Hæstiréttur íslands
Mál nr. 503/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Mánudaginn 10. ágúst 2015. |
|
Nr. 503/2015.
|
A (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn B (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að fjárræðissvipting hans yrði felld úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júlí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fjárræðissvipting hans yrði felld úr gildi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að framangreind krafa sín verði tekin til greina, en til vara að svipting fjárræðis verði takmörkuð við tilgreinda fasteign sína. Þá krefst hann þóknunar til handa verjanda sínum fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til þess sem rakið er í hinum kærða úrskurði um hagi sóknaraðila verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að aðstæður sóknaraðila hafi ekki breyst frá því hann var sviptur fjárræði með úrskurði uppkveðnum 3. desember 1992 þannig að hann sé fær um að hafa stjórn á fjármálum sínum. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, og talsmanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 124.000 krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2015.
Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavikur 18. mars 2015, hefur Sveinn Andri Sveinsson hrl. krafist þess fyrir hönd sóknaraðila, A, kt. [...], [...] í [...], að felld verði úr gildi fjárræðissvipting hans frá 3. desember 1992. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs talsmanns sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Bróðir sóknaraðila, B, kt. [...], [...] í [...] stóð að umræddri fjárræðissviptingu og er því varnaraðili málsins. Um aðild fer því eftir a-lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/1997. Varnaraðili mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs talsmanns varnaraðila, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.
I
Sóknaraðili var svipur fjárræði ótímabundið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 1992 í máli nr. L-20/1992 og var hann þá samþykkur fjárræðissviptingu. Í forsendum úrskurðarins sagði að ljóst þætti vera að sóknaraðili væri ekki fær um að hafa stjórn á fjármálum sínum sökum andlegs vanþroska og að hann hefði einnig átt við áfengisvandamál að stríða. Með vísan til þessa og þess að kröfunni var ekki mótmælt af hans var fallist á kröfu um fjárræðissviptingu. Sóknaraðili óskaði eftir því með beiðni til dómsins 12. ágúst 1997 að áðurnefndur úrskurður frá 3. desember 1992 um fjárræðissviptingu hans yrði felldur úr gildi. Var á þá kröfu fallist með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 1997 í máli nr. L-29/1997. Sagði í forsendum úrskurðarins að sóknaraðili væri ekki lengur samþykkur því að vera sviptur fjárræði og þá lægi fyrir að veruleg breyting hefði orðið á persónulegum högum hans. Yrði ekki annað ráðið af málinu en að sambýliskona hans hefði haft reiður á fjármálum sóknaraðila og annast þau ráðvandlega. Þá var ekki talið að áfengisdrykkja sóknaraðila gerði hann ófæran um að ráða fé sínu. Ekki yrði heldur séð af því sem fram hefði komið að hann hefði stofnað fjárhag sínum eða eignum í hættu með ráðleysu. Þá lægju fyrir í málinu álit tveggja geðlækna um að ekki væru geðlæknisfræðileg rök sem styddu það að sóknaraðili skyldi vera sviptur fjárræði. Með vísan til alls þessa taldi dómurinn þær forsendur ekki lengur vera fyrir hendi sem réðu því að sóknaraðili hafði verið sviptur fjárræði í desember 1992 og felldi fjárræðissviptinguna úr gildi. Úrskurður héraðsdóms var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar frá 6. febrúar 1998 í máli nr. 523/1997. Sagði í forsendum dómsins að það að sambúðarkona sóknaraðila hefði haft reiður á fjármálum hans gæti ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins. Gögn málsins bæru með sér að varnaraðili væri ekki fær um það nú, frekar en áður, að hafa einn stjórn á fjármálum sínum. Aðstæður hefðu þannig ekki breyst að þessu leyti frá því að úrskurður um að svipta hann fjárræði var kveðinn upp 3. desember 1992 og skyldi fjárræðissvipting hans því standa óhögguð.
