmælti því við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi að hann hefði gert munnlegan samning við áfrýjanda fyrir hönd stefnda um malartöku. Hann kvaðst á hinn bóginn hafa falast eftir því við áfrýjanda að fá án endurgjalds að taka efni úr lónsstæðinu vegna framkvæmdanna. Hjalti var ekki starfsmaður stefnda og hafði því sem slíkur ekki umboð til samningsgerðar fyrir stefnda hönd. Þá er ósannað að Hjalti hafi á öðrum grundvelli haft umboð til gerðar þess samnings sem áfrýjandi heldur fram að komist hafi á fyrir milligöngu hans. Af þessum sökum verður ekki fallist á aðalkröfu áfrýjanda.
Eins og fram kemur í héraðsdómi var langur aðdragandi að gerð samningsins 20. júní 2005. Höfðu aðilarnir án árangurs átt í viðræðum um leigugjald og gjald fyrir malartöku. Áfrýjandi naut aðstoðar lögmanns við gerð samningsins. Í málinu liggja fyrir tvenn drög að samningi milli aðila. Þau fyrri eru frá 28. maí 2004, þar sem gert var ráð fyrir 1.100.000 króna árlegu leigugjaldi sem breytast skyldi til samræmis við breytingu á vísitölu neysluverðs. Þau síðari eru frá 12. nóvember 2004, þar sem gert var ráð fyrir 1.200.000 króna leigugjaldi árlega sem taka skyldi breytingum miðað við svokallaða heildsölugjaldskrá Landsvirkjunar. Í báðum samningsdrögunum var tekið fram að leigusali skyldi hafa „rétt á öllu malarnámi fyrir landi sínu“.
Þótt ekki sé í ljós leitt að sérstaklega hafi verið tiltekið í deiliskipulagi að efnið í stífluna ætti að taka úr lónsstæðinu lá það beinast við í ljósi eðlis framkvæmdanna, en báðir aðilar vissu um fyrirhuguð not hins leigða lands samkvæmt skipulaginu. Er auk þess fram komið að megnið af jarðveginum, sem um ræðir, var fært til á leigulandinu svo mynda mætti lónið, en einungis lítill hluti efnisins notaður undir vegstæði. Þá ber að líta til þess að þótt áfrýjandi kveði Hjalta Þórsson hafa samið munnlega fyrir hönd stefnda um malartöku þegar vorið 2005 og að sérstök ákvæði um malarnám hafi verið í fyrri drögum að samningi var eigi að síður ekkert ákvæði um malartökuna í hinum skriflega samningi sem gerður var síðar þá um sumarið. Þegar litið er til alls framanritaðs um aðdraganda og efni samningsins verður fallist á með stefnda að túlka beri samninginn þannig að í leigugjaldi fyrir nýtingu landsins hafi einnig falist greiðsla vegna þess malarnáms og jarðrasks sem virkjunarframkvæmdunum óhjákvæmilega fylgdu. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Það athugast að til samræmis við ákvæði d. liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefði verið rétt af héraðsdómara að lýsa í upphafi dóms á sjálfstæðan hátt atvikum að baki málinu.
Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal óraskaður.
Áfrýjandi, Jóhann H. Jónsson, greiði stefnda, Fallorku ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 27. júní 2011.
Mál þetta, sem var dómtekið 22. júní sl., að undangengnum endurteknum munnlegum málflutningi, er höfðað 30. desember 2009. Stefnandi er Jóhann H. Jónsson, Stóra-Dal, Eyjafjarðarsveit. Stefndi er Fallorka ehf., Rangárvöllum, Akureyri.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 5.778.045 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. ágúst 2006 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.569.943 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. ágúst 2006 til greiðsludags. Til þrautavara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.867.424 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2006 til 19. ágúst 2006, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I.
Stefnandi lýsir málavöxtum svo að Eyjafjarðarsveit hafi veitt stefnda framkvæmdaleyfi 25. maí 2005 til að reisa Djúpadalsvirkjun 2, 1,9 MW vatnsaflsvirkjun í Djúpadalsá, Eyjafjarðarsveit. Eitt af skilyrðum leyfisins hafi verið að leyfishafi semdi við landeigendur um efnistöku í landi þeirra. Um svipað leyti og framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út hafi Hjalti Þórsson komið á vegum stefnda og samið við stefnanda um töku malar úr landi hans vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda og nefnt sérstaklega veg, sem verið væri að gera í tengslum við virkjunina að stöðvarhúsinu. Stefnandi hafi sagt söluverðið vera 65 krónur fyrir hvern rúmmetra auk virðisaukaskatts og hafi ekki verið gerð athugasemd við það af hálfu þessa umboðsmanns eða starfsmanns stefnda.
