Hæstiréttur íslands

Mál nr. 400/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


Þriðjudaginn 7

 

Þriðjudaginn 7. nóvember 2000.

Nr. 400/2000.

Hf. Eimskipafélag Íslands

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Valgarð Briem hrl.)

                                     

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Frystibúnaður vörugáms er innihélt rækju sem E hafði tekið að sér að flytja fyrir S, bilaði á hafi úti og við komu til hafnar reyndist ekki unnt að nýta nema lítinn hluta farmsins. T greiddi S vátryggingarbætur og höfðaði síðan mál á hendur E til heimtu skaðabóta sömu fjárhæðar. Fékk E dómkvaddan matsmann til að meta m.a. orsakir bilunarinnar og hvort unnt hefði verið að gera við hana á hafi úti. Var matsgerðin lögð fram 25. september 2000 og lagði E þá jafnframt fram beiðni um að dómkvaddir yrðu ,,tveir sérfróðir og óvilhallir vélstjórar með reynslu sem slíkir um borð í gámaskipum” m.a. til að meta fyrrnefnd atriði. Ekki voru talin skilyrði til að meina E að afla matsgerðar um þau atriði er greindi í umræddri beiðni, þar sem ekki væru í lögum nr. 91/1991 lagðar sérstakar hömlur við að dómkvaddur yrði maður til að meta atriði, sem matsgerðar hefði þegar verið aflað um, og enn síður væri þar girt fyrir að til viðbótar eldri matsgerð væri aflað nýrrar matsgerðar, sem tæki að einhverju leyti til annarra atriða en sú fyrri eða ætlað væri að gefa ítarlegri upplýsingar um matsefni en áður hefði fengist. Þá var talið að yfirmats yrði ekki leitað í þessu skyni samkvæmt fyrri málslið 64. gr. laga nr. 91/1991 og ekki yrði fullyrt á þessu stigi að matsgerðin skipti ekki máli eða væri tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna. Lagastoð var ekki talin vera fyrir því að dómkvaddir yrðu tveir menn með tiltekna menntun og starfsreynslu. Var því lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja einn eða tvo menn til að leggja mat á þau atriði er greindi í matsbeiðni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. nóvember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2000, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að dómkveðja tvo matsmenn til að meta nánar tiltekin atriði samkvæmt beiðni sóknaraðila 25. september 2000. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Varnaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdómara og kærumálskostnaðar.

I.

Samkvæmt gögnum málsins tók sóknaraðili að sér með farmskírteini 14. október 1998 að flytja vörugám með 3.773 kössum, sem hver hafði að geyma 5 kg af frystri rækju, fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hf. frá Argentíu í Kanada til Boulogne í Frakklandi. Í farmskírteininu var tekið fram að halda bæri 25° frosti í gáminum meðan á flutningi stæði. Farmurinn var vátryggður hjá varnaraðila, þar á meðal fyrir tjóni, sem hlytist af því að frystibúnaður gámsins myndi bila eða stöðvast í lengri tíma en 24 klukkustundir samfleytt.

Farmurinn var fluttur með gámaskipi sóknaraðila, Goðafossi, sem hélt úr höfn í Kanada 15. október 1998. Að kvöldi þess dags urðu skipverjar varir við að bilun væri í frystibúnaði vörugámsins, sem áður er getið. Við nánari athugun daginn eftir kom í ljós að bilunin stafaði af því að kælivökvi hafði náð að leka út um rifu á röri, þar sem samskeyti höfðu verið soðin saman. Vegna staðsetningar gámsins um borð í skipinu töldu skipverjar ófært að gera við þessa bilun og slökktu því á vélbúnaði hans. Eftir komu skipsins til Reykjavíkur hlutaðist varnaraðili til um að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins kannaði ástand rækjunnar í gáminum. Samkvæmt skýrslu hennar 23. nóvember 1998 var talið að unnt gæti verið að nýta einhvern hluta rækjunnar, en stærsti hlutinn væri mikið gallaður. Á þessum grunni krafði Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hf. varnaraðila 22. janúar 1999 um greiðslu bóta að fjárhæð 2.455.839 krónur vegna skemmda á farminum. Greiddi varnaraðili bæturnar 4. febrúar sama árs.