II
Undir rekstri máls þessa aflaði dómari, með heimild í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 71/1997, vottorðs C geðlæknis og er það dagsett 3. júlí 2015. Þar kemur fram að læknirinn hafi hitt sóknaraðila á læknastofu sinni og þá hafi hann einnig rætt við D sem búi með fötluðum syni sínum í íbúð sóknaraðila og kveðst leigja þar. Í vottorðinu er gerð grein fyrir líkamlegri heilsu og félagslegum aðstæðum sóknaraðila. Fram kemur að sóknaraðili hafi starfað við sorphreinsun hjá Reykjavíkurborg frá 16 ára aldri og unnið þar í um 30 ár í fullu starfi en fyrst undir handleiðslu föður síns sem hafi verið verkstjóri þar. Sóknaraðili hafi látið af störfum eftir að hann hafði undirgengist skurðaðgerð vegna hjartasjúkdóms. Þá segir að fyrir nokkrum árum hafi hann selt hesthús sem hann hafi átt og keypt 92 fermetra íbúð við [...] í [...] sem hann eigi nú skuldlitla. Hann viti ekki til þess að fjárhaldsmaður hans hafi komið að þeim viðskiptum. Þá kemur fram að sóknaraðili og áðurnefnd D hafi búið saman um margra ára skeið og verið um tíma í hjónabandi. D sé 73 ára og kveðst hún hafa fengið heilablóðfall fyrir nokkru en náð sér að mestu. Hún sjái um húsverk og veiti sóknaraðila aðstoð. Á heimilinu búi einnig sonur D sem hafi slasast illa í umferðarslysi 16 ára gamall og sé öryrki. Hann greiði til heimilisins. D kveðst aðspurð af lækninum aldrei hafa sótt um umönnunarbætur fyrir að annast son sinn og sóknaraðila. Í vottorðinu kemur einnig fram að sóknaraðila verði tíðrætt um fjárhaldsmenn sína og störf þeirra gegnum tíðina. Honum finnist þeir hafa hlunnfarið sig og jafnvel haft af sér fé. Honum hafi verið skammtaðir smánarlegir vasapeningar en þegar fjárhaldsmenn hafi látið af störfum hafi lítið eða ekkert verið eftir á bankabókum hans þrátt fyrir sæmileg laun í mörg ár. Nýlega hafi staðið til að útvega honum nýjan fjárhaldsmann og hafi það orðið honum hvati til að reyna að endurheimta fjárræði sitt því hann hafi fengið nóg af afskiptasemi þeirra.
Í vottorðinu er því lýst að sóknaraðili virðist svolítið óöruggur, spenntur og bernskur og fram komi hamlaður þroski hans á sumum sviðum. Hann eigi stundum erfitt með að tjá sig ítarlega um sum málefni. Hann komi þó eðlilega fyrir hvað varðar lundarfar, skapgerð og geðslag. Hann virðist í góðu andlegu jafnvægi og ekki komi fram nein einkenni geðraskana. Kveðst læknirinn hafa sérstaklega reynt að fá fram einkenni geðraskana sem gætu dregið úr hæfni manns til að ráða högum sínum, t.d. í fjármálum. Ekki hafi verið neinar vísbendingar um slíkt. Þá kemur fram að sóknaraðili hafi láti af neyslu áfengis og staðfesti áðurnefnd D það.
Í niðurlagi vottorðsins kemur fram að þegar metin séu þau rök er fram komi í gögnum um fjárræðissviptingu sóknaraðila árið 1992 þá eigi þau ekki við í dag. Sóknaraðili sé ekki með almenna greindarskerðingu heldur sé hann misþroska með skerðingu á ákveðnum sviðum. Þá eigi hann ekki við áfengisvanda að stríða. Ekkert liggi fyrir sem bendi til að vankunnátta í reikningi valdi því að sóknaraðili sé ófær um að sinna fjármálum sínum. Fullyrðingar í gögnum málsins frá þessum tíma um eyðslu sóknaraðila og að vafalaust hafi einhverjir nýtt sér greindarskort hans til að hafa af honum fé séu almennar og óljósar. Ekki sé að finna í gögnum málsins dæmi um það hvernig sóknaraðili eigi að hafa verið prettaður í viðskiptum. Niðurstaða læknisins er sú að ekki séu læknisfræðileg rök fyrir því að sóknaraðili verði áfram sviptur fjárræði sínu. Önnur fræðileg rök, svo sem sálfræðileg, styðji ekki sviptingu heldur. Almennar fullyrðingar sem látnar hafi verið falla um sóknaraðila fyrir um tveimur áratugum og verið notaðar til að rökstyðja fjárræðissviptingu séu óstaðfestar, ekki byggðar á gögnum og að hluta til séu þær í mótsögn við staðreyndir málsins. Að lokum tekur læknirinn undir þau sjónarmið sem færð voru fram í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. desember 1997 um að lögræðissvipting sé þungbær skerðing mannréttinda sem ekki megi vara lengur en brýnar ástæður krefjist. Ástæður fjárræðissviptingar séu ekki lengur fyrir hendi, hvorki brýnar né aðrar. Mælir læknirinn því með því að fallist verði á kröfu sóknaraðila um niðurfellingu fjárræðissviptingar.
