Hæstiréttur íslands

Mál nr. 179/2000


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. september 2000.

Nr. 179/2000.

Norðurvík ehf.

(Ólafur Birgir Árnason hrl.)

gegn

Jónasi Aðalsteinssyni

(Ástráður Haraldsson hrl.)

og gagnsök

                                              

Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Gjafsókn.

 

J, starfsmaður N, vann við að festa kjöljárn á þak nýbyggingar. Er hann var á leið niður af þakinu skrikaði honum fótur og rann hann fram af brún þess og féll til jarðar. Slasaðist hann mikið við fallið og höfðaði mál gegn N til heimtu bóta vegna tjóns síns. Talið var að ekki hefði verið sýnt fram á að frágangi vinnupalls, sem reistur hafði verið við húsið, hefði verið ábótavant. Hins vegar var talið að verkstjóri J hefði ekki gætt skyldu sinnar við að tryggja öryggi starfsmanna og á því bæri N ábyrgð. J, sem var reyndur smiður, hefði einnig borið að hafa nokkurt frumkvæði við að tryggja öryggi sitt og var hann látinn bera þriðjung tjóns sín sjálfur. Kröfur J um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón voru ekki teknar til greina, en fyrir lá að J hafði fengið laun frá N frá slysdegi og þar til hann hóf vinnu á ný. Þá var krafa J um þjáningabætur tekin til greina að hluta. Var N dæmt til að greiða J 2/3 hluta af bótaskyldu tjóni hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. maí 2000. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en að því frágengnu að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 31. maí 2000. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 8.970.009 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 18. október 1995 til 1. mars 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 613.050 krónum, sem honum voru greiddar 25. febrúar 1999. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

 

I.

Ágreiningur málsaðila er til kominn vegna slyss, sem gagnáfrýjandi varð fyrir 18. október 1995 er hann vann sem starfsmaður aðaláfrýjanda við að festa kjöljárn á þak nýbyggingar Borgarhólsskóla á Húsavík. Halli þaksins var 25° og um það bil sex metrar voru frá brún þess til jarðar. Er gagnáfrýjandi og samstarfsmaður hans hugðust um miðjan dag gera hlé á verkinu og fara ofan af þakinu skrikaði gagnáfrýjanda fótur með þeim afleiðingum að hann rann fram af því og féll til jarðar. Slasaðist hann mikið við þetta, en nánari atvikum að slysinu er lýst í héraðsdómi, svo og afleiðingum þess fyrir gagnáfrýjanda. Þá eru málsástæður aðilanna raktar í hinum áfrýjaða dómi.

Kröfu sína á hendur aðaláfrýjanda reisir gagnáfrýjandi meðal annars á því að vinnupallur, sem reistur hafði verið meðfram húsinu nokkru neðan við þakbrún, hafi ekki veitt næga vörn gegn því að menn féllu niður af þakinu. Fram er komið að svokallaður hnélisti brast undan gagnáfrýjanda er hann féll fram af þakinu, en listinn var hluti af handriði á vinnupallinum. Ekki er annað fram komið en að pallurinn hafi uppfyllt kröfur, sem gerðar voru um frágang slíkra mannvirkja í þágildandi reglugerð nr. 204/1972 um öryggisráðstafanir við byggingarvinnu. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsenda héraðsdóms verður ekki fallist á þessa málsástæðu gagnáfrýjanda.

Þá reisir gagnáfrýjandi kröfur sínar á því að verkstjórn af hálfu aðaláfrýjanda hafi verið áfátt, sem hafi ráðið miklu um hve illa tókst til. Í 20.-23. gr., sbr. einnig 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum séu lagðar ríkar skyldur á verkstjóra til að tryggja að öryggis sé gætt innan þess starfssviðs, sem hann stjórnar. Vísar hann einnig sérstaklega um það til 17. gr. áðurnefndrar reglugerðar, en samkvæmt henni megi ekki hefja vinnu á þaki fyrr en nauðsynlegar öryggisráðstafanir hafi verið gerðar, ef hætta meðal annars vegna halla þaksins eða veðurskilyrða geti valdið því að verkamenn falli niður.

Fram er komið að veður var lygnt og þurrt er gagnáfrýjandi hóf verkið, en meðan á því stóð fór að rigna. Vegna halla þaksins, hæðar hússins og veðurskilyrða var brýn þörf á að öryggisráðstafanir yrðu gerðar til að bægja frá hættu á því að starfsmennirnir féllu niður af þakinu. Var unnt að gera það á fyrirhafnarlítinn hátt, svo sem með því að koma fyrir þakstigum eða að starfsmennirnir notuðu svokallaðar líflínur, en það höfðu gagnáfrýjandi og aðrir starfsmenn gert er þakjárn var lagt á húsið nokkru áður. Verkstjóri aðaláfrýjanda gætti ekki þeirrar skyldu sinnar, sem að framan er getið, og á því verður hinn síðarnefndi að bera ábyrgð. Gagnáfrýjanda, sem er reyndur smiður, bar hins vegar einnig skylda til að eiga nokkurt frumkvæði í þessum efnum, en líflínur voru tiltækar. Á hann því jafnframt nokkra sök á slysinu. Að virtu því, sem að framan er getið, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að aðaláfrýjandi skuli bæta gagnáfrýjanda 2/3 hluta tjónsins, en hann beri sjálfur 1/3 hluta þess.