Stefnandi og stefndi hafi gert samning um leigu lands og vatnsréttinda vegna virkjunarinnar. Hafi hann verið undirritaður 20. júní 2005. Stefndi hafi áður verið búinn að leita árangurslaust eftir samningum um nokkurt skeið. Hafi hann lagt nokkur samningsdrög fyrir stefnanda og ætíð haft frumkvæði að gerð og ritun samningsákvæða. Til sé uppkast að samningi dagsett 28. maí 2004. Þar sé gert ráð fyrir árlegri samningsfjárhæð 1.100.000 krónur. Þar sé að finna ákvæði um að leigusali, þ.e. stefnandi, hafi rétt á öllu malarnámi fyrir landi sínu og hafi því ákvæði verið bætt í samninginn að frumkvæði stefnanda. Ekki hafi náðst samkomulag á þessum grundvelli, þar sem ekki hafi samist um endurgjald til stefnanda. Fljótlega eftir þetta hafi lögmaður, sem aðstoðað hafði stefnanda, hætt því vegna hættu á hagsmunaárekstrum. Nýr lögmaður hafi fyrir hönd stefnanda átt í nokkrum bréfaskriftum við þáverandi fyrirsvarsmann stefnda, Aðalstein Bjarnason. Stefnandi hafi reynt að hækka samningsfjárhæðina, þar sem töluvert af túnum jarðarinnar færi undir lón og nýjan veg, með þeim afleiðingum að rekstrarmöguleikar bús stefnanda skertust. Af bréfi lögmanns stefnanda 14. febrúar 2005 megi vera ljóst, að tilboð sem þá var sett fram hafi gert ráð fyrir að mölin tilheyrði stefnanda. Ekki hafi náðst samningar á þessum grundvelli. Í bréfi frá Aðalsteini, dagsettu 15. febrúar 2005, komi fram upprifjun af hans hálfu um samningaumleitanir. Þar segi m.a.: ,,Töluverðu seinna fékk ég bréf frá fólkinu í Stóra-Dal, sem innihélt ,,gagntilboð.“ Þar voru kröfugerðir sem voru alveg á skjön við það sem búið var að semja um. Ég sendi þeim strax meðfylgjandi svarbréf. Eftir það hef ég ítrekað haft samband við þau til að ná mjúkri lendingu og boðið þeim meðal annars að hækka fjárhæðina í 1.200.000 og leggja þrífasa rafstreng heim á hlað.“
Stefnandi hafi ítrekað eldra tilboð frá því 15. júní 2004 í bréfi til stefnda þann 17. febrúar 2005, sem hafi gert ráð fyrir malarákvæðinu, en því boði hafi verið hafnað af hálfu stefnda samdægurs. Eftir þetta hafi samningaumleitanir legið niðri, enda hafi stefndi farið að skipuleggja virkjunina á annan hátt með það fyrir augum að semja ekki við stefnanda og hafi framkvæmdaleyfi verið gefið út til hans á þeim grundvelli.
Um miðjan júní 2005 muni Gísli Hallgrímsson, Brúnalaug, Eyjafjarðarsveit, hafa farið að reyna að ná fram samkomulagi milli aðila. Gísli hafi verið kunnugur stefnanda og aðstæðum hans og eins muni hann hafa þekkt vel til Franz Viðars Árnasonar, sem þá hafi verið í stjórn stefnda og forstjóri Norðurorku hf., en það félag hafi þá átt hlut í stefnda. Að tilstuðlan Gísla hafi stefnandi samþykkt að ganga til samninga við stefnda gegn endurgjaldi að fjárhæð 1.280.000 krónur. Eins og áður í þessu samningaferli hafi stefndi lagt fram samning til undirritunar. Það hafi farið fram hjá stefnanda að ákvæðið um mölina var ekki inni í samningnum. Hafi hann einbeitt sér að því að tryggja að stefndi virti hugsanleg réttindi hans til lands austan ár, sem eigendur jarðarinnar Valla hafi einnig gert tilkall til. Kveðst hann fullyrða að malarákvæðið hafi aldrei komið til umræðu eftir að samningsumleitanir fóru af stað aftur, fyrir milligöngu Gísla Hallgrímssonar. Hafi aldrei verið rætt að fella það niður, hvað þá að stefndi fengi rétt til malartöku með samningnum sjálfum. Hafi verið forsenda af hálfu stefnanda að samningurinn tæki til sömu efnisatriða og hafi komið fram í tilboði hans til stefnda 17. febrúar 2005, en einungis með breyttu endurgjaldi, sem hafi ekki hækkað nema um 80.000 krónur frá því sem stefndi hafi áður verið tilbúinn að semja um og sé þá ekki umreiknaður þrífasa rafstrengurinn. Kveðst stefnandi telja það mjög órökrétt í ljósi aðdraganda samningsins að stefnandi hafi einungis samþykkt óverulega hækkun á samningsfjárhæðinni frá því sem áður hafði verið boðið og jafnframt fallið frá malarákvæðinu og veitt stefnda endurgjaldslausa malartöku.
Stuttu eftir þessa samningagerð hafi stefndi leitað til stefnanda og eiganda nágrannajarðar eftir heimild til að nota grjót úr ánni Bröndu, sem renni á merkjum jarðanna. Samkomulag hafi orðið um að stefndi fengi að taka grjótið gegn því að greiða 80,32 krónur fyrir hvern rúmmetra, auk virðisaukaskatts.
Með bréfi dagsettu 3. mars 2006 hafi lögmaður stefnanda vakið athygli á því við stefnda að ekki hefði verið samið um malartöku úr lóninu. Stefndi hafi hafnað greiðsluskyldu með bréfi 6. mars 2006.