Með heimild í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 71/1997 aflaði dómari einnig vottorðs E geðlæknis og er það dagsett 14. júlí 2015. Fram kemur í vottorðinu að læknirinn hafi hitt sóknaraðila á læknastofu sinni og þá hafi hann einnig rætt við D sem búi með fötluðum syni sínum í íbúð sóknaraðila. Í vottorðinu er gerð grein fyrir líkamlegri heilsu og félagslegum aðstæðum sóknaraðila. Í vottorðinu kemur fram að sóknaraðili lýsi því að honum líði betur að koma ekkert nálægt peningamálum. Hann treysti D fyrir peningamálum sínum og daglegum rekstri. Þá kemur fram að sóknaðili segi D hafa verið hvatamann að málarekstri þeim sem þetta mál grundvallist á. Hann kveðst í viðtalinu ekki vita hvað hann skuldi í dag. Hann fái 160.000 krónur frá lífeyrissjóði og um 60.000 krónur frá almannatryggingum um hver mánaðamót. Hann kveðst ekki vita hvað hann eigi eftir þegar hann sé búinn að borga skyldur. Giskar á að það sé um 50.000 til 60.000 krónur að hámarki. Þá kveðst hann vera viss um að hann borgi um 60.000 krónur í hússjóð. Hann fylgist þó ekki með þessu og undirstrikar að hann sé ánægður með að D sjái um þetta. Hann kveðst hafa misst fjárræði sitt fyrir tilstuðlan bræðra sinna. Segist helst vilja fá frið fyrir þessu fólki og vilji helst forðast það. Þá kemur fram að hann muni ekki hvort búið sé að skipta eignum eftir foreldra hans eða hvenær þau létust. Jafnframt kemur fram að sóknaraðili sé seinlæs og stauti sig hægt fram úr einföldum setningum og gefist síðan upp við það. Þegar hann sé spurður hvað hann fengi mikið tilbaka ef hann ætlaði að kaupa fyrir 25 krónur og greiddi með 100 krónum þá telji hann á fingrum sér og segi síðan 60 til 80 krónur. Þegar hann sé beðinn um að draga 7 frá 100 geti hann það ekki og kveðst ekkert vera fyrir svona. Hann segist þurfa aðstoð með peninga og umsjón með heimilishaldi og leggi áherslu á að D sjái um það.
Samantekið segir í vottorðinu að sóknaraðili sé með lága greind. Hann hafi ungur farið að misnota áfengi og farið þá illa með fé og nefni sóknaraðili sjálfur dæmi um slíkt í viðtali. Hann kveðst vera hættur að drekka en hverfi enn út af heimilinu án þess að skila sér tilbaka. Kemur fram í vottorðinu að það hafi gerst síðast fyrir tveimur mánuðum. Hegðun hans sé þannig á köflum nokkuð hvatvís og óútreiknanleg. Hann hafi að lokinni skólagöngu starfað hjá Reykjavíkurborg en sé nú á örorku í kjölfar hjartaaðgerðar. Sóknaraðili greini svo frá að hann eigi íbúð sem sé að verðmæti 20.000.000 til 30.000.000 króna en veit ekki um skuldir og getur ekki gert glögga grein fyrir útgjöldum. Þá sé hann ófær um einfalda útreikninga og hann sé sein- og torlæs. Hann treysti á að D sjái um mál hans. Sóknaraðili virki leiðitamur í viðtali og virðist auðvelt að nota einfeldni hans til að koma fram málum eða skoðunum ef annarra nyti ekki við. Er álit læknisins að andlegt atgervi sóknaraðila sé í grunninn óbreytt frá því sem áður var og geta hans til að sjá einn og sjálfstætt um sín fjármál jafnskert og áður.
