Hæstiréttur íslands
Mál nr. 421/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Útivist
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 8. nóvember 2004. |
|
Nr. 421/2004. |
Hjalti Jósefsson(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Kaupþingi Búnaðarbanka hf. (Kristinn Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Útivist. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Héraðsdómari kvað upp úrskurð um að bú H væri tekið til gjaldþrotaskipta. H sótti ekki þing í héraði þegar málið var tekið fyrir og brast því heimild til kæru þess. Var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 28. september 2004, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og breytt á þann veg, að hafnað verði kröfum varnaraðila um að bú sóknaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og að sóknaraðila verði gert að greiða honum kærumálskostnað.
Sóknaraðili sótti ekki þing í héraði, þegar krafa varnaraðila um að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta var tekin fyrir í annað sinn í héraðsdómi 28. september 2004, en óumdeilt er að báðir málsaðilar fengu boðun til dómþings. Gekk hinn kærði úrskurður í því þinghaldi. Skýra ber ákvæði laga nr. 21/1991 með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á þann veg að heimild bresti til kæru máls sem þessa þegar þannig stendur á, sbr. nú síðast dóm réttarins 4. júní 2003 í málinu nr. 215/2003. Ber samkvæmt því að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 28. september 2004.
Með bréfi dagsettu 12. apríl sl. og mótteknu af dóminum 15. sama mánaðar, fór Kaupþing Búnaðarbanki hf., kt. 560882-0419, Austurstræti 5, 101 Reykjavík þess á leit við dóminn að bú Hjalta Jósefssonar, kt. 231251-4219, Melavegi 5, Hvammstanga, verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Krafa skiptabeiðanda með áritaðri kvaðningu dómara var móttekin af maka skuldara þann 28. júní sl. en krafan var, eins og í kvaðningunni greinir þingfest 9. júlí 2004. Þinghald var þá sótt af hálfu beggja aðila og komu fram mótmæli af hálfu skuldara og ljóst að niðurstöðu Hæstaréttar Íslands varð að bíða um gildi aðfarargerðar þeirrar sem er grundvöllur þessarar skiptakröfu. Málinu var frestað óákveðið eða þar til dómur Hæstaréttar Íslands lægi fyrir. Þann 7. september sl. staðfesti Hæstiréttur úrskurð Héraðsdóms Norðurlands vestra þess efnis að aðfarargerðin skyldi standa. Að fenginni þessari niðurstöðu var boðað til þinghalds í dag. Af hálfu skuldara var þing ekki sótt en lögmaður hans hafði áður upplýst dómara um að ekki yrði haldið uppi frekari vörnum í málinu.
Í kröfu skiptabeiðanda er greint þannig frá atvikum, krafan sé til komin vegna skuldar að höfuðstól 15.298.923 krónur, auk kostnaðar samtals 16.805.131 krónur.
Í kröfu skiptabeiðanda kemur fram að þann 17. mars 2004 hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá skuldara. Fram kemur hjá skiptabeiðanda að hann byggi kröfu sína á þessu árangurslausa fjárnámi sem gefi rétta mynd af fjárhag skuldarans. Fyrir liggur að krafa sú sem sóknaraðili hefur lýst í búið er enn umdeild þar sem beðið er niðurstöðu Hæstaréttar Íslands varðandi ágreining um þá kröfu.
Þó svo krafa sú sem lýst hefur verið í búið af sóknaraðila að fjárhæð tæpar 17.000.000 króna með kostnaði sé enn umdeild þá er krafa sú sem hin árangurslausa fjárnámsgerð byggist á ekki lengur umdeild. Samkvæmt því sem að framan er rakið og með hliðsjón af því að skilyrðum 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er fullnægt, ber að verða við kröfu skiptabeiðanda og er bú skuldarans því tekið til gjaldþrotaskipta.
Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Bú Hjalta Jósefssonar, kt. 231251-4219, Melavegi 5, Hvammstanga, er tekið til gjaldþrotaskipta.