Stefnandi hafi leitað eftir uppgjöri í júlí 2006, bæði fyrir grjótið og mölina. Hafi stefndi greitt fyrir grjótið. Stefnandi hafi með bréfi 19. júlí 2006 leitað eftir upplýsingum um magn malar sem stefndi hefði tekið. Með bréfi 31. júlí 2006 hafi stefndi hafnað greiðsluskyldu og ekki látið í té upplýsingar um magnið. Hann hafi borið því við að í viðkomandi deiliskipulagsskýrslu hafi verið gert ráð fyrir því að efni í stífluna yrði tekið á þessum stað og greiðsla kæmi ekki til greina, þar sem ekki hefði verið um hana samið í samningnum sem aðilar gerðu 20. júní 2005.
Eftir að Norðurorka ehf. hafi eignast stefnda haustið 2006 hafi það orðið að óformlegu samkomulagi milli stefnanda og Franz Viðars Árnasonar að leitað yrði leiða til að jafna þennan ágreining. Stefndi hafi slitið þeim tilraunum í byrjun september 2007. Stefnandi hafi skorað á hann 16. október 2007 að upplýsa um magn malarinnar. Á fundi með fulltrúum stefnda 19. október 2007 hafi komið fram að magn malar hefði ekki verið skráð. Hafi stefndi boðist til að afla tiltækra gagna til að reikna það út. Undir lok nóvember 2007 hafi stefnanda verið kynnt minnisblað Árna Sveins Sigurðssonar verkfræðings um magnið, sem hann hafi áætlað 60.000-61.000 rúmmetra. Stefnandi hafi talið þetta vanáætlað. Engu að síður hafi verið leitað samkomulags fyrrihluta ársins 2008. Í byrjun apríl það ár hafi verið ljóst að ekki næðist saman og hafi stefnandi þá farið að undirbúa matsmál. Þann 10. júlí 2008 hafi Vilhjálmur Árni Ásgeirsson, byggingarverkfræðingur, verið dómkvaddur og sé matsgerð hans dagsett 13. janúar 2009. Hann hafi metið heildarefnismagn vera 71.400 rúmmetra og að sannvirði hvers rúmmetra væri 40 krónur, miðað við verðlag 31. desember 2005. Stefnandi hafi óskað yfirmats. Hafi dómkvaddir yfirmatsmenn, Vífill Oddsson verkfræðingur og Einar Ingimundarson, lögfræðingur og hagfræðingur, verið dómkvaddir yfirmatsmenn. Þeir hafi skilað yfirmatsgerð 25. september 2009. Niðurstaða þeirra hafi verið sú að sannvirði hvers rúmmetra af möl með virðisaukaskatti væri 50 krónur, miðað við verðlag 31. desember 2005.
Enn hafi verið leitað samkomulags, en án árangurs og hafi þetta mál því verið höfðað.
II.
Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á því að stefnda beri að greiða sér endurgjald samkvæmt samkomulagi aðila um kaup á möl, sem hafi veitt stefnanda heimild til að taka möl úr landi stefnanda í Stóra-Dal, vegna framkvæmda tengdum Djúpadalsvirkjun 2, án þess að endanlega hafi verið samið um kaupverð. Stefndi hafi síðan tekið möl úr landi Stóra-Dals og notað hana við þessar framkvæmdir árið 2005. Stefnandi kveðst vísa til niðurstöðu undirmatsmanns um magn malarinnar sem stefndi hafi notað í þessu skyni. Þar sem stefndi hafi ekki samið um verð fyrir malartökuna í heild, telji stefnandi að stefnda beri að greiða 65 krónur fyrir rúmmetra, auk virðisaukaskatts. Telur stefnandi að hann hafi samþykkt að afhenda möl gegn þessu endurgjaldi samkvæmt munnlegu samkomulagi við starfsmann eða umboðsmann stefnda seinni hluta maí 2005, þótt á þeim tíma hafi ekki verið rætt um möl í allt verkið. Stefnandi hafi talið að skilyrði í framkvæmdaleyfi stefnda hafi tryggt að honum bæri að semja nánar við stefnanda um efnistöku. Telji stefnandi að stefnda hafi verið kunnugt að hann væri reiðubúinn að leyfa malartöku úr landi sínu og einnig hafi honum verið kunnugt um verðhugmyndir stefnanda. Þar sem stefndi hafi ekki samið um verð fyrir malartökuna í heild telji stefnandi að stefnda beri að greiða fyrrgreint verð fyrir hverja rúmmálseiningu. Kveðst stefnandi telja þetta verð vera sanngjarnt, þegar litið sé til framangreinds endurgjalds fyrir grjót úr Bröndu og þess hagræðis sem stefndi hafi notið af því að taka mölina rétt við framkvæmdastaðinn. Hafi flutningsleið verið afar stutt miðað við það að stefndi hefði þurft að kaupa efni annars staðar. Stefndi muni hafa notað námuökutæki við flutninginn af eyrunum og þar með notað litað eldsneyti við flutninginn, sem hafi sparað kostnað. Líklegt sé að næsti kostur stefnda til malarkaupa hafi verið á eyrum Skjóldalsár, sem sé í u.þ.b. 7,5 km fjarlægð frá framkvæmdarstað. Stefnandi telji ljóst að heildarútgjöld stefnda vegna malarkaupa annars staðar en hjá stefnanda hefðu orðið mun meiri en stefnukrafan, að teknu tilliti til líklegs einingaverðs á hvern rúmmetra og flutningskostnaðar frá námu til framkvæmdastaðar. Telur stefnandi stefnda hafa sönnunarbyrði fyrir því að verðviðmiðun hans sé ósanngjörn. Kveðst hann ekki telja að niðurstaða yfirmatsmanna hafi úrslitagildi við þessar aðstæður, ekki síst þar sem yfirmatsgerðin hafi ekki tekið nægilegt mið af hagræði stefnda af því að taka mölina nánast við framkvæmdastaðinn. Geti stefndi ekki búist við því að fá möl annars staðar á lægra verði en því sem aðalkrafa stefnanda byggi á.