III
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að hann hafi verið sviptur fjárræði allar götur síðan árið 1992. Kröfu sína nú um að fjárræðissviptingin verði felld úr gildi byggir varnaraðili á því að sviptingarinnar sé ekki lengur þörf. Hann geti vel „ákveðið um sín fjármál sjálfur og hann hafi skýrar hugmyndir um hvernig hann vilji koma sínum málum fyrir“. Engin þörf sé á því að honum sé skipaður sérstakur fjárhaldsmaður.
Sóknaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Kvað hann enga þörf vera á því að hann væri fjárræðissviptur. Hann gæti vel séð um sín mál sjálfur og miklu máli skipti fyrir hann að standa í skilum. Kvaðst hann vera með alla reikninga í greiðsluþjónustu. Hann væri þó óviss um hvað hann væri með í tekjur úr lífeyrissjóði og úr almannatryggingum. Þá færi hann sparlega með fé. Jafnframt kvaðst hann hafa góðan stuðning af D sem byggi á heimili hans og sæi um heimilið og fjármálin líka. Kvaðst hann treysta henni fyrir fjármálum sínum. Kvað hann þau hafa gifst á sínum tíma til að halda utan um þessi mál en fjárhaldsmaður hans hafi „eyðilagt það allt“ á sínum tíma. Kvað hann D leggja til reksturs heimilisins og einnig borgaði hún rafmagnið. Þannig greiddi hún til hans leigu.
Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila og krefst þess að henni verði hafnað. Af hans hálfu er því haldið fram að sóknaraðili sé enn ófær um að ráða sjálfur fjármálum sínum og gæta fjárhagslegra hagsmuna sinna. Geta hans hvað það varði hafi ekki breyst. Þá væri hætta á því vegna andlegra annmarka sóknaraðila að aðrir notfærðu sér einfeldni hans og að hann yrði af þeim sökum hafður að féþúfu.
Varnaraðili kom fyrir dóminn. Kvaðst hann mótfallinn beiðni sóknaraðila vegna andlegra annmarka hans og vegna samskipta sóknaraðila við D og áhrifa hennar á fjármál sóknaraðila í gegnum tíðina. Útilokað væri að hún gæti séð um fjármál hans.
Dóttir varnaraðila, F, kom einnig fyrir dóminn. Í máli hennar kom fram að afi hennar og amma, foreldrar málsaðila, hefðu ávallt haft miklar áhyggjur af sóknaraðila. Sóknaraðili hafi aldrei getað farið vel með peninga og það hafi þurft að hafa stjórn á fjármálum hans. Hún hafi því, eins og faðir sinn, áhyggjur verði honum veitt fjárræði sitt að nýju. Staða sóknaraðila hafi ekkert breyst frá því sem var. Dró hún í efa að það gæti staðist að amma hennar hefði beðið D um að sjá um fjármál sóknaraðila.
Geðlæknarnir C og E gáfu símaskýrslu fyrir dóminum, staðfestu vottorð sín og svöruðu spurningum um efni þeirra og hagi sóknaraðila. Fram kom m.a. í máli C að honum hefði virst fjármál sóknaraðila vera í nokkuð föstum skorðum og að svo hefði verið undanfarin ár. Hann hefði ekki getað séð annað en að samskipti milli sóknaraðila og D væru góð og sóknaraðili bæri traust til hennar. Aðspurður kvaðst hann líta svo á að sóknaraðili gæti séð um fjármál sín með ráðgjöf og stuðningi. Hann væri ekki verr til þess fallinn en hver annar. Þá gæti lélegur skilningur á fjármálum, tölum og fjárhæðum, ekki einn og sér réttlætt fjárræðissviptingu. Fram kom í máli E að hann styddi ekki niðurfellingu fjárræðissviptingar. Andleg færni og geta sóknaraðila væri ekki breytt frá því sem áður var. Ljóst væri að hann reiddi sig alfarið á D og bæri traust til hennar. Hún virtist sjá um alla umsýslu hans mála og taka allar ákvarðanir. Aðspurður kvað hann getu sóknaraðila á sviði fjármála vera takmarkaða, hann hefði t.d. takmarkaðan skilning á fjárhæðum og hvað væri eðlilegt endurgjald í viðskiptum.