II.

Kröfuliðum gagnáfrýjanda um bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku er ekki tölulega mótmælt og verða þeir lagðir til grundvallar að teknu tilliti til lækkunar samkvæmt 9. gr. skaðabótalaga, eins og hún hljóðaði þegar slysið bar að höndum.

Kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón reisir gagnáfrýjandi á 2. gr. skaðabótalaga. Hér eigi við það ákvæði í þágildandi 1. mgr. hennar að bætur fyrir slíkt tjón skuli greiða fyrir tímann frá því að tjón varð þar til ekki sé að vænta frekari bata. Síðargreinda tímamarkið eigi að miða við lok árs 1997, en þá hafi endað sjúkraþjálfun hans á Reykjalundi. Fyrr á því ári hafi hann gengist undir læknisaðgerð, þar sem hryggur hans hafi verið spengdur.

Af fyrirliggjandi læknisvottorðum verður ekki ráðið að árangur hafi orðið af nefndri hryggaðgerð á gagnáfrýjanda eða sjúkraþjálfun eða að heilsufar hans hafi tekið framförum við það nema tímabundið. Aðaláfrýjandi mótmælir þessum kröfulið og vísar til þess að ekkert komi fram um tímabundna örorku í örorkumati Grétars Guðmundssonar læknis 16. janúar 1999. Beri því að leggja til grundvallar vottorð Gísla Auðunssonar læknis 20. nóvember 1997, þar sem fram kemur að gagnáfrýjandi hafi byrjað að vinna á ný 21. janúar 1996. Eins og málið liggur fyrir verður ekki fallist á að unnt sé að miða við það tímamark fyrir tímabundna örorku, sem gagnáfrýjandi leggur til grundvallar kröfu sinni. Í málatilbúnaði gagnáfrýjanda kemur fram að hann fékk laun frá aðaláfrýjanda frá slysdegi til loka janúar 1996, en hinn 21. þess mánaðar hóf hann störf að nýju í hálfu starfi. Gegn mótmælum aðaláfrýjanda verður því ekki komist hjá að hafna þessum kröfulið með öllu.

Gagnáfrýjandi krefst þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga fyrir 117 daga, sem hann hafi verið rúmfastur, og 795 daga, sem hann hafi verið veikur án þess að vera rúmliggjandi. Fyrir Hæstarétti var krafan skýrð þannig að fyrri liðurinn væri fyrir þá daga á árinu 1995, sem hann lá rúmfastur á sjúkrahúsi og heima hjá sér í kjölfarið, og einnig fyrir þá daga á árinu 1997, sem hann lá á sjúkrahúsi vegna læknisaðgerðar og við endurhæfingu á Reykjalundi. Seinni liðurinn sé fyrir alla aðra daga frá desember 1995 fram í byrjun árs 1998. Aðaláfrýjandi mótmælir þessum kröfulið, en viðurkennir rétt gagnáfrýjanda til þjáningabóta samkvæmt fyrri liðnum í 94 daga frá slysdegi til 21. janúar 1996. Gagnáfrýjandi hefur ekki að öðru leyti skotið viðhlítandi stoðum undir kröfu sína um þjáningabætur, en þess er að gæta að ekki liggja fyrir læknisfræðileg gögn um hvort eða að hvaða marki hann hafi á umræddu tímaskeiði verið veikur í merkingu 3. gr. skaðabótalaga. Verða honum því ekki dæmdar bætur fyrir þjáningar umfram það, sem aðaláfrýjandi hefur fallist á að lagt verði til grundvallar, eða 134.420 krónur.

Samkvæmt framanröktu nemur bótaskylt tjón gagnáfrýjanda samtals 6.702.162 krónum. Skal aðaláfrýjandi greiða houm 2/3 hluta þess eða 4.468.108 krónur með vöxtum, eins og segir í dómsorði, en frá dragast 613.050 krónur, sem gagnáfrýjandi fékk greiddar frá Tryggingu hf. úr slysatryggingu launþega 25. febrúar 1999.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði. Um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Norðurvík ehf., greiði gagnáfrýjanda, Jónasi Aðalsteinssyni, 4.468.108 krónur með 2% ársvöxtum frá 18. október 1995 til 1. mars 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 613.050 krónum, sem gagnáfrýjandi fékk greiddar 25. febrúar 1999.