Stefnandi kveðst telja að fjárkrafa sín byggi á virðisaukaskattskyldum viðskiptum. Sé aðalkrafan því sett fram með virðisaukaskatti.
Stefnandi kveðst telja að stefndi hafi tekið mölina fyrir 1. janúar 2006. Með bréfi dagsettu 19. júlí 2006 hafi verið skorað á stefnda að upplýsa um magn malarinnar. Af bréfi stefnda 31. júlí 2006 sé ljóst að hann hafi litið á tilmæli stefnanda sem greiðsluáskorun, þar sem hann hafi tilkynnt að hann hafnaði greiðsluskyldu alfarið. Sé því krafist dráttarvaxta frá þeim tíma er mánuður var liðinn frá dagsetningu bréfs stefnanda, enda hafi það staðið stefnda næst að halda skrá um efnismagn. Hefði stefndi gert svo, og upplýst stefnanda um magnið með sannfærandi hætti, hefði stefnandi þá þegar gert reikning fyrir mölinni. Sundurliðar stefnandi aðalkröfuna þannig að gerð sé krafa um 71.400 rúmmetra x 65 krónur auk virðisaukaskatts, 24,5% = 5.778.045 krónur.
Stefnandi kveðst byggja varakröfu sína á sömu málsástæðum og aðalkröfuna, nema varðandi endurgjald fyrir mölina. Hann kveðst því telja að samkomulag hafi verið um kaup á mölinni, án þess að það hafi verið endanlega ákveðið. Varakrafan sé byggð á sama efnismagni og aðalkrafan, en hins vegar á því að sannvirði hvers rúmmetra með virðisaukaskatti miðað við 31. desember 2005 hafi verið 50 krónur, í samræmi við niðurstöðu yfirmats, dags. 25. september 2009.
Stefnandi kveðst í fyrsta lagi byggja þrautavarakröfu sína á því að stefndi hafi tekið möl úr landi Stóra-Dals, Eyjafjarðarsveit, við framkvæmdir sem tengdust virkjuninni, með saknæmum og ólögmætum hætti, án þess að ætla að greiða stefnanda neitt fyrir malartökuna. Beri stefndi skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir við það að hafa tapað möl úr landi sínu, sem nemi töku stefnanda. Liggi ekkert fyrir um að stefnandi hafi samþykkt malartökuna án greiðslu, enda hafi stefnandi aldrei leitað eftir slíkri heimild.
Stefnandi kveðst telja að tjón hans felist í verðgildi malarinnar sem stefndi hafi tekið. Miðist þrautavarakrafan við að verðmæti hvers rúmmetra hafi verið 40,16 krónur án virðisaukaskatts, miðað við 31. desember 2005, með vísan til niðurstöðu yfirmatsmanna. Nemi þrautavarakrafan því 40,16 krónum x 71.400 m3 = 2.867.424 krónur.
Í öðru lagi kveðst stefnandi byggja þrautavarakröfu sína á ólögfestum reglum um ólögmæta auðgun, sem byggi á því að við tilteknar aðstæður verði þeim, sem hafi án réttmætrar ástæðu öðlast verðmæti sem tilheyri öðrum og þannig auðgast á hans kostnað, gert að skila andvirði þeirrar auðgunar. Stefnandi telji að stefndi hafi ekki átt neinn rétt til malar, sem hann hafi tekið úr landi stefnanda og notað við gerð framangreindrar virkjunar, án greiðslu. Með þessum hætti hafi stefndi hagnast, þar sem hann hafi ekkert greitt fyrir mölina, allt á kostnað stefnanda og beri stefnda því að bæta honum andvirði þeirrar auðgunar. Felist sú auðgun í verðgildi malarinnar og hafi stefnandi orðið fyrir samsvarandi tjóni. Nemi auðgunin sannvirði malarinnar, 2.867.424 krónum, með vísan til verðmætis hennar án virðisaukaskatts samkvæmt niðurstöðu yfirmatsmanna.
Stefnandi kveðst byggja á því að fjárhæð þrautavarakröfu sé ekki virðisaukaskattskyld, þar sem hún byggist ekki á viðskiptum aðilanna. Sé hún reist á reglum skaðabótaréttar og kröfuréttar, utan samninga.