Núverandi fjárhaldsmaður sóknaraðila, G, gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Fram kom í máli hennar að samskipti við sóknaraðila og D hafi gengið illa. Svo virtist sem D væri mjög ósátt við að sóknaraðili hefði fjárhaldsmann. Hún hafi óskað eftir því að sóknaraðili fengi síma en D hafi talið það óþarft þar sem allt færi hvort sem er í gegnum hana. Þá hefði verið erfitt að ná tali af sóknaraðila og öll samskipti við hann hafi farið í gegnum D. Hún hafi reynt að fá þau á fund í mars sl. til að fara yfir fjármál sóknaraðila sem ekki hafi orðið af. Þá hafi henni borist erindi frá viðskiptabanka sóknaraðila um að D hafi reynt að taka út af reikningi sóknaraðila en að henni hafi verið sagt að hún þyrfti að hafa prókúru á reikninginn. Skömmu síðar hafi beiðni sóknaraðila um niðurfellingu fjárræðissviptingarinnar komið fram.
Þá gaf D einnig skýrslu fyrir dóminum. Fram kom í máli hennar að móðir sóknaraðila hefði beðið sig um að hugsa um sóknaraðila. Hún væri eiginlega „ráðskona“ á heimilinu. Hún kvað sóknaraðila í gegnum tíðina hafa verið hlunnfarinn af fyrri fjárhaldsmönnum. Hún hafi haft aðgang að reikningi sóknaraðila þar til fjárhaldsmaðurinn hafi látið loka fyrir það. Kveðst hún ekki vita hvaða heimild fjárhaldsmaðurinn hafi haft til þess. Fengi sóknaraðili fjárræði sitt að nýju myndi hún aðstoða hann með hans fjármál eins og hún hefði alla tíð gert.
IV
Dómurinn telur að í ljós hafi verið leitt með vottorðum og vætti geðlæknanna C og E að sóknaraðili hafi hamlaðan þroska á sumum sviðum og lága greind en að hann sé í góðu andlegu jafnvægi og að ekki hafi komið fram hjá honum nein einkenni geðraskana. Niðurstaða C geðlæknis er sú að sóknaraðili sé fær um að gæta fjárhagslegra hagsmuna sinna og mælir hann með því að fallist verði á kröfu hans um niðurfellingu fjárræðissviptingar. Niðurstaða E geðlæknis er á hinn bóginn sú að geta sóknaraðila til að sjá einn og sjálfstætt um fjármál sín sé jafn skert og áður og lýst er í gögnum frá því er fjallað var um beiðni hans um niðurfellingu árið 1997 og styður hann ekki að fjárræðissviptingin verði felld úr gildi.
Við úrlausn málsins verður að hafa í huga að þegar metið er hvort fjárræðissviptingar sé þörf er ekki nauðsynlegt að hinn svipti sé algjörlega ófær um að ráða fé sínu en þó er gerð sú krafa að um verulegt frávik frá eðlilegu ástandi sé að ræða. Þá verður einnig við þetta mat að horfa til þeirra verndarsjónarmiða gagnvart hinum svipta sem lögræðislög gera ráð fyrir. Þessi sjónarmið lúta m.a. að því hvort hætta sé á að hinn svipti verði hlunnfarinn eða líkur séu á að samferðamenn hans notfæri sér veikleika hans eða andlega annmarka í því skyni að hafa af honum fé.