Aðaláfrýjandi greiði samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsflutningsþóknun lögmanns hans, samtals 600.000 krónur fyrir báðum dómstigum.

 

 

Dómur héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 24. febrúar 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 8. febrúar s.l., hefur Jónas Aðalsteinsson, kt. 070168-5299, Baldursbrekku 8, Húsavík, höfðað hér fyrir dómi gegn Norðurvík ehf., kt. 491072-0329, Höfða 20, Húsavík, með stefnu birtri þann 25. ágúst 1999.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði dæmt til að greiða honum kr. 8.970.009,- með vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50, 1993 frá 18. október 1995 til 1. mars 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá þeim degi til greiðsludags.  Krefst stefnandi þess, að vextir verði lagðir við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 18. október 1996.  Allt að frádregnum kr. 613.050,- þann 25. febrúar 1999.  Þá gerir stefnandi einnig þær kröfur, að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi lögmanns stefnanda, auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum allt eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

 Stefnda gerir þær kröfur aðallega, að það verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að honum verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.  Til vara krefst stefnda, að sök verði skipt og krafa stefnanda stórlega lækkuð og málskostnaður felldur niður.  Til þrautavara krefst stefnda, hvernig sem málið fari, að þjáningabætur verði stórlega lækkaðar.

Atvik máls munu vera, að þann 18. október 1995, er stefnandi starfaði hjá stefnda, varð hann fyrir slysi er hann vann við nýbyggingu Borgarhólsskóla á Húsavík.  Stefnandi var að vinna ásamt öðrum starfsmanni stefnda, Jónmundi Aðalsteinssyni, við að koma fyrir kjöljárni á mæni nefndrar byggingar, en þakhalli hennar mun hafa verið 25°.  Aðstæður á þakinu voru þannig, að nokkur stafli af kjöljárnum var á milli tvímenninganna og var Jónmundur við suðurenda staflans en stefnandi gegnt honum.  Er þeir voru að ljúka störfum og fara í miðdegiskaffi gekk stefnandi nokkurra metra spöl eftir mæni byggingarinnar inn að miðju þaki hennar, þar sem hann gat komist niður í kverk við stafn hússins, en þar fyrir neðan var stigi niður á vinnupall, sem stóð við bygginguna.  Er stefnandi gekk eftir mæninum varð honum fótaskortur á blautu þakinu með þeim afleiðingum, að hann rann niður af þakinu og lenti á hnélista vinnupalls, sem stóð við bygginguna.  Hnélistinn brast og féll stefnandi u.þ.b. 6 metra til jarðar.  Lögregla kom stuttu síðar á slysstað og þá kannaði starfsmaður Vinnueftirlits ríkisins vettvang á slysdegi og skilaði umsögn um slysið.

Við slysið varð stefnandi fyrir alvarlegum áverkum.  Að lokinni læknismeðferð mat Grétar Guðmundsson læknir, sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum, varanlegan miska stefnanda 25% og varanlega örorku 40%.

Stefnda hafði ekki keypt ábyrgðartryggingu vegna starfsemi sinnar og var stefnda af þeim sökum send formleg tilkynning um að stefnandi beindi skaðabótakröfu sinni að því vegna slyssins.  Nefndri tilkynningu sinnti stefnda ekki og sendi lögmaður stefnanda stefnda því fjárkröfu 29. janúar 1999 og var sú krafa ítrekuð með bréfi 11. mars 1999.  Með bréfi dags. 31. mars 1999 bauðst stefnda til að bæta stefnanda tjón hans að hluta, en stefnandi féllst ekki á þau málalok.  Hann höfðaði því mál þetta að veittri gjafsókn, sbr. bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins dags. 31. maí s.l.

 

Stefnandi heldur því fram, að stefnda beri bótaábyrgð á lýstu tjóni hans.  Styðjist sú ábyrgð við reglur skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitanda á vanbúnaði á vinnustað og ófullnægjandi verkstjórn.  Þá hafi stefnda viðurkennt sök að hluta en vilji að stefnandi beri stærstan hluta hennar sjálfur.  Kveður stefnandi hinn saknæma vanbúnað, beinlínis hafa orðið til þess, að hættuástand skapaðist á vinnustaðnum og hafi nefndur vanbúnaður verið orsök slyss stefnanda ásamt ófullnægjandi verkstjórn.