Stefnandi kveðst telja að stefndi hafi tekið mölina úr landi sínu fyrir 1. janúar 2006. Miðist upphafsdagur vaxta samkvæmt þrautavarakröfu við þann dag og upphafsdagur dráttarvaxta við bréf stefnanda 19. júlí 2006, þar sem hann hafi skorað á stefnda að upplýsa nákvæmlega um magn malarinnar. Sé krafist dráttarvaxta er mánuður var liðinn frá því það var ritað, enda hafi stefndi litið á það sem greiðsluáskorun, enda hafi það staðið stefnanda næst að halda skrá um efnismagn. Stefnandi hafi frá upphafi nefnt hærra einingaverð en það sem þrautavarakrafan sé reist á. Telji hann ekki sanngjarnt, að teknu tilliti til málavaxta og aðdraganda málsins, að stefndi vinni rétt með styttri dráttarvaxtatíma, þegar það liggi fyrir að stefnandi hafi gefið stefnda ríflegan frest til að afla upplýsinga um málavexti og til sáttaviðræðna. Stefnanda hafi verið nauðsynlegt að fá upplýsingar frá stefnda áður en undirmats var krafist, m.a. teikninga af stíflunni. Að öðrum kosti hefði þurft að framkvæma frekari mælingar við undirmatið, sem hefði orðið mjög kostnaðarsamt.
Stefnandi kveðst byggja aðal- og varakröfu á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um stofnun og efndir fjárskuldbindinga, þannig að við gerða samninga beri að standa, þótt söluverð leiði ekki af samningi. Um ákvörðun þess sé vísað til laga nr. 50/2000, m.a. til 45. gr. Um virðisaukaskatt sé vísað til laga nr. 50/1988, með síðari breytingum. Krafa um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 sé byggð á 3. mgr. 5. gr. og 12. gr. sömu laga.
Stefnandi kveðst byggja þrautavarakröfu í fyrsta lagi á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni hans á grundvelli almennu skaðabótareglunnar eða reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Í öðru lagi sé hún byggð á því að stefnda beri að skila óréttmætri auðgun sinni til stefnanda samkvæmt ólögfestum reglum um ólögmæta auðgun. Krafa um vexti af þrautavarakröfunni sé byggð á 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 og krafa um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga sé byggð á 9. gr. laganna.
III.
Stefndi tekur fram að deiliskipulag fyrir Djúpadalsvirkjun II hafi verið staðfest af sveitarstjórn 12. október 2004 og framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út 25. maí 2005. Í greinargerð með deiliskipulaginu hafi komið ótvírætt fram að gert hafi verið ráð fyrir að taka efni í fyrirhuguð mannvirki úr landi stefnanda. Stefndi kveðst einnig benda á að hann hafi boðist til að greiða 3.000.000 króna til stefnanda fyrir efni sem var tekið úr lónstæðinu, án þess að í því fælist viðurkenning á greiðsluskyldu.
Varðandi aðalkröfu stefnanda kveðst stefndi hafna því að maður að nafni Hjalti Þórsson hafi samið fyrir hönd stefnda um verð og heimild til að nýta möl. Hjalti hafi hvorki verið stjórnarmaður né prókúruhafi stefnda og hafi ekkert umboð haft til að semja fyrir hans hönd. Eftir því sem best sé vitað hafi Hjalti unnið við byggingu mannvirkja vegna virkjunarinnar sem verktaki og því hafi hann augljóslega ekkert umboð haft til að semja um verð fyrir möl úr lónstæðinu. Auk þessa kannist Hjalti ekki við að hafa samið við stefnanda um notkun á möl úr landi stefnanda og því síður að hafa samið um ákveðið verð fyrir hana.
Það verð sem aðalkrafan byggi á fyrir hvern rúmmetra sé auk þess algerlega á skjön við það verðmat sem liggi fyrir í tveimur matsgerðum sem stefnandi hafi aflað, auk þess sem það sé úr takti við verð sem Vegagerðin greiði, sbr. það sem fram komi í matsgerðunum. Þetta leiði til þess að aðalkrafa stefnanda eigi ekki nokkurn rétt á sér, burtséð frá því hvort samningur hafi komist á milli aðila eða ekki. Stefnandi rökstyðji kröfuna með því að verðið sé sanngjarnt þrátt fyrir matsgerðirnar og vísi einnig til þess að hann hafi samið við stefnda um greiðslu fyrir grjót sem stefndi hafi notað í stífluna, 80,32 krónur fyrir rúmmetra auk virðisaukaskatts. Vandséð sé hvaða máli þetta skipti, ef á því sé byggt að samningur hafi komist á milli aðila um 65 krónur fyrir hvern rúmmetra auk virðisaukaskatts. Auk þess skipti samningur um grjótið og greiðsla samkvæmt honum engu máli við mat á því hvað beri að greiða fyrir mölina umfram það sem hafi þegar verið greitt.