Aðspurðir kváðu geðlæknarnir tveir, er áður er getið, að ávallt væri hætta á að einstaklingar eins og sóknaraðili gætu orðið leiksoppur annarra í fjármálum. Taldi C þó að ekkert í aðstæðum eða fari sóknaraðila leiddi til þess að hann væri líklegri en aðrir til að lenda í slíku. E taldi sóknaraðila á hinn bóginn vera leiðitaman gagnvart þeim sem hann treysti og í slíkum tilvikum væri auðveldlega hægt að blekkja hann og hafa áhrif á hann.
Í málinu liggur fyrir að núverandi fjárhaldsmaður sóknaraðila hefur lýst erfiðum samskiptum við D sem býr á heimili sóknaraðila ásamt syni sínum. Virðist sem öll samskipti fjárhaldsmannsins við sóknaraðila fari fram í gegnum nefnda D og með vitund hennar. Hafi D til að mynda hafnað því að sóknaraðili hefði síma svo fjárhaldsmaður gæti rætt við hann og boðað hann til funda. Þá liggur fyrir að fjárhaldsmaðurinn óskaði í mars sl. eftir því að þjónustumiðstöð [...] kannaði félagslegar aðstæður sóknaraðila og að hún hefur verið í samskiptum við banka sóknaraðila vegna áðurnefndra D.
Í tilviki sóknaraðila verður að telja að þrátt fyrir góðan vilja þurfi hann leiðsögn og aðstoð varðandi fjárhagsmálefni og hann sé því ekki fær um að hafa einn stjórn á fjármálum sínum. Virðist hann að nokkru gera sér grein fyrir því sjálfur. Þá verður að telja að aðstæður hans og andlegt atgervi sé með þeim hætti að hann geti hæglega orðið leiksoppur annarra í fjárhagslegu tilliti og draga verður í efa að hann geti sjálfur tekið stórar og mikilvægar ákvarðanir er varða fjármál. Þá verður að telja ákveðinn vafa leika á því að hann hafi nægan skilning á fjármálalegum gerningum, fjárhæðum og öðru slíku, t.d. varðandi kaup og sölu og hvað sé eðlilegt endurgjald í slíkum viðskiptum. Fá þessar ályktanir stoð í vottorði E geðlæknis.
Að mati dómsins hefur samkvæmt ofangreindu ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að aðstæður sóknaraðila séu nú aðrar og svo breyttar, frá því að fjárræðissvipting átti sér stað og síðar er kröfu sóknaraðila var hafnað um niðurfellingu hennar, að unnt sé að fallast á kröfu hans um niðurfellingu fjárræðissviptingarinnar nú. Þykir ekki breyta í þessu sambandi þótt sóknaraðili hafi dregið úr áfengisneyslu. Verður að telja að það sé sóknaraðila fyrir bestu, nú eins og áður, að hafa ábyrgan fjárhaldsmann til að gæta fjárhagslegra hagsmuna sinna. Þykir ekki breyta í þessu samhengi þótt sóknaraðili treysti D fyrir fjármálum sínum og hún hafi að nokkru leyti séð um þau mál fyrir hann. Er um þetta einnig vísað til þeirra sjónarmiða sem fram koma í forsendum dóms Hæstaréttar í máli sóknaraðila nr. 523/1997 frá 6. febrúar 1998. Eru þá einnig höfð í huga og til leiðsagnar áðurnefnd verndarsjónarmið lögræðislaga. Verður því að telja að enn sé svo komið fyrir sóknaraðila að hann geti ekki vegna andlegra annmarka sinna ráðið fé sínu sjálfur, sbr. a-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 71/1997, og hefur ekki verið sýnt fram á að aðstæður hans hafi breyst frá því hann var sviptur fjárræði með úrskurði 3. desember 1992, sbr. 3. mgr. 15. gr. sömu laga. Í ljósi alls framangreinds telur dómurinn því varhugavert að fallast á kröfu sóknaraðila um niðurfellingu fjárræðissviptingar hans og er því óhjákvæmilegt að hafna kröfu hans.
Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Við ákvörðun þóknunar er tekið tillit til virðisaukaskatts.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, kt. [...], um að fjárræðissvipting hans sem ákveðin var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 1992 verði felld úr gildi og skal hún standa óhögguð.
Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl., og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 180.000 krónur til hvors þeirra.