Kveður stefnandi lögboðinn öryggisbúnað ekki hafa verið til staðar við vinnu á þaki byggingarinnar umrætt sinn.  Stefnandi hafi hvorki haft líflínu né hafi öðrum fullnægjandi fallvörnum verið til að dreifa, en slíkt hafi verið sérstaklega brýnt í ljósi hins mikla halla þaksins og bleytu á þakinu.  Greindur vanbúnaður hafi brotið gegn 17. gr. reglugerðar nr. 204, 1972 um öryggisráðstafanir við byggingarvinnu.  Þar sé kveðið sérstaklega á um, að óheimilt sé að hefja störf á þaki þar sem hætta geti verið á falli vegna þakhalla eða veðurskilyrða.  Stefnandi kveður það því hafa verið í beinni andstöðu við 37. gr. laga nr. 46, 1980, að láta vinnu við kjöljárn skólahússins fara fram við greindar aðstæður.  Fullyrðir stefnandi, að þegar þakjárn hafi verið sett á skólahúsið hafi allir starfsmenn verið í líflínu, en stefnda hafi ákveðið að svo skyldi ekki vera, þegar kjöljárnið var sett á.  Hafi sú ákvörðun byggst á því, að annars þyrftu þeir, sem verkið ynnu, að vera í tveimur línum sem festar væru sitt hvoru megin á húsið og myndi það hefta svo mjög athafnir þeirra, að óviðunandi væri.  Stefnda hafi síðan ekki brugðist við þessum vanda á annan hátt en þann, að sleppa líflínunum, en ekki gert neinar ráðstafanir í stað þeirra til að tryggja öryggi starfsmanna.

Stefnandi kveður hafa staðið þannig á verkum hjá stefnda nefndan dag, að honum hafi verið stillt frammi fyrir þeim valkostum, að leysa verkið af hendi við framangreindar aðstæður eða hætta ella störfum þann dag, þar sem ekki hafi verið öðrum verkum til að dreifa.  Stefnandi hafi því séð þann kost vænstan að leysa verkið af hendi, þrátt fyrir að fallvörnum væri áfátt, frekar en að hætta störfum þann dag.

Vinnupall þann, sem reistur hafi verið við bygginguna, kveður stefnandi ekki hafa fullnægt ákvæðum áðurnefndrar reglugerðar, sbr. 22. og 23. gr. hennar.  Sérstaklega sé kveðið á um í 23. gr. reglugerðarinnar, að verkpallar skuli vera vandaðir í uppsetningu og hafa nægan styrkleika til að geta örugglega þolað það álag, sem þeir verði fyrir.  Stefnandi kveður ljóst, að vinnupallur sá, er hann lenti á, hafi ekki búið yfir nægum styrk enda hafi hann brostið undan þunga stefnanda með þeim afleiðingum, að hann hafi fallið til jarðar.  Það hafi verið sérstaklega mikilvægt að vinnupallurinn væri nægjanlega traustur, þar sem engum öðrum fallvörnum hafi verið komið fyrir af hálfu stefnda þrátt fyrir augljósa þörf, bæði vegna þakhalla og veðurskilyrða.

Stefnandi kveður verkstjórn einnig hafa verið áfátt, en verkstjóra stefnda hafi verið fullkunnugt um áðurnefndan vanbúnað þar sem hann hafi verið viðstaddur, er stefnandi hafi verið að fikra sig eftir kili þaksins í átt til þess staðar, sem gengið var ofan af þakinu.  Verkstjóranum hafi mátt vera ljóst, að aðstæður allar væru algerlega óforsvaranlegar og hafi honum verið skylt að grípa þegar til ráðstafana til að forðast mætti slys, sbr. 86. gr. laga nr. 46, 1980, sbr. 23. gr. laganna.  Þrátt fyrir þessa augljósu hættu og beina lagaskyldu hafi verkstjórinn látið þetta undir höfuð leggjast, en stefnda beri ábyrgð á nefndri vanrækslu á grundvelli reglna skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð.

Kveður stefnandi sig ekki verða sviptan bótarétti með vísan til eigin sakar.  Hann hafi ekki getað farið aðra leið niður af þakinu en eftir mæni þess og það hafi ekki verið á hans valdi, að útvega líflínur eða aðrar fallvarnir.  Stefnandi hafi því mátt setja traust sitt á verkstjóra stefnda í þessum efnum, sem bæði hafi verið yfirmaður hans og mun reyndari í störfum við greindar aðstæður.

Málsókn sína kveðst stefnandi styðja við almennar reglur skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitanda á vanbúnaði á vinnustað og ófullnægjandi verkstjórn og almennar reglur skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð.  Kröfu um málskostnað kveðst stefnandi styðja við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991, en kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50, 1988.

 

Stefnda kveðst byggja sýknukröfu sína á, að slys stefnanda hafi fyrst og fremst orsakast af óvarkárni hans sjálfs.  Bendir stefnda á, að stefnandi sé þaulvanur vinnu við húsbyggingar.  Hann hafi unnið við byggingarvinnu frá unga aldri og þegar slysið hafi átt sér stað verið 27 ára útlærður smiður.