Stefndi kveðst eiga erfitt með að sjá að það geti skipt máli við mat á endurgjaldi fyrir mölina hvort hún sé staðsett við framkvæmdastaðinn, eða hvort þurfi að flytja hana. Það sem fjallað sé um sé verð miðað við afhendingu á staðnum, svo að það komi ekki til álita að hugsanlegt verð til stefnanda ráðist af því hvort hann þurfi að flytja mölina á sinn kostnað um lengri eða skemmri veg. Stefnandi telji að rétt sé að snúa sönnunarbyrðinni við án þess að það sé skýrt frekar. Ef það sé rétt skilið að hann byggi aðalkröfu sína á samningi, sé það hans að sanna að samningur hafi komist á og hvert efni hans hafi verið. Stefndi telji því að engin rök standi til þess að snúa sönnunarbyrðinni við eins og málið liggi fyrir.
Stefndi vísar til þess að stefnandi byggi varakröfuna á sömu málsástæðum og aðalkröfuna samkvæmt því sem komi fram í stefnu og telji að samkomulag hafi verið með aðilum um heimild stefnda til að nýta mölina, eins og gert hafi verið, en að ekki hafi verið samið um greiðslu fyrir hana. Stefndi kveðst vera sammála því að samningur hafi komist á um heimild hans til að taka mölina, en að samið hafi verið um það með samningnum 20. júní 2005. Stefndi hafi lagt fram ljósrit úr greinargerð með deiliskipulagsuppdrætti. Þar komi fram að efnistaka sé fyrirhuguð í landi stefnanda, í þau mannvirki sem gert var ráð fyrir að yrðu byggð. Síðar hafi verið gerð breyting á þessu deiliskipulagi, sem hafi falið það í sér að stíflan yrði færð til. Meðferð á þessari breytingu hafi verið samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997, þ.e. að farið hafi fram grenndarkynning í samræmi við ákvæðið og breytingin hafi verið samþykkt í sveitarstjórn 24. mars 2005. Stefnandi hafi samþykkt breytinguna og ekki gert athugasemdir við deiliskipulagið.
Stefndi tekur fram að á nánar greindum dómskjölum sé að finna drög að samkomulagi milli aðila um leigu á landi og vatnsréttindum vegna fyrirhugaðrar virkjunar. Í þessum drögum sé þess sérstaklega getið að leigusali hafi rétt til malarnáms fyrir landi sínu. Samskonar ákvæði sé ekki í þeim samningi sem hafi tekist milli aðila. Þar segi hins vegar að fyrirkomulag mannvirkja og umfang verði eins og gert sé ráð fyrir í gildandi deiliskipulagi. Stefndi telji að með þessum breytingum sé fram komið að honum hafi verið heimilt að nota möl úr lónstæðinu eins og hann hafi gert. Þegar þessi samningur hafi verið gerður hafi legið fyrir deiliskipulag, þar sem gert hafi verið ráð fyrir efnistöku úr landi stefnanda. Það sé beinlínis vísað til deiliskipulagsins í samningi aðila að því er varði fyrirkomulag mannvirkja og umfang, svo að ef greiða hefði átt sérstaklega fyrir afnot af möl hefði þurft að taka það sérstaklega fram í samningnum. Í þessu sambandi verði að hafa í huga að stefndi hafi flutt efnið til, en ekki fært það af landareign stefnanda. Það sem skipti þó meginmáli sé það að samningur aðila fái stoð í því leiguverði sem samið hafi verið um. Vísar stefndi til þess að hann hafi lagt fram til upplýsingar verðskrá Vegagerðarinnar um greiðslur fyrir land undir vegi fyrir árin 2004, 2005 og 2006. Komi þar fram eingreiðsluverð. Af þessum gögnum verði ráðið að leiguverð til stefnanda sé langt umfram þessar viðmiðanir. Stefndi hafi alla tíð haldið því fram að innifalin í leiguverði samkvæmt samningi sé greiðsla fyrir mölina. Útilokað sé að líta svo á að stefndi hafi greitt svo langt umfram ,,markaðsverð“ einungis fyrir leigu á landi og vatnsréttindum. Í þessu sambandi verði einnig að hafa í huga aðdraganda samningsins, þ.e. þær breytingar sem gerðar hafi verið í endanlegum samningi frá því sem verið hafi í drögunum og lotið að malarnáminu. Þá kveðst stefndi loks benda á það að stefnandi hafi fylgst vel með framkvæmdum og ekki gert athugasemdir við malartökuna árið 2005. Það hafi ekki verið fyrr en í mars 2006 sem fyrst hafi komið fram hugmyndir stefnanda um sérstakar greiðslur fyrir mölina.
Stefndi kveðst, hvað varði þrautavarakröfu stefnanda, sem byggi á því að stefndi hafi nýtt möl í heimildarleysi og beri að bæta tjón sem af hafi hlotist, mótmæla þessari málsástæðu og vísa til þess sem að framan greini um varakröfu stefnanda. Krafan sé á því byggð að stefnandi hafi tapað möl úr landi sínu og að það sé skaðabótaskylt. Þessi fullyrðing sé ekki rétt, því að mölin hafi verið flutt til í lónstæðinu, en ekki af landi stefnanda. Reglur um ólögmæta auðgun eigi ekki heldur við í þessu tilviki. Stefndi telji að hann hafi þegar greitt fyrir mölina, eins og rakið sé að framan, svo að krafa stefnanda verði ekki byggð á reglum um ólögmæta auðgun.