Að undangengnum viðamiklum bréfaskiptum milli aðilanna höfðaði varnaraðili mál þetta á hendur sóknaraðila 10. september 1999 til heimtu skaðabóta sömu fjárhæðar og vátryggingarbæturnar, sem varnaraðili hafði greitt Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hf. Í málinu krefst sóknaraðili aðallega sýknu, en til vara að krafa varnaraðila verði lækkuð. Þegar málið var tekið fyrir á dómþingi 9. febrúar 2000 lagði sóknaraðili fram beiðni um dómkvaðningu manns til að meta hvort reglur sóknaraðila um forskoðun vörugáma fyrir lestun séu í samræmi við venjur, hvort útskrift úr tölvu gámsins, sem um ræðir í málinu, gefi rétta mynd af atvikum milli 14. og 22. október 1998, hvort suða á röri í kælikerfi gámsins geti hafa gefið sig án utanaðkomandi atvika, hvort eftirlit með hitastigi í gáminum hafi verið eðlilegt áður en hann var lestaður um borð í skip, hvort bilunin í gáminum hafi verið slík að ekki hafi verið unnt að verða hennar var með eðlilegri árvekni og eftirliti, hvort eðlilegt sé að hitastig í gámum um borð í skipi sé ekki kannað fyrr en fjórum klukkustundum eftir að það lætur úr höfn, hvort unnt hafi verið að gera við bilunina í gáminum eins og hann var staðsettur um borð í Goðafossi og hvort rétt hafi verið að bregðast við biluninni með því að slökkva á frystivél gámsins til að forðast frekara tjón. Matsmaður var dómkvaddur í sama þinghaldi. Matsgerð hans frá 3. júlí 2000 lagði sóknaraðili fram í málinu 25. september sama árs.

Í síðastnefndu þinghaldi lagði sóknaraðili fram beiðni, dagsetta sama dag, um að dómkvaddir yrðu „tveir sérfróðir og óvilhallir vélstjórar með reynslu sem slíkir um borð í gámaskipum“ til að meta hver bilunin í vörugáminum hafi verið, hvort algengt sé að bilanir af þessum toga komi upp og gera þurfi við þær um borð í skipi, hvernig standa eigi að slíkri viðgerð og með hvaða búnaði, hversu mikið fari fyrir honum og hvar hann sé geymdur í skipi, hvort hætta fylgi slíkri viðgerð, hvort hún geti valdið skemmdum á búnaði gámsins, hvernig aðstæður séu til viðgerðar í lest skips, þar á meðal athafnarými og fjarlægð að útgönguleið, hvernig flytja mætti þaðan skipverja, sem kynni að slasast við viðgerð, hvernig loftræsing sé á þeim stað, sem gámurinn var, hvort unnt hefði verið að gera við bilunina úti á rúmsjó og hvort rétt var eftir aðstæðum að slökkva á frystivél gámsins frekar en að reyna viðgerð. Varnaraðili mótmælti því að matsmenn yrðu dómkvaddir samkvæmt þessari beiðni sóknaraðila. Var málið munnlega flutt um ágreining aðilanna um þetta efni 25. september 2000. Með hinum kærða úrskurði hafnaði héraðsdómari að verða við matsbeiðninni.

II.

Þótt fallast megi á með héraðsdómara að spurningar, sem sóknaraðili vill leggja fyrir matsmenn samkvæmt matsbeiðni 25. september 2000, snúi í ýmsu að sömu atriðum og fjallað var um í matsgerð frá 3. júlí sama árs, verður að gæta að því að í lögum nr. 91/1991 eru ekki lagðar sérstakar hömlur við að dómkvaddur verði maður til að meta atriði, sem matsgerðar hefur þegar verið aflað um. Enn síður er girt þar fyrir að til viðbótar eldri matsgerð sé aflað nýrrar matsgerðar, sem taki að einhverju leyti til annarra atriða en sú fyrri eða sé ætlað að gefa ítarlegri upplýsingar um matsefni en áður hafi fengist. Á þetta við um þá matsgerð, sem sóknaraðili vill nú afla, en yfirmats verður ekki leitað í þessu skyni samkvæmt því, sem berlega er tekið fram í fyrri málslið 64. gr. laga nr. 91/1991. Ekki verður fullyrt á þessu stigi að bersýnilegt sé að matsgerð samkvæmt beiðni sóknaraðila 25. september 2000 skipti ekki máli eða sé tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. sömu laga, en af notagildi hennar til sönnunar yrði hann að bera áhættu samhliða kostnaði af öflun hennar. Að þessu athuguðu eru ekki skilyrði til að meina sóknaraðila að afla matsgerðar um þau atriði, sem greinir í umræddri beiðni hans. Verður því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi hvað þetta varðar.

Eins og áður greinir leitar sóknaraðili sérstaklega eftir því að til matsstarfa verði dómkvaddir tveir menn með nánar tiltekna menntun og starfsreynslu. Fyrir slíkri málaleitan er engin lagastoð. Verður því í samræmi við 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 að leggja fyrir héraðsdómara að dómkveðja einn eða tvo menn, sem fullnægja skilyrðum 3. mgr. sömu lagagreinar, til að framkvæma mat samkvæmt beiðni sóknaraðila frá 25. september 2000.

Sóknaraðili hefur engin rök fært fyrir kröfu sinni um kærumálskostnað úr ríkissjóði, sem lagaheimild brestur að auki fyrir. Hann hefur ekki krafist kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila. Verða því aðilarnir hvor að bera sinn kostnað af þessum þætti málsins.

Dómsorð:

Lagt er fyrir héraðsdómara að dómkveðja samkvæmt beiðni sóknaraðila, Hf. Eimaskipafélags Íslands, einn eða tvo menn til að leggja mat á þau atriði, sem nánar greinir í matsbeiðni 25. september 2000.

Kærumálskostnaður fellur niður.