Stefnda kveður stefnanda hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hann hafi gengið eftir blautu hallandi þaki byggingarinnar.  Hann hafi ekki gengið með fæturna sitt hvoru megin við mæninn eins og eðlilegt hefði verið, heldur hafi hann stigið út á þakið öðru megin og ætlað að ganga þannig eftir því að kverkinni við austurgaflinn.  Þetta hafi stefnandi gert þrátt fyrir halla þaksins og þá staðreynd, að rigningarskúr hafi gert skömmu áður og þakið af þeim sökum verið blautt og hált.

Vinnuaðstöðu kveður stefnda hafa verið í samræmi við reglugerð nr. 204, 1972 og hafi líflína verið til nota á staðnum, en stefnandi hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að nota hana ekki.

Stefnda kveður verkpalla hafa verið allt í kringum bygginguna og hafi þeir fullnægt öllum öryggisskilyrðum þó svo hrapalega hafi viljað til, að hnélisti hafi brotnað þegar stefnandi hafi runnið á listann, enda sé hann stór maður og þungur.  Forsvarsmenn stefnda hafi verið í góðri trú um að verkpallurinn myndi þola að taka við öllu, sem á hann kynni að falla ofan af þakinu.  Þá hafi vinnupallarnir og uppsetning þeirra fullnægt öllum ákvæðum 22. og 23. gr. reglugerðar nr. 204, 1972.  Bendir stefnda sérstaklega á, að vinnupallarnir hafi verið sterkari og efnismeiri en krafist sé samkvæmt nefndri reglugerð, sbr. 9. gr. hennar.  Telur stefnda, að öryggisráðstafanir þær, sem stefnandi vísi til í 17. gr. reglugerðarinnar, eigi við þegar þakhalli sé 34° eða meiri, en þakhalli umræddrar byggingar hafi verið 25°.

Þá andmælir stefnda því, að það hafi brotið gegn 37. gr. laga nr. 46, 1980. Kveður stefnda veður hafa verið stillt og þurrt þegar vinna hafi hafist við að setja kjöljárn á bygginguna, en úrkoma hafi verið að byrja þegar starfsmennirnir, sem unnu á þakinu, hafi yfirgefið það.

Kröfu sína um sýknu eða skiptingu sakar og lækkun bótakröfu styður stefnda þeim röksemdum, að stefnandi eigi meginsök á tjóni sínu.  Hann hafi verið útlærður húsasmiður og vanur verkum eins og þeim sem hann vann að, er slysið átti sér stað.  Stefnandi hafi sjálfur kosið að nota ekki líflínu, sem honum hafi þó verið í lófa lagið, þar sem hún hafi verið til staðar.  Hann hafi jafnframt valið sér leið út af þakinu, en ekki farið þá leið, sem samstarfsmaður hans fór.  Slysið hafi því orðið vegna mikillar óvarkárni og óaðgætni stefnanda er hann hafi reynt að ganga óbundinn eftir blautu hallandi þakinu.

Stefnda kveður kröfu sína um lækkun þjáningabóta byggjast á 3. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993.

Mótmælir stefnda því sérstaklega, að tjón stefnanda hafi orsakast af ófullnægjandi verkstjórn.  Verkstjóri hafi ekki verið á staðnum, andstætt því sem fullyrt sé í stefnu, heldur hafi þar verið að störfum tveir þaulvanir smiðir, sem hafi átt að kunna fótum sínum forráð.  Einnig mótmælir stefnda þeirri túlkun stefnanda, að það hafi viðurkennt bótaskyldu í málinu með bréfi dags. 31. mars 1999.  Þá kveður stefnda ekki rétt, að stefnandi hafi staðið frammi fyrir þeim valkosti að vinna verkið á þann hátt sem gert hafi verið og við greindar aðstæður, en hætta vinnu ella.  Engum slíkum þvingunum hafi verið til að dreifa.

Jafnframt kveðst stefnda mótmæla bótakröfu stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón.  Samkvæmt vottorði Gísla G. Auðunssonar læknis dags. 20. nóvember 1997 hafi stefnandi verið vinnufær þann 21. janúar 1996.  Ekkert komi fram í örorkumati Grétars Guðmundssonar læknis dags. 16. janúar 1999 um tímabundna örorku stefnanda og sé því ekki hægt að leggja annað til grundvallar en áðurnefnt vottorð Gísla.

Kröfur sínar um sýknu eða skiptingu sakar kveðst stefnda styðja við almenna reglu skaðabótaréttarins um eigin sök tjónþola, 3. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993, 9. og 17. gr. reglugerðar nr. 204, 1972 ásamt mynd 1 í nefndri reglugerð, 87. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46, 1980.  Málskostnaðarkröfu sína kveðst stefnda byggja á XXII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991, einkum 130. gr. laganna. 