Verði ekki fallist á að stefndi hafi þegar greitt fyrir mölina kveðst hann telja rétt að gera athugasemdir við kröfugerð stefnanda. Hafa verði í huga að matsmenn hafi verið spurðir um ,,sannvirði“ malarinnar og verði að virða mötin með hliðsjón af því. Eðlilegt hefði verið að spyrja um markaðsverð hennar, þ.e. hvert hefði verið eðlilegt söluverð miðað við að afhent væri á staðnum og að stefnandi legði ekki til tæki og tól til að koma henni á flutningstæki. Virðist matsmenn leggja til grundvallar verðmæti malarinnar fyrir stefnda, en ekki eðlilegt söluverð á markaði, ef hann sé þá fyrir hendi. Virðist þeir vera beðnir að meta framlegð stefnda, sem tæplega geti orðið hluti af því sem greiða beri fyrir mölina við kaup á henni. Undirmat sé byggt á viðmiðunum við taxta Vegagerðarinnar, sem sé stærsti kaupandi malarefnis á landsbyggðinni. Þegar matið hafi verið gert hafi verið talið samkvæmt matsgerðinni að verð fyrir hvern rúmmetra af malarefni væri samkvæmt verðskrá Vegagerðarinnar, sem þá hafi gilt, á bilinu 30-60 krónur. Í matsbeiðni sé óskað eftir að verð miðist við desember 2005. Matsmaður telji verð rúmmetra eiga að vera 40 krónur með virðisaukaskatti. Virðist matið vera byggt á gæðum efnis og nálægð við notkunarstað. Yfirmatsmenn virðist einnig hafa hliðsjón af verðskrá Vegagerðarinnar, sem byggi á mismunandi verði eftir því hvort mölin sé á markaðssvæði eða utan þess. Telji þeir að miða beri við verð á markaðssvæði, þó vitað sé að aldrei hafi verið seld möl úr landi stefnanda. Síðan sé vísað til góðrar staðsetningar á efnisnámum, væntanlega fyrir stefnda í þessu tilviki. Niðurstaða matsmanna sé að fyrir hvern rúmmetra sé ,,sanngjarnt sannvirði,“ 50 krónur með virðisaukaskatti, eða hærra verð en hæstu viðmiðunartaxtar Vegagerðarinnar. Telur stefndi að ef ekki verði fallist á sýknukröfu hans verði mat matsmanna ekki lagt til grundvallar, vegna þess að þeir séu ekki beðnir að svara því hvert sé eðlilegt markaðsverð á mölinni.
Þá kveðst stefndi mótmæla upphafstíma dráttarvaxta, bæði hvað varðar aðal- og varakröfu. Ljóst sé að báðar séu byggðar á því að samningur hafi komist á milli aðila, en ekki hafi verið samið um verð. Telji stefnandi að hann geti krafist dráttarvaxta vegna þess að hann hafi óskað eftir upplýsingum um magn af möl sem stefndi hafi notað og virðist byggja það á 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Þessi skilningur sé ekki í samræmi við orðalag þess ákvæðis, því að það heimili að krafist sé dráttarvaxta mánuði eftir að krafist sé greiðslu á kröfu. Fyrirspurnir um greiðslu á hugsanlegri kröfu heimili ekki að höfð sé uppi krafa um dráttarvexti eins og stefnandi geri. Stefnandi hafi gert kröfu á grundvelli undirmatsins án þess að gefa stefnda kost á að kynna sér það. Stefndi hafi fyrst fengið yfirmat í hendur þegar það hafi verið lagt fram 1. október 2009. Verði að hafa hliðsjón af þessum staðreyndum, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 og 4. mgr. 5. gr. sömu laga. Þá kveðst stefndi mótmæla því að það sé við hann að sakast að dregist hafi að afla gagna um hugsanlega kröfu stefnanda. Sé það hans að afla gagna og hafi stefndi ekki staðið í vegi fyrir gagnaöflun. Varðandi þrautavarakröfu sé vísað til sömu sjónarmiða og hér að framan varðandi upphafstíma dráttarvaxta. Auk þess sé gerð krafa um vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi kveðst mótmæla því að hann beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda. og kveðst telja auk þess að 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 verði ekki beitt í tilvikum sem þessum. Þá sé upphafstíma vaxtanna mótmælt.
Þá kveðst stefndi telja að miða verði við það að stefnandi sé að krefjast efndabóta. Beri því að lækka kröfur hans, hvað varði aðal- og varakröfu, sem nemi virðisaukaskatti.
IV.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu. Þá gáfu vitnaskýrslur Heiðrún Árnadóttir, eiginkona stefnanda, Baldur Dýrfjörð, deildarstjóri hjá stefnda, Vilhjálmur Árni Ásgeirsson, byggingarverkfræðingur, Vífill Oddsson, verkfræðingur, Einar Ingimundarson, lögfræðingur, Aðalheiður Guðmundsdóttir, Hjalti Þórsson, Aðalsteinn Bjarnason, Gísli Hallgrímsson og Árni Sveinn Sigurðsson, vélaverkfræðingur.