 

Skýrslur fyrir dómi gáfu auk stefnanda, Þórólfur Aðalsteinsson húsasmiður fyrirsvarsmaður stefnda, Jónmundur Aðalsteinsson húsasmiður, Þorvaldur Yngvason húsasmiður og verkstjóri stefnda og Haukur Þorsteinsson tæknifulltrúi Vinnueftirlits ríkisins.

 

Bréf lögmanns stefnda dags. 31. mars 1999 til lögmanns stefnanda, þykir verða að túlka með hliðsjón af þeirri staðreynd, að það var skrifað í tilefni af sáttatilraunum, sbr. þau orð bréfsins, að fyrirsvarsmaður stefnda hafi;  „... viðrað skiptingu upp á 1/3-2/3 ...“.  Gegn eindregnum mótmælum stefnda verður því ekki fallist á það með stefnanda, að í nefndu bréfi felist viðurkenning stefnda á bótaskyldu vegna slyss stefnanda.

Við skýrslutöku fyrir dómi kannaðist stefnandi ekki við, að hann hafi staðið frammi fyrir þeim valkostum umræddan dag, að leggja kjöljárnið eða hætta ella störfum þann daginn.  Fullyrðing hans í stefnu um hið gagnstæða verður af þeim sökum að teljast marklaus og er því ljóst, að stefnandi stóð ekki frammi fyrir neinum slíkum þvingunum.

Vitnið Haukur Þorsteinsson tæknifulltrúi Vinnueftirlits ríkisins bar fyrir dómi, að það ræki ekki minni til annars, en verkpallar við bygginguna hafi uppfyllt reglur nr. 204, 1972, sem í gildi voru er atvik máls gerðust.  Vitnið tók þó fram, að athugasemd í umsögn þess um slysið, merkt 2. undir liðnum „skyldur aðila“, bendi til þess, að smávægilegir annmarkar hafi verið á vinnupöllunum, sem ekki hafi tengst slysi stefnanda.  Hefur ekki annað komið fram í málinu, en verkpallarnir hafi uppfyllt ákvæði reglna nr. 204, 1972, en fyrir liggur, að hnélistar á efsta hluta verkpallanna voru efnismeiri en krafist er í nefndum reglum, sbr. 9. gr. þeirra.  Bótaskylda verður því ekki felld á stefnda vegna gerðar verkpallanna.

Upplýst var við skýrslutökur fyrir dómi, að líflínur voru til staðar á byggingarstað, þegar stefnandi féll niður af þaki Borgarhólsskóla og einnig, að þær voru notaðar af starfsmönnum stefnda þegar þakjárn var sett á bygginguna nokkru áður.  Þá báru fyrirsvarsmaður stefnda, Þórólfur Aðalsteinsson og vitnið Jónmundur Aðalsteinsson, að líflínur hafi hentað fremur illa við það verk, sem stefnandi og Jónmundur unnu að umrætt sinn, þar sem hvor starfsmaður hefði þurft að tengjast tveimur línum, sem heft hefði mjög athafnafrelsi hans.

Þorvaldur Yngvason verkstjóri stefnda bar fyrir dómi, að hann hafi ekki brýnt sérstaklega fyrir stefnanda og samstarfsmanni hans, að nota líflínur við ásetningu kjaljárnsins, en hann kvaðst hafa yfirgefið byggingarsvæðið í þann mund, er tvímenningarnir voru að hefja verkið.  Þá bar nefndur verkstjóri einnig, að samkvæmt hans reynslu, þá væru líflínur almennt ekki notaðar við aðstæður sambærilegar þeim, sem verið hafi við umrædda nýbyggingu Borgarhólsskóla.  Mátti honum því vera ljóst, að allar líkur stæðu til þess, að tvímenningarnir myndu ekki nota líflínur við verkið.  Verkstjóranum átti því að vera fullljós nauðsyn þess, að komið yrði fyrir öðrum nauðsynlegum fallvörnum, sbr. 17. gr. reglugerðar nr. 204, 1972.  Það gerði hann ekki og braut hann þannig gegn verkstjóraskyldum sínum samkvæmt 23. gr., sbr. 21. gr., laga nr. 55, 1980.  Á þessari saknæmu háttsemi verkstjóra síns verður stefnda að bera ábyrgð.

Stefnandi er einn til frásagnar um tildrög þess, að hann missti fótanna á þaki nýbyggingar Borgarhólsskóla.  Fyrir dómi kvaðst hann hafa ætlað að ganga eftir mæni byggingarinnar, með fætur sitt hvoru megin við hann, í átt að kverk, sem sé litlu norðar á þakinu og fara síðan eftir kverkinni niður á vinnupallinn.  Skyndilega hafi annar fótur hans runnið undan honum, hann fallið á þakið og runnið fram af því.  Samstarfsmaður stefnanda, vitnið Jónmundur Aðalsteinsson, kvaðst ekki hafa séð, er stefnandi féll, heldur hafi hann heyrt dynk og þá snúið sér við og séð stefnanda renna á mikilli ferð niður þakið.  Aðspurt kvaðst vitnið telja, að stefnandi hafi valið þá leið út af þakinu, sem hættuminnst hafi verið, því ella hefði hann þurft að fara út á þakið til að krækja fyrir stafla af kjöljárnum, sem hafi verið uppi á mæni byggingarinnar.  Með vísan til  framangreinds framburðar stefnanda og vitnisins Jónmundar, þykir ekkert hafa komið fram um, að stefnandi hafi sýnt af sér gáleysi, er hann ákvað og reyndi, að fara greinda leið niður af þaki byggingarinnar.

Við bótaákvörðun verður hins vegar ekki litið fram hjá því, að þegar slys stefnanda átti sér stað, var hann útlærður húsasmiður og hafði jafnframt, samkvæmt því sem hann bar sjálfur fyrir dómi, starfað við byggingarvinnu frá unga aldri.  Stefnandi þekkti aðstæður á byggingarstað og hafði unnið við ásetningu þakjárns byggingarinnar nokkru áður.  Honum var því fullkunnugt um, að líflínur höfðu verið notaðar við það verk.  Stefnandi hafði því fulla ástæðu til að gera athugasemd við skort á fallvörnum, er hann fór til starfa við ásetningu kjaljárnsins eða hafa nokkurt frumkvæði að því að öryggisráðstafanir yrðu gerðar, en fyrir dómi bar hann, að svo hafi hann ekki gert.  Þykir stefnandi því eiga sjálfur nokkra sök á slysinu og er hæfilegt að hann beri 1/3 hluta tjónsins, en stefnda verði gert að bæta honum tjónið að 2/3 hlutum.

 

Fjárkrafa stefnanda tekur mið af framlögðu örorkumati Grétars Guðmundssonar læknis og ákvæðum skaðabótalaga, en kröfuna sundurliðar stefnandi á eftirfarandi hátt.

Bætur fyrir tímabundið tjón

kr. 1.614.857,-

Þjáningabætur, rúmfastur 117 dagar x 1430

kr.    167.310,-

Þjáningabætur, batnandi 795 dagar x 780

kr.    620.100,-

Varanlegur miski                                             

kr. 1.107.500,-

Varanleg örorka

kr. 5.571.678,-

Frádráttur vegna aldurs skv. 9. gr. laga nr. 50, 1993

kr.    111.436,-

Tjón samtals

kr. 8.970.009,-

 

Dráttarvaxta krefst stefnandi frá dagsetningu kröfubréfs þann 29. janúar 1999. 

Vegna náms stefnanda og rekstrarörðugleika þess fyrirtækis, sem hann vann hjá vegna námssamnings síns, eru laun stefnanda síðustu 12 mánuði fyrir slys að hans mati ekki nothæft viðmið, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50, 1993.  Útreikningur tímabundins tjóns og varanlegrar örorku byggir því á meðaltekjum trésmiða á landsbyggðinni 1995 samkvæmt upplýsingum kjararannsóknarnefndar.

Í málinu hefur stefnda ekki mótmælt tölulega kröfum stefnanda vegna varanlegs miska að fjárhæð kr. 1.107.500,- og vegna varanlegrar örorku kr. 5.460.242,-.  Verður því að miða við þær fjárhæðir við ákvörðun bóta til handa stefnanda. 

Þá hefur stefnda ekki mótmælt þeirri forsendu stefnanda við útreikning bóta, að taka mið af meðaltekjum trésmiða á landsbyggðinni árið 1995, þar sem tekjur stefnanda fyrir slysið hafi ekki verið nothæft viðmið, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993.  Verður því að leggja til grundvallar þær fjárhæðir, sem stefnandi notar í forsendum sínum, en hann miðar við árstekjur kr. 1.857.226,- og mánaðartekjur kr. 154.769,-.

Í vottorði Gísla G. Auðunssonar læknis dags. 20. nóvember 1997 kemur fram, að stefnandi hafi reynt að vera við vinnu frá því í lok janúar 1996 til loka maí 1997, en aldrei verið í fullri vinnu.  Af læknisvottorði Ragnars Jónssonar og örorkumati Grétars Guðmundssonar læknis, dags. 16. janúar 1999, má ráða, að stefnandi komi aldrei til með að geta snúið að fullu til síns fyrra starfs sem smiður.  Þá sýna nefnd gögn, að stefnandi hafi farið í aðgerð þann 11. júní 1997 vegna þeirra meiðsla, sem hann varð fyrir við slysið.  Var hann í meðferð á Reykjalundi í nóvember og desember s.á. og skilaði sú meðferð verulegum bata.  Af greindum gögnum er einnig ljóst, að stefnandi hefur ekki stundað vinnu síðan í maí 1997.  Í vottorði Ragnars dags. 19. júní 1998 segir m.a. eftirfarandi:  „Ólíklegt er að einkenni hans (stefnanda) breytist að nokkru marki úr því sem komið er og er hér að öllum líkindum um að ræða varanlegt ástand.“  Þá kemur fram í vottorðinu, að Ragnar hafi síðast skoðað stefnanda þann 30. janúar 1998, í kjölfar meðferðar á Reykjalundi.