Svo sem að nokkru er rakið hér að framan komst á samningur milli aðila þann 20. júní 2005, þar sem stefnandi leigði stefnda hluta jarðarinnar Stóra-Dals er félli undir uppistöðulón virkjunaráfanga 2 í Djúpadalsá og veg, svo og vatnsréttindi jarðarinnar sem nauðsynleg væru til viðkomandi raforkuframleiðslu. Skyldi fyrirkomulag mannvirkja og umfang vera eins og gert væri ráð fyrir í gildandi deiliskipulagi. Leigugjald var ákveðið 1.280.000 krónur árlega, og skyldi það breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitölu 240,7 stig í júní 2005. Fyrir liggja eldri drög að samningi, þau elstu frá 28. maí 2004. Er að finna í þeim ákvæði þar sem segir að leigusali eigi rétt á öllu malarnámi fyrir landi sínu og fiskrækt í ánni og uppistöðulóni, verði það heimilað. Þetta ákvæði er ekki að finna í endanlegum samningi aðila og er þar ekkert kveðið á með beinum hætti um efnistöku og endurgjald fyrir hana sérstaklega.
Stefnandi byggir aðal- og varakröfu á því að komist hafi á samningur um efnistöku. Bera bæði hann og eiginkona hans að Hjalti Þórsson hafi haft milligöngu um það á vegum stefnanda að fá heimild til að taka efni og hafi það verið heimilað munnlega. Hafi verið rætt um 65 krónur fyrir rúmmetra. Kveða þau þetta hafa gerst í maí 2005. Hjalti Þórsson kveðst ekki hafa verið starfsmaður stefnda, en unnið fyrir hann sem verktaki. Hafi hann rætt við eiginkonu stefnda um það hvort þau létu möl ef eftir yrði leitað. Þau hafi tekið því jákvætt. Ekki hafi verið rætt um verð. Hann hafi líklega nefnt þetta við Aðalstein Bjarnason, þáverandi framkvæmdastjóra stefnda. Ekki hafi komið til efnistöku fyrr en eftir að samningur hefði komist á milli stefnanda og stefnda. Kvaðst Hjalti ekki þekkja þann samning. Aðalsteinn Bjarnason kveðst hafa falið Hjalta að falast eftir grjóti úr Bröndu. Kveðst hann hins vegar hafa litið svo á að í leigusamningnum frá í júní 2005 hafi falist heimild til að taka efni úr lónstæðinu til stífluframkvæmdanna án sérstaks endurgjalds.
Gegn neitun stefnda verður ekki talið sannað að hann hafi með milligöngu Hjalta Þórssonar í maí 2005, eða með einhverjum öðrum hætti, samið sérstaklega um töku efnis úr lónstæðinu. Eru því ekki efni til að fallast á aðal- eða varakröfur stefnanda, sem eru byggðar á því að um efnistökuna hafi verið samið sérstaklega. Kemur þá til athugunar þrautavarakrafa stefnanda.
Ágreiningur aðila stendur fyrst og um túlkun samnings þeirra frá 20. júní 2005. Telur stefndi að sér hafi verið heimilt að taka efni til mannvirkjanna úr lónstæðinu sem hann tók á leigu með samningnum, án sérstaks endurgjalds. Stefnandi telur þessa heimild ekki felast í samningnum.
Í endanlegum samningi er ekkert ákvæði um efnistöku sérstaklega. Því er áður lýst að í fyrri drögum var ákvæði um að stefnandi ætti rétt á öllu malarnámi fyrir landi sínu. Þetta samningsákvæði er ekki að finna í endanlegum samningi. Hver sem ætlun stefnanda kann að hafa verið verður að horfa hér til endanlegs samnings að þessu leyti. Í honum er vísað til þess að fyrirkomulag mannvirkja og umfang verði eins og gert sé ráð fyrir í gildandi deiliskipulagi. Í framkvæmdaleyfi til stefnda dagsettu 25. maí 2005 kemur fram að fyrir liggi deiliskipulag fyrir Djúpadalsvirkjun II, sem hafi verið samþykkt í sveitarstjórn 12. október 2004. Í framlagðri skipulagsskýrslu kemur fram að ráðgert sé að taka efni í stífluna úr lónstæðinu rétt við stíflustæðið.
Með framangreindum leigusamningi lét stefnandi af hendi umráð hluta jarðarinnar Stóra-Dals undir uppistöðulón virkjunaráfanga 2 í Djúpadalsá og veg. Skyldi samningurinn gilda svo lengi sem virkjunin yrði starfrækt. Með þessum samningi fékk stefndi heimild til nýtingar landsins til virkjunarframkvæmda samkvæmt gildandi skipulagi. Verður að líta svo á að í þeirri heimild hafi falist réttur til að taka efni úr því til virkjunarframkvæmdanna án frekara endurgjalds en leigusamningurinn kveður á um. Verður því ekki á það fallist með stefnanda að stefndi hafi tekið efnið í heimildarleysi. Verður samkvæmt því ekki heldur fallist á þrautavarakröfu hans.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir þó rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.
Málið dæma Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari, Hörður Blöndal byggingarverkfræðingur og Gísli Gunnlaugsson byggingartæknifræðingur.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Fallorka ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Jóhanns H. Jónssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.