Af framansögðu má ráða, að ótækt er að miða við 21. janúar 1996 við ákvörðun tímabundins atvinnutjóns stefnanda.  Í þeim læknisfræðilegu gögnum, sem fyrir liggja í málinu, er ekki kveðið upp úr um það með skýrum hætti, hvenær heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt.  Þykir með vísan til ofangreindra gagna þó verða að miða við, að ástand stefnanda hafi verið orðið stöðugt um áramótin 1997-1998 er stefnandi lauk meðferð á Reykjalundi, sbr. áður tilvitnuð orð í vottorði Ragnars Jónssonar læknis.

Þar sem stefnda hefur ekki mótmælt útreikningi stefnanda á tímabundnu atvinnutjóni á annan hátt en þegar hefur verið vikið að, þykir verða að miða við, að tímabundið atvinnutjón stefnanda frá slysdegi til 31. desember 1997, hafi verið kr. 1.614.857,- líkt og stefnandi hefur krafist.

Stefnda hefur ekki mótmælt því sérstaklega, að stefnandi hafi vegna slyssins verið 117 daga rúmfastur og 795 daga veikur, án þess að vera rúmfastur.  Það hefur á hinn bóginn vísað til 3. gr. skaðabótalaga til stuðnings kröfu um lækkun á kröfu stefnanda um þjáningabætur.  Verður ekki annað séð af kröfu stefnanda, en hann krefjist þjáningabóta samkvæmt nefndri lagagrein fram í miðjan apríl 1998.  Með vísan til þess sem að ofan segir um það tímamark, sem heilsufar stefnanda var orðið stöðugt, verður ekki fallist á, sbr. nefnda 3.gr. skaðabótalaga, að stefnandi eigi rétt til þjáningabóta eftir 31. desember 1997.  Með vísan til þessa og að stefnda hefur ekki fært fyrir því rök, að atvik séu hér með svo sérstökum hætti, að efni séu til að beita heimild í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993 til lækkunar á kröfum stefnanda um þjáningabætur, þykir verða að dæma stefnanda þjáningabætur í þá 117 daga, sem hann var rúmfastur líkt og hann krefst, en í 687 daga, sem hann var veikur án þess að vera rúmfastur, þ.e. til 1. janúar 1998.  Þjáningabætur stefnanda þykja því réttilega ákvarðaðar kr. 703.170,-.

Með vísan til þess, sem að framan hefur verið rakið, þykir tjón stefnanda vegna slyssins þann 18. október 1995 réttilega ákvarðað, sem hér segir:  Bætur vegna þjáninga kr. 703.170,-, bætur vegna tímabundins atvinnutjóns kr. 1.614.857,-, bætur vegna varanlegs miska kr. 1.107.500,- og bætur vegna varanlegrar örorku kr. 5.460.242,-, samtals að fjárhæð kr. 8.885.769,-.  Frá fjárhæð þessari ber að draga greiðslu Tryggingar hf. til stefnanda þann 25. febrúar 1999, að fjárhæð kr. 613.050,- vegna slysatryggingar launþega.  Dæmist stefnda samkvæmt framansögðu til að greiða stefnanda 2/3 hluta af kr. 8.272.719,- eða kr. 5.515.146,- í skaða- og miskabætur og vexti af þeirri fjárhæð samkvæmt 16. gr. laga nr. 50, 1993, frá 18. október 1995 til 1. mars 1999 og dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá þeim degi til greiðsludags og leggist vextir við höfuðstól á 12. mánaða fresti í fyrsta sinn 18. október 1996.

 

Stefnanda var veitt gjafsókn með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins dags. 31. maí 1999.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda kr. 568.602,- greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, Ástráðar Haraldssonar hrl., kr. 553.602,- og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.

Eftir úrslitum málsins þykir rétt, að stefnda greiði kr. 568.602,- í málskostnað til ríkissjóðs.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

D ó m s o r ð :

Stefnda, Norðurvík ehf., greiði stefnanda, Jónasi Aðalsteinssyni, kr. 5.515.146,- ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50, 1993, frá 18. október 1995 til 1. mars 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá þeim degi til greiðsludags og skulu vextir leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 18. október 1996.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda kr. 568.602,- greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, Ástráðar Haraldssonar hrl., kr. 553.602,-.

Stefnda greiði kr. 568.602,- í málskostnað til ríkissjóðs.